Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Spurning hvort timburmennirnir séu að byrja

Ég er sammála Seðlabankastjóra að það er ekki ástæða til að Seðlabankinn bregðist við lækkun krónunar.  Flestum hefur verið ljóst um nokkurn tíma að gengi krónunnar hefur verið óeðlilega hátt og til þess mundi koma að hún lækkaði verulega. Spurning var eingöngu hvenær. Örgjaldmiðill eins og okkar verður alltaf eins og korktappi í ólgusjó þegar aðstæður breytast á alþjóðlegum fjármálamörkuðum eins og núna.  Slíkt gengur ekki. Framleiðsluatvinnuvegirnir og neytendur geta ekki búið við þá óvissu sem korktappagjaldmiðill veldur. Þess vegna er mikilvægt að taka gengisviðmiðun krónunnar til endurskoðunar í samræmi við langtíma hagsmuni þjóðarinnar. Lottóstefna Seðlabankans gengur ekki til lengdar.
mbl.is Seðlabankinn mun ekki grípa til aðgerða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumarið er ekki búið.

Það er fyrri hluti ágúst og þá er dálítið snemmt að fara að tala um að sumarið sé búið. Miðað við veður undanfarin ár þá getum við átt von á yndislegum tíma næstu mánuði. Mér finnst haustið einn skemmtilegasti árstíminn en það er tími þangað til það kemur.

Þó að það sé ekki sól á hverjum degi og við Reykvíkingar höfum búið við hefðbundið sumarveður undanfarna daga þ.e. rok og rigningu þá er engin ástæða til að vera með eitthvað væl út af því. Við höfum undanfarin ár búið við eitt besta veðurleg í heiminum. Sem betur fer.

Undanfarið hefur rignt sem nánast aldrei fyrr á Bretlandi og víða í Mið Evrópu meðan við höfum notið einmuna veðurblíðu og það eru stórfelld mannskæð flóð í Asíu. Við getum þakkað fyrir hvað við höfum verið heppin en ættum að minnast þeirra og hjálpa þeim sem á þurfa að halda núna í Asíu.


mbl.is Er sumarið búið?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Biðlistar vanlíðunar.

Vinur minn getur ekki unnið nema með harmkvælum vegna verkja. Hann er á biðlista eftir því að skipt verði um lið. Einföld aðgerð í sjálfu sér en meðan hún er ekki gerð þá býr þessi vinur minn við skerta starfsgetu og stöðugar kvalir. Biðin hefur þegar tekið marga mánuði og enn á hann eftir að bíða í tvo mánuði þangað til langþráð aðgerð verður framkvæmd.

Skýrt var frá því að nú biðu um 200 manns eftir hjartaþræðingu. Meðan beðið er geta sjúklingar verið í hættu og þeir eru með skerta getu til daglegra starfa og njóta ekki vellíðunar sem þeir annars mundu gera.  Ég er ekki það vel að mér í læknisfærði til að geta fullyrt hvað þeir sem bíða eru í mikillli hættu en af frásögnum þeirra sem ég þekki sem bíða og hafa þurft að bíða þá veit ég að þeir líða fyrir að þessi aðgerð er ekki framkvæmd.

Ég velti því fyrir mér hvað það kostar þjóðfélagið mikið að láta fólk bíða eftir einföldum aðgerðum. Fólk sem annars gæti skilað góðum starfsdegi á hverjum degi þarf að þola það að vera starfslítið eða starfslaust og búa iðulega við vanlíðan þá mánuði sem beðið er eftir einföldum aðgerðum.

Það er ekki við starfsfólk heilbrigðiskerfisins að sakast í þessu efni en vilji er allt sem þarf í þessu sem svo mörgu öðru. Það þarf pólitískan vilja til að eyða biðlistum eða alla vega stytta þá þannig að fólk þurfi ekki að bíða mánuðum saman í kvöl eftir einföldum aðgerðum. Heilbrigðisráðherra ætti að láta það verða eitt af forgangsverkefnum sínum að eyða biðlistum eftir því sem skilgreina verður sem bráðaaðgerð þó það taki í allt of mörgum tilvikum marga mánuði að fá slíka aðgerð framkvæmda.


Já ráðherra. Áfram ráðherra.

Viðskiptaráðherra hefur bent á nauðsyn nýrrar lagasetningar um gjaldtöku fjármálastofnana vegna fitkostnaðar. Talsmaður bankanna hefur bent á að það að fara á fitið eða yfir á reikningi sé ólöglegt og við því liggi viðurlög og hefur nefnt ákveðnar refsingar í því sambandi. Nú er það þannig að þeir sem fara á fitið eða yfir eru viðskiptavinir viðkomandi fjármálastofnunar og viðurlögin renna í vasa banka og sparisjóða. Bankinn er því að refsa viðskiptavini sínum en hefur hann samt áfram í viðskiptum og lítur á hann sem mikilvægan viðskiptavin af því að unnt er að taka hærri gjöld af honum en öðrum. Sérkennlegt fyrirbæri það.

Gagnrýnt er hvað fitkostnaður sé hár. Flestum er ljóst að hann er allt of hár og það er nauðsynlegt að taka til endurskoðunar lög sem þetta varðar og skal tekið undir með viðskiptaráðherra hvað það snertir. En það eru fleiri atriði sem varða gjaldtöku bankanna sem þarf að skoða. T.d. eru þjónustugjöld þeirra allra þau sömu á öllum atriðum sem máli skipta. 

Hér með er skorað á viðskiptaráðherra að skipa nefnd til að láta kanna gjaldtöku fjármálastofnana og bera hana saman við gjaldtöku sambærilegra stofnana í nágrannalöndum okkar.


Hinir óhreinu.

Það er með miklum ólíkindum að bæjarstjórn Akureyrar skuli hafa dottið það í hug að mismuna fólki eftir aldri. Sú ákvörðun var kynnt að fólki á aldrinum 18-23 ára fengi ekki aðgang að tjaldstæðum bæjarins nema ákveðnar undantekningar kæmu til.  Ég efast um að þessi ákvörðun standist með vísan til jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Spurning hlítur alltaf að vera um það hvort leyfa eigi fjölmenna hátíð í jafnfjölmennu bæjarfélagi og Akureyri. Fyrst það er leyft þá verður að gæta þess að aðbúnaður og umgjörð slíkra hátíðarhalda sé með þeim hætti að lögum og reglum sé haldið uppi án þess að gripið sé til ráða eins og þeirra að útiloka ákveðna aldurshópa.

Í Vestmannaeyjum eru stærstu og fjölmennustu tjaldbúðir á hverju ári á þjóðhátíð. Þar er fólki ekki mismunað eftir aldri og þess gerist ekki þörf.

Bannþjóðfélagið má ekki taka við af þjóðfélagi frjálslyndis og umburðarlyndis og það er útilokað að hægt sé að samþykkja það að fólki sé mismunað eftir aldri eins og gert var á Akureyri.


Sjálfstæðismenn kætast á fölskum forsendum.

Bloggarar Sjálfstæðisflokksins hreykja sér hver um annan þveran af því að Sjálfstæðisflokkurinn skuli hafa mælst með 45% fylgi í síðustu skoðanakönnun og skv sömu könnun styðji 85% þjóðarinnar ríkisstjórnina.

Þó mér sé ekki vel við að gera fullorðnum mönnum gramt í geði þá verður ekki komist hjá því að benda á að Sjálfstæðisflokkurinn mælist jafnan hærra á sumarmánuðum en á öðrum tímum ársins. Þá liggur líka fyrir miðað við úrslit kosninga um árabil að Sjálfstæðisflokkurinn mælist alltaf mörgum prósentustigum hærra en kemur í ljós þegar talið er upp úr kjörkössunum.

Allar ríkisstjórnir eiga sína hveitibrauðsdaga og þannig er það líka með þessa. Kjósendur eru jafnan reiðubúnir til að leyfa nýrri ríkisstjórn að njóta vafans. Sumir stjórnmálaskýrendur hafa talað um 100 daga hveitibrauðsdaga ríkisstjórnar. Aðrir halda því fram að ríkisstjórnir eigi aðeins lengri hveitibrauðsdaga. Þetta á ekki sérstaklega við Ísland heldur vestræn lýðræðisríki.

Mér finnst því vafasöm ástæða fyrir þessa ágætu bloggara á vegum Sjálfstæðisflokksins að stíga trylltan stríðsdans af fögnuði. Sérstaklega af því að það er ekki raunveruleg innistæða fyrir fögnuðinum.

Bloggararnir Björn Bjarnason og Sigurður Kári Kristjánsson ráðherra og alþingismaður halda því fram að það sé einsdæmi að stjórnmálaflokkur haldi jafn miklu fylgi í svo langan tíma þrátt fyrir að vera samfellt í ríkisstjórn. Þetta er ekki rétt og skal þeim bent á Zimbabwe sem dæmi þar sem Robert Mugabe ræður ríkjum. Þar fær hann meiri hluta atkvæða kosningar eftir kosningar en lílfskjörin í landinu versna og versna og verðbólgan mælist nú um 4000 þúsund prósent í landinu.

 


Seljum Ríkisútvarpið.

Tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins orða það á bloggsíðum sínum í dag að það beri að skoða að selja Ríkisútvarpið. Það eru þeir Björn Bjarnason dómsmálaráðherra og Sigurður Kári Kristjánsson. Þeir tala um að Rás 1(gamla gufan) verði rekin áfram en annar rekstur RÚV seldur.

Ég tek heilshugar undir með þeim Birni og Sigurði Kára. Það er rétt að reka Rás 1 áfram sem frétta- og menningarstöð fyrir framlag árlega úr ríkissjóði. Það er engin glóra í því að skylda landsmenn til að greiða mánaðarlega fyrir Desperate Houswifes og Önnu Phil lögreglukonu þá það séu vafalaust hinir bestu þættir. Frjálsi markaðurinn á og mun sjá um að miðla því sjónvarpsefni.

Með þessu mætti efla fjölmiðlun í landinu og koma í veg fyrir skylduáskrift sem á að heyra sögunni til.


Gripið skal til sértækra aðgerða.

Iðnaðarráðherar Össur Skarphéðinsson hefur ákveðið að gripið skuli til sértækra aðgerða með sama hætti og ríkisstjórnir liðinna áratuga gerðu iðulega. Á að  verðlauna sægreifana enn einu sinni en gleyma almenningi?

Væri ekki rétt að móta djarfa stefnu velferðar fyrir fólk og frelsis í atvinnulífinu og bætt skilyrði þar sem því verður við komið í stað sértækra aðgerða.

Búa verður almenn og góð skilyrði fyrir atvinnulífið en það versta er þegar stjórnmálamenn fara að fikta í atvinnulífinu og rugla samkeppnina.


« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 69
  • Sl. viku: 856
  • Frá upphafi: 2291622

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 755
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband