Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Ekki rétti staðurinn ekki rétti tíminn.

Ár: 1936.  Staður: Berlín. Atburður: Olympíuleikar.   

HitlerAdolf Hitler kanslari Þýskalands setur elleftu Olympíuleikanna eftir að keppnisliðin höfðu gengið undir fánum landa sinna inn á Olympíuleikvanginn. Sum keppnisliðin felldu ríkisfána sína í átt að  kanslarastúkunni  í virðingarskyni við kanslarann. Gríska og franska liðið  ásamt ýmsum öðrum heilsuðu með nasistakveðjunni þegar þau gengu framhjá Foringjanum. Allur undirbúningur leikanna var stórkostlegur. Sýningargluggi einræðisins var glæstur.  

Upplýst fólk vissi að það var ekki lýðræði í Þýskalandi. Allt upplýst fólk vissi að Gyðingar, Sígaunar og   ýmsir þjóðfélagshópar og andstæðingar voru ofsóttir. Hvaða máli skipti það?  Ríkisstjórn þjóðlega þýska verkamannaflokksins hafði skipulagt Olympíuleikanna af meiri glæsileika en áður hafði sést. Þjóðhöfðingjar og fyrirmenn þess tíma streymdu til Berlínar til að vera viðstaddir þessa sögulegu stund. Það var jú enginn maður með mönnum nema hann væri viðstaddur opnunarhátíð Olympíuleikanna í Berlín.  

Nokkrir fýlupúkar m.a. úrtölu- og vandræðamenn eins og Winston Churchill og Anthony Eden gerðu athugasemdir en þurfti nokkur að vandræðast með það. Olympíuleikarnir voru ekki rétti staðurinn til að hafa uppi  mótmæli. Auk heldur var ekki rétti tíminn árið 1936 á Olympíuleikum til að vera með mótmæli og mæta ekki við setningarhátíð Olympíuleikanna. Hvað með mannréttindi og líf nokkurra Gyðinga, Sígauna og pólitískra andstæðinga?  Á  slíkum “minni háttar” málum  varð að taka á síðar. Þar að auki var Þýskaland stórt og sterkt og miklir viðskiptahagsmunir gátu verið í húfi. Það voru önnur mál sem skiptu meira máli og alla vega var þetta ekki rétti staðurinn eða tíminn til að mótmæla. Þá höfðu Þjóðverjar auk heldur ekki ráðist á neina þjóð eða undirokað þjóð eða þjóðarbrot.  Það sem fýlupokarnir voru að tala um var innanríkismál hins stolta þjóðlega þýska ríkis.  Auk heldur sem sjálfsagt var að hafa sjónarmið fýlupokanna að  engu þá var það beinlínis móðgun við hina merku þýsku þjóð að fara að mótmæla við þetta tækfæri. 

Þrátt fyrir að Frakkar og Grikkir felldu fána sína og gæfu nasistakveðju í virðingarskyni við Foringjann þá dugði það ekki til að koma í veg fyrir að hersveitir hans réðust inn í lönd þeirra áður en kom að nýjum Olympíuleikum 

Ár. 2008.  Staður: Peking. Atburður Olympíuleikar

MaoKínverjar hafa svipt Tíbetbúa sjálfstæði og undiroka þjóðina og ýmis þjóðarbrot. Allir vita að kommúnistastjórnin í Kína virðir ekki mannréttindi Tíbetbúa og hefur svipt þjóðina frelsi. Allir vita að Kínverska ríkisstjórnin virðir ekki mannréttindi eigin þegna og hefur m.a. keypt þögn foreldra barna sem fórustu í jarðskjálftum nýverið til að sú handvömm stjórnvalda skyggi ekki á gleði langt aðkominna gesta eða komi í veg fyrir að tiginbornir gestir mæti við setningarathöfn Olympíuleikanna í Peking.  

Stjórnin í hinu stolta kommúníska Alþýðulýðveldi í Kína er óslitið framhald af stjórn Maó sem kostaði fleiri mannslíf í eigin landi en nokkur önnur ógnarstjórn fyrr eða síðar.  Hvaða máli skiptir það? Opnunarhátíðin verður glæsileg og þeir sem vilja vera heldra fólk með heldra fólki mætir á opnunarhátíð Olympíuleikanna. Það er hvort heldur ekki rétti staðurinn eða rétti tíminn til að vera með mótmæli við slíkt tækifæri.  Auk heldur þá eru það bara fáeinir fýlupokar sem mótmæla.

Forseti lýðveldisins og varaformaður Sjálfstæðisflokksins vita hvað á að gera, hvar og hvenær.  Þeim er ljóst að það er ekki rétti staðurinn og það er ekki rétti tíminn til að mótmæla við setningarhátíð Olympíuleikanna í Peking. Þess vegna mæta þau eins og annað heldra fólk.    

Ólafur RagnarÞorgerður Katrín

Birtist sem grein í 24 stundum 30.7.2008  


Ríkisstjórnin ber ábyrgð á vaxandi greiðsluerfiðleikum ungra íbúðakaupenda.

Verðbólga sem ríkisstjórnin ber verulega ábyrgð á og verðtrygging lána á verðbólgutímum og tímum gengisfalls krónunnar verður mörgum ofviða. Ég flutti í haust þingsályktunartillögu um að hlutast væri til um að lánakjör hér væru svipuð og á hinum Norðurlöndunum. Sú tillaga hefur ekki fengist afgreidd. Hvað sem tillögunni líður þá hefði ríkisstjórnin átt að hafa frumkvæði að því að vinna fyrir fólkið í landinu og koma lánamálum í svipað horf og hjá siðuðum þjóðum á lánamarkaði fyrir almenning.

Þegar að kreppti og fyrirsjáanlegt að að mundi kreppa bar ríkisstjórninni að hlutast til um að gera ráðstafanir til að aðstoða þá íbúðarkaupendur sem verða illa úti vegna gjörbreyttra aðstæðna í þjóðfélaginu.

En hvar er forsætisráðherra?  Hvar er ríkisstjórnin?  


mbl.is Erfiðleikar hjá húskaupendum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Obama æði.

Í skoðanakönnunum í Bretlandi og Þýskalandi hafa um 80% aðspurðra lýst yfir stuðningi við Barack Obama en aðeins um 20% við keppinaut hans John McCain.   En það eru ekki Bretar eða Þjóðverjar sem kjósa forseta Bandaríkjanna.  Samt sem áður sýna þessar skoðanakannanir og viðtökur sem Obama hefur fengið að Evrópubúar líta þannig á að Obama geti orðið góður forseti Bandaríkjanna. Obama geti lagfært það sem fór úrskeiðis á valdatíð George W. Bush jr.

Þó ég sé eindreginn stuðningsmaður Obama og telji hann líklegri til að færa Bandaríkjamönnum nýja von og græða þau sár sem óstjórn Bush hefur valdið þá má ekki ofmeta getu forsetans til að gera breytingar.  Forsetinn er bundinn af þinginu t.d.

Mér finnst sú stefnumörkun Obama að kalla herinn heim frá Írak og leggja áherslu á að ljúka ætlunarverkinu í Afghanistan vera skynsamlegri en sú stefna sem Bush fylgir. Samt sem áður hef ég verulegar efasemdir um að Bandaríkin eða NATO þjóðirnar eigi að skipta sér af málum í Afghanistan umfram það að þjálfa her, lögreglu og sinna mannúðar- og hjálparstarfsemi.  Þá hefur Obama nýlega lýst yfir vilja til að auka frelsi í milliríkjaviðskiptum sem væri kærkomið skref, ef hann kæmi því þá í framkvæmd fyrir þinginu.  Obama hefur gert þó ein alvarleg mistök, en það var þegar hann lýsti því yfir að Jerúsalem mætti aldrei skipta. Í vestur Jerúsalem búa Gyðingar en í Austur Jerúsalem að mestu leyti Arabar.  Hvorki Clinton né Bush gengu svona langt. Sem betur fer mun þó Obama hafa dregið í land með þetta og vonandi skipt um skoðun. 

Það er mikilvægt að fólk geti búið við frelsi og með reisn hvar svo sem það býr.  Stóra vandamál Bandaríkjanna gagnvart  arabaheiminum og raunar múslimaríkjunum er stefna þeirra gagnvart Palestínumönnum og Ísrael.  Obama ætti að hafa betri skilning á því en flestir aðrir, en það verður að  bíða og sjá.


mbl.is Obama tekið sem rokkstjörnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin hefur ekki markað stefnu í efnahagsmálum.

Ólafur Ísleifsson lektor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík bendir á það í þættinum "orð í belg" í Markaðnum fylgiriti Fréttablaðsins í dag að "stjónrnarsáttáli flokkana var gerður við gerólík skilyrði  í efnahagsmálum"  Síðar segir Ólafur "Þessi sáttmáli  er tæpast klappaður í stein".

Ég tek undir með Ólafi og bendi um leið á að ríkisstjórnin hefur ekki markað sér stefnu í efnahagsmálum miðað við aðstæður. Á sama tíma og vandi steðjar að þá rífast ráðherrar og þingmenn stjórnarliðsins í fjölmiðlum um ýmis atriði en ekki sjást þess merki að unnið sé í nýrri stefnumótun í efnahagsmálum sem er í samræmi við þær aðstæður sem við búum við í dag.

stjornarsattmalinnÞrátt fyrir aðgerðar- og stefnuleysi ríkisstjórnarinnar þá gera sumir stjórnarþingmenn sér grein fyrir því að það þarf að taka til hendinni en það kemur glögglega fram í viðtali við þá Bjarna Benediktsson og Illuga Gunnarsson í sama blaði í dag.  Bjarni segir í viðtalinu að það sé vá fyrir dyrum og það verði að viðurkenna að krónan hafi valdið okkur miklum vandræðum. Vonandi knýja þessir dugmiklu þingmenn Sjálfstæðisflokkinn á um það að ríkisstjórnin fari sem fyrst að vinna vinnuna sína.


Missa 200 manns vinnuna við yfirtöku Kaupþings á Spron?

Það er athyglivert að Morgunblaðið skuli birta þá forsíðufrétt að allt að 200 manns muni missa vinnuna við samruna SPRON og Kaupþings en sparisjóðsstjórinn neita sannleiksgildi fréttarinnar.

Hvað er um að ræða? Ranga frétt í Morgunblaðinu? Rangar staðhæfingar sparisjóðsstjórans?

Ég hef hingað til talið mig geta treyst fréttum Morgunblaðsins nema í ákveðnum undantekningartilvikum þegar pólitíkin hefur borið sannleiksástina ofurliði. Í þessu tilviki finnst mér með ólíkindum að jafn reyndur og fær blaðamaður og Agnes Bragadóttir skrifi og beri ábyrgð á frétt sem á ekki við rök að styðjast. 

Sparisjóðsstjórinn og forráðamenn Kaupþings verða, vilji þeir hafna fréttinni sem rangri, að sýna fram á það hvaða hægræðing felst í sameiningunni ef starfsfólki fækkar ekki eða jafnvel fjölgar eins og einhver fullyrti.  Hagræðing og samruni er jú til þess m.a. að fækka starfsfólki ekki rétt?

Eru því ekki allar líkur á að frétt Moggans sé rétt? 


mbl.is Allt að 200 missa vinnu við samruna SPRON og Kaupþings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Má Bubbi Morthens ekki hafa skoðun?

Bubbi Morthens hefur lýst þeirri skoðun sinni að það hefði verið eðlilegra að Björk Guðmundsdóttir og Sigurrós hefðu frekar haldið mótmælatónleika til að vekja athygli á fátækt í landinu en vegna náttúruverndar. Að sjálfsögðu er Bubba frjálst að hafa þá skoðun  sem og ýmsar aðrar sem hann hefur. Hann hefur t.d.  lýst sig andvígan kynþátthatri og barist gegn kvótakerfinu ásamt mörgu fleiru. Þeir sem eru sammála Bubba og þeir sem eru andvígir eiga að sjálfsögðu að ræða málið málefnalega en vega ekki að persónu hans það er lágkúrulegt. 

Allir sem kveða sér hljóðs um þjóðmál eiga rétt á því að þeir sem fjalla um skoðanir þeirra geri það á málefnalegan hátt. Þeir sem vega að persónu viðkomandi eins og fylgdarlið Bjarkar gerir gagnvart Bubba eru komnir út fyrir mörk velsæmis.  ´

Lýsir það e.t.v. málefnalegu rökþroti að bregðast við með sama hætti og fylgdarlið Bjarkar gerir gagnvart Bubba? 


mbl.is Bubbi liggur undir ámælum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ákall um hjálp.

Hún Halla Rut vinkona okkar hefur óskað eftir aðstoð við að vekja athygli á vandamáli vinkonu sinnar sem berst við erfiðan sjúkdóm og þarfnast hjálpar. Í staðinn fyrir að endurprenta upplýsingarnar sem birtast á bloggsíðu Höllu Rutar þá vísa ég í skrif hennar en slóðin er:

http://hallarut.blog.is/blog/hallarut/entry/594049/ 


Er forseta Íslands allt leyfilegt?

Forseti Íslands herra Ólafur Ragnar Grímsson er um margt góður og verðugur þjóðarleiðtogi. Miklu skiptir að forsetaembættið njóti virðingar og á það falli ekki skuggi. Þess vegna hafa samskipti forsetans við ákveðna einstaklinga orkað tvímælis.  Forsetinn er ekki prívatpersóna og verður því að neita sér um ýmislegt vegna virðingar embættisins og hagsmuna íslensku þjóðarinnar.

Mér brá því nokkuð þegar ég sá í dag  forsíðufrétt í Fréttablaðinu með mynd af þeim Dorrit Moussaieff og Mörthu Stewart þar sem sagt er frá því að "bandaríski lífstílsfrömuðurinn Martha Stewart" sé stödd hér á landi og hafi snætt humar með forsetahjónunum á veitingastað á Eyrarbakka í gærkvöldi. 

Martha StewartMartha Stewart var dæmd í fimm mánaða fangelsi árið 2004 fyrir að ljúga að yfirvöldum varðandi viðskipti fyrirtækis síns og innherjaviðskipti. Af þeim sökum fékk hún ekki að koma til Bretlands að sögn breska blaðsins Daily Telegraph. Hægt er að komast inn á fréttina hér. 

Mér finnst ólíklegt að nokkur annar þjóðhöfðingi í norðanverðri Evrópu hefði tekið á móti Mörthu Stewart og boðið henni út að borða. 

Er það viðeigandi að forseti Íslands geri það? 


Svona getur ríkið ekki gert.

LandspítaliLandsspítali Háskólasjúkrahús skuldar birgjum sínum hátt í milljarð. Þessar skuldir eru margar orðnar mjög gamlar. Margir þeirra sem hafa selt sjúkrahúsinu tæki og vörur hafa orðið að þola verulegt gengistap á tímabilinu auk þess að vera í fullkominni óvissu um það hvenær skuldir spítalans þ.e. ríkisins fást greiddar. Aðspurður um málið segir heilbrigðisráðherra að skuldirnar verði greiddar. Í sjálfu sér ekki frétt. Spurningin er hins vegar hvenær ríkið leggur spítalanum til fjármuni til að hann geti greitt óreiðuskuldirnar.

Það er óhæfa að ríkisvaldið skuli ekki sinna fjárþörf stærsta spítala þjóðarinnar betur. Það er óhæfa að ríkisvaldið skuli láta hrannast upp óreiðuskuldir. Það er óhæfa að ríkisvaldið skuli valda einstaklingum og félögum sem selja ríkinu vörur og þjónustu gríðarlegum vanda vegna mikilla vanskila.

Svona stjórn er ekki ásættanleg. Ríkið verður að standa við skuldbindingar sínar. Ríkið verður að sýna gott fordæmi og sýna að það vilji gott viðskiptasiðferði og greiði því óumdeildar skuldir sínar á gjalddaga. Vanskil ríkisins við birgja spítalans hefur keðjuverkun og leiðir til vanskila þeirra sem eiga gudlaugurthormiklar fúlgur inni hjá spítalanum.  Svona gerir maður ekki eins og maðurinn í Seðlabankanum sagði.

Guðlaugur Þór heilbrigðisráðherra. Þér ber skylda til að hlutast til um að fjármálaráðherra leggi nú þegar fram þá fjármuni sem þarf til að tryggja skammlausan rekstur Landsspítala Háskólasjúkrahúss. Finnst þér það boðlegt að ríkisvaldið greiði birgjum spítala ekki fyrir sölu og þjónustu?


Vonandi gerir Kaupþing ekki sömu vitleysu og John Cleese

John Cleese er einn allra besti gamanleikari sem til er. Hann hefur farið á kostum í mörgum hlutverkum m.a. í kvikmyndunum "The life of Brian" og "A fish called Wanda" Þá eru sjónvarpsþættir og margt sem hann hefur gert með Monthy Python hópnum frábært.  Góður grínleikari er ekki endilega góður fjárfestir og nú tapar Cleese á vitlausri fjárfestingu. Ef að líkum lætur á hann samt nóg fyrir sig að leggja.

John Cleese hefur leikið í auglýsingum Kaupþings banka og vonandi eru fjárfestingar Cleese ekki til vitnisburðar um að Kaupþing hafi fjárfest með sama hætti og auglýsandinn.  Þá er það einnig vonandi að Cleese hafi ekki fengið ráðgjöf hjá Kaupþingi þegar hann gerði þessa misheppnuðu fjárfestingu.

En hver getur svo sem ekki gert mistök í lífinu?


mbl.is Cleese fórnarlamb fasteignaverðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.1.): 61
  • Sl. sólarhring: 805
  • Sl. viku: 6260
  • Frá upphafi: 2471618

Annað

  • Innlit í dag: 50
  • Innlit sl. viku: 5711
  • Gestir í dag: 48
  • IP-tölur í dag: 48

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband