Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Hagsmunir launafólks og neytenda að kanna ESB aðild

Það eru tvímælalausir hagsmunir fyrir launafólk og neytendur að aðild að ESB verði könnuð. Við búum hvort sem okkur líkar það betur eða verr í mesta okurþjóðfélagi í Evrópu. Maturinn er dýrastur, lánin eru dýrust og lyfin eru dýrust svo fátt eitt sé nefnt. Líkur eru á að þetta mundi lagast með ESB aðild.

Hinsvegar geta komið til aðrir hagsmunir sem gætu vegið þyngra. M.a. erum við með galið fiskveiðistjórunarkerfi sem þyrfti að gera grundvallarbreytingar á áður en kæmi til viðræðna um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu.

Ég tel að það sé nauðsynlegt að kanna kosti og galla aðildar. Annað er algjört ábyrgðarleysi ríkisstjórnar. Það yrði síðan að vera kalt mat þegar allar staðreyndir liggja fyrir hvort það þjóni hagsmunum Íslands að ganga í bandalagið og þá með hvaða skilyrðum.


mbl.is Mikilvægt að kannað verði hvort ESB og evra þjóni hagsmunum Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr foringi hjá Vinstri grænum?

Svandís Svavarsdóttir hefur staðið sig með eindæmum vel í umræðunni um Reykjavík Energy Invest og klúður Villa borgarstjóra í málinu. Þrátt fyrir að hún sé ekki markaðshyggjukona þá hefur hún haldið vel á málinu og bent á spillinguna og ruglið sem meiri hluti Sjálfstæðisflokksins ber ábyrgð á. Málflutningur hennar hefur verið skýr og markviss og laus við þær öfgar sem of oft einkennir málflutning Vinstri grænna.

Það er slæmt  að Frjálslyndi flokkurinn skuli ekki eiga  fulltrúa í borgarstjórninni sem gæti  tekið á auðlindamálunum og gjafastefnu meirihlutans út frá þeirri grundvallarstefnu sem flokkurinn er grundvallaður á af svipuðum krafti og Svandís Svavarsdóttir gerir. Í sjálfu sér væri það auðveldara fyrir talsmann Frjálslynda flokksins ef hann ætti sæti í borgarstjórn að mæla gegn spillingunni út frá markaðslegum forsendum.

Borgarstjórnarmeirihlutinn ákvað að aðeins fáir útvaldir skyldu komast að málinu en útilokaði almenning á veitusvæði Orkuveitunnar. Það eru ófyrirgefanlegt. Hvernig ætlar Sjálfstæðisflokkurinn sem segist vera flokkur frjáls framtaks og einstaklingsfrelsis að afsaka það að einungis fáir stórir útvaldir fái að kaupa í væntanlegum stórgróðafyrirtækjum sem verða byggð upp á þeim þekkingargrunni og mannauði sem hefur verið byggður upp hjá Orkuveitu Reykjavíkur undanfarna áratugi fyrir tilstuðlan framsýnna borgarstjóra og notenda Orkuveitunnar og áður Hitaveitu Reykjavíkur.

Mér finnst miður að jafn mætur maður og Vilhjálmur borgarstjóri skuli hafa sýnt af sér þetta pólitíska dómgreindarleysi og ég vona hans vegna að hann nái áttum og sjái að það er óásættanlegt að við á þessu ágæta Suðvesturhorni landins þess vegna allir landsmenn fáum ekk að sitja við sama borð við sölu hlutafjár í fyrirtækinu sem á að vera útrásarfyrirtæki fólksins í landinu. Almenningshlutafélag margra smárra fjárfesta en ekki þeirra fáu stóru.

Hver á auðlindindina? Fólkið sem byggði þetta upp eða hákarlarnir sem sjá með sama hætti og margir aðrir þá hagnaðarvon sem um er að ræða vegna þróunar sem við notendur orkunnar höfum kostað.


Nýtt Kjördæmafélag stofnað. Þjóðin á auðlindirnar.

Við Frjálslynd í Reykjavíkurkjördæmi suður stofnuðum kjördæmafélag í kjördæminu í kvöld. Um 50 manns sóttu fundinn. Þóra Guðmundsdóttir var kjörin formaður og með henni einvalalið í stjórn. Nú er komin nauðsynleg félagsleg umgjörð utan um flokksstarfið hér í Reykjavík.

Góðar skemmtilegar og fróðlegar umræður voru á fundinum eftir góða ræðu formanns flokksins. Það var áberandi að flokksmenn gjalda mikinn varhug við fyirrhuguðum áformum meirihlutans í Reykjavík í orkumálum. Við Frjálslynd munum ekki horfa á það aðgerðarlaus að auðlindum þjóðarinnar einni af annarri sé ráðstafað til fárra útvaldra.

Það er kominn tími til að snúa við og taka til baka það sem þjóðin á með réttu og láta fólkið fá tekjur af auðlindum sínum í stað þess að láta fáa útvalda hirða nýtinguna og arðinn af auðlindunum. Reynslan af kvótakerfinu í fiskveiðum sýnir að kvótagreifarnir kunna ekki að fara með þá auðlind sem þeir hafa allt of lengi fengið að nýta og kaupa og selja þó að ekki sé um varanlegan eignarétt að ræða.

Það er nóg komið.


Flottur stofnfundur kjördæmafélags.

Stofnfundur kjördæmafélags Frjálslynda flokksins  í Reykjavíkurkjördæmi norður var haldinn í kvöld. Tryggvi Agnarsson var kosinn formaður og með honum í stjórn einvalalið. Mikil eindrægni ríkti á fundinum. Umræður voru einlægar og hispurslausar um flokksmál og stjórnmál.  Um eða yfir 50 manns sóttu stofnfundinn.

Vegna fréttar Blaðsins í dag um að við Guðjón Arnar værum á leið inn í Sjálfstæðisflokkinn þá er það dæmalaus ekki frétt. Blaðamaðurinn sem skrifar sig fyrir fréttinni hefur áður stundað óábyrga fréttamennsku og verið með dylgjur í garð Frjálslynda flokksins. Dagblað sem vill láta taka mark á sér getur ekki verið með svona bullfréttamennsku eða óábyggilega blaðamenn. Staðreyndin er sú að það er engin fótur fyrir þessari frétt og það vissi blaðamaðurinn mæta vel þegar hún skrifaði fréttina.

Á morgun verður stofnfundur kjördæmafélags Frjálslynda flokksins í Reykjavík suður. Vonandi tekst hann jafn vel og þessi sem var í kvöld. Ég á raunar ekki von á öðru. Við sem störfum í Frjálslynda flokknum lærðum að starfa vel saman í kosningabaráttunni þó að stuttur tími væri til stefnu til að berja í brestina eftir makalausar illdeilur Margrétar Sverrisdóttur við atvinnuveitendur sína til 7 ára, og það jafnvel þó að hún væri á mun hærri launum frá þingflokki Frjálslynda flokksins en óbreyttir þingmenn voru á.


Verðbólgufjárlög?

 Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir: Ríkisstjórnin leggur áherslu á ýtrasta aðhalds sé gætt í rekstri hins opinbera þannig að fjármunir skattgreiðenda séu nýttir sem best."

Ríkisstjórn og Seðlabanki hafa sett sér verðbólgumarkmið sem eru að verðbólga verði um eða innan við 2.5% á ári. Samt sem áður leggur ríkisstjórnin nú fram frumvarp til fjárlaga þar sem segir að útgjöld aukist um rúm 8% að raungildi. Það er rétt séu bornar saman áætluð niðurstaða ríkisútgjalda ársins 2007 og útjgöld skv. fjárlagafrumvarpinu.

Heildarútgjöld ríkisins skv fjárlagafrumvarpinu 2007 voru 357 milljarðar. Heildarútgjöld skv fjárlagafrumvarpinu 2008 eru 430 milljarðar. Aukning ríkisútgjalda eru því 73 milljarðar.  Aukning ríkisútgjalda skv. því er yfir 20%. Þó tekið sé tillit til verðbólgu á árinu þá aukast ríkisútgjöldin samt um 17%.  Svona mikil aukning ríkisútgjalda væru aðeins réttlætanleg ef horfur væru á verulegum samdrætti og atvinnuleysi. Svo er ekki. Þenslan er enn í hámarki og nú ætlar ríkisstjórnin að hella olílu á eldinn.

Það hlítur að vera umhugsunarefni fyrir markaðssinna í Sjálfstæðisflokknum hvort Sjálfstæðisflokkurinn sé á réttri leið með því að auka ríkisútgjöld svo mjög sem raun ber vitni.


« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 76
  • Sl. viku: 2236
  • Frá upphafi: 2296173

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2068
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband