Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Homage to Catalonia.

Á Spáni tala menn um, að það sé vetur þó það eigi að vera komið vor. Bændur eru uggandi vegna mikilla kulda. 

Í gær fór ég til Alicante í rysjóttu veðri og sá þar bókina Homage to Catalonia eftir George Orwell. Þar fjallar hann um þáttöku sína sem sjálfboðaliði í borgarastyrjöldinni á Spáni 1937. En þá hafði hann aðsetur í Katalóníu aðallega í Barcelona.

Þar sem veðrið var öllu verra í dag en í gær, fór svo að ég kláraði bókina. Hún er mjög vel skrifuð og blaðamannshæfileikar Orwell leyna sér ekki. Aðrar bækur eftir hann eru m.a. Animal Farm og 1984. Hann var sannfærður vinstri maður við getum sagt kommúnisti og fór þessvegna til að berjast á Spáni.

Lýsingar hans eru eftirtektarverðar um margt m.a. hvernig kommúnistarnir brutu niður kirkjur og áttu í stöðugum innbyrðis átökum sín á milli þ.e. Trotskíistar gegn Sovét kommúnistum og allir gegn Anarkistunum o.s.frv.. Niðurstaða Orwell þessa þá sanntrúaða kommúnista var sú eftir að hafa barist á vígvellinum í hernum gegn Franco,að sú stjórn sem tæki við á Spáni hvort heldur Franco mundi vinna sigur eða kommúnistarnir, að það tæki við fasistastjórn í einvherri mynd. 

Uppgjör hans við kommúnísku hugmyndafræðina birtist síðan þegar hann skrifaði bækurnar Animal Farm og 1984. Hugleiðingar um þjóðfélag þar sem maðurinn er ekki frjáls heldur verður að lúta ofurveldi kerfisins og engin hugsun eða skoðun má komast að önnur en ríkishyggja stjórnvalda. 

Við ættum að huga að þessu í fimbulkuldanum, þegar við borgum háar fjárhæðir af hverjum bensínlítra vegna hjátrúarinnar um hamfarahlýnun af okkar völdum. 

George Orwell dó fyrir 72 árum, en boðskapur hans á enn erindi við okkur og við eigum ekki að sætta okkur við kúgun hins opinbera af því að stjórnmálamenn í auknum mæli eru þeirrar skoðunar að þeir eigi ekki að þjóna okkur, en telja sig eiga þess í stað að breyta okkur og aðlaga allt í samræmið við það sem Orwell lýsti í bók sinni 1984 


Bara forseti að nafninu til.

Allister Heath ritstjóri Sunday Telegraph skrifar um Joe Biden, hörmungina, í Hvíta húsinu sem er forseti Bandaríkjanna sem Heath segir að sé forseti að nafninu til og segir að öðru leyti:

Bandaríkin þurfa leiðtoga sem er ákveðinn og með framtíðarsýn. Í dag sitja þau uppi með forseta sem gerir endalaus mistök.

Í nánast í hvert skipti sem forsetinn talar telja aðstoðarmenn hans sig þurfa að leiðrétta það sem hann sagði. Joe Biden er Bandaríkjaforseti aðeins að nafninu til og sennilega lélegasti forsetinn í sögu Bandaríkjanna.

Í síðustu viku kom vel í ljós í hvaða stöðu forsetinn svokallaði er í. Þá vék hann frá handritinu af ræðunni sem hafði verið samin fyrir hann og hann hélt í Póllandi, þegar hann sagði að „þessi maður (Pútín) getur ekki verið áfram við völd.“ Þessi orð er varla hægt að misskilja, en samt sem áður gerðu aðstoðarmenn hans það án þess að spyrja Biden um leyfi og gáfu út yfirlýsingu strax eftir að ræðan hafði verið haldin, þar sem sagði að orðin sem forsetinn notaði þýddu í raun ekki það sem lá í augum uppi. Þeir voru sjálfsagt að hugsa um að vernda Biden fyrir sjálfum sér með þessum klaufalega hætti. En þetta sýndi að hlutverk Biden eru bara að mestu leyti formleg. Ríkisstjórn hans og starfsfólk telur að það eigi ekki að taka það alvarlega sem Biden segir.

Biden er ekki uppspretta valds og ákvarðana og er sagður fleipra með það sem fólk hefur talað við hann í einkasamtölum og ætlast er til að fari ekki í hámæli. Undanfarna daga hefur það gerst aftur og aftur að yfirlýsingar forsetans eru dregnar til baka af þeim sem eru raunverulega við völd. Athyglisvert var þegar hann sagði félögum í flugsveit 82, að þeir ættu að fara til Úkraínu bráðlega einnig þegar hann sagði „að Bandaríkin mundu svara á sama hátt ef Rússar notuðu efnavopn.“ Eitt það versta sem hann sagði var í aðdraganda innrásar Rússa í Úkraínu „það er eitt ef þetta er minniháttar innrás og þá er spurningin hvað á að gera og hvað á ekki að gera. Biden var þá spurður hvort hann væri í raun að gefa Pútín leyfi til að gera minniháttar innrás í Úkraínu. Biden svaraði „Góð spuring. Þannig hljómaði það var það ekki.“

Starfslið forsetans er á þönum við að leiðrétta og gefa út aðrar yfirlýsingar en forsetinn. Bandaríska stjórnarskráin gerir raunar ekki ráð fyrir því að starfsliðið taki völdin af forsetanum heldur öfugt. Hvað skyldu fjölmiðlar síðan segja. Donald Trump mátti ekkert gera nema það væri gagnrýnt hástöfum af helstu fjölmiðlum í heimnum (ekki síst RÚV). En núna þegja þeir þunnu hljóði þó að ljóst sé að forsetinn sé ekki fær um að gegna embættinu. Það er í raun enn eitt hneykslið sem varðar fjölmiðla. Hefði þetta verið Trump hefði þess verið krafist að ríkisstjórnin beitti 25.gr bandarísku stjórnarskrárinnar sem varðar það hvort forseti er fær eða ófær um að gegna embætti.

Hvers vegna þessi þögn um Biden og algjör skortur á gagnrýni. Getur verið að það sé vegna þess að Demókratar telja að Kamala Harris varaforseti sé ekki heldur fær um að gegna embættinu.

Hugmyndir Biden í skattamálum og ríkisfjármálum valda líka ugg, en hann virðist feta í fótspor vinstri Demókrata sem stjórna ýmsum borgum í Bandaríkjunum. Þar er raunin sú, að venjulegt fólk og fyrirtæki reyna eftir megni að komast burt úr þeim borgum vegna óstjórnar.Þar sem þessir Demókratar stjórna hafa glæpir aukist, skólarnir eru í vanda, aukin skattheimta. Þessar borgir eins og New York,Chicago, San Fransico og Los Angeles misstu meir en 700 þúsund íbúa á meðan fólk sækir í bæjarfélög sem stjórnað er af Repúblikönum og af þeim 10 stöðum þar sem fjölgunin er mest eru 5 sem stjórnað er af Repúblíkönum í Texas og tvö af Repúblíkönum í Flórída.


Þegar þörfin er mest.

Fjöldi Úkraínumanna flýr stríðsátök þessa dagana. Þar er ljóst, að um brýna neyð er að ræða og við viljum gera allt sem í okkar valdi stendur til að aðstoða flóttafólkið. Við vitum að þar er brýn þörf. Við vitum líka að flest vilja fara aftur heim til sín þegar ófriðnum lýkur. En nú er þörfin og okkur ber að aðstoða eins vel og við framast getum.

Myndir af flóttafólki frá Úkraínu, sýna aðra mynd en þá, sem hingað til hafa birst af svokölluðum hælisleitendum frá múslimalöndunum. Þær myndir sýna 90% unga karlmenn, en frá Úkraínu er rúmlega 90% konur og börn. Þannig er það þegar um raunverulegt flóttafólk er að ræða.

Myndirnar af íslömsku hlaupastrákunum sýna yfir 90% fólks í leit að velferðarvist á Vesturlöndum. Svo illa hafa Vesturlönd gætt að þessum málum þ.á.m. við, að þeim hlaupastrákum, sem vísað hefur verið úr landi eftir kostnaðarsama lögfræðimeðferð á vegum Rauða Krossins eða annarra ríkisstyrktra lögmanna, neita að fara og íslenska ríkið heldur áfram að borga þeim dagpeninga, húsnæði og uppihald. 

Svona er ekki hægt að reka velferðarþjónustu og það gengur ekki að láta Vinstri Græna komast upp með að viðhalda bullinu í kringum hlaupastrákana, sem gerir það að verkum, að við höfum ekki sama kraft og fjármuni til að taka við þeim sem raunverulega þurfa á alþjóðlegri vernd að halda. 

Nú verður að koma viti í meðferð mála varðandi hælisleitendur, það eru öryggishagsmunir og gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir fyrir íslenska skattgreiðendur. Ef VG hafnar því að taka á þessum málum með skynsemi þá á það eitt með öðru að leiða til þess, að öðrum flokki verður boðið til stjórnarsamstarfsins í stað VG. 


Kuwait og Úkraína

Í ágúst 1990 réðist Írak á furstadæmið Kuwait frjálst og fullvalda ríki og innlimaði það í Írak. Kuwait var og er Íslamskt afturhalds- og einræðisríki, sem lét sig mannréttindi borgaranna hvað þá aðkomuverkafólks engu skipta. Kuwait er ekki í NATO eða öðru hernaðar- eða varnarbandalagi. Samt töldu Bandaríkin nauðsynlegt að koma á laggirnar fjölþjóðaherliði til að ráðast á Írak og "frelsa" furstadæmið. 

Nú hafa Rússar ráðist inn í Úkraínu og mikill samkvæmisleikur hefur verið í gangi frá því að það gerðist hjá stjórnmálamönnum Vesturlanda. Þeir eru sammála um að fordæma innrásina, draga úr viðskiptum við Rússa og beita þá efnahagsþvingunum, sem allir vita að skipta litlu máli, en að öðru leyti að gera ekki neitt.

Það er engin furða að Úkraínuforseti sé vonsvikin yfir því, að Kuwait skuli vera í svona miklum metum hjá NATO ríkjum en Úkraína er ekki einu sinni eins flugbanns virði. 

Á sama tíma hvetja NATO ríkin Úkraínu áfram til að stríða við Rússa og senda þeim vopn. Þar af hefur Þýskaland sent vopn, sem eru bæði úrelt og hættuleg.

En til hvers eru Vesturlönd að hvetja Úkraínumenn til að berjast fyrst þau ætla ekki að gera neitt annað en að horfa á? Eru einhverjar líkur á að Úkraína geti unnið stríðið? Eru einhverjar líkur á að þetta leiði til annars en enn meiri hörmunga í þessum heimshluta. Hvaða úrslit sjá NATO ríkin fyrir sér í þessum hildarleik?

Ömurleiki NATO ríkjanna nú undir forustu Bandaríkjanna enn sem fyrr er samstaðan um að gera ekki neitt og hvetja til þess að Úkraínumenn láti sér blæða út. Það er ekki stórmannleg afstaða heldur skammarleg. Þeim hinum fræga Neville Chamberlain, sem legið er á hálsi í sögunni fyrir að bregðast ekki við ógn nasismans, datt svona aumingjaskapur aldrei í hug. 


Úkraína, NATO og Katrín Jakobsdóttir

Í gær fór forsætisráðherra íslenska lýðveldisins, Katrín Jakobsdóttir til sérstaks fundar við Jens Stoltenberg framkvæmdastjóra NATO. Í yrirlýsingu eftir fundinn segir,að þau Jens og Katrín hefðu rætt framtíðarstefnumótun NATO og áhrif innrásar Rússa í Úkraínu á öryggismál Evrópu.

Þrátt fyrir þessa sameiginlegu fréttatilkynningu, þá lætur Katrín Jakobsdóttir, sem hún hafa verið á einhverjum allt öðrum fundi og annarra erinda en opinbera yfirlýsingin segir til um.

Í viðtali við íslenska sjónvarpið að loknum fundinum sagði Katrín, að hún og flokkur hennar væru andsnúin NATO og þau í VG vildu eiga góð samskipti við allar þjóðir og Evrópusambandið og þetta sýndi hvað friður væri mikilvæg forsenda. Einmitt?

Katrín var ekki að koma af fundi með framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna,Evrópusambandsins eða einhvers alheimsfriðarráðs. Hún var að koma af fundi með framkvæmdastjóra NATO. Viðfangsefni snúast um mikilvægi NATO aðildar til að tryggja öryggi Íslands og frið í Evrópu. Um það hefur aðild að NATO alltaf snúist. 

Þegar forsætisráðherra Íslands mætir til NATO fundar og tekur þátt í stefnumótun bandalagsins, en telur samt á sama tíma, að sér komi bandalagið ekki við, þá verður vart lengra komist í að tala tungum tveim og bulla alla vega með annarri.  

Er ekki mál til komið að einhver þingmaður spyrji Katrínu Jakobsdóttur sérstaklega eftir því á Alþingi hver afstaða hennar er til öryggismála þjóðarinnar og hvort hún telur að NATO skipti þar mikilvægu máli. Sé forsætisráðherra ekki þeirrar skoðunar, þá dæmir hún sig úr leik til að sækja fundi á vegum bandalagsins. En það hefði Katrín átt að vita fyrir löngu og hún getur ekki bæði haldið og sleppt. Haldið í NATO erlendis og vélað um málefni þess, en afneitað bandalaginu síðan innanlands.

Svona afstaða er ekki einu sinni sæmandi ráðherra hvað þá forsætisráðherra á ögurstundu. 


Friðarsamningar

Þær fréttir berast nú, að friðarviðræður séu  hafnar milli Rússa og Úkraínumanna á landamærum Hvíta Rússlands og Úkraínu. Það er ekki hægt að segja annað en Guð láti gott á vita og vonandi tekst að ná samkomulagi til að koma í veg fyrir frekari átök. 

Ljóst er að Rússar hafa ekki náð því marki sem þeir ætluðu sér og framhald átakana þýða frekari blóðsúthellingar og hörmungar fyrir fólk bæði í Rússlandi og í Úkraínu. Það græðir engin á hörmungum milljóna fólks. Þessvegna skiptir máli að Vesturveldin leggi líka sitt að mörkum til að friður náist. Það eru okkar hagsmunir ekkert síður en hinna stríðandi þjóða. 

Náist friður er það síðan stríðsaðila að gera upp málin innanlands og kalla þá til ábyrgðar,sem hana bera.  

 

 


Viðbrögð við hernaði.

Mig minnir að það hafi verið skáldið Mark Twain,sem hét raunar Samuel Langhorne Clemens eins og mig minnir líka, sem sagði að bankarnir væru stofnanir sem byðu fólki regnhlífar þegar sólin skini, en tækju þær til baka þegar byrjaði að rigna.

Leiðtogar Vesturlanda hafa verið á stöðugum fundum með Pútín vegna Úkraínu og á sama tíma sent herlið til nágrannalanda Úkraínu en varað sig á að senda engan soldáta þangað. Þá hafa Vesturlönd jafnframt sent aragrúa vopna til Kænugarðs í Úkraínu. Ljóst er að herliðið sem sent hefur verið til vestur og norðurhluta landamæra Úkraínu er ekki þangað komið til að berjast og satt að segja veit engin hvaða hlutverk það hefur. 

Þetta er ekkert ólíkt því þegar maður kvartar yfir því að þakið leki, að senda til hans bala.

Engum dettur í hug,þrátt fyrir yfirlýsingar vestrænna leiðtoga, að þeir veiti Úkraínu aðstoð. 

Ef til vill er því miður svo komið, að Vesturlönd eru orðin of feit til að hlaupa og slást. Þá er ekkert annað í boði en að brosa og taka því sem árásaraðilanum dettur í hug. 

Þessar staðreyndir ættu að vera ástæða til að harmi þrungnir utanríkisráðherrar Vesturlanda hittist til að tala af alvöru um eigin stöðu og viðbrögð við árás komi til hennar. Það er greinilega ekki seinna vænna.


Ráðast Rússar á Úkraínu á miðvikudaginn?

Bandaríkjamenn halda því fram, að Rússar ætli að gera innrás í Úkraínu á miðvikudaginn og segjast hafa pottþéttar sannanir. Ekki er ljóst hvort þær eru af sama toga og  færðar voru fram í aðdraganda Íraksstíðsins um gereyðingarvopn Saddam Hussein.

Bandaríkin og Evrópa hafa stutt Úkraínu frá því að bylting var gerð gegn sitjandi forseta og súkkulaðibarón var kosinn í hans stað og síðar grínleikarinn sem nú er forseti. Lífskjör eru bág og minnsta þjóðarframleiðsla þeirra fyrrum sovét lýðvelda sem eru í Evrópu e.t.v. með Moldovu sem undantekningu. 

Eftir því sem fleiri þjóðarleiðtogar og utanríkisráðherrar þyrpast til Moskvu til að hitta Pútín gerir hann sér grein fyrir,að varnarsamvinna Evrópuríkja er í molum og fæst ríki eru tilbúin til að færa fórnir. Bandaríkin greiða 75% af kostnaði NATO og Evrópuríkin hafa komið sér hjá að greiða sinn skerf jafnvel þó að varnarviðbúnaður í Evrópu snúi mest að þeim. Mörg þeirra hræðast meira að Rússar skrúfi fyrir gasið til þeirra en innrás í Úkraínu.  

Biden forseti er auk þess ekki andstæðingur sem nokkur óttast. 

Bretar og Frakkar sögðu Þjóðverjum 1939, að innrás í Pólland þýddi stríð við þau. Hitler hafði takmarkaða trú á því. En þá voru menn tilbúnir að berjast gegn einræðinu. 

Vegna yfirvofandi innrásarhættu í Úkraínu að mati Bandaríkjamanna hafa þeir stráð hermönnum vítt og breytt í nágrenni Rússlands, en þeim er ekki ætlað að gera neitt varðandi innrás í Úkraínu. 

Þýskaland var efnahagslegt stórveldi árið 1939 þegar síðari heimstyrjöld hófst, með mikinn mannafla og mikla þjóðarframleiðslu á þess tíma mælikvarða. Staða Rússa í dag er sú, að þjóðarframleiðsla Rússlands er álíka og Malasíu og efnahagur Rússlands er minni en Ítalíu og fólksfjöldinn er álíka og fólksfjöldi Þýskalands og Frakklands til samans og meira en milljón manns fluttu frá Rússlandi árið 2021. Þegar þessar staðreyndir eru skoðaðar hversu líklegt er þá að Rússar geri innrás í Úkraínu og kæmi til þess, hvernig stendur á því að sameinuð Evrópa og Bandaríkin eru ekki tilbúin til að verja landamæri stjórnarinnar í Kíev, sem þeir bjuggu til? 

Nú hafa vestrænir leiðtogar opinberað vanmátt sinn og aumingjahátt og sannfært einræðisöflin í Rússlandi og Kína um að þau þurfi ekki að óttast þó Rússar taki Úkraínu eða Kínverjar Taiwan.  

Það gæti kallað á enn meiri fórnir síðar en þær sem Vesturlönd þurfa að færa nú með því að sýna staðfestu og bjóða á sama tíma Rússa til samvinnu svo sem hefði átt að gera um síðustu aldamót. Það kann aldrei góðri lukku að stýra að reyna að frysta úti stórveldi jafnvel þó það megi muna fífil sinn fegri.

 


Innrás í Úkraínu

Er líklegt að Rússar ráðist inn í Úkraínu? Af hverju ættu þeir að gera það? Efnahagslegir hagsmunir eru ekki fyrir hendi. Úkraína hefur ekki getað brauðfætt sig um árabil nema með mikilli aðstoð frá ES og USA.

Vakir e.t.v. eitthvað annað fyrir Pútín og þá hvað? Aðild Úkraínu að NATO? Rússar segja að það sé andstætt öryggi sínu að Úkraína gangi í NATO. Af hverju að taka Úkraínu í NATO og halda Rússum fyrir utan? Af hverju að útiloka Rússa frá ES samstarfi eitt landa í þessum heimshluta. Stuðlar það að friði og framförum? 

Hvaða rugl er það að manga endalaust til við Tyrki, hafa þá í NATO og gæla við að þeir gangi í ES á sama tíma og Rússum er haldið utan við.

Svo er mál til komið að okkar ágæti utanríkisráðherra afnemi allar refsiaðgerðir gegn Rússum og sjái til þess að Ísland taki upp eðlileg og vinsamleg samskipti við þá.

Vestræna stjórnmálaelítan er því miður afar illa skipuð. Pútín getur því leikið á þá mun betur en Neró á hörpuna sína forðum og sýnt umheiminum úr hvaða efni þeir eru gerðir. 


Til vansa fyrir Bandaríkin

Joe Biden tók við völdum sem forseti Bandaríkjanna fyrir ári. Valdatími hans hefur verið svo skelfilegur, að hann hefur orðið sér til vansa bæði heima og erlendis. 

Heilsteypta stefnu í utanríkismálum skortir. Sneypuleg endalok  í Afganistan og vanhæfni forsetans þar hafa leitt til þess, að andstæðingar Bandaríkjanna telja sig geta farið sínu fram. Rússar hóta innrás í Úkraínu og Kínverjar að innlima Taiwan. Prelátarnir í Íran telja sig geta farið sínu fram.

Stefna Biden inn á við, hefur ekki síður verið slæm. Áhersla hefur verið lögð á gegndarlausa eyðslu hins opinbera, sem hefur leitt til mestu verðbólgu í 40 ár eða 7%. Stefna vitifirrta vinstrisins í Demókrataflokknum í Bandaríkjunum m.a. að draga úr framlögum til lögreglu og andstöðu við störf hennar,hefur leitt til glæpaöldu. Í San Francisco og Los Angeles sem Demókratar hafa stjórnað í langa hríð eru rán og gripdeildir orðin svo algeng, að þau þykja ekki lengur fréttnæm.

Stefna Demókrata undir forustu Biden hefur leitt til efnahagslegs óstöðugleika, hnignunar borga,glæpaöldu og vaxandi innanlandsátaka. Í einu orði sagt þá hefur stjórn Biden verið skelfileg.

Vinsældir forsetans hafa hrapað og innan við þriðjungur kjósenda telur hann hafa staðið sig sæmilega eða vel í embætti. Þrátt fyrir að óstjórnin og glundroðin sem afleiðing af stefnu og stefnuleysi Biden og stjórnar hans, þá þegja helstu fjölmiðlar eins og þeir geta um það. En vandamálin hverfa ekki með því og dæmi eru um, að fjölmiðlum sem hafa stutt Demókrataflokkin er nóg boðið. 

Spurning er hvort að ein vinstri sinnaðasta fréttastofa lýðræðisríkja, fréttastofa RÚV tekur við sér og áttar sig á hvílílka skelfingu vinstri stefna Biden og bullukollustefna borgarstjóra Demókrata í Bandaríkjunum eru að leiða yfir þjóðina.

Hvað sem því líður eða eins og Biden segir, þegar hann tapar þræðinum "Anyway", þá eru kosningar í Bandaríkjunum í nóvember. Með sama áframhaldi munu Demókratar tapa meirihluta sínum bæði í fulltrúadeildinni og öldungadeildinni. Spurningin er bara hvað mikið tjón Biden og fylgifiskar hans geta unnið á meðan og hve miklu áliti og afli Bandaríkin tapa þangað til. 

En kjósendur sitja alltaf uppi með vanhæfa stjórnendur, sem þeir kunna að hafa glæpst á að kjósa. Þessvegna skiptir máli að kjósa og kjósa rétt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 835
  • Sl. viku: 3156
  • Frá upphafi: 2512749

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 2947
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband