Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Af hverju má ASÍ ekki gera verðkannanir í Bónus?

Forstjóri búðarkeðjunar sem rekur Hagkaup og Bónus segir að ASÍ megi ekki framkvæma verðkannanir í búðum sínum vegna óvandaðra vinnubragða sem hafi skaðað fyrirtækið.

Kaupmenn hafa iðulega sett út á verðkannanir en sjaldnast hafa slíkar ásakanir átt rétt á sér. Með örfáum undantekningum hafa verðkannanir gefið raunsanna mynd af mismun á verðlagi milli verslana og breytinga á verðlagi milli tímabila.  Þá má fullyrða að Bónus sé sú verslun sem mest hafi hagnast á verðkönnunum um langt árabil. Með vísan til þess er ákvörðun forstjórans undarleg.

Á upplýsingatímum eins og við lifum á þá er það fráleitt að meina verkalýðshreyfingunni að kanna verðlag í verslunum. Slíkt ráðslag hlítur að vekja upp spurningar hvers vegna viðkomandi fyrirtæki vill ekki að hlutlægt eftirlit sé haft með vöruverði sínu. Þessi afstaða er þó ekki algjörlega ný því að fyrirtækið beitti sömu útilokun þegar Neytendasamtökin framkvæmdu verðkannanir en þá var hægt að bregðast við því með sama hætti og ASÍ getur brugðist núna til að neytendur geti fengið upplýsingar um verð í verslununum.

Hitt er svo annað að það er gjörsamlega fráleitt að stærsta matvöruverslanakeðjan skuli freista þess að koma í veg fyrir að verð í verslunum hennar Hagkaup og Bónus sé kannað af hlutlausum aðilum.  

 


Hefur stjórn Orkuveitu Reykjavíkur engar starfsskyldur?

Eftir að hafa lesið viðtal við fráfarandi borgarstjóra þar sem fram kemur að hvorki hann né margir aðrir stjórnarmenn í Orkuveitu Reykjavíkur hafi kynnt sér grundvallargögn og samninga til langs tíma. Af því tilefni spyr ég hverjar eru starfsskyldur stjórnarmanna í Orkuveitu Reykjavíkur. Ber þeim ekki að kynna sér öll þau gögn sem skipta máli fyrir starfsemi fyrirtækisins. Skiptir samningur sem bindur fyrirtækið að verulegu leyti til 20 ára ekki máli?

Hvað með skyldur lykilstarfsmanna fyrirtækisins. Ber þeim ekki skylda til að upplýsa kjörna stjórnarmenn Orkuveitunnar um helstu atriði í starfsemi fyrirtækisins og framtíðaráformum.

Hvað fá stjórnaramenn í Orkuveitu Reykjavíkur greitt fyrir setu sína í stjórn fyrirtækisins?

Eftir því sem séð verður þá hafa allir stjórnarmenn fyrirtækisins brugðist hrapalega. Sé það sem fram kemur hjá fráfarandi borgarstjóra rétt varðandi 20 ára framsal mikilvægrar þjónustu Orkuveitunnar til REI þá hljóta spurningar að vakna um það hvort samningurinn sé ekki ógildur eða ógildanlegur. Það reynir á nýja meirihlutann að taka til hendinni hvað það varðar.


Dag skal að kveldi lofa

Ástæða er til að óska nýum borgarstjóra til hamingju. Dagur Eggertsson er góður drengur og laginn stjórnmálamaður að því er ég best þekki. Reykvíkinga vegna þá vona ég að honum gangi vel sem borgarstjóra. Ekki veitir honum af að nota alla góða eðliskosti sem hann býr yfir til að halda saman sundurlyndishjörðinni sem hann hefur leitt til valda með sér í Reykjavík.

Það er tvímælalaust styrkur fyrir Dag að hafa alist upp í góðu tæru fjallalofti í Árbænum og slitið barnsfótboltaskónum með Fylki.

En Dag skal að kvöldi lofa. Er það ekki svoleiðis?

 Þá er bara spurningin hvenær og hversu fljótt kvöldið kemur.


Vinstri stjórn í Reykjavík

Björn Ingi er sennilega sá stjórnmálamaður sem samstarsfaðilar treysta ekki framar til að fara í mat án þess að hafa góðar gætur á honum. Björn Ingi byrjaði samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn með því að svíkja Vinstri Græna og Samfylkinguna þ.e. hann kom ekki til þeirra eftir mat. Á sama tíma beið Ólafur F. Magnússon eins og ungmey í festum heima hjá sér og beið eftir Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni sem var búinn að handsala við hann samstarfi. Vilhjálmur hringdi síðan og sagði að Björn Ingi væri kominn heim til sín og hann vildi frekar vera með Birni Inga. Enginn málefnasamningur lá þá fyrir heldur bara samningur um skiptingu valda í borginni milli Björns Inga og Sjálfstæðismanna.

Nú gleymdi Björn Ingi að koma í mat til Villa Borgarstjóra og Villi heyrði þá næst í honum að hann  væri að mynda meirihluta með þeim sem hann áður sveik Vinstri Græn og Samfylkinguna. Þannig geta nú hlutirnir verið.

Meirihlutinn Vinstri Græn, Samfylkingin, Björn Ingi frá Framsókn og Margrét Sverrisdóttir Íslandshreyfingunni sem titlar sig fyrir F lista þó hún sé gengin úr Frjálslynda flokknum fyrir tæpu ári, hefur komið sér saman um að stjórna borginni en hefur ekki haft fyrir því að velta því fyrir sér hvernig. Spurningin er bara um að ráða.

Það er slæmt að horfa upp á þessa nýu kynslóð stjórnmálamanna Dag B. Eggertsson og Svandísi Svavarsdóttur sem bæði geta átt frama fyrir sér í pólitík falla svona á fyrsta alvöru prófinu sínu, að ganga ekki fyrirfram frá öllum hnútum við Björn Inga og Margréti sem eiga bæði þá sögu að skara eld að eigin köku og fara þangað sem best býðst þess vegna með stolnar fjaðrir.

Til síðasta meirihluta var stofnað með óheilindum og til þessa er stofnað af óheilindum. Ef til vill fær þessi nýi meirihluti vinstri manna í borgarstjórn sömu maklegu málagjöldin og meirihlutinn sem lauk göngu sinni í dag. Það er ekki hægt að segja annað en spillingarfnykinn leggi af borgarstjórninni hvar sem litið er.

Nú er spurningin mun meirihlutinn nýi afhenda oligörkunum náttúruauðlindirnar eða  gera eitt af viti koma í veg fyrir það en leyfa borgurnum að koma að málum á jafnréttisgrundvelli. Ef þau gera það þá getur verið ástæða til að hrósa þeim en fyrr ekki.


Aðgerðir Seðlabankans skila ekki árangri.

Þrátt fyrir stýrivexti í háhæðum þá fer verðbólga vaxandi á nýjan leik því miður. Hávaxtastefna Seðlabankans hefur leitt til hágengis og aukinnar spennu á fjármálamarkaði en valdið samkeppnis- og framleiðslufyrirtækjum vaxandi vandamálum.

 Fróðlegt verður að sjá hvernig verðbólga þróast til áramóta,en fari svo að hágengið haldist en verðbólga vaxi þrátt fyrir það þá ættu fleiri en nú að sjá að hávaxtastefna Seðlabankans skilar ekki árangri í þeim efnum sem ætlast er til.

Aðeins til skoðunar og íhugunar. Af hverju lækkar bensínið og kornflexið ekki þó að gengi íslensku krónunnar hækki. Evran stendur nú í 85 krónum en fór í síðasta mánuði í 90 kr. Þegar krónan féll hækkuðu allar innfluttar vörur. Af hverju lækka þær ekki í sama mæli þegar gengið styrkist? Væri ekki eðlilegt að birta vísitölu verðs á innfluttum vörum þ.e. verð þeirra í heildsölu. Þá geta neytendur betur gert sér grein fyrir hvort um eðlilega verðlagningu í smásölu er að ræða.

 Er e.t.v nauðsynlegt að taka upp viðmiðunarverð í Evrum til að efla verðskyn neytenda þar sem krónan flökktir svo mjög sem raun ber vitni og það virðist valda aukinni verðbólgu jafnvel þrátt fyrir að hún styrkist.  Verðmyndun í landinu er ekki eðlileg miðað við gengisþróun. Það er nú málið.


mbl.is Verðbólgan fer vaxandi á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á að hengja bakara fyrir smiði?

Í Staksteinum Morgunblaðsins í dag kemur fram að sá fulltrúi flokkseigendafélags Sjálfstæðisflokksins sem þar skrifar er búinn að finna sökudólginn í stóra REI/Orkuveituhneykslsimálinu. Sá heitir Guðmundur Þóroddsson forstjóri REI og áður um árabil forstjóri Orkuveitunnar. Sök hans er sú að hann hafi ekki upplýst borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um gang mála af nægjanlegri kurteisi. Niðurstaða Staksteinahöfundar er síðan sú að embættismenn eins og Guðmundur séu valdir að glundroða og stjórnmálamönnum með bein í nefinu beri að stöðva slíkt stjórnleysi.

Spurning er hins vegar hvort Guðmundur Þóroddsson var nokkurn tímann stjórnlaus? Hefur eitthvað komið fram sem bendir til þess að hann hafi ekki í einu og öllu fylgt þeim fyrirmælum sem honum voru gefin af stjórn fyrirtækjanna sem hann starfaði hjá. Ekkert hefur komið fram í þessu hneykslismáli sem bendir til þess að Guðmundur Þóroddsson hafi ekki rækt starfsskyldur sínar af kostgæfni í samræmi við ákvarðanir stjórnmálamanna.

Í ljósi þessa eru ummæli Staksteinahöfundar með ólíkindum og bera þess merki að reynt sé að koma ábyrgð á orkuhneykslinu á embættismenn í stað þess að láta þá stjórnmálamenn sem tóku ákvarðanir og málið heyrir undir bera þá ábyrgð sem þeim ber.

Ljóst er að ákvarðanir um stofnun REI og starfsemi duttu ekki af himnum ofan. Þar er um nokkuð langt ferli að ræða þar sem stjórnmálamennirnir sem að málinu stóðu mótuðu stefnuna og embættismennirnir framkvæmdu það sem stjórnmálamennirnir lögðu fyrir þá. Það er með ólíkindum að halda því fram að stjórnmálamennirnir hafi ekki komið að málum varðandi fyrirtækið þegar vélað var um kaupréttarsamninga fyrir hundruðir milljóna og hverjir fengju að kaupa. Slíkt er með þvílíkum ólíkindum að útilokað er að leggja trúnað á slíkar draugasögur.

Áður en bakarar eins og Guðmundur og þess vegna Hjörleifur Kvaran verða hengdir fyrir smiðina Vilhjálm Þórmund, Guðlaug Þór og Björn Inga er nauðsynlegt að fá öll spil á borðið. Upplýsa almenning um það hvað raunverulega skeði og hvenær. Fram hefur komið að helstu gerendum orkuhneykslisins ber ekki saman.

Eftir því sem ég best fæ séð þá var um ákveðna pólitíska stefnumörkun að ræða sem borgarstjóri hafði ekki samþykki fyrir í sínum flokki og þegar almenningur í borginni reis gegn þessu þá reyndu menn að finna útgönguleiðir með öllum ráðum. Er það ekki mergurinn málsins.

Einhvern veginn minnir þessi umræða mig á þá stöðu sem einu sinni kom upp í Sjálfstæðisflokknum þegar flokkurinn tapaði stórt í kosningum og sett var á laggirnar rannsóknarnefnd og það eina sem gert var í framhaldinu var að sendillinn var rekinn. Mér virðast Orkugreifar Sjálfstæðisflokksins vera á góðri leið með að hanna svipaða atburðarás.


Sjálfstæðisflokkurinn í borgarstjórn veit ekki sitt rjúkandi ráð.

Þriggja klukkustunda fundi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins er lokið með þeirri niðurstöðu að öll dýrin þar á bæ hafa ákveðið að vera vinir og selja hlut Orkuveitu Reykjavíkur í Reykjavík Energy Invest.

Það hljóta að vakna margar spurningar upp vaðandi sölu Orkuveitu Reykjavíkur á Reykjavík Energy Invest. Í fyrsta lagi er þetta rétti tíminn til að selja? Í öðru lagi þá er óafgreidd spillingarmálin sem tengjast málinu varðandi mismunandi aðkomu borgaranna að málinu fyrir tilstilli borgarstjórnarmeirihlutans. Í þriðja lagi þá er spurning hvort sala á hlut Orkuveitunnar í fyrirtækinu ruglar ekki endanlega meirihlutaeign í Hitaveitu Suðurnesja. Í fjórða lagi þá hefur ekki verið úr því skorið hvort rétt var að samrunaferlinu staðið. Í fimmta lagi þá hefur ekki verið skýrt út af hverju og hvers vegna upphaflega var boðið upp á kaupréttarsamningana sem sumum borgarstarfsmönnum og sérvöldum vinum var boðið upp á. Í sjötta lagi þá er spurning hvort að aðkoma Orkuveitunnar styrkti ekki einhliða Reykjavík Energy Interest sem þeir einir njóta sem eftir verða í fyrirtækinu.

Afstaða borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins í þessu máli sýnir að borgarstjórnarflokkurinn er sammála um að ekki hafi verið rétt staðið að málum. Það að afgreiða málið með þeim hætti að halda áfram að standa rangt að málum er ekki heppilegasta niðurstaðan.


mbl.is Stefnt að því að selja hlut Orkuveitunnar í REI
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitísk spilling?

Ákveðið aðhald er að opinberri stjórnsýslu af hálfu Ríkisendurskoðunar. Árlega gerir Ríkisendurskoðandi athugasemdir vegna framkvæmda fjárlaga og stjórnsýslu einstakra ráðuneyta og embætta. Þetta er nauðsynlegt aðhald og það má ekki vera minna að mínu viti ætti að auka aðhaldið með því að koma upp eftirlitsnefnd með útdeilingu fjármuna hins opinbera og hvort þar hlutlæg málefnaleg sjónarmið hafi ráðið. Kastljós fjölmiðla er iðulega á handhöfum ríkisvaldsins og Alþingi, meir en á öðrum stjórnvöldum.

Sveitarstjórnir búa ekki við sama aðhald og ríkisstjórn og Alþingi. Af þeim sökum virðist ýmislegt hafa farið úrskeiðis og nauðsynlegt er að skoða með hvaða hætti hægt verður að koma við eðlilegu eftirliti almennings um fjárreiður sveitarstjórna.  Í borgarstjórn Reykjavíkur virðast hlutirnir vera farnir alvarlega úr skorðum. Nauðsynlegt er í því sambandi að upplýsa hver laun borgarstjórnarmanna eru með nefndarlaunum.  Einhvern veginn virðist mér sem undaleg græðgisvæðing hafi þróast meðal borgarfulltrúa við sjálftöku greiðslna með Björn Inga Hrafnsson í fararbroddi.

Á sínum tíma þótti athugavert þegar stjórnmálamenn þáðu boð Flugleiða til Skotlands og talað var um pólitsíka spillingu. Í DV í dag er upplýst að Björn Ingi Hrafnsson og Margrét Sverrisdóttir og einhverjir fleiri hafi farið í júmbóþotu Eimskipafélagsins til Kína á kostnað fyrirtækja borgarinnar og Eimskips. Æskilegt væri að fá frekari upplýsingar um þessa ferð. Hvort hér var um eðlilegt stjórnsýsluverkefni borgarfulltrúanna að ræða eða tildurferð á kostnað Eimskips og e.t.v. almennings?

Aðstöðumunur stjórnmálamanna og auðmanna í landinu er orðin svo mikill að það er áhyggjuefni. Nauðsynlegt er að siðvæða íslensk stjórnmál en upphaf þess er að fjölmiðlar, stjórnmálamenn og almenningur ræði þessi mál opinskátt og fletti ofan af spillingu í opinberri stjórnsýslu hvar sem hana er að finna. Það væri gott að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins mundi nú gangast fyrir vandaðri stjórnsýsluúttekt á Orkuveitu Reykjavíkur og stofnun og ákvörðunum í sambandi við Reykjavík Energy Invest.


Eru innanflokksátök í vændum í Sjálfstæðisflokknum?

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins áttu fund með formanni og varaformanni Sjálfstæðisflokksins án borgarstjóra. Mér er ekki kunnugt um að það hafi nokkru sinni gerst áður að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi haldið slíkan fund án þess að borgarstjóri væri með og venjulega frumkvöðull að fundinum.

Á heimasíðu Björns Bjarnasonar í gær má sjá að hann er langt frá því að vera ánægður með störf borgarstjórans. Björn Bjarnason var borgarfulltrúri Sjálfstæðisflokksins síðasta kjörtímabil og er öllum hnútum kunnugur í stjórn borgarinnar.

Spurningin er hvort þau öfl sem eru Vilhjálmi borgarstjóra andstæð og hafa alla tíð verið það séu nú þegar honum verða á þau mistök sem urðu við frágang mála í Reykjavík Energy Invest vilji nú nýta sér tækifærið og blása til enn einnar sóknar gegn honum?

Sjálfstæðisflokkurinn er stjórnlyndur flokkur og þegar fokið hefur aðeins ofan af óánægjunni þá er líklegt að menn þar á bæ leggi ekki til atlögu við Vilhjálm að svo stöddu. Þessi makalausi fundur borgarstjórnarmanna með forustu Sjálfstæðisflokksins án borgarstjóra vekja þó upp margar spurningar.


Mistök viðurkennd.

Vilhjálmur borgarstjóri og Björn Ingi Hrafnsson Kínafari hafa viðurkennt að þeim hafi orðið á afdrifarík mistök. Með samþykkt í orkufyrirtækinu Reykjavík Energy Invest í gær þar sem dregin voru til baka kaupréttartilboð til ákveðinna lykilstarfsmanna og öllum starfsmönnum Orkuveitunnar var gefin kostur á að kaupa hluti fyrir ákveðið voru viðurkennd þau mistök að starfsmönnum fyrirtækisins hafði verið mismunað með fyrri ákvörðun.

Þessi leiðrétting dugar samt ekki. Eftir stendur spurningin um af hverju pólitíksir fulltrúar borgarinnara mismuna almenningi í landinu. Af hverju fær Jón Jónsson ekki að kaupa með sama hætti og Bjarni Ármannsson og Hannes Smárason. Af hverju ekki að gefa almenningi kost á því að vera með á jafnréttisgrundvelli og leita síðan til eins eða tveggja kjölfestu fjárfesta í framhaldi af því, vanti þá eitthvað upp á fjármögnun fyrirtækisins.

Það hefur opinberast fyrir almenningi undanfarna daga að stjórnendur almenningsfyrirtækja og stjórnmálamenn eru því miður á kafi í vafasömum gjörningum svo ekki sé meira sagt. Það er nauðsnlegt að borgaryfirvöld geri hreint fyrir sínum dyrum og upplýsi okkur um það hvað gerðis, hvenær og hvernig. Þá er líka nauðsynlegt að stjórn fyrirtækisins komi aftur saman til fundar og gefi öllum jafnan kost á að kaupa í fyrirtækinu.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 294
  • Sl. sólarhring: 704
  • Sl. viku: 4115
  • Frá upphafi: 2427915

Annað

  • Innlit í dag: 270
  • Innlit sl. viku: 3806
  • Gestir í dag: 262
  • IP-tölur í dag: 251

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband