Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Umhverfismál

Nýju fötin borgarstjórnarinnar

Borgarfultrúar allra stjórnmálaflokka hamast við það á hópeflis-trúarsamkomunni í París, um hnattræna hlýnun, að setja fram hugmyndir og leiðir til að gera íbúum sínum sem erfiðast fyrir í framtíðinni í samgöngu og atvinnumálum og semja reglur til að geta haft sem mest afskipti af lífi og starfi borgaranna í framtíðinni.

Á sama tíma og Kir-Royal lepjandi borgarfulltrúar Reykjavíkurborgar eyða tíma í vandamál vegna hnattrænnar hlýnunar, stendur venjulegt fólk á Stór-Reykjavíkursvæðinu í ströngu við að komast leiðar sinnar í mesta snjóþunga sem mælst hefur í meira en öld. Það í einum mesta kulda sem mælst hefur lengi í desemberbyrjun. Degi B. Eggertssyni með fulltingi annarra flokka í borgarstjórninni liggur þar af leiðandi á,  að finna sem allra skepnulegustu reglur til að tryggja að í framtíðinni komist borararnir helst hvorki lönd né strönd og þurfi að leita út í dreifbýlið eftir arðbærri vinnu í framleiðslugreinum.

Franski heimspekingurinn Voltaire skrifaði bókina Birting til að gera grín að trúarsetningum kirkjunnar á 18.öld. Með sama hætti væri hægt að skrifa bók núna til að gera sambærilegt grín að trúarsetningum hlýnunarsinna. Hvað sem gerist í veðrinu er skrifað á hnattræna hlýnun. Nú þegar kuldi og snjór herjar á íbúa Norðurslóða, Reykvíkinga sem aðra, segja hlýnunarprestarnir að þetta sé vegna hlýnunar af mannavöldum. Aukin kuldi er þá vegna hlýnunar eins og Altunga í Birtingi sagði, þegar hann og Birtingur voru hnepptir í þrældóm að það væri vegna þess að algóður Guð gerði eingöngu góða hluti. Þrældómurinn hlaut því að vera góður.

Eitraður útblástur jarðefnaeldsneytis vegna loftslagsráðstefnunnar í París nemur meiru en tveggja ára útblæstri Eistlands og sennilega meir en fimm ára útblæstri Íslands. Reglurnar sem elítan í París er að tala um að þurfi að setja á venjulegt fólk gildir bara fyrir venjulegt fólk en ekki fyrir Kir-Royal lepjandi ráðstefnugesti í París.


Mikil gleði mikið gaman

Flugvélafarmar stjórnmálamanna, embættismanna og annarra sem skattgreiðendur borga fyrir munu á næstu dögum fljúga til Parísar til að vera uppfyllingarefni á loftslagsráðsstefnunni í Paris. Ekki er búist við að nokkur af þessum fjölda hafi nokkuð til málanna að leggja eða eigi nokkuð erindi í sjálfu sér. Nema til að vera í mikilli gleði og hafa mikið gaman allt á kostnað skattgreiðenda.

Slíkt endemis rugl eins og að senda á annað hundrað manns úr stjórnmálastéttinni og annað eins af embættismönnum mundi aldrei ganga nema um væri að ræða víðtæka samspillingu allra íslenskra stjórnmálaflokka sem eiga það undir sér að hafa fengið fulltrúa kjörna á Alþingi eða í sveitarstjórnir.

Einna augljósust er samspilling stjórnmálaflokkanna í borgarstjórn Reykjavíkur þar sem allir flokkar senda sinn fulltrúa og tvo þeir sem betur mega. Á sama tíma hefur Reykjavíkurborg ekki haft efni á að gera við götur borgarinnar sómasamlega þannig að ökumenn geta hjassast ofan í samspilllingarholurnar í hvert skipti sem þeir leggja götur Reykjavíkurborgar undir dekk. En það skiptir væntanlega minna máli en að fá að bergja Royal Kir við setningarhátíð loftslagsráðstefnu ásamt þeim 49.800 öðrum ráðstefnugestum sem verða mættir til leiks- ef þeir verða þá ekki fleiri.

Á sama tíma og þeir 200  samspillingarstjórnmálamenn þjóðarinnar sem fara til Parísar, bergja þar eðalvínið og tala um hnattræna hlýnun af mannavöldum má mörlandinn kúra frostbitinn í kulda, trekki og snjókomu sem sjaldan fyrr sunnan Helkunduheiðar. 

Já hvar skyldi hún nú eiginlega vera þessi hnattræna hlýnun sagði maðurinn um leið og hann brá sér í ullarsokkana og föðurlandið. 

 


Íshellan vex og þykknar á Suðurhvelinu.

Í skýrslu bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA kemur fram að ísinn á suðurpólnum fer vaxandi. Samkvæmt upplýsingum frá gervitunglum þá óx ísinn á suðurhvelinu um 82 billjónir tonna á ári á árunum 2003-2008. Það gerir meira en sem nemur bráðnun annarsstaðar í heiminum þar sem hún er þá fyrir hendi. Þessar niðurstöður eru í andstöðu við rannsóknir IPCC sem segir að yfirborð sjávar hækki um o.27 millimetra á ári vegna bráðnunar suðurskautsíssins. Niðurstöður IPCC hafa iðulega reynst rangar og mælingar NASA eru mun nákævmari þannig að aðrir en hlýnunartrúboðar leggja niðurstöður NASA frekar til grundvallar.

Spurningin er þá hvað veldur því að yfirborð sjávara hækkar ef það er ekki vegna aukinnar bráðnunar íss. Þá er líka spurningin er yfirborð sjávar að hækka meira en sem nemur eðlilegum sveiflum og spyrja má hvernig stendur á því að hin stórkostlegu hafnarmannvirki sem Heródes mikli gerði í Caesarea Maritima 15 árum fyrir okkar tímatal eða fyrir 2030 árum eru nú á kafi í sjó jafnvel þó að hnattræn hlýnun hafi ekki orðið sem neinu nemur nema tímabundnum sveiflum á þessu 2000 ára tímabili.

Uppgötvanir NASA um að íshellan á suðurhveli sé að vaxa og þykkna vekur óneitanlega margar spurningar um nákvæmni þeirra loftslagsvísinda sem haldið er að stjórnmálamönnum og trúarleiðtogum til að fá þá til að taka skaðlegar ákvarðanir til verndar lífríkinu á fölskum forsendum. Ákvarðanir sem leiða til aukinnar ríkishyggju og ríkisafskipta, versnandi lífskjara og takmörkunar á frelsi einstaklingsins.

Vitlausar ákvarðanir geta þó iðulega fengið stuðning úr óvæntum áttum eins og frá stórfyrirtækjum og fjármálakerfinu, sem búa til verðmæti úr bönnum. Þannig gerðist það með íslenska kvótakerfið í sjávarútvegi sem fjármálafyrirtækin gerðu að verðmætum þar sem engin verðmæti voru í fiskveiðiréttindunum fyrir daga kvótakerfisins og sama er að gerast á hnattræna vísu varðandi kolefnislosunarkvóta, sem ganga nú handa á milli dýrum dómum. Þegar stórkapítalið og fjármálakerfið tekur höndum saman við stjórnmálalega og vísindalega vitleysu verður erfiðara að komast burt úr bullinu eins og íslenska kvótakerfið í sjávarútvegi hefur sýnt þar sem tugir milljarða verðmæta synda um og úr íslenskri lögsögu án þess að þær séu nýttar vegna galla kvótakerfisins.


Það sem ég veit:

Charles Moore segir í athyglisverðri grein í dag:

"Like most people possibly everyone-who takes part in the global-warming debate, I do not know what will happen to the temerature of the Earth in a century´s time. What I do know because it is clearly visible, is that the attempt to run the world as if we can control our eco-fate 100 years hence is statistically fantastical, politically impossible, economically ruinous and morally bogus. The lights are going out all over Europe lamented Sir Edward Grey in 1914. That was because of war. Now we are doing our best to put them out all over again, in the name of the common good."

Í lauslegri þýðingu:Eins og flestir jafnvel allir sem taka þátt í umræðunni um hnattræna hlýnun, þá veit ég ekki hvað muni gerast varðandi hitastig jarðarinnar á einni öld. Það sem ég veit af því að það er augljóst, er að tilraun til að stjórna heiminum þannig að við getum ráðið við náttúruleg örlög okkar að hundrað árum liðnum er tölfræðilega fáránlegt, ómögulegt af stjórnmálalegum ástæðum, fjárhagslega eyðileggjandi og siðferðilega falskt. Ljósin slökkna nú um alla Evrópu sagði Edward Grey 1914. það var vegna styrjaldar, Nú gerum við okkar besta til að slökkva á þeim aftur í nafni almannahagsmuna.

Skyldu þeir tugir eða hundruð sendimanna sem Ísland sendir á loftslagsráðstefnuna á flugvellinum fyrir utan París telja þetta vera raunveruleikann eða halda þeir að við í dag getum ráðið loftslagi jarðarinnar árið 2.1015.


Mistök ársins

Borgarstjórinn í Reykjavík hefur sjálfsagt lesið leiðara Daily Telegraph á sunnudaginn undir fyrirsögninni "Af hverju loftslagsamningur verður mistök ársins" og talið að það eina sem gæti bjargað jarðkringlunni frá ofhitnun að senda fulltrúa allra flokka í borgarstjórn Reykjavíkur á ráðstefnuna með tilheyrandi brennslu jarðefnaeldsneytis og sóunar á fjármunum.

Í leiðara enska stórblaðsins Daily Telegraph 1.11.2015 kemur fram að um 40 þúsund manns muni hittast á stærsta flugvelli Evrópu rétt fyrir utan París á ráðstefnu sem þeir voni að muni breyta heiminum þannig að hlýnun jarðar verði ekki meiri en 2 gráður á öldinni. Blaðið segir að aðal hindrunina í vegi slíks samnings sé að þróunarlöndin séu ekki tilbúin til að gera neinn samning nema þróuðu Vesturlöndin borgi þeim yfir 100 billjónir á ári í gegn um sérstakan loftslagssjóð.

Þegar liggur fyrir afstaða 20 landa í málinu, sem bera ábygð á 81% losun CO2, að sögn blaðsins. Kína sem er í fyrsta sæti með 24% af heildarlosuninni áætlar að tvöfalda losunina fram til ársins 2030. Indland sem er í þriðja sæti áætlar að rúmlega þrefalda sína losun. Sádar, Íranir og loks Sameinuðu Arabísku furstadæmin,  sem hafa meira en tvöfaldað losun sína frá árinu 2002 hafa ekki sett fram tillögur. Brasilía er í 11 sæti og hefur aukið losun, en telur sig vera á réttri leið með því að fella og brenna frumskóginn á Amason svæðinu.

Hvaða ríki eru þá eftir. Bandaríkin sem eru í 2.sæti losunarríkja mun að sögn blaðsins ekki gera neitt þó að Obama "may talk the talk about his ambitious plans for the US" þá muni Bandaríkin ekki taka á sig neinar byrðar í þessum efnum að mati blaðsins og mörg ríki Evrópusambandsins hafi þegar hafnað að fara eftir stefnu bandalagsins um að draga úr losun.

Græni loftslagssjóðurinn segir blaðið að hafi fengið framlög upp á 700 milljónir dollara í stað 100 billjóna og þá vanti 99.3 billjónir dollara upp á v. kröfu þróunarlandanna.

Í lokin segir blaðið að eina raunverulega spurningin sem sé ósvarað,  eftir að mistekist hafi að ná bindandi samningi í París, sé sú hve lengi enn það taki fyrir þessa dýrustu og vitlausu hræðslusögu mannkynssögunar að verða að engu ("how much longer it can be before the most expensive and foolish scare story in history finally falls apart".)

Það er því verk að vinna fyrir Dag og félaga hans úr borgarstjórninni á ráðstefnunni. Að sjálfsögðu voru allir stjórnmálaflokkar sammála um að eyða peningum skattborgaranna í ferðalagið fyrir fulltrúa að sjálfsögðu allra stjórnmálaflokka. Minna mátti það nú ekki vera.


Nútíma draugasögur

Draugasögur voru áður fyrr sagðar af hjátrúafullu fólki sem hafði mun takmarkaðri þekkingu en við höfum í dag. Vegna aukinnar þekkingar hafa gömlu draugasögurnar tekið breytingum og orðið nútímalegri á meðan þær gömlu hreyfa ekki við óttakennd neins.

Um nokkurt skeið hafa rutt sér til rúms nútíma draugasögur sem iðulega eru búnar til í nafni vísinda og umfram þekkingar þeirra sem telja sig best þekkja.  Sameiginlegt þessara vísindadraugasagna er aðallega tvennt. Í fyrsta lagi krafa um aukin fjárframlög til viðkomandi vísindamanna og í öðru lagi stórfellt inngrip ríkisvaldsins til að koma í veg fyrir aðsteðjandi vá jafnvel tortímingu alls mannkyns. Þessar draugasögur hljóma því eins og himnasending í eyrum hugmyndasnauðra sósíalista.

Í upphafi síðustu aldar reiknuðu vísindamenn út að helstu stórborgir jarðar mundu grafast í hrossaskít og kröfðust aðgerða. Aldamóta tölvuveiran leiddi til aðgerða vegna einhvers sem vísindamenn á sviðinu héldu fram að mundi gerast en aðrir sáu ekki vitræna glóru í enda var þetta rugl.  Vandamál  vegna farsíma er eitt  t.d. að slökkva verði á raftækjum í flugi án þess að það sé nokkur ástæða til þess.

Versta og dýrasta draugasagan hefur verið um hnattræna hlýnun af mannavöldum. Sú draugasaga hefur þegar valdið víðtækum ótta fjöld fólks,  kostað gríðaelga fjármuni og dregið úr hagvexti.

Engu breytir þó hlýnun jarðar hafi ekki verið til staðar síðustu 16 árin. Áfram halda svonefndir vísindamenn að ausa út nýjum hryllingssögum sem engin fótur reynist síðan fyrir þegar fylling tímans hefur gert þær hlægilegar. En hver stenst fullyrðingar um að yfir 90% vísindamanna séu þessarar skoðunar.  Það þýðir þá að þeir sem hallda öðru fram eru í besta falli rugludallar að mati þeirra sem telja að vísindakenningar sannist og afsannist á grundvelli lýðræðislegra kosninga. 

Brennisteinsmengun frá gosinu í Holuhrauni sýnir okkur hvað við erum miklir maurar á jarðkringlunni í samanburði við náttúruöflin.  Ef til vill hreyfir það við einhverjum sem þora þá að véfengja vísindamenn sem iðulega fá feit framlög úr ríkissjóði vegna fylgispektar við draugasögurnar.

Í mörg ár hefur því verið haldið fram að mikli hlýnun á ströndum Kaliforníu og Oregon fylkjum í USA væri hnattrænni hlýnun að kenna. Nú er komin niðurstaða eftir langvinna rannsókn sem segir að það hafi ekkert með það að gera heldur breytingar á vindakerfi í þessum heimshluta. En slíkar breytingar séu alltaf að eiga sér stað og geti staðið um árabil jafnvel í aldir.

Skipta þessar staðreyndir einhverju máli? Eða eigum við að halda áfram að kasta góðum peningum á eftir vondum, draga úr hagvexti og auka atvinnuleysi. 


Vitræn barátta og upphlaup.

Flestir eru sammála um að ekki skulið gengið of nærri landsins gæðum og aðgát skuli höfð til að við skilum komandi kynslóðum landinu í svipuðu helst betra ástandi en þegar við tókum við því.

Þó við séum sammála um þetta meginmarkmið þá eru líka flestir á því að eðlilegt sé að nýta landkosti til arðsköpunnar og uppbyggingar í landinu.  Í nærumhverfinu er mikilvægt að kenna fólki að fara vel með og skilja ekki eftir sig rusl og drasl út um allt eins og því miður er allt of algengt að sjá. Þar er verk að vinna.

Náttúruvernd er ekki það sama og koma í veg fyrir allar framkvæmdir sem raska að einhverju leyti umvherfinu.  Hún er heldur ekki fólgin í að gera þær kröfur að litlum hagsmunum megi ekki fórna fyrir mikilvæga hagsmuni.

Undanfarin ár hafa þau sem helst hafa gert sig gildandi í sambandi við náttúruvernd iðulega valið sér vond vígi til að berjast í. Virkjanir í Þjórsá eru hagkvæmasti virkjanakosturinn í landinu og hefur lítið jarðrask á landinu í för með sér. Sama á við um síðustu ákvörðun umhverfisráðherra. Það er því holur hljómur og órökrænn í máli þeirra sem vilja blása til sóknar gegn þessum áformum og tala um að þarna sé á ferðinni aðför fólks sem sé sama um umhverfi sitt. 

Þó svo að það sé ákveðið að nýta hagkvæma virkjunarkosti þá þarf ekki að hefja framkvæmdir fyrr en þörf er fyrir orkuna það er svo annað mál. 

Umhverfisverndarsinnar sem andæfa hagkvæmum virkjunarkostum eins og í Þjórsá eða grípa til fráleitra aðgerða vegna vegagerðar um hraun sem engu máli skiptir koma álíka óorði á náttúruvernd og sagt hefur verið að rónarnir á brennivínið.  Þau skaða málstaðinn í stað þess að vinna honum gagn.


Barátta sem drepur miðborgina

Á sama tíma og fyrirbrigðið í stóli borgarstjóra berst fyrir þrengingum á götum og aksturshindrunum með góðri hjálp Gísla Marteins ræða menn í Bretlandi um að þessi stefna hafi beðið skipbrot.

Í Bretlandi er talað um að setja nýjar viðmiðanir til að auðvelda bílaumferð, þá helst miðborgarumferð. Stefna þeirra Gísla Marteins og fyrirbrigðisins í stóli borgarstjóra er sögð hrekja bílstjóra frá því að versla í miðborginni en stunda þess í stað viðskipti á netinu eða stórmörkuðum í úthverfum.

Skortur á bílastæðum, þrengingar á götum og hátt verð í tímabundin bílastæði dregur úr löngun fólks til að fara í miðbæinn. Mikilvægt er að bílastæðum í og við miðbæinn verði fjölgað þau verði örugg og ódýr ef vilji er til að skapa daglega meira líf í miðborgarkjarnanum.

Sumarfríum er að ljúka og skólar að byrja. Umferð þyngist. Víða í borginni eru umferðarteppur og umferð gengur hægt vegna þess að ekki hefur verið hugað að nauðsynlegum umbótum á umferðarmannvirkjum.  Í komandi umferðarteppum í vetur geta bílstjórar í Reykjavík hugsað til Jóns Gnarr og meðreiðarsveina hans í umferðarþrengingunum.  Minnast þess í leiðinni að það er nauðsynlegt að kjósa fólk í borgarstjórn sem veit hvað það er að gera og á að gera og skilur samhengi hlutanna.

Kosningar eru nefnilega alvörumál líka borgarstjórnarkosningar. Ekki grín og ekki fíflska.

 


Af hverju ekki hvalkjöt?

Nokkrir eigendur veitingastaða telja það sér til tekna að lýsa því yfir að þeir bjóði neytendum ekki upp á hvalkjöt. Ég veit ekki til að nokkur af þessum stöðum hafi nokkru sinni boðið viðskiptavinum sínum upp á hvalkjöt þannig að hér er þá ekki neitt nýtt á ferðinni nema yfirlýsingin.

Óneitanlega hefði viðskiptavinum nokkurra af þeim kaffistöðum sem auglýsa hvalkjötsskort brugðið í brún ef hvalkjöt hefði allt í einu birst á matseðlinum auk kaffibrauðs og Hnallþóra sem þar eru jafnan í boði. Sama er að segja um veitingastaði fyrir grænkera sem eru ekki með  kjöt á boðstólum.

Undirtónninn í yfirlýsingunni er þó alvarlegur. Talsmaður hvalkjötsyfirlýsingarinnar lætur í veðri vaka að það sé siðferðilega ámælisvert að bjóða upp á hvalkjöt eða borða það.  Af hverju? Dýrin eru ekki í útrýmingarhættu. Ekki er um verri meðferð á dýrum að ræða en gengur og gerist við kjötframleiðslu.

Barátta gegn loðdýrarækt og selveiðum er jafnundarleg. Einhver háskólaspekingur kom með gjörsamlega rakalaus andmæli gegn loðdýrarækt í fyrradag. Slík andmæli eru raunar ekki ný af nálinni. Brigitte Bardot sem einu sinni var fræg fyrir fríðleika fór í tildurklæðnaði sínum á norðurslóðir til að mótmæla veiðum og vinnslu selaafurða og það hafa ýmsir aðrir gert án nokkurra skynsamlegra raka. 

Rómantískir sveimhugar víða um heim virðast telja að nauðsyn beri til að koma í veg fyrir að fólk á norðurslóðum nýti með sjálfbærum hætti þau gæði sem náttúran býður upp á. Rökin eru alltaf tilfinningaþrungin, en án hagrænnar eða vistræðilegrar skírskotunar.

Það er slæmt að veitingahúsaeigendur skuli taka þátt í svona auglýsingaherferð. Með sömu rökum og sjónarmiðum mætti mótmæla ansi mörgu sem finnst á matseðli sumra þeirra.

 


Forseti í leit að tilgangi

Dug- og úrræðalitlir forustumenn í stjórnmálum kosta skattgreiðendur iðulega mikið fé þegar þeir freista þess að afla sér vinsælda og sýna fram á að þeir hafi takmark og tilgang.

Í gær lýsti Barack Obama fjálglega hvernig hann ætlaði að berjast gegn loftslagsbreytingum og koma í veg fyrir að komandi kynslóðir fái plánetu sem ekki verði hægt að laga. Allir geta tekið undir þetta.

Bandaríkin hafa um áratuga skeið verið mesti mengunarvaldur heims og sóað meira jarðefnaeldsneyti en aðrir. Notkun kola er mikil auk annarra mengunarvalda. Bandaríkjaforseti getur því heldur betur tekið til hjá sér.

Obama ætlar að berjast gegn kolefnaútblæstri orkuvera, draga úr kolefnaútblæstri ökutækja með nýrri tækni, banna lagningu ólíuleiðslu og gefa leyfi fyrir vind- og sólarorkuver. 

Obama ætlar hins vegar ekki að hækka verð á olíum bensíni eða kolum. Rándýr orkuver sem kosta neytendur mikið en draga sáralítið úr útblæstri er hins vegar gæluverkefni Obama. 

Mengun minnkar takmarkað með þessum aðgerðum Obama. En kostnaður skattgreiðenda og neytenda verður mikill vegna ómarkvissra aðgerða málefnasnauðs forseta.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 22
  • Sl. sólarhring: 412
  • Sl. viku: 3859
  • Frá upphafi: 2428080

Annað

  • Innlit í dag: 20
  • Innlit sl. viku: 3568
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband