Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Hvar er peningamálastefna ríkisstjórnarinnar.

Gengið hefur hrunið undanfarna daga og ekkert lát virðist ætla að verða á því. Fullyrða má að gengi krónunnar sé nú mun lægra en eðlilegt er. Hvað er til ráða? Af hverju fellur og fellur gjaldmiðillinn?

M.a. vegna þess að það vantar skýra stefnumörkun ríkisstjórnar og aðgerðir.

Fólkið í landinu á ekki skilið svona lélega ríkisstjórn.  Það á við jafnvel þó að Winston Churchill fyrrverandi forsætisráðherra Breta  hafi einhverntíma sagt að þjóðir fengju þær ríkisstjórnir sem þær ættu skilið. Þá eigum við ekki skilið ríkisstjórn sem hefur sett kjör í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ofar öðrum málum í forgangsröðinni.


mbl.is Gengi krónunnar lækkar um 4,11%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Of lítið of seint.

Því miður virðist það ætla að verða hlutskipti ríkisstjórnarinnar að standa þannig að málum að gera of lítið og of seint.

Ríkisstjórnin gat vitað að það yrði að gera ráðstafanir strax og hún tók við. Ljóst var að hágengisstefnunni var haldið uppi af ábyrgðarlausu handafli til tjóns fyrir framleiðsluatvinnuvegina. Draga hefði átt úr þennslunni með því að draga saman útgjöld ríkisins.  Það var heldur betur ekki það sem ríkisstjórnin gerði. Ríkisútgjöldin tóku stökk upp á við um rúm 20%. Svo taldi Davíð að hann hefði tök á verðbólgunni með því að hækka og hækka stýrivexti.

Nú er um 15% verðbólga. Gjaldmiðillinn íslenska krónan í frjálsu falli og nauðsyn hefur borið til að mati ríkisstjórnarinnar að taka yfir einn stærsta viðskitpabankann.  Vogunarsjóðirnir eru í miklum vanda og einn bað um griðslustöðvun í dag. Þrátt fyrir þetta brosir forsætisráðherra út í bæði og lætur sem ekkert sé.

Þeir sem halda að það sé bót í máli að Davíð haldi um stjórnvölinn eins og hann gerði þegar hann keyrði strákana sína þá Geir og Árna Matt. heim eftir fundinn í Seðlabankanum, gleyma því að hann hefur stjórnað þessu þjóðfélagi sem forsætisráðherra eða Seðlabankastjóri frá því að flotgengið var tekið upp.

Flotkrónan sem flýtur ekki lengur.

Það hefði e.t.v. verið betra fyrir þessa ágætu menn að hlusta á okkur sem töldum það frá upphafi háskalega stefnu að taka upp þetta kerfi að láta minnsta gjaldmiðil heims vera á floti. Eða hlusta á okkur Frjálslynd fyrir síðustu kosningar þegar við bentum á að það væri hentara að binda krónuna við gengi helstu viðskiptagjaldmiðla með vikmörkum.


Grafalvarlegt ástand.

Forsætisráðherra og Seðlabankastjórar hittast ekki bæði á laugardegi og sunnudegi án þess að það sé eitthvað sem bregðast verður við.  Það getur ekki verið rétt fullyrðing hjá forsætisráðherra að hann hafi dottið svo rækilega úr sambandi þá nokkru daga sem hann var fjarverandi að berjast fyrir kjöri í Öryggisráðið að hann hafi þurft á allri þessari yfirferð að halda. Geir hafði allan tímann aðgang að netinu og var í símasambandi. 

Sé sú staðhæfing rétt hjá Geir að þeir hlutir hafi komið upp þá 4 daga sem hann var í burtu að hann þurfi sérstaklega að fá Seðlabankastjóra og fjármálaráðherra með sér til að kynna sér málið þessa helgi þá er ljóst að það er eitthvað alvarlegt að gerast  því miður.  Spurning er líka afhverju voru bankastjórar Kaupþings banka boðaðir á fundinn í dag. Afhverju þeir en ekki þá bankastjórar allra stóru viðskiptabankanna?

Mér er ljóst að ástandið er grafalvarlegt. Krónan hefur verið nánast í frjálsu falli og sumir af íslensku vogunarsjóðunum eru komnir í erfiðleika. Þess vegna er eðlilegt að helstu ráðherrar ríkisstjórnarinnar fundi ásamt þeim öðrum ráðamönnum í þjóðfélaginu sem nauðsynlegt er að fá til skrafs og ráðagerða.  En alltaf þegar slíkt gerist og fundarhöld eins og þessi eru þá er ljóst að erfiðleikar eru og það borgar sig betur að segja þjóðinni allt af létta og vera tilbúinn til að taka á vandanum en að láta eins og ekkert sé.


Arfleifð Bush þvælist fyrir John McCain

John McCain stóð sig vel í fyrstu kappræðum forsetaframbjóðendanna í Bandaríkjunum í nótt. Obama var ekki í sama stuði og oft áður og stundum virtist mér hann vera óöruggur og jafnvel þreyttur.  Hann sótti þó í sig veðrið fannst mér og John Mc Cain á við þann vanda að etja sem frambjóðandi Repúblikana að vera fulltrúi flokks sem ber ábyrgð á miklum mistökum í utanríkismálum og ber þar hæst innrásin í Írak. Bandaríkjamenn ættu sem fyrst að koma sér þaðan og einnig út úr Afghanistan. Hvaða tilgangi þjónar það að fórna lífi og limum ungs fólks ár eftir ár í tilgangslausu stríði við lítt sýnilegan óvin.

Efnahagslægðin og vandamálin framunan ættu líka að verða vatn á myllu Obama en John Mc Cain náðí að komast ágætlega frá þeim þætti kappræðnanna. John Mc Cain nýtur þess e.t.v. núna að hann er búinn að vera óþæga barnið í Repúblikana flokknum svo árum skiptir. 

John Mc Cain stóð sig mjög vel tæknilega og betur en ég átti von á. Obama stóð sig ekki alveg eins vel og ég átti von á. Ég átti raunar von á því að hann mundi brillera en hann gerði það ekki. Eftir því sem ég fékk best greint þá var ekki hægt að greina á milli frambjóðendanna. Báðir góðir en ekki afgerandi góðir.


mbl.is Efnahagsmálin efst á baugi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nauðsynleg aðgerð.

Það er löngu tímabært að ríkisvaldið grípi til aðgerða til aðstoðar skuldsettum íbúðarkaupendum sem hafa lent í miklum greiðsluerfiðleikum vegna gríðarlegrar hækkunar á afborgunum lánanna.  Höfuðstóll verðtryggðu lánanna hækka og hækka með gegnisfalli krónunnar og aukinni verðbólgu. Við slíkar aðstæður þar sem við erum með verstu lán í heimi fyrir lántakendur er eðlilegt að grípa til aðgerða vegna þeira óvenjulegu aðstæðna sem hafa skapast fyrir tilstuðlan ríkisstjórna undanfarinna ára og Seðlabankans.

Spurning er þá í hvaða formi á að gera það. Á að gera það í gegn um Íbúðarlánasjóð eða með einhverjum öðrum hætti. Í fljótu bragði sé ég ekki annan aðila heppilegri til að hafa með endurfjármögnun lánanna að gera. Þá skiptir máli með hvaða hætti og á hvaða kjörum lánað er. Spurning gæti verið í því sambandi að fólki yrði boðið upp á gengistryggð lán þar sem ætla má að lækkun krónunnar sé að verulegu leyti komin fram og með því dregið úr vægi þess óréttlætis sem verðtryggðu lánin valda.

Verðtryggðu lánin munu hækka mjög mikið á næstu mánuðum það er fyrirséð vegna þeirrar verðbólgu sem er til staðar. Þess vegna er líklegt að bestu kjörin úr því sem komið er væri að bjóða fólki upp á gengisbundin lán. Þá lækka lánin alla vega við hverja afborgun í þeim gjaldmiðli sem lánið er tekið í.

Ríkisstjórnin má ekki sofa lengur á verðinum í þessu máli. Svefninn er þegar orðinn of langur. Ég benti á að nauðsyn bæri til að grípa til aðgerða varðandi skuldsetta íbúðakaupendur í umræðum á Alþingi s.l. vor en á þeim tíma sagði forsætisráðherra að botninum væri náð og ríkisstjórnarflokkarnir og einn stjórnarandstæðingur tóku í sama streng og töldu ekki vera mikil vandamál framundan.


mbl.is Gæti bjargað fjölskyldum frá gjaldþroti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af vatninu dýra.

Ég áttaði mig á því við skoðun á verðlagi á ýmsum hlutum í Brussel borg í gær og fyrradag að íslenska krónan er komin undir það sem eðlilegt er miðað við verðmun á ýmsum nauðsynjum og munum í Evrulandinu og hér heima. Hægt er að nefna mörg dæmi en ég læt nægja að nefna eitt reynsluna af  vatninu dýra.

Þar sem að neysluvatn í krönum í Brussel borg er með þeim hætti að maður drekkur það ekki til ánægju og yndisauka þá fékk ég mér á síðkvöldi á hótelherberginu mínu vatn úr minibarnum. Þar sem ég á ekki mikil viðskipti við þann bar þá er ég e.t.v. meðvitaðri um verðlag en ýmsir aðrir en e.t.v. er það neytendaáhuginn sem segir til sín. Hvað sem því líður þá sá ég að verð á 25cl. flösku af hreinu og ómenguðu vatni kostaði hvorki meira né minna en 3.50 Evrur. Mér reiknast þannig til að líterinn af vatninu kosti um 2000 krónur.

Við ættum aldrei að gleyma hvað við eigum gott að geta skrúfað frá kananum og fengið okkur gott og ómengað vatn að drekka sem kostar - nánast ekki neitt.


Þvílíkt rugl.

Ég sá það þegar ég komst loks í tölvu hér út í Brussel að stjórn Kjördæmafélags Reykjavíkur Norður hefði skorað á Sigurjón Þórðarson að gefa kost á sér í formannskjöri á næsta landsfundi flokksins. Í framhaldi af því þá ryðjast fram ýmsir spekingar sem halda því fram að þetta sé undan mínum rifjum runnið og þarna séu mínir stuðningsmenn og/eða Nýtt afl að standa að aðför að formanni flokksins

Þetta er endemis rugl.

Ég hef talað við formann kjördæmafélagsins og það liggur fyrir að þeir tveir stjórnarmenn sem greiddu atkvæði gegn tillögunni um að skorað yrði á Sigurjón Þórðarson til að gefa kost á sér voru báðir úr Nýju afli en þeir sem greiddu tillögunni atkvæði hafa verið í Frjálslynda flokknum mun lengur og alla vega einn frá upphafi. Þeir sem greiddu atkvæði á móti tillögunni eru menn sem eru í nánum tengslum og vinfengi við mig. Það er nú staðreyndin í málinu.

Því fer fjarri að ég hafi nokkuð með þetta að gera og ítreka að ég hef lýst yfir stuðningi við sitjandi formann.  Þeir sem halda því fram að ég hafi með þessa ályktun að gera eða meinta aðför að formanni flokksins eru að gera það gegn betri vitund eða þá að þeir eru einfaldlega illa upplýstir og ættu þá að kynna sér málin áður en þeir fara að bullukollast á bloggsíðum eða öðrum fjölmiðlum.


Evra án aðildar kemur ekki til greina.

Það er athyglivert að þeir sem Evrópunefndin hefur hitt frá Evrópusambandinu á fundum sínum með þeim í Brussel telja fráleitt að Ísland geti tekið upp Evruna með samþykki Evrópusambandsins nema ganga í Evrópusambandið.

Ég hef ítrekað spurt að því hvort það sama gildi ef öll EES ríkin mundu sækja um þá breytingu og eða útvíkkun á grundvelli EES samningsins að taka myntsamstarfið og Evruna án aðildar að Evrópusambandinu og því hefur einnig verið svarað afdráttarlaust neitandi.

Enn eigum við eftir að hitta fjölmargt áhrifafólk Evrópusambandsins hér í Brussel og það verður fróðlegt að heyra hvort það hefur allt sömu afstöðu og þeir sem við höfum rætt við til þessa.

Við höfum m.a. verið spurð að því hvað er vandamálið við að ganga í Evrópusambandið af hverju eruð þið endalaust að tala um að taka upp Evru án aðildar eða taka meira af Evrópusambandsreglunum án aðildar. Hvað er vandamálið.  Þegar svarað var spurning um yfirráð yfir fiskimiðunum þá var svarið einfaldlega. Af hverju talið þið þá ekki um það. Af hverju talið þið ekki um það sem máli skiptir fyrir ykkur í samskiptum við Evrópu ef þið viljið nánara samstarf eða aðild.

Spurning er fyrst og fremst hvað við viljum vera. Viljum við nánara samstarf við Evrópu eða ekki. Ef við viljum nánara samstarf þá er eðlilegt að taka upp viðræður um það sem máli skiptir.

 


Geir H. Haarde og Gordon Brown

GhhgordonbrownBáðir eiga þeir Geir Haarde  og Gordon Brown það sameiginlegt að hafa verið fjármálaráðherrar áður en þeir tóku við forsætisráðherraembætti eftir þrásetu forvera sinna. Þeir eiga það líka sameiginlegt að hafa setið sem fjármálaráðherrar meðan myntir landa þeirra hækkuðu umfram flestar aðrar sem og húsnæði og skuldir heimilanna í báðum löndum.

Eftir stjórn þeirra Geirs og Gordons er efnahagskerfið í báðum löndum í miklum vanda. Gengi gjaldmiðlanna hefur fallið þó meira hér en í Bretlandi. Verðbólga vex þó meira hér en í Bretlandi. Hins vegar er meiri raunlækkun á húsnæði í Bretlandi en hér að því er mér virðist en má þó ekki miklu muna miðað við gengi krónunnar í síðustu viku.  Í báðum löndum hefur fjármálaþjónusta vaxið mikið í valdatíð þeirra Geirs og Gordons. Fylgið hrynur af báðum samkvæmt skoðanakönnunum. Þannig eiga þeir þetta sameiginlegt og vafalaust margt fleira þeir Geir og Gordon.

Nú bíð ég spenntur eftir því að þingi Verkamannaflokksins í Bretlandi ljúki.  Þá má væntanlega sjá vísbendingar um stefnumörkun Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum, en breski Verkamannaflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa nánast gengið í takt undanfarin áratug með tilheyrandi aukningu ríkisútgjalda og fjölgun opinberra starfa.  Munurinn er sá að Verkamannaflokkurinn hefur það á stefnuskrá sinni að blása út báknið en Sjálfstæðisflokkurinn hefur hingað til vilja megra ríkiskerfið.

Spurning er hvort að Sjálfstæðisflokkurinn þarf ekki að fara í hugmyndafræðilega endurhæfingu?


mbl.is Enginn bilbugur á Brown
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott þing Neytendasamtakanna.

Þingi Neytendasamtakanna var að ljúka. Þingið var fjölmennt og mikil eindrægni og samstaða ríkti á þinginu.

Sennilega er fréttnæmasta ályktun þingsins þessi:

" Þing Neytendasamtakana telur tímabært að við  látum reyna á það með aðildarviðræðum hvort hægt sé að ná viðunandi samningum í málum sem varða sjávarútveg og landbúnað. Ljóst er að hagsmunir heimilanna í þessu máli eru það miklir að ekki er ástæða til að bíða lengur að láta reyna á þessa þætti með aðildarviðræðum. Það yrði að sjálfsögðu þjóðin sem tæki lokaákvörðun um ESB aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar samningar liggja fyrir."

Þessi tillaga var samþykkt af 87% þeirra sem greiddu atkvæði en 13% þeirra sem atkvæði greiddu voru á móti.  Afstaðan innan Neytendasamtakanna er því afgerandi.

Það var ánægjuleg tilbreyting að vera á fjölmennum fundi þar sem eindrægni, vinátta og baráttuandi var einkennandi fyrir stemmninguna. 


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.1.): 64
  • Sl. sólarhring: 807
  • Sl. viku: 6263
  • Frá upphafi: 2471621

Annað

  • Innlit í dag: 53
  • Innlit sl. viku: 5714
  • Gestir í dag: 51
  • IP-tölur í dag: 51

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband