Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2021

Einkaframtakið og pólitíkin

Í aðdraganda kosninga fjölgar skoðanakönnunum, sem kanna fylgi stjórnmálaflokka almennt og fylgi þeirra meðal einstakra starfsstétta.

Í Fréttablaðinu var gerð grein fyrir einni þar sem sagt var að fylgi fólks í einkageiranum við Sjálfstæðisflokkinn væri 29%. Það er umfram almennt fylgi flokksins, en er slæm niðurstaða fyrir flokk, sem telur sig málssvara einstaklingsframtaksins og er nánast einn um þær áherslur í íslenskri pólitík, að  71% einyrkja og annarra í einkaframtakinu, skuli ætla að kjósa annan flokk. 

Svarhlutfall í könnuninni var um 52% svipað og í öðrum könnunum um þessar mundir, þannig að þær gefa einungis vísbendingar en eru ekki að fullu marktækar.

Samt er það áhyggjuefni fyrir flokk sem var stofnaður til og hefur alla tíð talið sig sérstakan málsvara einkaframtaksins að hafa ekki meira fylgi í þeim hópi. 

Sú vísbending sem þessi skoðanakönnun gefur ætti að leiða til þess, að forusta flokksins gaumgæfi hvað veldur því að fylgi flokksins er ekki meira meðal þeirra sem fá ekki launin sín greidd án nokkurra vandkvæða um hver mánaðarmót, en þurfa sjálf að afla allra sinna tekna vegna þess að það er engin sem gerir það fyrir þau og velferðin nær ekki til þeirra. Bjáti eitthvað á hjá þeim hópi, þá eru þau mun verr sett en almennt launafólk.

Af sanngirnisástæðum ætti flokkur hins frjálsa framtaks líka að gæta að því, hvort að velferðarstefna undanfarinna ára og Kóvíd fjárausturinn s.l. eitt og hálft ár til sumra, hafi leitt til þess, að margir sjálfstæðir atvinnurekendur telji sig bera áberandi skarðan hlut frá borði og þurfi að sæta öryggisleysi á ýmsum sviðum sem aðrir borgarar þjóðfélagsgins gera ekki. 


Fyrsta og annars flokks borgarar.

Franska byltingin 1789 markaði tímamót.Þá varð til stjórnarskrá sem lögfesti jafnstöðu allra franskra borgara. Nú hefur franska þingið ákveðið að breyta því, að gera mun á þeim sem eru Kóvíd bólusettir og þeim, sem eru það ekki. 

Heilbrigðistarfsfólk er með lögunum skyldað til að láta bólusetja sig. Þá verða til heilsupassar. Án þeirra má fólk ekki ferðast með flugvélum, járnbrautalestum, borða á veitingastöðum eða koma á ýmis söfn eða aðra opinbera staði.

Angela Merkel Þýskalandskanslari boðar takmarkanir á frelsi þeirra sem eru ekki bólusettir. Í Bretlandi er talað um að setja reglur um skyldubólusetningu skólafólks.

Dómstólar eiga eftir að fjalla um það hvort að þessi mismunun borgaranna samræmist grundvallarlög samfélagsins. 

Ekkert Kóvíd bóluefni veitir örugga vörn gegn smiti. Ekkert veitir örugga vörn gegn því að bólusett fólk smiti ekki aðra. Bólusetningin tryggir ekki að bólusettir veikist ekki. 

Bóluefnin á markaðnum eru ekki merkilegri en það, að framleiðendurnir ábyrgjast hvorki að ekki fylgi alvarlegar aukaverkanir né að þau hafi einhverja virkni sem skiptir máli.  Við þessar aðstæður þegar fyrir liggur nú þegar að ýmsar alvarlegar aukaverkanir tengjast bóluefnunum, er það með miklum ólíkindum og sýnir hve heillum horfnir pólitískir forustumenn í Evrópu eru, að þeir skuli láta sér detta í hug að skipta borgurunum í tvo hópa bólusettum og óbólusettum og svipta óbólusetta frelsi sínu á ýmsum sviðum.

Kóvíd faraldurinn hefur sýnt fram á, hvílík áhrif ofurþungi samræmds stöðugs hræðsluáróðurs hefur á fólk. Nú á að nýta þá hræðslu til að knýja alla til að láta bólusetja sig að viðlagðri ábyrgð að lögum og skerðingu lýðréttinda. 

Frakkar sem ríða á vaðið með skerðingu borgaralegra réttinda þeirra sem ekki láta bólusetja sig gerir það undir sama vígorði og Frakkar beita í hernaði áður en hundruðum þúsunda ungs fólks er fórnað á vígvellinum. 

Nú er sú eina von eftir, að dómstólar Evrópu standi sig og dæmi alla þá löggjöf ólöglega sem tekur af borgaraleg réttindi þeirra sem ekki láta bólusetja sig. 

 


Við ráðum og við ein vitum.

Evrópusambandið tekur að sér yfirstjórn aðildarríkja sinna og sækist stöðugt eftir að ráða meiru og meiru um ákvarðanir ríkisstjórna einstakra aðildarríkja. Ítrekað er einstökum ríkjum send tilmæli eða hótanir m.a. vegna efnahagsstjórnunar, innflytjendastefnu, landamæra o.fl. 

Nú hamast yfirstjórn Evrópusambandsins gegn Pólverjum og Ungverjum, en þó sérstaklega Ungverjum fyrir að banna hinsegin fólki ávirkan áróður fyrir unglinga og börn undir 18 ára. Evrópusambandið og RÚV kalla það að virða ekki mannréttindi.

Athyglisvert að skoða grein sem Douglas Murray, skrifaði fyrir nokkru undir heitinu. "Menningarleg styrjöld milli Austur og Vestur (Evrópu),gæti skipt EU í tvennt." Tekið skal fram að Douglas Murray er samkynhneigður.

Í greininni víkur hann að því hvernig barátta fyrir jafnrétti samkynhneigðra hafi að óþörfu farið út af sporinu á síðustu árum, þegar sú barátta hefði sigrað í Vestur Evrópu hefði umræðan umhverfst um baráttu fyrir að afneita kynferðislegum mismun og ýta áfram "trans" hugmyndafræði. Í því ljósi sé ekki óeðlilegt að Ungverjaland hafni því að taka upp kynfræðslu fyrir ungt fólk byggt á slíkri hugmyndafræði. 

Evrópusambandið hefði ekki þurft að gera neitt, en hefur kosið að gera það og enn og aftur segir Murray að þessi afskipti ýti undir þá skoðun Austur Evrópu ríkjanna (Visegard), að EU sé að reyna að þvinga sínum lífsháttum upp á þau. 

Ursula von der Leyen heldur því fram, að þessi Ungversku lög sem banna kynfræðslu hinsegins fólks til unglinga undir 18 ára aldri "stríði gegn öllum gildum--- Evrópusambandsins."

Sérkennilegt ef það eru helstu gildi Evrópusambandsins, að skylda einstök aðildarríki til að taka upp kynfræðslu sem er þóknanleg kommissörunum í Brussel. En í framhaldi af því hefur yfirstjórn EU ákveðið að bregðast við með lögsókn á hendur ríkisstjórn Ungverjalands. 

Ríkisstjórn Ungverjalands hefur ákveðið að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta umdeilda frumvarp, en niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar mun ekki hafa nein áhrif á yfirstjórnina í Brussel, sem hefur nú tekið að sér yfirstjórn á kynfræðilegum og siðferðilegum ákvörðunum einstakra aðildarríkja á hvaða lagagrundvelli sem það er nú byggt. 

Sérkennilegt að enn skuli vera fólk á Íslandi sem mælir með því og telur horfa til framþróunar, að Ísland gangi í Evrópusambandið eins og það hefur þróast á undanförnum árum. 


Hóflegar aðgerðir?

Aðgerðir í sóttvarnarmálum, sem ríkisstjórnin kynnti í gær eru skynsamlegar og hóflegar miðað við stöðuna og þær kröfur sem settar eru fram af sóttvarnarlækni og heilbrigðisstarfsfólki. Aðgerðirnar eru tímabundnar og falla sjálfkrafa úr gildi verði þær ekki endurnýjaðar. Þessar aðgerðir takmarka lítið frelsi fólks og koma ekki niður á ferðaþjónustunni.

Um nokkurt skeið hefur verið ljóst, að fólk er  smitast helst í miðborg Reykjavíkur um helgar. Þessvegna var sérstakt að sóttvarnarlæknir skyldi ekki hafa lagt til aðgerðir vegna þess um leið og hann mælti fyrir hertum aðgerðum á landamærunum.

Ríkisstjórnin er samstíga í málinu eins og jafnan í þessum málaflokki og ákveður nú sem betur fer tímabundnar aðgerðir.

Um nokkurt skeið hefur verið látið í veðri vaka af ýmsum fréttamiðlum, að upplausn sé í ríkisstjórninni vegna mismunandi áherslna í sóttvarnarmálum. Þar hefur fréttastofa RÚV farið fremst í flokki og af fréttmönnum á RÚV hefur Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir leikið traustastasta sóknarleikinn til að koma því inn hjá fólki, að nú léki allt á reiðiskjálfi og litlar líkur á að stjórnarsamstarfið yrði endurnýjað eftir kosningar. 

Eftirtektarverðast var þegar Jóhanna dró Ólaf Harðarson fyrrum prófessor einu sinni sem oftar upp úr pússi sínu og spurði hann ítrekað að því hvort ekki væri sýnt að stjórnarsamstarfið væri í hættu vegna ágreinings í sóttvarnarmálum. Ólafur svaraði ítrekað, "jamm og já og humm og ha, kannski og ef til vil og erfitt að segja til um". Þetta barnaði Jóhanna síðan með því að halda fram í yfirskrift þessarar ekki fréttar, að prófessor í þjóðfélagsfræði, teldi verulegan vafa leika á að stjórnarsamstarfið yrði endurnýjað eftir kosningar.

Það sagði prófessorinn raunar aldrei.

Gagnrýna má ríkisstjórnina og stjórnarflokkana fyrir að fela sig stöðugt bakvið sóttvarnarlækni og setja hann í þá óþægilegu aðstöðu að vera í raun sá sem öllu ræður í sóttvarnarmálum. Um þá afstöðu hefur ríkt einhugur innan ríkisstjórnarinnar eins og raunar flestra ríkisstjórna í Evrópu. Vegna þessa afstöðuleysis og skorts á langtímastefnumörkun liggur það ekki fyrir hverju fólk og fyrirtæki mega búist við.

Meginspurningin er sú eftir sem áður.

Ætlum við að lifa með veirunni og þá hvernig eða freista þess að útrýma henni úr landinu? Þeim spurningum verða allir stjórnmálaflokkar að svara fyrir kosningar. 


Farsóttin er búin. Fólkið sigraði.

Yfirskrift leiðara blaðsins Reykjavík Grapevine júlíútgáfu er, að Farsóttin(Kóvíd) sé búin og fólkið hafi sigrað. Ritstjórinn er ekki sá fyrsti sem hefur sett fram slíkar fullyrðingar. 

Fyrir rúmu ári síðan var lýst yfir sigri á Kóvídinu og þríeykið fékk fálkaorðuna fyrir sigursæla framgöngu. 

Nú ári síðar kemur ríkisstjórnin enn einu sinni saman til neyðarfundar til að ræða "minnisblað" sóttvarnarlæknis (sérkennilegt að kalla tillögur minnisblöð). Tillögurnar lúta að fjöldatakmörkunum og bönnum. 

Enn einu sinni verðum við þá stödd í raunveruleikaheimi óraunveruleikans. 

Undantekningarlaust hafa þær aðgerðir sem gripið hefur verið til meðan Kóvídið hefur herjað staðið mun lengur en efni standa til. Nú þegar flest bendir til þess, að Kóvíd smit séu ekki eins alvarleg heilsu fólks eins og áður, þá er full ástæða til þess, að ríkisstjórnin takmarki frelsistakamarkanir í tíma. 

Fari svo að gripið verði til samkomutakmarkana og annarra frelsisskerðinga ætti ríkisstjórnin að miða við að þær aðgerðir standi ekki lengur en í mesta lagi hálfan mánuð og falli þá sjálfkrafa niður, ef þær eru ekki framlengdar. 

Mörgum hættir til að hnýta í þá sem þeir telja sökudólga og ritstjóri Grapevine gerir það í leiðara sínum  og segir "populist figures" í heiminum hafi tapað baráttunni, en það hafi kostað fjölda manns lífið. Manni verður þá helst fyrir að hugsa til Stefan Löwen forsætisráðherra Svíþjóðar í þessu sambandi,sem er ómaklegt og rangt, en vafalaust á ritstjórinn við einhverja aðra þó hann tali ekki hreint úr pokanum. 

Í sumum stríðum eru engir sigurvegarar. Hætt er við að það eigi við Kóvídið. Samt sem áður eiga ýmsir hrós skilið og hlutirnir hefðu farið á verri veg án þeirra. 

En er ekki best að spyrja að leikslokum?


mbl.is Ríkisstjórnin fundar um tillögur Þórólfs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrikaleg gráglettni örlaganna.

Þ.30.september 2005 birtist grein í danska blaðinu Jyllands Posten, sem hét Sjálfsritskoðun og tjáningarfrelsi(selvcensur og ytringsfrihed)Með myndinni fylgdu teikningar af Múhameð spámanni eftir danska skopmyndateiknarann Kurt Vestergård, sem lést fyrir nokkrum dögum.

Skopmyndirnar af Múhameð leiddu til fjöldauppþota múslima um allan heim og ríkisstjórnir flestra Íslamskra landa kröfðust þess að bannað yrði að birta þær og teiknaranum og útgefendum Jyllands Posten yrði refsað. 

Þáv. forsætisráðherra Dana, Anders Fogh Rassmussen, stóð sig vel og sagði Danmörku lýðræðisland, sem virti tjáningarfrelsi. 

Fjöldamótmæli urðu í Íslömskum ríkjum, danski fáninn var brendur,kveikt var í sendiráðum Dana í Damascus og Beirut, danskar vörur eyðilagðar í verslunum og bannað að kaupa þær. Fornaldarveldið Saudi Arabía birti lista yfir danskar vörur og fyrirtæki sem á bannlista m.a. Radisson SAS hótelin, 7 up, Halls hálsbrjóstykur, Carlsberg o.fl. o.fl.

Það voru örfáir, sem þorðu að birta Múhameðs teikningarnar. Eitt blað í Noregi, gerði það og þáv.forsætisráðherra Noregs og núverandi framkvæmdastjóri NATO, Jens Stoltenberg,Kallaði Vebjörn ritstjóra blaðsins á teppið skammaði hann og sagði hann hafa leitt skömm yfir Noreg. Mikil virðing fyrir lýðfrelsi þar.

Danska lögreglan gætti Kurt Vestergård teiknara eftir þetta allan sólarhringinn og útbúið var sérstakt neyðarherbergi í íbúð hans ef svo illa tækist til að íslamistar kæmust inn. 

12.febrúar 2008 handtók danska lögreglan marga Íslamista vegna fyrirhugaðs morðs á Vestergård. Daginn eftir birtu 17 fjölmiðlar Múhameðs teikningar Vestergård. Síðan hafa þær ekki birst í fjölmiðlum. Endurbirting myndanna leiddi til óeirða í Pakistan og Gaza svæðinu, hvatt var til sniðgöngu á dönskum vörum og kveikt í dönsku sendiráði.

Síðar voru fleiri morðtilræði gegn Vestergård.

Við andlát Vestergård hefði mátt búast við því að einhverjir fjölmiðlar birtu myndir hans af Múhammeð spámanni. Svo varð ekki. Sjálfritskoðun fjölmiðla á Vesturlöndum er svo mikil. Í sjálfu sér ekki óeðlilegt þegar litið er til þess hve marga Íslamistarnir hafa drepið í hinum kristnu löndum Evrópu fyrir að þeirra mati að hafa móðgað þá eða þennan spámann þeirra. Svo ekki sé minnst á þegar þeir drápu alla ritstjórn og stóran hóp blaðamanna franska skopmyndablaðsins Charlie Hebdo. 

Það sýnir sig vel hvað sjálfsritskoðunin í Vestrænum löndum er mikil, að nú við andlát Vestergård þorir ekki einn einasti fjölmiðill að birta skopmyndir hans. 

Ég sótti ráðstefnu á vegum félagsins "Tjáningarfrelsið" í Danmörku á 10 ára afmæli birtingar Múhammeðsteikninganna í september 2015 við það tækifæri var vakin athygli á því að þó að ýmsir fjölmiðlar fjölluðu um þetta afmæli, þá birti engin myndirnar. Einnig að vegna ráðstefnunnar þá þurfti sérstaka öryggisgæslu og fundarstaðurinn var vaktaður og nákvæm leit var gerð á öllum sem sóttu ráðstefnuna.

Á ráðstefnunni var m.a. sagt frá því, að í dönskum skólum væri fjallað um Múhammeðsteikningarnar og viðbrögð Íslamska heimsins við þeim, en myndirnar væru hvergi sjáanlegar og þegar dönsk skólayfirvöld hafa verið innt eftir af hverju, þá hefur verið svarað, að þær skiptu ekki máli í þessu samhengi. 

Hvað skyldi þá skipta máli í samhenginu?

Hinn hrikalega gráglettni örlaganna er sú, að myndirnar, sem prýddu grein um sjálfsritskoðun og tjáningarfrelsi fæst hvergi birt vegna sjálfsritsskoðunar og hræðslu við að nýta tjáningarfrelsið. 

 

 

 


Þú mátt það fyrir mér

Á dögum vöruskömmtunar eftir stríð voru embættismenn, sem gátu bannað innflutning á ákveðnum vörum og ákveða hverjir fengu uppáskrifað að þeir mættu kaupa slíkar vörur m.a. nauðsynjar  þess tíma eins og kol. Eftir að reglurnar voru afnumdar áttu sumir þessara embættismanna erfitt með að sjá á eftir valdi sínu og létu í veðri vaka að þeir réðu og full þörf væri á því fyrir velferð þjóðarinnar. 

Einn slíkur valdsmaður skrifaði neðangreinda yfirlýsingu eftir að meint þjóðhagsleg þörf fyrir skömmtunarstörf hans var liðin en hann lýsti yfir eftirfarandi:

"Jón Jónsson smiður Holtsgötu 33 Reykjavík, má kaupa 3 kolapoka fyrir mér."

Sóttvarnarlæknir, hefur undanfarna daga velt því fyrir sér hvað hann gæti gripið til bragðs, til að sýna valdsmannslegan myndugleika vegna Cóvíd smita að undanförnu. 

Loksins tók sóttvarnarfjallið jóðsótt og varð þá að hans mati helst til varnar vorum sóma, að ferðamenn innlendir sem erlendir, bólusettir sem óbólusettir yrðu að fara í sýnatöku innan við 72 stundum áður en þeir kæmu til landsins. 

Þetta ráðslag er næsta sérkennileg þegar ítrekað hefur komið í ljós, að ferðamenn, sem hafa skilað slíku vottorði við hingaðkomu greinast síðar smitaðir eftir nokkra dvöl í landinu, án þess að hafa smitast hér.

Þessar ráðstafanir eru verulega kauðskar skoðað í því ljósi, að helsta smitleiðin er ekki tengd landamærunum. En heilbrigðisráðherra og sóttvarnarlæknir starfa eftir einkunarorðunum.

"Til hvers að hafa vald ef maður notar það ekki."  

Í tilefni dagsins fannst heilbrigðisráðherra rétt að fordæma ábyrgðarleysi samstarfsflokks síns Sjálfstæðisflokksins og taka sér til fyrirmyndar faríseann sem stillti sér upp til bæna við hlið tollheimtumannsins í musterinu forðum, sbr. dæmisögu Jesú, til að gera Guði sínum grein fyrir hve miklu betri hann væri en tollheimtumaðurinn sem sýndi þó fulla einlægni og iðrun ólíkt faríseanum. 

 

 

 


Styðjum við hryðjuverkamenn?

Tyrkir undir stjórn Erdogan stuðluðu að borgarastyrjöldinni í Sýrlandi og hafa stutt mismunandi uppreisnarhópa í áranna rás m.a. Ísis þegar það hentaði. Þeir hafa vopnaðar sveitir sem eru á þeirra vegum í Sýrlandi og fá laun sín greidd af Tyrkjum.

Hugmyndafræði Erdogan er augljós. Breyta landamærunum og innlima hluta af Sýrlandi í Tyrkland.

Eftir því sem stjórnarher Sýrlands og bandamanna þeirra óx ásmeginn flúðu vígamenn Al Kaída, Ísis og fleiri samtaka Íslamskra hryðjuverkasveita til héraðsins Ídlip í Sýrlandi, sem Tyrkir hafa í raun yfirtekið komið í veg fyrir að Sýrlandsher kláraði borgarastyrjöldina. Tyrkir halda þar verndarhendi yfir meir en milljón vígamanna Íslamskra öfgamanna. Nú eins og í svo mörgu öðru sýna Tyrkir þá kænsku að láta aðra borga. 

Talið er að um 4 milljónir búi í Ídlib og um 3.5 milljónir lifa á matargjöfum frá Sameinuðu þjóðunum. Þær matargjafir fara í gegnum Tyrkland. Sameinuðu þjóðirnar með velþóknun Bandaríkjamanna og NATO ríkja styðja Tyrki til að viðhalda yfirráðum yfir héraði í Sýrlandi og styðja um leið fjölda hermanna vígasveita hryðjuverkahópa sem þar dveljast. 

Þegar hryðjuverkamenn Al Kaída flugu á tvíburaturnana í Bandaríkjunum þann 11. september fyrir 20 árum skar Bush jr. þáverandi Bandaríkjaforseti upp herör gegn Íslömskum öfgasveitum, en sló um leið á útrétta hönd Rússa, sem buðu fram alla aðstoð í þeirr baráttu. Nú 20 árum síðar senda Bandaríkjamenn hryðjuverkamönnunum í Ísis og Al Kaída matargjafir í gegnum Sameinuðu þjóðirnar og styðja Tyrki til að viðhalda ófriði í þessum heimshluta og vernda vígamennina. 

Það er með ólíkindum að engin stjórnmálamaður eða stjórnmálaflokkur í Evrópu skuli hafa gert athugasemd við þetta og krafit þess, að hætt verði að styðja vígamennina og Tyrkir dregnir til ábyrgðar vegna stríðsglæpa í Sýrlandi. 


Vertu öruggur um leiðina

Á síðasta degi fjöldabólusetningar gegn Covíd boðaði sóttvarnarlæknir á ný upplýsingafund vegna aukinna smita. Á þeim fundi kom fram, að bólusetningar veita ekki vörn gegn smiti og bólusettir geta smitað. 

Eðlilega eru þetta vonbrigði fyrir alla. Lærðir sem leikir höfðu fram að þessu trúað að með fjöldabólusetningum myndaðist hjarðónæmi, við yrðum laus úr viðjum ótta og innilokunar og lífið gengi eftir það sinn vanagang eins og það var fyrir janúar 2020. 

Nú er hnípið veirutríó í vanda og veit ekki hvað í ósköpunum á til bragðs að taka. Fullyrðingar um bólusetningar hafa reynst rangar eða í besta falli gróflega yfirdrifnar. Smit aukast, en engin veikist samt alvarlega eftir því sem sóttvarnarlæknir upplýsir.

Vegna aukinna smita þó ekki alvarlegra íhugar sóttvarnarlæknir nú að grípa til aðgerða þó hann viti ekki hverjar þær eigi að vera, vegna þess að e.t.v. í framtíðinni komi í ljós, að einhverjir sem veikjast þurfi á spítalainnlögn að halda. 

Slíkar forsendur fyrir því að hefta borgaralegt frelsi eru vægast sagt ófullburða.

Telji sóttvarnarlæknir nú, að bólusetningar komi ekki í veg fyrir alvarlegar afleiðingar Cóvíd smita,þá hefur hann því miður haft rangt fyrir sér og búið er að bólusetja þorra þjóðarinnar með bóluefni á tilraunastigi, sem ekki sér fyrir endan á hvaða afleiðingar muni hafa á framtíðarheilsufar þjóðarinnar. Bóluefni sem framleiðendur taka enga ábyrgð á ekki einu sinni virkni framleiðslunnar, en ríkisvaldið taldi samt nauðsynlegt að dæla í fólk án nokkurs fyrirvara og skerti réttindi þeirra sem ekki létu bólusetja sig.

Hafi sóttvarnarlæknir rétt fyrir sér um virkni bólusetningar fyrir þá sem smitast, þá er lítil ástæða til að grípa til annarra aðgerða en að brýna fyrir fólki einstaklingsbundnar varnir.

Vafalaust hefðu stjórnvöld átt að tileinka sér einkunarorð bandarísku frelsishetjunnar Davy Crockett í allri þessari baráttu: "Vertu öruggur um leiðina og haltu síðan áfram." 

 

 

 


Er íslenskan ekki nothæf?

Hafi fólk haft áhyggjur af vexti og viðgangi íslenskrar tungu, þá má ætla að fólki hafi brugðið í brún við að lesa þær fréttir, að ferðaiðnaðurinn hér á landi, teldi sér hentast, að nota ensku.  

Þegar ég heimsótti fjölsóttann ferðamannastað fyrir Covíd, þar sem brýn þörf var á að gera góða grein fyrir hlutunum, þá var það óttalega kauðskt, að 60 manna íslenskum ferðahópi skyldi bara boðið upp á að fá útskýringar á ensku.  Óneitanlega skortir á eðlilegan þjóðlegan metnað þegar skipulagið er þannig. 

En þetta er ekki það eina. Við lestur dagblaða og annarra opinberra miðla kemur í ljós, að fjöldi fólks kann ekki skil á einföldustu reglum íslenskrar setningaskipunar og stafsetningu, jafnvel þó um fjölmenntað fólk sé að ræða.

Þannig mátti sjá í dag í einu og sama blaðinu eftirfarandi texa í auglýsingum þar sem um er að ræða sérhæfða starfsemi: 

Ný flýsalögn og Hluturinn er þvoður.

Ef til vill ekki stórvægilegara villur, en leiðir hugann að því hvort við höfum ekki slakað óhæfilega mikið á íslenskunámi og leggjum ekki neina rækt við að fólk geti tjáð sig á íslensku máli með íslenskri setningaskipun en ekki enskri.

Því miður er ekki um neina Pisa greiningu á kennslu í íslensku hér á landi og ekki nokkur samanburður af neinu tagi enda verður honum ekki við komið. Hræddur er ég um að væri hann til staðar þá riði íslenska skólakerfið ekki feitum hesti frá slíkum samanburði frekar en öðrum. 

Raunar sýnir það metnaðarleysi menntamálayfirvalda, að bregðast ekki við þegar ítrekað er skrifað á vegginn ár eftir ár, að fræðsla í íslenska skólakerfinu sé ekki fullnægjandi. 

Ekki er við góðu að búast þegar sjálfur menntamálaráðherra áttar sig ekki á hvað um er verið að tala eins og kom í ljós, í sérstakri umræðu um skóla án aðgreiningar á Alþingi nokkru fyrir þinglok í vor. 


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 14
  • Sl. sólarhring: 426
  • Sl. viku: 4230
  • Frá upphafi: 2449928

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 3941
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband