Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Mannréttindi

Kirkjan stendur frammi fyrir mikilli baráttu næstu 5 ár

Erkibiskupinn af Canterbury segir að á næstu 5 árum standi kirkjan frammi fyrir mikilli baráttu. (exceptional challenge) Fleiri hafa bent á það og með hvaða hætti kirkjunni og kristnum gildum hefur verið úthýst  af hugsjónalausu veraldar- og auðhyggjunni.

Tony Blair fyrrum forsætisráðherra Breta sagði árið 2007 að fólk í pólitík sem viðurkenndi að það væri trúað væri venjulega ásakað um að vera kjánar.  Chris Pattern fyrrum þingmaður í Bretlandi og landstjóri Breta í Hong Kong, yfirmaður Oxford háskóla  og stjórnarformaður BBC segir að trúleysingjar sýni trúarbrögðum fjandskap og skorti umburðarlyndi gagnvart trúarbrögðum. Chris Pattern sagði líka að hann yrði var við að fólk liti á hann sem skrýtinn vegna þess að hann játaði kristnar trúarskoðanir opinberlega.

Chris Pattern bendir á að margt af því sem trúleysingjarnir Richard Dawkins og Christopher Hitchens haldi fram skorti vitræna skírskotun og sé iðlega sett þannig fram að um meinfýsni sé að ræða og illvilja gagnvart trúarbrögðum.

Chris Pattern lét þessi orð falla m.a. þegar kristinn rafvirki Colin Atkinson, sem var með krossmark í bílnum sínum var hótað uppsögn úr starfi vegna þess að hann væri með kristið trúartákn í bílnum. Hann var tekinn í viðtal hjá vinnuveitanda sínum en fékk að halda sínu striki þegar hann kvikaði hvergi.

Kristið fólk virðist ekki átta sig á hvað trúleysingjar og nytsamir sakleysingjar fjandskapast mikið út í trúarskoðanir fólks og sýna trúarskoðunum annarra litla virðingu. Þá hafa fáir gefið því gaum utan kirkjunnar hvað víða kristninni og kristnum gildum hefur verið úthýst í þjóðfélaginu.

Kirkjan stendur því frammi fyrir mikilli baráttu og það er óneitanlega nokkuð sérstakt að margir  kirkjunnar þjónar skuli telja mikilvægara að berjast fyrir flestu öðru en því sem þeir eru ráðnir til að berjast fyrir.

 


Árásir á kristið fólk og kristni

Þegar við höldum upprisuhátíðina hátíðlega og minnumst fyrirheitsins sem tengist krossfestingunni og upprisunni ættum við líka að hugsa til trúbræðra okkar og systra sem búa við stöðugar ógnir og harðræði. 

Kristið fólk í löndum þar sem mikill meiri hluti er Múhameðstrúar er verulegur.  Um 2 milljónir Sýrlendinga eru kristnir og fjöldi kristinna er í Egyptalandi, Írak og Íran. Í Sýrlandi, Egyptalandi og Írak bjó kristið fólk lengst af við öryggi. Nú hafa aðstæður breyst til hins verra.

Kristnu söfnuðirnir í Sýslandi ákváðu að fella niður skrúðgöngur og helgihald utan dyra þessa upprisuhátið vegna ótta um að öryggi sitt. Kristnu söfnuðirnir í Írak hafa sætt miklum ofsóknum og sömu sögu er að segja frá Egyptalandi. Í öllum þessum löndum er kristið fólk drepið  vegna trúarskoðana sinna.   

Kristið fólk  ætti að huga að því að á sama tíma og Múslimar um allan heim ærast af minnsta tilefni og jafnvel án tilefnis og drepa þá mann og annan sem ekkert hafa til saka unnið, þá eru það ekki Múhameðstrúarmenn sem sæta ofsóknum um allan heim og það er ekki vegið að trúarbrögðum þeirra og þeir eru ekki drepnir vegna trúarskoðana í kristnum löndum eða ofsóttir.

Annað er upp á teningnum með kristnina. Kristið fólk verður að sæta stöðugum ásóknum, harðræði og fjöldi kristins fólks er myrt í viku hverri vegna trúarskoðana sinna sérstaklega í löndum sem játa Múhameðstrú.  Á sama tíma er undanlátssemin allsráðandi í veraldlegum hugsjónalitlum heimi Vesturlandabúa. 

Á grundvelli bullsins um fjölmenningarsamfélagið hafa andstæðingar trúarinnar  leitast við að koma öllu sem minnir á kristni burt úr skólum landsins og opinberum byggingum.  Þá eru viðteknar venjur og siðir um friðhelgi á kristnum helgidögum aflögð að hluta eða með öllu.

Þrátt fyrir allt þá verður ekki hjá því komist að bregðast við hvort sem veraldarhyggjufólki líkar betur eða verr.  Hver kynslóð þarf nefnilega að berjast fyrir frelsinu með einum eða öðrum hætti.

Þeir sem berjast fyrir  mannréttindum sem grundvallast á einstaklingsfrelsi, manngildi  og frelsishugsjónum kristninnar og þeir sem vilja verja trúarlega stöðu kristninnar þurfa að mynda samtök til baráttu fyrir þau sjónarmið og  til að aðstoða í verki kristið fólk þar sem að því er sótt.


Fá ekki að drekka í vinnunni

Franskir lögregluþjónar hafa mótmælt reglum sem banna þeim að drekka í vinnunni.  Hingað til hafa franskir lögregluþjónar fengið bjórinn sinn eða rauðvínið sitt í matarpakkanum. Nú er því  lokið.

Eðlilega finnst frönsku lögregluþjónunum vegið að persónufrelsi sínu auk þess sem vinnuaðstæður verða stórlega verri hvað þá heldur leiðinlegri að mati eins forustumanns félags lögreglumanna í Frakklandi.

Einn talsmaður lögreglujþóna orðaði þetta þannig að hið opinbera ætlaði að gera alla að prestum þó þannig að messuvínið væri líka frá þeim tekið í ofanálag við annan heilagleika.

Svona snúa nú mannréttindin mismunandi við fólki. Ég hefði haldið að það væru réttindi borgaranna að þeir sem eru að vinna fyrir þá lögregluþjónar, þingmenn, læknar eða aðrir séu edrú meðan þeir eru í vinnunni.

 

 


Rökkursögur Innanríkisráðherra

Innanríkisráðherra sem  barist hefur  gegn auknum rannsóknarheimildum lögreglu og forvirkum aðgerðum mætti í Kastljósi í gær og sagði  rökkursögur um ástandið í undirheimunum.  Á þeim  grundvelli  telur Innanríkisráðherra rétt að skipta um skoðun og heimila lögreglunni víðtækari inngrip í einstaklings- og persónufrelsið.

Einhvern veginn rímar það sem Ögmundur Jónasson heldur fram núna um aukna hættu vegna skipulagðrar glæpastarfsemi ekki alveg við þær skýrslur af ástandinu sem borist hafa m.a. frá lögreglu. Þegar svo háttar til  er gott að segja rökkursögur af ónafngreindu fólki sem á í útistöðum við glæpagengi af einhverjum óskilgreindum ástæðum.

Fróðlegt verður að vita hvort Innanríkisráðherra grípur til þess að hafa það meginatriði málflutnings síns þegar hann mælir fyrir heimildum lögreglu til að beita forvirkum aðgerðum gagnvart einstaklingum þær rökkursögur sem hann sagði þjóðinni í gær. 

Skipulögð glæpastarfsemi hefur verið og er til í landinu og þannig verður það óháð auknum heimildum til handa lögreglu. Skrýtið að innanríkisráðherra skuli ekki detta í hug að leita að rót vandans eða bresta kjark til að tala um hann og horfast í augu við hann. 

Auknar rannsóknarheimildir lögreglu bitna iðulega á saklausu fólki. Þess vegna verður að stíga varlega til jarðar og gæta þess að fórna ekki um of frelsi og borgaralegum réttindum einstaklinga. 


Stjórnlagaráð

Hvað er gert í lýðræðisríkjum þegar æðsti dómstóll landsins úrskurðar  kosningar  ógildar? Það er kosið aftur.  Flóknara er það ekki.

Hvað er gert í einræðisríkjum þegar kosningar eru ógildar? Kosningin er látin standa. Þeir sem kjörnir voru í ógildu kosningunni taka embættin. 

Nokkrir þeirra sem töldu sig réttkjörna á stjórnlagaþing hafa lýst því yfir að það væri ekkert eða lítið að marka niðurstöðu Hæstaréttar Íslandsnokkrir.  Á þeim forsendum finnst þeim eðlilegt að taka sæti í stjórnlagaráði sem er  sárabót fyrir þá sem telja stjórnarskrána orsakavald bankahrunsins.

Þegar Jóhanna Sigurðardóttir gat ekki náð því fram með frekjunni að kosið yrði að nýju til stjórnlagaþings um leið og kosið verður um Icesave var ákveðið af forustufólki Samfylkingarinnar  og VG að hafna lýðræðislegum reglum varðandi Stjórnlagaþingið. Þess í stað skyldi Alþingi velja fyrrverandi tilvonandi stjórnlagaþingmenn í stjórnlagaráð.  Það þýðir að niðurstöðu Hæstaréttar er gefið langt nef og farið að í anda einvaldskonunga sem sögðu "Vér einir vitum".

Sem betur fer eru til þingmenn í stjórnarliðinu sem neita að taka þátt í þessu stjórnskipulega og andlýðræðislega rugli um stjórnlagaráð sem nú liggur fyrir í formi þingsályktunartillögu á Alþingi. Vonandi sjá fleiri og fleiri þingmenn í stjórnarliðinu að þetta gengur ekki og fella þá þingsályktunartillögu sem liggur fyrir að kröfu Jóhönnu Sigurðardóttur um stjórnlagaráð. 

Þökk sé þeim stjórnarþingmönnum sem sýna þann heiðarleika og viriðingu við stjórnskipun landsins að lýsa yfir andstöðu við þessa fráleitu tilögu um stjórnlagaráð.


Dómur í máli óeirðafólks

Það hlítur að hafa verið áfall fyrir Ragnar Aðalsteinsson höfuðverjandann í máli 9 menninganna að Icesave skyldi skyggja á hann þegar dómur var loksins upp kveðinn.  Raunar getur Ragnar sjálfum sér um kennt. Hann hefur tafið málið á alla lund og sett Íslandmet í að kæra ákvarðanir og úrskurði til Hæstaréttar.  Í málinu setti Ragnar líka Íslandsmet í að tapa málunum í  Hæstarétti.  Alltaf gapti ríkissjónvarpið ofan í lögmanninn þegar hann gerði grein fyrir því hvað héraðsdómari væri fákunnandi í lögum en ekkert heyrðist í RÚV þegar Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu þessa "fákunnandi" héraðsdómara.

Eftir að málinu hafði verið haldið í gíslingu af Ragnari Aðalsteinssyni, aðstandendum ákærðu, nytsömum sakleysingjum  og nokkrum pólitískum lukkuriddurum, komst héraðsdómari að niðurstöðu sem við mátti búast allan tímann, miðað við það klúður sem var í málsmeðferðinni og þess með hvaða hætti tekið er á óeirðarfólki og aðsópsmönnum í íslensku samfélagi.

Sumir hafa haldið því fram að það væri óeðlilegt að rétta yfir þessum krökkum meðan októberglæpamennirnir frá 2008 ganga lausir og eru enn að stjórna leynt og ljóst fyrirtækjum og fjármálalífi í landinu.  Hér skal tekið undir það sjónarmið að það er með öllu óþolandi og raunar óskiljanlegt, að mál skuli ganga jafn hægt og illa hjá sérstökum saksóknara og raun ber vitni. Það breytir þó engu um sekt eða sakleysi 9 menninganna svonefndu.

Það hlítur þó að vera umhugsunarefni fyrir þá sem krefjast réttlætis í þessu þjóðféalgi hvað lengi og mikið hægt er að tefja framgang dómsmála með furðulegheitum og skringimálflutningi í einföldu máli eins og máli 9 menninganna. Það gefur því miður ekki vonir um hraða málsmeðferð þegar farið verður að rétta yfir fólki sem er enn ráðandi í fjármálalífi þjóðarinnar og tæmdi banka, sjóði og fyrirtæki þannig að lengra varð ekki haldið í október 2008. 

Það er að segja ef nokkur döngun er í ákæruvaldinu til að koma út ákærum gagnvart öðrum en ungu óeirðarfólki.

 


Burt með lýðræðið og réttarríkið.

Eiríkur Bergmann kennari hefur ásamt félögum sínum í háskólasamfélagi Samfylkingarinnar kynnt, að Alþingi eigi að velja þau 25 sem sest hefðu á stjórnlagaþing væri kosningin ekki ógild, til að semja nýja stjórnarskrá og gefa þeim auknar valdheimildir.  

Hvað myndum við segja um stjórn Hvíta Rússlands ef æðsti dómstóll ríkisins ógilti kosningu, en þingið löggilti kosninguna síðan.  Það yrði talið  dæmi um stjórnarhætti í einræðis- eða flokksstjórnarríkis.  Gildir annað hér á landi?  Vinir Eiríks og félaga á Evrópuþinginu í Strassbourg mundu fordæma slíkt virðingarleysi við lýðræðið, ef Alþingi samþykkti þessa dæmalausu tillögu Eiríks og háskólaspekinganna?

Þessi tillaga sem Eiríkur segir að þau sem ætluðu sér að setjast á stjórnlagaþing séu sammála er andlýðræðisleg miðað við þær aðstæður sem eru fyrir hendi. Vilji Alþingi áfram hafa sérstakt stjórnlagaþing, þá verður að fara að reglum lýðræðisþjóðfélagsins og réttarríkisins.  Þá  verður að kjósa aftur. Helst án afskipta Samfylkingarspekinga í  verkfræði- og félagsfræðideild Háskóla Íslands, þannig að kosningar geti farið fram á forsendum kjósenda um fólk en ekki tölur.

Eiríkur Bergmann og skólaspekingar Samfylkingarinnar virðast ekki  enn átta sig á að kosningin var ógilt. Þess vegna eru fundir 25 menninganna, sjónarmið og ályktanir jafn mikilvægar og merkilegar og fundir í Bjórbindindisfélagi kvenna norðan Helkunduheiðar. Með fullri virðingu fyrir því félagi.

Háskólaspekingar Samfylkingarinnar sem hertóku undirbúning kosninga til  stjórnlagaþings, hönnuðu kosningareglur og buðu sig síðan fram og náðu góðum árangri vegna afskiptaleysis almennings, vilja nú síst af öllu að lýðræðislegar kosningar fari fram á nýjan leik hvað þá heldur að sá aðili sem á að sinna þessu verkefni samkvæmt stjórnskipun lýðveldisins, geri það.


Samsæriskenningar og staðreyndir

Þegar ákvarðanir eru teknar og þeir sem hlut eiga að máli eða hagsmuna  að gæta er ekki gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna þá er réttur brotinn á þeim einstaklingi. Þess vegna stenst ekki  málatilbúnaður innanríkisráðherra, að réttur hafi ekki verið brotinn á neinum við framkvæmd kosninga til stjórnlagaþings. Réttur var því brotinn á öllum frambjóðendum til sjórnlagaþings. Talning fór ekki fram opinberlega og frambjóðendur áttu þess ekki kost að gæta hagsmuna sinna.

Taka verður með í reikninginn að vafaatkvæði voru gríðarlega mörg og við mat á þeim gat skipt máli að gæslumenn hagsmuna frambjóðenda gætu komið sjónarmiðum sínum að varðandi mat á þeim og gildi. Þessi réttur var brotinn á frambjóðendum.

Ákvörðun Landskjörstjórnar að víkja frá reglum kosningalaga hvað varðar þennan ótvíræða rétt frambjóðenda sýnist mér vega þyngst þegar Hæstiréttur ógilti kosningar til stjórnlagaþings.

Þegar frambjóðandi hefur ekki haft möguleika á að gæta hagsmuna sinna svo sem hann á rétt á og vafaatkvæði og úrskurðaratriði skipta þúsundum þá er ekki hægt að halda því fram að réttur hafi ekki verið brotinn á einum eða neinum. Réttur var brotinn á öllum frambjóðendum. Það er aðalatriðið í málinu.

Verðlaunablaðamaðurinn Jóhann Hauksson sem hefur komið með fleiri samsæriskenningar og oftar hallað réttu máli en góðu hófi gegnir er búinn að finna út eitt allsherjarsamsæri Hæstaréttar í skrifum sínum í DV í dag og lætur að því liggja að hagsmuna- vina og fjölskyldutengsl ráði niðurstöðunni í þessu máli. Semsagt að Hæstiréttur hafi hallað réttu máli að því er virðist vegna þess að hagsmunirnir voru svo miklir.

Þarna er líka höfð uppi rakalaus og röng orðræða. Í fyrsta lagi voru hagsmunirnir nánast engir vegna þess að stjórnlagaþingið hafði engin völd. Í öðru lagi þá snérist úrlausnarefni Hæstaréttar ekki um fiskveiðistjórnina eða náttúruauðlindir heldur ákvæði kosningalaga. Í þriðja lagi þá er ekki á það sýnt fram á með lagalegum rökum að niðurstaða Hæstaréttar hafi verið röng.  Það er þó mergurinn málsins í þessu máli.

Niðurstaða Hæstaréttar liggur fyrir og hún verður ekki véfengd,  þannig að viðfangsefnið er að bregðast við. Það gera menn í lýðræðislegu þjóðfélagi með því að kjósa aftur og gæta þá að grundvallarréttindum frambjóðenda, hvers eins og einasta, annað gengur ekki í lýðfrjálsu landi.

Alþingi væri sómi að því að taka sem fyrst ákvörðun um nýjar kosningar eða þá að setja stjórnlagaþingsmálið í annan farveg.

Forsætisráðherra hefði boðað formenn allra stjórnmálaflokka til fundar við sig í stjórnarráðinu á miðvikudagskvöldið ef hún hefði verið vandanum vaxin,  til að freista þess að ná samkomulagi um framhald málsins og klára það í gær, í stað þess að Alþingi skyldi efna til  makalausrar umræðu um ekki neitt í gær. Svo virðist sem þjóðinni  hafi verið megn skapraun að þeim málflutningi sem þar var hafður uppi.


Mariu Salamovu vísað úr landi í Noregi.

Ungri konu Mariu Salamovu sem flúði frá Rússlandi til Finnlands og þaðan til Noregs rétt upp úr aldamótum hefur verið vísað úr  landinu og sett upp í flugvél sem á að flytja hana til Rússlands. Maria er ekki með nein tengsl við Rússland. Hún er með tengsl við Noreg og talar norsku.

Maria Salamova hefur getið sér gott orð sem rithöfundur og mér vitanlega hefur hún fallið vel inn í norskt þjóðlíf og gert sér far um að vera góður Norðamaður þó hún sé ólöglegur innflytjandi.

Vanamálið með ólöglega innflytjendur er m.a.  að ekki er tekið á málum þeirra strax, en þeim mun meiri sem tengsl þeirra verða við landið sem þeir flytja til þeirm mun erfiðarar er að taka á málinu þannig að réttlætinu sé fullnægt. Í máli Mariu er ekki verið að fullnægja neinu réttlæti úr því sem komið er.

Norðmönnum er  vorkunn þar sem þeir hafa á síðustu árum orðið illa úti úr Múslima plágunni sem sækir á þá úr öllum áttum eftir að þeir ætluðu á síðasta áratug síðustu aldar og í byrjun þessarar að vera gott gistiríki fyrir fólk sem þeir töldu að ætti bágt. Afleðingarnar hafa verið þær að nú hafa Norðmenn heldur betur breytt um stefnu og átta sig á að það er ekki hægt að rétta þessu fólki litla fingurinn og ólöglegur flóttamenn sem ferðast yfir hálfan hnöttinn án vegabréfs þegar þeir koma til Noregs eru ekki flóttamenn.

Samt sem áður þá er það slæmt að þessi vonda reynsla Norðmanna af því að vera með léttúð í innflytjendamálum skuli bitna á þeim sem síst skyldi og í þessu tilviki þá er það ósæmilegt að vísa Mariu Salamovu úr landi.


Réttlæting ofbeldis

Það var annkannanlegt að hlusta á þáttastjórnanda í morgunútvarpi Rásar 2, tala um það sem afsökun fyrir manndrápstilraun við Players um helgina, að það væri svo mikil reiði í þjóðfélaginu.  

Ég vona að þessi annars ágæti útvarpsmaður biðjist afsökunar á svona bulli þegar færi gefst.

Það er aldrei afsökun að ráðast á annað fólk og misþyrma því. Hvað þá að sparka ítrekað í höfuð á liggjandi fólki.  Slíkt hefur leitt til varanlegra örkumla ef til vill dauða.

Áður fyrr gátu menn látið hnefana tala, en þeim viðskiptum lauk þegar annar lét undan síga eða féll. Nú gerist það aftur og aftur að hópur fólks ræðst að liggjandi bjargarlausum einstaklingi með höggum og spörkum. Það er ógeðslegt og óverjandi.

Fjölmiðlafólkið ætti að hætta að tala um reiðina í þjóðfélaginu eða vísa til hennar sem afsökun fyrir afbrigðilegri og andfélagslegri hegðun.  Það er bull í þágu ofbeldisfólks, bófa og drullusokka.

Fjölmiðlafólk þarf jafnan að gera sér grein fyrir hvað mikla ábyrgð það ber. Við mundum ekki búa í jafnafgerandi bullukollusamkomfélagi og raun ber vitni ef við hefðum fleiri fjölmiðla og fjölmiðlafólk sem gerði sér grein fyrir ábyrgð sinni og mikilvægi þess að leggja mál fyrir af skynsemi.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.9.): 204
  • Sl. sólarhring: 511
  • Sl. viku: 3583
  • Frá upphafi: 2606473

Annað

  • Innlit í dag: 194
  • Innlit sl. viku: 3377
  • Gestir í dag: 183
  • IP-tölur í dag: 182

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband