Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Mannréttindi

Glæpur gegn rökhyggju

Það er sjaldgæft í opinberri umræðu að verða vitni að því þegar hlutum er snúið gjörsamlega á haus rökfræðilega. Þorleifi Erni Arnarssyni tókst það betur en öðrum í gær og er þó samkeppnin hörð á þessu sviði. Þessi glæpur listamannsins gegn rökhyggju varð tilefni fyrir RÚV og 365 miðla að hampa manninum vegna skorts á rökhyggju. 

Þegar Íslamskir vígamenn drápu ritstjórn Charlie Hedbo fannst Þorleifi ástæða til að ögra Múslimum og setja upp sýningu á verkinu "Söngvar Satans",til að sýna Múslimum varðstöðu um tjáningarfrelsið.

Þungvopnuð lögregla þurfti að hans sögn að standa vörð um listafólkið til að koma í veg fyrir að það yrði drepið af Íslömskum vígamönnum. Listamaðurinn taldi að Múslimar mundu mótmæla og reyna að koma í veg fyrir sýninguna og þungvopnaða lögreglan þyrfti að vera til að hægt væri að sýna verkið og koma í veg fyrir hermdarverk gagnvart listafólkinu. Það fannst honum líka í lagi vegna tjáningarfrelsisins.

Þorleifur gaf sér að hægri öfgamenn myndu hugsanlega styðja baráttu hans fyrir tjáningarfrelsinu. Það var of mikið fyrir Þorleif, sem telur sig hafa sérréttindi umfram aðra. Hann hætti að vera Je suis Charlie og yfirgaf félaga sína.

Ergo: Íslamskir öfgamenn sem drepa fólk fyrir að halda fram skoðunum sínum eru skárri en hægri öfgamenn sem berjast fyrir því að það sama fólk hafi frelsi til að tjá skoðanir sínar.

Eðlilega brosti fyrrum tilvonandi forseti lýðveldisins Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kastljóss sínu blíðasta sjálfsagt sætur söngur í hennar eyrum.


Brandarar bannaðir

Í stjórnartíð Jóseps Stalín í Sovétríkjunum sátu yfir 200 þúsund einstaklingar í fangabúðum fyrir það eitt að hafa sagt brandara sem Stalín og félögum hans í Kommúnistaflokknum fundust ekki sniðugir.

Ayatollah Khomeni erkiklerkur í Íran á sínum tíma sagði að það væru engir brandarar í Íslam. Þau kynni sem Vesturlandabúar hafa af þessari stirðnuðu hugmyndafræði bendir til þess að Khomeini hafi haft rétt fyrir sér.

Hvað skyldu margir sitja í fangelsum Erdogan fyrir að hafa sagt brandara sem honum og félögum hans geðjast ekki að. Þeir telja áreiðanlega meir en þúsundið.

Stjórnmálamenn í Evrópu eru að verða eins andlega stirðnaðir og Imamarnir sem Saudi Arabar senda út til að boða miðaldasiði í Moskum sem þeir hafa byggt um alla Evrópu. Þeir telja m.a. orðið rétt að fylgja fordæmi Stalíns og höfða opinnber mál til að koma grínistum sem hafa sagt "ranga" brandara í Gúlag Fangabúðirnar.

Ef forustumenn í stjórnmálum í Evrópu vilja sjá staðreyndir mála þá gætu þeir e.t.v. áttað sig á að í dag á Evrópa meiri samleið með Rússum en Tyrkjum. Einnig að Evrópu stafar meiri hætta af Tyrkjum en Rússum. Það eru engir þeir hagsmunaárekstrar sem réttlæta illindi Evrópu og Rússa.

Rétt væri líka að NATO skoðaði að víkja Tyrkjum úr NATO. Tyrkir hafa unanfarin ár stutt ljóst og leynt starfsemi ISIS og ýmissa annarra hryðjuverkasamtaka. Þeir hafa keypt olíu af ÍSIS og smyglað vígamönnum yfir landamæri Sýrlands til samtakanna. Ekki að undra að lánlausasti stjórnmálamaður Evrópu um þessar mundir Angela Merkel skuli hafa gert Erdogan að besta vini sínum.

Þá gleymdi hún því fornkveðna sem Grettir sterki vissi:

"Illt er að eiga þræl að einkavin"

Svo telja einhverjir enn meðal okkar þjóðar að það þjóni hagsmunum Íslands að ganga í Evrópusambandið. Það væri frekar að ganga úr Schengen og taka EES samninginn til endurskoðunar.


Tjáningarfrelsið og Angela Merkel

Erdogan alræðistjórnandi Tyrkland hefur krafist þess af Angelu Merkel vinkonu sinni Þýskalandskanslara að hún sjái til þess að grínistinn Jan Böhmermann verði ákærður fyrir að móðga hinn "háæruverðuga" Erdogan. Eins og Angelu Merkel var von og vísa þá tók hún að daðra við Erdogan í stað þess að standa vörð um tjáningarfrelsið.

Sök grínistans var sú, að segja að Erdogan kúgaði minnihlutahópa, væri með ofsóknir gegn Kúrdum og berði á Kristnum á meðan hann horfði á barnaklám. Auk þess hafði grínistinn farið áður með vafasama vísu um Erdogan.

Þetta var meira en Erodan þoldi og að ósk Tyrkneskra stjórnvalda hófst rannsókn í Þýskalandi, á meintu broti grínistans á grundvelli hegningarlagagreinar nr. 103 í þýska refsiréttinum. Sú hegningarlgagrein er sögð ekki hafa verið notuð svo lengi sem elstu menn muna, en leggur refsingu við því, allt að þriggja ára fangelsi, fyrir að fara meiðandi orðum um erlendar stofnanir eða fulltrúa erlendra ríkja.

Undanlægjuháttur Merkel er svo mikill að hún tók það sérstaklega fram eftir að Tyrkjasoldán kvartaði að henni fyndist grín Jan Böhmerman óviðunandi og forkastanlegt. Annar fulltrúi "góða fólksins" Hakan Tanriverdi sakaði Jan Böhmerman um að vera rasisti. Ekki óþekkt í orðræðunni þegar rök skortir.

Þjóðhöfðingjar og stjórnmálamenn um víða veröld þurfa að sætta sig við að grínistar um veröld víða geri sér mat úr einhverju sem þá varðar t.d.Sigmundur Davíð. Þá hafa heldur betur fallið alvarlegri ummæli um Obama Bandaríkjaforseta og Hollande Frakklandsforseta svo dæmi séu tekin. En engum þessra eða yfir höfuð stjórnmálamanna í frjálsum ríkjum dettur í hug að krefjast þess af erlendri ríkisstjórn að hún lögsæki grínista á grundvelli úreltra hegningarlagaákvæða.

Annað gildir um Erdogan Tyrkjasoldán. Hann hefur fangelsað fleiri blaða- og fréttamenn en nokkur annar í veröldinn og nú verður að þagga niður í fréttafólki og grínistum í öðrum löndum svo fólk fái aldrei að vita hvers konar drullusokkur Erdogan er.

Því miður virðist Angela Merkel ekki átta sig á mikilvægi Tjáningarfrelsins og vilja dansa eftir pípu Erdogans. Skömm hennar verður stöðugt meiri.  


Hatursorðræða

Samfylkingin og Píratar skilgreina hatursorðræðu, sem ummæli, sem beinast að Múhameðstrú og samkynhneigðum. Nokkuð skondið vegna þess að víðar en ekki er samkynhneigð dauðasök í löndum Múhameðstrúar, en annars alvarlegt afbrot. Í siðuðum löndum er víðast hvar mun víðtækari skilgreining á hatursorðræðu en hér.

Frambjóðandi til varaformanns Samfylkingarinnar, Sema Erla Serdar, fer fyrir hópi sem berst fyrir því, að fólk kaupi ekki vörur frá Ísrael. Sema þessi, fékk sérstakan Kastljósþátt til að barma sér yfir hatursorðræðu sem að henni beindist í upphafi kosningabaráttunnar. Sema stendur þó fyrir hatursorðræðu gagnvart öðrum. Á það var ekki minnst af starfsfólki Kastljóss.

Í Frakklandi er það hatursorðræða að berjast fyrir að fólk sniðgangi vörur framleiddar í Ísrael. Í Bandaríkjunum, Kanada og Bretlandi eru reglur sem annaðhvort banna starfsemi sniðgönguhreyfingar gagnvart Ísrael, þar sem um sé að ræða hatursorðræðu eða höft eru sett á starfsemi þeirra. Í  Bretlandi er opinberum aðilum þ.m.t. bæjarfélögum, námsmannafélögum o.fl. bannað að taka þátt í eða leggja sniðgönguhreyfingunum lið.

Miðað við nágrannalönd okkar er umræðan hér svo vanþróuð og undir svo miklum öfgavinstri áhrifum, sérstaklega í fréttamiðlum 365 og RÚV, að jafnræði hvað varðar hatursorðræðu er ekki fyrir hendi. Allir flokkar í borgarstjórn með heiðarlegum undantekningum einstaklinga stóðu t.d. að því að styðja sniðgöngu gagnvart Ísrael.

Svo illa er nú komið fyrir Sjálfstæðisflokknum að fulltrúar hans undantekningarlítið, láta öfgavinstriliðið teyma sig hvert á land sem er í umræðunni um hatursorðræðu, innflytjendur og flóttamenn.

Ólíkt því sem er í nágrannalöndum okkar þá er engin stjórnmálaflokkur sem berst fyrir skynsemi hvað varðar hatursorðræðu eða málefni innflytjenda og flóttafólks. Öfgavinstrihallinn á umræðunni fær því lítið áreittan framgang. Við það verður ekki búið.


Tjáningarfrelsið

Í yfirliti um mannréttindi sem lýðræðisþjóðir telja mikilvægust kemur fram að flestir meta tjáningarfrelsið mikils.

Á tímum einveldis-og arfakonunga var tjáningarfelsið takmarkað ef eitthvað og þau þjóðfélög störfuðu undir vígorðinu:

"Vér einir vitum."

Elítan aðallinn og kóngafólkið hafði eitt rétt til að tjá sig, en ekki sauðsvartur almúginn.

Þegar alræðishyggju einvaldskonunga var vikið til hliðar og borgaraleg réttindi voru í mótun varð vígorð frjálslyndrar einstaklingshyggju allt frá dögum Voltaire til okkar dags varðandi tjáningarfrelsið:

"Ég fyrirlít skoðanir þínar en ég er reiðubúinn til að láta lífið í sölurnar til að þú fáir að halda þeim fram"

Hugmyndafræðin byggir á því að sérhver borgari hafi sama rétt til tjáningar hvort sem mér eða þér, elítunni eða þjóðfélagsvaldinu líkar það betur eða verr.

Heildarhyggjufólk nútímans hefur í auknum mæli tekið aftur upp sjónarmið einvaldskonunga og hóphyggju. Þetta fólk telur sig hafa rétt til að ákveða hvaða skoðanir séu verðugar og hverjar ekki. V

ígorðið "vér einir vitum" er aftur komið í öndvegi hjá sósíalistum í Samfylkingu og Vinstri grænum og Kastljósi RÚV. Vígorð þessa hóps er þetta: 

"Ég er ósammála því sem þú segir og mun draga dár að þér opinberlega. Gera það sem ég get til að þú fáir ekki að tjá þig  eða nokkuð birtist eftir þig. Auk þess mun ég gera þá kröfu að þú verðir rekinn úr vinnunni."

Spurningin er því nú sem fyrr hvort veljum við frelsi eða helsi.   


Dómstóll RÚV

Dómstóll RÚV hefur verið að störfum í Kastljósi tvö kvöld í röð. Dómstóll RÚV fjallar þar aðallega um meint hatursummæli í garð framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar Semu Erlu Serdar. Kastljósþættirnir voru fyrst og fremst klæðskerasniðnir fyrir Semu til að koma höggi á þá sem svara henni. Þess er vandlega gætt að gera í engu grein fyrir þeim skrifum og skoðunum sem Sema Erla stendur fyrir og hvað leiddi til andsvaranna.

Sema Erla hefur kallað fólk fasista, rasista, þjóðernisofstækisfólk og öðrum nöfnum að tilefnislausu. Þá stendur hún fyrir samskonar hatursherferð gegn Gyðingum og nasistar byrjuðu í Evrópu um miðja síðustu öld, með því að hvetja til að fólk sniðgangi vörur sem framleiddar eru í Ísrael. Sema Erla er formaður félagsskaparins sem er með þessa kynþáttafordóma gagnvart Gyðingum. Væri þá sanngjarnt að kalla hana nasista af því tilefni? Hún gefur öðrum álíka nafngiftir af minna tilefni.

Svo rakin séu nokkur nýleg ummæli Semu Erlu þá segir hún í pistli á Eyjunni 28.2.s.l. "Marine Le Pen, Geert Wilders og aðrir Evrópskir fasistar hafa eignast systurflokk á Íslandi (Þjóðfylkingin)þau hljóta að vera ánægð."

Er óeðlilegt að það fólk sem þarna er kallað fasistar sendi Semu Erlu svipuð skilaboð og hún þeim?

"Um langan tíma hefur Morgunblaðið gerst sekt um að ýta undir fordóma í samfélaginu." Eyjan 14.112.2015 

Í pistli sínum á Eyjunni þ.14.12.2015 nafngreinir hún síðan einstakling sem hún kynnir sem fulltrúa fordóma á Íslandi.

Hér eru eingöngu tilfærð nýjustu ummæli Semu án þess að fara á fésbókarsíðu hennar. Er furða þó að þeir sem verði fyrir barðinu á hatursummælum Semu bregðist við?

Athyglisvert er að sjá þegar skrif Semu eru skoðuð að þriðjungur þeirra fjallar um, hvað hún eigi bágt að sitja undir árásum og hatursummælum fólks. Þrátt fyrir að hún hafi ekki setið undir meiri árásum, en ýmsir aðrir þ.á.m. sá sem þetta ritar.

RÚV dómstóllinn ákvað hins vegar að taka málið fyrir, rétta yfir fólki einhliða og mannorðsmyrða það fyrir ummæli sem ekki voru sett í samhengi við það sem Sema hafði skrifað. Andmælaréttur sakborninga var í engu virtur. Dómur RÚV var einhliða og öllu alvarlegri misbrestur á málefnalegum réttarhöldum en í Sovét forðum eða í Tyrklandi nútímans.

Hingað til hafa þeir sem verða fyrir árásum á mannorð sitt og æru eða sitja undir röngum dylgjum og öðru þess háttar, þurft að reka mál sín fyrir dómstólum. Dómstólar viðhafa vandaða málsmeðferð og kveðið upp dóma á grundvelli laga eftir að hafa hlustað á sjónarmið beggja aðila og kynnt sér öll gögn málsins. Dómstóll Kastljóss RÚV sér ekki ástæðu til að viðhafa slík vinnubrögð. Erdogan stíllinn er þeim meir að skapi þó sá stíll hafi leitti til þess að í Tyrklandi eru nú fleiri blaða- og fréttamenn í fangelsum en í nokkru öðru landi í veröldinni.

Enn einu sinni gerist Fréttastofa/Kastljós RÚV sig seka um að þjónusta ákveðna pólitíska og skoðanalega hagsmuni og beitir þá aðferðum sem Erdogan Tyrkjasoldán mundi telja eðlilega, en standast ekki í réttarríkjum. Er einhver afsökun fyrir því í lýðrfrjálsu landi að almenningur skuli neyddur til að borga þessum pólitísku áróðursglömrurum RÚV launin sín.

 


Kristni-Fordómar-Fjölmenning-Einmenning

Upprisuhátíðin fer í hönd og í tilefni þess setti vinsæll verslunareigandi,Asad Shah,sem er múslimi 40 ára að aldri og fæddur í Pakistan, eftirfarandi kveðju frá sér á Feisbók.

"Til minnar elskuðu kristnu þjóðar

Föstudagurinn langi og gleðilega upprisuhátíð til minnar elskuðu kristnu þjóðar. Við skulum feta í raunveruleg fótspor okkar elskaða heilaga Jesús Krists og njóta velgengni í báðum heimum."

(Good Friday and a very Happy Easter, to my beloved Christian nation. Let´s follow the real footstep of beloved holy Jesus Christ and get the real success in both world)

Þessi ummæli voru umfram það sem íslamistarnir gátu þolað.  Ráðist var á Asad Shah og hann drepinn með því að troða á og sparka í höfuð hans.

Íslamistarnir þola ekki fjölmenningu. Þeir þola ekki að það sé talað vel eða hlýlega um kristni og kristið fólk, eða Búddatrúar, Hindúa o.s.frv.

Menning Íslamistanna er ekki fjölmenning. Hún er einmenning. Undansláttarfólkið sem myndar fimmtu herdeildina innan borgarmúra kristinna samfélaga og ver Íslamistanna með fjölbreyttum hætti, ætti að gaumgæfa það.  

 


Frjálslyndu fasistarnir

"Frjálslyndu fasistarnir" sem ég kýs aða kalla svo eru langt frá því að vera frjálslyndir, en telja sig vera það öðrum fremur. Þau eru til vinstri í pólitík skv. hefðbundinni skilgreiningu. Þetta fólk er sannfært um ágæti eigin skoðana og þolir illa að því sé andmælt. Það telur sig hafa rétt á að koma í veg fyrir lýðræðislega umræðu ef hún er þeim ekki að skapi

Í hvert skipti sem einstaklingur eða hópur fólks hefur í frammi háreysti, köll eða önnur ólæti sem koma í veg fyrir að annar einstaklingur geti tjáð sig þá er það atlaga að tjáningarfrelsinu. Ekki skiptir máli hvort viðkomandi finnst skoðanir þess sem árás er gerð á óþolandi, rangar eða meiðandi.

Í nótt kom hópur fólks í veg fyrir að Donald Trump gæti tjáð sig. Það var atlaga að tjáningarfrelsinu hornsteini lýðræðislegs samfélags, óháð því hvað fólki finnst um skoðanir Trump.

Trump hefur sett fram digurbarkalegar yfirlýsingar, sem oft hafa verið meiðandi. Hann hefur samt rétt til að setja þær skoðanir fram. Það er löglegra yfirvalda að gera ráðstafanir til að gera hann ábyrgan orða sinna, fari hann yfir mörk eðlilegrar tjáningar í lýðræðisríki. Það skiptir frjálslyndu fasistana, sem gera atlögu að tjáningarfrelsinu engu máli.

Í Evrópu reyna frjálslyndu fasistarnir ítrekað oft með miklu ofbeldi og líkamsmeiðingum að koma í veg fyrir að ákveðnar skoðanir fái að heyrast. Þau sækja að öllum sem mótmæla stefnu um opin landamæri og krefjast þess að innflytjendur aðlagist þeim þjóðfélögum sem þeir búa í. Þessir frjálslyndu fasistar, sem fara hamförum gegn ofbeldi í orði eru þeir sem oftast beita því eða hóta að gera það í raunveruleikanum sbr. höfund "Illsku", Eirík Örn Norðdahl.

Frjálslyndu fasistarnir eru nánast þeir einu í Evrópu og Norður Ameríku, sem fara fram með ofbeldi til að koma í veg fyrir að pólitískir andstæðingar þeirra fái að tjá sig eða hafa í frammi friðsöm mótmæli. 

Í því sambandi er athyglisvert að þeir hópar sem fjölmiðlar og vinstri háskólaelítan kallar "hægri öfgamenn", "þjóðernisofstækissinna" eða "pópúlista", sem séu hættulegir lýðræðinu gera sig almennt ekki seka um að leysa upp eða koma í veg fyrir eðlilega umræðu andstæðinga sinna í þróuðum lýðræðisríkjum. Það eru frjálslyndu fasistarnir sem sama fjölmiðlafólk og háskólaelíta kallar "aðgerðarsinna" já jafnvel "lýðræðissinna" sem beitir þessum andlýðræðislegu aðgerðum.

Fjölmiðlar og vinstri háskólaelítan ætti hins vegar að staldra við og spyrja sig þeirrar spurningar hvort að svona ofbeldi sé líklegt til að skila sér í betri og hófstilltari umræðu. Er ekki líklegra að þeir sem verða fyrir ofbeldinu fari að beita sömu aðferðum til að geta komið skoðunum sínum á framfæri. Sagan segir okkur það alla vega.


Grínið og hatursumræðan

Í gær birti Fréttablaðið "grínmynd" af Ásmundi Friðrikssyni alþingismanni mitt í hópi kuflklæddra KuKluxKlan manna. Hvað hafði Ásmundur til unnið til að öðlast þessa vafasömu upphefð. Hann hafi hvatt til þess að fram færu málefnalegar umræður um flóttamannavandamálið og ólöglega hælisleitendur.

Í Fréttablaðinu fyrir borgarstjórnarkosningar var frambjóðandi Framsóknarflokksins í fyrsta sæti sett í KuKluxKlan búning.Hvað hafði hún til unnið til að öðlast þá vafasömu upphefði. Hún hafði hvatt til umræðu og endurupptöku lóðaúthlutunar fyrir Mosku í Reykjavík

Stefna Fréttablaðsins í málefnum erlends aðkomufólks er ljós. Blaðið vill opin landamæri og skopteiknarinn teiknar í samræmi við það og leiðarar blaðsins og fastir pennar eru valdir í samræmi við þá skoðun útgefenda blaðsins.

Þessi skopmynd segir því miður þá sorglegu sögu að fjölmiðlaelítan og vinstri sinnaða háskólaelítan er ekki tilbúin til að samþykkja hlutlægar umræður um innflytjendamál. Hver sá sem um það fjallar og krefst þess, að hertar reglur varðandi ólöglega innflytjendur og flóttamenn, sem ekki eru flóttamenn og uppfylla ekki skilyrði samþykkta Sameinuðu þjóðanna um málið, taki gildi skal skotinn á færi - ekki með málefnalegri umræðu af því að þá mundi þessar elítur tapa umræðunni, heldur með háði, spotti og hatursummælum.

Skyldi lögregluforinginn sem á að fylgjast með hatursglæpum hafa skoðað þetta?

Óneitanlega var síðan eftirtektarvert að sjá að jafnvel á vefsvæðinu vísir.is þrátt fyrir einhliða áróður Fréttablaðsins og blaðamanna vísir.is, fyrir opnum landamærum tóku tæp 80% þeirra sem tjáðu sig afstöðu með hertum reglum um innflytjenda- og flóttamannamál. Það sýnir betur en mörg orð að fjölmiðlaelítan og vinstri sinnaða háskólaelítan er orðin viðskila við fólkið í landinu.


Ofbeldissambandið.

Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata segist vera í ofbeldissambandi í flokki sínum. Eftir því sem skinið hefur betur í gegn um innmúraða veggi og dyr flokks Pírata, kemur í ljós að meintur ofbeldisaðili er Birgitta Jónsdóttir alþingismaður, sem virðist vera "freki karlinn" í sambandinu svo notuð séu orð Jóns Gnarr.

Ekki er ljóst hvort Jón Ólafsson fyrrum þingmaður Pírata varð svo þrekaður af ofbeldissambandinu, að hann sá þann kost vænstan að segja af sér þingmennsku og fara frekar í malbikið og stöðumælavörðinn.Virkasta leiðin er,að yfirgefa ofbeldisaðilann.

Það er líka þekkt, að gefa ofbeldismanninum tækifæri til að bæta ráð sitt. Það virðist þó ekki vera á döfinni hjá Pírötum. Þvert á móti mælir siðgæðisvörður Pírata með því að ofbeldisvandanum sé sópað undir teppið. Alla vega verði ekki rætt um það eða obeldisaðilinn látinn sæta viðurlögum.  Gegn þessari leið mæla flestir sem þekkingu hafa og telja að þá muni ofbeldisaðilinn ná sínu fram og færast í aukanna.

Í dag mátti síðan sjá að sú þróun virðist vera að gerast miðað við ummæli Birgittu Pírata í Kjarnanum og sagði þá einhver "Heggur sá sem hlífa skyldi" Spurning er þá hvað siðgæðisvörður Pírata segir nú eftir að hafa beðið fólk að tala ekki um þetta nema við sig og halda þessu leyndu fyrir almenningi þvert á boðun Pírata um opna umræðu og gagnsæja stjórnsýslu og stjórnun.

Á enn að sussa á þá sem kvarta undir heimilisofbeldinu á fleyinu eða mæta ofbeldinu með þeim hætti sem talinn er virkastur og raunar nauðsynlegur til að koma í veg fyrir að aðrir verði einnig fyrir barðinu á því? Þannig er það alla vega í fræðnum og það veit siðgæðisvörðurinn mætavel þó hann kjósi allt aðra leið í orði og borði þegar liggur við þjóðarsómi eða hvað annað gæti réttlætt áframhaldandi ofbeldi? Ef það er þá eitthvað sem réttlætir það.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 164
  • Sl. sólarhring: 480
  • Sl. viku: 3266
  • Frá upphafi: 2516011

Annað

  • Innlit í dag: 154
  • Innlit sl. viku: 2998
  • Gestir í dag: 153
  • IP-tölur í dag: 150

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband