Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2016

Eldshúsdagsumræður

Hefðbundin almenn stjórnmálaumræða verður í kvöld. Aldrei þessu vant ætla ég að fylgjast með umræðunni. Ástæðan er sú að ég fylgdist með umræðu sænskra stjórnmálaforingja í gær.

Í þau, skal viðurkennt, fáu skipti sem ég hef fylgst með umræðum frá Alþingi undanfarið hef ég orðið fyrir vonbrigðum. Oft á tíðum er farið fram af mikilli vanþekkingu. Ofar en ekki er farið í ræðustól án takmarks eða tilgangs í því skyni einu að sóa þeim tíma sem Alþingi hefur til umfjöllunar um mál.

Kvennablómi Samfylkingarinnar sker sig úr. Oftar en ekki verða lítil börn hrædd þegar þær fraukur birtast á skjánum með orðskrúði, látbragði og svigurmælum sínum.  Það þarf í sjálfu sér ekki að leita langt til að átta sig á hvað veldur fylgistapi Samfylkingarinnar. 

Umræða formanna sænsku flokkana í sænska sjónvarpinu í gær var þeim til sóma nema e.t.v. helst forsætisráðherranum, sem á stundum líktist kvennablóma systurflokksins síns hér á landi þó að yfirbragð hans og látæði væri allt miklu mildara og geðfelldara. Þar var fjallað um málefni og stefnu. Formennirnir veltu fyrir sér og skiptust á skoðunum um hvað væri skynsamlegast að gera og hvernig bæri að gera hlutina til að ná árangri í stjórn landsins.

Ég vona að stjórnmálaumræða á Íslandi standi fljótt jafnfætis því sem ég hlustaði á í gær í sænska sjónvarpinu og bíð spenntur eftir eldhúsdagsumræðunum að þessu sinni til að reyna að meta íslenska stjórnmálamenn í samanburði við sænska.


Sýndargóðmennskan

Frans páfi flaug til eyjunnar Lesbos og náði í 12 flóttamenn, en skyldi 1000 aðra eftir í flóttamannabúðunum. Hann hvatti aðra til að vera jafn góðir og hann. Frans páfi þarf ekki að óttast atvinnumissi þó flóttamenn streymi inn, þó það e.t.v. grafi undan stofnuninni sem hann veitir forstöðu. Hann þarf ekki að búa í hverfum innflytjenda þar sem lögreglan fer ekki inn í nema þungvopnuð.

Í nýafstöðnum kosningum til forseta í Austurríki sameinaðist elítan til hægri og vinstri til að koma í veg fyrir að frambjóðandi með aðrar áherslur í pólitík en Evrópska uppgjafarstefnan næði kjöri. Litlu munaði þó, þrátt fyrir að Afturhaldið, Íhaldið, Vinstrið, Græningjar og aðrir sameinuðust gegn honum. Það sem hins vegar var athyglisvert er að Nobert Hofer var frambjóðandi verkalýðsins. Hann naut stuðnings um 80% verkalýðs Austurríkis, en velferðarfarþegar ríkisins,sem eru áskrifendur að laununum sínum kusu nánast án undantekningar fulltrúa Græningja, Afturhalds og Sósíalista.

Inn í Evrópu hafa streymt innflytjendur hundruðum þúsunda saman. Flutningur fólks frá Afganistan, Sýrlandi, Norður Afríku og víðar frá til Evrópu er blómlegur atvinnuvegur sem skilar fólkinu sem sér um flutningana gríðarlegum fjármunum. Eftir sitja þeir verst eru settu sem hafa ekki peninga til að borga.

Þegar elítan í Evrópu ber sér á brjóst með Fransis páfa í broddi fylkingar og krefst þess að landamærin verði opnuð þá er það af sýndargóðmennsku. Fjármunirnir mundu nýtast betur til að aðstoða þá mörgu sem á þurfa að halda í námunda við heimkynni þeirra.

Einn Sýrlendingur flytur á annan tug barna með sér og danskir skattgreiðendur þurfa að standa undir velferðarframlögum til þeirra. Þau framlög ein mundu duga til að sjá tug ef ekki hundrað sýrlenskra flóttafjölskyldna í Tyrklandi fyrir mannsæmandi lífskjörum. En sýndargóðmennskunni verður að þjóna.

Elítan sem knýr á um viðhald sýndargóðmennskunnar nýtur þess með mismunandi hætti. Sumir geta nýtt sér ódýrt vinnuafl sem lækkar laun þeirra lægst launuðu. Aðrir fá hálaunavinnu sem sérfræðingar vegna elítustefnu opinna landamæra. Ekkert af þessu fólki þarf að þola þá áþján og lífskjaraskerðingu sem margir venjulegir borgarar þurfa að líða vegna þessa í formi versnandi lífskjara, verra velferðarkerfis, öryggisleysis og hruns fasteignaverðs þar sem innflytjendur setjast að í stórum stíl.

Í öllum fréttatímum RÚV er fjallað um hvað margir flóttamenn hafi farist þann daginn á Miðjarðarhafinu eða verið bjargað. Eina leiðin til að koma í veg fyrir að flóttamenn farist á Miðjarðarhafinu er að loka fyrir þá aðkomuleið og snúa öllum til baka sem koma á lekahripum í þeirri von að tekið verði á móti þeim opnum örmum. Það er sú leið sem Ástralir fóru með góðum árangri. En með óbreyttri stefnu munu fleiri farast og fleirum verða bjargað og aukinn fjöldi koma inn í Evrópu með þeirri lífskjaraskerðingu, auknu öryggisleysi almennra borgara og eyðileggingu velferðarkerfisins sem því óhjákvæmilega fylgir.

Við Íslendingar eigum að gera góðir við þá sem eiga um sárt að binda. En við eigum ekki að gera það á grundvelli sýndargóðmennsku Fransis páfa, Angelu Merkel og pótintáta af þeirra tegund. Við eigum að verja myndarlegum fjárhæðum til hjálparstarfs fyrir flóttafólk og styðja það í nágrenni við heimili sitt eins og raunar flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna byggir á.

Við eigum að taka stjórn á eigin landamærum. Við eigum að vísa ólöglegum innflytjendum burt innan 48 klukkustunda eftir að þeir kemur til landsins og tryggja að þeir fari ekki út af móttökustað.

Í stað þess erum við með rútubílafarma af ólöglegum innflytjendum sem Útlendingastofnun bagsar með svo mánuðum skiptir allt á kostnað íslenskra skattgreiðenda og valsa þessir ólöglegu innflytjendur um að eigin vild eftirlitslausir. Auk þess fá þessir ólöglegu innflytjendur meira frá íslenska ríkinu en innlendir öryrkjar eða aldraðir almennt. Svo ranglega er nú skipt hinum veraldlegu gæðum í ríki sýndargóðmennskunnar.  

Við höfum skyldum að gegna við framtíðina við börn okkar og barnabörn. Viljum við að þau fái að njóta þess sem við höfum notið? Öryggis, mannréttinda, velferðar? Sé svo þá skulum við forðast að eyðileggja velferðar- og öryggisnet íslensks samfélags á grundvelli sýndargóðmennskunnar.

 

 


Lýðræði er bara fyrir möppudýrin í Brussel

Sjálfumglaða sídrukkna kossageitin Jean-Claude Juncker forseti Evrópusambandsins og aðrir forustumenn þess sambands hafa ítrekað gefið út yfirlýsingar um að þeir viðurkennin ekki lýðræðislegan rétt kjósenda í aðildarríkjum ES til að vera ósammála þeim. Þeir segja að kjósendur megi ekki kjósa ákveðna frambjóðendur og Evrópusambandið muni beita lönd viðurlögum ef kjósendur gera annað en elítan í Brussel ákveður.

Í gær réðst Jean-Claude á Boris Johnson fyrrum borgarstjóra í London og sagði hann ekki hafa raunveruleikaskyn. Aðstoðarmaður hans gekk skrefinu lengra og réðst að Donald Trump, Marine Le Pen,hinn ítalska Grillo auk Boris Johnson og hvatti til þess að barist yrði gegn þessu fólki og gaf í skyn að Boris Johnson væri nýfasisti.

Áður hafði kossageitin Juncker hótað því að Austurríkismenn yrðu beittir harðræði ef þeir leyfðu sér að kjósa Nobert Hofer sem forseta Austurríkis og skipti þá engu þó það embætti sé nánast valdalaust. Strákarnir í Brussel segja vér einir vitum eins og einvaldskonungar forðum og klerkastjórnin í Íran, ef þið farið ekki að því sem við segjum kjósendur góðir þá er okkur að mæta.

Evrópusambandið hefur þróast út í það að vera andlýðræðislegt samband þar sem möppudýrin í Brussel telja sig umkomna að stjórna því hverja kjósendur eiga að kjósa og hverja ekki.Breska stórblaðið, Daily Telegraph líkir lýðræðisást möppudýranna í Brussel við: "Þið getið kosið eins oft og þið viljið svo fremi að þið kjósið á endanum eins og við viljum.

Möppudýrunum í Brussel er um megn að viðurkenna að skynsamt fólk geti verið ósammála þeim. Hver sá sem dregur í efa eða spyr spurninga varðandi "kyrrstöðupólitík" Evrópusambandsins er öfgamaður. 

Er ekki komið út fyrir öll þau mörk að Ísland eigi nokkra samleið með þessu lýðræðisvana kyrrstöðusambandi, Evrópusambandinu, sem aðildarríki.


Þekking og meðvituð vanþekking

Þekking er forsenda upplýstrar umræðu. Það tekur tíma að afla sér þekkingar og sumir veigra sér við að taka þátt í opinberri umræðu af því að þeir telja sig ekki hafa næga þekkingu. Aðrir láta skeyta að sköpuðu og umræðan verður þá því marki brennd. Enn aðrir neita að afla sér þekkingar af því að þeir hafa fyrir fram mótaðar skoðanir sem þeir telja stórasannleik og vilja ekki heyra neitt sem gæti breytt því.

Fólk ræður því hvað það vill vita eða ekki vita. Það er hins vegar alvarlegt þegar stjórnmálafólk og fréttafólk hefur þá afstöðu að það hafi höndlað stóra sannleikann og vilja ekki heyra neitt sem gæti breytt því.

Fréttaelítan og pólitíska elítan á Íslandi og víðar hefur höndlað stóra sannleikann varðandi hælisleitendur og Íslam og neitar að kynna sér staðreyndir sem gætu breytt þeim viðhorfum. Þetta fólk neitar að kynna sér og viðurkenn að íslam er mótað á rasisma. Það neitar að kynna sér að Íslam byggir á kenningakerfi sem er fjandsamlegt grundvallarmannréttindum eins og þau eru skilgreind í íslensku stjórnarskránni. Það neitar að viðurkenna að herhvöt íslamistanna í dag er til höfuðs einstaklingnum og einstaklingsbundnum réttindum hans.

Í gær var fundur með norska rithöfundinum Hege Storhaug, sem hefur kynnt sér Íslam og skrifað bækur um það efni m.a. bókina "Þjóðaplágan Íslam". Hege rekur í bókinni staðreyndir um undirgefnina, heildarhyggjuna, rasismann, kvennfyrirlitninguna og fleira í Íslam. Hege er í þeirri kjörstöðu að vera hvorki hvítur kristinn karlmaður né til hægri í pólitík. Hefðbundnir merkimiðar frétta og stjórnmálaelítunnar gagnvart henni duga því ekki.

En þá er þá hægt að þegja hana í hel.

Á fjölmennum fundi sem haldinn var í gær með Hege Storhaug, gerði hún grein fyrir rannsóknum sínum á Íslam. Engin kjörinn fulltrúi á þjóðþingi Íslands eða borgarstjórn Reykjavíkur mætti. Fjölmiðlafólkið af RÚV var heldur ekki sjáanlegt. Þóra Arnþórsdóttir gætti þess vel að óæskilegar skoðanir Hege Storhaug, sem gætu upplýst fólk um hvers konar fyrirbrigði Íslam er fengi ekki rúm í Kastljósi undir hennar stjórn. Það er óneitanlega nöturlegt að fólk sem hefur kynnt sér málin og sér hvað það eru alvarlegir hlutir á ferðinni varðandi Íslam og að hér er á ferðinni hættuleg heildarhyggja andstæð persónufrelsi og einstaklingsfrelsi, skuli jafnan vera sakað um rasisma, fasisma eða eitthvað álíka af fjölmiðla- og stjórnmálaelítunni. Þær nafngiftir sýna betur en nokkuð annað að þekking þessarar elítu á hvað um er að ræða er engin og það er skelfilegt að verða vitni að því.

Þessi sama elíta stjórnmála- og fréttafólks vegur stöðugt að vestrænum og kristilegum lýðræðisgildum og herpist við að viðhalda vanþekkingu sinni á Íslam. Þar virðist sama vera upp á teningnum hvort heldur fólk skilgreinir sig til hægri eða vinstri í þessari elítu. Þegar allt kemur til alls þá er sami grauturinn í öllum skálunum. Það er sú skeflilega staðreynd sem þjóðin verður að horfast í augu við og bregðast við.

 

 


Fáráðar

Sennilega á ekkert orð betur við um helstu stjórnmálamenn Evrópusambandsins en orðið "fáráðar". Þeim koma fá haldbær ráð í hug, en þeim sem þeim kemur þó í hug eru slæm. Þeir hafa enga hugmyndafræðilega tengingu við eitt eða annað en að hanga á völdunum. Framtíðarsýnin nær ekki lengra en til næsta kjördags.

Angela Merkel og Francois Hollande eru flaggskip ömurleika Evrópskra stjórnamálamanna. Þau hafa engar lausnir. Þau stjórna því frá degi til dags. Eftir hundruði funda þar á meðal fjölda neyðarfunda hefur vandi Grikkja ítrekað verið leystur. En aðeins til bráðabirgða. Framtíðarlausn er engin og ný fundarsería er væntanleg varðandi efnahagsvanda Grikkja.

Evrópskir leiðtogar höfðu ekki yfirsýn eða skilning á því hvaða máli það skiptir fyrir öryggi og efnahagslega framþróun Evrópu að stjórna landamærunum, en láta ekki innflytjendur flæða yfir stjórnlaust. Með því settu þeir velferðarkerfið í Evrópu í uppnám og öryggi eigin borgara.

Þegar einræðisherrann í Tyrklandi Erdogan ýtti hundruðum þúsunda  fólks yfir til Evrópu höfðu leiðtogar Evrópu engin önnur ráð en að semja við einræðisherrann. Leggjast í duftið og biðja hann vægðar Bjóða honum marga milljarða Evra, ef hann yrði góður. Auk þess gæti hann sent alla Tyrki til Evrópu að vild.

Nálegri sendinefnd á fund Tyrkjasoldán hefur aldrei farið úr Evrópu til Miklagarðs.

Stjórnmála- og fréttaelítan í Evrópu gerir engar athugasemdir við að einræðisherrann í Tyrkalandi útrými tjáningarfrelsinu og handtaki alla sem gagnrýna hann. Þeir gera heldur ekki athugasemd við að fjöldamorð hans á  Kúrdum. Merkel setur kíkinn fyrir bæði blindu augun, en telur rétt að höfða mál gegn grínista sem vogaði sér að gera grín að Erdogan einræðisherra.

Nú hótar Erdogan að senda nýja bylgju "flóttamanna" til Evrópu nema hann fái meiri pening.

Á sínum tíma var einræðisherra í landinu sem Merkel ríkir nú. Hann vildi losna við Gyðinga og útrýma öðrum en eigin skoðunum. Forustumenn Evrópu brugðust ekki við og neituðu að taka við Gyðingunum þó þeir vissu að það þýddi dauðadóm yfir þeim fyrr eða síðar. Þá lokaði stjórnmála- og fréttaelítan augunum og þaggaði niður í hatursáróðursmönnum eins og Winston Churchill sem krafðist þess að brugðist yrði við til verndar mannréttindum og lýðfrelsi.

Sagan endurtekur sig nú. Stjórnmála- of fréttaelítan í Evrópu þar á meðal á Íslandi dansar eftir flautuleik Erdogan einræðisherra. Fjölmiðlar Evópu tíunda harmleikina sem verða þegar Erdogan sendir lekahripin yfir hafið með ótölulegum fjölda fólks og margir farast. Fjölmiðlaelítan kennir stjórnmálamönnum í Evrópu um í stað þess að benda á einræðisherrann sem er valdur að þessu. 

Hér á landi er stjórnmála- og fréttaelítan svo heltekin af uppgjafarheilkenninu að hún ræðst gegn öllum þeim sem vara við opnum landamærum og skefjalausum innflutningi fólks úr framandi menningarheimum. Lítt virðist stoða að benda á víti hinna Norðurlandanna til varnaðar. Þetta stjórnmála- og fréttafólk tekur undir með Merkel í uppgjafarsöngnum gagnvart gjörspilltum illum einræðisherra sem stendur fyrir fjöldamorðum á Kúrdum en gegn heilbrigðri skynsemi, öryggi og velferð eigin borgara. Ábyrgðarlausara lið fáráða hefur ekki sést fyrr hvorki á innlendum vettvangi né Evrópskum.

Meðal annarra orða. Eigum við samleið með Tyrkjum í Nato. Fara öryggishagsmunir okkar og þeirra saman. Hvað er þá til ráða. Reka Tyrki eða við yfirgefum sakomuna?


Hvenær er maður forsetaframbjóðandi

Fjölmiðlar geypa við hverjum þeim sem segist ætla að fara í framboð til forseta. Sennilega mun töluvert innan við helming þeirra sem segjast gefa kost á sér skila inn framboði. Eru þeir þá forsetaframbjóðendur af því að þeir segjast ætla í framboð án þess að gera það? 

Hingað til hafa ekki aðrir verið taldir í framboði til Alþingis en þeir sem hafa skilað inn kjörgögnum, listum og meðmælendum. Gildir annað í forsetakosningum.

Í frétt er þess getið að fyrrverandi forsetaframbjóðandi Bæring Óalfsson styðji Andra Snæ Magnússon. En var Bæring einhvern tímann í framboði til forseta. Skilaði hann inn meðmælendalistum eða öðrum gögnum. Nei það gerði hann ekki. Hann sagðist bara ætla að gefa kost á sér eins og svo margir aðrir en gerði það aldrei í raun. Hann var því aldrei forsetaframbjóðandi ekki frekar en stærsti hluti þeirra sem nú segjast gefa kost á sér.

Hefðu fjölmiðlar ekki jafn litla sjálfsvirðingu og raun ber vitni og legðu þeir upp úr að sinna vandaðri og málefnalegri fréttamennsku þá væri ekki sá farsi og rugl í kring um t.d. forsetaframboð og ýmsa aðra stjórnmálalega viðburði og fólk hefur horft á undanfarnar vikur. Þar skiptir máli að nefna hlutina réttum nöfnum og varast að kalla fólk frambjóðendur eingöngu vegna þess að þeir segjast vera það.

Frambjóðendur eru þeir sem eru í framboði og þeir eru ekki í framboði í lýðræðisríki fyrr en þeir hafa fullnægt ákvæðum kosningalaga um skil á nauðsynlegum kjörgögnum.


Lýðræðissinni eða úlfur í sauðagæru.

Sadiq Khan frambjóðandi Verkmannaflokksins, var kjörinn borgarstjóri í London um síðustu helgi. Sonur strætisvagnabílstjóra og saumakonu innflytjenda frá Pakistan. Saga Sadiq er sagan um drenginn sem ólst upp í fátækt, lagði sig fram, vann af hörku og náði árangri eða meikaði það eins og sumir mundu segja á engilsaxnesku skotinni íslensku.

Sadiq er múslimi og mörgum óar við því að múslimi skuli kosinn í þetta embætti. Hann hefur verið sakaður um hentistefnu, en þó það sem verra er að hafa haft samskipti við og talað á fundum með öfgafullum Íslamistum. Sadiq hefur þó bent á það að stjórnmálamenn ráði ekki alltaf hverjir tali ásamt þeim á fundum.

Trúarskoðanir Sadiq einar og sér geta ekki verið forsenda þess að honum sé hafnað í kosningum í lýðfrjálsu landi. Þar koma frekar til spurningar eins og fyrir hvað stendur hann og fyrir hverju berst hann. Telji fólk að múslimar komi ekki til greina sem stjórnmálamenn í fremstu röð í vestrænum lýðræðisríkjum þá er verið að mismuna fólki eftir trúarskoðunum. Slíkt er andstæða þess lýðræðiskerfis jafnræðis, sem við byggjum hugmyndir lýðræðisþjóðfélagsins á.

Þær skoðanir sem Sadiq hefur staðið fyrir eru í andstöðu við öfga Íslam m.a. samþykkir hann rétt samkynhneigðra til að ganga í hjónaband. Sem lögmaður hefur hann þó iðulega varið fólk sem mundi flokkast í þann hóp, en lögmaður þarf ekki að samsama sig með skoðunum þeirra sem hann vinnur fyrir.

Sadiq hefur gagnrýnt formann sinn Jeremy Corbyn fyrir samband hans við Hamas og Hezbollah og gagnrýnt þá sem standa fyrir and Gyðinglegum sjónarmiðum í breska Verkamannaflokknum. Svo það sé heimfært yfir á íslenskar aðstæður þá er hann í fullri andstöðu við and Gyðingleg sjónarmið fólks eins og Össurar Skarphéðinssonar, Dags B. Eggertssonar og Semu Erlu Serdar.

Nú reynir á hvort að sonur strætisvagnastjórans og saumakonunnar muni stjórna London í samræmi við almannahagsmuni og vera borgarstjóri allra eins og hann lofar eða hvort önnur og ógeðfelldari mynd muni birtast þegar hann hefur náð völdum. Það er rangt að gefa sér það fyrirfram að hann muni stórna í andstöðu við lýðræðishefðir Bretlands eingöngu vegna þess að hann er múslimi. Þeir sem eru þeirrar skoðunar segja í raun, að múslimar geti aldrei og séu ekki hæfir eða bærir til að gegna opinberum stöðum óháð því hvaða skoðanir þeir standa fyrir að öðru leyti. Gengur slíkt í lýðræðisríki?

Venjulegt fólk hefur og stendur fyrir margvísleg gildi. Sadiq hefur sjálfur bent á að hann sé ekki bara múslimi, hann sé líka Englendingur af asískum uppruna, faðir, eiginmaður og stuðningsmaður Liverpool í fótbolta (sérkennilegt fyrir borgarstjóra London)

Nú reynir á það hvort að nýkjörinn borgarstjóri sýnir það að hann sé í andtöðu við öfgaöfl Íslamska heimsins sem hafa skekið Vesturlönd. Mun kona hans halda áfram að klæða sig á vestrænan hátt eða mun hún smeygja sér undir fald blæjunar  nú þegar maður hennar hefur náð kjöri. Mun Sadiq taka á og standa gegn öfga Íslamistunum og þeim sem krefjast þess að tekin verði upp Sharia lög í Bretlandi. Þessum spurningum og mörgum fleiri er ósvarað eins og raunar gildir um alla stjórnmálamenn sem taka við völdum.

Í sögu Evrópu eru mörg dæmi þess að múslimar og kristnir áttu farsælt samstarf og þróuðu þjóðfélög fram á við til hagsældar og jákvæðrar fjölmenningar. Slík viðhorf og sjónarmið eru hins vegar í fullri andstöðu við þau einmenningarsjónarmið sem Alluah Akbar öfga Íslamistarnir standa fyrir.

Sýni Sadiq það í verki að hann fordæmir öfga Íslam af fullri einurð og stendur með lýðræðislegum gildum þá er hann happafengur í stjórn London. Reynist hann hins vegar úlfur í sauðagæru þá hefur sú von brugðist því miður og það mun einungis valda harðari átökum milli fólks sem stendur vörð um Vestræn og kristileg gildi og arfleifð og Íslamistanna- enda kemur þá ekki annað til greina. Evrópa getur ekki gefið eftir þau mannréttindi og lýðfrelsi sem hefur gert Evrópuríki að forusturíkjum á sviði mannréttinda, viðskipta, menningar og lista.

 

 


Mál og menning bókabúð og útgáfa misskilningur leiðréttur

Mér var bent á að í færslu sem ég skrifaði um bókabúð Máls og Menningar á Laugavegi þá gætti misskilnings varðandi útgáfu á bókinni "Söngvar Satans" Vissulega væri rétt að bókaútgáfa Mál og Menningar hefði gefið bókina út á sínum tíma en bókabúðarreksturinn hefði verið seldur til Pennans árið 2003 og síðar til Arndísar Sigurgeirsdóttur sem á verslunina í dag. Bókaútgáfa Máls og menningar er því ekki í neinum tengslum við bókabúð Máls og menningar.

Efni færslunnar varðaði bókaverslun Máls og menningar en ekki bókaútgáfuna og biðst ég velvirðingar á því hafi efni færslu minnar skilist með þeim hætti að verið væri að tala um bókaútgáfuna. Svo var ekki. Bloggfærsla mín varðaði eingöngu viðskiptahætti Bókaverslunar Máls og menningar og þykir mér miður að ekki skildi vera gerð grein fyrir þeim aðskilnaði og mismunandi eignarhaldi sem er á bókabúð Máls og Menningar og bókaútgáfu fyrirtækisins.


Er hnattræn hlýnun vond?

Í grein sem Björn Lomborg fyrrum forustumaður í Green Peace skrifaði fyrir nokkru, kemur fram að jörðin er grænni nú en nokkru sinni fyrr vegna aukins koltvísýrings. Lomborg segir að það ætti að vera gleðiefni, en trúboðar hnattrænnar hlýnunar geti ekki lyft umræðunni á það stig að fjalla bæði um kosti og galla breytinga á hitastigi jarðar.

Lomborg bendir á að fleira fólk deyr í heiminum úr kulda en úr hita. Hlýnun jarðar mundi því leiða til fækkunar dauðsfalla. Um 7% dauðsfalla í heiminum er vegna kulda en um hálft prósent deyr úr hita. Í Englandi og Wales deyja árlega um 35 þúsund manns úr kulda en 1.500 úr hita og umtalsverð hlýnun mundi eingöngu draga úr heildarfjölda dauðsfalla vegna veðurfars.

Lomborg bendir einnig á það að gengju spár þeirra eftir sem hafa gert hnattræna hlýnun af mannavöldum að trúaratriði, þá mundu vandamál vegna hlýnunar ekki skapa meiri vandamál árið 2070 miðað við óbreytta tækni en sem næmi um 2% af framleiðslu heimsins eða helmingi  þess tjóns sem alkahól kostar í dag.

En í dag gleyma menn öllum kostnaðinum við ráðstafanir sem ríkisstjórnir hafa gripið til vegna trúrinnar á hnattræna hlýnun af mannavöldum sem Lomborg telur að geti numið allt að 6% af framleiðslu heimsins. Vindorkuver, sólarorkuver, lífeldsneyti o.s.frv. sem allt er gríðarlega niðurgreitt og kostnaðarsamt framleiða innan við hálft prósent af þeirri orku sem notuð er í dag. Mikill kostnaður án nokkurs vitræns árangurs. 

Skammsýni og vanþekking stjórnmálamanna er sennilega kostnaðarsamasti hluturinn varðandi meinta hnattræna hlýnun fyrir utan að auka ríkisumsvif og kostnað skattgreiðenda og draga úr framleiðslu. Þeir eru nefnilega fleiri hundar svartir en hundurinn prestsins.

 


Ritskoðun og þöggun Mál og menningar

Bókin "Þjóðaplágan Íslam" eftir norska rithöfundin og mannréttindafrömuðin Hege Storhaug fór í 5. sæti íslenska metsölulistans í vikunni þrátt fyrir að bókin hefði ekki verið nema innan við helming vikunnar í sölu í bókabúðum.

Þrátt fyrir þessar góðu viðtöku lesenda hefur starfsfólk sumra bókaverslana reynt að fela bókina og stilla henni t.d. ekki upp með öðrum metsölubókum. Sérstaklega hefur kveðið rammt að þessu í bókabúð Máls og menningar.

Bókabúð Máls og menningar hefur geymt bókina ofan í skúffu og gætt þess vandlega að engin viðskiptavinur sæi hana en þá sjaldan að einhver sem um spurði fékk hana keypta þá var hún til sölu á um 40% yfir viðmiðunarverði. Þessar aðferðir einnar stærstu bókabúðar landsins er fordæmanleg. Þetta er ritskoðun og yfirverðlagning í því skyni einu að koma í veg fyrir að fólk kaupi bók sem er þegar metsölubók hér á landi og hefur verið á metsölulistum í Noregi frá því að bókin kom út í nóvember.

Höfundur bókarinnar spyr á facebókar síðu sinni vegna þessa. Hvað hefur eiginlega komið fyrir sögueyjuna og bókaþjóðina Ísland þegar ein af stærstu bókabúðunum beitir svona aðferðum til að koma í veg fyrir tjáningarfrelsið. Fróðlegt verður að sjá hvort einhver íslenskur fréttamiðill mun fjalla um þetta dapurlega og neytendafjandsamlega atferli Máls og menningar.

Þessi bók kemur fljólega út í Svíþjóð og útgefandinn þar býst við að hún fari beint í efri sæti metsölulistans. Hann veit ekki til þess að nokkur af stærri bókabúðum í sjálfri hinni heilögu vandlætingasömu Svíþjóð muni úthýsa henni eða yfirverðleggja til að neytendur eigi þess síður kost að kaupa hana.

Er virkilega svo komið hér á landi að þöggunaröflin vilji ekki að Íslendingar fái að vita um hryllingin sem er í gangi í Evrópu. Já á Norðurlöndum vegna Íslamistanna sem flutst hafa til okkar heimshluta.

Gæti verið að sá gleðileikur sem fréttamiðlar ríkisins og aflandsfurstans,flytja daglega um mikilvægi þess að hafa opin landamæri yrði með því opinberaður sem hálfsannleikur í besta falli en þó nær ef grannt er skoðað helber lygi.

Af hverju má fólk ekki lesa um staðreyndir ágætu eigendur Máls og menningar. Hvar fór þetta merka fyrirtæki sem gaf út "Söngva Satans" eftir Salman Rushdie á sínum tíma út af veginum og ofan í þöggunarholuna með hinum strútunum. Er ekki tími til komin að þið biðjið neytendur afsökunar á fjandskap ykkar við tjáningarfrelsið og takið til hendinni við að kynna bók Hege Storhaug og seljið hana helst undir viðmiðunarverði. Álagning ykkar yrði góð fyrir því.


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 22
  • Sl. sólarhring: 432
  • Sl. viku: 4238
  • Frá upphafi: 2449936

Annað

  • Innlit í dag: 20
  • Innlit sl. viku: 3949
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband