Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2016

Skrýtin kosningabarátta

Eftir umræðuþátt formannana í gær þá fundust mér aðeins þrír standa almennilega í lappirnar hvað varðar að hugsa heildstætt um þjóðarhag. Það voru þeir Bjarni Benediktsson, Sigurður Ingi Jóhannsson og Benedikt Jóhannesson.

Síðan er að sjá hvort að aðrir kjósendur hafi metið það með svipuðum hætti og gefi einhverjum þessara þriggja atkvæði sitt.

Píratar gerðu B, C og D mikinn greiða með að boða til stjórnarmyndunar. Það þrýsti fylgi yfir til þeirra flokka.

Athyglisvert hvernig Samfylkingarfjölmiðlarnir breyttu allt í einu um afstöðu gagnvart Pírötum og byrjuðu að taka á þeim með sömu tökum og öðru stjórnmálafólki og þá kom í ljós að þeir höfðu ekkert fram að færa. Stóðu sig engan vegin í almennum umræðum og voru ítrekað gripnir í bullu og rangfærslum.

Eftir að hafa horft á umræðuþátt forustumanna smáflokkana í gær þá verð ég að viðurkenna að það voru bara málsvarar Dögunar og Flokks fólksins sem var fólki bjóðandi. Hinir voru eiginlega á sama stað og Pírataþingmaðurinn sem talar um Geimvísindastofun sem mikilvægasta atvinnutækifæri íslenskrar alþýðu.

Eftir að hafa hlustað á frambjóðanda Þjóðfylkingarinnar þá áttaði ég mig á að hún er bara framboðsflokkur án takmarks né tilgangs.

Nú er að sjá hvað kemur upp úr kjörkössunum, en ekki er ég spámannlega vaxin ef Píratar fá ekki mun minna fylgi en kosningaspár hafa gefið þeim um langan tíma. Ef til vill er það þó bara mín óskhyggja. En sá flokkur er eitt það ömurlegasta sem komið hefur fram á stjórnmálavettvangi landsins.


Flokkur fyrir þig?

Píratar mælast enn næststærstir í skoðanakönnunum, sem er raunar furðulegt af því að flokkurinn hefur ekki staðið fyrir neitt sérstakt á þingi ef undan er skilið harkaleg andstaða við kristni og kirkju sem og opin landamæri á kostnað skattgreiðenda.

Þá hefur forustufólk Pírata verið berað að því að segja ósatt m.a. um menntun sína og vinnu, sem mundi valda meiri háttar hávaða í helstu fjölmiðlum ef aðrir ættu í hlut.

Sagt er að Píratar sæki helst stuðning sinn til ungs fólks og er það ills viti ef ungt fólk í landinu velur sér fyrirmyndir eins og þær sem þar skipa fremstu bekki. Sá metnaður og dugnaður sem komið hefur fram hjá ungu fólki á Íslandi undanfarin ár sem birtist m.a. í hugkvæmni í viðskiptum, samskiptum,  öllu sem varðar tölvur hvað þá heldur einstaka og frábæra tónlistarútrás auk margs annars er í hróplegu ósamræmi við geljanda, þjóðfélagslegaandúð og froðusnakk  forustufólks Pírata.

Mótmælaframboð eiga vissulega rétt á sér einkum ef þau standa fyrir skýra valkosti til breytinga en það gera Píratar engan vegin. Siðvæðing íslenskra stjórnmála,minni skattheimta og traust efnahagsstjórn eru miklvægastu málin í dag sem varða heill og hamingju þjóðarinnar. Þá baráttu leiða Pírtar engan vegin. Forustufólk þeirra hefur ekki sýnt hæfi til að gera það auk heldur þá veikleika að vita ekki hvaða menntun það hefur auk heldur hvar það vinnur.

Það er svo til marks um úrræðaleysi og hugmyndafræðilega örbirgð Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar að þessir flokkar skuli setjast niður undir forustu Pírata til að ræða stjórnarmyndun á grundvelli skoðanakannana.

Sem betur fer áttar þjóðin sig stöðugt betur á því hvílík vá það væri ef Píratabandalagið ætti að fara að stjórna landinu.

Þá væri nú heldur betur ástæða til að segja:"Guð blessi Ísland."

 


Ríkisstyrktir stjórnmálaflokkar.

Ákvörðun og samstaða stjórnmálaflokkana um að stela milljörðum á hverju ári frá skattgreiðendum til að fjármagna starfsemi sína er siðlaus. Auk þess er fráleitt að flokksbrot geti gert út á ríkisstyrki og lifi til þess eins að vera framboðsflokkar út á ríkisstyrki.

Ég hef ávallt talað gegn ríkisstyrkjum til stjórnmálaflokka sem og borgar-, bæjar- og sveitartjórnarstyrkjum til stjórnmálaflokka. Stykur til stjórnmálaflokks og fjármögnun á að vera ákvörðunaratriði hvers einstaklings og það er ekkert annað en siðlaus þjófnaður frá fólkinu að skylda það til að leggja fé til stjórnmálaflokka sem það er gjörsamlega á móti, en þannig er það í dag.

Af gefnu tilefni vegna þess að ruglaðasta Útvarpsstöð landsins, Útvarp Saga hefur haldið því fram að ég blandist inn í eða hafi eitthvað með hugmyndir sr. Halldórs Gunnarssonar um sameiningu smáframboða að gera þá er allt sem þar er sagt alrangt. Framboð sem njóta mikils fylgis eða lítils eiga að koma fram á grundvelli hugsjóna og baráttu fyrir ákveðnum málefnum. Telji einhver að sameining framboða á þeim grundvelli að fáir vilji kjósa þau séu forsenda sameiningar þá er þar illa tjaldað til einnar nætur og á pólitísk fölskum forsendum.

Meginatriðið er samt sem áður það að sá þjófnaður sem stjórnmálaflokkarnir eru sammála um að stela peningum frá fólkinu í landinu til að fjármagna starfsemi sína er siðlaus og á að afnema.


Skýrir valkostir

Nýi fjórflokkurinn sem situr við að mynda ríkisstjórn undir forustu Pírata auðveldar mörgum að kjósa allt annað en einhvern hluta þess vinstra bræðings sem þar er verið að kokka saman.

Sporin ættu að hræða og má m.a. vísa til óstjórnar þessa sama bræðings í Reykjavíkurborg þar sem lausafjárstaða borgarinnar er slæm,viðhald gatna er í lágmarki og þjónusta er skert á meðan gjöld á borgarana hækka.

Kjósendur eiga því um þrennt að velja.

Kjósa óstjórn vinstra bræðingsins með því að greiða Pírötum, VG, Samfylkingu eða Bjartri framtíð atkvæði.

Skila auðu eða henda atkvæði sínu með öðrum hætti á glæ með því að kjósa flokka sem eiga enga möguleika á að ná inn manni.

Kjósa flokka sem hafa stjórnað með farsælum hætti undanfarin ár. Það skiptir máli að áframhaldandi uppbygging íslensks samfélags geti haldið áfram.

Hvað sem líður ánægju eða óánægju með einstök mál hjá stjórnarflokkunum,  þá er áhættan of mikil miðað við það sem Píratabræðingurinn sýnir og býður kjósendum upp á.

Sjálfstæðisflokkinn er því sjálfsagðasti og besti valkosturinn fyrir okkur sem viljum einstaklingsfrelsi, festu og öryggi í stjórn landsins.

Þeir sem vilja ekki kjósa Sjálfstæðisflokkinn en telja nauðsynlegt að skynsemi sé gætt í landsstjórninni geta þá valið á milli Framsóknar og Viðreisnar.

Píratar í ríkisstjórn má ekki vera og á ekki að vera valkostur. 

 


Fantasíur fjölmiðils

Þeir sem hlusta á furðulegasta fjölmiðil landsins Útvarp Sögu gera sér grein fyrir að iðulega er þar hallað réttu máli og farið rangt með staðreyndir. Það sem verra er að á stundum virðist fjörugt ímyndunarafl útvarpsstjórans leiða hana ítrekað í gönur.

Hins vegar er ég lítt dómbær á það sem komið hefur fram í þessum fjölmiðli um árabil þar sem ég hlusta ekki á hann og tel tíma mínum betur varið til uppbyggilegri hluta.

Í dag bregður svo við að vinir mínir hringja í mig til að segja mér að konan með fjöruga og ruglaða ímyndunaraflið fari hamförum yfir einhverju sem mig varðar og síðar var mér bent á heimasíðu þessa furðufjölmiðils og þar er kemur fram að ég og Höskuldur Höskuldsson lyfjafræðingur séum í einhverju furðusamstarfi við Flokk fólksins og íslensku þjóðfylkinguna og ætlum okkur að taka sjóðinn þegar kosningum lýkur.

Á ýmsu átti ég von en ekki því að hið fjöruga og oft rykuga ímyndunarafl Arnrþrúðar Karlsdóttur mundi leiða hana í þær ógöngur að fjalla um hlut sem engin minnsti flugufótur er fyrir.

Í fyrsta lagi höfum hvorki ég né Höskuldur Höskuldsson átt neitt samstarf eða verið í sambandi við Íslensku þjóðfylkinguna eða Flokk fólksins. Í öðru lagi heyrir "Nýtt afl" ekki undir okkur en er á forsjá einstaklings, sem iðulega er tekin í viðtal á Útvarpi Sögu.

Öll umfjöllun Útvarps Sögu í dag um mig og Höskuld er því algjörlega úr lausu lofti gripin. Hefði þessi fjölmiðill hina minnstu sómatilfinningu og sinnt eðlilegri fjölmiðlun, hefði nú verið rétt að hann spyrði viðkomandi áður en hann setur svona bull í loftið. Um slíkar reglur sinnir þessi fjölmiðill ekki frekar en aðrar.


Hræðslubandalagið

Píratar sáu fylgistölur dala í skoðanakönnunum og ákváðu því að ná sér í ókeypis auglýsingu hjá ljósvakamiðlunum með því að bjóða til stjórnarmyndunarviðræðna á grundvelli skoðanakannna.

Formaður Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar sem horfa upp á að veruleg áhöld kunna að vera um það miðað við sömu skoðanakannanir hvort flokkar þeirra ná þingmanni í næstu kosningum ákváðu að ganga til bandalagsins á grundvelli sömu sjónarmiða og Píratar það að mynda nýtt Hræðslubandalag.

Katrínu Jakobsdóttur tókst í nokkurn tíma að vera með humm og ha gagnvart þessum tilburðum Hræðslubandalagsins einkum vegna þess að hennar flokkur hefur verið í sókn skv.sömu könnunum. Svo fór að lokum að hún ákvað að setjast með Hræðslubandalaginu enda ljóst að ef til kæmi þá yrði hún forsætisráðherra. Velferð landsins mætti þá skoða með tilliti til þess með hvaða hætti Katrín Jakobsdóttir stóð sig sem menntamálaráðherra í tíð síðustu vinstri stjórnar.

Í framhaldinu gumar Hræðslubandalagið af því að nú verði stofnuð ný vinstri stjórn sem hafi það að meginmarkmiði að taka miklu meiri peninga frá þér skattgreiðandi góður til að auka millifærslur í ný ríkisstyrkt gæluverkefni og bruðl. Þá er það einnig yfirlýst viðfangsefni að rugla í stjórnarskránni með óskilgreindum hætti.

Svo er komið að hófsömu félagshyggju- og vinstra fólki er brugðið þegar það horfir upp á að foringjar Hræðslubandalagsins ætla að mynda nýja hreinræktaða vinstri stjórn eins og Jóhanna og Steingrímur gerðu áður og leiða hina Guðs voluðu Pírata til áhrifa í íslenskum stjórnmálum.

Hófsömu félagshyggju- og vinstrafólki hrýs hugur við þessu og það spyr hvað getum við kosið fyrst svona er komið af því að það horfir á það með skelfingu hvers konar óstjórn þjóðin fengi með þessu ofurríkishyggjuliði. Það spyr hvað getum við kosið og finnst að mörgu leyti með réttu erfitt að kjósa flokka sem hafa ekki tekið til hjá sér með nauðsynlegum hætti og leyft sérhyggju og spillingarliði að fara sínu fram.

En jafnvel þetta hófsama vinstra- og félagshyggjufólk segir allt er betra en þetta glórulausa lið sem nú hefur sest niður í boði Pírata sem njóta einungis fylgis "ég er á móti fólks" úr öllum áttum.

Hugsandi fólk sem þekkir söguna er eðlilega á varðbergi og því er brugðið, ef það á eina ferðina enn að sigla upp með ríkisstjórn í sama anda og þær ríkisstjórnir sem verst hafa reynst á Íslandi.

 


Pólitískir fréttaskýringar í kufli fræðimennsku.

Í lögum um Ríkisútvarpið er kveðið á um að RÚV miðli fréttum með sem hlutlægustum og sönnustum hætti. Ríkisútvarpið er rekið fyrir almannafé og þess vegna geta neytendur gert kröfu til að fréttastofa RÚV standi sig ekki verr en einkastöðvar sem þurfa ekki að lúta sömu lagafyrirmælum.

Samt sem áður gerist fréttastofa RÚV sig ítrekað seka um að flytja áróður í stað frétta og lýsa einni skoðun sem þá á að vera hinn heilagi sannleikur. Kallaðir eru til stjórnmálamenn í kufli fræðimanna eins og Silja Bára Ómarsdóttir, Eiríkur Bergmann og Ólafur Harðarsson til að þrýsta áróðrinum enn betur ofaní pöpulinn.

Þessi viðleitni er áberandi þegar bornar eru saman umfjallanir fréttastofu RÚV og erlendra fjölmiðla. Í morgun var t.d. fjallað um kappræður Donald Trump og Hillary Clinton með þeim hætti í RÚV að ómögulegt var að álíta annað en Trump væri stórhættulegur "monster" og Silja Bára gaf "fræðilega"skýringu á málinu.

Í breska stórblaðinu Daily Telegraph er farin önnur leið. Átta blaðamenn lýsa sinni skoðun á kappræðunum og draga fram mismunandi hluti. Meirihlutinn segir að Trump hafi verið sigurvegari en 3 af átta hafa aðra skoðun og einn segir að kappræðurnar hafi verið "disaster" fyrir Trump. Með því að lesa skoðanir blaðamannana fæst betri mynd af því sem um gerðist, en áróður RÚV með Silju Báru í ofanálag.

Í gær var Kastljósþáttur um símtal sem Geir H. Haarde og Davíð Oddsson áttu í aðdraganda þess að stóru viðskiptabankarnir þrír féllu í október 2008. Þar láðist að geta þess sem mestu máli skiptir. Í ljós kom að veðið sem tekið var í FIH bankanum fyrir lánveitingunni reyndist fullnægjandi.

Ríkissjóður og/eða Seðlabankinn hefðu verið skaðlaus af láninu ef Már Guðmundsson Seðlabankastjóri hefði ekki tekið þá ákvörðun að hafna tilboði í bankann sem hefði tryggt fulla endurgreiðslu en þess í stað ákveðið að leika sér sem vogunarsjóður eingöngu til hugsanlegs ábata fyrir slitastjórn Kaupþings en áhættu fyrir ríkissjóð. Áhættan sem Már Guðmundsson tók kostaði ríkissjóð milljarða en ekki lánveitingin sjálf. Um það fjallar RÚV ekki.

Sá kafli málsins sem snýr að núverandi Seðlabankastjóra er mun athyglisverðari en símtal Davíðs og Geirs. Af hverju skyldi Kastljós eða fréttastofa RÚV ekki fjalla um það hvað þá heldur pólitísku fréttaskýrendur RÚV í kufli fræðimanna.  


Stjórnarmyndun í ljósi skoðanakannana

Undanfarið hafa Píratar séð fylgið minnka með hverri nýrri skoðanakönnun sem birtist. Þess vegna spiluðu þeir út þeirri hugmynd að vinstri flokkarnir mynduðu ríkisstjórn í samræmi við skoðanakannanir.

Forustumenn Bjartrar framtíðar og Viðreisnar sáu við þessum ruglanda og þökkuðu pent fyrir sig. Katrín Jakobsdóttir sem á erfitt með að taka afstöðu í nokkru máli setti tilboðið í "ferli" en Samfylkingin sem er við dauðans dyr sá kærkomið tækifæri til að leika á sömu pópúlísku pípuna og Píratar.

Formaður Samfylkingarinnar lýsti áhuga á stjórnarsamvinnu Pírata og annarra vinstri flokka og rykið var dustað af Ólafi Harðarsyni stjórnmálafræðingi sem lýsti þessari auglýsingu sem merkilegustu uppákomu í íslenskum stjórnmálum í tugi ára. Enn meira ryk var síðan dustað og uppmunstraður Jón Baldvin Hannibalsson sem á sínum tíma stóð að stofnun Samfylkingarinna og hann vitnaði um þá  pólitíska blessun sem fælist í tilboði Pírata í sama anda og Steinn Steinar orti á sinni tíð um Jón Kristófer Sigurðsson kadett í Hjálpræðishernum.

Meira þurfti til að koma í þeirri viðleitni að fá einhverja til að glepjast. Fréttadeild Samfylkingarinnar á RÚV lagði sitt að mörkum og þriðjungur kvöldfréttatímans á sunnudagskvöldi fór í að fjalla um þetta "merka pópúlíska útspil" Pírata og kallaðir til meintir sérfræðingar til að slá þá hörpustrengi sem hentuðu Samfylkingunni.

Það er nú einu sinni þannig að það eru kosningar en ekki skoðanakannanir sem telja. Stjórnarmyndun á grundvelli skoðanakannana er hvað svo sem þeir heiðursmenn og eðalkratar Jón Baldvin og Ólafur Harðarson segja lítilfjölegt útspil málefnasnauðs flokks til að vekja á sér athygli og viðbrögð Samfylkingarinnar eru dæmigerð viðbrögð annars málefnasnauðs flokks.

Vert er að óska forustufólki Bjartrar Framtíðar og Viðreisnar til hamingju með að hafa ekki fallið í Píratapyttinn, en þeir Jón Baldvin og Ólafur Harðarson geta kyrjað úr ofangreindu kvæði Steins Steinar:

"Það fékk á vor fátæku hjörtu

og færði oss huggun í sál

að hlusta á þitt Halelúja

og hugljúfa bænamál.

Halelúja Birgittu Jónsdóttir varð í umfjöllun þessara herramanna sem æðri opinberun og mikið yrði nú landinn sæll að fá Steingrím J. aftur sem ráðherra svo ekki sé talð um væri rykið dustað af fleirum krataforingjum eins og t.d. Jóhönnu Sigurðardóttur. Hvílík snilld yrði það nú í stjórnarmyndun að fá það dáindisfólk eða lærisveina þess aftur að stjórn landsins. Tær snilld eins og bankastjórinn orðaði Iceseifið forðum.


Flokkurinn sem er tímaskekkja.

Stjórnmálaflokkurinn Samfylkingin var stofnuð til að sameina vinstra fólk í einum stjórnmálaflokki. Stefnuskráin tók mið af þessu og var vinstri moðsuða um aukningu skattheimtu og ríkisútgjalda. Auk þessa beitti Samfylkingin sér fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu hvað sem tautaði eða raulaði

Sameining vinstra fólks mistókst og nú bjóða flokkar vinstri fólks upp á a.m.k. 5 framboð.

Öllum á óvörum komu Píratar út úr skápnum og buðu upp á stjórnarmyndun vinstra fólks, sem þeir skilgreina alla aðra en þá sem styðja Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn.

Tilurð og áframhald Samfylkingarinnar byggir því ekki lengur á sameiningu vinstra fólks í einn flokk. Viðreisn hefur tekið við keflinu fyrir Evrópusambandsaðild, hvað sem tautar eða raular.

Samfylkingin er tímaskekkja eða anakrónismi. Forsendur og tilurð flokksins byggist ekki lengur á hugsjóninni um sameiningu vinstra fólks og Viðreisn hefur tekið við Evópusambandskeflinu þó þeir laumupúkist með það.

Forustufólk Samfylkingarinnar að Össuri Skarphéðinssyni einum undanskildum áttar sig ekki á þessari staðreynd. Kjósendur gera það hins vegar eins og nýlegar fylgistölur sína.


100 mánuðurnir sem liðu áfallalaust

Árið 2016 er heitasta ár á jörðinni í meir en 100 þúsund ár vegna loftslagsbreytinga, sagði í frétt vinstra blaðsins Guardian í síðustu viku.  Vísað var til upplýsinga "sérfræðingsins" James Hansen eins helsta baráttumanns um loftslagshlýnun af mannavöldum. Þetta er raunar alrangt þar sem loftslag var hlýrra á jörðinni fyrir um 1000 árum eða þegar Ísland byggðist og er því miður ekki eins hlýtt og þá.

Hansen og annað ofsatrúarfólk á hnattræna hlýnun af mannavöldum halda því fram að finna verði leiðir til að koma koltvísýringi burt úr andrúmsloftinu en áætlaður kostnaður við það eru 570 trilljónir dollara eða sem samsvarar sjöára heimsframleiðslu. Það þýðir um 9 milljón króna kostnað á hvert mannsbarn í heiminum.

Hansen og nótar hans hafa spáð því allt frá árinu 1988 að hlýnun væri óumflýjanleg ef ekki yrði hætt að brenna jarðefnaeldsneyti og losa koltvísýring út í andrúmsloftið. Þeir hafa ítrekað fullyrt að íshella á pólunum mundi bráðna, sjávarborð mundi hækka, þurkar yrðu stórkostlegt vandamál og hvirfilbylir yrðu sterkari og tíðari. Allt hefur þetta reynst rangt.

Fyrir 8 árum byrjaði vinstra blaðið Guardian baráttu fyrir að bjarga jörðinni og hélt því fram að aðeins væru eftir 100 mánuðir til þess annars yrði óbætanlegur skaði af loftslagsbreytingum óafturkallanlegur íshella pólana mundi bráðna, sjávarborð mundi hækka verulega, hvirfilbylum mundi fjölga og styrkur þeirra aukast og þurkar yrðu stöðugt fleiri og alvarlegri.

Nú eru þessir hundrað mánuðir liðnir og ekkert af þessu hefur gengið eftir og hvað sem líður upphrópunum um heitustu ár í sögunni þá hefur hitastig ekki hækkað á jörðinni síðustu átján ár og þar verður að skoða að árið 2016 er undir áhrifum frá fyrirbrigðinu El Nino.

Pólar íshellan er um það bil sú sama og þegar mælingar hófust árið 1979. Varla er hægt að merkja hækkun sjálvarborðs í um það bil heila öld. Engin breyting hefur orðið varðandi styrk eða tíðni hvirfilbyla. Alvarlegir þurkar eftir 1950 til dagsins í dag eru einnig fátíðari.

Raunar hefur eitt breyst undanfarin ár e.t.v. vegna aukins koltvísýrings í andrúmsloftinu. Jörðin er grænni og jarðargróði er miklu meiri en áður.

Þrátt fyrir þessar staðreyndir hefur stjórnmálaelítan ákveðið að leggja þungar byrðar á fólk og atvinnulíf sem birtist m.a. í hækkuðu orkuverði og álögum á atvinnulíf sem bitnar á endanum á neytendum. En á sama tíma taka Kínverjar og Indverjar þátt í allri vitleysunni og skrifa undir samninga en láta sér ekki detta í hug að fara eftir því og auka því miður sem aldrei fyrir losun koltvísýrings.

Helvítisspárnar hafa ekki gengið eftir en við þurfum óháð því að ganga vel um og gæta fjöreggsins okkar jarðarinnar og skila henni til komandi kynslóða betri en við tókum við. Það þýðir ekki að við eigum að dansa eftir flautu falsspámanna hnattrænnar hlýnunar.

(Upplýsingar að mestu úr ritstjórnargrein Daily Telegraph9.10.2016)


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 22
  • Sl. sólarhring: 432
  • Sl. viku: 4238
  • Frá upphafi: 2449936

Annað

  • Innlit í dag: 20
  • Innlit sl. viku: 3949
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband