Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2022

Að gera allt fyrir alla á annarra kostnað

Leiðtogaumræðurnar í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi voru fjarri því að vera rismiklar og frambjóðendur kepptust við að lofa því að gera allt fyrir alla á annarra kostnað. Það gekk jafnvel svo langt að jafnvel oddviti Flokks fólksins, sem annars stóð sig einna best í umræðunum, fetaði í spor oddvita sósíalista í að lofa að gera góða hluti fyrir hóp sem er ekki til.

Það minnti á orð Úkraínumannsins og fyrrum aðalritara sovéska Kommúnistaflokksins, Nikita Krúsjeff, sem sagði eftir heimsókn til Bandaríkjanna: "Stjórnmálamenn eru allsstaðar eins, þeir lofa að byggja brú þó engin sé áin."

Oddviti Ábyrgrar framtíðar var sá eini sem minnti á hugmyndafræði Erlings Skjálgssonar, að koma öllum til nokkurs þroska og hjálpa fólki til sjálfshjálpar og á hann þakkir skildar fyrir það.

Að öðru leyti virtust frambjóðendurnir ekki hafa áhyggjur af því að láta framtíðina um að borga fyrir eyðslu Borgarinnar í núinu og því síður vafðist það fyrir þeim, að þeir sem njóta þjónustu Borgarinnar ættu að borga fyrir hana. Það var þó helst oddviti Sjálfstæðisflokksins sem andæfði í því efni.

Ég hef jafnan litið á kjördag, sem ákveðin hátíðisdag og klætt mig uppá þegar ég fer að kjósa. Mér finnst það sjálfsögð virðing við þau mikilvægu lýðréttindi sem kosningarétturinn er. Að þessu sinni var það með öðrum hætti þegar kosið var utan kjörfundar í veðráttu þar sem annar og mun léttari klæðaburður hentar. 

Nú fer í hönd kjördagur. Miklu skiptir að fólk nýti sér sín lýðræðislegu réttindi og kjósi þann flokk sem það telur að sé líklegur til að stjórna Borginni best og byggja upp góða framtíð fyrir unga fólkið og komandi kynslóðir í Borginni. 

Því miður skiluðu leiðtogaumræðurnar í gær fáum vegvísum hvað það varðar.

 


Misvísandi skoðanakannanir

Skoðanakannanir hafa mikil áhrif á hvernig margt fólk kýs. Þessvegna verður að gera kröfu til að skoðanakannanir séu vel unnar, vandaðar og forsendur þeirra gefnar upp. 

Fyrir nokkru birtist skoðanakönnun í Fréttablaðinu, sem var svo sérstök að athygli vakti. Skv. könnuninni voru Píratar næst stærsti flokkurinn í borginni á eftir Samfylkingu og Sjálfstæðisflokkurinn kominn niður í 16% fylgi. Forsendur skoðanakönnunarinnar voru ekki gefnar upp nema það að einungis helmingur aðspurðar höfðu svarað könnuninni. Hvaða gildi hefur slík könnun.

Þessi könnun sýndi það fyrst og fremst að meirihlutaflokkarnir í Reykjavík hefðu svo sterkan meirihluta að ekki þýddi neitt að reyna að fella hann og allt væri á hverfandi hveli hjá Sjálfstæðisflokknum. 

Í gær birtist önnur könnun sem gaf aðra mynd m.a. sýndi sig að lítill munur var á Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu hvað varðar stærsta flokkinn í borginni og niðurstaða þeirrar könnunar mun líklegri til að vera nær sanleikanum en sú fyrri. Fylgi Sjálfstæðisflokksins er rúm 21% skv. þeirri könnun og hafði þá vaxið um 5% á milli kannana sem er fráleitt að hafi gerst. Kannanirnar geta ekki báðar verið réttar þó þær séu teknar með nokkurra daga millibili. 

Síðari könnunin sýnir þá mynd, að því fer fjarri að það sé öruggt að meirihlutaflokkarnir í Reykjavík haldi meirihlutanum að kosningum loknum. Það eru því enn raunhæfir möguleikar á að kjósendur í Reykjavík gefi Degi B. Eggertssyni frí frá því að vera borgarstjóri næstu fjögur árin og nýr og ferskur meirihluti athafna í stað orðagjálfurs núverandi meirihluta taki við að loknum kosningum. 

Það er verk að vinna og herða verður róðurinn til að koma meirihlutaflokkunum frá völdum. Skoðanakannanir eru ekki kosningar. Niðurstaða kosninga liggur ekki fyrir fyrr en síðasta atkvæðið hefur verið talið upp úr síðasta kjörkassanum. 

Áfram nú fyrir betri borg. 


Kannski hræddur við að segja sannleikann.

Deildarstjóri ökuprófa hjá Frumherja greinir frá því í frétt í Fréttablaðinu í dag, að prófdómurum á ökuprófum, sem séu aðallega konur, sé ógnað og þær þurfi að vera með öryggishnappa og kalla hafi þurft á lögreglu vegna ógnana í þeirra garð. 

Deildarstjórinn segist kannski vera hræddur við að segja það, en ógnanirnar stafi að mestu frá útlendingum, sem gengur illa á ökuprófi og komi frá löndum þar sem konur séu settar skör lægri en hér. 

Af hverju er deildarstjórinn hræddur við að segja sannleikann? Vegna þess, að hann veit, að þá á hann á hættu að vera sakaður um rasisma. Þessvegna gætir hann þess líka að segja ekki alveg frá því hverjir beita þessum ógnunum. 

Þegar fréttin er skoðuð nánar verður ekki annað séð, en að þeir sem deildarstjórinn er að tala um, séu þeir sem tala arabísku og koma frá þeim svæðum jarðarinnar þar sem kvennakúgun Íslams er ríkjandi. Deildarstjórinn hefði getað sagt allan sannleikann, en kýs að gera það ekki nema að litlum hluta. Hann veit að það er hættulegt að segja sannleika sem snýr að raunveruleikanum varðandi Íslam.

Allsstaðar í Evrópu forðast yfirvöld að segja sannleikann um þá ógn sem Evrópu stafar af þeirri fornaldarmenningu sem hlaupastrákar frá Íslamska hluta heimsins hafa fært yfir Evrópu.

Í Bretlandi komst upp um svívirðilega glæpi manna sem játa Íslam gagnvart ungum stúlkum í mörgum borgum. Lögreglan lét eins og hún sæi þetta ekki árum saman af ótta við að vera sökuð um rasisma, þó um væri að ræða að ungar stúlkur væru í raun hnepptar í ánauð sem kynlífsþrælar. Þegar hún neyddist loks til að taka á málinu var talað um að glæpamennirnir væru af asísku bergi brotni. Asískubúar? Lögreglan vissi að þetta voru ekki menn af japönsku bergi eða kínversku heldur múslimskir karlmenn, sem koma frá þeim menningarheimi sem deildarstjórinn talar um. 

Sama var þegar fjöldanauðganirnar áttu sér stað í Köln í Þýskalandi á nýársnótt fyrir nokkrum árum. Borgarstjórinn neitaði að þetta hefði átt sér stað, lögreglan neitaði og sjálfur kanslarinn snéri sér undan. En alþýðufjölmiðlarnir höfðu betur þannig að yfirvöld urðu að taka á málinu, en þá var reynt að fela það hverjir þarna voru að verki þ.e. karlmenn frá sama menningarheimi og þeir sem brutu af sér í Bretlandi og ógna nú prófdómendum á ökuprófum á Íslandi. 

Fólk óttast að segja sannleikann, þegar viðurkenndir fjölmiðlar ganga á undan og reyna að fela sannleikann um syni Allah, með öllum ráðum sem og sá furðulegi Mannréttindadómstóll Evrópu, sem taldi rétt að  kona sem var kennari í Austurríki fengi refsingu fyrir að segja skólabörnum sannleikann um spámanninn Múhameð.

Þar birtist sennilega hámark meðvirkninar og afskræmingar mannréttinda sem Mannréttindadómstóll Evrópu hefur talið sér sæmandi að taka undir. Erdogan Tyrkjasoldán fagnaði síðan og sæmdi forseta réttarins orðu fyrir tilþrif dómstólsins.

Aumingjadómi Evrópu verður allt að vopni hvað þetta varðar því miður, en við því verður að bregðast.


Sinna verka njóti hver.

Pólitíkin er svo merkileg tík, að það á síður en svo við að stjórnmálamenn njóti góðra verka sinna eða gjaldi alltaf fyrir lélega stjórnun.Margir stjórnmálamenn gera út á skort á langtímaminni fjölmargra kjósenda og hafa því meira erindi en þeir eiga skilið.

Skv. skoðanakönnun í Fréttablaðinu í dag telur þriðjungur kjósenda sitjandi borgarstjóra besta valkostinn. Ekki skal um það tælt hvort þar fara þeir sem hafa minna langtímaminni en aðrir og hafa því gleymt ástandi gatna á kjörtímabilinu. Spillinguna í kringum Braggann í Nauthólsvík og dönsku stráin í kringum hann, sem og bruðlið og bullið í kringum stafrænu lausnirnar, sem eru engar lausnir enn sem komið er o.s.frv. o.s.frv. 

Sumir gætu talið það sigur fyrir sitjandi borgarstjóra að 34% aðspurðra telji hann vænlegasta kostinn. En þá eru það þá 66% borgarbúa eða tæplega 7 af hverjum tíu, sem telja hann ekki vera það. Slíkt getur tæpast talist góður árangur og ansi langt frá því þegar Davíð Oddsson fékk á sínum tíma fylgi yfir 60% borgarbúa. Í samanburðinum er árangur Dags arfaslakur. 

En þó Dagur gjaldi ekki verka sinna þá eru aðrir sem njóta ekki góðra verka sinna í andstöðunni og er þar helst að nefna Kolbrúnu Baldursdóttur í Flokki fólksins sem hefur staðið sig afburða vel á kjörtímabilinu eins og raunar Vigdís Hauksdóttir í Miðflokknum og oddviti Sjálfstæðismanna Eyþór Arnalds.  

Verður það virkilega svo, að Píratar og Viðreisn gjaldi ekki fyrir að hafa staðið dyggan vörð um öll vondu málin hjá Degi og afsakað þau í bak og fyrir jafnvel þó að Dagur færi í veikindafrí af því að hann treysti sér ekki til að svara fyrir sig. Dagur sýndi það þó í þeim tilvikum, að hann kunni að skammast sín en það gerðu hvorki oddvitar Pírata né Viðreisnar. Er ekki rétt að þeir flokkar fái að gjalda þeirra verka sinna þar sem oddvitar þeirra kunna ekki að bíta höfuðið af skömminni.

Hvernig væri að rifja það upp hvernig Píratar og Viðreisn hafa staðið sig á kjörtímabilinu. Væri ekki rétt að láta þá flokka gjalda verka sinna á kjörtímabilinu.

 

 


Sparnaður og eyða ekki um efni fram

Í Morgunblaðinu í gær var viðtal við unga konu, sem lýsti því hvernig hún og fjölskylda hennar hefði brotist út úr skuldafeni og yfirvofandi gjaldþroti. Gott og upplýsandi viðtal og rétt að óska henni og fjölskyldunni til hamingju.

Aðferðin sem unga konan lýsti undir stofnanalegu ensku nafni er það sem hefur verið kallað á íslensku, að eyða ekki um efni  fram, spara og sýna ráðdeildarsemi. Betra væri að fleiri fetuðu í hennar spor.

Á laugardaginn verður kosið til sveitarstjórna. Samkvæmt úttekt sem Viðskiptaráð hefur tekið saman og birtist í Mbl. í dag kemur fram, að viðvarandi halli hefur verið á rekstri sveitarfélaga á Íslandi í nærfellt 40 ár. Þetta er þrátt fyrir að sveitarfélögin taki hærri gjöld af fasteignum en í nágrannalöndunum. Sveitarfélögin eyða um efni fram og fjármál margra þeirra þ.á.m. Reykjavíkur er að komast í algjört óefni. 

Þrátt fyrir bágan fjárhag sveitarfélaga, þá verður þess ekki vart, að þeir sem gefa nú kost á sér til kjörs í kosningunum, flokkar og einstaklingar, hafi áhyggjur af vaxandi skuldasöfnun.  Kosningaloforðin bera með sér að hver reynir að yfirbjóða hinn í algjöru ábyrgðarleysi. 

Lofað er auknum framlögum. Gjaldfrjálsri þjónustu. Lofað er byggingu þúsunda íbúða eins og Framsókn gerir. VG vill ókeypis skólamáltíðir og leikskóla auk þess sem Reykjavíkurborg byggi 500 til 1000 óhagnaðardrifnar íbúðir.  Öll þessi kosningaloforð eru innantóm glamuryrði og verða aldrei framkvæmd og það versta er að það vita þeir sem setja þau fram. Óheiðarleiki?

Einn versti veikleiki lýðræðisins felst í yfirboðum stjórnmálamanna til kjósenda. Þau miða öll að því að auka útgjöldin jafnvel þó engir séu til peningarnir. Það þýðir á endanum gjaldþrot. Saga Rómaveldis ætti að vera víti til varnaðar hvað varðar kaup stjórnmálamanna á fylgi fjöldans. En nú eins og þá stefna bæði ríki og sveitarfélög lóðbeint til andskotans eins og vaskur stjórnmálamaður sagði forðum. 

Vinsælt loforð hjá stjórnmálaflokkunum í Reykjavík og víðar er að bjóða ókeypis þjónustu - sem þýðir að láta aðra sem ekki njóta þjónustunar borga fyrir þá sem nýta hana. Réttlæti? Sanngirni? Sé svo þá réttlæti og sanngirni hverra?

Nú sem aldrei fyrr þarf Reykjavíkurborg að taka upp hagfræði ungu konunnar sem vísað var til áðan og eyða ekki um efni fram og sýna fram á sparnað og ráðdeildarsemi. Það er áhyggjuefni að stjórnmálaflokkarnir sem bjóða fram í borginni og þá sérstaklega meirihlutaflokkarnir og Framsókn skuli ekki átta sig á þeirri stöðu og vilja halda partýinu áfram af fullum krafti og jafnvel gefa í. Það heitir á óbreyttu alþýðumáli:

"Algjört ábyrgðarleysi."

Af hverju býður enginn stjórnmálaflokkur upp á ráðdeild og sparnað í borgarrekstri þ.e. leið ungu konunnar sem bjargaði fjölskyldu sinni frá gjaldþroti. Það væri mannsbragur að því.


Bölvað bensínið

Sá vinstri sinnaði sveimhugi sem er í hvað mestum metum meðal Samfylkingar- VG og Pírataarms þjóðarinnar, segir að það eigi að banna að auglýsa bensín og raunar ættum við að vera hætt að nota það fyrir löngu. Allt er þetta í samræmi við alræðishyggju þeirra sem telja sig hafa leyst lífsgátuna fyrir löngu og telja skyldu sína að sjá til þess að borgararnir geri eins og þeir segja þeim til að koma í veg fyrir að það hlýni á Íslandi.

Bíllaus lífsstíll er það sem vinstri meirihlutinn í Reykjavík telur vera það besta af öllu því góða sem hægt er að bjóða upp á í samgöngumálum  ásamt Borgarlínunni. Þrátt fyrir að að lítill hluti fólks ferðist með almannasamgöngum í Reykjavík og kannanir sýni, að einungis mjög lítill hluti borgarbúa hefur áhuga á því hvað svo sem Borgarlínu varðar. Borgarlínu skal samt troðið upp á fólk með illu ef ekki tekst með góðu og það skal látið borga fyrir það.

Ekki hefur dugað að þrengja götur, fækka bílastæðum og loka götum fyrir umferð og þess vegna verður að grípa til róttækari hluta til að markmiðinu verði náð að allir borgarbúar verði neyddir til að hjóla á eftir Degi B. og Gísla Marteini í unaðsríkri halarófu þeirra sem einir vita hvað er best fyrir fólkið í borginni og er undirstaða hamingju í borgarsamfélagi. 

En það búa ekki allir í 101 Reykjavík og sumir þurfa að aka börnum sínum margra kílómetra leið á ýmsum tímum dagsins í misjöfnum veðrum. Það yrði heldur betur lífsskjaraskerðing fyrir þennan stóra hóp borgaranna ef þeir verða í auknari mæli neyddir til að taka þátt í þeirri alræðishyggju vinstri lofslagssérfræðinga eins og Andra Snæs Magnússonar að neyðast til að taka sér opinberan ferðamáta Dags sér til fyrirmyndar. 

Samt sem áður þó reiðhjólið sé prísað, þá er samt til sérstök bifreið borgarstjóra, sem hefur stundum ekið á eftir borgarstjóranum á reiðhjólinu og tekið hann upp í þegar vel hentar. Þrátt fyrir siðaboðskapinn þá gildir það hjá Degi með sama hætti og Boris og Keith Starmer, að þó skyldurnar sem þeir setja á borgaranna eða leggja til, að þá skuli samt gilda aðrar reglur fyrir þá. 

Eða eins og George Orwell sagði í Animal Farm: Sum dýrin eru jafnari en önnur. 

Er ekki best að kjósa allt annað en Samfylkinguna, VG, Pírata og Viðreisn á laugardaginn kemur.

 


"Snillingurinn"

Borgarstjórinn í Reykjavík Dagur B.Eggertsson hefur sýnt af sér meiri snilli við að halda völlum en nokkur annar íslenskur stjórnmálamaður sennilega fyrr og síðar. 

Völd hans í Borginni byggjast m.a.að hilla til sín villuráfandi Framsóknarmann, taka skemmtikraftinn sem fékk á sínum tíma fylgi í borgarstjórnarkosningum, í fangið og gera hann að borgarstjóra, þó að Dagur stýrði  öllu og réði öllu. Nema e.t.v. litnum á kjól skemmtikraftsins í gleðigöngum þess tíma.

Þrátt fyrir stöðugt minnkandi fylgi við Dag í kosningum, þar sem flokkur hans hefur beðið hvert afhroðið á fætur öðru, þá hefur Degi alltaf tekist að koma skríðandi úr brunarústum Samfylkingar og fá til liðs við sig nýja flokka til að halda völdum. 

Slíkur línudans og pólitísk ástaratlot sem borgarstjóri hefur sýnt þeim sem hann þarf að eiga vingott við til að halda völdum hefur að sjálfsögðu kostað sitt en þann kostnað greiða borgarbúar en ekki Dagur sbr. aukin launakostnað borgarstjórnar síðast til að ná Vinstri grænum um borð. 

Þó Dagur hafi sýnt af sér mandaríska snilld við að halda völdum, hefur snilldin ekki verið sú sama við að stjórna borginni. Fjárhagsleg staða Borgarinnar er hræðileg, viðhald gatna er fyrir neðan allar hellur, hreinsun gatna og gangstíga er óviðunandi. Reykjavík  Dags B. Eggertssonar er borg þar sem svifryksmengun er iðulega yfir hættumörkum og veldur dauðsföllum í borg sem telur rétt rúm 100 þúsund íbúa. 

Vegna pólitískrar bábilju og tískustrauma reynt að ráða því með hvaða hætti fólk fer á milli staða. Stefna Dagsmeirihlutans í samgöngumálum og fleiri málum byggir á alræðishugmyndum og fyrirlitningu á venjulegu vinnandi fólki og getu þess til að taka eigin ákvarðanir.

Getur virkilega einhver nema innvígður og innmúaður Pírati, VG. Viðreisn eða Samfylkging greitt þeim flokkum atkvæði sem stóðu að braggaruglinu í Nauthólsvík. Þar kom í ljós algjör  óstjórn, spilling og ill meðferð á almannafé. Það er þó bara toppurinn á  stóra borgarísjaka spillingarinnar. 

"Snillingur" eins  og Dagur getur ekki haldið pólitískum loftfimleikum sínum áfram nema aðrir séu tilbúnir til að taka þátt í loddaraleiknum með honum. Á það geta Reykvíkingar ekki látið reyna enn einu sinni. Meirihlutaflokkana í borgarstjórn er því ekki hægt að kjósa.

Atkvæði greitt Samfylkingu, VG, Pírötum og Viðreisn í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík er atkvæði greitt með áframhaldandi spillingu, áframhaldandi fjármálalegri óstjórn, áframhaldandi afskiptum af því hvernig borgararnir ferðast og áframhaldandi loftmengun auk ýmiss annars. 

Dönsku stráin við braggan í Nauthólsvíkinni þó ekki væru annað ættu að vera nóg til að kjósendur höfnuðu algerlega Samfylkingu, VG,Pírötum og að ógleymdri nýjustu hækjunni Viðreisn.


Frelsisborgararnir taka sinn tíma

Hélt að fyrirliðinn þyrfti allaf að vera inni á vellinum og ötulastur allra. Þannig var það í minni heimasveit í gamla daga.

En nýju fólki fylgja nýir siðir. 

Vonandi kemst Sjálfstæðisflokkurinn í borgarstjórn Reykjavíkur  að því áður en kosningabaráttunni lýkur  að helsta erindi hans er að berjast gegn sitjandi borgarstjóra  og  spillingu meirihlutans. Af nógu er að taka en ég sé það því miður ekki í málflutningi frambjóðenda Flokksins. Væri þá ekki ráð að taka til hendinni ekki síðar en þegar í stað.  


mbl.is Ekki mætt á borgarstjórnarfundi í tvo og hálfan mánuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svefngenglar

Fyrir nokkrum árum las ég frábæra bók sem heitir "Sleepwalkers" eða svefngenglar og fjallar um sofandahátt stjórnmálamanna Evrópu, sem leiddi til fyrri heimstyrjaldar. Síðari heimstyrjöld snérist í raun ekki um neitt, en sumar þjóðir sáu sér leik á borði til landvinninga. Í aðdraganda stríðsins reyndu Frakkar að fiska í gruggugu vatni og gera vonda hluti enn verri og Bretar léku ekki bara tveim skjöldum heldur miklu fleiri og bera að mínu mati mesta ábyrgð á því hvernig fór. 

Sagan af fyrirhyggjuleysi og heimsku stjórnmálamanna í Evrópu í aðdraganda fyrri heimstyrjaldar, sem leiddi til þess að milljónum ungra manna var fórnað í skotgröfum eða við að murka lífið hvor úr öðrum í algjöru tilgansleysi. Þessi saga ætti að vera stjórnmálamönnum allra tíma lærdómur þannig að þeir gættu þess að ná fram friði í stað þess að magna ófrið. 

Stríð hefur geisað milli Úkraínumanna og Rússa í rúman mánuð. Taka má undir fordæmingu á innrás Rússa í Úkraínu, en sú er staðan og Vesturlönd verða að kappkosta að koma á friði í stað þess að gera þessa styrjöld að okkar styrjöld, en það mundi leiða til enn meiri hörmunga en þurfa að vera. 

Hingað til hafa vestrænir stjórnmálamenn sent gríðarlegt magn vopna og fjármuna til Úkraínu og þar eru ekki eingöngu varnarvopn. Þá hafa þeir reynt að niðurlægja Rússa og útiloka þá með öllum hætti. Það er fjarri því að vera skynsamlegt hafi menn vilja til að koma á friði. Því miður virðast ýmsir vestrænir stjórnmálamenn m.a.Bandaríkjaforseti ekki hafa áhuga á því heldur frekar að niðurlægja og lítillækka Rússa á allan hátt og valda þeim sem mestu tjóni. Biden er dæmigerður "Sleepwalker". Sama virðist vera með utanríkisráðherra Breta.

Utanríkisráðherra Breta, Lis Truss hefur gengið skrefinu lengra en Biden og lýst því yfir í vikunni í ræðu að stríðið í Úkraínu sé okkar stríð en hún sagði: 

The war in Ukraine is our war – it is everyone’s war... because Ukraine’s victory is a strategic imperative for all of us. -- "We will keep going further and faster to push Russia out of the whole of Ukraine."

(Stríðið í Úkraínu er okkar stríð- það er stríð allra af því að sigur Úkraínu er hernaðarlega bráðnauðsynlegt. Við munum ganga harðar fram til að ýta Rússlandi út úr allri Úkraínu)

Er utanríkisráðherra Breta að lýsa stefnu Vesturlanda með þessum orðum? Hvað skyldi NATO-mála ráðherra Íslands Katrín Jakobsdóttir segja um þessi orð breska utanríkisráðherrans. Er Úkraínustríðið okkar stríð? Viljum við standa að því að ýta Rússum út úr allri Úkraínu. 

Hafa verður í huga að Vesturlönd hafa aldrei viðurkennt yfirtöku Rússa á Krímskaganum. Yfirlýsing utanríkisráðherra Breta felur þá í sér að það sé markmiðið með aðgerðum Vesturlanda að Úkraínumenn fái aftur full yfirráð yfir Krím. 

Þessi ummæli utanríkisráðherra Breta sem talar fyrir ríkisstjórn Breta eru í raun ekkert annað, en yfirlýsing um að Bretland og þá sennilega Vesturlönd séu í raun komin óbeint í stríð við Rússland. Viljum við það. Er það okkar hagur. Til hvers getur það leitt? Þú sigrar ekki kjarnorkuveldi nema með gríðarlegum fórnum þessvegna dauða hundraða milljóna manna. Það er stutt í að óbeint stríð hernarðarvelda verði beint stríð eins og sannaðist bæði í fyrri og síðari heimstyrjöld.

Það er því forgangsatriði að koma þeim svefngenglum frá sem nú ráða ferðinni á Vesturlöndum og mæla fyrir stigmögnun á ófriðinum. Vesturlönd verða að einhenda sér í að koma á vopnahléi strax og friðarsamning í kjölfarið.

Annað er algjört óráð og glópska. 

 


« Fyrri síða

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 57
  • Sl. sólarhring: 133
  • Sl. viku: 4293
  • Frá upphafi: 2291312

Annað

  • Innlit í dag: 48
  • Innlit sl. viku: 3954
  • Gestir í dag: 44
  • IP-tölur í dag: 41

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband