Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Dægurmál

Vinstri hendin veit ekki hvað sú hægri gerir

Þegar Jesús talaði um gjafmildi sagði hann að það ætti að gefa með því hugarfari að vinstri hendin vissi ekki hvað sú hægri gerði. Boðskapurinn er sá að gefa án þess að nokkur iðrun eða eftirsjá sé vegna gjafarinnar.

Jóhanna Sigurðardóttir hefur  greinilega misskilið kenningu Krists. Jóhanna heldur að það að vinstri hendin viti ekki hvað sú hægri gerir þegar um gjafir er að ræða þýði það að vinstri hendin eigi að taka til baka það sem sú hægri gefur. Í sjálfu sér er það í anda sósíalismans alls staðar þar sem hann er praktíseraður.

Jóhanna hefur ákveðið að skerða fjárframlög til Háskóla Íslands um hundruði milljóna á næstu árum. Á sama tíma tilkynnir sama Jóhanna að ríkisstjórnin ætli að gefa Háskólanum á annann milljarð króna. Jóhanna gefur og Jóhanna tekur.

Aðspurð um það hvar hún ætli að finna peningana sem gefa á Háskóla Íslands. Þá segist Jóhanna muni finna þá án frekari skýringa.

Ef til vill verður meira skorið niður hjá Háskóla Íslands svo Jóhanna geti staðið við sitt.


3 ár

3 ár eru liðin frá bankahruni. Engin hefur verið ákærður í sambandi við það. Ekkert fé hefur fundist eða verið gert upptækt hvorki á Tortóla né annarsstaðar. Skuldavandi heimilanna hefur ekki verið leystur, en vogunarsjóðir og stórfyrirtæki hafa fengið gefnar upp skuldir sem nema 5 faldri þeirri fjárhæð sem þarf til að leysa vanda heimilanna.

Þeir sem nanfgreindir voru af útrásarvíkingum sem helstu orsakavaldar hrunsins lifa vel og praktuglega og virðast halda öllu sínu eða mestu leyti.

Engin ákæra tengd falli stóru bankanna þriggja hefur enn séð dagsins ljós og er ekki að vænta á næstunni miðað við upplýsingar frá Sérstökum saksóknara.  Þúsundir íslendinga eru landflótta og atvinnuleysi er meira en nokkru sinni fyrr. Nauðungaruppboðum og gjaldþrotum fjölgar.  Fleiri og fleiri eiga í alvarlegum skuldavanda og sé miðað við nýjustu tölur þá virðist sá skuldavandi geta tengst rúmlega 100 þúsund Íslendingum. Þannig er Ísland Jóhönnu og Steingríms í dag þremur árum eftir hrun.

Steingrímur J. Sigfússon sem krafðist þess í kjölfar  hrunsins að eignir bankamanna og útrásarvíkinga yrðu frystar auk annars þá hefur ekkert slíkt gerst þó að Steingrímur hafi verið helsti ráðamaður í pólitík í landinu 2 ár og 8 mánuði af þeim 3 árum sem liðin eru frá hruni. Hann stóð síðan fyrir því að framselja skuldir heimilanna til erlendra vogunarsjóða, en vel kann að vera að eignarráð þeirra sé m.a. einmitt í höndum þeirra sem bankamanna og útrásarvíkinga hverra eigur Steingrímur krafðist að yrðu frystar meðan hann var í stjórnarandstöðu.

Jóhanna Sigurðardóttir sem sat í ríkisstjórninni þegar hrunið var og var ráðherra Íbúðalánasjóðs,sem líka fór á hausinn í hennar ráðherratíð en hefur verið bjargað með framlögum frá skattgreiðendum, man ekki eftir því að hún hafi setið í ríkisstjórninni sem hún kallar hrunstjórnina og hún man heldur ekki eftir því að hún og Samfylkingarliðið knúði á um það í þeirri ríkisstjórn að ríkisútgjöld hækkuðu meir en nokkru sinni fyrr í sögu lýðsveldisins.  Það gerðist í bullandi þenslu og ábyrgð allra þeirra sem að þessu stóðu er mikil.

Jóhanna og Steingrímur hafa talað um að þeir sem voru við stjórn þegar stóru bankarnir þrír féllu yrðu aða axla ábyrgð og þau töluðu upp hatrið í þjóðfélaginu og hafa lagt grunninn að þeirri málefnasnauðu upphrópsumræðu sem varð í kjölfar hrunsins einmitt á þeim tíma sem nauðsyn bar til að bregðast við með málefnalegum hætti.

Á vakt þeirra Jóhönnu og Steingríms hafa fjölmörg fjármálafyrirtæki fallið má þar minna á t.d.

VBS þrátt fyrir að Steingrímur gæfi þeim 26 milljarða af fé skattgreiðenda, Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, Straumur fjárfestingabanki, Sjóvá-Almennar tryggingar sem Steingrímur greiddi 12 milljarða af fé skattgreiðenda, Sparisjóður Keflavíkur og Byr er rekin á undanþágu. En þau Jóhanna og Steintrímur telja sig ekki bera neina ábyrgð á þessu og Steingrímur sér ekki að hann beri ábyrgð á þeim kostnaði sem vitlaus pólitísk stefnumörkun hans í málefnum sparisjóðanna hefur kostað ríkissjóð. Þau Steingrímur og Jóhanna eiga það sammerkt að sjá ekki bjálkana í eigin augum en greina hins vegar glögglega flísina í augum pólitískra andstæðinga.

Til að drepa umræðunni á dreif og þegar ekki dugar að lýsa endalaust ábyrgð á bankahruninu á Sjálfstæðisflokkinn, frjálshyggjuna, Davíð og eftirlitsaðila þá fann Jóhanna það út í samvinnu við vinstri sinnaða lukkuriddara, að stjórnarskráin bæri  ábyrgð á bankahruninu og því bæri brýna nauðsyn til að breyta henni.

Er einhvers að vænta af fólki eins og Jóhönnu og Steingrími nema aukna eymd og volæði auk fleiri vitlausra ákvarðana. 


Hlutdræg fréttastofa RÚV

Eftir bankahrun 2008 auglýsti fréttastofa RÚV dyggilega öll fyrirhuguð mótmæli og var iðulega komin með tökulið sjónvarps á vettvang á undan óeirðarseggjum sem komu boðskap sínum venjulega á framfæri með valdbeitingu.  Ríkissjónvarpið gerði vel og dyggilega grein fyrir útifundum sem haldnir voru á Austurvelli haustið 2008 og fram að kosningum 2009. Jafnvel var um beinar útsendingar að ræða. Þá töldu fréttamenn á þeim tíma fjöld mótmælenda vera mun meiri en raun bar vitni.

Annað var athyglivert við störf fréttastofu RÚV haustið 2008 og fram á  2009, að fréttamenn RÚV sóttu í valdbeitingu mótmælenda og greindu frá því í fréttum eins og hér væri um sjálfsagða og eðlilega hluti að ræða jafnvel þó að veist væri með ofbeldi að ráðherrum og þingmönnum.

Nú hefur fréttastofa RÚV breytt um áherslur enda komin önnur ríkisstjórn og þóknanlegri stjórnmálaflokkar sem að henni standa en var árið 2008. Nú gerir fréttastofa RÚV lítið  úr mótmælum og segir að mun færri hafi mótmælt en raunin er. Nú auglýsir RÚV ekki mótmælafundi fyrirfram hvað þá að tökulið RÚV sjónvarpsins sé mætt tímanlega á staðinn eins og var 2008.

Hvað skildi valda þessum viðsnúningi á fréttamati  RÚV? 


Enn skilja Jóhanna og Steingrímur ekkert

Friðsöm mótmæli voru við Alþingishúsið þegar Jóhanna Sigurðardóttir flutti stefnuræðu ríkisstjórnarinnar. Hvorki hún né meðreiðarsveinn hennar hann Steingrímur átta sig á hverju fólk er fyrst og fremst að mótmæla.

Þessi mótmæli voru sjálfsprottin að því leyti að enginn hópur eða samtök boðuðu til mótmælanna. Þeir einu sem mæltu með því að fólk mætti og mótmæltu hvöttu fólk til að mótmæla verðtryggingunni og okri á neytendur.  Um það snérust mótmælin. Að sjálfsögðu skildu Jóhanna og Steingrímur það ekki. Af því er ljóst að það þarf heldur betur að grípa til kröftugri aðgerða til að þau átti sig á því að fólk krefst réttlætis og sambærilegra kjara og fólk hefur í nágrannalöndunum einkum í lánamálum.

Næst þarf að efna til friðsamlegra mótmæla á skrifstofum ASÍ og Eflíngar til að mótmæla svikum verkalýðsrekendanna við umbjóðendur sína. Þar sitja skriffinnar sem berjast fyrir verðtryggingu og lánaokri.

En átti þau Jóhanna og Steingrímur sig ekki á kalli friðsamra mótmælenda þá þarf greinilega að gefa þeim sterkara meðal.


Nú er nauðsyn

Við stefnuræðu forsætisráðherra í fyrra mótmæltu þúsundir á Austurvelli lánaokrinu og getuleysi stjórnvalda. Jóhanna varð hrædd og skipaði nefnd og þegar nefndin tók jóðsótt fæddist lítil mús, sem engu máli skiptir fyrir skuldastöðu heimilanna.

Þjófnaðurinn í gegn um verðtrygginguna heldur áfram og lánin hækka og hækka þrátt fyrir að þjóðarframleiðsla dragist saman. Vilhjálmur Birgisson verkalýðsleiðtogi á Akranesi sagði á Bylgjunni í morgun að höfuðstóll þeirra hefði hækkað um 70 milljarða á síðasta ári. Það er álíka og nettóverðmæti sjávarafla af Íslandsmiðum á einu ári.  Sá samanburður sýnir hversu gegndarlaust verðtryggingarránið er.

Á sama tíma og raunverð fasteigna hefur hrunið og lækkað miðað við Evru eða Bandaríkjadal um 70% frá 2008 þá hefur höfuðstóll verðtryggðu lánanna hækkað og hækkað. Ríkisstjórnin hefur ekkert gert til að bregðast við þessu.  Ekki er lengur hægt að una við slíkt aðgerðarleysi.

Í fjárlagafrumvarpi Steingríms J. Sigfússonar er gert fyrir hækkun ákveðinna neysluskatta sem munu enn auka verðbólguna og hækka höfuðstól verðtryggðu lánanna. Þjófur verðtryggingarinnar mun stela síðustu krónunni sem þú átt í húsinu eða íbúðinni þinni.

Leo Tolstoy sagði að það þjóðfélag þar sem ekki væri gætt réttlætis fengi ekki staðist. Íslenska þjóðfélag lánaokursins fær ekki staðist. Í því efni verður réttlætið að ná fram að ganga. Íslenskir neytendur verða að njóta sömu lánakjara og eru á hinum Norðurlöndunum.  Það verður líka að skila ránsfeng verðtryggingarinnar frá hruni til þessa dags og taka verðtrygginguna úr sambandi þegar í stað.  Ekkert minna dugar.

Nú verðum við að sameinast um að mótmæla óréttlæti lánaokursins og standa saman og berjast hvar sem við getum. Í kvöld gefst gott tækifæri til að láta stjórnvöld heyra að okkur er alvara. Við ætlum að ná fram réttlæti. Við ætlum að eiga framtíð með virðingu og reisn. Við ætlum að víkja burtu lánaokri og sérhagsmunagæslu.

Stöndum saman. Mætum kl. hálfátta í kvöld á Austurvöll og sýnum samstöðu gegn verðtryggingu og okri. Mótmælum friðsamlega og af  festu. 

Sýnum samstöðu gegn verðtryggingarofbeldinu. 


Sjáandi sjá þau ekki

Það er einstakt að þegar fólk mótmælir verðtryggingu og lánaokri við þingsetningu, að þá skuli hvorki forsætisráðherra né fjármálaráðherra skilja hverju verið er að mótmæla.

Hagsmunasamtök heimilanna stóð fyrir mótmælastöðu við þingsetningu og krafðist þess réttlætis að íslenskir neytendur ættu kost á sömu lánakjörum og neytendur í nágrannalöndum okkar. Sumir kröfðust líka að ránsfeng verðtryggingar frá hruni til dagsins í dag verði skilað. Þetta voru kröfur mótmælenda.

Allt eru þetta eðlilegar og sjálfsagðar kröfur og raunar forsenda þjóðarsáttar og framfara.

En forsætisráðherra og fjármálaráðherra neita að horfast í augu við þetta og þegar þau tjáðu sig um mótmælin þá annað hvort vissu þau ekki hverjar kröfur mótmælenda voru eða þóttust ekki vita það og ummæli þeirra við spurningu fréttamanna voru gjörsamlega út í bláinn miðað við það tilefni sem um var að ræða og þær spurningar sem að þeim var beint.

Hvað þarf að gera til að Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon skilji sinn vitjunartíma. Þau neita að horfast í augu við það sem ritað er á vegginn að þau eru veginn og léttvæg fundin.


Þingsetning og mótmæli

Í lýðræðisríki er mikilvægt að borgararnir beri virðingu fyrir þeim stofnunum sem fara með lýðræðislegt vald.  Það á við m.a. um Alþingi, ríkisstjórn, dómstóla og lögreglu.

Setning Alþingis er hátíðleg stund, sem markar nýtt upphaf mikilvægustu stofnunar íslensks lýðræðis. Við borgarar þessa lands eigum að sýna þessari stund virðingu sem og Alþingi. Mótmæli og aðsókn að alþingismönnum við það tækifæri er óhæfa. Þess vegna eiga þeir sem vilja fylgjast með þingsetingunni að gera það af virðuleika í samræmi við þá hátíðarstund sem þingsetningin er.

Öðru máli gegnir um það þegar forsætisráðherra flytur stefnuræðu sína á Alþingi þá er mörkuð stefna ríkisstjórnar sem að eðlilegt er að bæði alþingismenn sem og almennir borgarar segi skoðun sína á þess vegna með friðsamlegum mótmælum ef svo ber undir. 

Ég hef hvatt fólk til að mæta við Alþingishúsið þegar forsætisráðherra flytur stefnuræðu sína til að mótmæla því óréttlæti sem íslenskir borgarar eru beittir með verðtryggingu lána. Krafan er að við njótum sambærilegra lánakjara og fólk í nágrannalöndum okkar í lánamálum og hvað varðar verðlag í landinu. Það er eðlilegt að við sýnum þeim sem hafa verið kjörnir til að gæta almannahagsmuna að þeir eru ekki að standa sig. Þar kemur ríkisstjórnin númer eitt. Þess vegna á að mótmæla við stefnuræðu forsætisráðherra.

En það þarf einnig að sýna þeim sem hafa verið kjörnir fulltrúar alþýðu manna í verkalýðsfélögum og ASÍ að þeirra þáttur er ósæmileg og andstæð hagsmunum umbjóðenda þeirra. Verkalýðshreyfingin á Íslandi ber umfram aðra ábyrgð á því lánaokri sem almenningur í landinu hefur þurft að sæta og sætir.  Er ekki kominn tími til að það fólk verði kallað til ábyrgðar ekkert síður en stjórnmálamennirnir?


Menntakefi í molum

Fjórðungur eða 25 af hverjum 100 fimmtán ára stráka geta ekki lesið sér til gagns samkvæmt frétt í Fréttablaðinu.

Þetta þýðir að skólakerfið hefur gjörsamlega brugðist. Lestrarkunnátta er forsenda þess að fólk geti stundað skólanám af einhverju viti.

Nú er það svo að við höfum eitt dýrasta skólakerfi í heimi, en samt bregst það svona gjörsamlega í helsta grundvallaratriðinu. Af hverju er þetta? Eru kennararnir ekki starfi sínu vaxnir?  Virkar menntakerfið ekki? Hvað er að. Það er útilokað annað en að fá svör við því og það strax.

Forsenda framfarasóknar þjóðar er m.a. sú að fólk kunni að lesa og skrifa. Þegar það kemur í ljós að einn af hverjum fjórum drengjum sem eru búnir með skólaskylduna kunna ekki að lesa þá er ljóst að menntakerfið er í molum.

Hvað ætlar menntamálaráðherra að gera í því? 


Vinstri grænir á Suðurnesjum styðja Guðlaug Þór

Vinstri grænir á Suðurnesjum lýsa yfir stuðningi við málaleitan Guðlaugs Þórs Þórðarsonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins um rannsókn á falli Sparisjóðs Keflavíkur og aðdraganda þess.  Guðlaugur Þór hlýtur að vonum að vera ánægður með stuðning úr þessari óvæntu átt.

Ekki er á vísan að róa með það að formaður Vinstri grænna, Steingrímur J. Sigfússon verði eins ánægður með þessa ályktun flokkssystkina sinna.  Engin ráðamaður hefur haft eins mikið um málefni sparisjóðanna að segja og Steingrímur J. Sigfússon og að því er virðist skipað húskörlum sínum að heimila undanþágur fyrir sparisjóði, sem ekki uppflylltu skilyrði laga um fjármálafyrirtæki. Það verður því kærkomið að rannsaka til hlítar hvernig á því stendur t.d. að málefni Byr og Sparisjóðs Keflavíkur síðar Spar/Kef skuli vera í þeim ógöngum með tilheyrandi milljarðakostnaði fyrir ríkissjóð sem raun ber vitni.  Nærtækt virðist að ætla að  fjármálaráðherra, þessi sami Steingrímur J., beri mestu ábyrgð á þeirri ævintýraferð sem farið hefur verið í með gjaldþrota sparisjóði.

Það væri e.t.v. ekki úr vegi að Vinstri grænir á Suðurnesjum brytu odd af oflæti sínu og keyptu og læsu grein þingmanns síns Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins um málið í Morgunblaðinu, en greinin birtist  fyrir nokkrum dögum


Eru Vinstri grænir ekki í ríkisstjórn?

Ríkisstjórn Íslands er ábyrg fyrir hernaði NATO í Afghanistan og Líbýu.  Ráðherrar VG hafa ekki hreyft andmælum eða krafist þess innan ríkisstjórnarinnar að Ísland mótmæli þessum hernaðaraðgerðum NATO og taki fram að Ísland er ekki aðili að þeim.

Ráðherrar og þingflokkur Vinstri grænna er ábyrgur fyrir afstöðu Íslands í utanríkismálum þ.á.m. að andmæla ekki hernaði NATO í Afghanistan og Líbýu. Formaður utanríkismálanefndar Alþingis er auk heldur þingmaður Vinstri grænna.

Nú hefur Steingrímur J af sinni alkunnu snilld fengið forustusauðina í flokksráði VG til að samþykkja að skipuð verði rannsóknarnefnd til að rannsaka af hverju Ísland ber ábyrgð á hernaði NATO í Líbýu. Forustusauðirnir réttu allir sem einn upp hendina meira að segja formaður utanríkismálanefndar Alþingis.

Skyldi Þráinn Bertelsson hafa valið sér vettvang meðal þess meiri hluta þjóðarinnar sem hann lýsti svo fjálglega fyrir rúmu ári sem fá.........?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.8.): 741
  • Sl. sólarhring: 1066
  • Sl. viku: 5267
  • Frá upphafi: 2588669

Annað

  • Innlit í dag: 701
  • Innlit sl. viku: 4905
  • Gestir í dag: 677
  • IP-tölur í dag: 648

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband