Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2022

Friðarsamningar

Þær fréttir berast nú, að friðarviðræður séu  hafnar milli Rússa og Úkraínumanna á landamærum Hvíta Rússlands og Úkraínu. Það er ekki hægt að segja annað en Guð láti gott á vita og vonandi tekst að ná samkomulagi til að koma í veg fyrir frekari átök. 

Ljóst er að Rússar hafa ekki náð því marki sem þeir ætluðu sér og framhald átakana þýða frekari blóðsúthellingar og hörmungar fyrir fólk bæði í Rússlandi og í Úkraínu. Það græðir engin á hörmungum milljóna fólks. Þessvegna skiptir máli að Vesturveldin leggi líka sitt að mörkum til að friður náist. Það eru okkar hagsmunir ekkert síður en hinna stríðandi þjóða. 

Náist friður er það síðan stríðsaðila að gera upp málin innanlands og kalla þá til ábyrgðar,sem hana bera.  

 

 


NATO eða ekki NATO hver er stefna Vinstri grænna.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hefur ítrekað lýst því yfir síðast á fréttafundi í hádeginu, að það skipti öllu máli að efla samstöðu og varnarviðbúnað NATO þjóða, til að koma í veg fyrir að víðtækara stríð brjóstist út og tryggja öryggi okkar sem þjóðar. 

Atburðir síðustu klukkustunda hafa enn á ný sýnt fram á hvað aðild að NATO skiptir miklu fyrir öryggi þjóða. 

Við hlið utanríkisráðherra á fundinum stóð Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og varð í útliti eins og henni væri illt í maganum við þessar yfirlýsingar utanríkisráðherra.

Þrátt fyrir að Katrín Jakobsdóttir hafi ítrekað sótt leiðtogafundi NATO og unað sér þar, þá er stefna hennar og Vinstri grænna að Ísland segi sig úr NATO. VG hafnar því að aðild að NATO skipti máli varðandi varnarviðbúnað Íslands

Í ljósi aðstæðna verður nú að krefja forsætisráðherra svara við því, hvort hún og flokkur hennar Vinstri grænir berjist enn fyrir úrsögn Íslands úr NATO og á hverju eigi að byggja varnarviðbúnað Íslands of öryggi ef þessari stefnu VG verður framfylgt.

Sé svo, VG vilji ótrauð hér eftir sem hingað til að Ísland segi sig úr NATO er vandséð í ljósi aðstæðna að Katrín Jakobsdóttir geti áfram gegnt starfi forsætisráðherra.   

 

 


Viðbrögð við hernaði.

Mig minnir að það hafi verið skáldið Mark Twain,sem hét raunar Samuel Langhorne Clemens eins og mig minnir líka, sem sagði að bankarnir væru stofnanir sem byðu fólki regnhlífar þegar sólin skini, en tækju þær til baka þegar byrjaði að rigna.

Leiðtogar Vesturlanda hafa verið á stöðugum fundum með Pútín vegna Úkraínu og á sama tíma sent herlið til nágrannalanda Úkraínu en varað sig á að senda engan soldáta þangað. Þá hafa Vesturlönd jafnframt sent aragrúa vopna til Kænugarðs í Úkraínu. Ljóst er að herliðið sem sent hefur verið til vestur og norðurhluta landamæra Úkraínu er ekki þangað komið til að berjast og satt að segja veit engin hvaða hlutverk það hefur. 

Þetta er ekkert ólíkt því þegar maður kvartar yfir því að þakið leki, að senda til hans bala.

Engum dettur í hug,þrátt fyrir yfirlýsingar vestrænna leiðtoga, að þeir veiti Úkraínu aðstoð. 

Ef til vill er því miður svo komið, að Vesturlönd eru orðin of feit til að hlaupa og slást. Þá er ekkert annað í boði en að brosa og taka því sem árásaraðilanum dettur í hug. 

Þessar staðreyndir ættu að vera ástæða til að harmi þrungnir utanríkisráðherrar Vesturlanda hittist til að tala af alvöru um eigin stöðu og viðbrögð við árás komi til hennar. Það er greinilega ekki seinna vænna.


Sei sei jú mikil ósköp

Í gær héldu ungliðadeildir vinstri flokkana og Viðreisnar fundi til að mótmæla því að lögregla leitaði upplýsinga vegna meints þjófnaðar á síma,ólöglegt niðurhald og/eða afritun af gögnum í símanum. Sérkennilegt að málefnasnauðar ungliðahreyfingar skuli finna það helst til varnar sínum sóma, að vandræðast út í lögreglurannsókn.

Af gefnu þessu tilefni komu mér í hug orð Nóbelsskáldsins Halldórs Laxness, úr greininni "Sei sei jú mikil ósköp. Nýtt setumannaævintýri", en þar segir:

"Skapbrestir þessarar kæru þjóðar virðast einatt vera helsti erfiðir til þess að hún fái haldið uppi lögríki og siðuðuðu mannfélagi svo í lagi sé."

Maður kærði þjófnað á síma sínum og að gögn úr símanum hefðu verið afrituð án leyfis og síðan birt opinberlega. Ekki á að vera ágreiningur um það, að hér er um alvarlegt mál að ræða. Finnst ungliðum vinstri flokkana og Viðreisnar virkilega óeðlilegt að slík mál séu rannsökuð? 

Árið 2005 hóf breska lögreglan rannsókn á fréttamiðlinum News International sem var í eigu auðkýfingsins Robert Murdoch. Ástæða rannsóknarinnar var grunur um símhleranir og ólöglegt niðurhal úr símum ákveðinna einstaklinga. Nokkrum árum síðar voru útgefendur og ýmsir starfsmenn fréttamiðilsins sakaður um að hafa staðið að því ólöglega athæfi, sem rannsókn lögreglu beindist að og fjöldi fjölmiðlafólks þurfti í framhaldinu bæði hjá News of the World og blaðinu "The Sun" að segja af sér.

Almenn reiði var í Bretlandi vegna þessa athæfis fjölmiðlafólksins og fleiri þurftu að taka pokann sinn vegna þess, að þeim var ekki vært. News International var lagt niður eftir að hafa verið gefið út í 168 ár. Ekki datt nokkrum manni eða samtökum í samanlögðu Bretaveldi að mótmæla því að lögreglan rannsakaði þetta eðlislíka mál og ólíkt vinstri ungliðunum hér, þá fordæmdi ungliðadeild stærsta vinstri flokks í Bretlandi meint athæfi og krafðist þess að lögreglan legði sig alla fram um að hið sanna yrði leitt í ljós og lögum komið yfir blaðamenn, stjórnendur og útgefendur.

Hvað veldur því að viðhorfin til eðlislíkra afbrota eru jafn ólík hjá vitifirrta vinstrinu á Íslandi og vinstri ungliðum í Bretlandi? Hvað þá með Viðreisn? Vilja ungliðar þar sverja sig í fóstbræðralag með vitifirrta vinstrinu?

Ef til vill var það rétt ályktað að hjá Nóbelsskáldinu að skapbrestir þessarar þjóðar sérstaklega vinstri elítunar í landinu gerir það á stundum erfitt að halda uppi lögríki og siðuðu samfélagi. 

 


Ráðast Rússar á Úkraínu á miðvikudaginn?

Bandaríkjamenn halda því fram, að Rússar ætli að gera innrás í Úkraínu á miðvikudaginn og segjast hafa pottþéttar sannanir. Ekki er ljóst hvort þær eru af sama toga og  færðar voru fram í aðdraganda Íraksstíðsins um gereyðingarvopn Saddam Hussein.

Bandaríkin og Evrópa hafa stutt Úkraínu frá því að bylting var gerð gegn sitjandi forseta og súkkulaðibarón var kosinn í hans stað og síðar grínleikarinn sem nú er forseti. Lífskjör eru bág og minnsta þjóðarframleiðsla þeirra fyrrum sovét lýðvelda sem eru í Evrópu e.t.v. með Moldovu sem undantekningu. 

Eftir því sem fleiri þjóðarleiðtogar og utanríkisráðherrar þyrpast til Moskvu til að hitta Pútín gerir hann sér grein fyrir,að varnarsamvinna Evrópuríkja er í molum og fæst ríki eru tilbúin til að færa fórnir. Bandaríkin greiða 75% af kostnaði NATO og Evrópuríkin hafa komið sér hjá að greiða sinn skerf jafnvel þó að varnarviðbúnaður í Evrópu snúi mest að þeim. Mörg þeirra hræðast meira að Rússar skrúfi fyrir gasið til þeirra en innrás í Úkraínu.  

Biden forseti er auk þess ekki andstæðingur sem nokkur óttast. 

Bretar og Frakkar sögðu Þjóðverjum 1939, að innrás í Pólland þýddi stríð við þau. Hitler hafði takmarkaða trú á því. En þá voru menn tilbúnir að berjast gegn einræðinu. 

Vegna yfirvofandi innrásarhættu í Úkraínu að mati Bandaríkjamanna hafa þeir stráð hermönnum vítt og breytt í nágrenni Rússlands, en þeim er ekki ætlað að gera neitt varðandi innrás í Úkraínu. 

Þýskaland var efnahagslegt stórveldi árið 1939 þegar síðari heimstyrjöld hófst, með mikinn mannafla og mikla þjóðarframleiðslu á þess tíma mælikvarða. Staða Rússa í dag er sú, að þjóðarframleiðsla Rússlands er álíka og Malasíu og efnahagur Rússlands er minni en Ítalíu og fólksfjöldinn er álíka og fólksfjöldi Þýskalands og Frakklands til samans og meira en milljón manns fluttu frá Rússlandi árið 2021. Þegar þessar staðreyndir eru skoðaðar hversu líklegt er þá að Rússar geri innrás í Úkraínu og kæmi til þess, hvernig stendur á því að sameinuð Evrópa og Bandaríkin eru ekki tilbúin til að verja landamæri stjórnarinnar í Kíev, sem þeir bjuggu til? 

Nú hafa vestrænir leiðtogar opinberað vanmátt sinn og aumingjahátt og sannfært einræðisöflin í Rússlandi og Kína um að þau þurfi ekki að óttast þó Rússar taki Úkraínu eða Kínverjar Taiwan.  

Það gæti kallað á enn meiri fórnir síðar en þær sem Vesturlönd þurfa að færa nú með því að sýna staðfestu og bjóða á sama tíma Rússa til samvinnu svo sem hefði átt að gera um síðustu aldamót. Það kann aldrei góðri lukku að stýra að reyna að frysta úti stórveldi jafnvel þó það megi muna fífil sinn fegri.

 


Altúnga Fréttablaðsins

Í háðsádeilusögunni Birtingi segir heimspekingurinn Voltaire frá heimspekingnum Altúngu, sem hafði þá bjargföstu lífsskoðun að allt sem gerðist væri af hinu góða. Algóður Guð hefði skapað bestu jörðina. Eftir mikla hrakninga Birtings og Altúngu, þar sem þeir höfðu misst eigur sínar og ástvinir þeirra höfðu mátt þola pyntingar, verið nauðgað og drepnir og Altúnga hafði verið hengdur, krufinn og húflettur m.a.,þá spyr Birtingur hvort honum hafi alltaf fundist að allt væri upp á það besta í veröldinni. Altúnga svarar að hann hafi sömu skoðun og fyrr enda sé hann heimspekingur og sér sæmi ekki að vera tvísaga.

Með sama hætti og Altúnga túlkaði allar hörmungar með þeim hætti að þær væru leið almættisins til einhvers enn betra, þá túlka Altúnguheimspekingar nútímans allt með þeim hætti, að loftslagsbreytingum og hamfarahlýnun sé um að kenna. 

Þessi trúarheimspeki kemur glögglega í ljós í leiðara Fréttablaðsins í dag, þar sem fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins skrifar um þau hörmulegu örlög sem okkar bíða. Ólíkt Altúngu hefur hún enga fótfestu í kristinni hugmyndafræði eins og Altúnga en þeim mun meiri í möntrunni um að allt sem gerist illt í heiminum sé loftslagsbreytingum af mannavöldum að kenna.

Illviðri, stormar, frost og snjókoma er loftslagsbreytingum af mannavöldum að kenna. Gott veður og hlýindi líka. Jafnvel þó að við búum á þeim tímum jarðsögunnar, þar sem öfgar í veðurfari og náttúruhamfarir séu minni en á ýmsum öðrum tímum, þá gildir það ekki og hefur enga merkingu ekki frekar en það þegar Altúnga varð þræll á galeiðu, þá var það af hinu góða. 

Jafnvel þó bent sé á þá staðreynd,að engar meiriháttar breytingar hafi orðið á veðurfari í þau rúmu 30 ár sem baráttan gegn meintri hamfarahlýnun hefur staðið, þá gildir það ekki vegna þess að stórir hópar vísindamanna nærast á að halda öðru fram og þægindastjórnmálamenn nútímans reyna að yfirbjóða hver annan í lýsingum á því illa sem sé um það bil að gerast. Þeir setja síðan lög að skapi ofurauðmanna, sem að sjálfsögðu hafa fundið leið til að græða á þessum nýju trúarbrögðum og kynda undir áróðrinum með mynarlegum fjárframlögum til mismunandi trúfélaga loftslagskirkjunnar. 

Þingmaðurinn fyrrverandi og aðrir sem eru ekki botnfrosnir í loftslagskirkjunni mættu huga að því, að engin spá hamfarahlýnunarpostulanna hefur reynst rétt í þau rúmu 30 ár sem þessi áróður hefur verið. Spádómur Al Gore um íslausan norðurpól árið 2008 hefur ekki gengið eftir og spár Karls Bretaprins um endalokin sem hann hefur framlengt í tvígang hafa heldur ekki gengið eftir. Það er ekkert að gerast í heiminum varðandi loftslag, sem ekki hefur gerst áður eða þarf að óttast. Þó svo að nokkur hlýnun hafi orðið þá er það ekkert umfram það sem áður hefur þekkst. 

Í leiðaranum er vísað til þess, að framámaður frá Kyrrahafseyju stóð með fæturna í bala með vatni á ráðstefnu í Glasgow um meinta hlýnun af mannavöldum og hélt því fram, að við þær aðstæður byggju hann og aðrir. Allt var þetta ómerkileg auglýsingamennska, sem fangaði hug þægindastjórnmálamanna.

Staðreyndin er sú, að sjávarborð hefur hækkað og lækkað á ýmsum tímum jarðsögunnar og nú er það tiltölulega stöðugt og auglýsingamennska sendimannsins var til að fá meiri peninga frá hinum "ríku" Vesturlöndum, þar sem þægindastjórnmálastéttin hamast við að finna leiðir til að draga úr lífsgæðum borgaranna og takmarka möguleika neytenda til að geta veitt sér það, sem við höfum talið sjálfsagða hluti. 

Meðan þægindastjórnmálamennirnir, leiðarahöfundar og fjölmiðlafólk hamast við að þylja bænir um hamfarahlýnun og ofurauðmenn kynda undir með myndarlegum fjárgjöfum, sem skila sér síðan margfalt til þeirra aftur, þá er eðlilegt að ungt fólk verði hrætt og trúi hamfaraboðskapnum. Það er því illa gert og þjóðhagslega fjandsamlegt að þægindastjórnmálamennirnir og fjölmiðlafólkið skuli ekki nenna að kynna sér hvað er raunverulega að gerast til að tala af þekkingu um málin. 

Áfram verður því miður haldið þangað til að neytendur og skattgreiðendur átta sig á því, að það er verið að ræna peningunum þeirra og brenna lífskjör þeirra og fjármuni á altari trúarbragða sem standast ekki, en er haldið við með skefjalausum áróðri ríkishyggjuafla nútíma stjórnmála og ofurauðmanna sem mæta á loftslagsráðstefnur á einkaþotunum til að hamra það inn í almúgann, að allt sé þeim að kenna og þeir megi ekki fara í ferðalög í farþegaflugi vegna þess að það séum við skóflupakkið en ekki forréttindaaðallinn, sem völdum því að heimurinn sé að farast vegna hlýnunar jarðar.

Samt snýst jörðin sem fyrr eins og heiðarlegi vísindamaðurinn sagði eftir að hann hafði verið neyddur til þess af prelátum kaþólsku kirkjunnar til að afneita eigin kenningum. Það gerir hún líka og mun gera. Spurningin er bara hvað mikið af vitlausum ákvörðunum verða teknar vegna þessara trúarbragða, hvað þær muni kosta og hvað þær muni rýra lífskjörin mikið.


Kaupmáttur eykst meðan framleiðsla minnkar

Fjármálaráðherra sagði að kaupmáttur hefði aukist á síðasta ári.Vafalaust er það rétt. En hefur landsframleiðsla ekki dregist verulega saman frá því árið 2019? 

Sé það rétt að framleiðsla hafi minnkað en samt hafi orðið kaupmáttaraukning, er þá skýringarinnar að leita í vaxandi hallarekstri ríkissjóðs?

Ríkissjóður var rekinn með 530 milljarða halla á síðasta ári. Er þá ríkissjóður að borga kaupmáttaraukninguna með hallarekstri?

 


Mun einhver viðurkenna mistök?

Vísindamenn við einn fremsta háskóla í Bandaríkjunum "John Hopkins háskólann í Maryland" í samvinnu við vísindamenn í Danmörku og Svíþjóð hafa komist að þeirri niðurstöðu að samkomutakmarkanir, skólalokanir og aðrar harðar aðgerðir stjórnvalda í baráttunni við Kóvíd höfðu ekki tilætluð áhrif. Niðurstaðan kom vísindamönnunum á óvart, en hún var að e.t.v. hafi harðar aðgerðir stjórnvalda dregið úr dánartíðni um 0.2% í mesta lagi. Þá er ekki tekið með í reikninginn hvað ráðstafanir stjórnvalda ollu mörgum dauðsföllum. En þegar allt er tekið til alls er líklegt að aðgerðirnar hafi ekki bara verið unnar fyrir gýg heldur valdið meira tjóni en ávinningi.

Niðurstaða ofangreindrar rannsóknar sýnir líka að í þjóðfélagi sem býr við hátt menntunarstig og gott upplýsingastig, þá er hægt að treysta fólki til að meta áhættuna og haga sér samkvæmt því. Leið lýðræðis og upplýsinga er fær og það er ekki þörf á að svipta brorgarana grundvallarmannréttindum eins og gert hefur verið.

Í gær mældust fleiri Kóvíd smit á Íslandi en nokkru sinni fyrr, þrátt fyrir ýmsar ráðstafanir stjórnvalda. Frá því í nóvember hefur engu skipt hvort sóttvarnarráðstafanir væru hertar eða slakað á þeim. Smitin eru samt í hæstu hæðum. Sú staðreynd ein og sér sýnir að sóttvarnarstefan ríkisstjórnarinnar er mistök og þessi mistök kostar þjóðfélagið milljarða. Þessi staða rennir auk heldur stöðum undir meginniðurstöðun vísindarannsókna John Hopkins háskóla o.fl.

Vísindamenn og stjórnmálamenn, sem hafa beitt sér fyrir ströngum sóttvarnarráðstöfunum vegna Kóvíd munu rembast við að segja okkur að þetta sé allt saman tóm vitleysa, að þær fórnir sem færðar hafi verið á altari sóttvarnarlæknis og heilbrigðisráðherra í samtaka ríkisstjórn með stjórnarandstöðu, sem krafðist enn harðari ráðstafana, að segja okkur að þrátt fyrir að vísindin segi að þetta hafi allt verið mistök, að þá séu það ekki mistök heldur hafi haft stórkostlega þýðingu. 

Á sama tíma berast fregnir frá Ísrael, sem er leiðandi í bólusetningum og búið að bólusetja flesta með fjórða skammtinum, að dauðsföllum þar fjölgi þrátt fyrir þetta. 

Hver er þá niðurstaðan? 

Gripið var til frelsissviptingar fólks af því að tæknin leyfði það. Þessar frelsissviptingar reynast hafa verið óþarfar, það mátti treysta fólkinu til að gæta sín. Aðgerðirnar hafa kostað gríðarlega fjármuni, sem munu rýra lífskjör á komandi árum og auka fátækt. Engin mun bera ábyrgð á þessum geigvænlegu mistökum.

Þegar allt kemur til alls þá var þetta alltaf spurning um pólitík, en ekki vísindi eins og ritstjóri enska blaðsins "The Spectator" Fraser Nelson segir í grein sinni "The lockdown estapblishment will never accept that its disastrous policy failed". 

Þeir sem hingað til hafa gert hróp að okkur, sem höfum viljað ræða meint vísindi sóttvarnarlæknis og heilbrigðisráðherra og sagt að frjálsar umræður í frjálsu þjóðfélagi væru óvinafagnaður, ættu nú að viðurkenna, að óvinafagnaðurinn er sá mestur þegar stjórnmálastéttin, fjölmiðlaelítan og meintu vísindi þeirra sem ráða með ofurþunga ríkisfjölmiðila og annarra útiloka að eðlileg skoðanaskipti og gagnrýni eigi sér stað. 

 


Kristin ríki sniðganga kristið fólk

Árlega koma tugir og á stundum hundruðir þúsunda svonefndra hælisleitenda til Evrópu. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra eða yfir 90% eru bráðungir karlmenn og enn hærra hlutfall eru múslimar. Er konum í stríðshrjáðum löndum síður hætta búin en strákunum og hvað með þá kristnu?

Ofsóttasti trúarbragðahópurinn er kristið fólk, sérstaklega í löndum Íslam. Þar er það víða guðlast að vera kristinn og liggur við dauðadómur sumstaðar sbr. Afganistan. Ekki að undra að Noregur ætli að styðja öfgamúslimana með fjárgjöfum

Í Írak hefur kristni söfnuðurinn nánast verið þurkaður út og í Sýrlandi hefur kristið fólk mátt sæta mestum ofsóknum allra ásamt Yasídum. 

Það mætti því ætla að gríðarlegur fjöldi kristins fólks væri á flótta frá löndum eins og Sýrlandi og Írak, en meginhluti hælisleitenda hefur komið þaðan undanfarin ár. En svo er ekki. Af þeim svonefndu flóttamönnum, sem Bretland hefur tekið við eru einungis 0.2% kristnir. Sennilega er talan svipuð hjá okkur eða jafnvel enn lægri.

Þessar tölulegu staðreyndir sýna glögglega hvað hælisleitenda pólitíkin er galinn. Langflestir múslimar sem sækja um alþjóðlega vernd eru á Vesturlöndum á fölskum forsendum eins og innrásarlið. Það er engin manngæska fólgin í því að taka á móti þessum hlaupastrákum, þó að "góða fólkið" sem lætur jafnan aðra borga fyrir sig sé þeirrar skoðunar. Það væri hinsvegar nauðsynleg manngæska að taka við kristnu fólki frá Mið-Austurlöndum, sem sætir harðræði og ofsóknum alla daga.

Rauði krossinn sinnir því ekki að gæta að hagsmunum minnihlutahópa. Ef til vill er það ekki hans hlutverk þó að Rauði krossinn hafi í auknum mæli breyst í þjóðmálahreyfingu á síðari árum. Kristið fólk í Mið-Austurlöndum á sér venjulega ekki griðarstað í þeim búðum sem settar eru upp af því að þar býr það við ofsóknir af hálfu múslimana.

Væri ekki meira ráð fyrir Noreg að hafa forgöngu um að kristnar gættu sérstaklega hagsmuna kristins fólks í löndum múslima í stað þess, að henda fjármunum sínum til múslímskra öfgamanna, sem fjandskapast við kristni og vestræna menningu. 

 

 


Brynjar býður sig fram og býður sig ekki fram

Stundum verður maður fyrir vonbrigðum vegna framboðs manna og ekki framboðs. Yfirskrift fréttar að Brynjar Níelsson fyrrum alþingismaður ætlaði að bjóða sig fram fannst mér ánægjuleg og taldi að loks stigi fram þungavigtarmaður í pólitík, til að leiða Sjálfstæðismenn í komandi borgarstjórnarkosningum. 

Vonbrigði mín urðu mikil þegar ég sá að Brynjar var bara að bjóða sig fram til formennsku í Bridgesambandinu. Í sjálfu sér útilokar það ekki,að það verði meira framboð af manninum. 

Ef til vill er Brynjar að vinna í þeim anda sem Leonard Cohen söng um á sínum tíma að breyttum breytanda:

"First we take Manhattan then we take Berlin."


mbl.is Brynjar býður sig fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 196
  • Sl. sólarhring: 835
  • Sl. viku: 4017
  • Frá upphafi: 2427817

Annað

  • Innlit í dag: 183
  • Innlit sl. viku: 3719
  • Gestir í dag: 181
  • IP-tölur í dag: 177

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband