Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Mannréttindi

Fjölmiðlar, arabíska vorið eða hvað?

Arabíska vorið var það kallað þegar forseta Túnis var steypt af stóli eftir að óeirðir urðu í landinu eftir að Mohammed Bouazizi kveikti í sér og brann á fjölförnu markaðstorgi fyrir tveim árum. Í framhaldinu urðu mótmæli í Cairó og Moubarck Egyptalandsforseta var steypt af stóli. Þá var röðin komin að Ghaddafi einræðisherra í Líbýu og hann var drepinn með aðstoð Breta og Frakka.

Vestrænir fjölmiðlar fóru hamförum og dásömuðu frelsisþránna sem birtist í mótmælunum en könnuðu aldrei hvað var á ferðinni og skrifðu fréttir sem gáfu iðulega alranga mynd af því sem var að gerast. Fjölmiðlafólki liggur svo mikið á að segja frá atburðum að þeir mislesa iðulega það sem er að gerast, kynna sér ekki sögu eða menningu og gefa því iðulega alranga mynd af þeim atburðum sem eiga sér stað.

Nú spyrja margir hvort við séum þessa daganna að horfa á Arabíska vorið spilað aftur á bak eftir að Egypski herinn hefur aftur tekið völdinn ógilt stjórnarskrána og vikið forsetanum úr embætti. En um hvað snérist og snýst þetta allt þarna í Norður Afríku?

Maðurinn sem brenndi sig í Túnis var ekki að kalla eftir lýðræði heldur frjálsri markaðsstarfsemi öðru nafni kapítalisma. Hann var að mótmæla aðferðum lögreglunnar sem hafði gert notuðu raftækin sem hann seldi og innkomu upptæka. Sagt er að það hafi tekið undir stjórn Moubarak um 500 daga að fá leyfi fyrir smásöluverslun og það þurfti að eiga við 29 stjórnarstofnanir. Lítið lagaðist skrifræðið í stjórnartíð Morsis.

Hernando de Soto hagfræðingur frá Perú rannsakaði ástæður ókyrrðarinnar í Norður Afríku og komst að þeirri niðurstöðu að mótmælin væru til að ná fram grundvallarmannréttindum eins og starfs- og eignarréttindum. Hann sagði í skýrslu til Bandaríkjaþings að fólk á Vesturlöndum hefði misskilið það sem væri að gerast þarna og krafan væri fyrst og fremst um vernd grundvallarmannréttinda eins og starfs- og eignarréttar. Með því að sinna þessum kröfum og gera það að skilyrði aðstoðar að þessi grunnmannréttindi væru virt þá gætu Vesturlönd eignast milljónir nýrra vina í þessum ríkjum.

Vandamálin í þessum löndum eru mikil og um helmingur íbúanna eru 25 ára og yngri.  Spurningin er hvort þessi ríki þurfi ekki einmitt á sama meðali að halda og Alþýðulýðveldið Kína á sínum tíma. Aukna markaðshyggju og meiri virðingu fyrir atvinnu- og séreignarrétti.


Einstaklingsfrelsi-Ofurríki og Snowden

Frelsi felst ekki eingöngu í almennum kosningarétti. Frelsi felst einnig í því að borgarinn sé látinn í friði og fái að haga lífi sínu og starfi innan ramma laganna án stöðugs eftirlits og afskipta ríkisins.

Öll viljum við hafa einkamál okkar fyrir okkur sjálf og finnst ógeðfellt að opinberir aðilar fylgist með símtölum okkar, tölvupóstum, sms, vörukaupum og fleiru. Persónuvernd og einstaklingsfrelsi er grundvallaratriði í frjálsu þjóðfélagi.

Í bók sinni 1984 fjallar George Orwell um ofurríkið þar sem fylgst er með hverju fótmáli einstaklinga. Margir töldu áður að Sovétríkin væru að verða ríkið sem fjallað var um í bók Orwell. Nú virðist sem helsta forusturíki hins frjálsa heims Bandaríkin feti sig dyggilega í átt að því að verða slíkt ofurríki.

Uppljóstranir Edward Snowden um njósnir ríkisstjórnar Bandaríkjanna um einstaklinga, stofnanir og fyrirtæki ætti að vera umhugsunarefni fyrir frjálslynt og hægri sinnað fólk. Snowden eyddi 30 ára afmælisdegi sínum á flótta frá landi "hinna frjálsu" virðist vera einstaklingshyggjumaður sem er á móti ofurríkinu. Einstaklingur sem er ásamt svo fjölmörgum öðrum er á móti því að búa við að það samtöl þeirra séu hleruð og hljóðrituð. Einstaklingur sem er í hópi fjölmargra sem hefur ákveðna þjóðfélagsvitund einstaklingsfrelsi án þess endilega að skilgreina sig sérstaklega pólitískt.

Edward Snowden studdi frjálslynda einstaklingshyggjumanninn Ron Paul í forkosningum Repúblikana til forseta í fyrra. Ron Paul vill draga úr völdum og áhrifum ríkisins og beitingu Bandaríkjahers. 

Þrátt fyrir ofurvald Bandaríkjanna og kröfu um framsal Snowden þá verða hvorki hann né hans líkar stöðvaðir. Hann er í hópi fjölmargra sem gera það sem þeir telja að samviska þeirra bjóði þeim að sé rétt.  Snowden segir: "Sannleikurinn mun koma fram og það er ekki hægt að stöðva hann. 

Einstaklingshyggjumenn mættu og ættu að skoða hvort hugsun og sjónarmið sem Snowden stendur fyrir séu ekki nær hugmyndafræði einstaklingshyggju og frjálshyggju en hugmyndafræði vinstra fólks.

Miðað við þær forsendur er öfugsnúið að Ögmundur Jónasson og Birgitta Jónsdóttir skuli berjast fyrir réttindum Snowden og hann njóti verndar og fái notið mannréttinda, en hvorki Bjarni Benediktsson né Sigmundur Davíð.

 


Spygate

Leyniþjónusta Sovétríkjanna KGB var umtöluð á sínum tíma fyrir að setja hljóðnema út um allt, en jafnvel þó allt það sem um þá leyniþjónustu var sagt hefði veri rétt, þá jafnast það ekki á við þær ofurnjósnir sem ríkisstjórn Bandaríkjanna stendur fyrir. 

Síðustu daga haf borist upplýsingar um að ríkisstjórn Obama hafi víðtækt njósnanet hjá þeim þjóðum sem þeim eru vinnveittust.  Fylgst er með því sem kemur frá ríkisstjórnum í Evrópu og Evrópusambandinu sem og tölvupóstsamskiptum stjórnmála- og embættismanna. Fyrst svona víðtækt njósnanet hjá helstu vinaþjóðum Bandaríkjanna er talið nauðsynlegt af Obama forseta til að tryggja öryggi Bandaríkjanna, hvað þá um ríki sem eru Bandríkjunum óvinveitt.

Þessar víðtæku njósnir Bandaríkjanna eru óafsakanlegar.  Bandaríkin hafa misst bæði traust og álit og þa verður erfitt að endurvinna það. Einhverjir verða að bera ábyrgð á þessum mannréttindabrotum og liggur þá beinast við að þeir sem halda um taumanna á þeim stofnunum sem þessar njósnir stunda segi af sér. Þá verður heldur ekki hjá því komist að Barrack Obama verði að axla ábyrg með sama hætti og Richard Nixon gerði á sínum tíma og segi af sér. 

Þessar njósnir eru það víðtækar og hafa staðið það lengi að það er útilokað að þær hafi verið skipulagðar og stundaðar án vitundar og beinna fyrirmæla frá sjálfum Bandaríkjaforseta.  

Sú var tíðin að forstöðumaður CIA í Mið-Austurlöndum skrifaði um að njósnakerfi Bandaríkjanna þar væri í molum og hann hætti og skrifaði bókina "Sleeping with the Devil." sem fjallar um samskipti Bandaríkjanna og Saudi Arabiu. Merk lesning sem sýnir að því miður er langt síðan Bandaríkin fóru hugmyndafræðilega út af sporinu.

En með spygate er gengið út yfir öll mörk í samskiptum þjóða og Bandaríkin verða að endurvinna traust með því að viðurkenna og samþykkja að þeir lúti sömu lögmálum og aðrar þjoðir og  þeir sem ábyrgð bera á þessari njósnastarfsemi segi af sér.


Flöt lækkun lána og OECD

Nú berst sá erkibiskups boðskapur frá Efnahags- og framfarastofnuninni OECD að flöt lækkun lána sé óráðleg. Einkum þvælist fyrir OECD að þessi lækkun muni ekki nýtast þeim sérstaklega sem geta ekkert borgað hvort sem er.  

OECD gefur reglulega út skýrslur um efnahagsmál og við skoðun skýrslna fyrir hrun verður ekki séð að við þurfum að sækja sérstaklega og alltaf í boðskap þeirra. Þá skoða spekingarnir hjá OECD ekki misgengið á íslenskum lánum vegna verðtryggingarinnar. Þeir skilja ekki að hér er um réttlætismál að ræða.

Í öllum OECD löndum hefur iðulega verið um flata lækkun lána að ræða. Það gerist í verðbólgu þegar neytendalán eru óverðtryggð eins og í öllum OECD löndum nema á Íslandi.

Þjóðir sem lenda í kreppum og fjárhagsvanda eru venjulega 2-4 ár að vinna sig út úr því vegna þess að verðbólga tryggir flata niðurfærslu lána. En verðbólga fylgir alltaf slíkum hremmingum. Hér gilda ekki þau lögmál vegna þess að það er nefnilega vitlaust gefið.


Seðlabankinn gegn ríkisstjórninni?

Seðlabankinn segir fyrirhugaða skuldaleiðréttingu verðtryggðra lána dýra og ómarkvissa og leggst gegn skuldaleiðréttingu sem ríkisstjórnin hefur boðað. Jónas Kristjánsson fyrrum ritstjóri fer einnig mikinn og telur alla hafa orðið fyrir forsendubresti og því sé það ekki réttlátt að gera neitt. 

Jónas og Seðlabankinn ættu að skoða að árið 2008 ábyrgðist íslenska ríkið allar innistæður í íslenskum bönkum hérlendis. Sú ábyrgðaryfirlýsing var aldrei borin undir Alþingi og Seðlabankinn hefur aldrei látið í ljósi vanþóknun á þeirri aðgerð. Sumir áttu þá hundruði milljóna á bankareikningum sem verðtryggingarþrælarnir þurftu að axla ábyrgð á.

Forsendubresturinn varðandi hækkun á verðtryggðu lánunum var fyrirséður við hrun. Ég benti á það sérstaklega og ítrekað í umræðum á Alþingi og krafðist þess að sett yrðu neyðarlög fyrir neytendur sem tækju verðtrygginguna úr sambandi meðan fár kyrrstöðuverðbólgunarinnar riði yfir. 

Það átti öllu sæmilega menntuðu fólki að vera ljóst að það sama mundi gerast hér og alls staðar þar sem bankahrun hefur orðið eða greiðslufall ríkis. Þess vegna skipti svo miklu til að gæta jafnræðis og réttlætis að taka verðtrygginguna úr sambandi. Það voru verstu mistök ríkisstjórnar Geirs H. Haarde að taka ekki verðtrygginguna úr sambandi og höfuðábyrgð á því ber Jóhanna Sigurðardóttir og þvergirðingshættinum við að sinna réttlætiskröfum fólksins s.l. fimm ár.

Það kostar að leiðrétta mistök aftur í tímann og þannig verður það líka með leiðréttingu verðtryggingarokursins. Sá kostnaður er fyrst og fremst vegna skammsýni síðustu ríkisstjórnar og sem skynjaði ekki mikilvægi skuldaleiðréttingar og hafði ekki nægjanlega ríka réttlætiskennd til að taka á málinu.


Veiðigjald og beint lýðræði

Það hentar okkur greinilega vel sem þjóð að tala út í það óendanlega um hlutina setja fram tillögur en gera síðan ekkert með það. Þannig er það með hugmyndir um beint lýðræði og setja ákvæði í stjórnarskrá um þjóðaratkvæðagreiðslur.

Margt bendir til að starfsemi þjóðþinga í hefðbundnum lýðræðisríkjum hafi takmarkaðri þýðingu en áður. Með hvaða hætti á þá að tryggja eðlilegri lýðræðislegri starfsemi framgang er það með þjóðaratkvæðagreiðslum eða með einhverjum öðrum hætt?

Beint lýðræði í formi aðgengileika að þjóðaratkvæðagreiðslum hefur gefist vel í Sviss en miður í Kaliforníu. Í Sviss hafa menn haft aðgengi að þessu formi beins lýðræðis í meir en 100 ár og það hefur gefist mjög vel og segja má að jafnan þegar þing og þjóð eru ósammála þá hafi þjóðin haft rétt fyrir sér með sama hætti og í Icesave málunum hjá okkur.

Vandamál Kaliforníu er ekki síst vegna þess að þar er verið að greiða þjóðaratkvæði um skattlagningu og það virðist ekki ganga vel og Kalifornía iðulega verið á barmi gjaldþrots.

Margir telja af þeim sökum að nauðsynlegt sé að skattamál séu undanþegin þjóðaratkvæðagreiðslum.  Sjálfur mundi ég gjarnan vilja sjá alla ósanngjarna skatta falla brott eða lækka eins og virðisaukaskatt, tekjuskatt sem og tryggingagjald. Ef til vill er það íhaldssemi að vilja ekki láta þjóðina greiða atkvæði um slíka hluti.

Með sama hætti er það með veiðigjaldið og hvað það á að vera hátt. Þar er einnig um grein af sama meiði að ræða þ.e. skattlagning. Spurning er hvort það henti að greidd séu þjóðaratkvæði um að lögð séu sérstök gjöld af hálfu ríkisins á suma og hversu hátt það skuli vera. 

Hér er vakið máls á þessu vegna þess að það skiptir máli að koma sem fyrst á virkara lýðræði í landinu með beinni aðkomu kjósenda, en spurning er hvar takmarkanirnar skuli vera til að borgurum landsins verði ekki mismunað og eðlileg starfsemi stjórnvalda geti haldið áfram.


Nauðsynleg öryggisráðstöfun

Í fréttum í gær var sagt frá fjölda lögreglumanna á vakt í tveim stórum lögregluumdæmum. Ljóst var af fréttinni að lögregluþjónar á landsbyggðinni eru allt of fáir auk þess hef ég grun um að víða séu þeir ekki nógu vel tækjum búnir.

Hvað sem líður sparnaðaráætlunum og nauðsyn þess að dregið sé úr umsvifum ríkisins þá er samt nauðsynlegt að tryggja öryggi borgaranna með því að haldið sé uppi lögum og reglu  og aðstoða ef slys eða óhöpp verða. Það verður ekki gert nema fjölga lögreglufólki og endurnýja tækjakost lögreglunnar.

Spurning er hvort ekki sé nauðsynlegt að landið allt verði eitt lögregluumdæmi. Þá er líka spurning hvort ekki sé hægt að bjóða sem samfélagsverkefni almennum borgurum að koma lögreglunni til aðstoðar eftir að hafa fengið viðeigandi þjálfun t.d. varðandi umferðarstjórnun og gæslustörf svo og að tryggja aukið öryggi barna og unglinga svo dæmi séu tekin.

Við eigum að vera fyrirmyndarland varðandi löggæslu og öryggi fólks

 


Axlar einhver ábyrgð á Landsdómsákæru?

Sú afstaða þingmanna Evrópuráðsins að Landsdómsákæra Alþingis gegn Geir H. Haarde hafi verið pólitísk hefndaraðgerð kemur ekki á óvart.  Hefndarleiðangur Steingríms Sigfússonar og Jóhönnu Sigurðardóttur eitraði þjóðfélagsumræðu og skaðaði orðstír Íslands sem réttarríkis.  Þá má ekki gleyma þeirri meingerð sem í ákærunni fólst gegn persónu og æru Geirs H. Haarde.

Full ástæða er til að rannsaka tildrög ákærunnar rækilega.  Til þess þarf að skoða vinnubrögð Rannsóknarnefndar Alþingis. Skýrsla nefndarinnar og umfjöllun um Geir H. Haarde var sá grunnur sem ákærendur byggðu á.  Þegar nefndarmenn rannsóknarnefndar  voru kölluð til ráðgjafar fyrir Atlanefnd Alþingis  drógu þeir ekki úr ákafa þeirra sem vildu ákæra Geir og fleiri.

Margt er rangt í skýrslu Rannsóknarnefndarinnar og vinnubrögð voru ekki til fyrirmyndar.  Skýrslan var stemmingsskýrsla en ekki vönduð staðreyndaskýrsla. Þetta sést m.a. á framsetningu, vali og meðhöndlun upplýsinga. Ýmsir, þ.á.m. forseti Íslands, hafa bent á að skýrslan er full af staðreyndavillum og röngum ályktunum. Rannsóknarnefndin túlkaði einnig lög á rangan hátt, t.d. meginatriði bankalöggjöfar um skilgreiningu á stórum áhættuskuldbindingum eins og Hæstiréttur hefur staðfest.

Rannsóknarnefndin gætti ekki að hæfisreglum né virti meginreglur um réttindi einstaklinga til hlutlausrar rannsóknar, aðgangs að gögnum og fleira.  Verst var þó vanvirðing nefndarinnar á andmælarétti, sem eingöngu var til málamynda. Það að birta ekki andmæli í hinni prentuðu skýrslu nefndarinnar sýndi hugarfar nefndarmanna.

Skipan pólitískra rannsóknarnefnda stenst illa mannréttindaákvæði um réttláta málsmeðferð. Ennþá síður stenst það að gera nefndarmenn ábyrgðarlausa af verkum sínum. Dómarar þ.á.m. Hæstaréttardómarar njóta ekki þeirra forréttinda.

Alþingi þarf að má af sér blett Landsdómsákærunnar.  Fannsaka verður vinnubrögð og niðurstöður Rannsóknarnefndar Alþingis og Atlanefndarinnar. Einnig þarf að breyta lögum þannig að þeir einstaklingar sem í þeim nefndum störfuðu beri sömu lagaábyrgð og aðrir í þjóðfélaginu. Í þriðja lagi þarf Alþingi að samþykkja þingsályktun þar sem pólitíski hefndarleiðangurinn gegn Geir H. Haarde er fordæmdur og hann beðinn afsökunar á ákærunni og þeirri meingerð sem hún olli honum persónulega og nánum aðstandendum hans.


Aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna III

Mikilvægustu tillögur forsætisráðherra vegna skuldavanda heimilanna eru höfuðstólsleiðréttingar verðtryggðra skulda og afnám verðtryggingar á neytendalánum.

Önnur atriði sem nefnd eru felast í eins konar lyklafrumvarpi þ.e. að eigendur yfirveðsettra íbúða geti skilað þeim án þess að þola gjaldþrotameðferð í framhaldinu vegna ógreiddra húsnæðisskulda.  Hér er um nauðsynlega aðgerð að ræða fyrir venjulegt fólk sem fjárfesti í íbúðarhúsnæði á þenslu og verðbólgutímum.

Afnema á stimpilgjalda vegna kaupa á húsnæði til eigin nota og frumvarp þess efnis lagt fyrir á haustþingi 2013. Ég flutti frumvarp þessa efnis þegar ég sat á þingi og það mætti dusta rykið af því og hér með gef ég Bjarna Benediktssyni sem hefur umsjón með verkefninu höfundarréttinn.

Sum önnur atriði í tillögum forsætisráðherra skipta litlu eða engu máli eða eru langtímaverkefni. Þannig verður ekki séð réttlæting sérstakrar gjaldtöku af fjármálafyrirtækjum vegna endurútreiknings gengistryggðra lána nema um skaðabótaábyrgð sé að ræða. Ríkið getur fellt niður gjaldtöku vegna gjaldþrota einstaklinga og auðveldað eignalausum einstaklingum að óska eftir gjaldrþoti. Ekki flókið.

Hvað sem þessu öllu líður þá er það fyrst og fremst afnám verðtryggingar og niðurfærsla höfuðstóla sem skipta máli fyrir venjulegt fólk. Það skiptir máli að þar verði hendur látnar standa fram úr ermum og gerðar þær leiðréttingar sem sanngjarnar eru og nauðsynlegar.  Það þýðir ekkert hálfklák. Með myndarlegum aðgerðum í þessum efnum skapast grundvöllur til nýrrar sóknar þjóðarinnar til farsælli og hamingjuríkari framtíðar.

Aukinn hagvöxtur og einkaneysla mun þá knýja áfram þær aflvélar þjóðfélagsins sem skipta mestu til að ná fram verulegum kjarabótum og hagsæld.


Aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna II.

Forsætisráðherra leggur til að skipaður verði sérfræðihópur um afnám verðtryggingar á neytendalánum. Með neytendalánum virðist forsætisráðherra miða við verðtryggðar lánveitingar til neytenda hvort heldur er til húsnæðiskaupa eða annars. Verkefni sérfræðingahópsins er að útfæra afnám verðtryggingar nýrra neytendalána.

Hér er ekki gengið nógu langt. Nokkur óvissa gildir um það hvort verðtryggð neytendalán séu lögleg. Löng og óslitin lagaframkvæmd gæti haft þýðingu við mat á því. Hins vegar virðist nokkuð ljóst að verðtrygging neytendalána mundi ekki standast lög ef setja ætti hana á núna.

Verði verkefni sérfræðingahópsins að útfæra afnám verðtryggingar á nýjum neytendalánum er verkefni hans einfalt og mætti ljúka starfinu fyrir helgi og leggja frumvarp fyrir sumarþing til að ljúka þeim þætti málsins.

Raunar hefur almenningur í landinu flúið verðtryggðu lánin í nokkur ár með sama hætti og fólkið sem bjó við Kommúnismann greiddi atkvæði með fótunum gegn Kommúnismanum og flúði í frelsið til Vesturlanda. Ríkisstjórnin verður að gefa þeim sem bundnir eru á klafa verðtryggingarinnar kost á að flýja hana og njóta frelsis í stað helsis verðtryggðra skulda.

Mikilvægt er að víkka verkefni sérfræðingahópsins og miða við að hópurinn útfæri afnám verðtryggingar neytendalána jafnt gamalla sem nýrra. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 359
  • Sl. sólarhring: 658
  • Sl. viku: 2735
  • Frá upphafi: 2516921

Annað

  • Innlit í dag: 344
  • Innlit sl. viku: 2519
  • Gestir í dag: 334
  • IP-tölur í dag: 330

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband