Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2015

Hjarta Pírata

Kapteinn Pírata segir að hjarta sitt slái með grísku þjóðinni. Þá átti hún við að hún hefði samsamað sig stefnu Vinstri öfga flokks Tsipiras forsætisráðherra og væntanlega þeim Grikkum sem greiða atkvæði með því að greiðslufall verði hjá gríska ríkinu. Spurning er hvort það sé skynsamleg afstaða eða ekki.

Ólíkt því sem var hér á landi þá er ekki verið að tala um skuldir óreiðumanna úti í bæ heldur skuldir gríska ríkisins.  Talið er að gríska ríkið skuldi þrefalda árs þjóðarframleiðslu, sem er langt umfram það sem hægt er að borga. Þess vegna þarf að koma til myndarleg skuldaniðurfellling sé vilji til að Grikkir komist út úr þessum hremmingum. Spurning hvort það sé í boði ef annað gengur veit ég ekki frekar en kapteinn Pírata.

Kröfur Evrópusambandsins sem þvælist fyrir vinstri stjórn Tsipiras eru þær helstar að virðisaukaskattur verði hækkaður í 23%. Að eftirlaunaaldur verði hækkaður í 67 ár. Að eyjarnar Santorini og Mykonos njóti ekki sérstaks skattahagræðis. Að dregið verði úr ríkisútgjöldum. Ekkert af þessu virðast ósanngjarnar kröfur miðað við skattheimtu og ríkisútgjöld og umfang ríkisumsvifa í öðrum Evrópuríkjum.

Yfirlýsing kapteins Pírata felur í sér þá afstöðu. Að ríkisstjórnir eigi ekki að borga skuldir sínar. Í öðru lagi að ríkisstjórnir sem eru að biðja skattgreiðendur annarra Evrópuríkja  um hjálp eigi ekki að þurfa að taka til heima hjá sér.

Hver á þá að borga ágæti kapteinn?

Verði greiðslufall hjá gríska ríkinu lendir meir en helmingur skulda þess á evrópskum skattgreiðendum.  Slær Píratahjartað þá ekki með fátækum skattgreiðendum á Írlandi, Spáni, Ítalíu og Portúgal sem þurfa þá að borga skuldir óreiðumannanna á Grikklandi.


Hjartað í Vatnsmýrinni

Hjarta mitt slær hvorki í Vatnsmýrinni né annarri mýri. Hvað sem því líður þá er með ólíkindum að nokkur skuli eyða vinnu og peningum í að hugsa um aðra valkosti fyrir flugvöll á höfuðborgarsvæðinu en þann núverandi.

Flugvöllur í Hvassahrauni sem Rögnunefndin svokölluð leggur til er dæmi um háskólaspeki til lausnar einhvers ímyndaðs vanda sem ekki verður leystur með nýjum flugvelli með margra milljarða tilkostnaði fyrir skattgreiðendur mitt á milli núverandi Reykjavíkurflugvallar og Keflavíkurflugvallar.

Tímasparnaður fyrir fólk á höfuðborgarsvæðinu við að fara á flutvöll í Hvassahrauni í staðinn fyrir að fara til Keflavíkur er í hæsta lagi 20 mínútur. En þann tíma mætti ná upp með því að auðvelda afgreiðslu á Keflavíkurflugvelli og breyta reglum varðandi komutíma farþega fyrir brottför.

Kostnaður við byggingu nýs flugvallar og rekstur hans er það mikill að hvort sem einhverjum líkar betur eða verr þá verður flugvöllur innanlandsflugs áfram í Vatnsmýrinni nema hann verði fluttur til Keflavíkur. Valkostirnir eru ekki aðrir.


Hleranir og glæpir

Í gær bað Obama Bandaríkjaforseti Frakklandsforseta afsökunar á því að hafa hlerað símtöl hans og sagðist hætta því. Hann bað fyrri forseta sem sættu líka hlerunum ekki afsökunar.

Bandaríska þjóðaröryggisstofnunin hefur hlerað síma forustumanna helstu bandalagsríkja sinna auk ýmissar annarrar njósnastarfsemi sem er með ólíkindum. Miðað við upplýsingar sem fram hafa komið m.a. frá Wikileaks, hafa Bandaríkin stundað grimmar víðtækar viðskipta-og iðnarðarnjósnir auk þess að hafa njósnað persónulega um forustufólk í stjórnmálum

Vísireglan er sú að þegar upp kemst um svona athæfi þá er það einungis toppurinn á ísjakanum. Nú er komið í ljós að þjóðaröryggisstofnunin sem margir stjórnmálamenn í Bandaríkjunum vöruðu við að yrði sett á laggirnar hefur mun víðtækara njósnahlutverk en að berjast gegn hryðjuverkaógn. Krafa bandalagsþjóða Bandaríkjanna í Evrópu ætti í ljósi nýrra upplýsinga að vera að Bandaríkjamenn gerðu hreint fyrir sínum dyrum í samskiptum þjóðanna.

Það ætti einnig að vera krafa evrópskra NATO ríkja að Bandaríkin gerðu hreint fyrir sínum dyrum varðandi vopnvæðingu og fjárstyrki til hryðjuverkasamtaka og afskipti t.d. af styrjöldinni í Sýrlandi sem hefur valdið þjáningum tuga milljóna einstaklinga og stuðlað að mesta flóttamannavandamáli í nútímasögu. Þá verða Bandaríkjamenn líka að gera hreint fyrir sínum dyrum varðandi pyntingar fanga, dráp á saklausum borgurum m.a. með drónum og sérþjálfuðum vígasveitum að öðrum kosti verður það sama að gilda um forustumenn þeirra og aðra forustumenn að gera þá ábyrga fyrir meintum stríðsglæpum ef á sannast.

Á sama tíma og Bandaríkin eru sökuð um að hlera síma þjóðhöfðingja og helsta áhrifafólks í Evrópu og stýra ákvarðanatöku þeirra ríkja og hafa áhrif á viðskiptahagsmuni þá kalla þau eftir víðtækri samtöðu um baráttu gegn meintri útþennslustefnu Rússa.

Árið 2013 fóru síðustu skriðdrekar Bandaríkjanna frá Evrópu sem táknræn birtingarmynd þess að kalda stríðinu væri lokið. Nú tveim árum síðar hamast þeir við að senda skriðdreka sína aftur til ýmissa landa Evrópu vegna ímyndaðrar hættu af Rússum. Sú hætta er fyrst og fremst tilbúningur Obama forseta og starfsmanna hans í Pentagon sem vilja halda áfram stríðsleikjum á kostnað bandaríksra skattgreiðenda og láta fólk halda að það sé einhver ógn þó hún sé ekki til staðar.

Er ekki mál til komið að afskiptum Bandaríkjanna af okkar heimshluta ljúki. Framganga þeirra á þessari öld er ekki svo gæfulegur svo ekki sé meira sagt þó vissulega geti Evrópa þakkað þeim aðstoð í seinni heimstyrjöld og Marshall aðstoðina á síðustu öld. En þá voru öðru vísi menn við stjórnvölin sem höfðu ákveðin lýðræðisleg markmið og unnu samkvæmt þeim.


Leiðrétting

Í gær skrifaði ég um að RÚV sýndi heimsmeistarakeppni kvenna ekki sómasamlegan áhuga. Þar var ekki allskostar farið rétt með staðreyndir og biðst ég velvirðingar á því. RÚV hefur þegar gert keppninni nokkur skil þó ekki mikil og ætlar sér að gera heldur betur bragabót með því að sýna leikina sem eftir eru í beinni.

En þá skiptir máli að rugla ekki hefðbundnum fréttatímum það á aldrei að gera þó mismerkilegir íþróttaviðburðir séu í gangi.


Kvennréttindi og tildur

Þessa daganna fer fram í Kanada heimsmeistarakeppni í knattspyrnu kvenna. Nokkuð annað er upp á teningnum hjá ríkisfjölmiðlinum vegna þeirrar keppni en heimsmeistarakeppni karla í fótbolta eða handbolta þar sem leikir voru nær undantekningarlaust sýndir í beinni útsendingu og fréttatímar færðir til sem og önnur dagskrá til að láta áhugafólk um þessar líkamshreyfingar ekki missa af neinu.

Heimsmeistarakeppni kevnna í fótbolta fer nánast alveg framhjá Ríkisútvarpinu. Engin leikur er sýndur í beinni útsendingu sem komið er. Samt segja fjölmiðlafræðingar erlendis að aldrei fyrr hafi verið jafnmikill áhugi almennings á þessari keppni og nú. Þó mikilvægt sé að fjölmiðlar virði jafnstöðu kynjanna þá verða þeir að taka mið af vilja og óskum neytenda, en slíkar óskir og vilja er erfitt að vita um meðan neytendum er ekki boðið upp á efnið. Vonandi sér RÚV að sér og sýni kvennaknattspyrnunni eðlilega virðingu með því að sýna úrslitaleikina.

Á sama tíma samþykkti Alþingi nánast samhljóða þ.19.júní að taka hálfan milljarð frá skattgreiðendum til að búa til sjóð varðandi konur og kvennabaráttu en gætti þess að það fjármagn rynni ekki til hluta sem skiptu máli til að auka réttindi kvenna þar sem þess gerist mest þörf. Þar sem tildursjóðurinn hafði jafn óljósa og ómarkvissa þýðingu þá er ekki hægt annað en taka ofan fyrir Sigríði Andersen fyrir að standa fast á sínu og greiða ekki atkvæði með sjóði með jafn ómarkvissa skipulagsskrá.

Er það í þágu kvennabaráttunnar að taka hálfan milljarð frá skattgreiðendum til að gera eitthvað sem með einhverjum hætti e.t.v. gæti tengst konum og kvennabaráttu.  Jafnvel þó að meiri líkur en minni séu á því að það skipti þessa baráttu engu máli en gæti útvegað nokkrum háskólakonum tekna við að skrifa lærðar úttektir og rit um kvennabaráttu liðinnar aldar.  


Hræðileg örlög

Forsíðufrétt Fréttablaðsins er um þau hræðilegu örlög sem bíða Garðabæjar. Samkvæmæt könnun sem blaðið vísar til þá eru íbúar Garðabæjar að eldast. Í fréttinni er fjallað um þau hræðilegu örlög sem bæjarfélagsins bíður vegna þessa óbreytanlega náttúrulögmáls.

Hvað skyldi nú valda þessari vá sem Garðbæingar standa frammi fyrir. Ekki er vafi á því að þar er um auðskýranlegar náttúrulegar orsakir að ræða. Þá er spurningin er eitthvað öðruvísi í Garðabæ en í öðrum samfélögum á höfuðborgarsvæðinu? Eftir því sem best verður séð þá er svo ekki. Meðalaldur í hverfum og bæjarhlutum verður hærri og svo kemur endurnýjun. Garðabær sker sig ekkert úr hvað þetta varðar og sömu lögmál gilda hér og í okkar nágrannalöndum.

Þessi forsíðufrétt Fréttablaðsins er dæmigerð ekki frétt. Talnaleg könnun og úrvinnsla er dæmi um leiki menntamanna sem hafa ekkert betra við tímann að gera á kostnað skattgreiðenda.

Þó þessi frétt um náttúrulega öldrun Garðbæinga sé dæmigerð ekki frétt þá er hún þó hátíð miðað við afkáralega síbyljufréttamennsku RÚV um "hörmulegt ástand" á sjúkrahúsum landsmanna.


Stríðsæsingar og flóttamenn

Erdogan forseti Tyrklands hefur ásamt stjórnum Saudi Arabíu, Katar og Bandaríkjanna stutt uppreisnina í Sýrlandi með vopnum og gríðarlegum fjárframlögum. Fullyrða má að hefðu þessi ríki ekki stutt við uppreisnina eins og þau hafa gert væri henni löngu lokið með ósigri uppreisnarliðsins og engin flóttamannavandamál í Sýrlandi.

Erdogan Tyrkjaforseti krefst þess nú að Evrópuríki taki við fleiri flóttamönnum sem hrakist hafa frá heimilum sínum vegna útþennslustefnu hans dómgreindarlausrar utanríkisstefnu Bandaríkjanna undir Obama. Væri ekki rétt að þeir sem hafa búið til vandamálið taki afleiðingunum af því.

Ævintýramennska Bandaríkjanna varðandi borgarastyrjöldina í Sýrlandi er ótrúleg. Þeir hafa í raun búið til vígasveitir öfgafullra Íslamista, vopnað þær og fjármagnað. Eftir mistökin sem þeir gerðu í Afganistan þegar þeir bjuggu til Al Kaída mætti ætla að þeir hefðu næmari skilning á því að vígamennirnir sem berjast gegn óvinum þeirra verða ekki englar með því

Af hverju er Evrópa gjörsamlega sofandi í þessu máli og leyfir Tyrklandi, Bandaríkjunum, Katar og Saudi Arabíu að búa til þetta ástand. Milljónir fólks á flótta. Þjóðarmorð, konum nauðgað í hundraða tali dag hvern og þær seldar mannsali auk ýmiss annars hryllings. Hvað lengi ætlar Evrópa að horfa upp á þennan hrylling og ímynda sér að Bandaríkin geti verið leiðtogar í siðvæðingu heimsins?


Friðsamleg mótmæli?

Borgarstjórinn var spurður um mótmæli hávaðafólks á 17. júní. Hnn  þurfti virkilega að vanda sig til að verða ekki fótaskortur á tungunni. Eftir japl jaml og fuður komst hann að þeirri niðurstöðu að þetta hefði verið ágæt mótmæli þar sem þau hefðu verið friðsamleg.

Mótmæli eru ekki friðsamleg ef þau koma í veg fyrir að aðrir geti notið lýðræðislegra réttinda. Mótmælin í gær voru aðför að tjáningarfrelsinu og óvirðing við þjóðhöfðinga, þjóðsöng og táknmynd frelsis og sjálfstæðis þjóðarinnar.   

Viðmælandi ríkisfjölmiðilsins úr hópi mótmælanda réttlætti mótmælin með því að Jón Sigurðsson hefði haft uppi mótmæli þegar Danir ætluðu að neyða upp á þjóðina stjórnarskrá sem tók sjálfstæði og sjálfsákvörðunrarétt frá þjóðinni.

Sá sem þetta segir þekkir lítt til sögu þjóðarinnar og með hvaða hætti sjálfstæðisbaráttan fór fram. Jón Sigurðsson gætti í hvívetna að sýna andstæðingum sínum virðingu þó hann héldi fram málstað þjóðarinnar af mikilli festu. Hann gerði ekki aðför, hæddi eða smánaði valdsmenn Danakonungs heldur gerði þeim með hófstilltum hætti grein fyrir sjónarmiðum sínum og mótmælti ofbeldi fulltrúa hins erlenda valds gagnvart þjóðjörnum fulltrúum. Mótmælendur nú gera hins vegar hróp að þjóðkjörnum fulltrúum.

Með friðsamlegum hætti á grundvelli rökfestu og þrautseigju náðu forustumenn Íslands sjálfstæði fyrir þjóðina. Hætt er við að öðru vísi hefði farið ef þeir hefðu haft sama hátt á og mótmælendurnir í gær.

Á morgun fögnum við því að 100 ár eru liðin frá því að konur fengu sjálfsögð lýðréttindi fróðlegt verður að sjá hvort upphlaupsfólkið ætlar að sýna þeim sögulega merkisatburði álíka virðingarleysi og þjóðhátíðardeginum.


Hvika þeir nú allir nema Eiríkur.

Flestir eru sammála um að leið ríkisstjórnarinnar til að aflétta gjaldeyrishöftum sé vel heppnuð og betri en nokkur þorði að vona. Svo góður árangur hefur náðst við undirbúning lagafrumvarpa ríkisstjórnarinnar og saminga við kröfuhafa að stjórnarandstaðan hefur tekið undir að hér sé vel að verki staðið - nema einn Eiríkur Bergmann prófessor í Evrópufræðum.

Stjórnarandstaðan með Steingrím J í broddi hefur sammælst um að tillögur ríkisstjórnarinnar séu í raun þeirra tillögur sem hafi verið fullbúnar árið 2011 þó engin hafi nokkurn tíma séð þær tillögur enda þær ofnar úr sama vef og "nýju fötin keisarans" í sögu H.C. Andersen.

Svo afkáraleg er þessi tilraun forustumanna VG og Samfylkingarinnar við að reyna að slá höfundarrétti á tillögur ríkisstjórnarinnar að það væri eins og Æri Tobbi segðist hafa kveðið Lilju, sem þá þótti það ljóð sem hafði verið dýrast kveðið hér á landi.

Samt er það einn sem hvikar ekki og það er garmurinn hann Skammkell í líki Eríkis Bergmanns prófessors í Evrópufræðum. Hann segir að það hefði mátt ná mun betri samningum en þeim sem ríkisstjórnin náði og átelur ríkisstjórnina fyrir aðför að kapítalismanum. Raunar kemur á óvart skyndileg ástúð Eíríks Bergmann á kapítalismanum en batnandi mönnum er best að lifa.

Í þessu sambandi er e.t.v. ekki úr vegi að benda á að þessi sami Eiríkur hélt því fram að samþykkja yrði fyrsta Icessve samninginn (Svavarssamninginn) annars mundi þjóðin einangrast frá öllu alþjóðlegu samstarfi- eða næsti bær við kenningar Kúbu Gylfa Magnússonar.

Með aukinni lífsreynslu hef ég orðið þess áskynja að háskólasamfélagið hefur tekið upp þá himnesku lífsspeki sem Davíð Stefánsson gerði svo einstök skil í "Sálinni hans Jóns míns" að kasta aldrei neinu á glæ hversu guðlaust sem það er. Að breyttum breytanda þá kastar háskólasamfélagið engu á glæ hversu óvísindalegt sem það þó kann að vera ef það á annað borð er komið inn fyrir hið Gullna hlið fræðamannasamfélagsins.


Helsi er frelsi

Þingfundur er boðaður í fyrsta skipti á sunnudagskvöld. Fæstir búast við því að Alþingismenn komi saman um náttmál á helgideginum nema eitthvað verulega mikilvægt sem þolir enga bið þurfi að afgreiða með hraði.

Sumir hefðu haldið að nú ætti að taka á þeim vanda sem hefur skapast og er að skapast vegna verkfalla og setja ætti lög sem frestuðu verkföllum alla vega öryggisstétta. Nei svo er ekki. Tilefnið er að ræða nýtt haftafrumvarp frá Seðlabankanum þar sem boðað er að enn skuli gjaldeyrishöftin hert í þeim tilgangi að þau verði afnumin sem fyrst.

Óneitanlega dettur manni í hug pólitískt nýmæal George Orwell í bókinni 1984, en hann aðhylltist um tíma sömu pólitísku hugmyndafræði og Seðlabankastjóri. En sá er munurinn að George Orwell gerði upp við þá hugmyndafræði en það hefur Seðlabankastjóri ekki gert enn og gengur vel að selja stjórnarherrunum og hinu háa Alþingi að helsi sé frelsi.

Ekkert hefur verið lagt fyrir Alþingi um afnám gjaldeyrishafta, en það hlíur að koma að því fljótlega þar sem ítrekað er verið að herða gjaldeyrishöftin í því skyni að afnema þau. Ef til vill lítur ríkisstjórnin og Seðlabankastjóri þannig að að þetta sé eins og ró sem endar með að brotna í sundur ef endalaust er hert. Þannig var það alla vega með Sovétið.

Ráðlegg þeim sem ætluði að fylgjast með athyglisverðri umræðu frá Alþingi í kvöld drífi sig frekar í háttinn og lesi um þetta haftamál í fyrramálið - Ef það er þá þess virði.


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 341
  • Sl. sólarhring: 565
  • Sl. viku: 4162
  • Frá upphafi: 2427962

Annað

  • Innlit í dag: 313
  • Innlit sl. viku: 3849
  • Gestir í dag: 299
  • IP-tölur í dag: 278

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband