Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2017

VG telur lögregluna hættulega

Undanfarin ár hafa talsmenn Vinstri grænna amast við hverju því sem gæti orðið til að styðja og efla lögregluna. VG neita að horfast í augu við þann raunveruleika sem vestræn ríki búa við vegna stefnu þeirra og annarra þeirra líka um takmarkaða löggæslu og opin landamæri.

VG voru á móti því að lögreglan fengi rafbyssur. VG var á móti því að öryggisyfirvöld fengju byssur frá norska hernum. VG amaðist við stofnun og starfrækslu sérsveitarinnar og kölluðu þáverandi ráðherra öryggismála Björn Bjarnason ýmsum ónefnum.

Hryðjuverkaárásir í okkar heimshluta eru nánast daglegt brauð. Þrátt fyrir það finnst þingmönnum VG það slæmt að lögregla skuli gæta almannahagsmuna með þeim hætti sem nauðsynlegt er og hafi varnarviðbúnað við hæfi ef á þarf að halda. Þeir tala um að það eitt sé ógn við almannaöryggi.

Þegar lögreglan hafði viðbúnað vegna mannssafnaðar í miðborginni talaði einn þingmaður VG um hallæri í löggæslumálum. Annar sagði að með því að lögreglan væri sýnileg með vopn á almannafæri þá væri verið að skapa hættulegt sýndaröryggi og fráleitt að almenningur fengi ekki upplýsingar um það fyrirfram hvar lögreglan væri með vopn sín og verjur.

Formaður VG Katrín Jakobsdóttir krafðist í framhaldinu fundar í Þjóðaröryggisráði vegna vopnabúnaðar lögreglu. Það gefur tilefni til að ætla að formaður VG og fylgiliðar hennar telji lögregluna helstu ógnina við þjóðaröryggi sérstaklega ef hún sést vopnum búin á almannafæri. Alla vega ef hún lætut ekki vita af því fyrirfram.

Þetta er framhald af amasemi VG gagnvart öryggisyfirvöldum. Í nóvember 2014 lagði formaður VG fram fyrirspurn til dómsmálaráðherra í 14 liðum varðandi vopnabúnað lögreglunnar og í 9 liðum varðandi vopnabúnað landhelgisgæslunnar.

VG telur lögreglu og önnur öryggisyfirvöld mestu ógn við öryggi almennings og hæðist að þeim sem telja nauðsynlegt að við höfum varnar- og öryggisviðbúnað gagnvart þeirri ógn sem steðjar að almennum borgurum þ.e. hermdarverkum Íslamista.

Það verður fróðlegt að fylgjast með því þegar Katrín Jakobsdóttir leggur mál sitt fyrir í þjóðaröryggisráðinu. Ræða Katrínar þar gæti verið á þessa leið:

"Góðir hálsar sú vá sem að okkur steðjar getur þetta virðulega ráð ekki látið fram hjá sér fara. Nú er svo komið að vopnaðir lögreglumenn á almannafæri ógna öryggi borgaranna. Bara það eitt að þeir skuli sjást vopnaðir er ógn við öryggi venjulegs fólks. Þá ber lögreglunni að tilkynna fyrirfram hvar lögreglumenn eru að störfum hverju sinni svo að fólk verði ekki hrætt við þennan voðamannskap."

Þeir í þjóðaröryggisráðinu munu vafalaust taka þessum fagnaðarboðskap formanns VG með viðeigandi hætti og án allrar meðvirkni.    


Verst fyrir Bretland

Ólíkt því sem ég hafði spáð þá náði Íhaldsflokkurinn ekki hreinum meirihluta í þingkosningunum í Bretlandi í gær. Það var þvert á það sem lagt var upp með þegar þing var rofið og efnt til nýrra kosninga.

Íhaldsflokkurinn á þó þess kost að leita eftir stuðningi norður írska hægri flokksins, sem mér virðist ef eitthvað er til hægri við Íhaldsflokkinn.

Theresa May og ráðgjafar hennar virðst hafa gert nokkur reginmistök. Í fyrsta lagi tókst þeim að ýta frá sér atkvæðum eldri borgara í nokkrum mæli. Í öðru lagi þá var það ekki viturlegt af Theresu May að vera með drottningarstæla og neita sjónvarpskappræðum við leiðtoga annarra flokka. Í þriðja lagi þá var spurningaþáttur leiðtoga bresku stjórnmálaflokkanna það versta sem flokkur sem hugsa um hag skattgreiðenda getur farið út í þar sem spurningarnar eru nánast allar "Hvað ætlar þú að gera fyrir mig á kostnað skattgreiðenda"

Í fjórða lagi þá virðist áætlun May um áherslur hvað varðar kjördæmi hafa verið jafnrangar og áherslur Trump voru réttar í forsetakosningnunum í Bandaríkjunum síðasta haust.

Ólíkt því sem gerðist í frönsku forsetakosningunum þar sem unga fólkið kaus til hægri þá kaus unga fólkið í Bretlandi til vinstri.

Eftir stendur að það er með ólíkindum að Íhaldsflokkurinn skuli hafa klúðrað unninni stöðu, sem leiðir til þess að Theresa May mun þurfa á öllu sínu að halda til að halda leiðtogasæti í Íhaldsflokknum. Þar í landi verða stjórnmálamenn nefnilega ólíkt því sem gerist hér, að bera nokkra ábyrgð á verkum sínum og gengi og gengisleysi flokka sinna.

Þessi úrslit eru þó augljóslega það versta fyrir Bretland vegna fyrirhugaðra Brexit viðræðna. Vinstri sinnaðisti foringi Verkamannaflokksins í langa hríð leiddi flokkinn til aukins vegs í breskum stjórnmálum á sama tíma og íhaldsflokkurinn með eina frjálslyndustu stefnuskrá sem hann hefur haft hafði samt ekki erindi sem erfiði. 

Eftir að Brexit var samþykkt taldi ég að Íhaldsmenn gerðu best í því að kjósa Boris Johnson sem formann sinn. Ég er enn þeirrar skounar. En sennilega getur flokksvél Íhaldsflokksins illa sætt sig við það, vegna þess að Boris er öðruvísi.


Mikilvægar kosningar í Bretlandi

Undanfarið hafa vinstri sinnaðar fréttastofur og fréttamenn eytt miklu af fréttatímum miðla sem kostðir eru af almannafé hér og erlendis sagt okkur að mjótt verði á munum í ensku kosningunum og Verkamannaflokkur Corbyn sæki jafnt og þétt í sig veðrið og auki fylgi sitt á sama tíma og Theresa May forsætisráðherra og flokkur hennar sé að tapa fylgi.

Þetta fjölmiðlafólk hefur eytt miklum tíma í að tala um að engin flokkur verði með hreinan meirihluta og jafnvel muni Íhaldsflokkurinn verða utan stjórnar. Allt eru þetta byggt á óskhyggju og draumsýnum þessara vinstri sinnuðu fréttamanna miðað við niðurstöður þeirra skoðanakannanna sem taldar eru hvað áreiðanlegastar.

Almennar kosningar í lýðfrjálsum löndum eru alltaf sigurhátíð lýðræðis. Þannig er það líka í Bretlandi í dag. Í lýðræðisríki eru skiptar skoðanir og eiga að vera það og sami flokkur sigrar ekki endalaust eins og dæmin sanna.

Þó að Íhaldsflokkur Theresu May hefði ýmislegt mátt gera betur þá fæ ég ekki séð að Verkamannaflokkurinn undir stjórn Marxistans Jeremy Corbyn vinni sigur í þessum kosningum. Tilraun hans til að gera lítið úr Theresu May og kenna henni um hryðjuverkin í London og Manchester vegna niðurskurðar til löggæslu var vægast sagt aumkunarverð og sama er að segja um kröfu hans og flokksbræðra hans um eflingu lögreglunnar- flokks sem alltaf hefur staðið á bremsunni hvað það varðar þangað til að þeir töldu að hægt væri að gera sér atkvæðamat úr hryðjuverkaógninni. Eiríkur Bergmann álitsgjafi RÚV, mundi kalla slíkt pópúlisma ef ekki kæmi til flokkur á sama róli í pólitík og hann sjálfur.

Theresa May hefur komið fram þann stutta tíma sem hún hefur verið forsætisráðherra Breta sem sterkur leiðtogi sem lætur að sér kveða og hefur ákveðnar skoðanir bæði heima fyrir og á alþjóðavettvangi. Það hefur m.a. komið í ljós á fundum hennar með Donald Trump,sem hún hefur greinilega haft jákvæð áhrif á. Ekki síður hefur hún haldið sínu í viðræðum við Evrópuforustuna varðandi Brexit.

Ekki verður séð að leiðtogi Verkamannaflokksins geti veitt sömu jákvæðu forustuna og Theresa May og verður ekki annað séð, en að Verkamannaflokkurinn sé einstaklega óheppinn með forustumann.

Þó ég spái almennt ekki um úrslit kosninga þá ætla ég samt að gera það núna og spái að skynsemin muni ráða hjá breskum kjósendum þó flokkshollusta þar í landi sé meiri en víðast annarsstaðar og Theresa May og flokkur hennar vinni góðan sigur í kosningnum. Það skiptir máli varðandi Brexit og samband Bandaríkjanna og Bretlands og raunar Bandaríkjanna og Evrópu. Corbyn getur ekki veitt þá forustu sem May hefur sýnt að hún gerir.  

Hætt er því við að óskadraumur og vonir vinstri sinnuðu fréttamannanna sem hafa bullað við okkur undanfarna daga fjari út þegar þeir vakna í fyrramálið.


Nú er nóg komið

Theresa May forsætisráðherra Bretlands sagði í ávarpi sínu til bresku þjóðarinnar í kjölfar hryðjuverkaárásanna á London Bridge, að nú vær nóg komið (enough is enough) Raunar er þetta vígorð hollenska stjórnmálamannsins Geert Wilders,sem bannað var að koma til Bretlands í innanríkisráðherratíð Theresu May fyrir hatursáróður, þó ekki næðist að framfylgja því banni.

En það er fyrir löngu nóg komið. Frá því að fólk var keyrt niður af íslamistum við Westminster til dagsins í dag eftir Manchester vígin og nú hryðjuverkin á og við London Bridge hefur breska lögreglan komið í veg fyrir 5 fyrirhugaðar hryðjuverkaárásir. Væri breska lögreglan ekki eins frábær og hún er þá lægju nú hundruðir til viðbótar í valnum bara í þessum og síðasta mánuði.

Það er ekki hægt annað en hrósa Lundúnarlögreglunni fyrir frábæran viðbúnað og aðgerðir í kjölfar hryðjuverkaárásanna. Frá því að árásirnar hófust þangað til Íslamistarnir höfðu verið skotnir liðu aðeins 8 mínútur. Sjúkralið og hjálparstarfsfólk stóð sig líka frábærlega vel. Þetta segir manni, að hefði varnarviðbúnaður lögreglu og hjálparstarfsfólks ekki verið svona gott þá hefðu Íslamistarnir fengið lengri tíma til að drepa og særa fleiri.

Enska lögreglan lét ekki staðar numið eftir að kennsl höfðu verið borin á hryðjuverkamennina og safnaði gögnum, gerði húsleitir hjá þeim og nágrönnum þeirra áður en dagur rann í morgun. Flott hjá þeim.

Það er nóg komið fyrir löngu. Stjórnunarelítan í Evrópu hefur neitað að horfast í augu við staðreyndir og forseti lýðveldisins Íslands er þar engin undantekning. Forveri hans gerði sér hins vegar góða grein fyrir að nú væri nóg komið- Enough is Enough.

Því miður held ég að íslenska lögreglan sé mjög svo vanbúin til að bregðast við og fást við hryðjuverk Íslamista. Í fyrsta lagi skortir á að nauðsynleg viðbragðsáætlun og góð stjórnun sé fyrir hendi. Í öðru lagði er þjálfun ábótavant og í þriðja lagi þá hafa íslensk stjórnvöld neitað að líta á hugsanlega hryðjuverkaárás sem möguleika og hafa vanrækt nauðsynlegan viðbúnað.

Sem dæmi um viðbúnað og vinnubrögð ensku lögreglunnar og þeirrar íslensku má minna á, að þegar árás var gerð á breskt stjórnerfi árið 2008 af skríl sem m.a.rændi verslanir auk annars, þá var lögreglan búin að skrásetja alla sem sáust á öryggismyndavélum nokkrum dögum síðar og búin að handtaka þá yfirheyra og gefa út ákærur viku síðar. Þegar skríll réðist á Alþingi í lok árs 2008 tók það íslensku lögregluna mánuði að ná saman haldbærum gögnum og síðan tók það meir en ár að gefa út ákærur.

Sigríður Andersen dómsmála- og lögreglumálaráðherra er sennilega sá stjórnmálamaður íslenskur í dag sem best er treystandi til að taka á þessum málum af alvöru og þeirri festu sem er nauðsynleg til að búa lögregluna þannig að hún eigi þess kost að bregðst til að vernda íslenska borgara með því að koma í veg fyrir hryðjuverk, en takmarka þau ella.

Ég skora á dómsmálaráðherra að setja þegar í stað vinnu í gang til að tryggja öryggi borgaranna með viðeigandi hætti og búa til öfluga viðbragðsáætlun þar sem lögregla, sjúkralið og aðrir sem geta aðstoðað fá nauðsynlega samfæingu og þjálfun.

Eftir allt saman þá voru varnaðarorð Geert Wilders hins hollenska og fleiri svonefndra "pópúlista"  og "hægri öfgamanna" varnaðarorð, en ekki öfgar. Varnaðarorð í tíma töluð þó elítan hafi skellt sínum löngu skollaeyrum við þeim. 


Festung Europa

Angela Merkel kanslari Þýskaland lýsti því yfir á bjórtjaldshátíð í München fyrir nokkru að Evrópa yrði að hugsa málin upp á nýtt þar sem meginlandið hefði ekki lengur stuðning af Bretlandi eða Bandaríkjunum.

Merkel hefur stýrt málum með  þeim hætti, að hún hefur búið sér til óvin í Rússum og fengið Evrópusambandsríki til að fara í viðskiptastríð við Rússland. Nú gerir hún og félagar hennar í Evrópusambandinu atlögu að Bretum og krefjast vinaslitabóta vegna Brexit, sem er umfram allt óhfóf,  á sama tíma og hún málar Trump og Bandaríkin verstu litum sem einn stjórnmálamaður á friðartríma málar æðsta mann annars ríkis.

Ekki einu sinni Erdogan eða Pútín hafa fengið aðra eins yfirferð af hálfu Merkel og Trump.

Á sama tíma og Merkel treður illsakir við Rússa, Breta og Bandaríkjamenn þá ítrekar hún þá stefnu sína hvort sem er við bjórdrykku eða án hennar,  að gera Evrópuríki á meginlandinu enn nátengdari og standa saman gegn þeim ríkjum sem ekki er arðandi upp á lengur, Rússland, Bretland og Bandaríkin.

Óneitanlega hljóma þessi brigslyrði og oflátungsskapur Merkel frekar illa í eyrum. Hún verður að sætta sig við að annað fólk má líka hafa skoðanir ekki bara hún og Soros.

Þetta er  ekki einsdæmi með þýska kanslara að vilja byggja upp Festung Europa til að halda Rússum, Bretum og Bandaríkjamönnum frá sér. En það fór ekki vel. Vægast sagt afar illa.

Þó ekki sé verið að líkja Merkel með neinum hætti við þá sem um miðja síðustu öld töluðu um Festung Europa, þá kennir sagan okkur samt ákveðin sannindi ef fólk vill skoða hana með eðlilegum hætti m.a. það að hvers öflug sem ríki eru eða ríkjasambönd, þá skiptir samt máli að umgangast granna sína með virðingu og efna ekki til óvinafagnaðar að nauðsynjalausu.

 


Parísarsamkomulagið og ný nálgun varðandi hnattræna hlýnun.

Náttúruverndarsinninn Björn Lomborg segir að Parísarsamkomulagið í loftslagsmálum sem Trump hafnaði í gær sé gríðarlega kostnaðarsamt og hafi litla þýðingu varðandi hnattræna hlýnun.

Lomborg segir, að þrátt fyrir yfirlýsingar þjóðarleiðtoga nú um að standa vörð um Parísarsamkomulagið og fordæming á afstöðu Trump, þá muni þeir þurfa að horfast í augu við óhrekjanlegar staðreyndir varðandi það.

Í fyrsta lagi er Parísarsamkomulagið dýrasta fjölþjóðasamþykkt sem hefur verið gerð. Kostnaðurinn frá 2030 muni nema milli 1 og 2 trilljón dollara á ári, segir Lomborg.

Skv. sáttmálunum á að greiða þróunarríkjum  á milli 800 milljarða og 1.6 trilljón dollara á ári. Hætt er við að Angela Merkel, Macron og Trudeau súpi hveljur þegar þau þurfa að taka þann kostnað inn í fjárlög landa, sem í dag safna ríkisskuldum sem kynslóðum framtíðarinnar er ætlað að borga.

Í öðru lagi segir Lomborg að Parísarsamkomulagið hafi mjög lítil áhrif á hlýnun í heiminum og miðað við sjónarmið talsmanna hnattrænnar hlýnunar af mannavöldum, þá muni heimurinn ekki ná nema um 1% af nauðsynlegum samdrætti kolefnalosunar til að koma í veg fyrir að hlýnun jarðar frá því sem nú er verði um 1.5 til 2 gráður. Það þýðir að 99% af vandamálinu verður áfram til staðar hvað sem Parísarsáttmálanum líður.

Í þriðja lagi er græn orka ekki til staðar til að taka við af jarðefnaeldsneyti. Umræðan sé öll á bjartsýnisgrunnni, en græn orka sé dýr valkostur og væri ekki til staðar ef ekki kæmu til gríðarlegir styrkir og hátt orkuverð. Spánn eyddi um 1% af þjóðarframleiðslu í endurnýjanlega orku, meira en til æðri menntunar. Þegar þeir drógu úr styrknum var ekki grundvöllur fyrir starfrækslu stærsta meginhluta vindorkuvera í landinu.

Þrátt fyrir að hafa eytt gríðarlegum fjárhæðum í styrki til að auka endurnýjanlega orku og byggja græn orkuver þá e vindorka um 0.5% af heildarorkunotkun og sólarorka um 0.1%. Þrem tilljónum dollara á að eyða skv. Parísarsamkomulaginu til stuðnings endurnýjanlegrar orku til 2040, en þá mundi sólarorka nema um 1% og vindorka um 1.9% af orkuþörf heimsins. Mikill kostnaður og lítill árangur það.

Miðað við þær staðreyndir sem Lomborg bendir á þá er nauðsynlegt að hugsa málið upp á nýtt. Parísarsamkomulagið mun hrynja og hefði gert það hvað sem líður afstöðu Trump af því að það kostar þvílíkar ógnarfjárhæðir og hefur sáralitla eða enga þýðingu varðandi hnattræna hlýnun og byggir ekki vistvæna orkugjafa af neinu viti.

En hvað á þá að gera? Á brotthvarf frá Parísarsamkomulaginu að þýða að engin geri neitt og þjóðir heims skeyti engu um mengun eða eyðingu hráefna? Er einhver sem vill það? Alla vega ekki sá sem þetta ritar.

Hvað sem líður fordæmingu leiðtoga heimsins á afstöðu Trump, þá væri e.t.v. ástæða til að hugsa málið upp á nýtt og leita leiða til að ná betri árangri gegn mengun og sóun í heiminum með minni kostnaði fyrir neytendur og verkafólk, en Parísarsamkomulagið gerir ráð fyrir.

Hvernig væri að auka gríðarlega rannsóknir og þróun á vistvænni og grænni orku til að hún geti raunverulega tekið við í einhverjum marktækum mæli af jarðefnaeldsneyti.

Á síðustu árum eftir að sósíalísk hugsun og sósíalskar lausnir, heltóku stjórnmálamenn Vesturlanda í framhaldi af hruni sósíalismans árið 1989, þá hefur öll áherslan varðandi baráttu gegn hnattrænni hlýnun og mengun byggst á aukinni skattpíningu fólksins og stjórnmálamenn hafa síðan eytt gríðarlegum fjárhæðum í gæluverkefni, sem litlu eða engu hafa skilað. Í stað þeirrar sóíalísku hugsunar og úrræða verður að leggja áherslu á það hvað við sem einstaklingar getum lagt að mörkum og viljum leggja að mörkum.

Hvernig væri að fólk íhugaði rafbílavæðingu í gríðarlega auknum mæli. Ef umhverfisráðherra vildi gera eitthvað raunverulegt þá mundi hún gera samning við ON um byggingu hraðhleðslustöðva með um 50. km. millibili á þjóðvegi 1 til að byrja með og léti okkur rafbílaeigendur borga sannvirði fyrir notkun vega og orku frá ON. Við eigum ekki að fá þetta ókeypis. Þá mundum við neytendur taka þátt í og borga framkvæmd vistvænna orkustöðva og stuðla í leðinni að því að minnka notkun jarðefnaeldsneytis.

Hvernig væri að Neytendasamtökin þegar þau komast út úr innbyrðisátökum og stjórnvöld gengjust fyrir herferð meðal neytenda til að vera ábyrgir neytendur, hafna umbúða- og plastsamfélaginu. Taka þarf upp góða fræðslu um hvaða við getum sem einstaklingar gert til að vernda vistkerfi okkar og draga úr mengun sem mest við getum.

Af hverju bjóða íslensk stjórnvöld ekki fjárfestum að fjárfesta í rannsóknum á vistvænni orku. Við búum nú þegar yfir gríðarlegri þekkingu hvað það varðar og getum með því að sinna rannsóknum og aðstoð við aðrar þjóðir í þeim efnum lagt mikið að mörkum til heimsins alls. Af hverju ekki nálagast viðfangsefnið jákvætt í anda John Lennon og segja það eru ekki vandamál bara lausnir.

Að standa vörð um náttúruna og vinna að því að dregið verði úr mengun þ.m.t.notkun kolefna og jarðefnaeldsneytis er ábyrg afstaða, en það verður að nálgast þá hluti með þeim hætti að það hafi raunveruleg áhrif og sé ekki framkvæmt með þeim hætti að færa trilljónir eftir trilljónir króna frá vinnandi fólki til kommissara Evrópusambandsins og SÞ og fyrirtækja sem þeim eru þóknanleg og fá í dag milljarða í styrki og gríðarlegan ágóða með sölu lotslagskvóta allt á kostnað skattgreiðenda. Það er eitt dæmi um það þegar stórkapítalið og afturhaldið nær sameiginlegri lausn með sósíalistunum allt á kostnað einstaklingsframtaksins og almennings sem og framtíðarinnar.

Ákvörðun Trump gerir það nauðsynlegt hvort sem "ábyrgum stjórnmálamönnum" líkar það betur eða verr, að hugsa þessi mál upp á nýtt þannig að ná megi meiri og betri árangri með minni kostnaði fyrir almenning. Annað gengur ekki.  

Það er líka mál til komið að hugsa fyrst og fremst um að vinna gegn mengun og sóun í stað þess að eltast við vísindalegar draugasögur og lausnir glámskyggnrar stjórnmálaelítu.


Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 196
  • Sl. sólarhring: 835
  • Sl. viku: 4017
  • Frá upphafi: 2427817

Annað

  • Innlit í dag: 183
  • Innlit sl. viku: 3719
  • Gestir í dag: 181
  • IP-tölur í dag: 177

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband