Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Þegar vel gengur.

Frjálslyndi flokkurinn er hástökkvari þessarar skoðanakönnunar og þá eiga varnaðarorð ef til vill betur við en ella. Um er að ræða lítið úrtak og lágt svarhlutfall. Skekkjumörk eru því veruleg. Skoðanakannanir eru skoðanamótandi oft á fölskum forsendum. Hvað sem því líður þá er það ánægjulegt að Frjálslyndi flokkurinn skuli mælast með 9% fylgi en við stefnum hærra.


mbl.is Dregur úr fylgi VG samkvæmt könnun Blaðsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsilegur fundur um sjávarútvegsmál.

Það var góður fundur og velsóttur í kosningamiðstöðinni okkar að Skeifunni 7 í Reykjavík í gær. Frjálslyndi flokkurinn mun ekki kvika í baráttunni gegn gjafakvótakerfinu.

Ég lít á það sem mikilvægasta  byggðamálið að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu. Sú stefna Frjálslynda flokksins að berjast fyrir því að einstaklingarnir fái aukið frelsi til að bjarga sér og setja undir sig fæturnar við fiskveiðar er stefna einstaklingsfrelsis og athafnafrelsis.

Sjálfstæðismenn sem nú sitja á Landsfundi ættu að athuga það að á sama tíma og flokkur þeirra er búinn að koma upp sósíalísku kvótakerfi í landbúnaði og sjávarútvegi þá berst Frjálslyndi flokkurinn fyrir einstaklings- og athafnafrelsinu í þessum greinum.

Kvótakerfi er óvinur bygðanna hvort heldur í landbúnaði eða fiskveiðum.


Afnám verðtryggingar og Jón og Jón

Jónarnir Sigurðssynir annar fyrrverandi viðskipta-og iðnaðarráðherra og krati og hinn núverandi viðskipta- og iðnaðarráðherra og formaður Framsóknarflokksins ræddu í gær í spegli Rúv um afnmám verðtryggingar og voru báðir á móti því að afnema hana. Þetta er dálítið skondið hvað varðar Jón Sigurðsson formann Framsóknarflokksins. Framsóknarflokkurinn hefur nefnilega mótað þá stefnu að afnema beri verðtryggingu á lánum.

Afstaða Frjálslynda flokksins er skýr í þessu efni. Við ætlum okkur að afnema verðtryggingu á lánsfé og gerum þá kröfu að gjalmiðillinn gegni því hlutverki að vera sá verðmælir sem gildir í öllum viðskiptum fólks. Við viljum því ekki viðhalda flotkrónunni. Framsóknarflokkurinn ákvað á flokksþingi sínu að berjast fyrir afnámi verðtryggingarinnar en nú hefur formaður flokksins gert grein fyrir því að hann sé á móti stefnu flokksins. Svona getur það verið þegar höfuðið veit ekki hvað fæturnir aðhafast.

Innan Samfylkingarinnar hafa verið uppi raddir um afnám verðtryggingar. T.d. hefur oddviti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi lýst þeirri skoðun sinni. Nú hefur hins vegar efnahagsgúru Samfylkingarinnar Jón Sigurðsson lýst þeirri skoðun sinni að það væri óráð. Þannig að einnig í þessu máli veit Samfylkingin ekki hvort hún er að koma eða fara.

Þeir sem vilja afnema verðtryggingu eiga því aðeins einn trúverðugan valkost. Frjálslynda flokkinn. F fyrir þig.


Lausaganga búfjár

Þorvaldur Gylfason prófessor skrifar athygliverða grein í Fréttablaðið í dag. Hann bendir á að þeir flokkar sem kenna sig sérstaklega við "græn baráttumál séu ekki heilli en svo að þau marki enga stefnu gagnvart þeirri vá sem landinu og gróðrinum stafar af lausagöngu búfjár og hrossa. Vinstri grænir eru raunar svo rosalega gamaldags grænir að skv því sem talsmaður þeirra í landbúnaðarmálum Jón Bjarnason segir þá vill hann auka bústuðning og átroðning búfjár á landið.

Ég varð raunar fyrir áfalli þegar ég hlustaði á umræður um landbúnaðarmál frá Selfossi um landbúnaðarmál á þriðjudaginn var þar sem allir talsmenn flokkana nema helst Samfylkingarinnar og Frjálslynda flokksins töldu eðlilegt að halda uppi þeim mikla kostnaði sem lagður er á neytendur og skattgreiðendur.  Þessi kostnaður er aðallega vegna sauðfjárræktunar og mjólkurframleiðslunnar. 

Stuðningur við landbúnað er of mikill og hann nýtur of mikillar markaðsverndar. Það verður forgangsverkefni mitt nái ég kjöri til Alþingis að gæta hagsmuna neytenda og skattgreiðenda og koma á frjálsu markaðskerfi í sölu landbúnaðarafurða. Matur verður að vera á sama verði hér og í nágrannalöndunum. Við getum ekki dansað í kring um ævintýri sem kosta okkur tugi milljarða á ári.

Síðan er spurningin varðandi lausagöngu búfjár. Væri það ekki mesta landverndin að girða búfé inni í stað þess að girða það úti.


Gott hjá þér borgarstjóri

Borgarstjóri kynnti í gær tillögur um að námsmenn geti farið í strætó sér að kostnaðarlausu og  felld yrðu niður stæðisgjöld fyrir bíla sem eyða minna en fimm lítrum á hundraðið. Það er ástæða til að óska borgarstjóra til hamingju með þessi skref. Byrjunin á því að gera góða borg betri.

Svifryksmengun í Reykjavík er  yfir ásættanlegum mörkum. Stytting notkunartíma nagladekkja er eitt. Það þarf að þrífa göturnar betur og nota efni sem  koma í veg fyrir svifryk. Reka verður áróður gegn notkun nagladekkja. Nagladekk eru í notkun 7 mánuði  á ári en raunveruleg þörf fyrir þau eru venjulega ekki fleiri en 10 dagar á vetri.  

Hrein borg fögur torg. Það þarf að gera það að veruleika. Fara verður í herferð gegn því að rusli sé hent á almannafæri. Borgin þarf að hafa ílát undir rusl mun víðar en nú er og sjá um að þau séu tæmd reglulega. Leggja þarf háar sektir við að menga  með því að henda rusli. Ég geng daglega um Hólmsheiðina og við Rauðavatn þar sem er útivistarparadís. Allt of algengt er að ganga þar fram á matarleifar sem skildar hafa verið eftir eða hent. Það er hættulegt fyrir dýr en þetta svæði er mikið notuð af hundaeigendum. Þetta er því bæði hættulegt auk þess sem það er óásættanlegur sóðaskapur.

En þakka ber það sem vel er gert en það á bara að vera byrjunin


Þakkir til Eiríks Bergmann

Ég vil færa Eiríki Bergmann sérstakar þakkir fyrir að benda á og auglýsa ummæli okkar Frjálslyndra um innflytjendamál. Því miður er síðan hann ekki opinn fyrir athugasedmir. Væri síðan opin fyrir athugsemdir þá væri hægt að leiðrétta misskilning hjá manninum og útúrsnúninga úr einföldum hlutum en í fræðasamfélagi Eiríks þá gildir sennilega regla gömlu arfakóngana "Vér einir vitum"

Viljum við fá þetta ástand hér?

Ég spyr viljum við fá þetta ástand hér? Er það óvirðing við það góða fólk sem hingað hefur flutst á síðustu árum að meina öfgamönnum að koma til landsins. Er það óvirðing við einhvern að vilja ekki fá vandamál heim til sín? Vill einhver að Vítisenglar hafi útibú í landinu? Vill einhver að öfgamenn hafi útibú í landinu? Svari hver fyrir sig.
mbl.is Dani fundinn sekur um að hvetja til hryðjuverka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslandshreyfingin styður gjafakvótakerfið.

Ómar Ragnarsson leiðtogi Íslandshreyfingarinnar sagði í leiðtogaumræðum í sjónvarpi um daginn: "Við ætlum ekki að gera neina byltingu í sjávarútvegsmálum. Það er óréttlátt að svipta menn eignum sem þeir hafa keypt. " Ómar Ragnarsson er með þessu að segja að þjóðin eigi ekki kvótann. Þeir sem fengu hann gefins eða þeir sem keyptu hann af þeim sem fengu hann gefinst eiga kvótann. Ómar Ragnarsson vill kvitta undir mesta rán Íslandssögunnar.

Mikið hafa Sverrir Hermannsson stofnandi Frjálslynda flokksins og Margrét Sverrisdóttir framkvæmdastjóri flokksins í 8 ár mikla skoðanalega teygni að geta í einu vetvangi skipt algerlega um skoðun á kvótakerfinu. En ekki bara því einnig í Evrópumálinu. Margrét Sverrisdóttir sagði að umsókn um aðild væru landráð í grein sem hún skrifaði á sínum tíma. Nú tilkynnir talsmaður flokksins í umræðum um utanríkismál að flokkurinn vilji aðildarviðræður að Evrópusambandinu.

Var nokkur furða að sérhagsmunaöflin í þjóðfélaginu skyldu vinna jafn grimmt og þau gerðu að klofningi Frjálslynda flokksins til að tryggja hagsmuni sína og stöðu kvótakerfisins. Við þessu er aðeins eitt svar. Þjóðin má ekki láta pólitíska leiktjaldasmiði á ritstjórn Morgunblaðsins komast upp með að svipta þjóðina lögmætri eign sinni sem eru full yfirráð og ráðstofun auðlinda sjávarins í kring um landi. 


Er Sjálfstæðisflokkurinn samstarfshæfur?

Leiðarahöfundur Morgunblaðsins er á móti Frjálslynda flokknum og þeirri stjórnmálastefnu sem flokkurinn stendur fyrir. Í leiðara blaðsins í dag reynir leiðarahöfundur gegn betri vituna að láta líta svo út sem formaður flokksins sé á móti stefnu flokksins í innflytjendamálum. Í öður lagi þá heldur leiðarahöfundur því fram að það muni enginn vilja vinna með Frjálslynda flokknum vegna þeirra áherslna sem flokkurinn hefur sett fram um að viðhalda velferðarþjóðfélagi og gæta hagsmuna allra sem hingað eru komnir en taka stjórn á landamærunum þannig að við hvorki týnumst í þjóðahafinu né verðum ekki fær um að halda uppi því velferðarkerfi og velmegun sem hér er. Um þetta snýst málið og annað ekki. Reynt að snúa út úr og afflytja umræðuna í stað þess að taka á kjarna málsins. Við erum 300 þúsund. Lítið sandkorn í þjóðahafinu. Talsmenn Sjálfstæðisflokksins hafa iðulega og á ýmsum tímum talað um þetta og lagt áherslu á að við hefðum stjórn á hverjir koma til landsins. Innflytjendalöggjöfin sem Björn Bjarnason á heiður af ber þessara sjónarmiða glöggt merki.

Greinarhöfundur sem skrifað hefur greinar í Morgunblaðið í áratugi segir mér að það bregði svo við allt í einu þegar hann skrifaði grein um innflytjendur að þá fékkst hún ekki birt í Morgunblaðinu. Af hverju skyldi það vera? Getur verið að í Hádegismóunum vilji menn stjórna umræðunni og ætli að ráða því hvers konar ríkisstjórn verður mynduð eins og var á velmektardögum Morgunblaðsins.

Staðreyndin í málinu er að Guðjón Arnar Kristjánsson sem og aðrir frambjóðendur Frjálslynda flokksins mótuðu sameiginlega stefnu flokksins og bera allir ábyrgð á henni. Sjálfur skorast ég ekki undan ábyrgð þó orðalag í vissum tilvikum hefði orðið annað hefði ég einn ráðið.

Eftir umræðurnar í gær þá virðist sem eftir standi að Sjálfstæðisflokkurinn og Frjálslyndir eigi meira sameiginlegt en aðrir flokkar.

Spurning er hvort Sjálfstæðisflokkurinn er tilbúinn til að lagfæra þann velferðarhalla sem orðið hefur í stjórnartíð hans og sinna hagsmunum okkar minnstu bræðra og systra. Hvort Sjálfstæðisflokkurinn er tilbúinn til að afnema kvótakerfið í núverandi mynd. Hvort Sjálfstæðisflokkurinn er tilbúinn til að taka upp alvöru gjaldmiðil og afnema verðtrygginguna. Verði Sjálfstæðisflokkurinn tilbúinn til þess þá sýnist mér að það megi skoða það hvort hann sé  samstarfshæfur.


Milljón krónur á fjölskyldu

Kristinn H. Gunnarsson gerir grein fyrir athygliverðum staðreyndum í grein sinni í Fréttablaðinu í dag, "Milljón krónur á fjölskyldu". Í greininni segir Kristinn frá rannsóknum Þóru Helgadóttur hagfræðings í greiningardeild Kaupþings en þar kemur m.a. fram að erlent vinnuafl sé hér að þiggja lægri laun en innlent. Kristinn bendir á að þessi þróun geti ekki leitt til annars en stéttskipts þjóðfélags þar sem útlendingar hafi lægri tekjur. Síðan bendir Kristinn á að hin hliðin á peningnum sé sú að verðbólgan hafi orðið 7% í stað 2.5% sem að hafi verið stefnt. Aðgangur að erlendu vinnuafli eftir þörfum hafi gert það verkum að stjórnvöld og einkaaðilar gátu framkvæmt jafnt tímabærar sem ótímabærar framkvæmdir. Kristinn bendir síðan á að samkvæmt útreikningum Þóru Helgadóttur hefði ávinningur meðalheimilis af minni þenslu og aðeins 2.5% verðbólgu því líklega numið um 1. milljón króna. Almenningur greiðir kostnaðinn af þenslunni segir Kristinn en því gleymdi Fréttablaðið og Kaupþing að segja frá.

Kostnaðaraukinn sem Kristinn talar um er aðallega vegna verðtryggingar lána sem leitt hefur af sér óþolandi ójöfnuð í þjóðfélaginu og dýrustu lána í heimi. Til þess að standa undir kostnaði upp á eina milljón þurfa heimilin í landinu að hafa viðbótar atvinnutekjur um 2 milljónir þegar skattar og launatengd gjöld eru reiknuð inn í.

Þessar staðreyndir sýna hvað það er dýrt fyrir fólkið í landinu að efnahagsstjórnin sé jafn skipulags- og aðhaldslaus og raun ber vitni. Ríkisvaldið og stofnanir sem undir það heyra hafa ekki að neinu leyti tekið tilliti til ástandsins á markaðnum. Óábyrgri efnahagsstjórn er því fyrst og fremst um að kenna að almenningur í landinu situr uppi með aukinn kostnað og útgjöld. Þessu verður að breyta.

Við Frjálslynd beitum okkur fyrir því að vísitölubinding lána verði afnumin.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.4.): 630
  • Sl. sólarhring: 640
  • Sl. viku: 2648
  • Frá upphafi: 2506076

Annað

  • Innlit í dag: 573
  • Innlit sl. viku: 2468
  • Gestir í dag: 536
  • IP-tölur í dag: 519

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband