Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Umhverfismál

Rafmagnsbílaaðallinn.

Rafmagnsbíllinn minn er orðinn eins árs og þetta ár hef ég ekki notað jarðefnaeldsneyti ekki einu sinni á sláttuvélina sem líka er rafmagnsdrifin. Samneyti mitt við bíl og sláttuvél hafa verið með ágætum þrátt fyrir að þau séu ekki knúin jarðefnaeldsneyti. 

Eitt fer þó í taugarnar á mér í þessu sambandi. Ríkisvaldið mismunar mér á kostnað annarra borgara, sem nota bensín eða olíur til að knýja farartæki sín eða annað áfram. 

Ríkið leggur gríðarlega skatta á bensín og olíur, en okkur rafbílaeigendum stendur til boða ókeypis rafmagn úr hraðhleðslustöðvum þar sem þær eru. Auk þess borgum við lægri aðflutningsgjöld og bifreiðagjöld. Er eitthvað réttlæti í því?

Það er alltaf hættulegt þegar ríkisvaldið fer að beita ávirkum aðgerðum til að breyta neysluvenjum fólks. Stutt er síðan fólk fékk umbun fyrir að kaupa díselbíla. Nokkru síðar kom í ljós að díselinn er mun verri en bensínið. 

Við rafbílaeigendur eigum að borga okkar hlut til veghalds og aðrir bíleigendur með hvaða hætti svo sem það kann að vera innheimt. Þá er glórulaust að hafa rafmagnið úr hraðhleðslustöðvunum ókeypis. Eðlilegt væri að fólk borgaði ákveðna upphæð t.d. fyrir tengingu og síðan mínútugjald. Það gjald mætti síðan nota til að byggja upp hraðhleðslustöðvakerfi hringinn í kring um landi með um 50 km. millibili. 

Hvernig væri t.d. að tengigjald við hraðhleðslustöð væri kr. 500 og síðan greiddu menn ekkert fyrir fyrstu 10 mínúturnar en þá kr. 50 á mínútuna næstu 10 mínutur og kr. 250 næstu 10 mínútur. Það væri alla vega sanngjarnt og gæti stuðlað að því að fólk væri ekki að hanga lengur í hraðhleðslustöð en brýna nauðsyn bæri til.   

 


Parísarsamkomulagið og ný nálgun varðandi hnattræna hlýnun.

Náttúruverndarsinninn Björn Lomborg segir að Parísarsamkomulagið í loftslagsmálum sem Trump hafnaði í gær sé gríðarlega kostnaðarsamt og hafi litla þýðingu varðandi hnattræna hlýnun.

Lomborg segir, að þrátt fyrir yfirlýsingar þjóðarleiðtoga nú um að standa vörð um Parísarsamkomulagið og fordæming á afstöðu Trump, þá muni þeir þurfa að horfast í augu við óhrekjanlegar staðreyndir varðandi það.

Í fyrsta lagi er Parísarsamkomulagið dýrasta fjölþjóðasamþykkt sem hefur verið gerð. Kostnaðurinn frá 2030 muni nema milli 1 og 2 trilljón dollara á ári, segir Lomborg.

Skv. sáttmálunum á að greiða þróunarríkjum  á milli 800 milljarða og 1.6 trilljón dollara á ári. Hætt er við að Angela Merkel, Macron og Trudeau súpi hveljur þegar þau þurfa að taka þann kostnað inn í fjárlög landa, sem í dag safna ríkisskuldum sem kynslóðum framtíðarinnar er ætlað að borga.

Í öðru lagi segir Lomborg að Parísarsamkomulagið hafi mjög lítil áhrif á hlýnun í heiminum og miðað við sjónarmið talsmanna hnattrænnar hlýnunar af mannavöldum, þá muni heimurinn ekki ná nema um 1% af nauðsynlegum samdrætti kolefnalosunar til að koma í veg fyrir að hlýnun jarðar frá því sem nú er verði um 1.5 til 2 gráður. Það þýðir að 99% af vandamálinu verður áfram til staðar hvað sem Parísarsáttmálanum líður.

Í þriðja lagi er græn orka ekki til staðar til að taka við af jarðefnaeldsneyti. Umræðan sé öll á bjartsýnisgrunnni, en græn orka sé dýr valkostur og væri ekki til staðar ef ekki kæmu til gríðarlegir styrkir og hátt orkuverð. Spánn eyddi um 1% af þjóðarframleiðslu í endurnýjanlega orku, meira en til æðri menntunar. Þegar þeir drógu úr styrknum var ekki grundvöllur fyrir starfrækslu stærsta meginhluta vindorkuvera í landinu.

Þrátt fyrir að hafa eytt gríðarlegum fjárhæðum í styrki til að auka endurnýjanlega orku og byggja græn orkuver þá e vindorka um 0.5% af heildarorkunotkun og sólarorka um 0.1%. Þrem tilljónum dollara á að eyða skv. Parísarsamkomulaginu til stuðnings endurnýjanlegrar orku til 2040, en þá mundi sólarorka nema um 1% og vindorka um 1.9% af orkuþörf heimsins. Mikill kostnaður og lítill árangur það.

Miðað við þær staðreyndir sem Lomborg bendir á þá er nauðsynlegt að hugsa málið upp á nýtt. Parísarsamkomulagið mun hrynja og hefði gert það hvað sem líður afstöðu Trump af því að það kostar þvílíkar ógnarfjárhæðir og hefur sáralitla eða enga þýðingu varðandi hnattræna hlýnun og byggir ekki vistvæna orkugjafa af neinu viti.

En hvað á þá að gera? Á brotthvarf frá Parísarsamkomulaginu að þýða að engin geri neitt og þjóðir heims skeyti engu um mengun eða eyðingu hráefna? Er einhver sem vill það? Alla vega ekki sá sem þetta ritar.

Hvað sem líður fordæmingu leiðtoga heimsins á afstöðu Trump, þá væri e.t.v. ástæða til að hugsa málið upp á nýtt og leita leiða til að ná betri árangri gegn mengun og sóun í heiminum með minni kostnaði fyrir neytendur og verkafólk, en Parísarsamkomulagið gerir ráð fyrir.

Hvernig væri að auka gríðarlega rannsóknir og þróun á vistvænni og grænni orku til að hún geti raunverulega tekið við í einhverjum marktækum mæli af jarðefnaeldsneyti.

Á síðustu árum eftir að sósíalísk hugsun og sósíalskar lausnir, heltóku stjórnmálamenn Vesturlanda í framhaldi af hruni sósíalismans árið 1989, þá hefur öll áherslan varðandi baráttu gegn hnattrænni hlýnun og mengun byggst á aukinni skattpíningu fólksins og stjórnmálamenn hafa síðan eytt gríðarlegum fjárhæðum í gæluverkefni, sem litlu eða engu hafa skilað. Í stað þeirrar sóíalísku hugsunar og úrræða verður að leggja áherslu á það hvað við sem einstaklingar getum lagt að mörkum og viljum leggja að mörkum.

Hvernig væri að fólk íhugaði rafbílavæðingu í gríðarlega auknum mæli. Ef umhverfisráðherra vildi gera eitthvað raunverulegt þá mundi hún gera samning við ON um byggingu hraðhleðslustöðva með um 50. km. millibili á þjóðvegi 1 til að byrja með og léti okkur rafbílaeigendur borga sannvirði fyrir notkun vega og orku frá ON. Við eigum ekki að fá þetta ókeypis. Þá mundum við neytendur taka þátt í og borga framkvæmd vistvænna orkustöðva og stuðla í leðinni að því að minnka notkun jarðefnaeldsneytis.

Hvernig væri að Neytendasamtökin þegar þau komast út úr innbyrðisátökum og stjórnvöld gengjust fyrir herferð meðal neytenda til að vera ábyrgir neytendur, hafna umbúða- og plastsamfélaginu. Taka þarf upp góða fræðslu um hvaða við getum sem einstaklingar gert til að vernda vistkerfi okkar og draga úr mengun sem mest við getum.

Af hverju bjóða íslensk stjórnvöld ekki fjárfestum að fjárfesta í rannsóknum á vistvænni orku. Við búum nú þegar yfir gríðarlegri þekkingu hvað það varðar og getum með því að sinna rannsóknum og aðstoð við aðrar þjóðir í þeim efnum lagt mikið að mörkum til heimsins alls. Af hverju ekki nálagast viðfangsefnið jákvætt í anda John Lennon og segja það eru ekki vandamál bara lausnir.

Að standa vörð um náttúruna og vinna að því að dregið verði úr mengun þ.m.t.notkun kolefna og jarðefnaeldsneytis er ábyrg afstaða, en það verður að nálgast þá hluti með þeim hætti að það hafi raunveruleg áhrif og sé ekki framkvæmt með þeim hætti að færa trilljónir eftir trilljónir króna frá vinnandi fólki til kommissara Evrópusambandsins og SÞ og fyrirtækja sem þeim eru þóknanleg og fá í dag milljarða í styrki og gríðarlegan ágóða með sölu lotslagskvóta allt á kostnað skattgreiðenda. Það er eitt dæmi um það þegar stórkapítalið og afturhaldið nær sameiginlegri lausn með sósíalistunum allt á kostnað einstaklingsframtaksins og almennings sem og framtíðarinnar.

Ákvörðun Trump gerir það nauðsynlegt hvort sem "ábyrgum stjórnmálamönnum" líkar það betur eða verr, að hugsa þessi mál upp á nýtt þannig að ná megi meiri og betri árangri með minni kostnaði fyrir almenning. Annað gengur ekki.  

Það er líka mál til komið að hugsa fyrst og fremst um að vinna gegn mengun og sóun í stað þess að eltast við vísindalegar draugasögur og lausnir glámskyggnrar stjórnmálaelítu.


Hlýnun í Norðurhöfum- Hvaða hlýnun?

Í dag tóku nokkrir íslenskir vísindamenn bakföll yfir hlýnun hafsins á Norðurslóðum og fræddu okkur um þá miklu vá sem okkur stafar af hlýnun af mannavöldum.

Árið 2016 var mælt sem heitasta árið frá því að mælingar hófust og í fyrravetur var okkur sagt að ísinn í norðurhöfum væri minni en nokkru sinni fyrr og BBC fréttastofan sagði að vegna þess að ísinn í Norðurhöfum væri að hverfa hefði orðið versta loftmengun í Peking höfuðborg Kína.

Í upphafi maí mánaðar á þessu ári kom annað í ljós. Danska veðurfræðistofnunin upplýsti að frá því í desember s.l.hafi hitinn í Norðurhöfum verið mínus 20 gráður og ísinn jafn þykkur og fyrir 13 árum. Íshella Grænlandi óx hraðar að ummáli en gerst hefur í mörg undanfarin ár. Þessar staðreyndir virðast alveg hafa farið framhjá hinu íslenska vísindateymi hlýindafólks.

Árið 2016 var heitasta árið vegna þess að veðurfyrirbrigðið El Nino var sérstaklega sterkt en gervitunglamælingar sýna nú að hitinn hefur lækkað verulega alveg eins og gerðist fyrir 17 árum síðan eftir álíka sterkan El Nino árið 1998 sem þá var heitasta árið sem mælst hafði og álíka heitt og árið 2016.

Þetta þýðir að hitastig jarðar hefur ekki hækkað neitt í 19 ár. En vísindamennirnir sem belgja sig út í fjölmiðlum og krefjast meiri peninga frá skattgreiðendum vegna þeirrar hættu sem steðji að okkur segja ekki frá þessu og fjölmiðlamennirnir gleypa frekar við helvítis- og ógnarspám en raunveruleikanum og forðast að kynna sér málið til hlítar.

(Heimildir: Daily Telegraph- frétt 7.5.2017 "Another Arctic ice panic over as world temperatures plummet:Daily Telegraph reporters;

Paul Homewood blogg: Notalotofpeopleknowthat.)

 

 

 


Gróðurmagn í Afríku eykst- Hvað varð um gróðureyðingu vegna hlýnunar?

Á fréttamiðlinum Eyjunni í dag er frétt um rannsókn sem gerð var á gróðurmagni í Afríku. Í ljós kom að þrátt fyrir ágang manna og fleiri meinvætta á gróðurinn, þá hefur hann samt aukist verulega að magni til í álfunni.

Þetta gerist og þrátt fyrir bölvaldinn hnattræna hlýnun af mannavöldum. Samkvæmt þeirri kenningu og fréttum áróðurspresta hlýnunarinnar þá eru stórkostleg vandamál í Afríku vegna hnattrænnar hlýnunar, þurkar, gróðureyðing og afleiðingin landflótti og hungur.

Samkvæmt þessari nýju könnun þá eru staðreyndir allt aðrar. Gróðurmagn í álfunni eykst og það er m.a. vegna aukinnar rigningar. Martin Brand hjá Kaupmannahafnarháskóla sem stjórnaði rannsókninni sem tekur til 20 síðustu ára segir að þar sem gróðureyðing hafi orðið í álfunni sé fyrst og fremst um að kenna ágangi manna.

Þetta hljóta að vera váleg tíðindi fyrir trúarbragðahópinn sem vill leggja milljarða skatta á borgaranna með umhverfisráðherra Bjartrar framtíðar í broddi fylkingar til að þjóna hinni pólitísku veðurfræði.

Er ekki kominn tími til að stoppa þessa vitleysu?


100 mánuðurnir sem liðu áfallalaust

Árið 2016 er heitasta ár á jörðinni í meir en 100 þúsund ár vegna loftslagsbreytinga, sagði í frétt vinstra blaðsins Guardian í síðustu viku.  Vísað var til upplýsinga "sérfræðingsins" James Hansen eins helsta baráttumanns um loftslagshlýnun af mannavöldum. Þetta er raunar alrangt þar sem loftslag var hlýrra á jörðinni fyrir um 1000 árum eða þegar Ísland byggðist og er því miður ekki eins hlýtt og þá.

Hansen og annað ofsatrúarfólk á hnattræna hlýnun af mannavöldum halda því fram að finna verði leiðir til að koma koltvísýringi burt úr andrúmsloftinu en áætlaður kostnaður við það eru 570 trilljónir dollara eða sem samsvarar sjöára heimsframleiðslu. Það þýðir um 9 milljón króna kostnað á hvert mannsbarn í heiminum.

Hansen og nótar hans hafa spáð því allt frá árinu 1988 að hlýnun væri óumflýjanleg ef ekki yrði hætt að brenna jarðefnaeldsneyti og losa koltvísýring út í andrúmsloftið. Þeir hafa ítrekað fullyrt að íshella á pólunum mundi bráðna, sjávarborð mundi hækka, þurkar yrðu stórkostlegt vandamál og hvirfilbylir yrðu sterkari og tíðari. Allt hefur þetta reynst rangt.

Fyrir 8 árum byrjaði vinstra blaðið Guardian baráttu fyrir að bjarga jörðinni og hélt því fram að aðeins væru eftir 100 mánuðir til þess annars yrði óbætanlegur skaði af loftslagsbreytingum óafturkallanlegur íshella pólana mundi bráðna, sjávarborð mundi hækka verulega, hvirfilbylum mundi fjölga og styrkur þeirra aukast og þurkar yrðu stöðugt fleiri og alvarlegri.

Nú eru þessir hundrað mánuðir liðnir og ekkert af þessu hefur gengið eftir og hvað sem líður upphrópunum um heitustu ár í sögunni þá hefur hitastig ekki hækkað á jörðinni síðustu átján ár og þar verður að skoða að árið 2016 er undir áhrifum frá fyrirbrigðinu El Nino.

Pólar íshellan er um það bil sú sama og þegar mælingar hófust árið 1979. Varla er hægt að merkja hækkun sjálvarborðs í um það bil heila öld. Engin breyting hefur orðið varðandi styrk eða tíðni hvirfilbyla. Alvarlegir þurkar eftir 1950 til dagsins í dag eru einnig fátíðari.

Raunar hefur eitt breyst undanfarin ár e.t.v. vegna aukins koltvísýrings í andrúmsloftinu. Jörðin er grænni og jarðargróði er miklu meiri en áður.

Þrátt fyrir þessar staðreyndir hefur stjórnmálaelítan ákveðið að leggja þungar byrðar á fólk og atvinnulíf sem birtist m.a. í hækkuðu orkuverði og álögum á atvinnulíf sem bitnar á endanum á neytendum. En á sama tíma taka Kínverjar og Indverjar þátt í allri vitleysunni og skrifa undir samninga en láta sér ekki detta í hug að fara eftir því og auka því miður sem aldrei fyrir losun koltvísýrings.

Helvítisspárnar hafa ekki gengið eftir en við þurfum óháð því að ganga vel um og gæta fjöreggsins okkar jarðarinnar og skila henni til komandi kynslóða betri en við tókum við. Það þýðir ekki að við eigum að dansa eftir flautu falsspámanna hnattrænnar hlýnunar.

(Upplýsingar að mestu úr ritstjórnargrein Daily Telegraph9.10.2016)


500 þúsund deyja árlega úr malaríu og ábyrgð umhverfisverndarsinna.

Í frétt Daily Telegraph 2. júní kom fram að árlega deyja 500.000 einstaklingar vegna malaríu. Á tveggja mínútna fresti deyr barn úr malaríu. Hér er á ferðinni mannlegur harmleikur vegna áhrifa öfga umhverfisverndarsinna.

 Verulegur árangur hafði náðist í baráttunni gegn malaríu fram á áttunda áratug síðustu aldar. Þá var eiturefnið DDT bannað vegna áróðurs og áhrifa öfga umhverfisverndarsinna.

DDT bjargaði uppskeru, skógum,nytjadýrum og fólki. Árið 1970 taldi stofnunin: U.S National Academy of Science:, að DDT hefði bjargað meir en 500 milljón mannslífum. Ýmsir þar á meðal vísindamenn halda því fram að DDT sé ekki skaðlegt fyrir umhverfið og ætti ekki að banna.

Á Sri Lanka voru árið 1948 voru tæplega 3 milljónir sem smituðumst af malaríu og um 8 þúsund dauðsföll á ári. Með notkun DDT þá  náðist sá árangur árið 1963 að aðeins 17 voru smitaðir af malaríu og ekkert dauðsfall. Eftir að DDT var bannað fjölgaði malaríusmitum á Sri Lanka í 2.5 milljónir nokkrum árum síðar.

Hundruðir þúsunda dóu í Afríku eftir að DDT var bannað. Í Suður Ameríku gekk vel að ráða við malaríu þar sem DDT var notað.

Kostnaðurinn við að úða hús með DDT kostar um 300 krónur á ári. Önnur efni kosta margfalt meira og eru ekki eins áhrifarík.

Rík lönd sem eiga ekki við ógn malaríunar að glíma hóta fátækum löndum refsiaðgerðum ef þau nota DDT. 

Þjóðkirkjan, aðrar kirkjudeildir og annað velmeinandi fólk, sem er annt um fátækt fólk, ætti að taka höndum saman um að vinna bug á malaríunni og nota áhrifaríkusta efnið sem við eigum kost á til að koma í veg  fyrir að hundruðir þúsunda deyi árlega.

Væri það ekki verðugt og í raun skylduverkefni?

 


Er hnattræn hlýnun vond?

Í grein sem Björn Lomborg fyrrum forustumaður í Green Peace skrifaði fyrir nokkru, kemur fram að jörðin er grænni nú en nokkru sinni fyrr vegna aukins koltvísýrings. Lomborg segir að það ætti að vera gleðiefni, en trúboðar hnattrænnar hlýnunar geti ekki lyft umræðunni á það stig að fjalla bæði um kosti og galla breytinga á hitastigi jarðar.

Lomborg bendir á að fleira fólk deyr í heiminum úr kulda en úr hita. Hlýnun jarðar mundi því leiða til fækkunar dauðsfalla. Um 7% dauðsfalla í heiminum er vegna kulda en um hálft prósent deyr úr hita. Í Englandi og Wales deyja árlega um 35 þúsund manns úr kulda en 1.500 úr hita og umtalsverð hlýnun mundi eingöngu draga úr heildarfjölda dauðsfalla vegna veðurfars.

Lomborg bendir einnig á það að gengju spár þeirra eftir sem hafa gert hnattræna hlýnun af mannavöldum að trúaratriði, þá mundu vandamál vegna hlýnunar ekki skapa meiri vandamál árið 2070 miðað við óbreytta tækni en sem næmi um 2% af framleiðslu heimsins eða helmingi  þess tjóns sem alkahól kostar í dag.

En í dag gleyma menn öllum kostnaðinum við ráðstafanir sem ríkisstjórnir hafa gripið til vegna trúrinnar á hnattræna hlýnun af mannavöldum sem Lomborg telur að geti numið allt að 6% af framleiðslu heimsins. Vindorkuver, sólarorkuver, lífeldsneyti o.s.frv. sem allt er gríðarlega niðurgreitt og kostnaðarsamt framleiða innan við hálft prósent af þeirri orku sem notuð er í dag. Mikill kostnaður án nokkurs vitræns árangurs. 

Skammsýni og vanþekking stjórnmálamanna er sennilega kostnaðarsamasti hluturinn varðandi meinta hnattræna hlýnun fyrir utan að auka ríkisumsvif og kostnað skattgreiðenda og draga úr framleiðslu. Þeir eru nefnilega fleiri hundar svartir en hundurinn prestsins.

 


Breytingar á stjórnarskránni

Samkomulag hefur náðst í stjórnarskrárnefnd um að leggja fram ákveðnar breytingar á stjórnarskrár lýðveldisins. Það er fagnaðarefni og þannig á að vinna að breytingum á stjórnarskrá í þróuðum lýðræðisríkjum, að ná sem víðtækastri sátt um þann þjóðfélagssáttmála sem stjórnarskráin er og á að vera.

Ekki hefur verið greint frá því nákvæmlega hvaða tillögur stjórnarskrárnefndin leggur til, en leiða má líkum að því að samkomulag sé um aðferð til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um mál, auðlinda- og umhverfismál.

Aðsúgsfólk að stjórnarskránni náði að telja fyrrverandi ríkisstjórn og ákveðnum hópi þjóðarinnar trú um að nauðsyn væri að kollvarpa núverandi stjórnarskrá og fékk hana til að fara með sér í ólánsvegferð sem kostaði mikinn tíma og peninga og endaði í algjöru glóruleysi eins og svo margt annað sem þau Jóhanna og Steingrímur baukuðu saman.  

Nú hillir undir að skynsemin fái að ráða og vitsmunir og hæfi ráði för við breytingar á stjórnarskránni, þannig að breytingar verði á henni gerðar til bóta, í samræmi við viðmið og venjur í þróuðum lýðræðisríkjum eins og okkar.

 

 

 

 

 


Vér skítseyði borgarinnar

Við Margrét mín erum ekki þurftarfrekustu eða subbulegustu kvikindi borgarinnar, og þá sérstaklega ekki hún. Þar fyrir utan er mér skipað að gæta vel að því að taka dagblöð, pappa og aðrar umbúðir út fyrir sviga og koma þvílíku skarni á gámastöð Sorpu.

Samt sem áður lendum við ítrekað í því að sorptunnan fyllist. Þá verður að fara aukaferðir á gámastöðina.

Þeir sem annast um sorphirðu hjá Reykjavíkurborg sýnist mér gera það af samvisku- og eljusemi, en það dugar ekki til. Reykjavíkurborg er að spara og enn skal dregið úr þjónustu við öll skítseyði þessarar borgar hverju nafni sem nefnast.

Sú var tíðin að Reykjavíkurborg sótti allt sorp. Svo kom Sorpa í þágu vistvænnar sorphirðu og þá þurftu borgararnir að sjá sjálfir um að henda sumu sem áður var sett í sorptunnur.

Nú má ekki tæma ruslatunnur nema þrisvar í mánuði samkvæmt sérstakri ákvörðun borgarstjóra, sem segir það öldungis nóg fyrir hvert venjulegt skítseyði í borginni. 

Vinur minn sagði mér að hann hefði ekki komið frá sér sorpi í sorplúgu fjölbýlishússins síns, en hann býr á fyrstu hæð hússins. Sorp hefði flætt upp að lúgunni. Vinur minn sem er bæði ráðagóður og eðalsnjall brá á það ráð að fara í sorpgeymsluna, en varð þaðan að hverfa þar sem út úr flóði þegar hann opnaði dyrnar og mátti hann hafa sig allan við að geta lokað þeim aftur.

Dagur borgarstjóri og hjörð hans segir að stjórnmál snúist um að forgangsraða og það sé sýnu mikilvægara að þrengja götur í Reykjavík og gera þær illar yfirferðar, en hreinsa almúgasorp. Þau sé auk heldur mikilvægara að reka mannréttindaskrifstofu og kosta ráðgjöf fyrir innflytjendur en hreinsa skítinn frá bornu og barnfæddu almúgafólki.

Á sama tíma auglýsir Reykjavíkurborg: "Borgarbúar fagna grænni tunnu úr plasti." Þessi fagnaðarbylgja fór framhjá mér. Hélt Dagur og félagar fagnaðarsamkomu í tilefni grænu tunnunar. Hverjir fögnuði, hvar og hvenær?

Vinur minn í fjölbýlishúsinu,  sem kemst ekki einu sinni að grænu tunnunni er hins vegar ekki mikill fögnuður í huga þegar ólyktin frá sorpgeymslunni gerir íbúð hans lítt vistvæna þrátt fyrir að Dagur og félagar sjái ástæðu til þess á sama tíma, að fagna grænu tunnunni.


Heilögu kýrnar

Sú var tíðin að hvorki mátti gagnrýna forseta lýðveldisins eða Hæstarétt. Þessar stofnanir og einstaklingar voru heilagar kýr í íslensku samfélagi. Sem betur fer hefur þetta breyst enda geta hvorki æðstu embættismenn, stofnanir eða einstaklingar sem gefa sig í opinbera umræðu átt þá kröfu að njóta ævarandi friðhelgi.

Björk Guðmundsdóttir söngkona er nú í þeim hópi þar sem áður voru forsetinn og Hæstiréttur. Hún er hin heilaga kú sem ekki má gagnrýna óháð því hvað hún segir eða gerir.

Björk Guðmundsdóttir er góð söngkona og hefur sem slík aukið hróður lands og þjóðar. Góður söngvari er samt ekki hæfari til að fjalla um stjórnmál eða náttúruvernd frekar en hver annar. Lalli stjörnu lögmaður verður ekki þar með sérfræðingur í loftslagsmálum. Mummi múrari  sem er listamaður á sínu sviði verður ekki þar með sérfræðingur í heilbrigðismálum. Björk, Lalli og Mummi eru frábær á sínum sviðum en það gerir þau að engu leyti hæfari til að fjalla um almenn þjóðmál frekar en hvern annann meðal Guðmund eða Guðmundu.

Björk Guðmundsdóttir naut þess að fá aðgang að fréttatíma Sky sjónvarspsstöðvarinnar. Þar lét hún óviðurkvæmileg orð falla um helstu ráðamenn þjóðarinnar. Slík framsetning er til þess fallin að gera lítið úr landi og þjóð eins og því miður allt of margir nýttu sér eftir bankahrunið. Það varð þeim ekki til framdráttar en oft til mikils skaða fyrir þjóðina.

Björk Guðmundsdóttir verður að gæta að því að á hana er hlustað vegna þess að hún er listamaður en ekki vegna þekkingar hennar á öðrum sviðum. Á henni hvílir því mikil ábyrgð meiri en á Lalla og Mumma sem njóta ekki alþjóðlegrar viðurkenningar sem listamenn þó þeir séu það á sínu sviði eins og Björk. Þegar Björk fer út fyrir velsæmi eins og hún gerði í þessu tilviki þá er eðlilegt að hún sé gagnrýnd og slík gagnrýni er réttmæt.

Galendahópurinn sem gerir nú hróp að þeim sem beina réttmætri gagnrýni að Björk vegna óviðurkvæmilegra ummæla hennar virðast ekki átta sig á því að með því að hefta tjáningarfrelsið er vegið að einni mikilvægustu stoð lýðræðissamfélagsins. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 12
  • Sl. sólarhring: 422
  • Sl. viku: 3849
  • Frá upphafi: 2428070

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 3560
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband