Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Mannréttindi

Löglegt en siðlaust

Þingmaður Framsóknarflokksins sér ekkert við það að athuga að fjalla um afgreiðslu frumvarps um makrílkvóta, sem færa mun fjölskyldu hans tugi milljóna ef ekki hundrað.

Björg Thorarensen prófessor við Háskóla Íslands og helsti ráðgjafi ríkisstjórna um lögfræðileg málefni segir að lagalega sé ekkert athugavert við málið þar sem um almenna löggjöf sé að ræða. Spurning hlítur þó alltaf að vera hversu almenn sú löggjöf er,sem færir nokkrum tugum einstaklinga milljóna gróða og 99.9% þjóðarinnar ekki neitt.

Óneitanlega eru hagsmunatengsl þessa þingmanns Framsóknarflokksins, Páls Jóhanns Pálssonar með þeim hætti að flestum siðuðum mönnum er það morgunljóst að jafnvel þó þetta kunni að vera löglegt, sem ég raunar efa, þá er það gjörsamlega siðlaust. Átti flokksforusta Framsóknarflokksins sig ekki á hversu fráleitt þetta er, þá er hún jafn siðlaus og þessi þingmaður flokksins.

Svo er það annað mál og miklu alvarlegra að stjórnvöld með atvinnumálaráðherra Framsóknarflokksins í broddi fylkingar þykir það eðlilegt og jafnvel sanngjarnt að afhenda litlum hluta þjóðarinnar milljónir og jafnvel milljarða fyrir það eitt að veiða úr flökkustofni sem er nýr á miðunum og hefur ekkert með upprunalegt kvótakerfi að gera.

Væri  ekki nær að bjóða upp veiðiheimildir úr þessum flökkustofni og sjá hvernig það kerfi mundi reynast. Það á engin rétt til að veiða úr honum og Alþingi getur ákveðið að láta alla þjóðina njóta afraksturs veiða á makríl í stað þess að gefa konu Páls Jóhanns þingmanns Framsóknarflokksins ásamt nokkrum öðrum velunnurum sínum þessi verðmæti sem syntu inn í íslenska lögsögu algerlega án þess að kona Páls Jóhanns eða nokkur annar sem á að fá milljónir og milljarða gefins frá ríkisstjórninni og meirihluta Alþingis, hafi til þess unnið.  

Velti því fyrir mér hvort Sjálfstæðisflokkurinn hafi endanlega skilið við markaðshyggjuna með því að hampa svona ríkisvæðingu.


Rétturinn til lífs.

Mikilvægustu mannréttindin eru rétturinn til lífs. Önnur mannréttindi eru líka mikilvæg t.d. tjáningarfrelsið.

Fyrir nokkrum vikum var Frakkland undirlagt vegna morða öfgamúslima á starfsfólki teiknimyndaritsins Charlie Hedboe. Forustumenn ýmissa ríkja m.a. Afríkuríkja mættu til Parísar til að taka þátt í skrúðgöngu til að fordæma aðför að tjáningarfrelsi.  Forustumenn þjóðanna töluðu um nauðsyn þess að bregðast af hörku við glæpaverkum Íslamskra öfgamanna.

Í gær myrtu íslamskir öfgamenn undir fána al-Shabaab samtakanna 150 háskólastúdenta í Kenýa. Íslömsku öfgamennirnir völdu kristna stúdenta út úr stúdentahópnum til að myrða þá. Sjónarvottar segja að margir kristnu stúdentarnir hafi verið myrtir með því að skera þá á háls með sama hætti og Ísis samtökin gera iðulega t.d. við vestræna gísla og kristna Kopta sem þeir tóku til fanga í Líbýu fyrir skömmu.

Á einhver von á því að ráðamenn heimsins muni bregðast við með svipuðum hætti og vegna morðana á ritstjórnarskrifstofu Charlie Hedboe vegna þess að 150 kristnir stúdentar í Kenýa voru sviptir grundvallarmannréttindum sínum "réttinum til lífs"?  Á einhver von á því að kristnar kirkjudeildir í söfnuðum værukærra ríkiskirkna geri athugasemdir?

Hryðjuverkamenn Íslömsku vígasveitanna  al-Shabaab völdi helgidag kristins fólks "skírdag" til að fremja voðaverk sitt á stúdentunum af því að þeir voru kristnir.

Óneitanlega er dapurlegt að verða vitni að því hvað það skiptir vesturlandabúa litlu máli þó að fólk með öðrum litarhætti í annarri heimsálfu sé svipt lífi sínu og frelsi. Morðið á ritstjórn Charlie Hedbo er meira mál í hugum stjórnmálamanna og álitsgefenda já jafnvel kristinna klerka, en morð á kristnum stúdentum í Kenýa, rán og kynlífsþrælkun hundruða stúlkna í Níegeríu eða morð á hópi kristinna Kopta í Líbýu. Allt vegna þess að þetta fólk vildi fá að vera í friði til að játa kristna trú.

Ömurleiki, aumingjaskapur og hugmyndafræðilegt fráhvarf Evrópskra stjórnmálamanna og samtaka frá baráttu fyrir réttindum fólks óháð kyni, litarhætti eða trú er fordæmanleg.

Sá tími er runninn upp að kristið fólk bregðist við ofbeldinu og myndi sín varnarsamtök gegn ofbeldi, kúgun og morðum gagnvart kristnu fólki hvar í heiminum sem er.

 


Óbærilegur léttleiki tilverunnar

Eftir að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra í umboði ríkisstjórnarinnar, afhenti utanríkisráðherra Litháen lítið letters bréf um slit aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið hafa margir velt fyrir sér hvort sú aðferð sé lögformlega rétt,lýðræðisleg, þingræðisleg eða jafnvel ekkert af þessu.

Í 7.mgr 45.gr. þingskaparlaga 55/1991 segir: "Forsætisráðherra leggur í október á hverju ári fram á Alþingi skýrslu um framkvæmd þeirra ályktana sem þingið samþykkti á næstliðnu ári og kalla á viðbrögð ráðherra eða ríkisstjórnar auk yfirlits um framkvæmd þingsályktana sl.þrjú ár nema lögin kveði á um að haga skuli skýrslugjöf til þingsins á annan hátt. Í skýrslunni skal enn fremur fjalla um meðferð málefna sem þingið hefur vísað til ríkisstjórnar eða einstaks ráðherra. Þegar skýrslan hefur verið lögð fram skal hún ganga til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til umfjöllunar. Nefndin getur lagt fyrir þingið álit sitt á skýrslu ráðherra, ef hún telur ástæðu til, gert tillögur til þingsins um einstök atriði í skýrslunni."

Af þessu ákvæði þingsskaparlaga verður ekki ráðið en að einstakir ráðherrar eða ríkisstjórn geti einhliða og án atbeina meirihluta Alþingis fellt úr gildi þingsályktun sem Alþingi hefur samþykkt. Alla vega yrði þá að gera það með þeim formlega hætti sem 7.mgr. 45.gr. þingskaparlaga kveður á um. Ríkisstjórn hefur enga stjórnskipulega heimild til að fella úr gildi þingsályktunartillögu og það dugar ekki að laumast úr landi með lítið letters bréf og ímynda sér að þar með hafi ríkisstjórnin hnekkt þingsályktun.  Sú aðgerð er stjórnskipulega marklaus.

Aðferð ríkisstjórnarinnar í málinu er því stjórnskipulega röng. Auk heldur er hún ólýðræðisleg. Hún er ekki þingræðisleg og getur leitt til þess að bolabrögðum verði beitt í auknum mæli í íslenskum stjórnmálum. En hvað brýnast var nú að leiða stjórnmálin út úr þeim farvegi og  í þann sem tíðkast með þróuðum lýðræðisríkjum.

Afstaða til Evrópusambandsins skiptir ekki máli í þessu sambandi.

                        

 


Brennivínsmeingenið fundið

Enn eitt meingen hefur verið uppgötvað af forstjóra íslenskrar erfðagreiningar. Nú er það áfengismeingenið. Þetta meingen hefst illa við í nágrenni við áfengisútsölur að sögn forstjórans.

Þetta með áfengismeingenið er raunar ansi skondin uppfinning hjá Kára Stefánssyni og fróðlegt verður að lesa um það í virtum vísindaritum ef uppfindingin skyldi einhvern tíma rata þangað.

En þetta þráláta deilumál með áfengi í verslanir tekur á sig endalausar furðumyndir. Neysla á áfengi og öðrum neysluvörum fer eftir verði og aðgengi. Nú er aðgengi meginhluta almennings að áfengi svo mikið, að ekki verður séð að brýna nauðsyn beri til að troða því einnig í hillur matvörubúða. Á hinn bóginn verður ekki séð að aðgengið aukist til neinna muna þó að áfenegi fari í matvörubúðir miðað við ástandið eins og það er. Þannig að vesenast með það er dæmigert upphlaup sem þessari þjóð er svo tamt varðandi minni háttar atriði.

En svo er það spurning um frelsið. Mér finnst þjóðfélagslega óæskilegt að fólk reyki, drekki áfengi,  borði óhollan mat, teikni særandi myndir af Jesús eða Múhameð og svo mætti lengi telja, en ég vil ekki fórna frelsi borgarana og láta meingenafræðinga, stjórnmálamenn eða hryðjuverkamenn eyðileggja frelsið til að  passa fólk fyrir sjálfu sér eða ákveða hvar mörk tjáningafrelsisins liggja.

Eða eins og einn góður maður sagði forðum prentfrelsið og sorinn ganga hönd í hönd við verðum að þola sorann t.d. klámið ef við ætlum ekki að vinna tjáningafreslinu óbætanlegt tjón.

Ef kaupmaðurinn á horninu vill selja áfengi og Kári Stefánsson vill kaupa það af honum á þá að banna báðum að eiga þau viðskipti? Hvaða vitræna glóra er það í frjálsu landi?


Gerist þetta aldrei hér?

Skothvellir glumdu í annars friðsælli Kaupmannahöfn í gær. Enn einn Íslamisti ákvað að ráðast annars vegar gegn Gyðingum og hins vegar gegn tjáningarfrelsinu, þar sem drepa átti sænskan skopmyndateiknara sem hafði teiknað kjánalega mynd af spámanninum. Íslamistinn drap tvo og særði þrjá í skotárásunum.

Getum við verið viss um að samskonar atburður gerist ekki hér ef einhver sem Íslamistar telja rétt að drepa er hér á landi eða kemur sem gestur. Það væri barnalegt að álíta að svo væri. Þessi skotárás í Kaupmannahöfn í gær er umfram það sem höfundar bókarinnar "Íslamistar og naívistar" ímynduðu sér þegar þeir skrifuðu bókina. Grundvöllurinn sem höfundarnir ganga út frá er þó enn í fullu gildi. Þöggunin og neita að horfast í augu við þá ógn sem frelsi og mannréttindum stendur af Íslamistum.

Varnaðarorð mín sem komu fram í grein árið 2006 m.a. um syni Allah og fordæmd voru af vinstri menningar- og fréttaelítunni sem rasismi eru nú staðreynd og almennt viðurkennd. Vestrænar ríkisstjórnir glíma við vandann vegna andvaraleysis. Hryðjuverkaárásir Íslamista hafa verið gerðar í Madríd, París, London, Kaupmannahöfn, Amsterdam o.s.frv. o.s.frv.

Á sama tíma er vinstri sinnaða menningar- og fréttaelítan upptekin við að hundelta alla þá sem vara við ógninni. Sú ógn sem stafar af Íslamistunum og hugmyndafræði þeirra veldur hins vegar ekki vökunum hjá þessu fólki. Ekki þykir ástæða til að fjalla um ógnina nema í almennu framhjáhlaupi í almennum fréttatímum. Meiri tíma er varið í að eltast við fólk vegna ummæla um staðsetningu mosku og þegar Ásmundi Friðrikssyni þingmanni varð fótaskortur á tungunni. Ítrekað er Ásmundi líkt við fjöldamorðingjann Breivik í íslenskum blöðum. Það finnst fréttaelítunni allt í lagi og ekki þurfi að amast við eða fordæma slíkt.

Við getum ekki lengur litið á atburðina sem gerðust í París fyrir nokkru og nú í Kaupmannahöfn sem einangruð fyrirbrigði sem kom fyrir annað fólk langt í burtu. Ógnin er fyrir hendi í öllum lýðræðisríkjum Vesturlanda.

Markmið Íslamistanna er að eyðileggja vestræn mannréttindi og frelsi. Það er skylda allra sem unna mannréttindum og einstaklingsfrelsi að berjast gegn þeirri ógn hvað sem það kann að kosta. Í þeirri baráttu er ekki hægt að gefa afslátt og þeir sem ítrekað líta undan og láta sem ekkert sé eru svikarar við þau gildi sem hafa fært þjóðum heims frelsi, mannréttindi og velmegun.

 


Sekur er sá einn sem tapar

Kl. 10 að morgni 13.febrúar 1945 fyrir 70 árum síðan hófust hrikalegustu loftárásir sem sögur fara af. Þann dag og daginn eftir vörpuðu um 1200 breskar og bandarískar flugvélar sprengjum á menningarborgina Dresden í Þýskalandi og jöfnuðu meir en 60% borgarinnar við jörðu og steiktu meginhluta þeirra sem þar voru með vítislogum.

Sennilega fæst aldrei úr því skorið hvað margir voru drepnir í þessum hildarleik, en tölurnar eru á bilinu 32.000 manns til 600.000.- Sá sagnfræðings sem skrifað trúverðugustu söguna af þessum stríðsglæp telur að 130.000 þúsund manns hafi verið drepin.

Dresden var var kölluð Flórens við Elbu vegna Baroque bygginga og arkitektúr, menningar- og listalífs. Þar voru engin hernaðartæki eða framleiðsla vígtóla. Þar voru aðallega skólar og spítalar. Tugþúsundir flóttamenn voru í borginni þegar þessi versti stríðsglæpur síðari heimstyrjaldar var framinn. Borgin hafði engar loftvarnir af því að engum datt í hug að þessi borg yrði skotmark.

Á þeim tíma sem Churchill og Rosevelt gáfu skipun um að sprengja Dresden í tætlur voru Þjóðverjar búnir að tapa stríðinu. Rúsneski herinn var  um 100 kílómetra frá borginni. Fyrirskipunin um að sprengja óbreytta borgara í tætlur var óafsakanlegur stríðsglæpur. Í kjarnorkuárásinni á Hirosima í Japan dóu um 70.000 manns eða færri en ég tel að hafi dáið í Dresden. Sú árás á saklausa borgara var líka óafsakanlegur stríðsglæpur.

Í allri seinni heimstyrjöldinni voru færri en 50.000 Bretar sem dóu í loftárásum. Bretar hafa samt lýst þeim loftárásum sem óafsakanlegum stríðsglæpum. Loftárásum á Coventry í Englandi þar sem mikil hergagnaframleiðsla var fórust um 380 manns. Þeim árásum var lýst af Bretum sem óafsakanlegum þýskum stríðsglæpum.

Það getur aldrei verið réttlætanlegt að drepa saklausa borgara. Það er alltaf stríðsglæpur. Stundum verða mistök, en þegar tugir þúsunda borgara eru sprengd í tætlur eða farast í vítiseldi vegna ákvarðana æðstu ráðamanna eins og var um árásina á Dresden þá er það stríðsglæpur engu betri en ódæðin sem glæpamenn nasista frömdu gagnvart óbreyttum borgurum í löndum sem þeir hernámu aðallega í Póllandi og Sovétríkjunum.

Þeir sem tóku ákvörðun um að drepa tugi þúsunda óbreyttra borgara í Dresden og eyðileggja menningarlegan gimstein án hernaðarlegrar nauðsynjar eru stríðshetjur með sama hætti og þeir sem tóku ákvörðun um að varpa kjarnorkusprengum á Hírósíma og Nagasakí. Allt tal um að þessir stríðsglæpir hafi stytt stríðið og komið í veg fyrir annað manntjón er rangt.

Þeir sem töpuðu eru útmálaðir sem böðlar og glæpamenn eins og þeir voru. En verður þá ekki að leggja dóm á sama grundvelli á alla sem frömdu stríðsglæpi. Var betra að Rosevelt og Churchill dræpu saklaust fólk en Hitler og Hirohito?

En sekur er sá einn sem tapar. 


Í værðarvoðum hins örugga tóms

Hryðjuverkasamtökin ISIL hafa farið um með hryðjuverkum,morðum, nauðgunum og mannsali. Þúsundir Yasida, Kristinna, Kúrda o.fl. hafa verið drepnir og/eða hnepptir í þrældóm. Opinber stefna samtakanna er að sigra heiminn með hryðjuverkum og morðum og gera út af við alla þá sem aðhyllast ekki þeirra skoðun á Íslam.

Það skiptir ekki máli fyrir ISIl liða hvort einhver berst gegn þeim eða ekki. Hver sem deilir ekki trúarhugmyndum þeirra, að þeirra mati, er dauðasekur óháð þjóðerni, kyni, litarhætti eða aldri.

Samt sem áður tókst ISIL liðum að verða helsta fréttaefni allra helstu fréttamiðla í hinum vestræna heimi í rúma viku vegna þess að þeir voru sagðir vilja semja um að láta japanskan fréttamann og jórdanskan flugmann lausa í skiptum fyrir hryðjuverkafólk. Látlaust voru sýndar myndir og fjallað um málið með þeim hætti að þrátt fyrir morð á þúsundum, nauðganir, rán og kynlífsþrælkun þúsunda kvenna þá bæri að semja við glæpamennina.

Nú þegar búið er að drepa bæði japanska fréttamanninn sem ekkert hafði til saka unnið annað en að vinna vinnuna sína og Jórdanska flugmanninn sem ekki fékk að njóta alþjóðareglna um meðferð á stríðsföngum heldur var brenndur lifandi þá er að vonum að fleiri fréttamenn átti sig á að þeir eiga ekki að láta ISIL hafa sig að leiksoppi aftur.

Vilji Vesturlandabúar búa um sig til hinstu hvílu í værðarvoðum hins örugga tóms eins og heimspekingur orðaði það þá skal tekið undið með heimspekingnum "að slíkt er tómhyggja og til marks um dauðþreyttar og örvæntingarfullar sálir." Eða enn frekar til marks um samfélög sem eru rúin öllum hugmyndafræðilegum styrk til að takast á við raunveruleg vandamál.

Það væri ósiðlegt að semja við ISIL. Hvernig á að semja við samtök sem segjast ætla að fara um heiminn með ránum, nauðgunum, mannsali og morðum, setja upp kalífadæmi í Evrópu og sigra heiminn með því að drepa alla sem þeim eru ekki sammála. Samtök sem eru tilbúin til að beita hvaða ódæði sem vera skal til að ná fram markmiðum sínum.

Winstons Churchill fyrrum forsætisráðherra Breta neitaði að semja við hið illa og varaði við uppgangi þess á þeim tíma sem fyrirfólk og fréttamenn í lýðræðisríkjum Vesturlanda spiluðu á flautur ódæðismannanna sem unnu ein hræðilegustu hermdaarverk sögunnar. Það þurfti að færa fórnir til að sigra hryllinginn sem þá ógnaði mannréttindum og lýðfrelsi. Fórnirnar urðu meiri og þungbærarari af því að ekki var hlustað á varnaðarorð og brugðist við af þeirri hörku sem þarf gagnvart hinu illa á öllum tímum.

Af hverju átta þá fréttamenn virtra fjölmiðla Vesturlanda sig þá ekki á þeirri staðreynd í dag að það er rangt að semja við eða gera ISIL eitthvað til geðs. ISIL liðar eru holdgervingar hins illa og við hið illa verður að berjast, sigra það og útrýma því.  


Þú skalt ekki stela.

Í gær ungaði Umboðsmaður Alþingis út athugasemdum sínum við framgöngu þáverandi innanríkisráðherra um lekamálið svokallaða. Niðurstaða hans var í samræmi við það sem við mátti búast að gefnum þeim upplýsingum sem lágu fyrir.  Í sjálfu sér þarf ekki mörgum orðum við það að bæta. Svona gerir maður ekki og svona hagar maður sér ekki. Þessi atriði liggja ljós fyrir í hugum venjulegs fólks

Í framhaldi af skýrslugjöf Umboðsmanns alþingis um lekamálið talaði reyndasti lögfræðingurinn í þingflokki Sjálfstæðisflokksins um mikilvægi siðareglna og óljóst regluverk. Innanríkisráðhera talaði um það að fara þyrfti yfir alla verkferla innan ráðuneytisins í kjölfar málsins og athuga hvað hefði farið úrskeiðis. Sjálfur talaði Umboðsmaður alþingis með svipuðum hætti.

Verkferlar og siðareglur eru ágæt orð en segja í sjálfu sér ekkert um það hvað á að gera eða af hverju þörf er á því að skoða verkferla eða setja siðareglur. Venjulegt fólk áttar sig á hvað má og má ekki og hvað er innan marka eða utan. Það virðist bara vefjast fyrir stjórnmálastéttinni að ráða við að skilgreina augljósa hluti sem augljósa.

Í boðorðunum 10 segir m.a. "þú skalt ekki stela" Inntakið í því bannákvæði hefur verið ljós öllu fólki um þúsundir ára þó sumir hafi ekki getað látið vera að brjóta gegn boðorðinu. Hvað hefði nú orðið ef Guð almáttugur eða sá sem talaði í hans nafni hefði talið eðlilegt að setja sérstakar siðareglur til skýringar og útfyllingar á boðorðunum og öðrum auðskildum bannákvæðum í hvert sinn sem einhver braut gegn því.

Óneitanlega væri fróðlegt að sjá skráðar siðareglur um boðorð eins og "þú skalt ekki stela" "Þú skalt ekki morð fremja" og "heiðra skaltu föður þinn og móður". Það væri einnig þess virði að horfa framan í þá verkferla sem þyrfti að skoða ef brotið væri gegn þessum boðorðum. Af hverju datt engum þetta í hug í þær þúsundir ára sem þessar reglur hafa gilt. Komst fólk virkilega af og vissi það hvað mátti og hvað var bannað.

Hætt er við að lagasafnið ásamt siðfræðilegum og verkferlalegum skýringum verði öllum ofviða og mundi ekki duga til að geyma það í jafnstórum vörugeymslum og nú hýsa regluverk Evrópusambandsins.


Bannfærðar skoðanir.

Borgarstjórnarflokkur Framsóknarflokksins snéri sér til manns úti í bæ, Gústafs Níelssonar, og bað hann um að taka sæti sem varamaður í mannréttindanefnd Reykjavíkurborgar. Þrátt fyrir að Gústaf sé yfirlýstur Sjálfstæðismaður og hafi verið það frá 14 ára aldri þá vildu Framsóknarmaddömmurnar fá hann í þetta ábyrgðarstarf. Gústaf sagði já og borgarstjórn Reykjavíkur kaus hann með 10 atkvæðum en 5 sátu hjá.

Gústaf er því réttkjörinn varamaður í mannréttindanefnd Reykjavíkurborgar. Borgarstjórnarflokkur Framsóknarflokksins getur ekki breytt því og ógilt kosningu borgarstjórnar upp á sitt eindæmi. Gústaf verður því ekki vikið frá nema af borgarstjórn en hversu auðvelt eða flókið það kann að vera þekki ég ekki.

Gústaf þarf að víkja segja Framsóknarmaddömurnar af því að hann hefur óæskilegar skoðanir. Undir það tekur ríkisfjölmiðillinn og vinstri sinnaðir álitsgjafar sem kalla alla pópúlista hverra skoðanir þeim líkar ekki við. Þá liggur það fyrir að Gústaf þarf að víkja vegna skoðana sinna en ekki vegna þess að hann sé ófær eða óhæfur til að gegna því trúnaðarstarfi sem hann var kosinn til.

Eitthvað er þetta á skjön við ummæli sem eru eignuð Voltaire þar sem hann á að hafa sagt. "Ég fyrirlít skoðanir þínar, en ég er reiðubúinn til að leggja mikið í sölurnar til að þú fáir að halda þeim fram."  Með sama hætti og það er á skjön við þau sjónarmið sem komu fram hjá mörgum sem tóku upp vígorðið "Je suis Charlie" vegna hryðjuverksins sem unnið var gagnvart ritstjórn blaðsins. Sjálfur gat ég tekið undir þau sjónarmið sem sjónarmið málfrelsis og ritfrelsis þó mér finnist þetta Charlie Hedbo blað óttalegt sorarit, sem gerir m.a. út á það að særa og meiða.

En sumar skoðanir eru óæskilegri en aðrar og þó ég deili ekki þeim skoðunum sem Gústaf vinur minn hefur varðandi samkynhneigð eða mosku í Reykjavík þá finnst mér það lýðræðislegur réttur hans að mega halda þeim fram og hafa til þess sama svigrúm og aðrir. Með sama hætti og mér finnst gott að sjónarmið talsmanns Alþýðufylkingarinnar fái að koma fram þó ég sé algjörlega ósammála þeim kommúnisma sem þar er boðaður og við skulum ekki gleyma að í hildarleik hugmyndafræðiátakanna á síðustu öld þá féllu flestir í valinn fyrir Kommúnistum.

Hefði Gústaf verið vinstri maður hefði öll menningarelítan farið úr límingunum yfir því að hann ætti að víkja og kallað það Berufsverbot eða að viðkomandi þyrfti að víkja vegna skoðana sinna. En sumar skoðanir eru heilagri en aðrar og Gústaf fer og vinstri menn telja það ekki atlögu að skoðanafrelsinu.

Með sama hætti og Robert Bork einn merkasti lögfræðingur Bandaríkjanna fékk ekki að setjast í Hæstarétt vegna þess að hann var á móti fóstureyðingum. Það var meira en vinstri elítan á Bandaríkjaþingi gat þolað honum.

Hættulegar skoðanir mega ekki vera til í lýðræðisríki. En gilda ekki sömu reglur um þær og æskileg eða óæskileg blöð. Á að banna Charlie Hedbo af því að það er sorarit sem særir og meiðir? Gildir annað um fólk en fjölmiðla?


Tvískinnungur?

Fyrir nokkrum dögum gengu ýmsir þjóðarleiðtogar í skrúðgöngu um götur Parísar til að minnast fórnarlamba hryðjuverkaárása vígamanna sem kenna sig bæði við Al Kaída og ISIS. Í dag er setningarhátíð handboltamóts í Quatar, ríkisins sem tengist peningalega hvað mest fyrrnefndum hryðjuverkasamtökum.

Engin þjóðarleiðtogana sem héldust í hendur og grétu krókódílatárum í Parísargöngunni sá ástæðu til að gera athugasemd við að Quatar skuli halda þetta alþjóðlega handboltamót. Engin þeirra hefur hreyft athugsemd við að Quatar haldi næsta heimsmeistaramót í fótbolta. Þeim gæti sennilega ekki verið meira slétt sama.

Þegar æðsti fursti einræðisríkisins Quatar kom til fundar við Cameroun forsætisráðherra Breta sagðist Cameroun ætla að gera alvarlegar athugasemdir við stuðning Quatara við hryðjuverkasamtök. Blaðið Daily Telegraph sagði að það hefði Cameroun ekki gert heldur hvatt einvaldinn í Quatar til að fjárfesta meira í Bretlandi.

Einræðisríkið Quatar hefur fjárfest mikið á Vesturlöndum og á verslanir eins og Harrods í London. Mótmælahópar í Evrópu m.a. hér á landi hafa farið mikinn og krafist þess að fólk kaupi ekki vörur frá Ísrael eða versli í verslunum í eigu Gyðinga. En það hvarflar ekki að þessu vinstrisinnaða mótmælafólki að mælast til þess að fólk versli ekki í verslunum í eigu Qutara þrátt fyrir að  þeir beri mikla ábyrgð á morðum, ráunum,mannsali og nauðgunum í Írak og Sýrlandi með stuðningi sínum við ISIS.     Tvískinnungur?

Þjóðarleitogarnir sem marséruðu um götur Parísar eru sjálfsagt ekki búnir að þrífa skítinn af götum Parísar undan skónum sínum. Þeir eru samt búnir að gleyma að það þarf meira en skrúðgöngur til að taka á hryðjuverkaógninni. Eitt af því er að hafa ekki samskipti við ríki eins og Quatar, sem styðja með virkum hætti hryðjuverkasamtök. Væri þeim einhver alvara þá gerðu þeir eitthvað í þeim málum í stað þess að telja hópgöngutúra virkasta aflið gegn illsku alheimsins. Fyrsta skrefið hefði verið að flytja handboltamótið í Quatar frá landinu eða kalla lið úr handboltakeppninni í Quatar og flytja heimsmeistarakeppnina í fótbolta frá Quatar.

En það er e.t.v. of mikið. Tvískinnungurinn verður að vera allsráðandi og Merkel og Hollande geta þá e.t.v. setið saman og fylgst með úrslitaleik keppninnar og hvatt sína menn til dáða á meðan peningarnir streyma frá gestgjöfunum til hryðjuvekasamtaka sem undirbúa næsta hildarleikinn í löndum þeirra .

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 52
  • Sl. sólarhring: 171
  • Sl. viku: 2835
  • Frá upphafi: 2516140

Annað

  • Innlit í dag: 44
  • Innlit sl. viku: 2601
  • Gestir í dag: 43
  • IP-tölur í dag: 41

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband