Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Öflugan víðsýnan Sjálfstæðisflokk

SjálfstæðisfálkinnÍ vikunni sem leið hætti ég að vera þingmaður utan flokka og gekk í Sjálfstæðisflokkinn. Ellert B. Schram vinur minn alþingismaður Samfylkingarinnar sagði  mig sérstakan kjarkmann að ganga í Sjálfstæðisflokkinn við þessar aðstæður.

Við Ellert gegndum á árum áður ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn sátum m.a. báðir á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn.  Ellert sem kjörinn þingmaður en ég varaþingmaður  tvö kjörtímabil.  Við vorum auk þess báðir  formenn Sambands ungra Sjálfstæðismanna. Leiðir okkar og Sjálfstæðisflokksins skildu  en ég hef aldrei getað eða viljað fara vinstra megin við línuna eins og Ellert gerði. 

Ég er einstaklingshyggjumaður og tel fólki best borgið þeim mun minni sem ríkisafskipti eru og þeim mun minni skattheimta.  Ellert og mágur hans Jón Baldvin Hannibalsson telja það hugdirfsku við þessar aðstæður að ganga í Sjálfstæðisflokkin. Ég met það hins vegar sem heilbrigða skynsemi miðað við þær aðstæður sem fyrir hendi eru í íslenskum þjóðmálum í dag. Nú skiptir máli fyrir alla þá sem vilja sem mest einstaklingsframtak og minnst ríkisafskipti að skipa sér  í Sjálfstæðisflokkinn til að mynda öfluga brjótstvörn gegn sósíalismanum, gegn skattheimtu og aukinni ríkisvæðingu.  Af þeim ástæðum geng ég í Sjálfstæðisflokkinn vegna þess að ég vil leggja mitt að mörkum til að byggja upp víðsýnan, öflugan lýðræðisflokk. 

Það er líka aukinn hvati til að ganga í flokkinn þegar hann á erfiðleikum af því að ég vil taka þátt í að byggja hann upp að nýju eftir að flokkurinn tapaði um of tengslum við þá hugmyndafræði sem gerði Sjálfstæðisflokkinn á sínum tíma að langstærsta flokki þjóðarinnar.

Þegar flokkurinn á í erfiðleikum eins og nú þá tel ég líklegra að flokksmenn séu tilbúnir til að endurskoða stefnu og störf flokksins. Gaumgæfa það sem aflaga fór og leggja sig fram um að gera betur.  Af fenginni reynslu eftir setu á Alþingi þá tel ég  líklegra til árangurs fyrir áhugafólk um ákveðnar þjóðfélagsbreytingar að  skipa sér í fylkingu með starfandi öflugum stjórnmálaflokkum sem mögulegt er að taki upp þær megináherslur. Við höfum  ekki löggjöf sem heimilar bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur um einstök deilumál og við þær aðstæður verður að koma þeim í gegn um stjórnmálaflokkanna.   

Stór hluti þeirra sem mynduðu og standa að Frjálslynda flokknum er fólk sem kom úr Sjálfstæðisflokknum. Færa má að því rök að heppilegra hefði verið þegar málið er skoðað í baksýnisspeglinum að fólk hefði haldið baráttunni áfram innan  flokksins í stað þess að mynda nýjan flokk. 

Þegar ég nú geng í Sjálfstæðisflokkinn þá hefur enginn lofað mér neinu hvorki framboðssæti né stöðu. Ég hef heldur ekki farið fram á það. Afskipti mín af pólitík og pólitísk barátta hefur alltaf verið á grundvelli hugsjóna en aldrei á grundvelli loforða eða tylliboða.   Ég  hef ekki látið af neinum þeim málum, hugsjónum  eða málflutningi sem ég tel skipta mestu og ég hef barist fyrir undanfarin ár.  Þannig mun ég áfram berjast gegn gjafakvótakerfinu en nú á vettvangi Sjálfstæðisflokksins utan eða innan þings eftir atvikum.  Ég mun berjast fyrir eðlilegum lánakjörum fólksins í landinu og fyrirtækjanna í landinu.  Ég mun berjast fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn taki aftur upp stefnu mannúðlegrar markaðhyggju svo sem ég hef barist fyrir alla tíð frá því að ég hóf afskipti af stjórnmálum.

Ég tel raunar að Sjálfstæðisflokkurinn geti fljótt orðið sá öflugi víðsýni þjóðarflokkur sem hann var áður takist vel til með forustuskipti í flokknum og  megináherslur í þjóðmálum.

(Birtist sem grein í Morgunblaðinu 26.febrúar)


Hvaða ábyrgð ber Ingibjörg sem Jóhanna ber ekki?

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ætlar að sækjast áfram eftir formennsku í Samfylkingunni. Þær Jóhanna Sigurðardóttir og Ingibjörg Sólrún virðast nú hafa gengið í stórveldabandalag innan Samfylkingarinnar gegn hugsanlegu framboði Jóns Baldvins Hannibalssonar.

 Jón Baldvin Hannibalsson heldur því fram að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir eigi að víkja þar sem að hún þurfi að axla ábyrgð á efnahagshruninu. Á sama tíma segist Jón Baldvin styðja Jóhönnu Sigurðardóttur.

Spurning hlítur að vakna vegna þessara ummæla Jóns Baldvins hvaða ábyrgð þarf Ingibjörg Sólrún að axla sem að Jóhanna Sigurðardóttir þarf ekki að axla.  Sátu þær ekki saman í fráfarandi ríkisstjórn? Sátu þær ekki í ríkisstjórn þegar efnahagshrunið varð? Í hverju er ábyrgð Ingibjargar Sólrúnar fólgin?  Hvers vegna telur Jón Baldvin að Jóhanna Sigurðardóttir sé ábyrgðarlaus þó að hún sæti í þeirri sömu ríkisstjórn og Ingibjörg Sólrún? 

Er það ekki svo að beri Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ábyrgð á efnahagshruninu vegna setu í síðustu ríkisstjórn, þá ber Jóhanna Sigurðardóttir það líka?


mbl.is Ingibjörg býður sig fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vond tillaga

Þetta var ekki afgreitt með þessum hætti úr viðskiptanefnd. Tillagan var upphaflega með þessum hætti en eftir umræður í nefndinni þá breytti meirihlutinn tillögunni eftir að við í minnihlutanum höfðum bent á ýmis vandkvæði hvað hana varðar.  Það er sérkennilegt að það skuli ekki koma fram í fréttinni hver endanleg afgreiðsla meirihlutans var og af hverju meiri hlutinn kaus að breyta tillögunni.  Þessi tillaga Höskuldar gengur raunar þvert á þá aðferðarfræði sem er í þeim tillögum nefndar Evrópusambandsins sem kynntar voru í dag og viðskiptanefnd beið eftir.

Hvers vegna vildi Höskuldur  bíða eftir niðurstöðu Evrópunefndarinnar fyrst hann sá ekki ástæðu til að fara að neinu leyti eftir því sem kemur fram í áliti hennar?  Fróðlegt verður að fá svör við því.


mbl.is Peningastefnunefnd skal gefa út viðvörun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilyrðislaus uppgjöf eða nýir tímar?

Jón Baldvin Hannibalsson segir í grein sem hann nefnir “Skilyrðislaus uppgjöf” að undirritaður hafi loks ratað heim í Sjálfstæðisflokkinn og gleymd sé öll gagnrýni á Sjálfstæðisflokkinn út af gjafakvótanum og annarri kerfislægri spillingu og öðru sem hann rekur með þeim hætti sem aflaði honum slíks fylgis sem formanns Alþýðuflokksins að hann fann þann kost vænstan að Alþýðuflokkurinn yrði lagður í dvala og eingöngu tekin úr múmíuhulstrinu þegar fyrrum foringinn þarf að tala.  

Það er rétt að ég hef verið gagnrýninn á Sjálfstæðisflokkinn þau 18 ár sem ég hef verið utan hans. Ég taldi óráð að krónan yrði látin fljóta og nauðsyn að marka aðra peningamálastefnu. Ég var og er á móti gjafakvótakerfinu og tel forgangsatriði að vextir og lánakjör í landinu verði með sama hætti og í nágrannalöndum okkar svo nokkuð sé talið. Jón Baldvin veltir fyrir sér hvort Jón Magnússon sé að umbuna “íhaldinu” eða hvort aumingjagæska hans sé komin á svo hátt stig að hann telj eðlilegt að rétta fram sáttfúsa hjálparhönd.  Til skýringar fyrir nafna minn  þá er  hvorki um umbun eða aumingjagæsku að ræða.  

Ég met það svo að nýir tímar séu komnir í Sjálfstæðisflokknum. Ný kynslóð og forusta er að taka við. Hún hefur aðrar áherslur og ég vil taka þátt í þeirri vegferð með henni að beina Sjálfstæðisflokknum á þá braut að hann verði á nýjan leik flokkur allra stétta og starfi í þeim anda mannúðlegrar markaðshyggju sem gerði flokkinn að stórum víðsýnum fjöldaflokki.  

Sumir segja að kjósendur hafi gullfiskaminni, slíkt á varla við um Jón Baldvin. Það er  því merkilegt að maðurinn sem barðist harðast fyrir sameiningu vinstri manna, guðfaðir Samfylkingarinnar, þar sem  Alþýðuflokksmenn, Kommar og Konulistinn runnu saman að mestu leyti, skuli ekki muna að hann lagði áherslu á að með slíkri sameiningu næðu vinstri menn að vera stjórnmálaafl sem væri einhvers megnugt í íslenskum stjórnmálum. Með sama hætti greini ég það nú  þegar vinstri menn boða aukna þjóðnýtingu, aukna skattheimtu og upplausn ríkir í þjóðfélaginu,  að þá beri brýna nauðsyn til að við sem hægra megin erum í stjórnmálum sameinumst um að styrkja Sjálfstæðisflokkinn sem brjótvörn frjásrar atvinnustarfsemi, lýðræðis og allsherjarreglu í landinu.

 

Birt í Fréttablaðinu 24.febrúar. 


Alvörugjaldmiðil

Umræður á Alþingi um þingsályktunartillögu mína um að kanna möguleika á  myntsamstarfi við Noreg eða taka upp fjölþjóðlega mynt stóð meginhluta af deginum. Vissulega greindi fólk á hvort betra væri að leita eftir myntsamstarfi við Noreg eða taka upp Evru eða jafnvel athuga með Bandaríkjadal eða jafnvel aðrar fjölþjóðlegar myntir. Eitt voru þó allir sammála um sem tóku til máls en það var að til frambúðar yrði ekki búið við íslensku krónuna.

Illugi Gunnarsson flutti athygliverðar ræður þar sem hann rakti m.a. peningamálastefnu liðinna ára. Valgerður Sverrisdóttir gerði grein fyrir hugmyndum um svipaði efni sem hún setti fram fyrir nokkrum árum.

Mér fannst það athyglivert að víðtæk samstaða skuli vera á Alþingi um það að nauðsynlegt sé að taka upp fjölþjóðlega mynt og ekki verði búið við krónuna á floti til frambúðar. Með tillkomu fjölþjóðlegrar myntar mætti líka henda hækjum krónunnar eins og verðtryggingu.

Nú er spurningin hvort að taka á upp Norska krónu

Danska krónu

Dollar

Evru (með eða án samninga)

Eða jafnvel Enskt pund eða Yen eða svissneskan franka.

En krónan gengur ekki ein og sér á floti í ólgusjó spekúlanta og pappírsbaróna.


Öllu má nú nafn gefa

Hópur "mótmælenda" kom saman á Lækjartorgi í gærkvöldi og kveikti þar bálköst segir í frétt af því sem gerðist í miðbæ Reykjavíkur í gærkvöldi. En hverju var fólkið að mótmæla? Það kemur ekki fram í fréttinni.

Er það rétt að kalla fólkið sem kveikti bál í miðbæ Reykjavíkur í gær mótmælendur? 

Ekki veit ég hverjir voru þarna að verki en ljóst er að nokkuð skipulag hefur  verið vegna þess að bíll sá um aðdrætti að eldsmat.  Svona framkoma á ekkert skylt við þjóðfélagsbaráttu. Í daglegu mæltu máli er eðlilegra að kalla svona háttalag skrílslæti. 

Af hverju nota fjölmiðlar ekki eðlileg orð og hugtök yfir þá sem valda lögreglu og venjulegu fólki erfiðleikum og vinnur skemmdarverk á eigum einstaklinga og þjóðfélagsins.


mbl.is Bál kveikt á Lækjartorgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skipulögð glæpastarfsemi?

Hrunbankarnir, Kaupþing, Landsbankinn og Glitnir voru umboðsaðilar um 90 fjármálafélaga sem skráð eru á Tortola eyju í Karíbahafi. 

Af hverju þurftu bankarnir að skrá þessi félög á Tortola eyju? Var fjármálaumhverfið á Íslandi ekki nógu gott þrátt fyrir að fjármagnstekjuskattur og skattar á fjármálafyrirtæki séu með því lægsta sem gerist.

Fróðlegt verður að sjá ef hægt verður hvaða millifærslur fóru milli bankanna og þessara félaga og með hvaða hætti þau höfðu áhrif á bókhald og eignauppgjör bankanna. Þeim mun meira sem fýkur af starfsemi hrunbankanna þá kemur meira og meira eitur í ljós og eignastaða þeirra reynist vera ótrúlega léleg þrátt fyrir að þeir hafi árum saman skilað methagnaði og verið með góða eiginfjárstöðu samkvæmt bókhaldi sem þeir birtu í ágúst 2008 tæpum tveim mánuðum fyrir hrun.

Mér finnst kominn tími til að fjölmiðlamenn elti uppi bankastjóranna í hrunbönkunum og bankaráðsmenn og hlýði þeim rækilega yfir hvað þeir voru að gera.  Spurningin er líka af hverju hafa fjölmiðlarnir ekki gert það? Hvað hefur hindrað þá í því?


mbl.is Félög skráð á Tortola eru 136 talsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vanhugsuð orð.

Forseti lýðveldisins hefur valdið ómældum skaða með ummælum þeim sem höfð eru eftir honum í fjármálatíðindum í Þýskalandi þar sem hann endurtekur orð Seðlabankastjórans eina, "við borgum ekki".  Það kemur til viðbótar við frásögn af deilum forsetahjónanna í boði fyrir blaðamann á Bessastöðum sem greint var frá fyrir nokkru.  Allt er þetta dapurlegt og til þess fallið að valda þjóðinni meiri erfiðleikum en ella þarf að vera.

Steingrímur Sigfússon sat í gær með uppsögn stjórnarformanna Nýja Glitnis og Nýja Kaupþings tveggja valinkunnra sómamanna sem töldu eðlilegt að segja af sér í framhaldi af því sem ráðherrar í höfðu tjáð sig um varðandi bankamálin.  Fjármálaráðherra hefur beðið þá um að sitja áfram. Samt sem áður þá sýnir þetta ákveðinn vandræðagang sem á ekki að vera í stjórnkerfinu við þessar aðstæður.

Ástandið og framtíðin eru nógu óræð og fyrirsjáanlega erfið. Það er vandmeðfarnara en áður að fara með opinber völd hvort heldur um ráðherra eða forseta er að ræða. Orð geta verið og eru dýr. Þess verður að krefjast að forustumenn þjóðarinnar og í stjórnmálum fjalli ekki um mál með þeim hætti að dragi enn úr virðingu þjóðarinnar og trausti á því vanmáttuga efnahagskerfi sem við búum við.

Á hverjum degi koma vondar fréttir úr fjármálalífi landsins. Straumur með hundrað milljarða halla, Baugur í greiðslustöðun. Bílaumboðið Hekla yfirtekið af Kaupþingi svo nefndar séu fréttir síðustu daga.  Bara það sýnir hvað ástandið er grafalvarlegt.

Við höfum ekki efni á orðagjálfri og ótímabærum og ruglingslegum yfirlýsingum.  Það þarf stefnumörkun og stjórnun ekki orðagjálfur.


Business as usual

Forsætistráðherra og fjármálaráðherra tala um hvað ástandið sé grafalvarlegt. Mér er nær að halda að ástandið sé samt alvarlegra en þau gera sér grein fyrir.

Meir en 14 þúsund eru atvinnulausir. Verðtrygging og gengiskörfur hafa breytt mörgum húsnæðislánum í undirmálslán þar sem betra er fyrír fólk að skila lyklunum.  Úrræði ríkisstjórnarinnar til atvinnusköpunar eða við vanda þeirra sem skulda húsnæðislán eru takmörkuð. Enn hefur ríkisstjórnin ekki kynnt aðgerðir sem líklegar eru til að breyta ástandinu svo neinu nemi til hins betra.

Í dag var ekkert sem máli skipti frá ríkisstjórninni á dagskrá Alþingis af því að ríkisstjórnin er ekki tilbúin með neitt.  Það var business as usual án mikilla takmarka eða tilgangs.

Og enn situr Davíð

Ef svo heldur áfram að ríkisstjónin ungi engu frá sér sem máli skiptir verður hún bæði úrræðalaus og ónýt ríkisstjórn. Satt að segja vona ég að það eigi ekki eftir að henda Jóhönnu Sigurðardóttur að vera forsætisráðherra slíkrar ríkisstjórnar en mér sýnist allt stefna í það.

 


Dorrit ekki meir ekki meir

dorritogoliForsetafrú Íslands er óviðjafnanleg.  Hún  segist hafa séð efnahagshrunið fyrir löngu áður en það varð.  

Af hverju sagði Dorrit engum frá þessu fyrr en skaðinn var skeður. Mátti hún það ekki af því að maðurinn hennar fer með hana eins og Arabakonu hvað svo sem það þýðir.

Hvar eru ríku vinir forsetahjónanna núna sem hafa verið í frírri gistingu á kostnað þjóðarinnar þegar þeir hafa komið til landsins. Gufuðu þeir upp um leið og efnahagskreppan hófst í landinu?

Hvað skyldu þær milljónir lesenda sem lesa fréttina, sjá hér: af samtali blaðamannsins við forsetahjónin hugsa.

Að Ísland sé Afríkuland í Evrópu?  


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 15
  • Sl. sólarhring: 427
  • Sl. viku: 4231
  • Frá upphafi: 2449929

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 3942
  • Gestir í dag: 13
  • IP-tölur í dag: 13

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband