Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Ingibjörg í útrás.

Utanríkisráðherra hefur tekið af öll tvímæli um það í viðtali í Berlinske Tidende í gær að íslenska ríkisstjórnin  ætli að koma íslenskum bönkum til hjálpar lendi þeir í erfiðleikum. Þessi yfirlýsing er gefin án nokkurs fyrirvara. Þannig verður ekki annað skilið á utanríkisráðherra að hvað svo sem upp kunni að koma þá muni ríkisstjórnin nota peninga skattgreiðenda til að aðstoða banka og þá væntanlega allar sambærilegar fjármálastofnanir lendi þær í erfiðleikum og þá virðist ekki máli skipta af hverju erfiðleikarnir kunna að stafa.

Vel kann að vera að það sé heppilegt að tala  með þessum hætti á erlendum vettvangi en samt sem áður þá er óvarlegt af ríkisstjórn að skuldbinda sig með þeim hætti sem utanríkisráðherra boðar að íslenska ríkisstjórnin hafi gert komi til erfiðleika fjármálastofnana.

Hvað með heimilin í landinu? Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera fyrir heimilin sem búa við verstu lánakjör í Evrópu og munu líða fyrir ógætilega efnahagsstjórn undanfarinna ára. Utanríkisráðherra, víkur ekki einu orði að hagsmunum heimilanna eða einstaklinganna. Aðrir hafa greinilega forgang í huga ráðherrans.

Allt kostar á þessu sviði og það er spurning hvað ríkissjóður er tilbúinn til að leggja í mikinn kostnað. Nú er talað um stórt erlent lán til að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabankans. Það er ekki ókeypis. Og til hvers til að styrkja gjaldmiðilinn sem að utanríkisráðherra hefur kallað ónýtan gjaldmiðil.  Er þetta virkilega stefna Samfylkingarinnar núna?


Fleiri útlendingar til landsins enn í fyrra?

Maður verður stundum agndofa á óvandvirkni fréttamiðla. Þannig hef ég í morgun hlustað á það í fréttaþáttum Ríkisútvarpsins að fleiri útlendingar séu að koma til landsins en í fyrra og vísað er í því sambandi í frétt í Fréttablaðinu. En fréttin í Fréttablaðinu fjallar ekki um það.

Starfsmaður Vinnumálastofnunar segir frá því í frétt Fréttablaðsins að jafnmörg atvinnuleyfi hafi verið gefin út til útlendinga það sem af er árinu og í fyrra. En síðar segir starfsmaður Vinnumálastofnunar að skýringin sé aukið vinnustaðaeftirlit Vinnumálastofnunar sem kunni að leiða til þess að skráningar skili sér betur en á sama tíma og í fyrra.  Semsagt hér er um ekki frétt að ræða. Það hafa verið gefin út jafnmörg atvinnuleyfi en skráningin er betri sem segir ekkert til um hvort fleiri útlendingar eru að koma eða jafnmargir eða færri. Miðað vði það sem starfsmaðurinn segir þá eru þeir líklega færri en það sem starfsmaðurinn segir er í raun það að Vinnumálastofnun viti þetta ekki.

Þetta er í samræmi við það sem við Frjálslynd höfum ítrekað bent á að eftirlit hér væri í molum og þess vegna væri um stórfelld undirboð á atvinnumarkaðnum að ræða. Það er raunar fleira sem hefur komið fram af því sem við Frjáslynd bentum á. Við viljum að þeir sem koma til lengri dvalar verði að skila inn hegningar- og heilbrigðisvottorðum. Fulltrúar hins sósíalíska réttrúnaðar hafa hafnað því með öllu og talið slíkt bera vott um rasisma en það er rangt. Þetta er spurning um að vilja tryggja öryggi fólksins í landinu bæði þeirra sem eru af íslensku bergi brotnir sem og þeirra innflytjenda sem hér starfa og ætla sér að dvelja. Væri ekki í ráði þegar reynslan hefur sýnt að við Frjálslynd höfðum og höfum rétt fyrir okkur að stjórnvöld færu að taka tillit til heilbrigðrar skynsemi í þessum málum.


Mannréttindi og áhrifamestu stjórnmálakonur landsins.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sækir stuðning til gjörspilltra ríkja þar sem lýðræði og mannréttindi eru brotin. Henni er sama bara ef þessi ríki styðja okkur og segir að það megi síðar huga að mannréttindum þegar Ísland hefur náð kosningu til Öryggisráðsins.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir segist ætla á Olympíuleikana í Kína og vera við opnunarhátíð leikanna hvað sem líður ofsóknum og mannréttindabrotum Kínverja gegn Tíbetbúum.

 Mannréttindabrot Kínverja þvælast ekki fyrir Þorgerði enda segist hún fara í boði íþróttahreyfingarinnar. Þá segir Þorgerður varaformaður Sjálfstæðisflokksins að þetta sé í lagi þar sem að Dalai Lama andlegur leiðtogi Tíbeta hafi hvatt til að Olympíuleikarnir fari fram eins og ekkert hafi í skorist. Þorgerður rökfærir löngun sína til þessa ferðalags með því að þar sem að Dalai Lama hafi gefið heilbrigðisvottorð á ferð hennar þá hljóti það að vera í lagi. En það er rangt mat. Dalai Lama er í þeirri stöðu að hann getur ekki annað. Stjórnmálaleiðtogar frjálsra ríkja sem eiga ekkert undir Kínverjum geta hins vegar og eiga að gera kröfur til þessa kommúnistaríkis.

Angela Merkel sú merka stjórnmálakona kanslari Vestur Þýskalands hefur gert athugasemdir og segist ekki fara til Kína geri kínversk stjórnvöld ekki bragarbót í mannréttindamálum.  Ýmsir aðrir stjórnmálaleiðtogar í Evrópu hafa tekið í sama streng. En ekki þær vinkonurnar Ingibjörg Sólrún og Þorgerður Katrín. Mannréttindabrot þvælast ekki fyrir þeim.  En þó segist Þorgerður munu taka tillit til þess ef aðrir taki þá ákvörðun fyrir hana þ.e. aðrir ráðerrar á Norðurlöndum að ferð á opnunarhátíðina sé ekki við hæfi.  Þannig mun Þorgerður Katrín fara nema hún verði neydd til vegna afstöðu annarra til að fara ekki.


Í kaffiboð til erfingja Khomeni.

Ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins fór til Íran í byrjun mars s.l. Engar fréttir bárust af þessari för ráðuneytisstjórans fyrr en utanríkisráðherra Íran gerði opinberlega grein fyrir því að hann hefði átt viðræður við íslenska ráðuneytisstjórann. Ekki hafa komið fram skýringar af hálfu utanríkisráðherra á þessari Íransför ráðuneytisstjórans og þess vegna spurði ég hana á Alþingi í dag hvort þessi ferð hafi verið farin á vegum utanríkisráðuneytisins og þá í hvaða tilgangi.

Fram kom í svari utanríkisráðherra við fyrirspurn minni að ráðuneytisstjórinn hefði ekki farið í einkaerindum. Hann hefði farið á vegum utanríkisráðuneytisins og þá væntanlega á vegum ríkisstjórnarinnar allrar til Íran til að vinna að stuðningi Íran við framboð okkar til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Auk þess hefði ráðuneytisstjórinn sinnt einhverjum málum vegna íslenskra fyrirtækja.

Þá liggur það fyrir. Ríkisstjórnin leitar stuðnings hjá Íranstjórn vegna framboðsins til Öryggisráðsins. Hvað skyldu bandamenn okkar í NATO segja um það. Skyldu aðrar NATO þjóðir en Norðurlöndin styðja framboð okkar. Mér skilst að verulegur vafi sé á því og raunar líklegt að þau geri það ekki. Sé það rétt er það þá vegna þess að við höfum haldið klaufalega á málum og m.a. leitað stuðnings þjóða eins og Íran.  Íransstjórn er þekkt fyrir að brjóta mannréttindi m.a. gegn minnihlutahópum eins og öðrum trúarbrögðum en Shia Íslam og gegn samkynhneigðum svo dæmi séu tekin. Ég tel það meirí háttar mistök að sækjast eftir stuðningi Íransstjórnar með þessum hætti vegna kosningabaráttu til Öryggisráðsins. Einhverjar lágmarkssiðferðiskröfur verðum við jú að setja okkur.

Hvað ætlar utanríkisráðherra að gera næst til að afla framboðinu stuðnings? Það er ljóst að hún hefur leitað til ýmissa stjórna Afríkuríkja sem ekki eru þekkt fyrir virðingu fyrir lágmarksmannréttindum. Í umræðunni í dag á Alþingi sagði utanríkisráðherra að við yrðum að leita eftir stuðningi slíkra ríkja og gætum síðar sinnt skyldum okkar við mannréttindi.

Þetta er vond yfirlýsing. Mér finnst verulega miður að utanríkisráðherra skuli gefa telja allt fallt fyrir atkvæði. Hvað ætlum við svo að gera í mannréttindamálum komi til þess að við náum kosningu til Öryggisráðsins fyrir atbeina þeirra ríkisstjórna sem misvirða mannréttindi meir en nokkrir aðrir. Ef til vill telur ríkisstjórnin rétt að blanda sér í þann hóp miðað við  úrskurð Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um að íslenska kvótakerfið brjóti í bág við mannréttindi.

Er e.t.v. verið af hálfu íslensku ríkisstjórnarinnar að leita eftir stuðningi Norður Kóreu við framboð Íslands til Öryggisráðsins.


Á að stoppa atvinnlífið?

Ég veit eiginlega ekki hvert stjórnvöld eru að fara í efnahagsmálum. Þrátt fyrir að flesti bendi til þess að samdráttur sé í vændum í íslensku efnahagslífi þá hækkar Seðlabankinn stýrivexti ítrekað. En það er ekki gripið til annarra ráðstafanna sem eru mun mikilvægari eins og staðan er í dag. Hvernig á að leysa lausafjárkreppu bankanna og bregðast við komist lánastofnanir í verulega erfiðleika. 

Háir stýrivextir Seðlabankans hafa ekki megnað að hamla gegn verðbólgunni og hún er nú sú hæsta í okkar heimshluta og það eru stýrivextir Seðlabankans einnig. Segir það ef til vill einhverja sögu?


mbl.is Seðlabankinn hækkar stýrivexti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Burt með stimpilgjaldið.

Stimpilgjald er  skattheimta  sem gerir viðskiptaumhverfið erfiðara  en það væri ef stimpilgjaldið yrði fellt burt. Bent hefur verið á að stimpilgjaldið sé m.a. til þess fallið að draga úr möguleikum lántakenda til að skipta um lánastofnun og taka ný og hagstæðari lán.  Þegar kostnaður við uppgreiðslu og stimpilgjald nýrra veðskjala kemur til viðbótar þá er ávinningurinn af nýju láni oft takmarkaður eða enginn.  Stimpilgjaldið mismunar líka lántakendum.  Þeir sem eiga þess kost að fá tryggingabréf í stað veðskuldabréfs þurfa ekki að greiða nema 0.5% af höfuðstól á meðan þeir sem þurfa að þinglýsa veðskuldabréf þurfa að greiða 1.5% af höfuðstól.  Kaupendur húsnæðis þurfa að greiða umtalsverða fjármuni vegna stimpilgjalds af kaupsamningi, afsali og lánaskjölum. Þeir sem verst eru settir í þjóðfélaginu og þurfa að sæta því að gert sé hjá þeim lögtak fyrir skuldum við ríkissjóð þurfa að sæta því að stimpilgjald bætist ofan á allt annað við þinglýsingu gerðarinnar.Stjórnarflokkarnir lofuðu að þeir mundu fella stimpilgjaldið niður.  Ekkert hefur enn orðið úr efndum á því loforði. Við gerð kjarasamninga milli Samtaka atvinulífsins og ASÍ lofuðu talsmenn ríkisstjórnarinnar að beita sér fyrir að stimpilgjaldið yrði afnumið að hluta. Ríkisstjórnin ætlar  að efna kosningalofofðið  að hluta núna. Afganginn á sjálfsagt  að bíða með þangað til hillir undir næstu kosningar til Alþingis. Stimpilgjöld eru úrelt og óréttlát tekjuöflunarleið fyrir ríkissjóð. Tekjur ríkissjóðs af stimpilgjöldum árið 2007 eru áætlaðar um 6.2. milljarðar króna. Tekjur ríkissjóðs af stimpilgjöldum hafa verið umtalsverðar á þensluárnum frá 2005 en ljóst hefur verið að þau mundu dragast verulega saman þegar umsvif minnkuðu í þjóðfélaginu, þá sérstaklega þegar umsvif minnkuðu á fasteignamarkaðnum.  Samt sem áður má ætla að tekjur ríkissjóðs af stimpilgjaldi geti numið um 5 milljörðum á venjulegu ári.  Með því að fella stimpilgjöld niður yrði ríkissjóður af nokkru tekjutapi sem nemur þó innan við 2% af heildargjaldtöku ríkisins. Fjármálaráðherra hefur lagt fram frumvarp á Alþingi í samræmi við þau fyrirheit sem gefin voru samningsaðilum við kjarasamninga.  Fjármálaráðherra gefur þó ekki meira en slitið hefur verið þegar undan skattaránsnöglum hans. Afnema á stimpilgjald vegna kaupa á fyrstu íbúð og lögin eiga ekki að koma til framkvæmda samkvæmt frumvarpinu fyrr en 1. júlí.  Frumvarp ráðherrans er gallað að mörgu leyti. Í fyrsta lagi á að setja upp flólkið eftirlitskerfi með því hverjir eru að kaupa íbúð í fyrsta sinn. Þá er innbyggt óréttlæti í kerfið með því að takmaka niðurfellinguna við þá sem eru að kaupa í fyrsta skipti. Fólk þarf iðulega að kaupa nýtt húsnæði vegna breyttra aðstæðna. Algengast er að sami einstaklingur þurfi að skipta um húsnæði ekki sjaldnar en 4 sinnum á lífsleiðinni og það allt af þörf vegna breyttra aðstæðna. Í þriðja lagi eiga lögin ekki að taka gildi um leið og þau kunna að verða samþykkt. Það mun leiða til þess að húsnæðismarkaðurinn stíflast. Kaupendur sem eiga rétt á niðurfellingu stimpilgjalds samkvæmt lögunum draga að kaupa húsnæði þangað til þeir eru lausir við þessi aukagjöld sem geta numið allt að hálfri milljón.

Mergurinn málsins er þó sá að það er mikilvægt að losna við þessa óréttlátu gjaldtöku í eitt skipti fyrir öll.   Margir horfa fram á samdrátt í viðskiptum á þessu ári og þegar svo horfir þá er það hlutverk ríkisins að auðvelda viðskipti fólks og afnema svo sem mest má vera óréttláta skattheimtu.  Við eigum því að skora á ríkisstjórnina  að standa við kosningaloforð sitt núna og afnema stipmilgjaldið núna.  Það er ekkert réttlæti í því að afnema stimpilgjaldið bara fyrir suma það þarf að losna við stimpilgjaldið.

Grein í 24 stundir 9.4.

Clinton og Gore staðfestu ekki Kyoto.

Ég hlustaði á Gore flytja boðskap sinn og að vonum gerði hann það frábærlega með góðri hjástoð mynda á breiðtjaldi Háskólabíós. Al  Gore hefur raunar flutt þennan fyrirlestur með takmörkuðum málefnalegum  breytingum í tæp 7 ár þannig að það var að vonum að fyrirlesturinn væri frábær.  Málflutningurinn er raunar nokkuð einhæfur og áróðurskenndur eins og gengur og gerist hjá bandarískum stjórnmálamönnum og farandprédikurum.

Það dregur enginn í efa að hnattræn hlýnun hafi orðið á undanförnum árum. Menn greinir á hvað mikinn þátt maðurinn eigi í þeirri hnattrænu hlýnun og ég er einn af þeim sem dreg í efa að maðurinn hafi þar úrslitaáhrif. Samt sem áður er mikilvægt að fara að öllu með gát og leyfa náttúrunni að njóta vafans. Þess vegna þurfum við að bregðast við en þá er spurning um að bregðast við með skynsömum áhrifaríkum hætti. Það er hins vegar ekki ástæða til að bregðast við með þeim hætti sem kallar á mun verri lífskjör til langframa vegna aðgerða sem ekkert liggur fyrir um að muni skila sér í baráttu gegn hnattrænni hlýnun.

Kyoto bókunin hefur verið samþykkt af flestum ríkjum heims, en samt sem áður fara Kínverjar, Indverjar og Bandaríkjamenn sínu fram. Það er annars merkilegt að hugsa um það að Al Gore var varaforseti Bandaríkjanna þegar spurning kom upp um það hvort Bandaríkjamenn ættu að fullgilda Kyoto bókunina fyrir sitt leyti. Mér er ekki kunnugt um að hann sem varaforseti Bandaríkjanna á þeim tíma og síðar forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins hafi barist fyrir því að Bandaríkjamenn fullgiltu Kyoto.


mbl.is Þróun sem hægt er að stöðva
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný tegund útrásarvíkinga?

Í bullandi "góðæri"liðins árs flugu útrásarvíkingar á einkaþotum sínum heimsálfa á milli. Nú hefur harðnað á dalnum og minna fer fyrir einkaþotum útrásarvíkinga en það eru komnir nýir útrásarvíkingar í þeirra stað.

Utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og forsætisráðherra, Geir H. Haarde ákváðu að fljúga á einkaþotu á NATO fund.  Þetta var ekki einkaþota af minnstu gerð því það hefði ekki dugað.  Fylgilið ráðherrana var 14 manna sendinefnd. Það dugar ekkert minna fyrir fyrrverandi ríkustu þjóð heims en að senda 16 manns á NATO fund.  Þetta er semsagt agnarsmá sendinefnd eins og ráðuneytisstjórinn í utanríkisráðuneytinu mundi vafalaust orða það.

Skyldu þau Ingibjörg og Geir hafa misskilið það þegar það hefur verið orðað að ríkið kæmi sterkar inn þegar hægðist á almenna markaðnum?


Ómarkviss umræða um Evrópusambandið?

Magnús Stefánsson þingmaður Framsóknarflokksins bendir réttilega á það að umræðan um aðild að Evrópusambandinu sé ómarkviss og leiðarsteina vanti til að þoka henni áfram. Magnús telur að það verði best gert með því að samningsmarkmið verði mótuð og síðan borin undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessar hugmyndir eru góðra gjalda verð en því má ekki gleyma að Evrópusambandsaðild er ekki á dagskrá hjá þessari ríkisstjórn eins og skýrt er tekið fram í stjórnarsáttmálanum. Það er því til of mikils mælst að ætla að  fela ríkisstjórn sem hefur ekki málið á dagskrá að móta samningsmarkmið.


Vörubílstjórar njóta samúðar en mega ekki ganga of langt.

Aðgerðir vörubílstjóra undanfarna daga hafa vakið verðskuldaða athygli og notið almennrar velvildar almennings þrátt fyrir að aðgerðirnar hafi hingað til bitnað á almennum borgurum í umferðinni. Bæði vörubílstjórum og venjulegum bifreiðaeigendum finnst ríkið leggja of miklar álögur á olíur og bensín.

Mikilvægt er fyrir vörubílstjóra að hafa almenning með sér í baráttunni. Aðgerðir eins og vörubílstjórarnir standa fyrir eru jú til þess að fá almenning til liðs við sig og gera ráðamönnum grein fyrir því hvað málið er alvarlegt. Það hefur vörubílstjórum tekist.

Vörubílstjórar mega vita það að ýmsir sem sitja á Alþingi þar á meðal ég telja nauðsynlegt að draga úr álögum ríkisins á bensín og olíur og við eigum þannig fulla samstöðu með Vörubílstjórum.  Ríkisstjórnin hefur hins vegar traustan meirihluta og án vilja ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna þá næst ekki sá árangur sem vörubílstjórar stefna að. Það hlítur því að vera umhugsunarefni fyrir vörubílstjóra hvort það er eðlilegt að beina mótmælaaðgerðum gegn Alþingi. Þá hlítur það líka að vera umhugsunarefni hvort ekki sé h ætta á að gengið verði of langt þannig að sú samúð sem vörubílstjórar hafa með málstað sínum snúist gegn þeim ef of lengi er haldið áfram með aðgerðir sem bitna fyrst og fremst á fólki sem hefur sömu hagsmuni og sjónarmið og vörubílstjórar.


mbl.is Sturta möl fyrir framan Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 45
  • Sl. sólarhring: 1404
  • Sl. viku: 3698
  • Frá upphafi: 2299793

Annað

  • Innlit í dag: 42
  • Innlit sl. viku: 3464
  • Gestir í dag: 42
  • IP-tölur í dag: 39

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband