Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Heimspeki

Hin nýja sýn á vandanum.

Spakvitrasti stjórnmálamaður norðan Alpafjalla, Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar, fjallar stundum um mál með þeim hætti að vísuhending um fjallið Einbúinn verða næsta hugleiknar eins og segir: Hann Einbúi gnæfir svo langt yfir lágt að lyngtætlur stara á hann hissa.

Í fréttatíma RÚV í hádeginu fann hann 5 ára fjármálaáætlun fjármálaráðherra allt til foráttu og segir að ekki sé ráðist að rót vandans sem sé atvinnuleysi. Logi bendir samt ekki á nein arðbær atvinnuskapandi verkefni, en setti fram nýja kenningu sem er einkar athygliverð.

Þannig sagði Logi formaður að þegar talað væri um tekjubætandi aðgerð í fjármálaáætluninni væri verið að vísa til niðurskurðar og skattahækkana. 

Nú fer mér eins og lyngtætlunum í kvæðinu Einbúinn. Svo vís er þessi kenning Loga, að hún verður ekki sett í vitrænt samhengi við allílfið eða neinar hagfræðikenningar fyrr eða síðar hvorki borgaralegar né sósíalskar.

Hvað er tekjubætandi aðgerð? Skv.orðskýringu er það aðgerð sem kemur í stað skatta og eykur þá væntanlega ráðstöfunartekjur fólks. Okkur lyngtætlunum er því fyrirmunað að skilja þá rökfræðilegu útleggingu Loga formanns, að tekjubætandi aðgerð þ.e. lækkun skatta sé ávísun á niðurskurð og skattahækkanir. 

Umræða verður um málið á Alþingi á morgun og væntanlega mun Logi sem hefur hér haslað sér völl með nýja sýn á hagfræðileg hugtök, orsök og afleiðingu gera okkur lyngtætlunum vitsmunalega grein fyrir því hvernig þetta getur farið saman með þeim hætti sem hann heldur fram.


Réttur yfir eigin líkama og fóstureyðing

Afsökun margra þingmanna fyrir að greiða atkvæði með fóstureyðigarfrumvarpinu, sem heimilar fóstureyðingu allt til þess að langt er liðið á meðgöngutíma, var eftirtektarverð. Hver á fætur öðrum komu þingmenn upp í atkvæðaskýringu og klifuðu á því að þeir styddu frumvarpið vegna þess að það væri réttur kvenna að ráða yfir eigin líkama. 

Engin dregur réttmæti þess í efa, að konur sem og annað fólk  eigi að hafa rétt til að ráða eigin líkama. 

Þessi röksemdafærsla hefur hinsvegar ekki réttmæta skírskotun. Fóstureyðingar snúast ekki um sjálfsagðan rétt kvenna yfir eigin líkama heldur rétt þeirra til taka rétt yfir eigin líkama af öðrum einstaklingi.

Spurningin er því hvort að verðandi móðir á að ráða því hvort annar einstaklingur fái að vaxa, dafna og hafa ráð yfir sínum líkama eða hvort taka eigi þann rétt af þeim einstaklingi.

Samþykkt fóstureyðingarfrumvarpsins felur í sér höfnun á rétti ófæddra barna yfir eigin líkama. Sé verið að tala um mannréttindi, þá eru þau tekin af þeim, sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér með samþykkt þessa ólánsfrumvarps. 

 


Tjáningarfrelsið

Í yfirliti um mannréttindi sem lýðræðisþjóðir telja mikilvægust kemur fram að flestir meta tjáningarfrelsið mikils.

Á tímum einveldis-og arfakonunga var tjáningarfelsið takmarkað ef eitthvað og þau þjóðfélög störfuðu undir vígorðinu:

"Vér einir vitum."

Elítan aðallinn og kóngafólkið hafði eitt rétt til að tjá sig, en ekki sauðsvartur almúginn.

Þegar alræðishyggju einvaldskonunga var vikið til hliðar og borgaraleg réttindi voru í mótun varð vígorð frjálslyndrar einstaklingshyggju allt frá dögum Voltaire til okkar dags varðandi tjáningarfrelsið:

"Ég fyrirlít skoðanir þínar en ég er reiðubúinn til að láta lífið í sölurnar til að þú fáir að halda þeim fram"

Hugmyndafræðin byggir á því að sérhver borgari hafi sama rétt til tjáningar hvort sem mér eða þér, elítunni eða þjóðfélagsvaldinu líkar það betur eða verr.

Heildarhyggjufólk nútímans hefur í auknum mæli tekið aftur upp sjónarmið einvaldskonunga og hóphyggju. Þetta fólk telur sig hafa rétt til að ákveða hvaða skoðanir séu verðugar og hverjar ekki. V

ígorðið "vér einir vitum" er aftur komið í öndvegi hjá sósíalistum í Samfylkingu og Vinstri grænum og Kastljósi RÚV. Vígorð þessa hóps er þetta: 

"Ég er ósammála því sem þú segir og mun draga dár að þér opinberlega. Gera það sem ég get til að þú fáir ekki að tjá þig  eða nokkuð birtist eftir þig. Auk þess mun ég gera þá kröfu að þú verðir rekinn úr vinnunni."

Spurningin er því nú sem fyrr hvort veljum við frelsi eða helsi.   


X Faktorinn

Varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Hanna Birna Kristjánsdóttir, hefur áttað sig á því hvað það er sem veldur gengisleysi flokksins um þessar mundir. Í viðtali í morgunútvarpinu benti hún á ástæðuna sem er þessi að hennar mati:

"Það er einhver þriðji faktor. Það er einhver faktor sem við erum að gleyma,það er einhver x faktor. Einhver fegurð, það er einhver pólitík, ástríða, það er einhver hugsjón sem við erum ekki að fanga nægjanlega vel"

Skyldi stjórnmálaforingi hafa tjáð sig öllu skýrar um hugmyndafræðilegt inntak flokks síns og útfærslu. Líklega mun Landsfundur Sjálfstæðisflokksins í október n.k. snúast um að leita að x faktornum.

Kann að vera að Hanna Birna Kristjánsdóttir hafi höndlað þann stóra sannleik sem kínverski heimspekingurinn Konfúsíus mótaði í orðum forðum með þessum hætti

"Raunveruleg þekking felst í því að vita umfang eigin vanþekkingar".


Eigi leið þú oss í freistni

Fyrir mörgum árum hætti ég að biðja Faðir vorið með þeim hefðbundna hætti að segja "eigi leið þú oss í freistni" Mér fannst það rökleysa að algóður Guð leiddi fólk í freistni.  Eðlilegra væri að segja í staðinn: "Forða oss frá að falla í freistni." Í sjálfu sér gat þetta fallið undir meðfæddan þvergirðingshátt minn. En nú telja fleiri að hefðbundin þýðing Faðir vorsins sé röng af sömu ástæðum.

Frá því er sagt í dag að Rómversk kaþólska kirkjan hafi leiðrétt frönsku þýðinguna á Faðir vorinu þar sem segir "og leið oss eigi í freistni" og fallist á að það gæti skilist með þeim hætti að Guð geti valdið því að fólk ánetjaðist freistingum eða yrðu þeim að bráð, í stað þess að hjálpa okkur að þræða þrönga veginn dyggðarinnar.  

Á enskri tungu er breytingin þessi:  Í staðinn fyrir að segja "And don´t submit us to temptation"  skal segja "And don´t let us enter into temptation."  Þessi breyting verður sett í nýja franska þýðingu Biblíunnar sem Vatíkanið hefur samþykkt. Páfadómurinn hefur því ákveðið að taka undir ofangreindan þvergirðingshátt hvað varðar Faðir vorið.

Skyldi hin evangelíska Lútherska kirkja á Íslandi samþykkja þessa sjálfsögðu breytingu á Faðir vorinu?

 Þannig breytt yrði sagt. "Forða oss frá að falla í freistni og forða oss frá illu."  Er það ekki rökrétt ákall eða bæn til hins algóða Guðs sem allt hið góða er komið frá?

 


Einstaklingsfrelsi-Ofurríki og Snowden

Frelsi felst ekki eingöngu í almennum kosningarétti. Frelsi felst einnig í því að borgarinn sé látinn í friði og fái að haga lífi sínu og starfi innan ramma laganna án stöðugs eftirlits og afskipta ríkisins.

Öll viljum við hafa einkamál okkar fyrir okkur sjálf og finnst ógeðfellt að opinberir aðilar fylgist með símtölum okkar, tölvupóstum, sms, vörukaupum og fleiru. Persónuvernd og einstaklingsfrelsi er grundvallaratriði í frjálsu þjóðfélagi.

Í bók sinni 1984 fjallar George Orwell um ofurríkið þar sem fylgst er með hverju fótmáli einstaklinga. Margir töldu áður að Sovétríkin væru að verða ríkið sem fjallað var um í bók Orwell. Nú virðist sem helsta forusturíki hins frjálsa heims Bandaríkin feti sig dyggilega í átt að því að verða slíkt ofurríki.

Uppljóstranir Edward Snowden um njósnir ríkisstjórnar Bandaríkjanna um einstaklinga, stofnanir og fyrirtæki ætti að vera umhugsunarefni fyrir frjálslynt og hægri sinnað fólk. Snowden eyddi 30 ára afmælisdegi sínum á flótta frá landi "hinna frjálsu" virðist vera einstaklingshyggjumaður sem er á móti ofurríkinu. Einstaklingur sem er ásamt svo fjölmörgum öðrum er á móti því að búa við að það samtöl þeirra séu hleruð og hljóðrituð. Einstaklingur sem er í hópi fjölmargra sem hefur ákveðna þjóðfélagsvitund einstaklingsfrelsi án þess endilega að skilgreina sig sérstaklega pólitískt.

Edward Snowden studdi frjálslynda einstaklingshyggjumanninn Ron Paul í forkosningum Repúblikana til forseta í fyrra. Ron Paul vill draga úr völdum og áhrifum ríkisins og beitingu Bandaríkjahers. 

Þrátt fyrir ofurvald Bandaríkjanna og kröfu um framsal Snowden þá verða hvorki hann né hans líkar stöðvaðir. Hann er í hópi fjölmargra sem gera það sem þeir telja að samviska þeirra bjóði þeim að sé rétt.  Snowden segir: "Sannleikurinn mun koma fram og það er ekki hægt að stöðva hann. 

Einstaklingshyggjumenn mættu og ættu að skoða hvort hugsun og sjónarmið sem Snowden stendur fyrir séu ekki nær hugmyndafræði einstaklingshyggju og frjálshyggju en hugmyndafræði vinstra fólks.

Miðað við þær forsendur er öfugsnúið að Ögmundur Jónasson og Birgitta Jónsdóttir skuli berjast fyrir réttindum Snowden og hann njóti verndar og fái notið mannréttinda, en hvorki Bjarni Benediktsson né Sigmundur Davíð.

 


Milton Friedman, Hannes Hólmsteinn og fleiri

Milton Friedman sá merki hagfræðingur fæddist 31. júlí 1912. Aldarafmæli hans er því minnst víða um heim. Milton Friedman þótti geta sett fram flóknar hagfræðikenningar á mannamáli sem er óvenjulegt fyrir hagfræðinga.

Margir hafa lesið bækur Friedman: "Markaðshyggja og frelsi" og "Frelsi til að velja" Í báðum bókunum (frelsi til að velja voru raunar sjónvarpsþættir líka) tekur hann fyrir brýn þjóðfélagmál og bendir á mikilvægi þess að einstaklingarnir, hinn frjálsi borgari hafi sem mest með sín mál að gera, en ríkið taki sér ekki valdið og stjórni á kostnað einstaklinganna.

Í upphafi bókar sinnar "Frelsi til að velja" er Friedman með tilvitnun í Lous Brandeis Hæstaréttardómara í dómi í málinu "Olmstead gegn Bandaríkjunum, þar sem m.a. kemur fram að mesta ógnin sem steðji að frelsinu sé vegna skilningslausra, velmeinandi  baráttumanna.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor hefur fremur öðrum kynnt kenningar Milton Friedman hér á landi. Hannesi ber að þakka fyrir það. 

Við Hannes ætlum að fjalla um Milton Friedman og raunar fleiri hagfræðinga á Útvarpi Sögu þriðjudag 31.ágúst kl. 16-18.  Hannes kynntist Miltin Friedman persónulega. Það verður fróðlegt að ræða við hann um manninn og kenningar hans sem og hvernig Milton Friedman kynni að hafa litið á íslenskt þjóðfélag í dag. Einnig hvaða úrræði hann hefði talið brýnust til að auka frelsi í okkar samfélagi.

Ég tel að sjónarmið og skoðanir Milton Friedman eigi einmitt erindi í dag og er ekki í vafa um að hann hefði orðið æfur yfir að sjá að ríkisstjórnir um allan heim eru að bjarga bönkum og óráðssíumönnum í pólitík á kostnað skaggrreiðenda jafnvel í löndum sem kemur málið ekkert við. Fróðlegt að heyra hvað Hannes segir um það mál.


Bjartsýnismaður allra tíma

Í sögu sinni Candide segir Voltaire  frá  bjartsýnismanninum Dr. Pangloss, sem trúði kenningum heimspekingsins Leibnitz sem eru: "Þessi heimur er sá besti af öllum mögulegum heimum. Þar sem Guð er algóður og almáttugur þá hlýtur jörðin sem Guð skapaði að vera fullkomin." 

Dr. Pangloss benti á sbr. kenninguna, að þrátt fyrir að hörmungar og þjáningar finnist víða, að þá hafi allt verið skapað til þess að það geti komið sem best út. Þess vegna var nefið skapað til að við gætum sett gleraugu á það. Þess vegna erum við með gleraugu.  Fæturnir voru skapaðir fyrir sokkana. Þess vegna  erum við í sokkum.

Þeir félagar Dr. Pangloss og Candíde lentu í mörgum vondum málum. Candide var rekinn að heiman og Dr.Pangloss varð að betla og smitaðist af sýfilis, en hann sagði að hefði Kólumbus ekki fengið sýfilis þá hefðu Evrópubúar aldrei kynnst súkkulaði. 

Loks urðu þeir skipreika við Lisabon og lentu í jarðskjálfta. Nokkru síðar stóð Dr. Pangloss dæmdur af rannsóknarréttinum frammi fyrir því að vera hengdur en tókst að flýja og lenti á galeiðu. Candide spurði "þegar þú hafðir verið hengdur, smáður, pyntaður og bundinn við árina, taldir þú alltaf að að allt leiði til bestu niðurstöðunnar?"  Dr. Pangloss sagði já, þetta hlýtur að vera svona af því að Leibnitz getur ekki haft rangt fyrir sér.

Mér datt þessi saga í hug þegar ég sá að enn styður þriðjungur kjósenda ríkisstjórnina. Veruleiki þeirra er sá sami og Dr. Pangloss að breyttum breytanda, að Jóhanna geti ekki haft rangt fyrir sér.


Einræði meirihlutans

Stjórnlagaráð skilaði tillögum sínum til Alþingis. Þar á bæ hreyktust menn af því að hafa allir greitt atkvæði með tillögunum jafnvel þó engin sem sat í ráðinu væri sammála öllum tillögunum.

Talsmenn stjórnlagaráðsins töldu þetta merki um ný og betri vinnubrögð í pólitík að banna minnihlutaálit og skoðanir en sameinast um einræði meirihlutans. Þetta er rangt.

Þessi hugsun stjórnlagaráðs samræmist ekki viðhorfum lýðræðissinna og hugsjónamanna sem telja nauðsynlegt lýðræðinu og hugsjóninni að menn standi á sínum skoðunum hversu margir sem eru með eða á móti.  Stjórnlagaprófessorinn og forsætisráðherra fyrrverandi Dr. Gunnars Thoroddsen benti á í þessu sambandi  að minnihluti í dag gæti orðið meiri hluti á morgun í lýðræðisríki.

Stjórnlagaráðið  misskildi  hlutverk sitt sem ráðgefandi nefndar um stjórnsýslumálefni. Eðlilegt hefði verið að skila inn tillögum meirihluta og minnihluta til að Alþingi sem fær álitið til skoðunar og úrvinnslu áttaði sig á hugmyndum og  sjónarmiðum sem bærðust með ráðsliðum. 

Hver skyldi hafa fundið upp á því í stjórnlagaráðinu að framkvæma hugmyndir alræðishyggjunnar um einræði meirihlutans en víkja frá hugmyndum og hugsjónum lýðræðisins um virðingu fyrir öllum skoðunum og rétti fólks til að halda þeim fram? 

Herhvöt lýðræðisins og frelsisins var e.t.v. hvergi orðuð jafnvel og hjá franska heimspekingnum og skáldinu Voltaire þegar hann sagði "Ég fyrirlít skoðanir þínar en ég er tilbúinn til að fórna lífi mínu til að þú fáir að halda þeim fram."  

Stjórnlagaráðið var annarrar skoðunar en Voltaire.


Háskólaspeki hin nýja

Gunnar Helgi Kristinsson prófessor í stjórnmálafræði við sama háskóla og Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra hefur sett fram nýja kenningu varðandi umgengni ráðherra við sannleikann.

Sjálfsagt vill Gunnar Helgi koma samkennara sínum í Háskóla Íslands til aðstoðar í þeim mikla vanda sem Gylfi er í vegna þess að hann sagði Alþingi ósatt í fyrirspurn um krónulánin sem tengd voru myntkörfu.

Hin nýja háskólaspeki Gunnars Helga stjórnmálafræðiprófessors er sú að Gylfi Magnússon hafi ekki sagt Alþingi ósatt heldur hafi hann afvegaleitt Alþingi með svörum sínum með því að segja þinginu ekki satt. Ef til vill má finna hárfínan fræðilegan mun á þessu, sem getur nýst Gunnari Helga til heilabrota og fræðilegrar framsetningar með einum eða öðrum hætti í nokkur ár. Venjulegt fólk skilur hins vegar þegar verið er að segja því ósatt og vill kalla hlutina réttum nöfnum.

Gunnar Helgi vill nú láta setja lög um upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra.  Af hverju skyldi stjórnmálafræðiprófessorinn nálgast málið með þessum hætti?

Veit prófessorinn ekki að til eru ákvæði í lögum sem gilda líka fyrir ráðherra og þá sem gegna stjórnmálastarfi og störfum á vegum framkvæmdavaldsins. 

En af hverju segir prófessorinn ekki hvort hann telur framgöngu Gylfa Magnússonar viðskiptaráðherra vera þess eðlis að hann geti setið áfram eða verði að víkja. Hefur hann ekki skoðun á því.

Finnst Gunnari Helga e.t.v. réttlætanlegt út frá heilaleikfimi háskólaspekinnar að það sé afsakanlegt fyrir mann eins og Gylfa að segja Alþingi ósatt. Alla vega fordæmir hann ekki framgöngu ráðherrans út frá fræðunum. 

Gæti einhver sagt öðruvísi mér áður brá?


« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 292
  • Sl. sólarhring: 714
  • Sl. viku: 4113
  • Frá upphafi: 2427913

Annað

  • Innlit í dag: 268
  • Innlit sl. viku: 3804
  • Gestir í dag: 260
  • IP-tölur í dag: 249

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband