Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Mannréttindi

Leiðrétting og mótmæli

Á sama tíma og ríkisstjórnin kynnir langþráða leiðréttingu á stökkbreyttum höfuðstólum verðtryggðra lána er boðað til mótmælafundar á Austurvelli til að mótmæla einhverju.

Leiðrétting höfuðstólanna sem hækkuðu svo mikið í efnahagslegum ólgusjó banka- og gengishruns á árunum 2008 og 2009 var sjálfsögð, en hefði verið einfaldari og deilst með réttlátari hætti hefðu stjórnendur þessa lands samþykkt að taka verðtrygginguna úr sambandi strax við bankahrunið eins og ég lagði til eða þá fljótlega á eftir.

En betra er seint en aldrei. Ríkisstjórnin er nú að framkvæma það sem lofað var fyrir kosningar og er að því leyti ólík ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, sem lofaði og sveik.

Einhverjir munu gagnrýna þessa millifærslu fjármuna, sem með einum eða öðrum hætti kemur frá skattgreiðendum hvað sem hver segir. En þeir hinir sömu hefðu þá frekar átt að gagnrýna það þegar ríkið tók á sig hundraða milljarða skuldbindingar með því að ábyrgjast allar innistæður á innistæðureikningum í bönkum langt umfram skyldu.

Hefði skuldaleiðréttingin ekki verið gerð á óréttlátum ímynduðum virðisauka verðtryggingarinnar, en bara borgað fyrir þá sem áttu, en þeir sem skulda látnir liggja óbættir hjá garði þá yrðum við áfram þjóðfélag sem ekki gætti neins réttlætis.

Með aðgerðum ríkisstjórnarinnar er staðfest algjör skömm og svik þeirra Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar og skjaldborgar þeirra um skuldsett heimili.

Í stað þess að fagna því jákvæða sem ríkisstjórnin er að gera, þá finnst sporgöngufólki Samfylkingar og Vinstri grænna rétt að mótmæla við Alþingishúsið, jafnvel því sem Alþingi kemur ekkert við og hefur ekkert með að gera. 

Lánleysi mótmælandanna sem koma saman til að mótmæla einhverju af því bara er í besta falli grátbrosleg við þessar aðstæður.


Vettvangur ritsóða og ómerkilegra frétta

DV vefurinn hefur ekkert breyst þrátt fyrir nýja stjórn útgáfufélagsins og nýjan ritstjóra.

Í gær birtist sérstök frétt á vefsíðu DV þess efnis að Jón Bjartmars lögreglumaður hefði viljað láta lögregluna vinna vinnuna sína með sama hætti og lögregla gerir í nágrannalöndum okkar á árunum 2008 og 2009.  Fréttin er vissulega sett upp með öðrum hætti í DV í þeim tilgangi einum að varpa rýrð á viðkomandi lögreglumann og gera hann tortryggilegan.

Ekki stendur á viðbrögðum. Ritsóðarnir sem eru aðall og einkennismerki þeirra sem tjá sig á þessum vefmiðli koma hver á fætur öðrum og bregða lögreglumanninum m.a. um að vera fasisti, svín og geðveikur í ofanálag auk margs annars.  Svona ummæli eru ritstjórn vefmiðilsins greinilega þóknanleg. DV áskilur sér rétt til að fjarlægja óviðurkvæmileg ummæli, en þessi ummæli um lögreglumanninn eru greinilega ekki þess eðlis að mati ritstjórnarinnar.

Hvernig væri að nýr ritstjóri Hallgrímur Thorsteinsson stigi nú fram og legði sig fram um að ábyrg og góð fréttamennska yrði stunduð á þessum sóðamiðli og ritsóðum yrði ekki vært með óviðurkvæmilegar athugasemdir um einstaklinga á vef miðilsins sem hann stjórnar.   

 


Rafræn auðkenni og einstaklingsfrelsi.

Fjármálaráðherra hefur ákveðið að þeir sem vilji njóta skuldaleiðréttingar verði að fá sér rafræn auðkenni frá fyrirtækinu Auðkenni.  Þetta er gert til að valdstjórnin og kaupahéðnar geti fylgst vel með því sem borgararnir aðhafast. Í bók sinni 1984 um ofurríkið hefði George Orwell talið að þetta væri dæmi um byrjun endaloka einstaklingsfrelsisins.

Ekki liggur fyrir á hvaða forsendum fjármálaráðherra og þeir meðreiðasveinar hans úr ríkiskerfinu,  sem tala fyrir þessu byggja þessa kröfu. Eftir því sem best verður séð er engin lagaheimild fyrir þessari kröfu.

Hvergi er talað um rafræn auðkenni sem skilyrði skuldaleiðréttingar í lögunum um skuldaleiðréttinguna. Einstakir ráðherrar eða jafnvel ríkisstjórnin öll geta ekki tekið slíkar ákvarðanir án þess að stoð sé fyrir þeim í lögum. Þetta skilyrði fyrir skuldaleiðréttingunni er því ekki marktækt nema stjórnvöld telji að við séum komin það langt inn í sovétið að ekki þurfi að spyrja þingið fyrirfram og jafnvel ekki nema í besta falli eftir á.  

Óneitanlega er það kaldhæðni örlaganna og nálegt fyrir formann Sjálfstæðisflokksins,  að nú skuli upp rísa Ögmundur Jónasson úr vinstri grænum,  fyrrum ráðherra til varnar einstaklingsfrelsinu og má þá segja að römm sé sú taug er rekka dregur föðurtúna til. Ögmundur er sonur þess mæta Sjálfstæðismanns Jónasar B. Jónssonar heitins.


Hatursorðræða og tjáningarfrelsi.

Ótrúlegt að sjá hvað er skilgreint sem hatursorðræða í nýrri skýrslu Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkur. Dæmi:

"„Ég hata ekki samkynhneigða og er ekki með fordóma út í ykkur. En ég er ykkur ekki sammála með skilgreininguna á því hvað hjónaband er. Þótt þér finnst þetta eðlilegt að þá finnst mér það ekki."

Ég tel þetta eðlilega tjáningu í lýðræðisþjóðfélagi. Þetta er bara eitt dæmi af mörgum um ruglandann í þessari skýrslu.

Þeir sem gerðu skýrsluna átta sig greinilega ekki á að tjáningarfrelsi eru lögvernduð mannréttindi samkvæmt stjórnarskrá og hatursorðræða er ekki til staðar fyrr en eðlilegri tjáningu og skoðanaskiptum sleppir.

Það er svo auðvelt að líta undan

Þessa daganna er verið að fremja svívirðileg hryðju- og níðingsverk á minnihlutahópum og fleirum í Írak. ISIS samtökin ráðast m.a. á kristið fólk, jasida og shia múslima allt vegna trúarskoðana.

Þúsundir eru innikróaðir á flótta undan glæpamönnunum. ISIS liðar hafa þegar framið fjöldamorð á kristnum, jasídum og shia múslimum og nauðgað og selt kristnar konur í ánauð og stolið öllu.

Hver eru viðbrögð hins svonefnda frjálsa heims? Dögum saman sat Obama Bandaríkjaforseti aðgerðarlaus og það gerði Cameron, Merkel, Hollande og aðrir Evrópuleiðtogar einnig. Svo var farið í takmarkaðar aðgerðir með hangandi hendi. 

Skortur á viðbrögðum hins svokallað frjálsa heims við verstu mannréttindabrotum, þjóðar- og fjöldamorðum á þessari öld eru okkur öllum til skammar.

Í göngu samkynhneigðra síðustu helgi, mannréttindagöngu eins og það heitir, var ekki minnst á þessa svívirðu og hefði þó sumum átt að renna blóðið til skyldunar því að dauðarefsing er lögð við samkynhneigð af hálfu ISIS liða.

Ekkert heyrist frá biskupnum yfir Íslandi eða öðrum prelátum værukæru þjóðkirkjunar.  Kemur þeim þetta ekki við? Íslenskir stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn segja ekkert. Ekki er boðaður fundur í utanríkismálanefnd Alþingis til að fordæma hryðjuverkin og kalla eftir aðgerðir eins og í mörgum öðrum minni háttar málum. Þetta mál er greinilega svo minni háttar að það er ekki einnar messu virði hvorki meðal andlegra né veraldlegra leiðtoga þjóðarinnar.

Kristnir Írakar voru nokkrar milljónir þegar Bandaríkjamenn hófu herhlaup sitt inn í Írak. Þeim hefur flestum verið útrýmt eða þeir flúið land.  Þetta hefur í engu raskað værukæru makráðu þjóðkirkjunni hér á landi. En biskupinn yfir Íslandi leggur lykkju á leið sína til að hafa skoðun á og fordæma ýmislegt annað sem skiptir kristni þó litlu eða engumáli. Í þessu máli ríkir þögn. Grafarþögn. 

Þessi afstaða minnir á það sem gerðist í Þýskalandi upp úr 1930. Þá lánuðu þýskir bankastjórar af Gyðingaættum stjórnmálamanni að nafni Adolf Hitler og flokki hans verulegar fjárhæðir í þeirri von að Adolf og níðingar hans létu þá og fjölskyldur þeirra í friði skítt með það hvað yrði um hina trúbræður þeirra.  Þessir sömu bankastjórar lentu síðar í bræðsluofnum útrýmingabúða nasista ef þeim tókst ekki að flýja land.

Sagan kennir okkur hvað ber að varast. Lærdómurinn er sá að standa alltaf af öllu afli gegn öfgahópum og hvika hvergi í baráttunni gegn þeim sem brjóta grundvallarmannréttindi.

Það verður eftir því tekið ágætu stjórnmálamenn og kirkjunar þjónar hvort og hvernig þið látið í ykkur heyra í þessum málum. 


Sendiherrar og sýndarrök.

Utanríkisráðherra skipaði tvo nýja sendiherra í gær. Auðvelt er að gagnrýna það ráðslag með málefnalegum rökum. Heildarúttekt á utanríkisþjónustunni hefur ekki farið fram. Sendiráð og sendinefndir eru of margar. Sendiherrar of margir. Sendiherrastöður á að auglýsa. En formaður VG gerir það ekki.

Björn Valur Gíslason varaformaður VG er þó sýnu málefnalegri í  gagnrýni sinni á  flokksfélaga sinn Árna Þór Sigurðsson nýskipaðan sendiherra. Formaður VG, Katrín Jakobsdóttir hefur ekkert við skipan Árna að athuga, en allt á hornum sér vegna skipunar Geirs H. Haarde.

Katrín segir að ekki megi skipa Geir þar sem hann eigi í málaferlum við Ríkið. Samt veit hún vel að opinberir starfsmenn hafa oft leitað réttar síns gegn Ríkinu. Hingað til hafa það verið talin sjálfsögð mannréttindi. Katrín sagði ekkert þegar Már Seðlabankastjóri fór í mál við Seðlabankann. Það var í lagi af því að þar var félagi Már. Öðru máli gegnir um Geir. Geir Haarde má ekki leita réttar síns ekki einu sinni til Mannréttindadómstóls Evrópu.

Forustumenn VG og forvera þess flokks hafa iðulega talað um helgan rétt opinberra starfsmanna sem og anarra að leita réttar síns. Þeir hafa fordæmt Verufsverbot, embættisbann vegna skoðana. En það á ekki við um Geir að mati Katrínar. Geir má ekki leita álits dómstóls á því hvort mannréttind hafi verið á honum brotin. Þessi málatilbúnaður Katrínar eru sýndarrök og henni til minnkunar, en e.t.v. eðlileg þar sem hún var einn af ákærendunum í pólitískri ákæru gegn Geir.

Geir H. Haarde er umdeildur, en það er ekki vegna starfa hans að utanríkismálum m.a. sem utanríkisráðherra.  Hann hefur fjölþætta menntun, gott vald á mörgum tungumálum auk annarra kosta sem þykja skipta miklu svo úr verði góður sendirherra. Skipan Geirs var því rökrétt miðað við feril hans og stöðu. Að halda öðru fram er ómálefnalegur hatursáróður.

Það má gagnrýna með hvaða hætti sendiherrar eru skipaðir, en hitt er ljóst að hvort sem um væri að ræða valnefnd eða annars konar málefnalegt hlutlægt ráðningarferli í starf sendiherra, að þá mundu fáir komast með tærnar þar sem Geir Haarde hefur hælana. 

  


Stríð og friður í Palestínu

Ítrekað hefur verið reynt að ná viðunandi samkomulagi í deilum Ísraelsmanna annars vegar og Palestínu-Araba, Líbana og Sýrlendinga hins vegar. Í friðarviðræðum sem Bill Clinton þáverandi Bandaríkjaforseti stóð fyrir nokkru áður en hann lét af embætti munaði sárgrætilega litlu að varanlegir samningar næðust.

Öfgafólk á alla bóga hafa ítrekað afrekað að koma í veg fyrir að leið friðarins yrði valin í stað áframhaldandi ófriðar milli Palestínu-Araba og Ísrael.

Það er andstætt hugmyndum lýðræðissinna og einstaklingshyggjufólks að ákveðinn hópur eða þjóð undiroki aðra. Við sem þannig hugsum getum því ekki samþykkt að Írael haldi áfram að halda stórum hópum fólks í herkví, undiroki það og haldi því í gíslingu. 

Á sama tíma hafa Hamas liðar það á stefnuskrá sinni að drepa hvern einasta Gyðing. Ekki bara Gyðinga sem búa í Ísrael heldur alla. Heimurinn hefur um áratugaskeð fordæmt kynþáttahyggju og útrýmingabúðir Adolfs Hitlers og þýsku nasistana. Hamas liðar hafa á stefnuskrá sinni að ganga enn lengra, en heimurinn fordæmir það ekki með sama hætti og framferði þýsku nasistana. E.t.v. vegna þess að þýsku nasistanarnir komu illvirkjum sínum í framkvæmd.

Hvernig mundi ástandið vera ef Hamas liðar hefðu mátt til að framkvæma það sem þeir boða og hlutverkum væri snúið við þannig að þeir byggju yfir hernaðarmætti, en Gyðingar væru innikróaðir?

Ísraelsmenn réðu Gasa svæðinu fram á þessa öld. Þeir yfirgáfu svæðið og Palestínumenn tóku við stjórn þess. Stjórnendur í Ísrael þurftu að flytja meir en tíuþúsund svonefnda landnema Gyðinga nauðuga í burtu frá Gasa af þessu tilefni. Nokkru síðar fór sprengjum að rigna yfir Ísrael frá Hamas liðum. Ítrekað hafa Ísraelsmenn svarað þessum linnulausu árásum Hamas og heimurinn hefur fordæmt þá en gleymt að gera kröfur til að Hamas láti af  flugskeytaárásum, sjálfsvígssprengingum og fleiri illvirkjum. Samið hefur verið um vopnahlé en sprengjur frá Hamas rignir samt áfram yfir Ísrael

Vænir vestrænir stjórnmálamenn sögðu í framhaldi af því að Ísraelsmenn svöruðu þessum árásum Hamas að þeir ættu rétt á að verja sig en þetta væri allt of mikið. En hvað þýðir það að Ísraelsmenn hafi rétt til að verja sig fyrir hryðjuverkaárásum? Mega þeir beita lofthernaði? Mega þeir fara inn með her og leggja undir sig svæðið á ný? Mega þeir senda drápssveitir til að drepa foringja Hamas? Ef svarið við þessum spurningum er ávallt nei þá liggur fyrir að frasinn um að Ísraelsmenn eigi rétt til sjálfsvarna eru innantóm orð.

Vilji góðviljað fólk um allan heim og ráðamenn þeirra ríkja sem hafa mest áhrif á deiluaðila í Palestínu leggja sín lóð á vogaskálina til að stuðla að friði þá er fyrsta skrefið að samið verði tafarlaust um vopnahlé sem allir aðilar virða.  Í framhaldi af því verður að koma á sjálfstæðu ríki Palestínumanna á Gasa og á svonefndum vesturbakka í Ísrael. Jafnframt verða báðir aðilar að lýsa yfir og virða tilverurétt hvors annars.

Á sínum tíma voru ítrekað framin hermdarverk af IRA liðum frá Írlandi í London og víðar. Breska ríkisstjórnin samdi um frið við IRA, en ekki fyrr en þeir höfðu samþykkt að láta af hryðjuverkaárásum. Deilan milli IRA og Breta virtist óleysanleg ekkert síður en ágreiningurinn nú í Palestínu. Samt sem áður var hægt að leysa þá deilu.

Það er líka hægt að leysa deiluna milli Ísrael og Palestínu-Araba með sama hætti á grundvelli sanngirni á forsendum hugmyndafræðinnar um jafnt gildi allra einstaklinga og rétt til mannréttinda og sjálfstjórnar.  Nú er e.t.v. betri möguleiki en nokkru sinni áður til að semja um slíkan frið og réttindi fólks vilji Ísrael,  Bandaríkin, Egyptaland, Jórdanía og Al Fatah samtökin og framsýnir forustumenn Palestínu-Araba leggja allt á sig til að ná slíkum friði.


Eitthvað til að vera stoltur af?

Á sama tíma og hersveitir Sýrlandsstjórnar sækja að Aleppo síðustu borginni sem uppreisnarmenn í Sýrlandi hafa enn að hluta til á valdi sínu, lofar Obama Bandaríkjaforseti að styrkja uppreisnarmenn með viðbótarframlagi frá skattgreiðendum í Bandaríkjunum um 500 milljón dollara eða tæpa 60 milljarða og framlengja með því hörmungar og mannvíg í landinu.

Assad Sýrlandsforseti er einræðisherra og harðstjóri, en hann er síður en svo verri en bestu vinir Bandaríkjanna og Breta í Mið-Austurlöndum, Saudi Arabar eða furstafjölskyldurnar í Kuveit eða Quatar.

Uppreisnin í Sýrlandi var takmörkuð en með stuðningi og fjárframlögum og vopnum ríkisstjórna Tyrklands, Quatar, Saudi-Arabíu, Bretlands og Bandaríkjanna breiddist hún út og hefur verið viðhaldið með óbætanlegu tjóni og hörmunum fyrir almenna borgara í Sýrlandi.

Óneitanlega hlítur Barack Obama og David Cameron að líta yfir verk sín og velta því fyrir sér hvort þeir geti ekki verið stoltir af afskiptum sínum í Mið-Austurlöndum.

1. Eftir að hafa ráðist inn í Írak og farið síðan og skilið allt eftir í öngþveiti,  geisar þar blóðug borgarastyrjöld og klofningsbrot frá Al Kaída hefur tekið drúgan hlut landsins og hefur nú um milljón dollara tekjur á dag fyrir sölu á olíu.  

2. Í Sýrlandi hefur borgarastyrjöld verið viðhaldið með fjárframlögum, vopnum og flutningi þúsunda vígamanna til landsins.

3. Í Líbýu þar sem hinum illa Gaddafi var steypt af stóli berjast mismunandi hreyfingar Islamista og annarra um völdin og í síðustu kosningum þar í landi tók einungis lítill hluti þátt eða um eða innan við 20%. Borgarar eru ekki óhultir og mannréttindi eru af skornum skammti.

4 Í Afganistan undirbúa Bandaríkjamenn brottför hers síns eftir rúmlega 10 ára hernað gegn hryðjuverkum án nokkurs árangurs. Talíbanar eru þar enn í fullu fjöri.  

Utanríkisstefna Bandaríkjanna og Breta hefur haft hroðalegar afleiðingar þar sem þessar þjóðir hafa beitt virkasta diplómatíska vopni sínu, hernum.

Árrangursleysi af hernaði og sóun tuga þúsunda mannslífa og billjarða dollara sóun til einskis ætti að vera búið að kalla á hörð viðbrögð skattgreiðenda í Bandaríkjunum og Bretlandi. Það ætti líka að kalla á að kjósendur þessara  ríkja vikju frá þessum lánlausu stjórnmálamönnum sem hafa staðið að þessum glæpaverkum oft á tíðum í trássi við alþjóðalög. Menn sem nú vita ekki sitt rjúkandi ráð eftir að hafa komið illu einu til leiðar.

 


Fasismi,kynþáttahyggja og lýðskrum.

Undanfarið hefur ítrekað verið vísað til fasískrar kynþáttahyggju af forustufólki á fjölmiðlum og í stjórnmálum. Samt sem áður var fasistaflokkur Ítalíu ekki kynþáttahyggjuflokkur miðað við þann tíma frekar en breski Verkamannaflokkurinn á sama tíma. Það var ekki fyrr en ítalskir fasistar lentu undir hælnum á þýsku nasistunum sem kynþáttahyggjan náði tökum í þeim flokki.

Annað rangnefni er að tala um "fasískan hægri flokk". Fasistar voru sprottnir upp úr sósíalista- og kommúnistaflokki Ítalíu og stofnandi flokksins Benito Mussolini var áður vinstri sinnaður sósíalisti og pennavinur byltingarmannsins Lenin. Fasistar vildu alræði ríkisins og voru á móti einstaklingshyggju.

Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna var ekkert mál sem kallaði á jafnmikla athygli fjölmiðlafólks og ummæli um lóð fyrir mosku í borginni. Sú umræða á vettvangi fjölmiðlanna er einsleit og fjarri því að uppfylla skilyrði eðlilegrar og hlutlægrar fréttamennsku. Fréttastofa RÚV gjaldfellir sjálfa sig ítrekað með síbylju um málið. Á sama tíma miðað við rétttrúnaðarsjónarmiðin fitnaði púkinn á fjósbitanum, sem er Framsóknarflokkurinn í þessu tilviki, að mati þessa pólitíska nauðhyggjufólks.

Byggingar trúfélaga eru víðar dreilumál en í Reykjavík og fyrir nokkrum árum greiddi meirihluti kjósenda í Sviss atkvæði gegn því að kallturnar spámannsins yrðu á alfaraleiðum í landinu.  

Viðurkennd trúfélög njóta stjórnskipulegrar verndar stjórnarskrár og annarra íslenskra laga og eiga að gera það. Þar með eiga þau að njóta jafnræðis að því marki sem unnt er þegar um er að ræða þjóðkirkju. Rússneska rétttrúnaðarkirkjan, Múslimar, Búddatrúar og aðrir eiga því sama rétt til að byggja samkomuhús, helgistaði eða kirkjur.  Hvort heldur einhverjum líkar betur eða verr.

Á sama tíma og það er réttur trúfélaga að geta komið sér upp trúarlegum griðarstað þá hafa aðrir borgarar líka rétt. Ég þarf t.d. ekki  að sætta mig við það að mannréttindi mín séu ekki virt af því að trúarhópur hafa uppi hávaða eða háreysti á timum sem einstaklingarnir eiga að njóta kyrrðar og friðar samkvæmt lögum.

Af hverju má aldrei ræða þessi mál öfgalaust án þess að hengja merkimiða öfga, fasisma, lýðskrums, hægri öfga og rasisma á þá sem ræða málin þó þeir geri það e.t.v. með klaufalegum hætti miðað við "political newspeak" (pólitískt nýmál) eins og George Orwell lýsti réttrúnaðarríkinu í bók sinni 1984.

Fjölmiðlum sést hins vegar yfir e.t.v. af ástettu ráði að helsti lýðskrumsflokkurinn Samfylkingin náði mestu fylgi með loforðinu um 2.500-3000 nýjar leiguíbúðir. Við skulum fylgjast með því hvernig staðið verður að efndum þess lýðskrumsloforðs.  


Hinir umburðarlyndu

Hinir umburðarlyndu í Bjartri framtíð, Vinstri grænum og Samfylkingunni hafa undanfarið hneykslast á oddvita Framsóknar í borgarstjórn fyrir efasemdir um lóðaúthlutun fyrir mosku í Reykjavík. Vilhallir fréttamenn þessa "umburðarlynda og víðsýna fólks" hafa elt uppi forustumenn Framsóknarflokksins til kreista fram fordæmingu á flokkssystur sinni.  Ummæli sem fréttahaukarnir telja bera augljósan vott um rasisma og þjóðernisofstæki.

Samt sem áður hefur oddviti Framsóknar ekki mælt styggðaryrði um múslima eða veist að trúarskoðunum þeirra eftir því sem ég veit best. 

Á sama tíma er upplýst að Kristín Soffía Jónsdóttir frambjóðandi Samfylkingarinnar í Reykjavík hefur látið frá sér fara mun alvarlegri ummæli um trúarhóp, en oddviti Framsóknar um múslima. Svo bregður hins vegar við að reynt er að þagga það niður og forustumenn Samfylkingarinnar eru ekki eltir á röndum til að fá afstöðu þeirra til ummæla Kristína Soffíu Jónsdóttur. 

Ummæli Kristína Soffíu sem hér er vikið að um Aust-rómversku kaþólsku kirjkuna eru: "Ömurlegt að Reykjavíkurborg sé búin að úthluta lóð til þessa skítasafnaðar. Þessi söfnuður má fokka sér".

Ummælin viðhafði Kristín Soffía vegna viðhorfa safnaðarins til samkynhneigðra, sem eru raunar svipuð og rómversk kaþólskra og mun mildari í garð samkynhneigðra og réttinda þeirra en afstaða múslima.

Séu ummæli oddvita Framsóknarflokksins og frambjóðanda Samfylkingarinnar borin saman þá fela ummæli frambjóðanda Samfylkingarinnar í sér mun meiri fordóma, skort á umburðarlyndi og skort á víðsýni og eru alvarlegri og fordæmanlegri ef eitthvað er. Samt sem áður er engin krafa gerð um að hún víki úr fjórða sæti framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík. Fréttamenn elta heldur ekki Árna Pál Árnason formann Samfylkingarinnar vegna þessara ummæla flokkssystur hans,  þó þeir hundelti Sigmund Davíð og tíundi í hverjum fréttatíma að hann hafi ekki fordæmt ummæli flokkssystur sinnar.

Ummæli Kristínar Soffíu eru vissulega fordæmanleg og ósæmileg. Athyglisvert er að í urmæðu um málið segist hún sjá eftir því að hafa sagt þetta, en nefnir ekki sérstaklega hvað hún sjái eftir. Hún hefur heldur ekki beðist afsökunar á ummælunum sem telja verður lágmark þegar um svo alvarleg og lágkúruleg ummæli er að ræða.

Finnst Árna Páli Árnasyni og Degi B. Eggertssyni forsvaranlegt að hafa Kristínu Soffíu á framboðslista Samfylkingarinnar eftir að opinberuð hafa verið þessi ummæli hennar. Finnst þeim eðlilegt að hún sitji á framboðslistanum án þess að sinna þeirri lágmarkskurteisi að biðjast afsökunar? 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 98
  • Sl. viku: 2521
  • Frá upphafi: 2516201

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 2307
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband