Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Dægurmál

Okkar eigin Osló eða hvað?

Við höfum þá staðalímynd af Osló að þar búi nánast eingöngu innfæddir Norðmenn.  Það er rangt.

Meir en einn af hverjum fjórum Oslóarbúum er innflytjandi. Með sama áframhaldi verða innflytjendur einn af hverjum 3 Oslóarbúum árið 2015.

Í Noregi er nú  tekist á um það með hvaða hætti á að taka á vandamálum sem komið hafa upp í skólum þar sem nemendum hefur verið skipt í bekki eftir því hvort þeir eru af norsku bergi brotnir eða innflytjendur. Gagnrýnendur segja að þetta sé aðskilnaðarstefna eða Apartheit, en skólayfirvöld í viðkomandi skólum benda á að þetta sé nauðsyn vegna þess að svo mikið af norskum nemendum skipti annars um skóla.

Norðmenn eru komnir í mikinn vanda með aðlögun innflytjenda að norsku samfélagi. Stórir hópar innflytjenda sérstaklega Múslímar vilja ekki aðlagast neinu en halda sínum siðum og helst eigin lögum og dómstólum. 

Á árunum 1990-2009 fluttu yfir  420.000  innflytjendur  til Noregs eða nánast ein og hálf íslenska þjóðin.

Þeir sem halda að það sé ekki vandamál að taka á móti stórum hópum innflytjenda ættu að kynna sér hvernig norskt samfélag er að þróast.

Hér á landi er háum fjárhæðum skattgreiðenda varið til að reka áróður fyrir fjölmenningarstefnunni. Bækur eru gefnar út á kostnað skattgreiðenda, Háskólinn og fræðafélög gefa út rit eða halda ráðstefnur á kostnað skattgreiðenda þar sem lögð er áhersla á jákvætt gildi innflutnings útlendinga til landsins. Á sama tíma er gert lítið úr sjónarmiðum þeirra sem vilja ganga rólega um þessar dyr. Samt sem áður hefur allt komið fram, sem þeir sem vöruðu við miklum innflytjendastraumi hafa sagt.

Af hverju er andstæðum skoðunum hvað varðar fjölmenningarstefnuna ekki gert jafnhátt undir höfði af stjórnvöldum?

Sem betur fer hefur flestum innflytjendum gengið vel að aðlagast íslensku samfélagi og einnig sem betur fer hefur mikið af góðu og harðduglegu fólki komið hingað sem innflytjendur.

Við þurfum samt að gæta varúðar og hafa stjórn á landamærunum annars lendum við innan 5 ára í sömu vandamálum og Norðmenn eru núna. 

Það skiptir líka máli hvaðan innflytjendurnir koma hvort sem okkur líkar betur eða verr.  Aðlögunin gengur betur og vandamálin verða minni, þeim mun líkari okkur sem innflytjendurnir eru hvað varðar trú og mannréttindi.

Þessar staðreyndir verða alltaf til staðar hversu miklu fé skattgreiðenda er varið til að koma á framfæri röngum og einhliða áróðri fjölmenningarsinna.

 

 

 


Forsætisráðherra afneitar tveim ráðherrum

Á innan við þrem dögum hefur forsætisráðherra afneitað tveim ráðherrum sínum og gagnrýnt störf þeirra í ríkisstjórn sinni.

 Á föstudaginn s.l. sagðist forsætisráðherra  afar ósátt við vinnubrögð og ákvörðun  Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra í Grímstaðamálinu. Ögmundur hefði átt að ræða málið í ríkisstjórn en ekki taka einhliða ákvörðun í málinu.   

 Í dag gagnrýnir forsætisráðherra sjávarútvegsráðherra harkalega og segir vinnubrögð ráðherrans óásættanleg og ekki boðleg í samskiptum flokka.

Ekkert er við það að athuga að Jóhanna Sigurðardóttir hafi skoðanir á mönnum og málefnum. En hún er forsætisráðherra og sem slík ber henni að haga sér og beita sér í samræmi við það.  Telji forsætisráðherra vinnbrögð ráðherra óásættanleg, þá á hún þann eina kost að víkja honum úr ríkisstjórn. 

Hróp Jóhönnu Sigurðardóttur á torgum og gagnrýni á samráðherra í ríkisstjórn hennar sjálfrar sýna best hversu óhæf forsætisráðherra hún er.

Ef eitthvað mark á að taka á Jóhönnu Sigurðardóttur miðað við það sem hún hefur sagt að undanförnu þá ber henni að annað hvort að víkja þeim Ögmundi Jónassyni og Jóni Bjarnasyni úr ríkisstjórn eða biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt.

Svona ríkisstjórn er ekki á nýtt ár setjandi.


Til hamingju Ögmundur.

Ögmundur Jónasson ákvað taka langtímahagsmuni íslensku þjóðarinnar fram yfir skammtímahagsmuni og hafna sölu á Grímsstöðum á fjöllum til kínversks fjárfestis.  Það ber að þakka Ögmundi fyrir að standa einarðlega gegn landssöluáformum Samfylkingarinnar og fara að lögum.

Nú  ærist landssöluflokkurinn, Samfylkingin, og hefur í heitingum við Ögmund Jónasson sem situr þó í skjóli formanns Samfylkingarinnar

Einn þingmaður Samfylkingarinnar hótar að hætta að styðja stjórnina. Þá hefur stjórnin ekki lengur þingmeiri hluta. Jóhanna virðist ekki hafa áhyggjur af því. Ef til vill hefur Össur sendiherraembætti eða annað sambærilegt til að kaupa stuðning ef í harðbakkann slær. 

Atlaga og heift Samfylkingarinnar gagnvert Ögmundi nú vegna þess að hann hafnaði landssölu er þessu fólki til skammar. Átti ráðherrann að brjóta lög? 

En eigum við ekki að athuga að það kann að vera nauðsynlegt að krefjast breytinga á EES samningnum og takmarka mögleika útlendinga á að kaupa stóra hluta landsins?

Þá þarf að vera í landinu ríkisstjórn með landssöluflokkinn Samfylkinguna í stjórnarandstöðu.


Á Ólafur Ragnar að fagna?

Í útvarpsfréttum í morgun var sagt að mikill meiri hluti styddi sitjandi forseta Ólaf Ragnar Grímsson. Sama mátti líka lesa á vefmiðlum. En þegar að er gáð þá er þetta ekki rétt.

Miðað við upplýsingar á netmiðlum, var spurt hvort fólk gæti hugsað sér að endurkjósa forsetann í næstu forsetakosningum. Þetta er ávirk spurning og stjórnmálafræðingur eins og Ólafur Ragnar veit vel hvað það þýðir.

Af þeim sem spurðir voru sögðu 40.27% að þeir gætu hugsað sér að kjósa Ólaf, en 59.73% aðspurðra neituðu alfarið að  styðja Ólaf eða tóku ekki afstöðu til þessarar ávirku spurningar.

Sínum augum lítur að sjálfsögðu hver á silfrið. Fjölmiðlamenn láta eins og forsetinn eigi að vera harla glaður og meta stöðu sína sterka út frá könnuninni.  Ég fæ ekki séð að það sé rétt niðurstaða.

Hafi Ólafur Ragnar Grímsson það í huga að bjóða sig fram til forseta einu sinni enn, þá hlítur það að vera áhyggjuefni fyrir hann að tæp 60% skuli ekki lýsa yfir stuðningi við hann.

Ég man ekki eftir að sitjandi forseti hafi mælst með jafn lítið fylgi meðal kjósenda og samkvæmt þessari könnun.


Tær snilld

Ræða Davíðs Oddssonar á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins í gær var tær snilld. Ljóðið eftir Hannes Hafstein  í upphafi ræðunnar gaf henni þungan undirtón og alvöruþrunga sem hæfði vel við þann alvarlega þjóðfélagsveruleika sem ræðumaður fjallaði um.  Þessi alvarlegi undirtónn í ræðunni skilaði sér vel jafnvel þó að ræðumaður færi á kostum í þeirri kímni og skemmtilegu orðavali sem fáum er eins vel lagið að beita og Davíð. Í svipinn man ég bara eftir einum stjórnmálamanni sem átti til svipaða spretti í slíku orðavali hárbeittu háði gagnvart pólitískum andstæðingum.  

Ræður frambjóðenda til formanns og varaformanns ullu mér hins vegar vonbrigðum.

Á þessum lokadegi Landsfundar ræðst hvort við andstæðingar verðtryggingar og baráttumenn fyrir réttlátri niðurfærslu höfuðstóla verðtryggðra lána höfum erindi sem erfiði á Landsfundinum.  Fjölmiðlar hafa  engan áhuga á þvíþ Þeirra fréttaflutningur snýst eingöngu um hver verður kosinn formaður.

Nútímafjölmiðlun er svo yfirborðskennd og ómálefnaleg að efnistök lélegrar fjölmiðlunar bitnar á faglegri pólitískri umræðu.


Glæsileg setning Landsfundar

Setning Landsfundar var bæði þjóðleg og virðuleg. Ræða formanns Sjálfstæðisflokksins var vel uppbyggð og sterk. Ef til vill fór formaðurinn  þó aðeins fram úr sér þegar hann fjallaði um Landsdómsákæruna á hendur Geir H. Haarde.

Það var eftirtektarvert og ánægjulegt að formaðurinn skyldi ekki nota setningaræðuna til að fjalla um formannskjör í flokknum heldur flytja Landsfundarfulltrúum og öðru Sjálfstæðisfólki jákvæða og framsækna stefnu í þjóðmálum.

Bjarni Benediktsson hefur ekki áður flutt jafn sterka ræðu á Landsfundi og nú.

Það var gaman að sjá þjóðlega umgjörð og yfirbragð við setningu fundarins og gamla trausta ræðustólinn í stað tildurstólsins sem var á síðasta Landsfundi.  En það vantaði eitt. 

Þjóðfánann vantaði. Það má ekki henda aftur að íslenski fáninn sé ekki í öndvegi við setningu Landsfundar. 

Því má ekki gleyma að Sjálfstæðisflokkurinn er íslenskur flokkur sprottinn úr íslenskum jarðvegi  á grundvelli íslenskrar menningar og kristilegra mannúðargilda.


Fréttastofa VG ég meina RÚV

Í gær var sagt frá því í kvöldfréttatíma Ríkissjónvarpsins að þingmenn stjórnarandstöðunnar hefðu gengið úr þingsal vegna óánægju með afgreiðslu fjáraukalaga. Það eru nokkur tíðindi og  þess vegna talaði þingfréttaritari Sjónvarpsins við fjármálaráðherra, en einhverra hluta vegna engan annan.

Fjármálaráðherra sagði að útganga þingmanna stjórnarandstöðuþingmanna væri vegna Landsfundar Sjálfstæðisflokksins eins og sá flokkur væri einn í stjórnarandstöðu. Ekki komu fram frekari skýringar og stjórnarandstaðan fékk ekki að skýra sitt mál. 

Þessi frétt var  endurtekin óbreytt kl. 22. Steingrímur J. maðurinn sem mótmæli þingmanna beindust gegn var sá eini sem talað var við.

Þessi fréttamennska RÚV er eins og í einræðisríkjum þar sem tjáningarfrelsi er takmarkað og stjórnvöld stjórna fjölmiðlum. Í þessu tilviki hefði verið mikilvægt að ræða við leiðtoga stjórnarandstöðunnar vegna þess að það er ekki á hverjum degi sem stjórnarandstaðan velur þennan kost.

Sérstök fréttastofa Vinstri grænna hefði ekki afflutt fréttir með betri hætti fyrir Steingrím J en fréttastofa RÚV gerði í þessu tilviki.  En það er því miður ekki í fyrsta skipti.


Rekinn fyrir að segja satt

Bandaríski hershöfðinginn Peter Fuller hefur verið rekinn úr starfi sínu í Afghanistan fyrri að gagnrýna Hamid Karzai forseta Afganistan og segja að Afganar væru vanþakklátir.  Hershöfðinginn sagði að ríkisstjórnin í Kabúl væri ekki í tengslum við raunveruleikann og hann vonaði að næsti forseti Afganistan yrði skárri.

Fuller sagði að Bandaríkjamenn væru að eyða um 12  billjónum dollara í að byggja upp her og lögreglu auk margs annars en á sama tíma segði Karzai að ef kæmi til átaka milli Pakistan og Bandaríkjanna mundu Afganar standa með Pakistan.  Fuller sagði að þetta væri eins og að stinga sig í augun með nál auk þess sem Afganar vildu fá skriðdreka og herflugvélar gefins eingöngu til að nota á hersýningum.  Yfirmenn hershöfðingjans sögðu að þessi ummæli væru óheppileg og leystu hann tímabundið frá störfum.

Fuller var semsagt að segja satt en óheppilegt. Hann er ekki sá eini sem er rekinn frá Afganistan  fyrir að segja satt. Stanley McChrystal fyrrverandi yfirmaður heraflans í Afganistan var rekinn fyrir sömu sakir eftir  blaðaviðtal í júní 2010.

Yfirmenn í bandaríska hernum eru farnir að spyrja af hverju erum við hérna og til hvers?

Herráðsforingi Íslands Össur Skarphéðinsson sem ólmur fór í stríðið við Gaddafí í Líbýu spyr ekki svona spurninga. Hann vill leggja sitt af mörkum til að viðhalda stríðsrekstri í Afganistan og skeytir þá engu um hversu vitlaust þetta stríð er. Nýjasta framlag Össurar er að etja mágkonu sinni Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur fyrrum ráðherra og borgarstjóra á foraðið og senda hana til Afganistan. Þar á Ingibjörg að vinna að kvennfrelsismálum fyrir 70 milljónir í laun á ári. 

Ríkisstjórn Íslands þar með talinn Steingrímur J er greinilega þeirrar skoðunar að eðlilegt sé að halda þessum fráleita stríðsrekstri í Afganistan áfram og loksins náði Össur að flæma Ingibjörgu Sólrúnu burt úr íslenskri pólutík og  af landi brott.


Beðið fyrir steikinni

Fræg fatahengilmæna Giesela Bündchen viðurkennir að vera mikil kjötæta og hún elski líka dýr. Þess vegna segist hún biðja fyrir steikinni áður en hún borðar hana. Auk þess segist hún leggja hendur yfir steikina og blessa hana þakklát fyrir að hún skuli eitt sinn hafa lifað.

Það er mismunandi hvernig fólk sækir sér sáluhjálp og aflát misgerða og í sjálfu sér er þetta ekkert fráleitarar en margvíslegt annað ritual. 

Hvað sem þessu líður þá hefur Gíesela þessi fengið þá blessun að vera ríkasta módel í heiminum. Verði henni að góðu.

 


Upphefðin kemur að utan

Paul Krugman hagfræðiprófessor frá Bandaríkjunum,  lýsir enn einu sinni yfir aðdáun sinni á því hvað vel hafi tekist til á Íslandi frá hruni og stuðningsmenn Samfylkingarinnar mega ekki vatni halda og lýsa hver um annan þveran  ánægju sinni með Krugmann.

Athyglivert er í þessu sambandi að skoða að Paul Krugmann bendir sérstaklega á hvað það hafi verið gott fyrir Ísland að hafa krónuna og getað skert lífskjör almennings með því að lækka laun um allt að 70% miðað við fjölþjóðlega gjaldmiðla. 

Óneitanlega er það sérstakt að flokksspírur Samfylkingarinnar skuli hver um aðra þvera ásamt nokkrum verkalýðssinnum lýsa yfir ánægju með þessa gríðarlegu tekjuskerðingu launþega og mikilvægi þess að hafa íslensku krónuna.

Paul Krugmann kemur ekki inn á það að yfir 5.000 Íslendingar hafa flúið land frá hruni og skuldir heimila eru hæstar á Íslandi.

Paul Krugmann dáist að  því að fjármála- og ríkiskerfið á Íslandi skuli komast upp með að stela eignum fólksins með verðtryggingu og lækka laun að raungildi um allt að 70% til að bankar og ríki komist á þokkalegan kjöl. 

Er þetta virkilega það sem Samfylkingarfólk, verkalýðshreyfing og þeir sem kalla sig til vinstri í íslenskum stjórnmálum telja mikilvægast til heilla fólkinu í landinu og lýsa ánægju með?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.8.): 541
  • Sl. sólarhring: 1011
  • Sl. viku: 5067
  • Frá upphafi: 2588469

Annað

  • Innlit í dag: 511
  • Innlit sl. viku: 4715
  • Gestir í dag: 501
  • IP-tölur í dag: 483

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband