Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Mannréttindi

Samband ungra sjálfstæðismanna vaknar til lífsins

Mikið var ég ánægður að sjá að mín gömlu samtök, SUS samband ungra sjálfstæðismanna, voru lifandi og stjórn þess meira að segja farin að álykta. Þegar liggur mikið við er eðlilegt að fólk hristi af sér slenið og láti til sín taka. Tilefnið var lítt hugsuð ummæli eins þingmanns flokksins að kanna bakgrunn þeirra múslima sem hér búa. Auk fordæmingarinnar er þess krafist að þingmaðurinn biðjist afsökunar.

Nú víkur svo við að ég er ekki sammála umræddum ummælum þingmannsins en sé þó ekki að hann þurfi að biðjast á þeim afsökunar eða einvher ástæða sé til að fordæma þau. Ef til vill hefði SUS frekar átt að láta í sér heyra þegar einn af ráðherrum flokksins vill auka á ríkisvæðinguna og hlutast til um það að venjulegir íslendingar hafi ekki lengur aðgang að helstu náttúruperlum þjóðarinnar nema geta framvísað certificati frá stjórnvöldum um heimild til þess. En það verður hver að forgangsraða í pólitík sem hann telur mikilvægast.

Svo er það nú annað sem að þeir sem fordæma þingmanninn Ásmund Friðriksson ættu að hugleiða, en það er sú staðreynd að lögregludeildir hvort sem eru á hinum Norðurlöndunum og Bretlandi eru einmitt uppteknar við að skoða sérstaklega þá sem aðhyllast þennan trúarhóp sem þingmaðurinn gerði að umtalsefni með tilliti til öryggis borgaranna. Þingmaðurinn er því ekki að segja neitt sem fer í bág við almenna praktík í nágrannalöndum okkar og sjálfsagt hér líka. Þá má líka benda á að stofnaðar hafa verið lögregludeildir sérstaklega til að fylgjast með fólki sem aðhyllist Íslam.

Stjórn SUS mætti taka til umræðu og skoðunar það eftirlitskerfi sem hefur verið hrúgað upp á ýmsum sviðum t.d. varðandi öryggismál þar sem heimiluð hefur verið víðtækt eftirlit og símhleranir hjá almennum borgurum. Stjórnvöld á Vesturlöndum eru stöðugt að taka sér víðtækara og víðtækara vald til að hafa afskipti af borgurunum og eftirlit með þeim á grundvelli ímyndaðs eða raunverulegs þjóðáröryggis. Hvað langt á að ganga og hve mikið viljum við gefa eftir af einstaklingsbundinni friðhelgi einstaklinganna vegna þessa. Það er spurnignin sem einstaklingshyggjumenn þurfa fyrst og fremst að svara en ekki vandræðast vegna vanhugsaðra ummæla einhvers þó hann sé þingmaður.

 


Guðlastið og hatrið.

Ég hafði satt að segja ekki gert mér grein fyrir samhengi hryðjuverkaárásar Jihadistanna á blaðið Charlie Hedbo og 125.gr. almennra hegningarlaga á Íslandi um guðlast. Þingflokkur Pírata og Egill Helgason eiga því þakkir skyldar fyrir að leiða okkur í allan sannleika um raunverulegt orsakasamhengi þeirra hluta enda gildir hér hið fornkveðna. "Miklir menn erum við Hrólfur minn."

Þingflokkur Pírata hefur tilkynnt að í tilefni árása og morða Jihadista á starfsfólki franska blaðsins Charlie Hedbo telji þeir rétt að 125.gr. almennra hegningarlaga um guðlast verði afnumin. Ekki verður alveg séð orsakasamhengið milli veru 125.gr. almennra hegningarlaga í löggjöf landsins og árásarinnar, en þar sem Egill Helgason pistlahöfunur hefur blessað þetta sem eitt mesta nauðsynjamál varðandi breytingar á löggjöf landsins af gefnu tilefni, þá hlítur svo að vera.

Hægt er að taka undir með Pírötum og Agli Helgasyni að þetta ákvæði í refsilöggjöf er óþarft og almenn æruvernd og friðhelgi einstaklinga og samtaka á að vera varin af almennum ákvæðum hegningarlaga. Það þarf því að skoða það mál í samhengi og hvort ekki sé rétt að breyta fleiru.

Í tilefni fréttatilkynningar Pírata um að þeir vilji afnema 125.gr. almennra hegningarlaga um guðlast þá er rétt að þeir gaumgæfi hvort ekki sé líka rétt að afnema 233.gr.almennra hegningarlaga svonefnt hatursákvæði.  Ekki verður annað séð en að blað eins og t.d. Charlie Hedbo hefði ítrekað gerst sekt um brot gegn þeirri grein almennra hegningarlaga ekki síður en 125.gr. almennra hegningarlaga.

Þó visst tilefni sé til að hafa bæði 125.gr. og 233.gr. almennra hegningarlaga þá vega almenn rök tjáningarfrelsis þyngra um að afnema beri þessi sérákvæði æruverndar enda eru þau fyrst og fremst notuð til að koma í veg fyrir eðlilega umræðu og kímni eins og leikarinn Rowand Atkinson (Mr. Bean) hefur ítrekað bent á.

Gott mál afnemum hvorutveggja og miðum við að allir séu jafnir fyrir lögunum og njóti sömu æruverndar.

 


Óbilgjarnir öfgasinnar

Guðmundur Andri Thorson segir í blaðagrein að óbilgjarnir öfgasinnar sæki að Ríkisútvarpinu með linnulausum árásum. Ekki gerir greinarhöfundur tilraun til að skilgreina hvað felist í því sem hann kallar óbilgjarnar árásir öfgasinna.

Nú er það svo að gagnrýni á RÚV er af mörgum og mismunandi toga. Einn hópur telur að þar sé um að ræða pólitíska hlutdrægni. Aðrir gagnrýna á þeim forsendum að það sé ekki nægjanlega faglega unnið og metnaður ekki nægur. Enn aðrir gagnrýna RÚV vegna stöðnunar og þess að ekki sé brotið upp á nýungum. Svo eru þeir sem segja að ekki sé farið nægjanlega vel með það mikla fé sem stofnuin fær af nefskatti fólks og fyrirtækja. Loks eru það óbilgjarnir öfgasinnar eins og ég að mati Guðmundar Andra sem gagnrýna það að geta ekki valið um það hvort ég vilji vera áskrifandi eða ekki.

Það er brot gegn sjálfsákvörðunarrétti mínum sem borgara að skylda mig til að greiða til ljósvakamiðils í eigu ríkisins. Með því að hafa þá skoðun er ég orðinn óbilgjarn öfgasinni?

Stofnun eins og RúV verður að þola gagnrýni. Stofnun eins og Rúv verður að sætta sig við að forsendur rekstrar ríkisfjölmiðils eru allt aðrar nú þegar hægt er að nálgast fréttir og afþreyingarefni með einföldum hætti nánast hvar sem er. Stofnun eins og RÚV hefur ekki brugðist við kalli tímans og brotið upp á nýungum í takti við breytingar á fjölmiðlaumhverfinu.  Ég get með engu móti séð hvernig það kemur heim og saman að þeir sem gagnrýna stöðnun og vond vinnubrögð RÚV séu óbilgjarnir öfgamenn sem vilji sundra þjóðinni.

Ekki dettur mér í hug að kalla Guðmund Andra óbilgjarnan öfgasinna þó við séum ekki á sama máli varðandi hljóðvakamiðlun. Mér finnst það hinsvegar öfgar hjá öllum þeim sem telja rétt að svipta mig og aðra frelsi til að vera áskrifendur að eða ekki áskrifendur að RÚV. Þeir eru að stela peningunum okkar til að þjóna lund sinni. Er slíkur þjófnaður á annarra fé með samþykki meiri hluta Alþingis ekki mun frekar brot á réttindum frjálsborins fólks til að ráða málum sínum sjálft?

Hver er þá óbilgjarn öfgasinni? Sá sem vill frelsi eða sá sem vill halda við helsi og frelsisskerðingu?


Nefskattur RÚV

Vinur minn sagði farir sínar ekki sléttar og telur að það sé verið að ræna sig með nefskatti til RÚV. Borga þarf 18.000 krónur fyrir hvert fullorðið nef og lögaðila.

Þetta þýðir hjá vini mínum að hann þarf að borga sjálfur eitt gjald, konan hans annað, einkahlutafélag hans eitt gjald og einkahlutafélag konunnar eitt gjald. Samtals greiða þau því fyrir sig og einkahlutafélögin sem horfa aldrei á sjónvarp eða hlusta á útvarp kr. 72.000.-

Eitt af því sem er það versta við lýðræðisþjóðfélagið er ótti þeirra sem fara með löggjafarvaldið við lýðræðið. Í samræmi við það treystir meirihluti alþingismanna ekki einstaklingunum til að taka ákvörðun um það hvort þeir vilji borga fyrir áskrift að RÚV eða ekki. Þeir skulu borga með góðu eða illu hvort sem þeir nýta þjónustu RÚV eða ekki.

Hvernig væri að við færum að velta fyrir okkur hvernig við aukum lýðræðið í landinu með því að gefa borgurnum meiri rétt til að taka ákvarðanir fyrir sig í stað þess að einvhverjir kallar og kellingar á Alþingi taki ákvörðunarvaldið af einstaklingunum.

Hvernig væri að þú fengir að ráða því hvort þú vilt kaupa áskrift að RÚV eða ekki

Hvernig væri t.d. að þú réðir því í hvaða lífeyrissjóði þú ert eða hvernig þú vilt haga sparnaði þínum innan eða utan lífeyrissjóðs.

svo dæmi séu tekin.


Verðtrygging og nauðsynlegar upplýsingar.

EFTA dómstóllinn hefur dæmt að íslenska verðtryggingin brjóti ekki í bága við regluverk Evrópusambandsins. Dómur EFTA dómstólsins nú snýst um hvort upplýsingagjöf fjármálastofnana til neytenda vegna töku verðtryggðs láns hafi verið fullnægjandi. Niðurstaða dómsins er sú að útreikningur miðað við 0% verðbólgu séu ófullnægjandi upplýsingagjöf.

Hvaða þýðingu það hefur er erfitt að segja vegna þess að í því efni er EFTA dómstóllinn óræðari en véfréttin í Delfí í Forn Grikklandi. Ítrekað er vísað til þess að það sé fyrir íslenska dómstóla að dæma um það hvaða afleiðingar það hafi. Þá er einnig vísað til þess hvað neytandi vissi og mátti vita.

Veruleg óvissa er um hvort einhverjir geti fengið verðtryggða lánasamninga sína ógilta á grundvelli svara EFTA dómstólsins. Miðað við orðalag og forsendur EFTA dómstólsins í málinu þá geta lögaðilar og þokkalega menntaðir einstaklingar ekki átt von á því að verðtryggðum lánasamningum þeirra verði vikið til hliðar.

Verðtrygging á neytendalánum er óréttlát og bitnar illa á neytendum. Þess vegna er nauðsynlegt að losna við hana og hafa svipuð lánakör í boði fyrir neytendur og í nágrannalöndum okkar. Lausn á því máli næst ekki fram fyrir dómstólum. Það er pólitísk ákvörðun og nýgengin dómur EFTA dómstólsins breytir þar engu. Sá dómur fjallar eingöngu um hvort að mistök við upplýsingagjöf til neytenda varði ógildingu sumra lánasamninga en tekur ekki á hinu stóra meini

VERÐTRYGGINGUNNI

Verðtryggingin verður að fara af öllum neytendalánum dómstólar munu ekki dæma hana ógilda miðað við fyrirliggjandi regluverk. Það mál verður að sækja á Alþingi. 

Má e.t.v. minna á loforð ríkisstjórnarinnar í því efni?


Afsögn og sök

Það er hemill á rökfræðilega umræðu að ræða mál út frá hagsmunum einstaklinga. Þess vegna verður umræða í fámennum þjóðfélögum eins og Íslandi oft ómarkviss og persónugerð í stað þess að aðalatriði málisins séu rædd.

Þegar Hanna Birna Kristjánsdóttir ákvað vonum seinna að segja af sér ráðherradómi þá var spurningin ekki um sök heldur hvort það væri heppilegt fyrir stjórnsýsluna í landinu, ríkisstjórnina og Sjálfstæðisflokkinn að hún gegndi áfram störfum.

Þegar hún hefur nú sagt af sér þá er spurningin ekki um framtíð hennar í pólitík, sem engin getur sagt fyrir um heldur hvort afsögn hennar hafi verið eðileg út frá málefnalegum sjónarmiðum.

Það gengur síðan ekki upp fyrir mig rökfræðilega þegar formaður Sjálfstæðisflokksins segist telja það heppilegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að varaformaður hans hafi þurft að segja af sér sem ráðherra og verði við það hæfari varaformaður.

Ég hef ekki velkst í vafa um að Hanna Birna Kristjánsdóttir mundi þurfa að segja af sér eftir að upplýsingar bárust um samskipti hennar og lögreglustjóra Höfuðborgarsvæðisins meðan á rannsókn máls sem beindist að henni og ráðuneyti hennar stóð. Eg hef undrast hversu lengi formaður Sjálfstæðisflokksins lét þetta ástand viðgangast og ef einhver hópur fólks ætti að fá meðvirkniverðlaunin í þessu máli þá er það þingflokkur Sjálfstæðisflokksins.

Það er svo annað mál að þetta lekamál er allt með ólíkindum og gjörsamlega ómögulegt að skilja hvað rak fólk í Innanríkisráðuneytinu til að afla og  koma upplýsingum um þennan ólöglega innflytjenda og meinta glæpastarfsemi hans á framfæri við fjölmiðla. Óneitanlega setur líka að manni kjánahroll þegar verjandi hans kemur ítrekað fram í fjölmiðlum og ræðir um skjólstæðing sinn eins og hvítskúraðan kórdreng.

Það er svo allt annað mál hvort Hanna Birna á endurkomu í pólitík eða ekki. Mona Sahlin þurfti að segja af sér eftir að hafa misnotað greiðslukort ráðuneytis síns en varð síðar formaður sænskra sósíaldemókrata- Kjósendur voru hins vegar ekki á því að fyrirgefa henni og sænskir sósíaldemókratar töpuðu stórt undir hennar forustu. Ritt Bjerregaard þurfti að segja af sér sem ráðherra í Danmörku og átti síðar langan farsælan pólitískan feril.

Á sínum tíma sagði Jóhann Hafstein þáverandi formaður Sjálfstæðisflokksins þegar verið var að tala um að hann léti af embætti og deilur milli Gunnars og Geirs voru í miðpunkti, að það væri engin maður svo merkilegur að Sjálfstæðisflokkurinn og hagsmunir hans væru ekki merkilegri. Þar átti hann við hvort viðkomandi væri trausts verður og líklegur til að leiða flokkinn til góðra verka og aukinnar tiltrúar þjóðarinnar.

Þessi orð Jóhanns Hafsteins eiga að vera sú viðmiðun sem fólk á að miðað við í starfi Sjálfstæðisflokksins.


Kynbundnar lánveitingar

Ríkislánastofnunin, Byggðastofnun, ætlar að hefja kynbundnar lánveitingar. Lánin sem um er að ræða standa einungis kvenkyns einstaklingum til boða  á lægri vöxtum en lán til karla.

Ekki veit ég hvernig þetta rímar við lög um jafnstöðu kynjanna og hvort þeir sem hæst tala um þá jafnstöðu hafa eitthvað við kynbundna mismunun lánveitinga að athuga.

Ríkislánastofnunin, Byggðastofnun, hefur tapað hlutfallslega mestu fé allra lánastofnana frá því þessi pólitíska lánastofnun var stofnuð. Hrunbankarnir eru þar ekki undanskildir. Fyrir liggur að stofnuin hefur nær eingöngu lánað karlmönnum og mettap lána er því þannig fólki að kenna.

Þó jafnstaða kynjanna sé mikilvæg þá er spurning hvort það eigi að koma í veg fyrir jákvæða hluti. Kynbundin mismunun á þessum vettvangi gæti þó haft í för með sér að konur yrðu umsækjendur og skráðar fyrir atvinnustarfsemi sem að hins kyns fólk hefði þó með að gera. Spurning er hvernig Byggðastofunun ætlar að koma í veg fyrir slíka misnotkun.

Víða í veröldinni hafa komið fram lánastofnanir sem lána nær eingöngu til smáfyrirtækja sem konur reka og sú lánastarfsemi hefur almennt gefist vel. Þá má ekki gleyma að velmegun þjóða er mest þar sem atvinnuþáttaka kvenna er mest. Þess vegna gæti kynbundin lán af því tagi sem ríkislánastofnunin boðar verið góðra gjalda verð. Ýmis rök geta því mælt með lánveitingum af þessu tagi

En þá er spurningin ef jafnstöðunni er vikið til hliðar að þessu leyti af skynsemisástæðum, getur það þá ekki átt við þess vegna með sömu formerkjum á öðrum sviðum.

 


Píratar og prentfrelsið

Þingflokkur Pírata hefur lagt fram frumvarp sem ber heitið "afnám fangelsisrefsingar fyrir tjáningu skoðana"  Þó að þessi breyting yrði að lögum þá breytti hún engu í raun þar sem engin hefur verið settur í fangelsi vegna þeirra brota sem frumvarpið varðar undanfarna áratugi þó slík refsing hafi verið dæmd.

Það er virðingarvert að óbreyttir þingmenn leggi fram lagafrumvörp og hugsunin er sú að endurskoða refsiákvæði vegna ærumeiðinga og standa vörð um eðlilega tjáingu. Þess vegna hefði verið æskilegt að þingmennirnir hefðu hugsað málið aðeins lengra fyrst á annað borð verið er að leggja til breytingar á refsiákvæðum vegna ærumeiðinga.

Þeir sem þurfa helst á æruvernd að halda eru einstaklingar vegna brota fjöl- og vefmiðla gagnvart t.d. friðhelgi einkalífs þeirra og heiðri. Þeir sem þurfa síður á æruvernd að halda eru þjóðríki, trúarhópar eða kynþættir. Það skaðar almennt ekki Þýskaland þó einhverjir kalli þjóðverja bölvaða nasista, sem þeir eru ekki. Kristið fólk á Vesturlöndum hefur mátt búa við árásir á trúarskoðanir sínar og trúartákn án þess að ástæða þyki til að beita refsilöggjöfinni. Þess vegna kom það fólki á Vesturlöndum á óvart þegar meðlimir Pussy Riot voru fangelsaðir fyrir brot á refsiákvæðum þess lands sem er hliðstætt þeim sem hér eru.

Meginatriðið er að fólk hafi víðtækt tjáningarfrelsi, en verði að bera ábyrgð á orðum sínum. Það verður þó að vera innan skynsamlegra marka.  Gamanleikarinn Rowand Atkinson sem lék m.a. Mr. Bean hefur verið hvað ákveðnasti talsmaður víðtæks tjáningarfelsis og fundist hatursákvæði vegna trúarhópa, hagsmunahópa og þjóða ganga allt of langt og takmarka eðlilega tjáningu og þess vegna eðlilega kerskni og húmor.

Þingmenn Pírata mættu skoða þetta mál nánar hvað varðar meiri breytingar á meiðyrðalöggjöfinni þannig að eðlileg umræða geti þróast í þjóðfélaginu þannig að þöggun tepurskaparins verði ekki alls ráðandi.


Ranglæti skammsýninnar

Við bankahrun var ákveðið að skattgreiðendur ábyrgðust allar innistæður Íslendinga í íslenskum bönum. Þá gerði VG og Samf  ekki athugasemdir. Fulltrúar fjármagnsaflanna réðu sér lítt fyrir gleði. Ekki var talað um að það hefði mátt fara betur með skattfé eða eyða því í annað.  

Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar segir að stökkbreytt verðtryggð lán einstaklinga almennt skuli leiðrétt að hluta, til að ná fram örlitlu réttlæti. Þá brá svo við að VG og Samfylkingin ákváðu að vera á móti réttlátri leiðréttingu og fengu til liðs við sig helstu fulltrúa fjármagnsaflanna í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Pétur Blöndal og Vilhjálm Bjarnason. Þeir Pétur og Vilhjálmur greiddu síðan atkvæði á móti eins og stjórnarandstaðan þrátt fyrir að hafa samþykkt þetta við stjórnarmyndun. Óneitanlega sérkennilegt bandalag sósíalistanna í VG og Samfylkingunni og fjármagnsfurstana.

Þegar meginhluti gengislána til einstaklinga reyndust ólögmæt þá fengu þeir sem þau tóku leiðréttingu. Talsmenn VG og Samfylkingarinnar lýstu ánægju með það. Afskriftir skulda fyirrtækja og rekstraraðila upp á hundruðir milljarða nutu líka velvilja fjármagnsfurstana, VG og Samfylkingarinnar. 

Þá átti eftir að leiðrétta verðtryggð lán venjulegs fólks sem hafði ekki farið offari í fjárfestingum en tapað miklu vegna galinna verðtryggðra lánakjara og óráðssíu annarra.

Við umræðu um neyðarlögin 2008 og síðar benti ég ítrekað á það sem hlyti að gerast í kjölfar bankahruns og gengisfellingar væri: Í fyrsta lagi mundi þjóðarframleiðsla dagast saman með tilheyrandi tekjuskerðingu. Í öðru lagi yrði verðhrun á fasteignum. Í þriðja lagi mundu verðtryggð lán hækka þó engin væri virðisaukinn í þjóðfélaginu. Af þeim sökum vildi ég láta taka verðtrygginguna úr samabandi. Allt þetta gekk eftir en vegna skammsýni mallaði verðtryggingin áfram og át upp eignir venjulegs fólks. Það var óréttlátt. Ranglæti.  

Venjuleg fasteign lækkaði við Hrun um 65% í Evrum, pundum eða dollurum talið, en verðtryggðu lánin hækkuðu verulega á sama tíma. Það er sú stökkbreyting sem verið er að litlum hluta að leiðrétta hjá venjulegu fólki.

Þessi leiðrétting er lágmarksleiðrétting og kostnaðurinn er þeim Jóhönnu Sigurðardóttur, Gylfa Arnbjörnssyni og öðru áhrifafólki að kenna sem stóð á móti því að verðtryggingin væri tekin úr sambandi á sínum tíma. Sá kostnaður sem ríkissjóður þarf að bera vegna þess að reynt er að ná fram skrefi í réttlætisátt er þeim að kenna sem neituðu að horfast í augu við staðreyndir við Hrun og gera raunhæfar ráðstafanir.

Þessar leiðréttingar kosta mikið fé en eru hluti sanngirnisbóta þar sem galið lánakerfi verðtryggingar fær að viðgangast á neytendalánum.

Mér er með öllu óskiljanlegt að þeir sem hæst gala um félagslegt réttlæti VG og Samf o.fl. skuli í þessu máli samsama sig með fjármagnsöflunum í landinu gegn fólkinu á sama tíma og foringjar þeirra sækja allir um að fá að vera með og njóta sanngirninnar sem þau eru samt á móti.

Þeir eru margir Hamletarnir í íslenskri pólitík þessa dagana.

 


Eitthvað annað

Fátt sýnir betur stefnuleysi og hugmyndasneyð stjórnarandstöðu en þegar forstumenn hennar segja allir sem einn að það hefði ekki átt að gera þetta, heldur eitthvað annað.

Í gær kynnti ríkisstjórnin skuldaleiðréttinu, sem gagnast venjulegu fólki verulega til frambúðar einkum ef verðtryggingin verður tekin af hið snarasta og það verður að gera. Forustufólk stjórnarandstöðunar voru í framhaldi af því spurð um aðgerðirnar og þá komu þau Katrín Jakobs, Árni Páll, Birgitta Jóns og Guðmundur Steingríms fram eins og einradda kór sem kyrjaði sömu hjáróma laglínuna. "Ekki þetta heldur eitthvað annað."

Nánar aðspurð sögðu leiðtogar stjórnarandstöðunnar eins og í vel æfðu leikriti nákvæmlega það sama eða  "Það hefði t.d. mátt greiða niður skuldir, leggja meira í heilbrigðiskerfið, leggja meira í menntakerfið o.s.frv."  Semsagt það mátti gera eitthvað bara eitthvað annað en kom skuldsettum einstaklingum til aðstoðar.

Það er athyglisvert að stjórnarandstöðunni kom ekkert annað í hug en endilega að eyða þeim fjármunum í eitthvað annað en að ná fram meira réttlæti fyrir þá sem þurftu að þola óréttlæti stökkbreyttu höfuðstóla verðtryggðu lánanna.

Athyglisvert að engum í stjórnarandstöðunni datt í hug að koma með hugmynd um að lækka skatta. Nei það mátti ekki rétta hag skuldugra heldur eyða því í annað.

Skattalækkun hefði þó líka dugað skuldsettum einstaklingum sem og öðrum og stuðlað að auknum hagvexti. En það datt semsagt stjórnarandstöðunni ekki í hug enda flokkslíkamabörn hugmyndafræði aukinnar skattheimtu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 90
  • Sl. sólarhring: 134
  • Sl. viku: 2873
  • Frá upphafi: 2516178

Annað

  • Innlit í dag: 78
  • Innlit sl. viku: 2635
  • Gestir í dag: 73
  • IP-tölur í dag: 71

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband