Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Kjaramál

Af eintómri göfugmennsku

Formaður læknafélagsins útskýrði fyrir landsmönnum að verkfallsaðgerðir lækna snúist ekki um að þeir fái meiri launahækkanir en aðrir. Þvert á móti snýst deilan um framtíð heilbrigðisþjónustu í landinu. Þetta göfuga markmið kjarabaráttu lækna hefur því ekkert með það að gera að þeir fái 200 þúsund krónum hærri laun á mánuði eins og krafist er heldur sú göfugmennska að efla heilbrigðisþjónustuna.

Með sama hætti lýsti heilbrigðisráðherra því yfir að hann vildi hækka laun lækna, en vissi ekki hvernig og það vildi fjármálaráðherra líka en vissi heldur ekki hvernig. Göfugmennskan væri  allsráðandi á þar sem leitað væri leiða til að efla heilbrigðisþjónustuna eins er meginatriði baráttu læknanna að sögn formanns þeirra.

Fyrst allir aðilar eru fullir göfugmennsku og læknunum er ekki annt um launahækkanir sínar heldur heilbrigðiskerfið eins og ríkisstjórninni þá virðist læknadeilan snúast um úrræðaleysi og hugmyndasneyð þeirra sem fara með þessi mál á báða bóga.

En úr því verður vafalaust leist á grundvelli göfugmennskunnar sér í lagi þegar forustumönnum þjóðar og hagsmunaaðila finnst ástæða til að tala af alvöru í stað þess að halda að það séu að yfirgnæfandi meirihluta fávitar (fyrirgefið má ekki nota setjist í staðinn: rökfræðilega frábrugðnir einstaklingar) sem þeir eru að tala til.  

 


Á verðtryggingin að lifa

Stjórnarflokkarnir lofuðu afnámi verðtryggingar á neytendalánum þar með talið húsnæðislánum.

Ekkert hefur orðið af efndum á þessu loforði. Forsætisráðherra skipaði nefnd til að fjalla um málið og nefndin komst að þeirri niðurstöðu að Framsókn bæri að svíkja kosningaloforðið. Annað hvort veit Sigmundur Davíð ekki hvernig á að stjórna eða nefndin hefur ávkeðið rísa gegn skapara sínum. Ekkert hefur enn verið upplýst í því máli og enn lifir verðtryggingin og stjórnarflokkarnir eru ekki með neina tilburði til að losa neytendur við hana.

Sjaldan hafa skilyrðin fyrir afnámi verðtryggingarinnar verið betri en undanfarin misseri. Verðbólga hefur verið í lágmarki. Krónan er í höftum og hreyfist því nánast ekkert. Engin sérstök tilefni eru  til verðhækkana. Eftir hverju er stjórnvöld þá að bíða? Af hverju standa stjórnarflokkarnir ekki við kosningaloforðið um afnám verðtryggingar.

Ísland getur ekki verið með gjaldeyrishöft endalaust. Hvað gerist þegar þeim er aflétt veit engin fyrir víst, en leiða má líkur að því að verðbólga verði nokkur fyrst á eftir. Er ráðlegt að bíða eftir því þannig að nýir stökkbreyttir höfuðstólar verðtryggðra lána verði til og fólkið sem enn á eitthvað í eignum sínum og stritar við að borga missi allt og fjármagnseigendur haldi áfram að hafa allt sitt á þurru á kostnað skuldar.  

Er ekki kominn tími til að við bjóðum neytendum upp á sömu lánakjör og í nágrannalöndum okkar en hættum að fara sérleiðir verðtryggingar og okurvaxta. 

Verði það ekki gert þá svíkja stjórnarflokkarnir kjósendur sína. 

 

 

  

 


ASÍ í stríð við ríkisstjórnina?

Miðstjórn ASÍ telur engan grundvöll til frekara samstarfs eða samræðu við ríkisstjórnina nái fjárlagafrumvarpið fram að ganga. Það skiptir þá engu máli að mati miðstjórnar ASÍ hvað ríkisstjórnin gerir að öðru leyti ef strákarnir hjá ASÍ fá ekki að ráða fjárlögunum.

Miðstjórn ASÍ og forseti samtakanna höfðu öllu meira langlundargeð með vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og það var ekki fyrr en á síðustu metrunum sem að samtökin sáu ástæðu til að hóta samstarfsslitum við þá ríkisstjórn þó öllu bágara hafi ástandið verið á þeim tíma gagnvart launafólki.

Svo virðist sem þessi ályktun miðstjórnar ASÍ sé byggð á fölskum forsendum. Í ályktuninni segir að launafólk hafi haft réttmætar væntingar um endurreisn og uppbyggingu velferðarkerfisins.  Svo virðist sem miðstjórnarmennirnir hafi ekki áttað sig á að velferðarkerfið er við lýði á Íslandi og því ómöguleiki að endurreisa það. Þá liggur líka fyrir að mestur hluti ríkisútgjalda er til velferðarkerfisins í formi framlaga varðandi nám, heilsu, bætur, millifærslur o.fl.  Sé það krafa ASÍ að auka þessi útgjöld þá verður það ekki gert án aukinnar skattlagningar.

Getur það virkilega verið krafa miðstjórnar ASÍ að skattleggja landsmenn þ.á.m. launafólk meira til að auka millifærslur í þjóðfélaginu, sem af vinstra fólki er kallað aukin velferð. Gæti það verið að aukin velferð launafólks væri einmitt fólgin í því að draga úr skattheimtu þannig að hver og einn héldi meiru eftir til eigin ráðstöfunar af launatekjum sínum.

Svo ætti þessi miðstjórn að íhuga hvort það væri ekki besta kjarabótin fyrir launþega í landinu að lánakerfið á Íslandi væri með sama hætti og á hinum Norðurlöndunum þannig að verðtrygging yrði afnumin. Einnig að matvælaverð væri með svipuðum hætti og á hinum Norðurlöndunum og hagsmunir neytenda tryggðir. Væri ekki mikilvægara fyrir miðstjórn ASÍ að einhenda sér í slíka baráttu fyrir raunverulegum hagsmunum launafólks í stað þess að fara í vindmyllubardaga við ríkisstjórnina. 

 


Inn í bæjarblokkirnar

Dagur B. Eggertsson og sósíalistaflokkur hans hefur það helst á stefnuskrá sinni við kosningar til borgarstjórnar Reykjavíkur að troða sem flestum inn í  bæjarblokkir. 2.500 til 3000 viðbótar íbúðir í bæjarblokkum er langstærsti draumur þess fólks sem vill að fólk eigi ekki neitt annað en inneign sína í lífeyrissjóðnum þegar það fer á elliheimilið. Sú inneign er þar tekin af því fyrir utan örlitla dagpeninga. Fólk yrði þá nánast ekki fjár síns ráðandi  allt sitt líf. Sovét Ísland óskalandið sem þá Dag B. Eggertsson og Gylfa Arnbjörnsson formann ASÍ dreymir um yrði að veruleika.

Bæjarblokkirnar kosta jafn mikið í byggingu og annað húsnæði. Það er dýrari lausn að leigja fólki heldur en að gera þeim sem það vilja og geta kleyft að eignast eigið húsnæði.  Með því að fólk eignist húnæði sitt verður það eignafólk myndar sjálfstæðan lífeyri og hefur meira fjárhagslegt svigrúm um og eftir miðjan aldur.

Fólk sem á húsnæðið sem það býr í, leggur á sig ómælda vinnu við að halda húsnæðinu við og dytta að því. Sá kostnaður fellur allur á leigusala í leiguíbúðum og leiguverð verður að miða við það. Þegar upp er staðið þá er greiðsla leiguverðs á mánuði meiri en greiðsla íbúðaláns á sanngjörnum vöxtum.  Með bæjarblokkunum tapast þá möguleikinn til eignamyndunar, sparnaður og hagkvæmni. 

Dagur B. Eggertsson hefur sennilega ekki skoðað að bæjarblokkir í sveitarfélögum landsins hafa verið fjárhagslegur baggi á sveitarfélögum og á stundum leitt til verulegra greiðsluerfiðleika sveitarfélaga. Sé Degi hins vegar kunnugt um þetta þá skiptir verri afkoma borgarsjóðs hann engu máli.

Dagur B og flokksmenn hans hafa atyrt Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn fyrir yfirboð og atkvæðakaup með því að knýja á um sanngirni við skuldaleiðréttingu húsnæðislána. En hvað kallast þá þessi stefna Samfylkingarinnar þar sem látið er í það skína að fólk geti fengið íbúðarhúsnæði á niðurgreiddu verði allt á kostnað annarra. 


Góð og vond samkeppni

Talsmenn landbúnaðarkerfisins hafa brugðist ókvæða við því að lagt skuli til að Samtök atvinnulífsins (SA) álykti á þann veg að auka skuli samkeppni við framleiðslu og sölu á landbúnaðarvörum.  Tillagan er sett fram vegna þeirrar stefnumótunar SA að auka samkeppni í landinu.

Trauðla verður séð hvernig á að ná fram því markmiði SA um aukna samkeppni ef framleiðsla og sala mikilvægustu matvara er undanskilin. Af hverju í ósköpunum ætti það líka að vera? 

Í 1.gr samkeppnislaga frá 2005 segir í 1.gr:

Lög þessi hafa það markmið að efla virka samkeppni í viðskiptum og þar með vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Markmiði þessu skal náð með því að:
   a. vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri,
   b. vinna gegn skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum,
   c. auðvelda aðgang nýrra samkeppnisaðila að markaðnum.

Sambærilegt ákvæði var í eldri samkeppnislögum sem sett voru fyrir um tveim áratugum.

Þrátt fyrir að sú stefna hafi verið mótuð fyrir tveim áratugum og samstaða verið um að það væri þjóðhagslega hagkvæmt að virk samkeppni væri á markaði þá hafa framleiðendur og söluaðilar búvara sagt það gott fyrir alla aðra en þá. Með því er verið að viðhalda fákeppni og einokun til hagsbóta fyrir þá fáu á kostnað hinna mörgu.

Það gilda sömu sjónarmið og lögmál um búvöruframleiðslu sem og aðra mannlega starfsemi í viðskiptum. Það er nágaul fortíðar að halda því fram að önnur lögmál eigi við um framleiðslu og sölu á mjólk eða sauðaketi en á fiski og brauði.  


Átti ekki að afnema verðtryggingu á neytendalánum.

Nefndin sem átti að koma með tillögur um afnám verðtryggingar skilaði af sér í gær. Tillögur nefndarinnar eru um allt annað en þeim var falið að gera.  Stundum er þetta kölluð sérfræðinganefnd. Hvaða sérfræðiþekking er það eiginlega varðandi verðtryggingu sem þetta fólk býr yfir umfram annað?

Það verður engin breyting sem nokkru máli skiptir á verðtryggingunni og óhagkvæmustu lánakjörum fyrir neytendur á Íslandi þó tillögur nefndarinnar nái fram að ganga.

Nefndin er með hræðsluáróður fyrir verðtryggingunni og segir að fasteignaverð geti lækkað um 20% verð verðtrygging afnumin.

Sé svo af hverju er húsnæðisverð allt að helmingi hærra á öllum hinum Norðurlöndunum þó þar sé engin verðtrygging?

Svo byggir þetta nefndarfólk á því að vextir muni snarhækka verði verðtrygging afnumin. Af hverju eru þeir þá ekki í þeim hæðum sem nefndin talar um á hinum Norðurlöndunum þar sem engin verðtrygging er.

Við getum ekki boðið upp á sambærileg lífskjör og annarsstaðar í okkar heimshluta nema við hættum að trúa þeim þjóðsögum að hagkerfið á Íslandi lúti sérstökum lögmálum sem réttlæti vitlausa hluti eins og verðtryggingu, örmynt og dýrustu neysluvörur í heimi.

Við erum láglaunaland, hávaxtaland og háskattaland.  Er ekki kominn tími til að gera róttækar breytingar í íslensku samfélagi til að geta boðið unga fólkinu í landinu upp á von um bjartari framtíð og betri kjör?

Afnám verðtryggingarinnar á neytendalánum strax er einn áfanginn í þeirri baráttu. 


Netverslun

Það eru fleiri fermetrar verslunarhúsnæðis á Íslandi en í öðrum löndum. Neytendur geta því sprangað um sali þar sem hver hilla svignar undan neysluvörum. Hlutabréf verslunarfyrirtækja hækka og hækka þó ekki sé ljóst hvort þau skili öll hagnaði hvað þá þeim sem nemur hækkun hlutabréfanna.

Á sama tíma og netverslun í heiminum eykst og því er spáð að þau verslunarfyrirtæki muni ná mestum árangri sem hafi góð tök á netverslun og flutningum á vörum til viðskiptavina þá virðist íslenska verslunin vera nokkuð stöðnuð í því fari sem hún fór í á síðasta áratug síðustu aldar.

Pakkar með neysluvörum streyma til landsins frá Kína og mörgum öðrum löndum. Sú verslun tapast úr landinu, en ekkert liggur fyrir um umfang þeirrar netverslunar eða hlutfallslega heildarnetverslun í landinu.

Í Bretlandi er talið að netverslun fyrir jólin hafi numið um 20% of fari hratt vaxandi. Miðað við aukninguna þá má ætla að fjórða hver jólagjöf í Bretlandi næstu jól verði keypt á netinu og stór hluti fluttur heim til viðskiptavinarins. Sama þróun verður hér og það skiptir máli fyrir kaupmenn að huga að þessu. 

Það gleymist oft að góðir kaupmenn og hagkvæmni í verslun skiptir miklu þjóðhagslegu máli og ræður miklu um lífskjör fólksins.  Kaupmenn verða því að átta sig á þeim breytingum sem eru að verða með aukinni netverslun.

Nú geta opnast möguleikar litlu verslananna sem þurfa frekar að hafa góðar heimasíður og sendingarþjónustu en verslunarfermetra.  Það eru spennandi tímar framundan fyrir þá kaupmenn sem ná að aðlaga sig breyttum verslunarháttum.


Skattar á neytendur

Vilhjálmur Bjarnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins greiddi atkvæði gegn sérstökum skatti á bankanna og sagði að hann væri á móti þessum skatti af því að þetta væri skattur á neytendur.

Það er ánægjulegt að þingmaður sé á móti skattlagningu á þeim forsendum að hún sé skattur á neytendur.  Ef til vill var þó skatturinn á bankana ekki rétti vígvöllurinn í því sambandi. Þeir skattar sem bitna hvað þyngst á neytendum eru auknar álögur ríkisins á neysluvörur. Þá hækkar vöruverð og líka verðtryggðu lánin í kjölfarið. Ef til vill má þá búast við því að Vilhjálmur Bjarnason taki rösklega til hendinni eftir áramót og leggi fram tillögur um lækkun  á sköttum á bensín, áfengi og tóbak svo nokkrar vörur séu nefndar þar sem ríkið hefur endalaust verið að bæta við álögum.

Sá skattur sem er þó alfarið neytendaskattur er virðisaukaskatturinn sem fyrir löngu er komin upp fyrir öll skynsamleg hámörk. Það er því mikið verk að vinna að lækka skatta á neytendur.

En Vilhjálmur greiddi atkvæði með öllum neytendasköttunum sem bitna hvað harðast á neytendum. En valdi að skýra andstöðu við bankaskattinn með því að hann bitnaði sérstaklega á neytendum. Getur það verið að bankaskatturinn bitni á neytendum umfram aðra skatta í þjóðfélaginu?  


Hvar eru skuldleiðréttingarnar Sigmundur Davíð?

Nefnd forsætisráðherra um niðurfærslu verðtryggðra skulda skilaði góðu áliti fyrir nokkru. En hvað svo? Ekki neitt hefur verið gert.

Engin frumvörp hafa verið lögð fyrir Alþingi til skuldaleiðréttingar í samræmi við tillögur nefndarinnar. Alþingi verður slitið í dag.  Slíkar tillögur koma þá ekki fram á Alþingi fyrr en í fyrsta lagi í janúar 2014. Ekki er vitað að verið sé að vinna lagafrumvörp í samræmi við tillögur nefndarinnar.  Kærkomið væri að fá að vita ef svo er.  Eftir því sem ég kemst næst þá hefur ekkert verið gert í málinu síðan nefndin skilaði inn tillögum sínum.

Fólk bíður eftir skuldaleiðréttingunni sem lofað hefur verið. Meðan beðið er og ekki er ljóst hvernig málið verður endanlega afgreitt ríkir óvissa sem er skaðleg fyrir þjóðfélagið. Fólk frestar því að gera ráðstafanir sem líklegar eru til aukins hagvaxtar.

Enn hefur nefndin um verðtrygginguna ekki skilað af sér.  Verði verðtryggingin af neytendalánum ekki afnumin þá munu hækkanir verðtryggðra lána frá því að ríkisstjórnin var mynduð og fram á mitt næsta ár éta upp skuldaleiðréttinguna að mestu eða öllu leyti nema það sem fók tekur undan sjálfum sér í séreignasparnaðinum. Verði svo til hvers er þá barist Steingrímur Davíð og hvar er þitt réttlæti.

Til að eyða óvissu í þjóðfélaginu bar brýna nauðsyn til að afgreiða öll frumvörp varðandi skuldaleiðréttingu og afnám verðtryggingar fyrir áramót. Hver mánuður er dýrmætur. 

Frá orðum til athafna Sigmundur Davíð og Bjarni Benediktsson. Strax og þig kemur saman í janúar. Biðin er þegar orðin allt of löng.  


Af ómissandi gróðastarfsemi

Samfélagsmiðillinn RÚV fær nú daglega talsmenn sérhagsmuna, sem útlista fyrir okkur hvað starfsemi þeirra sé ómissandi. Hvað mikill gróði sé af starfseminni og hvílíkt þjóðhagslegt tap það væri kæmi til þess að skattgreiðendur borguðu minna til þessara sérhagsmuna.

Einhvern veginn gengur þetta ekki upp. Sé það svo að starfsemin sé jafn gróðavænleg og látið er í veðri vaka, af hverju þarf þá að styrkja hana af almannafé. Taka frá þeim sem græða ekki eins mikið.  Ef hagnaður er eða gróðavon hvaða þörf er þá á  ríkisstyrkjum?

Óneitanlega er það athyglisvert að hlusta á þau hugvitsamlegu rök sem hagsmunaaðilar færa fram fyrir því að geta verið áfram á beit í buddunni þinni.

En burtséð frá því af hverju dettur ríkisstjórninni ekki í hug að búa til alvöru utanríkisþjónustu og leggja niður öll óþörf sendiráð og ná með því milljarða sparnaði í stað þess að klípa milljón hér og hundrað þar. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.9.): 652
  • Sl. sólarhring: 834
  • Sl. viku: 4119
  • Frá upphafi: 2603826

Annað

  • Innlit í dag: 615
  • Innlit sl. viku: 3856
  • Gestir í dag: 584
  • IP-tölur í dag: 570

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband