Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011

Dýr verður Steingrímur allur

Steingrímur J. Sigfússon ætlar að setja 14 milljarða í að endurreisa Sparisjóð Keflavíkur. Síðan ætlar hann að setja álíka fjárhæð í að endurreisa Byr og eitthvað lægri fjárhæð í að halda við og endurreisa aðra sparisjóði. Alls má því búast við að Steingrímur og sporgöngumenn hans leggi allt að 30 milljarða af ríkisins fé til Sparisjóðanna.

Engin þörf er á því að leggja  sparisjóðum til allt að 30 milljörðum frá skattgreiðendum. Nú þegar eru fjármálafyrirtæki of mörg. Framlag fjármálaráðherra er dæmi um bruðl, spillingu og misbeiting valds.

Þetta bætist ofan á það sem Steingrímur hefur þegar til saka unnið. Má minna á framlagið til VBS, Saga Capitla og  Sjóvá-Almennar tryggingar. Með öllu nema  þarflausar og að hluta til heimildarlausar greiðslur Steingríms úr ríkissjóði sem hér eru taldar um 80 milljörðum króna.

Á sama tíma fannst Steingrími nauðsynlegt að fella SPRON og Straum fjárfestingabanka, sem mátti auðveldlega bjarga. 

Dettur einhverjum í hug að ekki ráði för hjá fjármálaráðherra pólitísk hentistefna og pólitísk  fyrirgreiðsla.


Berlusconi og Birgitta Jónsdóttir

Óneitanlega er athyglivert að bæði Silvio Berlusconi forsætisráðherra Ítalíu og Birgitta Jónsdóttir alþingismaður skuli bæði vísa til friðhelgi sinnar vegna opinberra starfa. Silvio vegna starfa sinna sem forsætisráðherra og Birgitta vegna starfa sinna sem þingmaður. Tekist er á um það á Ítalíu hvort friðhelgi Silvíos verður afnumin og hann ákærður en ekki liggur fyrir hvað Birgitta hyggst vinna með tilvísun til friðhelgi sem alþingismaður.

Óneitanlega hefur verið nokkuð sérstakt að fylgjast með forseta Alþingis, utanríkisráðherra og innanríkisráðherra í sambandi við máli Birgittu. Þessir  þaulsætnu þingmenn virðast ekki átta sig á hvað felst í þinghelginni og því síður gera sér grein fyrir hvenær mál er milliríkjamál og hvenær ekki.

Mál Birgittu vegna Twitter færslna hennar er ekki milliríkjamál heldur varðar meðferð máls fyrir bandarískum dómstól. Þá virðist Birgittu og öðrum sem hafa vísð til friðhelgi hennar sem þingmanns hafa yfirsést, að hún nýtur engrar slíkrar friðhelgi í Færeyjum, Noregi eða Bandaríkjunum. Friðhelginnar nýtur hún einungis við sérstakar aðstæður hér á landi.

Annars er athyglivert að þingmaðurinn sem hefur krafist þess að Ísland verði skálkaskjól uppljóstrara og þeirra sem komast með vafasömum jafnvel glæpsamlegum hætti yfir upplýsingar, skuli gera sérstaka kröfu til þess að komið verði í veg fyrir að lögleg yfirvöld leiti eftir því við dómstól að fá löglegan aðgang að upplýsingum um ákveðnar færslur hennar sjálfrar.

Þá er líka athyglivert að Birgitta skuli þegar á reynir vísa til sérréttinda þingmanna þegar það er skoðað hvað hún hefur sagt um Alþingi og þingmenn og með hvaða hætti hún hefur beitt sér varðandi löggjafarþingið.  Ekki er annað að skilja á því sem Birgitta hefur sagt en að önnur lög og reglur eigi að gilda fyrir hana  en  fyrir Manga múrara og Hallfríði hreingerningarkonu. Svo virðist sem Birgitta telji að svoleiðis almúgafólk eigi ekki að hafa sama rétt og hún og Silvío Berlusconi.


Byrjar litla ísöldin árið 2014

Fremsti sérfræðingur Rússa  í geimrannsóknum spáir því að "Litla ísöldin" muni hefjast árið 2014.

Dr. Habibullo Abdussamatov yfirmaður geimrannsóknastöðvarinnar Pulkovo  í St. Pétursborg sagði á ráðstefnu í Chicago í maí 2010 að við værum á leið inn í kólnandi veður. Abdussamatov sagði fyrir um minnkandi virkni sólbletta strax árið 2003 sem mundi verða í hámarki 2042 sem mundi valda mikilli kólnun í heiminum og lágmarkið þ.e. mestu frostin yrðu á árunum 2055-2060.

Litla Ísöldin eins og hún var kölluð er talin hafa staðið í meir en  200 ár eða  frá 16.öld og fram á 19.öld og hafa byrjað um 1650 en látið undan um 1850

Þau Obama og Angela Merkel hafa tekið draugasögurnar um hnattræna hlýnun sem heilagan sannleik og Evrópusambandið hefur ákveðið mikil gjöld á flutningatæki sérstaklega flugvélar sem mun leiða til mikilla hækkana á farmiðaverði og samdrátt í ferðamennsku. Auk þess hafa verið lagðar miklar álögur á framleiðslufyrirtæki og komið í veg fyrir nýiðnað vegna átrúnaðarins. Allt hefur þetta leitt til samdráttar og aukins atvinnuleysis nú þegar. Er einhver ástæða til að greiða þetta gjald?

Ekki kann ég að greina hvort Abdussamatov hafi rétt fyrir sér eða ekki. Vona að svo sé ekki. Hitt er næsta víst að við mennirnir höfum mjög takmörkuð áhrif á hnattræna hlýnun eða loftslagsbreytingar. Ef eitthvað er þá getum við með öllum okkar útblæstri ef til vill mildað áhrif Litlu Ísaldarinnar sem á að bresta á eftir nokkur ár. 

Íbúar Skandinavíu hljóta að velta fyrir sér hvort spádómarnir um hnattrænu hlýnunina eig við nokkur rök að styðjast, en síðasti desember var kaldasti mánuður sem mælst hefur í Svíþjóð


Tjáningarfrelsi Birgittu og ábyrgð.

Á sama hátt og Birgitta Jónsdóttir alþingismaður nýtur allra stjórnarskrárvarinna mannréttinda, þá ber hún líka ábyrgð samkvæmt íslenskum lögum. Hún ber hins vegar ekki ábyrgð samkvæmt bandarískum lögum og Bandaríkin hafa enga lögsögu yfir henni frekar en mér eða öðrum íslenskum ríkisborgurum. Þessir hlutir ættu að vera á hreinu hjá Birgittu, Össuri og Ögmundi.

Nú reynir á hvort að Bandaríkin fái aðgang að Twitter síðu Birgittu eins og þau hafa krafist, en þeir sem að þeim vef standa hafa greinilega tekið hárrétta ákvörðun um að Bandaríkin verði þá að sækja það mál fyrir réttum dómstólum. Í því sambandi er spurningin hver er réttur dómstóll í því sambandi. Er það dómstóllinn þar sem Twitter er vistað eða er það þar viðkomandi einstaklingur býr, Birgitta í þessu tilviki. Ég tel að þegar um alþjóðlegan vef er að ræða þá gildi lög heimaríkis notanda um málið nema annað sé ákveðið í skilmálum sem gilda um vefinn og viðkomandi notandi samþykkir. Hafi Birgitta ekki samþykkt neitt í því sambandi þá sýnist mér bandarískur dómstóll ekki bær um að dæma um það hvort veita skuli ríkisstjórn Bandaríkjanna aðgang að persónulegum færslum Birgittu.

Allt er þetta mál vandræðalegt fyrir Bandaríkin. Ef til vill muna fáir eftir Daniel Ellsberg málinu og Pentagon skjölunum, en þar var m.a. upplýst að Lyndon B. Johnson forseti og ýmsir fleiri höfðu ítrekað sagt Bandaríkjaþingi ósatt. Ellsberg komst yfir þessi skjöl sín með því að brjóta trúnað sem starfsmaður í Pentagon, en þau Birgitta og Julian Assange hafa ekki brotið slíkan trúnað eftir því sem ég best veit. 

Þetta mál er því miður allt hið versta mál fyrir Bandaríkin hvað svo sem má segja um Wikileaks, Birgittu eða Julian Assange.  Þar í landi hefðu menn átt að gera sér grein fyrir að að þeir þurfa að vinna á heimavígstöðvum en ekki gagnvart þeim sem þeir hafa ekkert með að gera.


Ok flokksræðisins

Uppreisnarfólkið í þingflokki Vinstri grænna hefur beygt sig undir ok flokksræðisins.

Atli Gísla, Lilja Móses og Ásmundur Einar, hafa undanfarið lýst flokksræðinu og svikum flokksforustunnar við hugsjónir Vinstri Grænna. Í samræmi við þær hugsjónir greiddu þau ekki atkvæði með fjárlagafrumvarpinu af því að ríkissjóðshallinn var ekki nógu mikill að þeirra mati.

Flokksforustan sendi þremenningunum tóninn fyrir jól og þau svöruðu fullum hálsi og töluðu um flokksræði, svik við stefnu flokksins og foringjaræði.  Fólkið í landinu bjóst því við miklum átakafundi í gær þegar þingflokkur Vinstri grænna kom saman í vistaverum sínum í gömlu Moggahöllinni. Búast mátti við að gustmikil Lilja stormaði af fundi og fasprúður Atli færi en samt ekki eins óðslega

Þegar leið að kvöldi varð ljóst að hinir "baráttuglöðu og  husjónaríku" þingmenn Vinstri grænna, Atli, Lilja og Ásmundur höfuð játast undir ok flokksræðisins og samþykkt að ganga í takt framvegis undir styrkri stjórn flokksræðisins og foringjans. Yfirlýsingarnar um stefnufestu og svik við stefnu flokksins voru foknar út í veður og vind. Með einbeittum vilja beygðu uppreisnarliðarnir sig undir okið.

Nú vita menn  og það opinberaðist í gær, að munurinn á Atla Gíslasyni, Ásmundi Einari og Lilju Mósesdóttur og tígrísdýrum er sá að þau eru pappírstígrísdýr og tannlaus þegar kemur að því að standa við stóru orðin og þær hugsjónir sem þau segja sér kærari en nokkuð annað.

 

 


Hvað þýðir orðið jól?

Undanfarna daga höfum við óskað öðrum aftur og aftur gleðilegra jóla. En hvað þýðir það? Hver er merking orðsins jól?

Jólin eru haldin í kristnum löndum til minningur um fæðingu Jesús í samræmi við helgisöguna. En af hverju köllum við þessa hátíð jól?

Maður á tíræðisaldri spurði mig í gær hver væri merking orðsins jól. Ég hélt að það væri ekki flókið að finna út úr því, en komst að hinu gagnstæða. Uppruni orðsins er óviss og umdeildur. Samkvæmt íslenskri orðsifjabók Ásgeirs Blöndals Magnússonar þá eru ýmsar getgátur en af þeim hallast ég helst að því að um gamalt germannskt orð sé að ræða eða hljóðfirringarmyd af því þannig að upphafleg merking hafi verið hjól eða vetrarsólhvörf eða árstíðarhringur. Þá hefur gömul germönnsk sólhvarfahátíð verið yfirtekin af kristnum mönnum eða hvað?

Viti einhver betur þá væri gaman að fá upplýsingar um það. 

Þá er líka spurning hverjir nota þessa orðmynd eða líkingu hennar fyrir utan Norðurlöndin. Í ensku er til Yule þó það sé sjálfsagt lítið notað í því tungumáli. Getur e.t.v. verið að Noel í frönsku og vallónsku sé sama orðmyndin?  Spyr sá sem ekki veit nógu mikið.

Merkilegt að merking orðsins jól skuli ekki vera á hreinu. 


« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 249
  • Sl. sólarhring: 777
  • Sl. viku: 4070
  • Frá upphafi: 2427870

Annað

  • Innlit í dag: 232
  • Innlit sl. viku: 3768
  • Gestir í dag: 228
  • IP-tölur í dag: 221

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband