Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010

Enginn er óskeikull

Í fjölmiðlaumræðunni að undanförnu mætti ætla að á morgun birtist skýrsla óskeikulu vitringanna þriggja í Rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið, sem allt eiga að vita og allan vanda eiga leysa.  Þannig er það ekki. Í nefndinni sitja venjulegir einstaklingar. Dómar þeirra og niðurstaða er ekki endanleg.  Vonandi hefur þremenningunum þó gengið vel að sjá skóginn fyrir trjánum og gera sér grein fyrir hvað voru aðalatriði og hvað aukaatriði.

Fróðlegt verður að sjá hvort að fram kemur í skýrslunni upplýsingar um þá stjórnmálamenn, fjölmiðlamenn og háskólamenn sem voru með einum eða öðrum hætti á mála hjá banka- og útrásarvíkingunum og/eða þáðu af þeim gjafir, styrki eða boðsferðir.  Vilji þjóðin horfast í augu við rauverulega spillingu í þjóðfélaginu þá eru upplýsingar um þetta algjör nauðsyn.

Vítin eru til að varast og vonandi verður skýrsla þessarar rannsóknarnefndar ekki dæmd jafn dauð og ómerk og skýrsla síðustu rannsóknarnefndar sem Alþingi skipaði en í henni sátu þrír einstaklingar sem felldu þunga dóma yfir ákveðnum einstaklingum og stofnunum. Þegar endanlegur dómur gekk í þeim málum fyrir dómstólum stóð harla lítið eftir. Endanlega niðurstaða var sú að á annan tug manna var ranglega ákærður vegna rangra fullyrðinga í skýrslunni og vanþekkingar þeirra sem komu að saksókn málsins.  

Eftir stóðu einstaklingar sem urðu fyrir miklu tjóni og miska vegna rangra aðdróttana í skýrslu þeirrar rannsóknarnefndar. Þeir fengu ekki tjón sitt bætt og þeir sem sátu í nefndinni báru enga ábyrgð ekki frekar en þeir sem sitja í þessari rannsóknarnefnd.

Skýrslan um bankahrunið hefur birst þjóðinni dag frá degi upp á síðkastið í fjölmiðlum nú síðast með stefnu skilanefndar Glitnis banka á hendur tveim af stærstu fyrrverandi eigendum bankans.  Skýrslan sem birtist á morgun verður fyllri og studd ítarlegri gögnum og ég ítreka þá von mína að vel hafi tekist til.

En skýrslan verður fyrst og fremst formlegt innlegg til upplýsinga fyrir fólkið í landinu og til að við getum afgreitt sem fyrst umræðuna um þáið til að geta snúið okkur sem fyrst að núinu og framtíðinni til hagsbóta, vaxtar og auðsældar fyrir íslenska þjóð. 

 


Ætlar Álfheiður Ingadóttir að axla ábyrgð?

Ætlar Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra að axla ábyrgð og segja af sér fyrir að hafa sýnt fádæma valdníðslu og gerræði í störfum sínum sem ráðherra?

Rannsókn á efnahagshruninu í Bandaríkjunum

Rannsóknarnefnd Bandaríkjaþings á efnahagshruninu byrjar yfirheyrslur í dag. Allt er það fyrir opnum tjöldum en ekki bak við birgða glugga eins og hér.  Hægt er að komast inn á netsíðu rannsóknarnefndarinnar bandarísku hér:

http://www.fcic.gov/

Það er ljóst að ólíkt höfumst við að. Í fyrsta lagi þá er skilgreining á verkefnum rannsóknarnefndarinnar bandarísku allt annað en hér. Þar gera þingmenn sér grein fyrir því að höfuðástæða efnahagshrunsins liggur hjá leikendum á markaði. Hér var rannsóknarnefndinni því miður sniðinn þrengri stakkur. Nefndin sjálf tók síðan þá vondu ákvörðun að fara með allt í felur í stað þess að hafa allt upp á borðinu og leyfa fólki að fylgjast með frá upphafi.

Á sama tíma og verið er að prenta skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á laun um helgar í prentsmiðju hér í bæ og allt starf rannsóknarnefndarinnar fer fram á laun innan veggja, þá býður rannsóknarnefnfdin bandaríska þjóðinni að fylgjast með rannsókninni frá upphafi.

Ólíkt höfumst við að.


Dauða höndin

Kreppustjórnin gerir allt sem hún getur til að komast hjá niðurskurði í ríkisrekstrinum.  Skattar voru  hækkaðir á áfengi, tóbaki og bensíni auk þess  sem virðisaukaskattur var hækkaður. Allt leiddi þetta til hækkunar á verðtryggðum lánum fólksins. Samt er ríkissjóður rekinn með hundraðmilljarða halla.  Hin dauða hönd ríkisumsvifanna leggst með meiri þunga og stöðnunarmætti á þjóðlífið.

Nú hefur villta vinstrið þau Lilja Mósesdóttir og Ögmundur Jónasson fundið leið til að skattleggja þjóðina meira til að komast hjá nauðsynlegum niðurskurði ríkisútgjalda. Eða eins og Ögmundur segir að þá sé hægt að komast hjá niðurskurði á velferðarkerfinu. Hvaða velferðarkerfi? Ef til vill velferðarkerfi flokkslíkamabarnanna í Samfylkingunni og Vinstri grænum sem verið er að koma fyrir vítt og breitt í ríkiskerfinu.

Það felst ekki nein velferð fyrir venjulegt fólk í aukinni skattheimtu. Færa má rök að því að það hefði verið skynsamlegra til að koma athafnalífinu í gang að lækka virðisaukaskatt og bensíngjald í stað þess að hækka. Þá skerum við okkur úr meðal þeirra þjóða sem hafa lent í niðursveiflu vegna efnahagskreppunnar í heiminum. Í löndum eins og Lettlandi og Ungverjalandi hefur verið tekið myndarlega á ríkisútgjöldum og gerðar ráðstafanir til að örva atvinnulíf.   Þar eru ríkisstjórnir sem hugsa um framtíðarhagsmuni þjóðarinnar. Þar eykst hagvöxtur og atvinnuleysi minnkar.

Hér eykst atvinnuleysi og framleiðsla dregst saman annars vegar vegna rangrar stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahags- og skattamálum en hins vegar vegna úrræða- og getuleysis hennar.

Það eina sem hefur verið til bjargar á þessum vetri er eldgos á Fimmvörðuhálsi, en það hefur ekkert með aðgerðir ríkisstjórnarinnar að gera nema það megi túlka það svo að landvættirnir sjái að málum sé nú stefnt í hið versta óefni og eitthvað verði að gera þjóðinni til bjargar þar sem stjórnvöld hvorki geri það né geti það.


Mikilvægasta trúarhátíð kristins fólks

Gleðilega upprisuhátíð.  

Upprisa Jesú eftir að hafa beðið algeran ósigur með krossfestingunni á föstudaginn langa var staðfesting á fyrirheitinu um sigur lífsins yfir dauðanum og réttmæti kenninga Jesú um eilíft líf fyrir trúna á Guð, kærleika og fyrirgefningu.

Upprisan ásamt kærleiksboðskapnum og fyrirgefningunni er það inntak sem skilur kristnina frá öðrum trúarbrögðum og gerir hana einstaka. Þessi boðun gerir kröfur til okkar hvers og eins m.a. um virðingu fyrir einstaklingnum frelsi hans og tjáningu til jafns við okkur. 

Á undanförnum árum hefur orðið hnignun í kristnum samfélögum. Ein birtingarmyndin er sú að það veraldlega hefur tekið páskadaginn nánast algerlega yfir. Siðræn gildi varðandi auðsöfnun og peningaöflun hurfu. Allt var leyfilegt og sigurvegarinn varð sá einn sem eignaðist skjótfenginn gróða. Þá skipti engu máli hvernig peninganna var aflað.

Hrunið sýndi betur en nokkuð annað hvað fráhvarf frá siðrænum gildum og aga í fjármálastarfsemi er dýrkeypt.  Þess vegna skiptir svo miklu að við rísum á ný sem þjóð á þeim forsendum og siðrænu gildum sem færðu okkur sjálfstæði almenna velferð og þau grundvallarmannréttindi sem við höfum.

 


« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 561
  • Sl. sólarhring: 905
  • Sl. viku: 6305
  • Frá upphafi: 2278056

Annað

  • Innlit í dag: 510
  • Innlit sl. viku: 5816
  • Gestir í dag: 490
  • IP-tölur í dag: 476

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband