Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Sjónvarpsþáttur í Reykjavík Suður.

Umræðurþáttur efstu manna á framboðslistum flokkana í Reykjavík suður var í dag kl. 14. Þátturinn verður endursýndur að lokinni venjulegri dagskrá á morgun sunnudag. Það er annars merkilegt með Ríkissjónvarpið að það skuli nota hvað ómögulegustu útsendingartíma fyrir þessa umræðuþætti.

Þá er það til viðmiðunar vonandi í næstu þáttum að skipulag þeirra verði vitlegra en það sem var í dag. Í fyrsta lagi er byrjað á að kynna samkvæmisleik fjölmiðlamanna sem heitir skoðanakönnun. Umræður um skoðanakönnunina stóðu síðan um fjórðung þáttarins. Þá var komið að málefnum sem þáttastjórnendur tóku ákvörðun um hver skyldu vera.

Í fyrsta lagi var talað um velferðarmálin sem var mikilvægt að ræða. Þá var rætt um samgöngur í Reykjavík og flugvöll. Flugvöllurinn var raunar mikið á dagskrá í sveitarstjórnarkosningunum í fyrra en er ekki máli núna.

Því miður komust ekki að brýn mál eins og innlfytjendamál en skv. forsíðu Morgunblaðsins streyma útlendingar inn í landið sem aldrei fyrr.

Það var ekki tími til að ræða um gjafavkótann. Það var ekki tími til að ræða um efnahagsmálin og áfram mætti halda.

Ég geri mér grein fyrir að það er erfitt að koma að mörgum málum þegar 6 svarendur eru en það þarf að hugsa þetta upp á nýtt til þess að skoðanaskiptin verði markvissari og meiri upplýsingar komist til kjósenda. Þá þarf að hafa þessa þætti á útsendingartímum sem eitthvað áhorf er á.

Ég get hins vegar ekki kvartað yfir minni frammistöðu miðað við þau viðbrögð sem ég hef fengið. Raunar má segja að allir oddvitarnir hafi komist vel frá þættinum.

Ríkissjónvarpið hefur meiri skyldur við lýðræðið en þetta. Það verður að gangast fyrir víðtækari kynningu á mönnum og málefnum. Svona kynningar þjóna því miður allt of litlum tilgangi.


Höfuðbólið eða hjáleigan?

Guðni landbúnaðarráðherra ætti að vita það að flestallir vilja frekar vera á höfuðbólinu en hjáleigunni. Þess vegna kjósa menn Sjálfstæðisflokkinn en ekki Framsóknarflokkinn.

Það er hvort eð er sami rassinn undir báðum flokkum. Flokkarnir eru búnir að vera svo lengi saman í stjórn og standa saman að svo mörgum vafasömum aðgerðum að fólk lætur það bitna á hjáleigunni.

Það skal hins vegar tekið undir það með Guðna að það væri rétt að fólk léti það bitna á Sjálfstæðisflokknum líka. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki síður sekur um velferðarhallann og spillinguna en Framsóknarflokkurinn.


mbl.is Guðni: Sjálfstæðisflokkurinn virðist stikkfrí í umræðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frjálslynd umbótastjórn 3

Frjálslynd umbótastjórn verður að lagfæra velferðarhallann með því m.a. að leyfa bótaþegum og þeim sem taka lán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna að vinna sér fyrir tekjum að ákveðnu marki án þess að það skerði bóta- og/eða lánagreiðslur til þeirra.

Við Frjálslynd munum gefa þessum einstaklingum kost á því að vinna sér fyrir einni milljón á hverju ári án þess að bóta/lánagreiðslur skerðist.

Þetta kostar ríkisvaldið ekki neitt en leiðir til bættra kjara þessara einstaklinga og getur leyst þá úr fátæktargildrum. Skatttekjur ríkisins aukast. Fleiri geta lifað mannsæmandi lífi. Fleiri verða hamingjusamir og finna aukna lífsfyllingu.

Stefna Frjáslyndra í þessum málum er sú besta sem sett hefur verið fram enda reynir Sjálfstæðisflokkurinn nú að taka hluta úr stefnu Frjálslyndra í velferðarmálum þó hann hafi ekki hirt um að gæta þessa þann rúma áratug sem hann hefur stjórnað. Það ber hins vegar að virða það þegar menn sjá villu síns vegar.


Bowling for Colombine

Michael More gerði fyrir nokkrum árum áhrifamikla kvikmynd um fjöldamorð tveggja nemenda í Colombine. Þar var m.a. vísað í slagorð byssueigandafélagsins en Charleston Heston leikari var þá formaður þeirra en slagorðið er "Guns do´nt kill men do."  Byssulöggjöf Bandaríkjanna og meðferð á skotvopnum hlítur nú að koma til skoðunar. Síendurteknir harmleikir eins og þessi verða að leiða til aðgerða.

Það eru svo margar byssur í Bandaríkjunum að þó að hverjum fullorðnum manni  væri gefin  ein byssu þá mundi verða afgangur, fleiri byssur en fólk. Nærri 2 af hverjum þrem morðum eru framin með byssum í Bandaríkjunum. Miklu hærra hlutfall bæði morð og þau sem eru framin með byssu en í nokkru öðru þróuðu ríki.

Byssur eru ekki það sem eingöngu skiptir máli. Byssueign er ekki mest í Bandaríkjunum heldur í Sviss.  Samt sem áður er Sviss einn öruggasti staður í heimi. Hvernig stendur á því að Svisslendingum gengur svona vel að halda byssum frá morðingjum en Bandaríkjamönnum svona illa?


mbl.is Lögregla harmar að myndbönd morðingjans hafi verið birt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frjálslynd umbótastjórn 2

Frjálslynd umbótastjórn verður að taka á spillingarmálum sem ríkisstjórnin skilur eftir sig.

Afnema verður sérstök eftirlaunaréttindi alþingismanna og fyrrverandi ráðherra. Þeir verða að sitja við sama borð og aðrir.

Rannsaka verður allt sem tengist einkavæðingu og stjórnsýslu einstakra ráðherra með tilliti til þess hvernig þeir hafa farið með vald sitt og hvar þeir hafa farið út fyrir eðlileg valdmörk.

Taka verður til skoðunar pólitískar embættaveitingar og segja þeim starfsmönnum ríkisins upp sem engin þörf er fyrir en hafa eingöngu verið ráðnir vegna pólitískrar fylgispektar.

Þeir flokkar sem mynda vilja Frjáslynda umbótastjórn verða að lýsa því yfir að þeir muni hafa  það sem forgangsverkefni að víkja spillingunn burt og koma á heiðarlegu stjórnmálaumhverfi.

Hvaða stjórnmálaflokkar skyldu vera reiðubúnir til að víka spillingunn burt?


Frjálslynd umbótastjórn 1

Kaffibandalagið er innihaldslaust nema flokkarnir sem að því standa birti sameiginlega yfirlýsingu um það hver verða helstu áhersluatriðin í hugsanlegu stjórnarsamstarfi þeirra. Á þetta bendir Þorvaldur Gylfason í frábærri grein í Fréttablaðinu í dag.

 Hvað þarf Frjálslynd umbótastjórn að gera? Í fyrsta lagi þá verður að hverfa frá þeirri ójafnaðarstefnu sem ríkisstjórnin hefur fylgt. Það verður að lagfæra velferðarhallann. Jafna verður aðstöðu vinnandi fólks og fjármagnseigenda varðandi skattlagningu. Forsenda þess er hækkun skattleysismarka.

Við Frjálslynd höfum makað okkur þá stefnu að hækka skattleysismörk á kjörtímabilinu í 150.000. Með því yrði stigið stórt skref fyrir allt láglaunafólk, námsmenn, aldraða og öryrkja. Stefna VG og Samf. er ágæt í þessum efnum þó okkar sé best. Ágreiningurinn í þessu efni er þó ekki það mikill að flokkarnir ættu að geta náð saman um þetta.

Eru vandkvæði fyrir stjórnarandstöðuna að ná saman um þessi markmið?


Gleðilegt sumar.

Gleðilegt sumar.

Samkvæmt þjóðtrúnni á að vera gott sumar hér í Selásnum að minnsta kosti því að það fraus saman sumar og vetur.  Eftirminnilegasti sumardagurinn fyrsti var þegar ég var á barnsskónum og systir mín dró mig með sér í skrúðgöngu á Akranesi. Síðan var samkoma við gamla gagnfræðaskólann. Það var snjór og það var kalt. Ég spurði mömmu mína að því þegar ég kom heim af hverju það væri sumardagurinn fyrsti þegar það væri frost og snjókoma.  Svarið hefur vafalaust verið gáfulegt en barn sem var með athyglisbrest man það ekki rígfullorðinn mörgum áratugum síðar.

Nú er sem betur fer sumar og sól. Vonandi fáum við líka sólarstjórn eftir skammdegisstjórnina sem nú situr að völdum. Það þarf Frjálslynda umbótastjórn.

Gerum 12. maí að fyrsta sumardeginum í íslenskum stjórnmálum.


Sjálfstæðisflokkur Geirs og Davíðs hefði sett Thor Jensen í fangelsi.

Thor Jensen er einn virtasti athafnamaðurinn í Íslandssögunni. Thor Jensen er dæmi um athafnamann sem Sjálfstæðisflokkur þeirra Geirs og Davíðs hefði séð til að gæti aldrei risið upp á fæturnar eftir að honum mistókst í fyrsta skipti í viðskiptum. Thor Jensen var sem kunnugt er maður athafna og nýunga og eins og iðulega gerist með slíka menn þá gengur stundum vel og stundum illa. Thor Jensen var stórhuga en kappið bar hann stundum ofurliði og hann varð gjaldþrota þrisvar sinnum. En hann átti þess jafnan kost að rísa aftur á fætur og byrja á nýjan leik.

Á þeim tíma var möguleiki fyrir athafnamenn að komast inn í atvinnurekstur í sjávarútvegi og landbúnaði. Nú mega menn hvorki róa til fiskjar né hlaupa fyrir fé nema eiga kvóta. Nýliðun í þessum greinum er nær útilokið. Þeim sem mistekst í viðskiptum er refsað grimmilega sbr bullákvæði virðisaukaskattslaga. Þau valda því að stór hluti þeirra sem ábyrgð ber á sínum atvinnurekstri eru iðulega neyddir  til að vinna svart það sem eftir er ævinnar og eiga aldrei möguleika á að greiða skuldir sínar. Refsingin við að hafa ekki getað greitt skuldbindingar sínar til ríkisins eru lágmark tvöföldun þeirrar fjárhæðar sem um ræðir og allt að tífaldri upphæð. Skiptir þá ekki máli þó að þú hafir selt einhverjum sem ekki greiddi þér þannig að virðisaukinn varð raunverulega aldrei til. Þú skalt samt borga. Í fangelsi ferðu svo ef þú getur ekki borgað. Skuldafangelsi.

Flokkur einstaklingsfrelsis og athafnafrelsis er vörumerki Sjálfstæðisflokksins en það stenst ekki. Sjálfstæðisflokkurinn hefur nær útilokað einstaklingsfrelsi vegna forgangs stórrekstursins og ástar á kvóta. Frjálslyndir berjast fyrir einstaklingsfrelsi og athafnafrelsi fólksins í landinu án hafta og kvóta.

Komist ég til áhrifa þá mun ég bera fram frumvarp um breytingar á virðisaukaskattslöggjöfinni fyrir næstu jól og frumvörp um breytingar á kvótakerfum hvaða nöfnum sem nefnast með það að markmiði að afnema þau í framtíðinni.

Thor Jensen framtíðarinnar verður að fá svigrúm til athafna. Þar liggja hagsmunir fólksins í landinu en ekki í fyrirgreiðslu og  forréttinda og semisósíalískum Sjálfstæðisflokki. Er ekki kominn tími til að hvíla hann nema hann komist í samstarf við alvöru frjálslyndan flokk? Ef til vill gæti hann hjarnað við með þeim hætti.


Margrét Sverrisdóttir vill flugvöllinn burt.

Er mark takandi á stjórnmálamanni sem víkur frá öllum helstu stefnumálum sínum án þess að nokkrar aðstæður breytist.  Margrét Sverrisdóttir er þannig stjórnmálamaður.

1.  Margrét Sverrisdóttir var í framboði í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík í fyrra og þá var höfuðbaráttumál hennar að flugvöllurinn væri um kyrrt í Vatnsmýrinni. Nú segir hún að það skipti ekki máli. 

2. Margrét sagði að það væri landráð að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Nú segir hún að aðstæður hafi breyst þannig að það sé í lagi að sækja um aðild. Til athugunar er að ekkert hefur breyst nema skoðun Margrétar.

3. Margrét var framkvæmdastjóri Frjálslynda flokksins og barðist gegn gjafakvótakerfinu. Nú er stefna flokks hennar að það megi ekki taka eign útgerðarmanna af þeim. Gjafakvótinn er þá orðinn eign.

4. Margrét sagði að athugasemdir mínar varðandi straum útlendinga til landsins eftir að ég skrifaði grein um það væri góð og hrósaði mér fyrir frumkvæðið. Nokkrum vikum síðar kallaði hún þessar skoðanir sem hún hafði tekið undir og mælt með, rasisma.

Ég veit ekki til að nokkurn tímann í samanlagrði Íslandssögunni hafi stjórnmálamaður vikið  frá öllum helstu baráttumálum sínum á nokkrum dögum.  Mér finnst stóra spurningin hvort Margréti sé sjálfrátt eða hvort henni er sama hvað hún segir og hverju hún lofar bara ef hún getur slitið upp atkvæði og komist til einhverra metorða.  Finnst ykkur það vera virðingarvert eða aumkunarvert?


Velferðarhallinn.

Í DV um daginn var viðtal við öryrkja sem fær 80.000 á mánuði í örorkubætur og hann nær endum saman með því að skuldsetja sig. Um er að ræða fyrrverandi veitingastjóra í ráðherrabústaðnum. Skiptir í sjálfu sér ekki máli. Það sem skiptir máli að íslenska velferðarkerfið dugar ekki fyrir þá sem þurfa mest á því að halda. Við getum ekki sætt okkur við það.

Við Frjálslynd höfum gert það að forgangsverkefni að lagfæra velferðarhallann. Við verðum að tryggja að fólk sem á velferðargreiðslum þarf að halda fái nægjanlegar bætur til að  geta lifað með reisn.

 Hækkum bætur. Hækkum skattleysismörk og gefum fólki kost á að vinna sér fyrir milljón króna tekjum án þess að skerða bótagreiðslur. Losum fólk úr fátæktargildrum en festum það ekki.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 141
  • Sl. sólarhring: 1198
  • Sl. viku: 2722
  • Frá upphafi: 2297456

Annað

  • Innlit í dag: 133
  • Innlit sl. viku: 2538
  • Gestir í dag: 132
  • IP-tölur í dag: 132

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband