Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Kjaramál

Er nóg til?

Ríkasti maður heims um næstliðin aldamót John D. Rockefeller var spurður að því af blaðamanni á sjötugsafmælinu sínu hvað hann þyrfti mikið meira til að hafa nóg. Rockefeller svaraði. Bara örlítið meira "Just a little bit more" 

Forseti ASÍ telur hinsvegar að nóg sé til svo auka megi millifærslur og hækka hverskyns styrki í þjóðfélaginu jafnvel þó ríkissjóður sé rekinn með umtalsverðum halla og við séum fjarri því að vera ríkust í heiminum eins og Rokcefeller var. 

Forseti ASÍ dansar ekki ein þennan dans ímyndunarinnar. Forustumenn allra stjórnmálaflokka dansa með henni í aðdraganda kosninganna. Fréttastofu RÚV hefur auk heldur verið með fastan þátt í hverjum fréttatíma í rúm 12 ár sem gæti heitið ég eða við eigum svo bágt að stórauka verður framlög ríkisins til mín eða okkar. Sérkennilegt ef nóg er til.

Af hverju er ekki hægt að ráðast í mörg brýn verkefni fyrst nóg er til. Já og hvers vegna er ríkissjóður rekinn með hundraða milljarða halla ef nóg er til. 

Getur verið að svo sé komið fyrir íslensku stjórnmálastéttinni og fréttaelítunni sem og verkalýðshreyfingunni, að þeir hópar séu ófærir um að taka á málum eða tala um þau út frá öðrum viðmiðunum en raunveruleikaheimi Lísu í Undralandi. 

 


Einkaframtakið og pólitíkin

Í aðdraganda kosninga fjölgar skoðanakönnunum, sem kanna fylgi stjórnmálaflokka almennt og fylgi þeirra meðal einstakra starfsstétta.

Í Fréttablaðinu var gerð grein fyrir einni þar sem sagt var að fylgi fólks í einkageiranum við Sjálfstæðisflokkinn væri 29%. Það er umfram almennt fylgi flokksins, en er slæm niðurstaða fyrir flokk, sem telur sig málssvara einstaklingsframtaksins og er nánast einn um þær áherslur í íslenskri pólitík, að  71% einyrkja og annarra í einkaframtakinu, skuli ætla að kjósa annan flokk. 

Svarhlutfall í könnuninni var um 52% svipað og í öðrum könnunum um þessar mundir, þannig að þær gefa einungis vísbendingar en eru ekki að fullu marktækar.

Samt er það áhyggjuefni fyrir flokk sem var stofnaður til og hefur alla tíð talið sig sérstakan málsvara einkaframtaksins að hafa ekki meira fylgi í þeim hópi. 

Sú vísbending sem þessi skoðanakönnun gefur ætti að leiða til þess, að forusta flokksins gaumgæfi hvað veldur því að fylgi flokksins er ekki meira meðal þeirra sem fá ekki launin sín greidd án nokkurra vandkvæða um hver mánaðarmót, en þurfa sjálf að afla allra sinna tekna vegna þess að það er engin sem gerir það fyrir þau og velferðin nær ekki til þeirra. Bjáti eitthvað á hjá þeim hópi, þá eru þau mun verr sett en almennt launafólk.

Af sanngirnisástæðum ætti flokkur hins frjálsa framtaks líka að gæta að því, hvort að velferðarstefna undanfarinna ára og Kóvíd fjárausturinn s.l. eitt og hálft ár til sumra, hafi leitt til þess, að margir sjálfstæðir atvinnurekendur telji sig bera áberandi skarðan hlut frá borði og þurfi að sæta öryggisleysi á ýmsum sviðum sem aðrir borgarar þjóðfélagsgins gera ekki. 


Kolefnissporið

Á fréttastöðinni Al Jaseera var viðtal við páfa réttrúnaðar loftslagskirkjunnar Al Gore. Hann hafði þá sögu að segja, að allt væri að fara til fjandans (raunar einn ganginn enn) Ísinn í Norðurhöfum og Suðurhöfum væri óðum að hverfa, hundruð milljóna fólks væru flóttafólk vegna loftslagshlýnunar og uppblástur og eyðilegging blasti allsstaðar við auk þess sem hitinn færi stöðugt hækkandi á jörðinni vegna þess kolefnisspors sem alþýða manna stigi með atferli sínu. 

Einhvern veginn þá ríma þessar upplýsingar Al Gore ekki við raunveruleikann sem blasir við. Allt sem hann heldur fram er rangt. Auk þess sem það hefur ekkert hlýnað sem heitið getur frá aldamótum eins og Ágúst Bjarnason hefur bent skilmerkilega á. En Katrín Jakobsdóttir, sem norpar hér í 7 gráðu hita eða þaðan af minna trúir hverju einasta orði og hún og flokkur hennar, sem er innvígður í samfélag heilagra í loftslagsmálum, hefur knúið fram miklar greiðslur til réttrúnaðarkirkju Al Gore og sértök aukaframlög frá skattgreiðendum á Íslandi upp á milljarða. 

Í reikningum bílaleiga á Spáni er áskilið, að reiknað sé kolefnisspor sem hver leigjandi skilur eftir sig með akstri. Allt er það liður í áróðursstríði réttrúnaðarkirkjunnar til að fólk verði sakbitið yfir þessari sóun. Þeir sem fordæma eru fólk eins og Al Gore, Karl Bretaprins, Emma Thopmson leikkona og margir aðrir sem láta það þó eftir sér að ferðast um á einkaþotum og skilja eftir sig kolefnisspor sem nemur væntanlega því sama og öll umferð bifreiða á Íslandi. 

En í þessu efni er ekki það sama Jón og sr. Jón. Alþýðan á að blæða með hærra vöruverði og auknum sköttum á meðan yfirstétt auðfólks,sem borgar hlutfallslega miklu minni skatta hamast við að troða því inn hjá almenningi að það verði að sætta sig við skert lífskjör vegna þessara trúarbragða. 

Þessi falskenning er jafn fráleit og sú, sem sett var fram í upphafi síðustu aldar, að ekki yrði hægt að fara um New York vegna þess aða borgin yrði fljótlega full af hrossaskít og ekkert yrði við ráðið.

 

 


Flokkur og frambjóðendur

Ungt fólk í Sjálfstæðisflokknum knúði á sínum tíma fram breytingar á reglum Flokksins um val á frambjóðendum. Í stað þess að sérvaldar kjörnefndir stilltu upp fólki, áttu flokksmenn og jafnvel allir kost á því að kjósa milli þeirra sem gáfu kost á sér.

Þó hvert kerfi hafi til síns ágætis nokkuð, þá verður öðru hverju að breyta til vegna þess að kerfi hafa tilhneigingu til að staðna. Þannig er það líka með prófkjörin.  Prófkjör gagnast vel þegar kosið er á milli einstaklinga, en síður þegar raða á upp á framboðslista. 

Verkefni kjörnefnda hér áður fyrr var að gæta þess, að fá stjórnmálafólk sem var forustufólk á sínu sviði og naut álits og vinsælda í framboð.

Á þeim tíma mátti jafnan sjá á framboðslistum Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík forustufólk í viðskitpalífi, verkalýðshreyfingu og ýmsum félagssamtökum. Á þeim tíma naut  Sjálfstæðisflokkurinn iðulega ríflega 40% fylgis Reykvíkinga.  

Á það hefur skort undanfarna áratugi, að Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík bæri gæfu til þess í gegnum prófkjör að fá framboðslista, sem spegla þann vilja að Sjálfstæðisflokkurinn sé flokkur allra stétta og í húsi hans séu margar vistarverur eins og Jóhann Hafstein fyrrverandi formaður Flokksins orðaði það svo snilldarlega á sínum tíma einmitt þegar þörf var á.

Þannig hafa forustumenn í viðskiptalífi, félagasamtökum og verkalýðshreyfingu nánast horfið af listum Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík til verulegs skaða fyrir Flokkinn, sem með því hefur orðið einsleitari en æskilegt hefði verið.

Ástæðan er ekki síst sú, að slíkt fólk telur sig hafa annað og betra við tímann að gera en að taka þátt í vinsældakosningu innan flokks með ærnum tilkostnaði, hvað þá þegar Flokkurinn hefur að hluta greinst upp í framboðsfylkingar. 

Samt sem áður hefur á stundum verið hægt að fá fólk til að gefa kost á sér í prófkjöri, sem gegnir forustustörfum og hefur mikilvægan pólitískan boðskap fram að færa. Ingibjörg Sverrisdóttir formaður félags aldraðra í Reykjavík er dæmi um það í prófkjörinu sem fram fer fram 4. og 5. júní n.k. 

Ingibjörg sameinar þá tvo kosti, að hafa haft mikil afskipti af verkalýðsbaráttunni á árum áður og vera nú forustumaður aldraðra í Reykjavík. 

Sjálfstæðisflokkurinn þarf á því að halda, að fá aftur þingmann, sem er í senn, forustumaður í félagsmálum og hefur gegnt forustustarfi í verkalýðshreyfingunni. Þau viðrhorf og sjónarmið hafa ekki hljómað eins sterkt og nauðsynlegt er á vettvangi Flokksins undanfarin ár. 

Ingibjörg er hugsjónakona í stjórnmálum og ekki háð neinum peningalegum hagsmunaöflum. Hún hefur tekið sér stöðu í baráttunni fyrir vekafólk og aldraða auk þess, sem hún er baráttukona fyrir frjálsu og fullvalda Íslandi. Það eru hagsmunir Sjálfstæðisflokksins, að kjósendur í prófkjöri Flokksins 4-5.júní n.k. velji Ingibjörgu til forustustarfa og ég vona að kjósendur í prófkjörinu hafi það í huga þegar þeir greiða atkvæði. 


Sigur á fátækt

Forseti alþýðulýðveldisins Kína, Xi Jinping, lýsti því yfir í morgun að sigur hefði unnist gegn algjörri fátækt í Kína. Þetta er merkileg yfirlýsing. 

Fyrir rúmum tveim áratugum tók kommnúistaríkið Kína upp kapítalískt eða markaðstengt kerfi að mestu leyti. Á þeim tíma hefur velmegun aukist. Sennilega eru fleiri ofurríkir einstaklingar í Kína en nokkru öðru ríki heims, millistétt í borgum Kína hefur styrkst efnalega mjög mikið og nú hefur tekist að útrýma algjörri fátækt að sögn forsetans.

Sigur kommúnistanna í Kína á algjörri fátækt er sigur markaðshagkerfisins, sem hefur náð að lyfta landinu frá fátækt til bjargálna.

Forsetinn talar um að sigur hefði unnist gegn algjörri fátækt. Það er sú viðmiðun sem er eðlilegust. Hér á landi og hjá þeirri stöðugt furðulegri stofnun Sameinuðu þjóðunum er hinsvegar ekki miðað við raunverulega fátækt heldur hlutfallslega. Sigur getur aldrei unnist á hlutfallslegri fátækt. Þessvegna getur Inga Sælandi og aðrir af slíku sauðahúsi endalaust bullukollast um fátækt út frá slíkum ruglanda. 

Hlutfallsleg fátækt er ekki spurning um fátækt heldur tekjuskiptingu. Þannig getur verið meiri hlutfallsleg fátækt í Noregi en í Serbíu svo dæmi sé tekið, þrátt fyrir að meðaltekjur þeirra sem hafa það lakast í Noregi séu mörgum sinnum hærri en í Serbíu. En þetta er sú viðmiðun sem talað er um hér og þegar síðast var rætt um málið á Alþingi þá var notast við þessa viðmiðun og samkvæmt henni áttu þá tug þúsund barna að búa við fátækt hér á landi, sem er rangt miðað við alþjóðlegar viðmiðanir um raunverulega fátækt. 

Æskilegt væri, að rannsakað yrði hverjir búa við raunverulega fátækt og snúið sér að því að koma öllum þeim sem búa við raunverulaga fátækt frá þeim lífskjörum til bjargálna, þannig að við getum státað að því þegar kemur að næstu kosningum eins og Alþýðulýðveldið Kína að hafa lyft öllum borgurum þessa lands frá raunverulegri fátækt. 


Sofnað á verðinum

Fyrir nokkru greindi umboðsmaður Alþingis Tryggvi Gunnarsson frá því, að honum hefði ekki tekist að ljúka rannsókn á lögmæti gjaldtöku af almenningi og fyrirtækjum, sem stofnað var til fyrir 24 árum, en meginhluta þess tíma hefur Tryggvi Gunnarsson gegnt embætti umboðsmanns Alþingis.

Hlutverk umboðsmanns skv. lögum nr. 85/1997 er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum þessum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Rannsókn á gjaldtöku hins opinbera af Alþingi er því atriði, sem fellur undir starfssvið hans skv. lögum um umboðsmann Alþingis.

Spurning um hvort gjaldtaka af almenningi og fyrirtækjum vegna þjónustu er mikilvæg spurning fyrir neytendur og eðlilegt hefði verið að umboðsmaður hefði sett það mál í forgang þannig að rannsókninni hefði þá lokið fyrir eða um síðustu aldamót fyrir 20 árum síðan, þá hefði rannsóknin tekið 4 ár sem hefði átt að vera kappnógur tími til að ljúka slíkri rannsókn. 

Nú 24 árum síðar kemur umboðsmaður og segir að ekkert verði gert frekar varðandi rannsóknina. Hún fellur niður vegna þess sleifarlags sem hefur verið á embættisfærslu umboðsmannsins s.l. 24 ár hvað þetta varðar. Þær afsakanir sem færðar eru fram af umboðsmanni varðandi þessa óboðlegu embættisfærslu eru satt að segja ótrúverðugar og standast ekki skoðun sé rýnt í það hvað og hvernig embættið hefur starfað þann tíma. 

Þetta mál varðar allan almenning og hagsmuni hans og hefði átt að vera forgangsmál, en hefur stöðugt verði sett neðst í bunkann, þar sem að umboðsmaður hefur iðulega opnað frumkvæðismál og unnið þau á methraða einkum ef þau gátu verið  til vinsælda fallið. 

Mér finnst sem talsmanni neytenda um árabil óviðunandi að rannsókn sem varðar allan almenning skuli ekki fást unnin vegna þess, að umboðsmaður telur að spurningin um réttmæti gjaldtöku af almenningi sé ekki svo mikilvæg að unnið sé að henni og rannsókninni lokið innan viðunandi tímamarka.

Þegar embætti umboðsmanns Alþingis tekst ekki á 24 árum að ljúka efnislegri rannsókn á mikilvægu máli sem varðar allan almenning og hugsanlega ólögmæta gjaldtöku af fólkinu í landinu þá er greinilega eitthvað að. Það sýnist því einboðið, að stofnunin sem kýs umboðsmanninn, Alþingi, láti þetta mál til sín taka og í því sambandi er eðlilegt að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis láti framkvæma stjórnsýsluendurskoðun á embætti umboðsmanns Alþingis. Minna getur það ekki verið. 


Launahækkanir ábyrgðarleysi hvers

Morgunblaðið bendir réttilega á það í leiðara, að engin innistæða er fyrir launahækkunum sem hafa orðið á íslenskum vinnumarkaði í djúpri kreppu. En hvað veldur?

Þeir sem leiða launahækkanirnar og hafa gert allt þetta kjörtímabil eru stjórnmálamenn, sem létu hækka laun sín af vinum sínum í Kjararáði um leið og þeir settust í valdastóla eftir kosningar. Sú launahækkun var órökstudd og röng og það var þá þegar fyrirséð, að tæki Alþingi og ríkisstjórn ekki á því, þá mundu verða keðjuverkanir á launamarkaðnum eða höfrungahlaup eins og fjármálaráðherra kallar það. 

Sú hefur líka orðið raunin og órói hefur verið á vinnumarkaðnum allt frá þessari sjálftöku stjórnmálastéttarinnar og æðstu embættismanna ríkisins. Aðeins einn þingmaður reyndi að andæfa, en ekki var hlustað á hann og hann er því miður þagnaður.

Þegar Morgunblaðið bendir réttilega á að sú launaþróun sem orðið hefur í landinu stenst ekki miðað við aðrar þjóðhagsstærðir, þá þarf fyrst að beina athyglinni að þeim sem tróna á toppnum og eru með starfskjör, sem eru langt umfram það sem almenni vinnumarkaðurinn getur boðið eða staðið undir. 

Það er því fyrst og fremst við ábyrgðarlausa ríkisstjórn og stjórnmálasétt að sakast. Þjóðfélagið lifir ekki endalaust á seðlaprentun og gjafapökkum frá ríkisstjórninni á kostnað framtíðarinnar.  


Getur enginn neitt nema Ríkið?

Ríkisbáknið hefur vaxið öruggum og hröðum skrefum. Mikil hækkun á launum alþingismanna, ráðherra og æðstu embættismanna ríkisins í upphafi kjörtímabilsins hafa leitt launaþróun, sem engin innistæða var fyrir og það var fyrirséð, eftir að gírugur ráðamenn vildu engu sleppa af feng sínum. 

Ríkissjóður var rekinn með verulegum halla 2019 í mesta góðæri sem við höfum fengið. Nú er fyrirséð, að tekjur ríkisins muni dragast verulega saman. Þrátt fyrir það hefur fjármálaráðherra mótað þá efnahagsstefnu, að ekki skuli skera niður í ríkisfjármálum og ráðist skuli í auknar fjárfestingar hin opinbera að því er sagt er, til að verja störf. 

Sú var tíðin, að Sjálfstæðisflokkurinn boðaði, að nauðsyn bæri til að minnka umsvif ríkisins og lækka skatta. Með því yrðu þau öfl leyst úr læðingi, sem mundu stuðla að aukinni nýsköpun,  framkvæmdavilja og aukinni arpðsköpun. Við það mundu ný störf verða til og tekjur ríkissjóðs aukast. Ungir sjálfstæðismenn leiddu baráttuna undir vígorðinu "Báknið burt."

Stefnumótun fjármálaráðherra nú sýnir að það hefur orðið 180 gráðu stefnubreyting hjá Sjálfstæðisflokknum, Talið er vænlegast til árangurs og varnar gegn þjóðarvá að stækka ríkisbáknið hlutfallslega með því að spara ekkert og með auknum fjárfestingum hins opinbera, en með þeim hætti verði störfin varin. 

Samkvæmt hefðbundinni borgaralegri hagfræði þýðir þessi stefna, gríðarlegan hallarekstur ríkssjóðs og þar sem ekki á að lækka skatta þrátt fyrir efnahagsáföll, sem bitna af mestum þunga á þeim helmingi vinnumarkaðarins, sem þarf að standa sjálfur undir launagreiðslum með því að afla tekna fyrst áður en hægt er að greiða laun verður greinilega þröngt í búi. Ef það verður þá nokkuð bú eftir annað en þrotabú. 

Hjá ríkisvaldinu í núinu er því öfugt farið og hin nýja stefna þýðir, að fyrst skuli eytt áður en teknanna er aflað. Stórfelldum halla á ríkissjóði verður þá ekki mætt nema leggja á aukna skatta á fólk og fyrirtæki nema sú auðvelda leið bráðabirgðaaðgerða verði valin, að vísa þessum vanda eyðslustefnu ríkissjóðs til framtíðarinnar. Til barna og barnabarna.

Stjórnmálastéttin hefur á fáum árum hlaðið undir sig með margvíslegum hætti og færri og færri þingmenn eru í raunverulegum tengslum við framleiðsluatvinnugreinarnar í landinu. Stjórnmálastéttin hefur á kjörtímabilinu bætt kjör sín verulega og langt umfram flestar aðrar stéttir í landinu. Þá hafa stjórnmálaflokkarnir verið á einu máli um að fjölga aðstoðarmönnum bæði þingflokka og ráðherra auk þess sem framlög til stjórnmálaflokka hafa verið margfjölduð.

Það er dapurlegt, að formaður þess stjórnmálaflokks, sem hafði það einu sinni á stefnuskrá sinni að draga úr ríkisútgjöldum, bruðli og sóun í ríkisrekstrinum en hlúa að frjálsu framtaki skuli ekki sjá neina leið til að spara ogdraga saman  m.a. með því að lækka ofurlaun íslenska stjórnunaraðalsins. Þá er slæmt, að ekki skuli  vera til í orðabók ríkisstjórnarinnnar, að lækka skatta til að stuðla að nýsköpun og fleiri störfum.

Ég sé því ekki betur, en Óli Björn Kárason undirritaður og vafalaust margt annað Sjálfstæðisfólk séum orðin eins og nátttröll í flokki, sem var flokkur einstaklingshyggjunar. Hvað sem því líður, þá er ég ekki tilbúinn til að víkja frá þeirri stefnu í pólitík, sem mótast af því. "að hver sé sinnar gæfu smiður"  og "sinna verka skuli hver njóta". Slíkt gerist ekki nema ríkisvaldið hafi sem minnst afskipti af borgurum þessa lands.  


Viðbrögð við veiru

Þegar atvinnutækifæri og þjóðarframleiðsla dregst verulega saman og ástæða er til að ætla að úr því verði ekki unnið næstu misserin er spurning hvernig auka má verðmætasköpun með sem skjótustum hætti. 

Fljótvirkasta og farsælasta leiðin er að heimila auknar fiskveiðar þegar í stað svo, fremi að markaðir séu til staðar. 

Þetta má skoða sem neyðarráðstöfun og því rétt að handhafar aflaheimilda fengju ekki þessar viðbóaaflaheimildir beint til sín heldur væri miðað við auknar krókaveiðar og viðbótin væri boðin upp á kvótamarkaði.

Byggðirnar um land allt sem kvarta nú sáran um atvinnuleysi og tekjutap ættu þá möguleika á að byggja lífsafkomuna á nýjan leik á fiskveiðum og fiskverkun í stað túrisma. Alla vega þangað til hann bankar upp á.


Gjafir eru yður gefnar

Stjórnmálamenn eru hvað ánægðastir þegar þeir birtast eins og jólaveinar til að útdeila gjöfum til kjósenda á annarra kostnað. Andlit ráðherranna sem kynntu aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar nr. 2,voru eins og sól í hádegisstað svo glöð voru þau að geta kynnt nýju gjafirnar sem ríkisstjórnin af náð sinni ætlar að gefa, vegna afleiðinga C-19

Á sama tíma og gjafir eru gefnar, sem gjafþegar fagna, og þeir eru margir, skárra væri það nú þegar rúmlega einni loðnuvertíð brúttó er sturtað út úr ríkissjóði, þá skortir á heildahyggju. 

Námsmenn hljóta að fagna því að búa eigi til 3000 ný störf í atvinnubótavinnu fyrir þá. En hvað með þá launþega á 3 tug þúsunda sem missir og hefur misst atvinnuna?

Gjafapakkar til sprotafyrirtækja, fjölmiðla, rannsóknarstarfa og margs annars sem nú eru teknir upp eiga ekkert sérstaklega við viðbrögð við þeim fordæmalausu aðstæðum sem nú eru vegna fordæmalausra aðgerða stjórnvalda hér og erlendis við heimsfarsótt.

Þó látið hafi verið í veðri vaka að ríkissjóður standi svo vel að hann geti nánast allt, þá er það ekki svo. Gæta þarf ítrustu hagkvæmni og sparnaðar og forgangsraða til þeirra sem mest þurfa á að halda og beita almennum aðgerðum í stað sértækra. 

Því miður er ekki hægt annað en að gefa þessum aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar falleinkun þar sem miklum fjármunum er ausið úr ríkissjóði án þess að forgangsraðað sé fyrir almennar aðgerir sem nýtast þeim best, sem verða fyrir þyngsta högginu vegna fjármála- og atvinnukreppunar. 

Fyrst þarf að gæta þess í kreppum að grípa til aðgerða til að vernda eignir og lágmarkslífskjör fólks. Gæta verður þess, að samræmi sé í aðgerðum og þær séu altækar en ekki sértækar eftir því sem kostur er. 

Í stað sértækra gjafapakka þarf að grípa til altækra aðgerða eins og

afnema tryggingargjaldið,

frysta afborganir skulda í ákveðinn tíma,

láta vísitöluhækkanir á lán sem eru afleiðing þessara sérstöku aðgerða ekki koma fram og

endurstilla vísitöluviðmiðunina þegar fárið er gengið yfir.

Þá ríður á að það fólk, sem starfað hefur sem verktakar á ýmsum sviðum t.d. sem leiðsögumenn o.fl. og verður fyrir algjöru tekjutapi svo og aðrir sem starfa við afleidd störf, fái bætur frá hinu opinbera sem svara til þess, sem launþegar njóta í velferðarkerfinu. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.4.): 140
  • Sl. sólarhring: 141
  • Sl. viku: 2800
  • Frá upphafi: 2508883

Annað

  • Innlit í dag: 121
  • Innlit sl. viku: 2630
  • Gestir í dag: 113
  • IP-tölur í dag: 111

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband