Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Kjaramál

Crime syndicate ltd.

Al Capone sagðist ekki bera ábyrgð á því þó fyrirtækið sem hann átti að stærstum hluta hefði gerst sekt um glæpsamlega starfsemi. Hann væri bara hluthafi og skipti sér ekki af rekstri fyrirtækisins. Al Capone var í því að selja fólki ólöglegan vökva, áfengi, á bannárunum í Bandaríkjunum. Þegar hann var sakaður um að hafa svikið undan skatti sagði Al Capone. " Það er ekki rétt það er ekki hægt að leggja skatt á ólöglegar tekjur."

Samkvæmt frumskýrslu Samkeppniseftirlitsins um sölu á öðrum vökva en áfengi þ.e. olíu kemst þessi opinberi eftirlitsaðili að þeirri niðurstöðu í frumskýrslu sinni að olíufélögin hafi stolið rúmum fjórum milljörðum af neytendum árið 2014.

Talsmenn olíufélaganna segja þetta alrangt og hafa upp orðagjálfur og röksemdir sem eru sambærileg  málflutningi þeirra fyrir tveim áratugum,  þegar flett var ofan af víðtækri svikastarfsemi og samráði þeirra. Þá var stolið milljörðum af neytendum, en ekki bara það. Húnæðislánin hækkuðu líka vegna ólögmæta samráðsins. Neytendur hafa aldrei fengið tjón sitt vegna þeirrar svikastarfsemi olíufélaganna bætt.

Nú eru eigendur olíufélaganna að stórum hluta lífeyrissjóðir. Sjóðir fólksins eins og talsmenn þeirra segja jafnan. Þessir eigendur olíufélaganna segja að þeim komi svikastarfsemi fyrirtækja sinna ekki við, af því að þeir skipti sér ekki af rekstrinum. Er það tæk skýring?

Neytendur eru neyddir til þess með nauðungarlögum að borga mestan hluta mögulegs sparnaðar síns til lífeyrissjóða. Er hald í því fyrir talsmenn lífeyrissjóðanna að segja að þeim komi ekki við þegar fyrirtæki þeirra eru að arðræna fólkið sem á lífeyrissjóðina? Fólkið sem fær engu ráðið um starfsemi þeirra en verður bara að borga.

Þegar eigendur lífeyrissjóða láta sér vel líka vegna þess að fyrirtæki skilar góðum hagnaði og skella skollaeyrum við þegar á það er bent að hagnaðurinn sé að stórum hluta vegna ólögmætrar starfsemi þá er það ekki að neinu leyti tækari röksemdir en röksemdir Al Capone fyrir tæpri öld. 

 

 


Skikka skal stúdenta til bókakaupa

Í gær var sagt frá áhyggjum Rúnars Vilhjálmssonar prófessors í félagsfræði við Háskóla Íslands vegna þess að minna en þriðji hver stúdent við Háskóla Íslands kaupir sínar námsbækur. Rúnar telur þetta óásættanlegt og hefur hvatt til samhæfðra aðgerða.

Ekki kemur fram til hvaða samhæfðu aðgerða prófessorinn vill að gripið verði. Vafalaust skortir ekki úrræðin í frjóum hugmyndabanka starfslítilla prófessora við Háskóla Íslands. Þeim kæmi e.t.v. í hug að banna þeim sem kaupa ekki nýjar bækur að taka próf. Eða gefa nemendum sem kaupa nýjar bækur 2 í forskot í einkunn og áfram mætti telja.

Prófessorinn telur að minnihluti stúdenta HÍ kaupi nýjar bækur í Bóksölu stúdenta af því að þeir séu í yfirborðsnámi og temji sér slæmar námsvenjur. Auk þess nefnir prófessorinn að minna bóklestri sé um að kenna, námslánin séu ekki nógu góð,nemendur ljósriti og stundi ólöglegt niðurhald og gangi jafnvel svo langt að kaupa notaðar bækur.

Síðan hvenær urðu notaðar bækur verri en nýjar?

Félagsfræðiprófessornum kemur ekki í hug hið augljósa varðandi minnkandi bókakaup stúdenta. Námsbækur sem stúdentum er ætlað að kaupa eru svívirðilega dýrar. Þær eru svívirðilega dýrar m.a. vegna þess að prófessorar við HÍ ætla margir að innleysa gróða af fræðiskrifum sínum sem allra fyrst á kostnað stúdenta.

Í stað þess að vandræðast með að stúdentar kaupi ekki námsbækur eftir innlenda fræðimenn á uppsprengdu verði eða erlendar námsbækur sem fást á Amason fyrir 20-30% af verðinu sem Bóksala Stúdenta krefur fyrir sömu bók, þá væri nær að prófessorinn léti sér annt um hagsmuni nemenda sinna og annarra stúdenta. Mætti t.d. auðvelda nemendum að spara í bókakaupum m.a. með því að lærifeður litu á fræðistörf sín, sem skattgreiðendur greiða hvort sem er, sem hluta af framlagi til nemenda og gæfu þeim kost á að nálgast afrakstur fræðistarfanna á netinu eða með öðrum aðgengilegum hætti í stað þess að okra á ungu fólki.

það er ekkert annað en hrósvert að háskólastúdentar skuli í vaxandi mæli leita hagkvæmra leiða til að varðveita peningana sína og láti ekki okra á sér. Það er mikill mannsbragur af því þvert á það sem prófessorinn í félagsfræði heldur fram. Vonandi er það vísbending um að við komumst út úr okursamfélagi framleiðenda og fjármálastofnana þegar þessi kynslóð sem nú er í Háskólum landsins tekur við stjórnun þessa lands.

Valdbeitingarhugmyndir prófessorsins í félagsfræði gagnvart skynsemi nemenda sinna eru hins vegar nálægt því að vera teknar úr hugmyndabanka vinsælla stjórnmálastefna fyrir miðja síðustu öld. Það ætti hann að gera sér góða grein fyrir sem prófessor í félagsfræði.


Frumkvæði Bjarna Benediktssonar

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins skrifar tímamótagrein í dag, þar sem hann setur fram hugmyndir um breytingar á stjórnarskrá.

Þau atriði sem Bjarni nefnir hefðu flest getað náð fram að ganga á þinginu 2009, ef Samfylkingunni og Vinstri grænum hefði ekki legið svo á að reyna að koma á byltingarstjórnarskrá á þeim forsendum að stjórnarskráin væri gömul og úrelt.

Stjórnarskrá lýðveldisins þjónar vel tilgangi sínum og þær breytingar sem Bjarni Benediktsson bendir á varðandi auðlindir þjóðarinnar, samninga við erlend ríki og þjóðaratkvæðagreiðslur eru þær breytingar sem er eðlilegt að ná víðtækri sátt. Þá verður góð stjórnarskrá betri.

Á sama tíma og þetta frumkvæði Bjarna Benediktssonar er kærkomið og kemur ófrjórri umræðu um breytingar á stjórnarskránni í jákvæðan farveg, þá eru alvarlegar blikur á lofti í samfélaginu sem nauðeynlegt er að bregðast við og þar skiptir máli að fólk reyni ekki að ná stundarávinningi í pólitískum tilgangi í stað þess að vinna af heilindum fyrir land og þjóð.

Það verður að ná sátt á vinnumarkað. Við höfum ekki efni á að skaða þjóðfélagið með verkföllum. Það verður að taka á bankaokrinu og sjálftökuliðinu í fjármálastofnunum og víðar í samfélaginu. Það verður að spara í ríkisrekstrinum til að lækka skatta. Það verður að vinna lausnarmiðað að málum í stað þess að þingmenn skaði sjálfa sig og virðingu stjórnmálanna með því að standa í heimskulegu karpi sí og æ oft á tíðum um keisarans skegg.

Þá reynir á vilja og virðingu fyrir því að lýðræðið er ekki bara einræði meirihlutans frekar en það eigi að vera í gíslingu minni hlutans. Óneitanlega fannst mér sá tónn sem formaður Sjálfstæðisflokksins sló með grein sinni í dag gefa tilefni til þess að fleiri slíka tóna mætti slá landi og lýð til hagsbóta ef vili er fyrir hendi.

Vilji er allt sem þarf.

 


Verðtrygging lögleg

Dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 160/2015 kveður á um það að verðtrygging neytendaláns sé ekki ólögmæt samkvæmt íslenskum rétti að teknu tilliti til þess regluverks sem við höfum samþykkt sem EES þjóð.

Þar með liggur fyrir að verðtrygging neytendalána er gild og sú ætlan margra að hægt væri að fá henni hnekkt með dómstólaleið er röng. Ég hef verið og er andvígur verðtryggðum neytendalánum  og taldi að dómstólaleiðin væri til þess fallin að draga kraft úr baráttunni fyrir breyttri löggjöf sem tæki af tvímæli um að verðtryggð neytendalán yrðu gerð ólögleg. Mér finnst samt miður að ég skyldi hafa haft rétt fyrir mér varðandi væntanlega niðurstöðu Hæstaréttar í málinu en fannst það raunar nokkuð borðleggjandi allan tímann og var gefið bágt fyrir af mörgum að hafa þá skoðun.

Ríkisstjórnin lofaði að afnema verðtryggingu af neytendalánum og nú skiptir máli að þeir sem vilja réttlátt lánakerfi á Íslandi þar sem lánakjör verða sambærileg og á hinum Norðurlöndunum einhendi sér nú í baráttu gegn óréttlátri verðtryggingu.

Í því sambandi mega neytendur ekki láta svikalognið sem verið hefur undanfarna mánuði blekkja sig. Framundan er verðbólguholskefla ef fram heldur sem horfir- Nýr forsendurbrestur. Áður en það verður skiptir öllu máli að ná fram nauðsynlegum breytingum á lánakjörum fólksins í landinu.

Okurþjóðfélagið getur ekki gengið lengur þar sem fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóðir hafa bæði axlabönd og belti í samskiptum sínum við fólkið í landinu. Það verður að koma réttlæti strax með afnámi verðtryggingar á neytendalánum þar með talið lánum til fasteignakaupa. Á því er ekki hægt að gefa afslátt.


Af stjórnarlaunum hins íslenska aðals.

Margir hafa brugðist ókvæða við samþykkt aðalfundar HB Granda um að hækka tjórnarlaun í fyrirtækinu um rúm 33% á sama tíma og launafólki sem vinnur hjá fyrirtækinu er boðið upp á rúmlega 3% hækkun launa. Fyrirtækið hefði ekki getað valið verri tíma til að hækka laun stjórnarmanna jafn myndarlega og raun ber vitni.

Prósentu- eða hundaraðstala er eitt og heildarlaun eru annað. Málið hefur verið til ítrekaðrar umræðu á Alþingi þar sem fordæmingarnar og formælingarnar hafa hrotið af vörum ýmissa helstu stjórnmálaforingja í landinu í garð stjórnarmanna HB Granda og einn af fáum verkalýðsleiðtogum  landsins sem stendur undir nafni Vilhjálmur Birgisson hefur vísað með dramatískum hætti til samlíkinga úr Íslandssögunni. Vissulega má taka undir þann hluta orðræðunnar þar sem vísað er til að þetta sé vondur tími til að hækka stjórnarlaun svo myndarlega. En er Grandi að greiða há stjórnarlaun eftir hækkunina?

Eftir því sem komið hefur fram í fjölmiðlum þá eru stjórnarmenn í Granda að fá um 200 þúsund krónur í stjórnarlaun á mánuði eftir hækkun. Í sjálfu sér myndarleg þóknun og vel í lagt greiðsla fyrir hverja unna vinnustund. Samt sem áður er þetta lág stjórnarlaun fyrir fyrirtæki af sömu stærð og mun lægri en stjórnarlaun í ýsmum opinberum og hálfopinberum fyrirtækjum.

Mér er sagt að stjórnarlaun í Seðlabankanum séu yfir milljón á mánuði auk þess sem dæmi eru um að Seðlabankin greiðsi ferðakostnað stjórnarmanna landa og heimsálfa á milli. Stjórnarlaun í Granda mundu þurfa að hækka um nokkur hundruð prósent til að ná stjórnarlaunum þeirrar ríkisstofnunar. Af hverju tala stjórnmálaleiðtogar ekki um þessa ósvinnu og atlögu gegn launafólki.

Hvað skyldu svo vera stjórnarlaun í Landsvirkjun, Orkustofnun og Landsbanka Íslands allt fyrirtæki í eigu íslenska ríkisins. Skyldu stjórnarlaun í HB Granda vera hærri eða lægri en stjórnarlaunin sem stjórnmálaleiðtogarnir í öllum flokkum hafa samið um að skuli greiða til hins íslenska aðals sem skipaður er í stjórnarsæti þessara stofnana af þingflokkunum.

Eða eins og kerlingin sagði þeir sletta skyrinu sem eiga það og kasta líka steinum úr glerhúsi. 

Hvernig er hægt að ætlast til þess að óbreytt alþýðufólk sætti sig við að fá þriðjung launa stjórnarfólks í ríkisfyrirtækinu Seðlabanka Íslands fyrir dagvinnu í heilan mánuð. Hvað skyldi munurinn á tímakaupinu vera í því tilviki í prósentum talið.


Kostakjör?

Auglýst voru kostakjör frá ákveðinni ferðaskrifstofu á ferð til erlendrar stórborgar. Óneitanlega virtust þessi kostakjör vera nokkuð kostnaðarsöm.

Auðvelt var að kanna verð á flugi til viðkomandi borgar á þeim tíma sem viðkomandi ferð var auglýst. Einnig er auðvelt að leita eftir hvað sambærilegt hótelrými mundi kosta sömu daga.

Niðurstaðan var sú að í stað þess að borga tæpar hundrað þúsund krónur fyrir einstaklinginn þá gat ég ekki betur séð en hægt væri að komast til sömu borgar á sama tíma á sambærilegum hótelum fyrir kr. 70 þúsund.  Hjón gætu því sparað sér tæpar kr. 60.000 með því að panta sjálf á netinu í stað þess að nýta þau kostakjör sem auglýst eru hjá ferðaskrifstofunni.

Nú ættu ferðaskrifstofur að geta fengið afslætti hjá flugfélögum og hóetelum vegna þess að um hópferðir er að ræða og ferðin er ákveðin fyrir ákveðinn lágmarksfjölda með töluvert löngum fyrirvara. Hvernig stendur þá á því að einstaklingurinn getur með skömmum fyrirvara fundið sambærilega ferð fyrir sig og sinn eða sína nánustu á verulega lægra verði?

Eina sem vantar upp á ferðina sem pöntuð er á netinu og kostakjaratilboð ferðaskrifstofunnar er fararstjóri, en einstaklingurinn getur bætt úr því með því að kynna sér mál á netinu.

Seljendur þurfa að gera betur en þetta og ferðamiðlari sem getur ekki boðið neytendum ferðir á betra verði en þeir geta keypt á netinu á tæpast erindi við neytendur nema til að okra á þeim.

 


Markaður og neytendur

Þar sem markaðsstarfsemin er fullkomin er samkeppnin virk og upplýsingamiðlun til neytenda með þeim hætti að þeir vita hvar er hægt að gera hagkvæmustu kaupin. Þannig er það ekki hér á landi. Fákeppni, takmörkuð samkeppni eða jafnvel engin er víða á íslensum markaði.

Þegar ríkisvaldið gerir viðamiklar skattabreytingar sem eiga að leiða til verulegra breytinga á vöruverði er mikilvægt í landi fákeppninnar að vel sé fylgst með því að verðbreytingarnar leiði ekki til verulega hærra vöruverðs. Þegar tvö núll voru tekin aftan af krónunni á sínum tíma var þess ekki gætt sem skyldi sem leiddi til þess að verð hækkaði mikið á ákveðnum vöruflokkum.

Þegar ráðherra neytendamála segir að það eigi ekkert að gera vegna skattabreytinganna og markaðurinn muni sjá um þetta þá vantar stærðir í dæmið svo að þetta virki eins og neytendamálaráðherra segir að það muni gera. Í fyrsta lagi þarf að vera virk samkeppni á markaðnum og í öðru lagi þurfa neytendur að hafa greiðan aðgang að upplýsingum um vöruverð.

Þegar hvorugu er til að dreifa þ.e. þær vörur sem eru að taka verðbreytingum eru flestar á fákeppnismarkaði og neytendur hafa ekki nægjanlega góðar upplýsingar um vöruverð og gæði þá er nauðsynlegt til að markaðsstarfsemin virki betur að greið og góð upplýsingamiðlun sé til neytenda.

Þess vegna ætti ráðherra neytendamála að endurskoða afstöðu sína í þessu máli og standa fyrir því að ríkisstjórnin feli þeim aðilum á markaðnum sem hafa haft virkast eftirlit með verðlagningu til neytenda, Neytendasamtökunum, ASÍ og aðilum sem halda úti upplýsingum á eigin vegum, að fylgjast vel með verðbreytingum næstu mánuði þannig að verðbreytingar skili sér með eðlilegum hætti til neytenda. 

Tímabundið átak til að fylgjast með verðlagi og miðla upplýsingum til neytenda er nauðsynlegt nú og næstu mánuði til að tryggja eðlilega samkeppni og láta þá sem standa sig í verslun njóta afraksturs erfiðis síns.  


Talsmaður notaðra heimilistækja

Vilhjálmur Bjarnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur gerst talsmaður notaðra heimilistækja og sér möguleika á því fyrir sauðsvartan almúgann að geta nú veitt sér þann munað að kaupa heimilistæki af þeim efnammeiri sem verði líklegri til að skipta út því gamla og fá sér nýtt vegna verðlækkana í kjölfar afnáms vörugjalda.

Margir hafa tekið þessari hagsmunagæslu Vilhjálms fyrir notendur notaðra heimilistækja óstinnt upp. Ef til vill er það vegna þess að Vilhjálmur er helst þekktur af því að gæta hagsmuna fjármagnseigenda en ekki almennra neytenda. E.t.v er hann grunaður um græsku og horft er framhjá því hvaða hagsmunum þingmaðurinn var að tala um.

Fúkyrðin i garð Vilhjálms vegna þessara ummæla eru innistæðulaus. Vilhjálmur hefði getað orðað þetta með þeim hætti að valkostir neytenda aukist þar sem meira magn af notuðum vörum komi á markað og það betri notuðum vörum þar sem fólk fái sér nýja hluti fyrr en annars hefði verið. Þeir efnaminni hafa ótvírætt hagræði af því að fá betri vörur og minna notaðar á lægra verði af því að aukið framboð veldur verðlækkun á þessum markaði. Er eitthvað að því að orða þessa staðreynd?

Engum finnst neitt að því að kaupa notaðan bíl, húsgögn, ískáp, þvottavélar o.fl. heimilistæki nema stórbokkum og yfirlætisfullu fólki. Á netinu er afar þriflegur markaður með þessa muni. Það er þjóðhagsleg hagkvæmni að hlutum sé ekki hent þegar það er hægt að hafa full not af þeim. Fólk sem leggur áherslu á nýtingu og sparnað ætti að vera ánægt með að fá fleiri og betri muni til að velja úr á lægra verði. Var einhver ástæða til að sletta skyrinu á Vilhjálm fyrir þessi ummæli?

 


Afnemum matarskatta

Gríðarlegir skattar gjöld og kvótar eru lögð á innflutt matvæli og vörur unnar úr þeim.  Þetta eru einu matarskattarnir í landinu. Þegar Frosti Sigurjónsson Framsóknarþingmaður segist vera á móti matarskatti þá mætti ætla að formaður Efnahagsnefndar Alþingis vissi hvað hann væri að tala um.

Ef matarskattarnir og innflutningshöftin yrðu afnumin þá mundi verð á matvælum lækka verulega. Með því að hætta sérstökum stuðningi við matvælaframleiðslu innanlands mætti auk heldur lækka skatta umtalsvert t.d. láta matvæli bera 0% virðisaukaskatt.

Þetta mundi bæta kjör alls almennings í landinu svo um munaði. Auk þess mundi þetta hafa þau áhrif að vísitala neysluverðs til verðtryggingar mundi lækka verulega og þar með verðtryggðu lánin. Sennilega er ekki til skynsamlegri efnahagsaðgerð en einmitt það að afnema hina raunverulegu matarskatta sem allir hafa verið settir með atkvæði Framsóknarþingmanna.

En Frosti Framsóknarmaður er að tala um annað. Frosti er að tala um örlitla breytingu á virðisaukaskatti. Sú breyting skiptir ekki nema brotabroti af því sem hagur heimilanna mundi batna um ef skattar á matvæli yrðu afnumdir þ.e. raunverulegir matarskattar.

Nú háttar svo til að fjárlagafrumvarpið var lagt fram eftir að um það hafði verið fjallað í ríkisstjórn og þingflokkum Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Hefði ekki verið samstaða um meginatriði fjárlagafrumvarpsins þá hefði tillaga um breytingu á virðisaukaskatti aldrei komið fram. Fráhlaup Frosta Sigurjónssonar og ýmissa annarra Framsóknarmanna frá eigin tillögum er því ómerkilegur pópúlismi.

Formaður Sjálfstæðisflokksins, fjármálaráðherra, getur ekki setið undir því að leggja fram sameiginlegar tillögur ríkisstjórnarinnar, en svo hoppi þingmenn Framsóknarflokksins frá eins og gaggandi hænur á túni við fyrsta goluþyt.  Annað hvort styður Framsóknarflokkurinn eigin tillögur eða hann er ekki samstarfshæfur. 


Býr þriðja hvert barn á Íslandi við fátækt?

Út er komin enn ein furðuskýrsla frá UNICEF um fátækt barna. Samkvæmt skýrslunni býr tæplega þriðjungur íslenskra barna við fátækt. 

Fátækastir á Íslandi eru þeir sem eru atvinnulausir eða geta ekki unnið vegna sjúkdóma. En þeir sömu njóta margvíslegrar aðstoðar t.d. varðandi húsnæði, greiðslu sjúkrakostnaðar, ókeypis menntun fyrir auk margs annars. Á heimilum svonefndu fátæku barnanna samkvæmt skýrslunni eru sjónvörp,tölvur, ískápar, stereógræur, bíll eða bílar og flest þeirra eiga farsíma. Er þetta fátækt?

Staðreyndin er sú að skýrslan byggir ekki á því sem fólk almennt skilur sem fátækt. Félagsfræðingarnir sem unnu skýrsluna líta ekki á fátækt sem það að vera of fátækur til að geta notið grundvallar efnalegra gæða til að geta haft það gott. Þess í stað hafa sérfræðingarnir tölfræðilega viðmiðun sem er sú að þú býrð við fátækt ef laun heimilisins eru minna en 60% af meðatekjum þjóðfélagsins.

Á grundvelli þessara skilgreininga þá skiptir það engu máli þó tekjur allra yrðu helmingi hærri. Hlutfall fátæktar yrði eftir sem áður sú sama. Ef laun almennt lækkuðu hins vegar gæti það orðið til þess að fátækum fækkaði á grundvelli sömu útreikninga þó að fólk hefði það efnalega mun verra. 

Til að sýna fram á fáránleika skýrslugerðar Unicef má benda á að í nýlegri skýrslu þeirra þá er niðurstaðan sú að fátækt barna í Lúxemborg sé meiri en í Tékklandi. Samt sem áður er einna mest velmegun og hæstu launin í Lúxemborg af öllum löndum Evrópu.

En hvers vegna notar stofnun eins og Unicef svona viðmiðanir. Stofnunin sjálf hefur gefið þá skýringu á því, að gerði hún það ekki, þá mundi ekki vera nein fátækt í ríkum löndum eins og Lúxemborg, Noregi, Svíþjóð og Íslandi. Sú staðreynd hentar hins vegar ekki Unicef eða Samfylkingarfólki veraldarinnar, sem byggir á því að sé ekki um fátækt að ræða þá verði að búa hana til.

Þess vegna er búið til hugtakið hlutfallsleg fátækt og Stefán Ólafsson háskólakennari og skýrsluhöfundar Unicef vinna út frá því viðmiði en ekki raunveruleikanum um að fátækt sé fátækt sem er allt annað en tölfræðilíkan hlutfallslegrar fátæktar.

Þannig mundi sonur minn vera skilgreindur samkvæmt þessum vísindum sem fátækur ef ég gæfi honum 2000 krónur á viku í vasapeninga en meirihluti skólafélaga hans fengju 3.500 í vasapeninga frá sínum foreldrum. Hann héldi áfram að vera skilgreindur sem fátækur þó ég hækkaði vasapeningana hans um helming í 4000 ef vasapeningar félaganna hækkuðu í 7.000 Engu skipti í því sambandi þó að heildarneysla á hvert barn sé um 60 þúsund þegar upp er staðið og hvort barnið nýtur efnalegrar velmegunar eða ekki.  

Samfélagslega fátæktin verður að hafa sinn framgang jafnvel þó hún sé allsendis óraunveruleg. 

Við gerum grín af svonefndri háksólaspeki miðalda. Maður líttu þér nær. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.9.): 576
  • Sl. sólarhring: 766
  • Sl. viku: 4043
  • Frá upphafi: 2603750

Annað

  • Innlit í dag: 544
  • Innlit sl. viku: 3785
  • Gestir í dag: 520
  • IP-tölur í dag: 505

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband