Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Hvernig hefði Sigmundur fréttastjóri tekið á máli Sigmundar þingmanns.

Sigmundur Ernir er fyrrum fréttastjóri á Stöð 2. Á þeim tíma þótti Stöð 2 oft óvægin í umfjöllun sinni um einstaklinga. Þess vegna velti ég því fyrir mér hvernig Sigmundur Ernir fréttastjóri hefði tekið á því þegar Sigmundur Ernir þingmaður mætti fullur í vinnuna, sagði ósatt og baðst loks afsökunar án þess að gera grein fyrir því af hverju hann var að biðjast afsökunar.  Hefði Sigmundur Ernir fréttastjóri sagt að þetta væri bara stormur í rauðvínsglasi?

Þó það sé einfaldara að skilja fyllerí og ósannindi en golf og veisluhöld í boði auðhringja þá finnst mér það mun frekar þarfnast skýringa af hálfu þingmannsins Sigmundar Ernis. Hann þiggur boð MP banka í golf og veislu. Daginn eftir boð í golf og viðgjörning hjá 365 miðlum sem hafa nýlega fengið 4 milljarða skuld sína frysta eftir því sem sagt hefur verið í fjölmiðlum.  Af hverju var þingmanninum Sigmundi Erni boðið til þessara veisluhalda af hálfu þessara fyrirtækja og hvaða gjald skal greiða fyrir gjöfina.

Sigmundur Ernir alþingismaður skuldar þjóðinni skýringar á því.


Eignirnar brenna upp á verðbólgubálinu.

Gengishrun og bankahrun í lok árs 2008 kallaði á aðgerðir ríkisstjórnar strax. Úrræði ríkisstjórnar Geirs H. Haarde í þeim málum voru engin.  Sú ríkisstjórn splundraðist rúmum 100 dögum eftir hurnið. Nú hefur ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur verið við völd í rúma 200 daga og úrræði hennar eru engin.

Félagsmálaráðherra talar eins og véfrétt um að eitthvað þurfi að gera en hann veit ekki hvað. Aðrir ráðherrar vita heldur ekki hvað á að gera.

Lausnin er einföld. Við eigum að byggja upp lánakerfi sem er sambærilegt og samskonar og í öðrum löndum í okkar heimshluta. Afnema verðtryggingu það er forgangsatriði. Strax við hrunið átti að frysta verðtrygginguna og gengislánin með neyðarlögum um lánamál.  Það er enn meira aðkallandi nú og verður að gera. Með því yrðu lánamálin færði í svipað horf og í nágrannalöndunum.

Í öllum löndum í okkar heimshluta hjálpar verðbólgan til að leysa vanda skuldsetts fólks en hér er hún versti óvinur skuldara. Óðaverðbólgan sem hér hefur verið nú 10% brennir upp eignir fólksins. Verðbólgan í verðtryggingarþjóðfélaginu er eins og þjófur sem er alltaf til staðar og stelur eignunum þínum. 

Ríkisstjórn sem áttar sig ekki á að það verður að vera virkur sterkur gjaldmiðill og lánakjör eins og gerist í okkar heimshluta er ekki fær um að vera við völd. Hún skilur ekki ætlunarverk sitt. Sama gegnir raunar um alla stjórnmálamenn sem átta sig ekki á því að lengra verður ekki haldið á braut verðtryggingar og hávaxtastefnu allt til að vernda ónýtan gjaldmiðil.

Geta ráðamenn ekki vaknað þegar lán venjulegrar fjölskyldu hækka um hundruð eða hundruðir þúsunda við hver mánaðarmót.

Þjóðfélag sem líður svona gegndarlaust óréttlæti getur ekki staðist.


Af hverju var þingmaðurinn í boði MP banka?

Sigmundur Ernir Rúnarsson alþingismaður var í matarboði MP banka áður en hann hélt niður á Alþingi og fór ítrekað ölvaður í ræðustól Alþingis.

Sigmundur Ernir er ekki fyrsti þingmaðurinn sem fer í ræðustól Alþingis undir áhrifum áfengis en vonandi sá síðasti.  Í sjálfu sér gæti þingmaðurinn viðurkennt að hafa verið ölvaður og beðist þing og þjóð afsökunar á því. En það er annað verra.

Í fyrsta lagi þá segir þingmaðurinn ítrekað ósatt.  Hann sagði ósatt þegar hann sagðist ekki hafa drukkið áfengi. Í öðru lagi þá segir hann ósatt þegar hann segist ekki hafa fundið til áfengisáhrifa þegar hann hélt ræðu sína á Alþingi. Það duldist engum sem á horfði að maðurinn var sauðdrukkinn þegar hann hélt ræður sína í umrætt sinn. Það er betra fyrir þingmanninn að viðurkenna það því þá veit þjóðín að hann var fullur en er ekki svona heimskur.

Annað situr þó eftir sem er jafnvel enn umhugsunarverðara. Sigmundur Ernir Rúnarsson alþingismaður var í boði MP banka á golfmóti og í kvöldverði. Hverjum var boðið og af hverju? Hafa verður í huga að MP banki á töluvert undir ríkisvaldinu varðandi starfsemi sína á næstunni. Var fleiri þingmönnum og ef til vill ráðherrum boðið? 

Þingmaðurinn getur viðurkennt að eiga við áfengisvandamál að stríða og tekið á því og væri þá maður að meiri. Hann ætti auk þess að biðjast afsökunar á því að reyna ítrekað að ljúga að þjóðinni.

En það sem eftir stendur er það að hann verður að gefa þjóðínni fullnægjandi skýringu af hverju hann var í boði MP banka og er það rétt sem hefur flogið fyrir að hann hafi einnig þegið nýlega viðgjörning af hálfu 365 miðla ehf. alias Rauðsól ehf.?

Það að mæta ölvaður í vinnuna er virðingarleysi fyrir því starfi sem menn gegna og virðingarleysi fyrir samstarfsfólki sínu.  Þó það hafi áður gerst að þingmenn hafi verið undir áhrifum í ræðustól Alþingis þá á það ekki að líðast og ég velti því fyrir mér þegar ég horfði á Forseta Alþingis í forsetastól af hverju forseti greip ekki inn í atburðarrásina þegar henni varð ljóst að þingmaðurinn var sauðdrukkinn. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir forseti Alþingis skuldar þjóðinni skýringar á því. Ástand þingmannsins gat ekki hafa farið framhjá henni og henni bar að gera athugasemd úr forsetastól þó að þingmaðurinn sé í Samfylkingunni eins og forseti Alþingis. 

En Sigmundur Ernir reynir og reynir að segja þjóðinni að þetta hafi ekkert verið eða eins og einu sinni var kveðið.

Líf mitt er fjölmiðlaleikur

og langoftast brosi ég keikur

En mér brá er ég sá

Þá ég birtist á skjá

Svona blind ösku þreifandi veikur.

 


mbl.is Fékk sér léttvín með mat
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver á Bónus?

Kaupþing er með 96% veð í fyrirtækinu Hagar sem rekur m.a. Bónus og Hagkaup. Þeirri spurningu er ósvarað hvort fyrirtækið er meira virði en skuldir þess við Kaupþing. Hver er þá hinn raunverulegi eigandi? Er það Kaupþing eða eru það hluthafar í fyrirtækinu?  Formlega séð eru það hluthafarnir og þeir reka fyrirtækið.

Í markaðsþjóðfélagi er miðað við það að eigandinn taki áhættuna og líði fyrir rangar ákvarðanir ef illa fer en græði ef hagnaður verði á fyrirtækinu. Nú hefur þessari meginforsendu markaðsþjóðfélagsins verið snúið á haus. Öll áhættan er hjá lánastofnunum, sem tapar peningunum ef illa fer en fær aldrei gróðann. Gróðinn fer til þeirra sem reka fyrirtækið.

Þessi tegund af öfugsnúnu markaðssamfélagi leiddi m.a. til bankahrunsins.  Þegar upp er staðið lendir ábyrgðin á skattgreiðendum. Icesave ábyrgðin er ein birtingarmynd þess.

Hvað þá með hina sem eiga fyrirtækin sín og reka á eigin áhættu. Af hverju eiga þeir að sætta sig við að samkeppnisfyrirtæki séu nú rekin í stórum stíl á kostnað skattgreiðenda í gegn um ríkisbanka.


Þjóðin hefur eignast sinn Hamlet.

Að vera eða vera ekki sagði Hamlet Danarins í samnefndu leikriti helsta skáldjöfurs Breta. Nú hefur íslenska þjóðin eignast sinn Hamlet í líki félagsmálaráðherra Árna Páls Árnasonar. Fyrir nokkrum dögum sagði hann að engar sérstakar ráðstafanir yrðu gerðar vegna skulda heimilanna í landinu en í dag er haft eftir honum að gerðar verði aðgerðir til að hjálpa skuldsettum heimilum og einstaklingum.

En allt er þetta flókið og þarf að fara í flókið ferli umræðustjórnmála Samfylkingarinnar. Lá ekki ljóst fyrir í október 2008 að það þyrfti að leiðrétta þá skuldaholskeflu sem lenti á fólki vegna gengishruns og verðtryggingar. Þannig að fólk væri með svipuð lánakjör og fólk í nágrannalöndum okkar. Það á ekki að gera neitt meira. En það er einmitt þetta sem þarf að gera. Koma lánamálum einstaklinga og fyrirtækja í það horf sem gengur meðal siðmenntaðra þjóða.

Hamlet dagsins í dag félagsmálaráðherra segir á miðvikudegi við gerum ekki neitt varðandi skuldir heimilanna. En á laugardegi segir hann við munum gera eitthvað til aðstoðar skuldsettum heimilum.

Er batnandi mönnum best að lifa eða er þetta örvæntingarfullt útspil vegna þess hvað óvinsæl fyrri ummæli félagsmálaráðherra voru.


Gerði Jóhanna rétt?

Íbúafjöldi á Íslandi er sá sami og í borginni Sunderland á Bretlandi. Stundum finnst mér eins og íslensk stjórnvöld hegði sér með þeim hætti sem gæti hentað borgarstjórn Sunderland í besta falli en ekki ríkisstjórn sjálfstæðs ríkis.

Mér leið þannig í gær þegar ég las grein Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra sem birtist í dagblaðinu Financial Times í Bretlandi að forsætisráðherra væri komin á svipað stig og forseti borgarstjórnar í Sunderland gæti í besta falli talið sér henta.

Ráðgjafi ríkisstjórnarinnar Eva Joly og þingmaður á Evrópuþinginu getur ritað greinar í blöð og beðið íslendingum ásjár og sama getur óbreyttur þingmaður eins og Pétur Blöndal en er hentugt að forsætisráðherra geri það?

Ég gagnrýndi Geir H. Haarde  fyrir að tala ekki beint við forsætisráðherra Breta og leita skýringa á beitingu hryðjuverkalaganna og freista þess að ná viðunandi samkomulagi þjóðanna vegna Icesave reikninganna og bóta vegna beitingar hryðjuverkalaganna. Því miður gerði Geir þetta ekki.  Það stóð þá upp á nýjan forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur að fara í viðræður við Gordon Brown flokksbróður sinn. En Jóhanna gerði þetta ekki og hefur ekki gert en skrifar þess í stað grein í Financial Times fyrst núna.  Því miður þá finnst mér þetta niðurlægjandi fyrir forsætisráðherra Íslands.

Forsætisráðherra gerði samning við Holland og Bretland fyrir rúmum tveim mánuðum. Af hverju talaði hún ekki við forsætisráðherra þessara landa fyrir þann tíma og gerði þeim ítarlega grein fyrir vanda okkar.  Telur forsætisráðherra virkilega að hún bæti stöðu þjóðarinnar með því að skrifa grein eins og hún gerði í Financial Times rúmum tveim mánuðum eftir að hún gerði samninginn sem hún efast nú um í greininni.  Ég efast um að borgarstjórn Sunderland mundi verða ánægð með að borgarstjórinn færi þannig að vegna samninga sem hann hefði gert fyrir hönd brogarstjórnarinnar.

 


Aðgerðarsinnar?

Í Fréttablaðinu í dag er sagt frá því að "aðgerðarsinnar" hafi valdið milljónatjóni á húsi og bifreið  Hjörleifs Kvaran forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur. Í frétt blaðsins er því síðan lýst með hvaða hætti "aðgerðarsinnar" skemmi eigur fólks.  Hingað til hefði talist eðlilegt að kalla þetta fólk skemmdarvarga eða hryðjuverkahópa. Hér er um að ræða fólk sem fremur afbrot. Það veldur eignaspjöllum og ræðst gegn friðhelgi einkalífs þeirra sem árásirnar beinast að.

Orðanotkun skiptir máli. Hugtakið aðgerðarsinni er jákvætt orð. Það vísar til þeirra sem gera eitthvað, annast um eitthvað eða framkvæma.  Þetta orð er það nýtt að ég finn það ekki í orðabókum en mér sýnist helst að andstæða orðsins sé aðgerðarleysi sem er neikvætt.  Með því að velja þetta orð er Fréttablaðið sennilega ómeðvitað að taka afstöðu með og/eða  með ákveðnum hætti að afsaka þau afbrot sem framin eru af þessum skemmdarvörgum.  

Mér finnst óviðunandi að fréttamiðill eða fréttamiðlar (Fréttablaðið er ekki eini fréttamiðillinn sem hefur notað þetta orð um þessa skemmdarvarga) noti ekki rétt hugtök um þá sem veitast að samborgurum sínum með eignaspjöllum og skemmdarverkum. Með því að nota jákvæðar umsagnir um slíka glæpi er viðkomandi fréttamiðill í raun að leggja blessun sína yfir afbrotið og með því að stuðla að frekari afbrotum sömu tegundar.

Fréttafólk verður að átta sig á að það ber mikla ábyrgð og má ekki misfara með það vald sem það hefur í störfum sínum.


Vanhæf ríkisstjórn.

Ríkisstjórnin skipaði vini sína til að leiða samninganefnd Íslands í Icesave málinu. Þeir höfðu flokksskírteinin í lagi en ekki prófskírteinin.

Ég gagnrýndi það strax og Svavar Gestsson stúdent var valinn formaður samninganefndarinnar að ekki skyldu vera valdir viðurkenndir alþjóðlegir sérfræðingar til að leiða vinnuna.  Smám saman hefur komið í ljós hversu hrapalega var staðið að málinu af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Ríkisstjórnin staðfesti Icesave samninginn sem samninganefnd flokkanna kom með að utan án þess að fyrir lægi meiri hluta vilji Alþingis til að staðfesta ríkisábyrgðina sem henni fylgdi. Slík vinnubrögð ganga ekki.

En eins og formaður Icesave samninganefndarinnar orðaði það " Það þurfti að klára þetta fyrir sumarfrí."  Lá eitthvað á að gera vondan samning?  Ríkisstjórninni lá illu heilli á. Sem betur fer hefur Alþingi enn haft vit fyrir ríkisstjórninni.

 


mbl.is Skynsamlegt að semja að nýju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Símkostnaður er of hár.

Það þykir merkileg frétt að símkostnaður hér seinni hluta ársins 2008 sé undir meðaltali miðað við OECD ríki. Hefði gengishrunið ekki orðið þýðir það þá að símkostnaður okkar hefði verið hærri en allra annarra í OECD ríkjunum. 

Þessi samanburður sýnir í raun ekki annað en að gegndarlaust okur á sér stað á símamarkaðnum hér.  Það mætti t.d. bera saman verð á kaffibolla í höfuðborgum OECD ríkjanna og ég tel upp á að nú sé kaffibollinn ódýrastur í Reykjavík en þannig var það ekki fyrir gengishrun.

Það hefði verið um samanburðarhæfar tölur að ræða hefði símakostnaður verið reiknaður út miðað við meðallaun. Þá hygg ég að við mundum tróna á toppnum með hæsta símkostnaðinn. Því miður.

Það er með ólíkindum hvað verð á farsímaþjónustu er hár hvað sem líður auglýsiingaskrumi símafyrirtækjanna.


mbl.is Símakostnaður undir meðaltali
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar var aðalhagfræðingur Seðlabankans?

Grein Anne Sibert er að sumu leyti athygliverð. Þó að flestu öðru leyti en því sem fjallar um Davíð Oddsson og einkavæðinguna. 

Hversu góður eða slæmur sem Davíð Oddsson var sem Seðlabankastjóri þá var hann einn af þremur Seðlabankastjórum en ekki alvaldur. Auk þess var aðalhagfræðingur bankans til staðar greinilega mjög hæfur maður því að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur gert hann að aðstoðarseðlabankastjóra. Það hefur því greinilega verið mat forsætisráðherra að hin hagfræðilegu ráð hafi ekki brugðist í Seðlabankanum fyrir hrunið.

Það er eðlilegt  að leitað verði skýringa hjá forsætisráðherra hvað það var sem brást og Önnu Sibert ætti að vera hæg heimatökin í því efni.  Það var og  er her hagfræðinga og viðskiptafræðinga  starfandi í Seðlabankanum eins og Anna Sibert sjálfsagt veit


mbl.is Segir Davíð hafa skort sérfræðiþekkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 16
  • Sl. sólarhring: 428
  • Sl. viku: 4232
  • Frá upphafi: 2449930

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 3943
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband