Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2013

Bannfæringar og mannorðsmorð

Fyrrum utanríkisráðherra Íslands var beðinn um að kenna í Háskóla Íslands. Enginn efast þekkingu hans og enginn frýr honum vits. Enginn velkist heldur í vafa um að þarna hafði Háskóli Íslands fengið einn af bestu fyrirlesurum þjóðarinnar.

En nei. Þegar til átti að taka gat ekki orðið af kennslunni vegna þess að kennarar í furðulegheita fagi sem heitir kynjafræði og er kennd í Háskóla Íslands af ástæðum sem Guð einn kann e.t.v. að útskýra, mótmæltu því að nemendur Háskóla Íslands ættu þess kost að hlusta á úrvals fyrirlesra annast kennslu á sviði sem hann gjörþekkir.

Enn einu sinni horfir fólk upp á það hvernig sérhagsmunahópar og sjálfskipaðir talsmenn siðferðis í þjóðfélaginu taka sér vald til að bannfæra og veitast að öðru fólki fyrir litlar eða engar sakir. Sú varð raunin í þessu tilviki og því miður féll Háskóli Íslands hrapalega á prófi umburðarlyndis og mannréttinda.

Í dag er það Jón Baldvin Hannibalsson sem verður fyrir þessu. Fyrir nokkru fór   guðfræðikennari í leyfi vegna athugasemda trúleysingja. Við marga er ekki talað af því að þeir hafa skoðanir sem sérhagsmunahópar eru á móti.

Það ber brýna nauðsyn til að þeir sem unna málfrelsi, skoðanafrelsi og lýðréttindum láti kröftuglega í sér heyra og mótmæli þeirri ásókn og skoðanakúgun sem beitt er í þjóðfélaginu.

Nú er það musteri frjálsrar hugsunar Háskóli Íslands sem misvirðir mannréttindi, skoðanafrelsi og eðlilega starfshætti. Er skrýtið að fólk veigri sér við að taka þátt í almennri umræðu í þjóðfélaginu?


Hverju má trúa?

Ekki liggur enn fyrir hver beitti efnavopnum í Sýrlandi fyrir nokkrum dögum. Talsmenn innrásarveldanna í Afganistan eru þó sammála um að það hafi verið stjórnarher Assads. Fróðlegt verður að fá úr því skorið hvað sé rétt í þeim staðhæfingum. Hafi stjórnarherinn beitt efnavopnum nú þegar hann er kominn með undirtökin í baráttunni við uppreisnarmenn þá væri það ótrúlega heimskulegt.

Í dag var sagt frá því í grein í Daily Telegraph að Bandar bin Sultan yfirmaður leyniþjónustu Saudi Arabíu hafi átt fund með Putin Rússlandsforseta fyrir þremur vikum og boðið honum upp á samvinnu um að halda uppi olíuverði en löndin framleiða um 45% af heimsframleiðslunni auk þess að stöðva hryðjuverkastarfsemi Chechena ef Rússar hættu að styðja ríkisstjórn Assads Sýrlandsforseta. Putin mun hafa hafnað tilboði Saudi Araba og sagt að Rússar teldu núverandi ríkisstjórn vera bestu talsmenn fólksins í Sýrlandi en ekki mannæturnar í liði uppreisnarmanna. Bandar mun þá hafa sagt að þá kæmi ekkert annað til greina en hernaðaríhlutun í Sýrlandi.

Skyldi þessi frásögn vera rétt? Sé svo þá er spurningin gerðu Saudi Arabar, Bretum, Bandaríkjamönnum og Frökkum tilboð um eitthvað til að  þeir beittu hernaðaríhlutun í borgarastyrjöldinni í Sýrlandi?


Barátta sem drepur miðborgina

Á sama tíma og fyrirbrigðið í stóli borgarstjóra berst fyrir þrengingum á götum og aksturshindrunum með góðri hjálp Gísla Marteins ræða menn í Bretlandi um að þessi stefna hafi beðið skipbrot.

Í Bretlandi er talað um að setja nýjar viðmiðanir til að auðvelda bílaumferð, þá helst miðborgarumferð. Stefna þeirra Gísla Marteins og fyrirbrigðisins í stóli borgarstjóra er sögð hrekja bílstjóra frá því að versla í miðborginni en stunda þess í stað viðskipti á netinu eða stórmörkuðum í úthverfum.

Skortur á bílastæðum, þrengingar á götum og hátt verð í tímabundin bílastæði dregur úr löngun fólks til að fara í miðbæinn. Mikilvægt er að bílastæðum í og við miðbæinn verði fjölgað þau verði örugg og ódýr ef vilji er til að skapa daglega meira líf í miðborgarkjarnanum.

Sumarfríum er að ljúka og skólar að byrja. Umferð þyngist. Víða í borginni eru umferðarteppur og umferð gengur hægt vegna þess að ekki hefur verið hugað að nauðsynlegum umbótum á umferðarmannvirkjum.  Í komandi umferðarteppum í vetur geta bílstjórar í Reykjavík hugsað til Jóns Gnarr og meðreiðarsveina hans í umferðarþrengingunum.  Minnast þess í leiðinni að það er nauðsynlegt að kjósa fólk í borgarstjórn sem veit hvað það er að gera og á að gera og skilur samhengi hlutanna.

Kosningar eru nefnilega alvörumál líka borgarstjórnarkosningar. Ekki grín og ekki fíflska.

 


Syndir feðranna

Afleiðinar rangra ákvarðana koma iðulega ekki fram fyrr en áratugum eftir að þær eru teknar.  

 Opinberuð hafa verið skjöl sem sýna fram á skipulagningu CIA og bresku leyniþjónustunnar í valdaráni  hluta Íranska hersins og síðar keisara Íran gegn lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum. Afleiðingar þessarar röngu ákvörðunar komu fyrst í ljós rúmum tveim áratugum síðar.   Mohammad Mossaddeq sem þá var forsætisráðherra og forustumaður lýðræðissinna í landinu var hnepptur í stofufangelsi og var haldið föngnum til dauðadags 14 árum síðar án dóms og laga.

Skipulagning og stjórn valdaránsins fór fram í bandaríska sendiráðinu í Teheran og barnabarn Theodore Roosevelt Bandaríkjaforseta var lykilmaður CIA á vettvangi og stjórnaði aðgerðum. Truman Bandaríkjaforseti var vinveittur Mossaddeq og hafnaði því að gripið yrði til aðgerða gegn honum. Hann var að því leyti framsýnni en eftirmaður hans hershöfðinginn Eisenhower.

Bretar nýttu olíulindir í Íran og greiddu nánast ekkert fyrir það. Mossadegh þjóðnýtti olíulindirnar í þágu írönsku þjóðarinnar. Það var meira en alþjóðlega olíuauðvaldið og Bretar gátu þolað. Lýðræðissinnarnir í Íran treystu á að Bandaríkin mundu veita þeim lán og kaupa olíu frá Íran. Truman stjórnin reyndi að miðla málum og var jákvæð lýðræðisöflunum. En bandarísk olíufyrirtæki stóðu síðar að viðskiptabanni á Íranska olíu ásamt öðrum stórum olíufyrirtækjum. Svo langt gekk barátta olíuauðvaldsins að beitt var m.a. hafnbanni og fallbyssubátum.

Barátta Mosaddeq fyrri sjálfstæði Íran og gegn alþjóðlega olíuauðvaldinu sem og aðgerðir Bandaríkjanna og Breta til að hrekja hann frá völdum hefur gert hann að frelsishetju Íran. Mossaddeq var ákveðinn lýðræðissinni og nokkru fyrr og á hans tíma fór fram mikil hugmyndafræðileg þróun og umræður Shia múslima í Íran. Í framhaldi af valdaráninu var komið í veg fyrir lýðræðisþróun í landinu. Trúarlegir harðlínumenn tóku völdin meðal andspyrnumanna og náðu þeim síðan með valdatöku Khomenis 1973 þá var áfram girt fyrir lýðræðisþróun í landinu.

Afleiðingar valdaráns Breta og Bandaríkjamanna í Íran kom í veg fyrir jákvæða lýðræðislega og trúfræðilega þróun í Íran. Íran væri líklega helsti bandamaður Bandaríkjanna í dag hefðu Bandaríkjamenn ekki brugðist lýðræðishugsjóninni á örlagastundu.


Evrópusambandið og kosningar um aðildarviðræður

Áhugi fyrir aðild að Evrópusambandinu er innan flestra stjórnmálaflokka. Samfylkingin hefur gert málið flokkspólitískt. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur samþykkti að hefja viðræður um aðild Íslands að Evrópusambandinu í andstöðu við annan stjórnarflokkinn. Samfylkingin rak málið á flokkspólitískum grunni og skipaði samninganefnd eftir eigin höfði án samráðs við önnur pólitísk öfl í landinu. Þessi framganga Samfylkingarinnar skaðaði vitrænar umræður um aðild Íslands að Evrópusambandinu og olli málstað þeirra sem vilja aðild miklu tjóni.

Þau tæpu 4 ár sem aðildarviðræður hafa staðið að undirlagi Samfylkingarinnar hefur ekkert verið gert eða rætt sem máli skiptir. Umræðuferlið hefur verið alvörulaus kampavíns og matarboðsvettvangur.

Stefna ríkisstjórnarflokkana nú er ljós. Flokkarnir vilja ekki aðild. Þjóna aðildarviðræður tilgangi þegar ríkisstjórn er á móti aðild? Slíkt væri niðurlægjandi fyrir ríkisstjórn og samningsaðila. Sama var raunar um að ræða þegar fyrir lá í síðustu ríkisstjórn að annar stjórnarflokkurinn var alfarið á móti aðild.

Nú hamast stjórnarandstæðingar að því að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um aðildarviðræður og vísa til stefnu Sjálfstæðisflokksins um að þjóðin fengi að greiða atkvæði áður en aðildarviðræður hæfust. Nú þegar afstaða ríkisstjórnarinnar liggur fyrir þá þjónar litlum tilgangi að greiða atkvæði um áframhald viðræðna. Væru þær samþykktar þá færu þær fram í andstöðu við vilja ríkisstjórnar og skiluðu engu en væru þær felldar þá er staðan óbreytt. Til hvers þá að kjósa?

Hvort sem Evrópusambandssinnum eða andstæðingum líkar betur eða verr þá verður alltaf að taka tillit til pólitísks veruleika. Í dag er hann sá að það þjónar ekki tilgangi að halda sýndarviðræðum um aðild að Evrópusambandinu áfram hvort sem mér eða öðrum landsmönnum líkar betur eða verr.


Valdarán og lýðræði

Ráðamönnum í Bandaríkjunum, Bretlandi og Frakklandi er svo umhugað að koma á lýðræði að þessi lönd eitt eða fleiri hafa á undanförnum árum staðið fyrir eða stutt að stjórnendum væri velt úr sessi í Írak, Afganistan, Líbýu og Egyptaland. Ekkert lýðræði er í raun í neinu þessara landa í dag.

Á sínum tíma hröktu Bretar svokallaða stjórn hvíta minnihlutans undir forustu Ian Smith frá völdum í Rhodesíu, sem nú heitir Zimbabwe. Þá voru haldnar kosningar og þar sigraði uppreisnarforingi Robert Mugabe að nafni sem setið hefur við völd síðan eða rúm 30 ár og kosningar í landinu verið meira upp á grín en raunveruleiki. Hert harðstjórn tók við undir formerkjum lýðræðis og Vesturlönd fögnuðu.

Þegar Mubarak hafði verið hrakinn frá völdum í Egyptalandi og Morsi frá Múslimska bræðralaginu kjörinn forseti með litlum meiri hluta atkvæða, tók Morsi strax til við að koma á stefnu múslimska bræðralagsins, Sharia lögum, þrengja réttindi kvenna og ýmissa minnihlutahópa þ.á.m. kristinna Kopta. Menntafólkið sem studdi uppreisnina gegn Mubarak snérist fljótlega gegn Morsi og sá að það var kominn nýr einræðisherra í stað Mubarak. Ástandið hafði ekki batnað. En Vesturlönd mótmæltu og kröfðust þess að Morsi yrði settur í embætti. 

Svo virðist sem ráðamönnum á þessum vesturlöndum sjáist yfir að lýðræði er ekki bara fólgið í kosningum einu sinni. Lýðræði þýðir svo mikið meira t.d. að almenn mannréttindi séu virt, réttindi minni hluta og reynt verði að ná málamiðlun um mikilvægustu þjóðfélagsmál sé þess kostur. Fólkið í þessum löndum er ekki sérstaklega að kalla á lýðræði. Það er að kalla á öryggi, atvinnu og lífsafkomu. 

Einu sinni átti ég þess kost að hlusta á erindi manns sem hafði verið varakonungur, sendiherra o.sfr.v. í mörgum löndum í mismunandi heimsálfum á blómatíma breska heimsveldisins. Hann sagði að virkasta lýðræðið sem í raun hefði verið komið á í fyrrum nýlendum Breta á þeim tíma væri í Tanganæka þar sem aldrei væru kosningar en ættflokkarnir væru svo margir og tiltölulega jafnstórir að ættbálkahöfðingjarnir mynduðu þjóðarráðið eins konar Alþingi og það hefði gefið góða raun. Hann gaf að öðru leyti lítið fyrir lýðræðið í fyrrum breskum nýlendum og möguleika vestrænna þjóða til að koma sínu stjórnarfari til gerólíkra landa þar sem menn skorti skilning á innviðum samfélagsins.

Mikið væri gott ef þeir Obama, Cameron og Hollande skoðuðu heimssöguna, berðust fyrir almennum mannréttindum en léti ólíkar þjóðir og siðmenningu þeirra að öðru leyti í friði.  Þeir gætu t.d. byrjað á að skoða að hvergi er fleira fjölmiðlafólk og stjórnarandstæðingar í fangelsum í svokölluðu lýðræðislandi en Tyrklandi Erdogans.  Skyldi einhver forustumaður vestrænna þjóða gera athugasemd við það?  


Öll rök til að stytta nám til stútentsprófs.

Illugi Gunnarsson menntamálaráðhera hefur ítrekað sagt að hann muni beita sér fyrir því að stytta nám til stúdentsprófs og telur að öll rök standi til þess.

Það er forgangsverkefni að koma á þeim breytingum í menntakerfinu að námsmenn útskrifist sem stúdentar á sama aldri og í nágrannalöndum okkar. Það mundi þýða að fólk yrði stúdentar 18 ára  í stað 20 eins og nú er.

Hvergi á OECD svæðinu er fólk útskrifað sem stútendtar jafngamlir og hér á landi og meðalaldur háskólastúdenta er hér 28 ára en í Evrópu  23 ára.  Þessar tölur sýna hvað það er mikilvægt að ná fram þessari breytingu sem menntamálaráðherra hefur gert að ákveðnu forgangsmáli. Vonandi gengur honum vel að koma þessu máli áfram.

Það hefur mikið þjóðhagslegt gildi að ná fram styttingu aðfararnáms að stúdentsprófi um 2 ár. Kostnaður námsmanna verður mun minni m.a. vegna þess að stór hluti háskólastúdenta mundi þá búa áfram í foreldrahúsum í upphafi námsins og fæstir mundu vera komnir með fjölskyldu á þeim tíma.  Stytting aðfararnámsins þýðir því meiri heildarstyttingu náms fram að námslokum en 2 árum af því að það er færra sem truflar og leiðir til brotthvarfs frá námi.

Það hefur mikilvæga þjóðhagslega þýðingu að ná fram þessu baráttumáli menntamálaráðherra auk þess sem því fylgir mikill sparnaður fyrir ríkissjóð til lengri tíma litið. Raunar þarf að taka allt skólakerfið til endurskoðunar og skoða með hvaða hætti mætti kenna fólki með áhrifaríkari og skemmtilegri hætti en nú er gert. Möguleikarnir eru fyrir hendi vegna gjörbreytts margmiðlunarumhverfis, en skólanám hefur ekki tekið eðlilegum breytingum miðað við þá möguleika sem eru fyrir hendi. 


Vondar eru nefndirnar.

Vondar eru nefndirnar þungt er þeirra hlass sagði Ægir Ó stórkaupmaður í ljóðinu "Brestir og brak" eftir Jónas Árnason. Þessi ljóðlína kom mér í hug þegar sagt var frá því í fréttum að ríkisstjórnin væri enn að vandræðast með að finna fólk í sérfræðinganefnd eða nefndir vegna afnáms verðtryggingar á neytendalánum og niðurfærslu verðtryggðra skulda.

Það er nokkuð sérstakt að það skuli vefjast fyrir ríkisstjórn að finna hæft fólk til að sitja í nefndum sem þessum og hvor ríkisstjórnarflokkur um sig hafi neitunarvald gagnvart tillögu hins ríkisstjórnarflokksins. Hætt er við að það taki þá nokkurn tíma að skipa í nefndirnar og ráðherrar geti þá dundað sér við að beita neitunarvaldi sínu eftir geðþótta ef þeim finnst þetta vera mikilvægt framlag til landsstjórnarinnar.

Ríkisstjórnin hefur mótað ákveðna stefnu í málinu og samið um hana í stjórnarsáttmála. Nefndirnar eru því ekki ákvörðunaraðilar heldur til þess að útfæra tillögur ríkisstjórnarinnar og vinna nákvæmnisvinnuna og handavinnuna við að koma stefnunni frá orðum til athafna. Þess vegna er það sérstakt að skipan í nefndina eða nefndirnar skuli vera orðið að sérstökum samkvæmisleik ríkisstjórnarinnar.

Brýna nauðsyn bar til að skipa nefndir til afnáms verðtryggingar og niðurfærslu lána strax í kjölfar myndunar ríkisstjórnarinnar. Þar  sem það var ekki gert, þá er eins gott að þeir Sigmundur Davíð og Bjarni Ben setjist niður í fyrramálið og afgreiði málið sín á milli á klukkutíma. Báðir flokkar eiga mikið af hæfileikafólki sem mundi leika sér af því að vinna þessa handavinnu fljótt og vel.

Þessi mál þola enga bið.


Sóknarnefnd og sóknarprestur Laugarneskirkju sjá ljósið.

Sóknarnefnd og sóknarprestur Laugarneskirkju sjá sérstaka ástæðu til að álykta gegn aðkomu þjóðkirkjunnar að komu Franklin Graham til landsins vegna afstöðu hans til samkynhneigðar. Sagt er frá því að umræður á fundinum hafi verið ítarlegar.

Sóknarpresturinn í Laugarneskirkju hefur látið lítið fyrir sér fara síðan hann varð sér til skammar með hrópum og skrílslátum í héraðsdómi Reykjavíkur auk þess sem hann krafðist að sr. Geir Waage yrði vikið úr embætti vegna skoðana sr. Geirs. Þá lýsti sr. Bjarni yfir þeirri girnd sinni að berja þáverandi lögmann en núverandi alþingismann Brynjar Níelsson vegna þess að hann var honum ósammála.   Ekki er vitað til að sóknarnefnd Laugarneskirkju hafi þótt þessi atlaga sr. Bjarna að tjáningarfrelsinu og girnd til að brjóta hegningarlögin vera fundar eða ályktunar hvað þá ítarlegrar umræðu virði.

Afstaða Franklin Graham til samkynhneigðra raskar hins vegar ró og makindum sr. Bjarna og sóknarnefndar hans.

Mér er nær að halda að sóknarnefnd Laugarneskirkju og presturinn viti harla lítið um Franklin Graham.

Ég er ósammála Franklin Graham í veigamiklum málum. Afstaða hans til samkynhneigðar vegur þar ekki þyngst. Franklin Graham studdi innrás Bandaríkjanna í Írak. Hann hefur vegið að Obama forseta vegna trúarskoðana þó hann hafi beðið hann afsökunar síðar. Hann hefur haldið fram dæmalausum hlutum um ýmis önnur trúarbrögð auk ýmissa rangfærslna og margs annars sem ég er andvígur trúfræðilega. Þá hefur hann oftar en einu sinni eins og sr. Bjarni snúist eins og pólitískur vindhani.

 Þrátt fyrir það tel ég eðlilegt að Franklin þessi fái að tjá skoðanir sínar og þjóðkirkjan beri sig ekki að vingulshætti með að segja sig frá þáttöku í þessari vonar uppákomu. Sjálfur ætla ég að hlusta á Franklin Graham ef ég á þess kost þó ég sé honum ósammála í veigamiklum atriðum.

Sóknarnefndin í Laugarneskirkju ætti að muna eftir orðum sem  franska skáldinu og heimspekingnum  Voltaire eru eignuð: " Ég fyrirlít skoðanir þínar, en ég er tilbúinn að fórna lífi mínu til að þú fáir að halda þeim fram."


Hlaðið í Hrun

Fyrirlestur Ásgeirs Jónssonar um fjórföldun peningamagns í umferð á 4 árum fyrir hrun er mjö athyglisverður. Þar kemur m.a. fram að hér á landi var beitt sömu aðferðum af hálfu Seðlabanka Íslands og annarsstaðar í okkar heimshluta. Bindisskylda var lækkuð og veðreglur Seðlabankans rýmkaðar (svokölluð ástarbréf) Við það m.a. jókst peningamagn í umferð og við erum enn að glíma við þann vanda að fjármálakerfið er fullt af peningum. 

Fram kom að það séu mistök að greiða jafn háa vexti og gert er af jöklabréfainnistæðum og fjármálakerfið verði að minnka þar sem það sé allt of stórt. Þá telur hann það hafa verið önnur mistök að láta bankana í hendur erlendum kröfuhöfum eins og ríkisstjórn Jóhönnu gerði. Raunar lýsti þessi fyrirlestur vel þeim 4 árum kyrrstöðu í tíð síðustu ríkisstjórnar.

Umfjöllun um verðtrygginguna og áhrif hennar í hagkerfinu var athyglisverð. Þannig telur Ásgeir að nauðsynlegt sé að fjármálalífið færi sig úr verðtryggingu verði tekið upp fljótandi gengi og ég gat ekki skilið hann með öðrum hætti en sú aðgerð væri raunar líka nauðsynleg til að hægt yrði að aflétta gjaldeyrishömlum.

Ásgeir sagði það hafaverið mistök að taka ekki verðtrygginguna úr sambandi við hrun. Ég var eini talsmaður þess á sínum tíma því miður. Ég krafðist þess að sett yrðu önnur neyðarlög sem mundu afnema verðtrygginguna eða alla vega taka hana úr sambandi. Það lá svo ljóst fyrir að það yrði að gerast að mínu mati, en Jóhanna Sigurðardóttir og Gylfi Arnbjörnsson ásamt hagsmunaaðilum fjármálakerfisins og hinum þögla meiri hluta Alþingis komu í veg fyrir þá nauðsynlegu aðgerð.

Nú sjá fleiri og fleiri að það var fráleitt að láta verðtrygginguna æða áfram þegar fyrirsjáanlegt var að laun mundu lækka, verð fasteigna mundi lækka, skattar hækka og verðbólgan æða áfram vegna gengishruns og annarra afleiðinga fjármálakreppu.  Vegna þess að ekki var farið að tillögum mínum hafa skuldir heimilanna aukist um 400 milljarða. Það er raunar sá samdráttur peningakerfisins, sem Ásgeir telur nauðsynlegan. Þeir peningar eru gervipeningar og best að horfast í augu við það strax og skila ránsfengnum þannig að það sé lífvænlegt í landinu. Þessar skuldir eru hvort eð er að mestu leyti bara til á pappír það er engin innistæða fyrir þeim og einungis lítill hluti verður greiddur.

Vandamál niðurfærslu og afnám verðtryggingar væru ekki fyrir hendi hefði verið brugðist við strax við bankahrunið eins og ég lagði til, en því miður er þetta allt saman flóknara í dag. En ekki óleysanlegt. Þeir sem nú mæla á móti eðlilegum skuldalækkunum og afnámi verðtryggingar á neytendalánum ættu að minnast þess sem skáldið Leo Tolstoy sagði forðum.

"Það þjóðfélag sem gætir ekki réttlætis fær ekki staðist."´

Óbreytt peningamálastefna með verðtrygginguna áfram að leiðarljósi hleður hratt og örugglega í nýtt Hrun. Það Hrun verður allt annars eðlis og mun alvarlegra fyrir íslenskt þjóðfélag en bankahrunið.


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 114
  • Sl. sólarhring: 1290
  • Sl. viku: 5256
  • Frá upphafi: 2469640

Annað

  • Innlit í dag: 104
  • Innlit sl. viku: 4812
  • Gestir í dag: 104
  • IP-tölur í dag: 104

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband