Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2023

Kynjaveröld fáránleikans

Ríkisstjórn Bretlands hefur fyrirskipað óháða rannsókn á kynfræðslu í skólum. Ákvörðunin kemur í kjölfar mótmæla foreldra grunnskólabarna.

Foreldrar í Bretlandi átta sig á,að kynfræðsla barnanna þeirra er í viðjum trans kynjafræðinnar. Ókynþroska börnum er m.a. kennt,að útlit þeirra sýni ekki endilega hvers kyn þau eru. Barn með tippi sé ekki endilega strákur. Stelpum er færður sami "fagnaðarboðskapur" að breyttum breytanda.

Börnin koma heim uppfull af rugli eftir að hafa verið neydd til að læra þetta rugl. Þeim er m.a. sagt, að þau geti sjálf ákveðið kyn sitt og foreldrunum komi það ekki við. Raunar er það rétt miðað við kynlífslög Katrínar Jakobsdóttur, um kynrænt sjálfræði, sem allur þingheimur greiddi atkvæði með, að íslensk börn frá 15 ára aldri, geta tekið ákvörðun um það án lífræðilegrar skoðunar eða samþykkis foreldra að ákveða kyn sitt þvert á líffræðilegan raunveruleika.

Það verður að koma í veg fyrir að svona bulli sé haldið að börnum. Kynin eru bara tvö, en í kynjafræðinni fær barnið ákúrur fyrir að þekkja ekki meira en a.m.k. 30 kyn.

Í bókinni "False alarm" segir Björn Lomborg frá  óttastjórnun fjölmiðlaelítunar, gervivísindaelítunar og stjórnmálaelítunar sem hefur leitt til þess, að meirihluti skólabarna í Evrópu og Bandaríkjunum séu svo óttaslegin vegna hlýnunar jarðar að þau telji að heimsendir vegna þess verði innan 10 ára og 42% séu sakbitin vegna þess sem þau og foreldrar þeirra hafa gert.

Sama á nú við um kynjafræðina,þar sem reynt er að koma hugmyndum brengluðum hugmyndum inn hjá börnum um kynlíf á forsendum transsamfélagsins.  Gegn þessu verður að bregðast. Annars  mun það valda stórum hópum barna og unglinga miklum þjáningum og leiðindum á komandi árum. 

Þegar vikið er frá skynsemi og rökhugsun, þá vísar fólk því á bug og jafnvel hlæra að ruglinu. Þegar rangfærslurnar og ruglið er endurtekið í sífellu og engin er til andsvara, þá fara vondir hlutir að gerast og hrekklausar sálir barnanna okkar verða fyrir óbætanlegu tjóni. 

Okkur ber að standa vörð um eðlileg gildi mannlegs lífs og staðreyndir lífins og við eigum að koma í veg fyrir að börnin okkar verði fórnarlömb  fáránleikans. Það er mikið í húfi.


Ys og þys út af engu.

Fjórflokkur fáránlegra tiltækja á Alþingi, Píratar, Viðreisn og Flokkur fólksins standa að kjánalegri aðför að dómsmálaráðherra út af lítilfjörlegu máli. 

Guðfaðir aðfararinnar er hugmyndafræðingur og andlegur leiðtogi Viðreisnar, Sigmar Guðmundsson. Hann hefur enda hæfileika og langtíma reynslu í að búa til ekki fréttir og fréttir úr engu og nýtir þá reynslu nú á Alþingi. 

Vantrauststillagan er á grundvelli meintrar vanrækslu við upplýsingagjöf um umsóknir um ríkisborgararétt, vegna breyttra reglna sem dómsmálaráðuneytið beitti sér fyrir til að fara að tilmælum umboðsmanns Alþingis á sínum tíma.

Þessi fjórflokkur fáránleikans hefur það helst á stefnuskrá sinni að skipta um þjóð í landinu, að Flokki fólksins undanskildum. Vera þess flokks í þessu násamneyti byggist á þeirri skoðun formanns flokksins, að hanng geti verið eins og púkinn á fjósbitanum og fitnað við það að stríða ríkisstjórninni jafnvel þó engar málefnalegar forsendur séu fyrir hendi.

Sú var tíðin að menn sögðu, að við værum ekki með nógu góða þingmenn, vegna þess hve þeir væru illa launaðir. Það hefur heldur betur breyst, en þinginu hrakar samt ef eitthvað er.

Þjóðin á rétt á því að þingmenn taki störf sín alvarlega og vinni að hagsmunum þjóðarinnar, en standi ekki að stöðugum uppákomum og sýndarveruleika út af engu. 

Þó svo að hugmyndafræðingur Viðreisnar telji sig eiga harma að hefna eftir hraklega útreið í umræðum um Útlendingafrumvarpið, þá getur það ekki verið afsökun fyrir því að bera fram vantrausttillögu á dómsmálaráðherra. 

 

 


Aumasti gróðurinn ekki það er, sem ormarnir helst vilja naga.

Fjórflokkur læpuskaparins, Pírtar, Samfylking, Flokkur Fólksins og Viðreisn flytja saman vantrauststillögu á dómsmálaráðherra, eftir að honum tókst með þrautseigju, að koma örlitlu meira skikki á bullið í hælisleitendamálunum. 

Raunar má þessi fjórflokkur hugsa sinn gang þar sem í ljós hefur komið í skoðanakönnun nýverið að einungis 17% aðspurðra voru óánægðir með frumvarpið, en inni í þeim hóp er fólk eins og ég sem telur það ganga allt of skammt til varnar hagsmunum lands og þjóðar.

En þar sem Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra tókst með harðfylgi, að koma þessu máli í gegn, skal allt reynt til að bola honum frá og nú er flutt sérstök vantrauststillaga gegn honum. 

Hefur Jón Gunnarsson staðið sig illa í starfi sínu sem dómsmálaráðherra? Fjarri fer því. Jón Gunnarsson hefur þvert á móti staðið sig afbragðs vel. Af hverju þá að bera fram vantrauststllögu gegn afkastamesta og einum traustasta ráðherra ríkisstjórnarinnar? 

Afstaða Viðreisnar, Pírata og Samfylkingar er skiljanleg af því að Jón hefur staðið sig vel og barist gegn opnum landamærum, sem þessir flokkar hafa gert að inntaki stefnu sinnar. 

Afstaða Flokks fólksins er hinsvegar óskiljanleg. Vill sá flokkur endanlega segja sig í sveit með þeim sem vilja opin landamæri? Fari svo, að flokkurinn standi að þessari vantrauststillögu, þá er það yfirlýsing þess efnis. 

Nú er brýnt, að samflokksmenn Jóns standi gegn þessu rugli og geri samstarfsflokkum sínum grein fyrir því, að verði þessi rugl vantrauststillaga ekki felld, þá feli það í sér endalok þessarar ríkisstjórnar.

Hér gildir hið fornkveðna sem Hannes Hafstein fyrsti ráðherra Íslands kvað í upphafi síðustu aldar: 

Taktu ekki níðróginn nærri þér,

það næsta gömul er saga.

Að lakasti gróðurinn ekki það er,

sem ormarnir helst vilja naga.


mbl.is „Grafalvarlegt brot gegn þinginu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðin skal skattlögð út úr verðbólgunni

Forsætisráðherra tilkynnti í gær, að ríkisstjórnin ætlaði að hækka skatta til að vinna gegn verðbólgu. Tvennt er athyglisvert við þessa yfirlýsingu Katrínar Jakobsdóttur.

Í fyrsta lagi er óeðlilegt að völdin séu tekin af fjármálaráðherra og forsætisráðherra tilkynni um væntanlegar aðgerðir í ríkisfjármálum.

Í öðru lagi gengst ríkisstjórnin með þessu í fyrsta sinn við ábyrgð sinni á heildarefnahagsstjórn í landinu. Hingað til hefur virst sem þar á bæ í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í Reykjavík, hafi sú skoðun verið uppi að verðbólga væri alfarið á ábyrgð Seðlabankastjóra og honum að kenna.

Fyrir 3 mánuðum samþykkti Alþingi fjárlög. Nú boðar forsætisráðherra breytingar á þessum nýsamþykktu lögum. 

Ríkisstjórnin hækkaði ýmis þjónustugjöld og neysluskatta við afgreiðslu fjárlaga. Þær aðgerðir voru olía á verðbólgueldinn.  Vonandi vegur ríkisstjórnin ekki enn og aftur í þann knérunn. Þá væri jafnað metin við það þegar Bakkabræður báru inn sólarljósið. 

Sú stefna sem forsætisráðherra kynnti í gær var sú að skattleggja ætti þjóðina út úr verðbólgunni. Allt byggist það á þeim sjónarmiðum, að ríkisvaldið kunni betur með fé að fara en einstaklingarnir, fólkið í landinu. 

Fróðlegt verður að sjá hvernig formaður Sjálfstæðisflokksins finnur hugmyndafræðilegan farveg þess að háskattastefna út úr efnahagsvanda, sé einmitt það sem Sjálfstæðisflokkurinn eigi að berjast fyrir og með því verði einstaklingsfrelsið og athafnafrelsið best tryggt.  

Fólkið í landinu, sem á erfitt með að ná endum saman í vaxandi verðbólgu hlítur að velta því fyrir sér líka hvort þetta bjargráð ríkisstjórnarinnar um aukna skattheimtu sé líkleg til að skapa velferð og velmegun í landinu. 

 

 


Neytendabarátta í 70 ár

Neytendasamtökin eru 70 ára gömul baráttusamtök fyrir bættum hag neytenda. Barátta Neytendasamtakanna mótast af þeim þjóðfélagsaðstæðum sem við búum við hverju sinni. Samt eru alltaf ákveðnir hlutir sem breytast ekki. Það þarf að gæta að því að samkeppni sé virk og vöruvöndun og verðlag sé eðlilegt. 

Það voru tímamót í baráttu neytenda þegar John F.Kennedy þáverandi Bandaríkjaforseti hélt ræðu á Bandaríkjaþingi árið 1962 og sagði þá: 

"Við erum öll neytendur. Þeir eru stærsti hagsmunahópurinn í landinu og þeir hafa áhirf á og verða fyrir áhrifum af næstum sérhverri efnahagsákvörðun opinberra aðila og einkaaðila. En þeir eru eini stóri hópurinn í efnahagslífi okkar, sem ekki getur komið fram sjónarmiðum sínum. Réttur neytenda felur í sér þessi atriði: Réttinn til öryggis. Réttinn til upplýsingar. Réttinn til að velja. Réttinn til að hlustað sé á sjónarmið þeirra."

Víða um heim hafa neytendur ekki enn náð fyrsta markmiðinu, en í okkar heimshluta hefur orðið mjög jákvæð þróun til hagsbóta fyrir neytendur. 

Fyrir um hálfri öld hóf ég starf í Neytendasamtökunum. Ástæða þess var raunar nokkuð skondinn. Ágætur vinur minn og mikill vinstri maður taldi nauðsynlegt að allt pólitíska litrófið ætti sér málsvara innan Neytendasamtakanna og fékk mig til starfa í samtökunum. Mér fannst þessi barátta bæði mikilvæg og nauðsynleg og enn frekar eftir því sem árin liðu. 

Ég var formaður Neytendasamtakanna þegar samtökin áttu 30 ára afmæli. Þá var aðstaða neytenda önnur en nú. Víðtæk ríkiseinokun var til staðar og ríkiseinokunarfyrirtækin voru oft í fararbroddi þeirra fyrirtækja, sem neytendur þurftu að eiga viðskipti við, sem tóku lítið tillit til óska og krafna neytenda. Síbrotafyrirtæki ríksins eins og við kölluðum það á þeim tíma tóku mikinn tíma í neytendastarfi. 

Á þeim tíma vantaði líka nánast alla löggjöf til að standa vörð um hagsmuni neyenda og eðlilegar umferðarreglur í viðskiptalífinu með tilliti til neytenda. Við borðumst í áratugi fyrir að ná fram sama lagaumhverfi og annarsstaðar í Evrópu, en tregðulögmál íslenskra stjórnmála og varðstaða um hagsmuni einokunarfyirtækja gerði þá baráttu erfiða. 

Það var ekki fyrr en við gengum í Evrópusambandið, sem að augu íslenskra stjórnmálamanna opnuðust fyrir því, að allt sem við höfðum sagt og barist fyrir var rétt og við höfðum dregist aftur úr á sviði varðstöðu um hagsmuni neytenda. 

Eitt lítið dæmi má nefna. Við börðumst fyrir því að sett yrði löggjöf um greiðsluaðlögun í tæp 30 ár áður en sú löggjöf varð að veruleika og þá í hruninu sem neyðarlöggjöf. Hefði verið hlustað á okkur á þeim tíma, hefði staðan verið betri og við betur undirbúin til að takast á við hamfarir hrunsins. 

Við þurftum að berjast fyrir mannsæmandi viðskiptaháttum varðandi landbúnaðarafurðir m.a. eina algengustu neysluvöruna, kartöflur, en netyendum var iðulega boðið upp á óæta og heilsuspillandi vöru þ.á.m. kartöflur og það þýddi ekkert að eiga við stjórnvöld. Þau stóðu með einokunarfyrirtækinu gegn neytendum. En svo fór að með samtakamætti höfðu neytendur sigur. 

Því miður hafa Neytendasamtökin ekki náð því að íslenskur lánamarkaður yrði sambærilegur og hann er í okkar nágrannalöndum. En þar er um áratugabaráttu að ræða. Sigur mun vinnast í því líka. En því miður hefur það gengið allt of hægt. 

Samtökin hafa eflst og dafnað. Að sjálfsögðu eru hæðir og lægðir í félagsstarfi frjálsra félagasamtaka og nú virðist vel staðið að málum í Neytendasamtökunum. Það eru hagsmunir íslenskra neytenda og meginforsenda öflugra samtaka er að sem flestir gerist félagar í Neytendasamtökunum. 

Neytendabarátta er spurning um mátt fjöldans til að gæta hagsmuna sinna og réttinda. Við skulum berjast fyrir þeim rétti hvar í flokki sem við stöndum. Því þó að neytendabarátta sé pólitísk barátta þá gengur hún þvert á flokkakerfið og við eigum öll að taka höndum saman um baráttu fyrir þessa hagsmuni okkar allra íslenskir neytendur. 


Við trúum ekki á draugasögur

Á mánudaginn kom út nýjasta skýrslan frá IPCC (loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna(SÞ) þar er sama svartagallsrausið og í skýrslum nefndarinnar síðustu áratugina. Nema hvað spárnar verða alltaf ýktari og hatrammari.

Það er bara mínúta til miðnættis. Klukkan gengur hratt. Tíminn er að renna frá okkur og það eru bara örfá ár sem við höfum til að bjarga jörðinni. Allt þekkt stef alla þessa öld og kór fyrirólks með Karl Bretakóng og Guterres,komma,framkvæmdastjóra SÞ sem forsöngvara kyrjar stefið um ógnar-og hamfarahlýnunina sem aldrei fyrr.

Sænska þjóðkirkjan tekur undir og bendir á Grétu Túnberg, sem spámann, sem allir eigi að trúa á. Ekki merkilegt að kristni skuli vera á hröðu undanhaldi í Svíþjóð og kirkjur tómar þegar kirkjan hefur snúið baki við Jesú, en fundið spámanninn Grétu.

Kolefnishlutleysi er sjálfstæð hugmyndafræði, sem stjórnmálamenn í Evrópu kyrja nánast í einum kór ásamt hefðbundnum fjölmiðlum. Á grundvelli þeirrar hugmyndafræði skal eyða gríðarlegum verðmætum og standa fyrir ríkisvæðingu í meira mæli en nokkru sinni fyrr.

Hvað eigum við að kalla þessa ríkisvæðingu. Er nokkuð betra orð en sósíalismi? En hægri flokkar í Evrópu þ.á.m. Íslandi ef það er þá til hægri flokkur í þvísa landi hamast við að afneita kapítalismanum en telja að með víðtækri skattlagningu á almenning og tuga milljarða styrkveitinga til þóknanlegra fyrirtækja verði hægt að ganga inn í fyrirheitna land kolefnishlutleysisins.

Hvernig skyldi standa á því að stjórnmálamenn Evrópu og Bandaríkjanna skuli ætla að eyða trilljónum Evra á altari þessarar hugmyndafræði í stað þess að leyfa einkarekstrinum að spreyta sig við að koma á nýungum hvað þetta varðar svo efnahagskerfið fari ekki algjörlega úr skorðum.

Markmið loftslagsnefndar SÞ, hefðbundinna stjórnmálamanna og meginstraums fjölmiðla er að kynda undir ótta fólks við afleiðingar meintrar hlýnunar andrúmsloftsins og koma með nýar skýrslur og nefndarálit til að stuðla að enn meiri inngripum ríkisvaldsins og auknum útgjöldum þess.

Markmiðið með framtíðarspám loftslagsnefnar SÞ er þetta:

1. Að auk á ótta fólks við hamfarahlýnun og heimsendi.

2. Að nauðsynlegt sé að koma í veg fyrir eitthvað hræðilegt og óbætanlegt með meinlæta- lifnaði venjulegs fólks, meðan nomen klaturan (hin nýja stétt) auðmanna og kónga og stjórnmálamanna fer sínu fram á einkaþotunum sínum og með öðrum hætti.

3. Tryggja að ríkisvædd möppudýr samtíðarinnar og stjórnmálaelítan taki undir og máli ástandið sem hræðilegt og hættulegt í samræmi við heimsendaspár.

4. Hægt sé að laga hið slæma ástand loftslagsmála aðeins með enn meiri ríkisrekstri og eyðslu hins opinbera.

5. Að einkafyrirtækin geti ekki ráðið við verkefni á sviði loftslagsmála nema þau séu sérstaklega valin af ríkisvaldinu og þiggi styrk frá því á grunvelli grænna sjónarmiða.

Hvað sem svartagallsrausinu líður, þá hafa orðið mjög jákvæðar framfarir á ýmsum sviðum við að gera jörðina hreinni og draga úr mengun einkum í okkar heimshluta. Þar hefur einkaframtakið heldur betur komið að hlutunum, þó að fréttamiðlar þegi yfir því eins vel og þeim er unnt.

En þessara framfara er ekki getið í loftslagsskýrslu SÞ. Á þeim bæ eru menn í baráttu fyrir því að ná sem mestum peningum frá skattgreiðendum í dýr verkefni, sem ríkið fjármagnar, alhliða skattheimtu og sölu aflátsbréfa kolefnisjöfnunar.

Af hverju dettur þeim stjórnmálamönnum okkar sem segjast vera til hægri í pólitík hvað þá þeim sem segjast berjast fyrir einstaklingsfresli og athafnafrelsi, ekki í hug að leysa þessi ímynduðu vandamál á forsendum samkeppninnar og einstaklingshyggjunar?

Af hverju má ekki tryggja þeim fyrirtækjum sem standa sig í baráttu við mengun og bjóða upp á nýungar sem gera umhverfið vistvænna, skattaafslætti í stað þess að skattleggja fyrirtæki upp í rjáfur og styrkja síðan þau sem eru í náðinni hjá sósíalistunum.

Af hverju týndi Sjálfstæðisflokkurinn algerlega glórunni og afnam grundvallarstefnu sína um lága skatta, markaðshyggju og einstaklingsfrelsi þegar ríkisstjórn var mynduð með VG, hvers formaður telur loftslagsvána vera yfirumgrípandi og allt í og um kring og yfirskyggi öll önnur vandamál í heiminum eins og kom fram þegar hún hitti Mike Pence þá varaforseta Bandaríkjanna í opinberri heimsókn hans til Íslands um árið.

En þrátt fyrir alla þessa baráttu og einhliða áróður til að koma á Sovét Evrópu og Sovét USA, þá er fólk að vakna til vitundar um að það sé eitthvað sem rímar ekki við heibrigða skynsemi í loftslagsáróðri SÞ, hefðbundinna stjórnmálamanna og fjölmiðla. Margir sjá að loftslagskeisararnir Guterres kommi og Karl arfakonungur hafa rangt fyrir sér og það stendur ekki steinn yfir steini í því sem þeir halda fram í þessum málum.

Hvernig á það líka að vera að það sé hægt að byggja á manni eins og Guterres komma, sem gerir Grétu Túnberg að leiðtoga lífs síns og telur hana hafa höndlað stóra sannleika veraldarhyggjunnar.

Vonandi er fólk að vakna til vitundar um allt þetta rugl og svo virðist vera sbr.: Í Frakklandi brutust út víðtæk mótmæli gegn bullhyggju loftslagsgoðana sem eru kennd við gul vesti. Í Hollandi er nýr stjórnmálaflokkur efahyggjunar í loftslagsmálum stærsti stjórnmálaflokkurinn. Í Þýskalandi sækir stjórnmálaflokkurinn Alternative für Deutschland aukið fylgi á meðan Græningjar tapa fylgi og AFD mælist nú með meira fylgi en Græningjar.

Á norðurhveli jarðar er vonandi að kveðja einn kaldasti vetur sem verið hefur um árabil og sennilega á þessari öld. Það er hinsvegar aldrei sagt frá því þegar kuldamet eru slegin en aðeins hitamet og þá verða þau iðulega til vegna þess að nýir mælar eru settir upp t.d. við enda flugbrauta þar sem hitinn mælist að sjálfsögðu mun hærri en annarsstaðar í nágrenninu.

Við höfum upplifað einn kaldasta vetur sem verið hefur og allar spár hlýnunarsinna hafa reynst rangar. Þessvegna þarf loftslagskirkjan að senda frá sér stöðugt hræðilegri spár, til að viðhalda trúnni og RÚV kallar reglulega til pöddufræðinginn, sem er loftslagssérfræðingur þjóðarinnar til að hann segi fólki, að hvað svo sem því finnist um kulda þá sé það ekki svo og raunar sé Miklatún í frostham aldingarður þar sem vaxi granatepli og glóaldin. Venjulegt fólk sér að þetta er bull, en þeir sem fjarri eru gætu e.t.v. látið glepjast.

Það er kominn tími til að venjulegir Íslendingar segi þessu liði upp og segi sig frá Parísarsamkomulaginu og við afnemum alla loftslagsskatta. Við eigum ekki að horfa upp á að það sé að kólna í veðri og sætta okkur við að borga háa skatta og gjöld vegna trúarbragðanna sem byggja m.a. á því að hnattræn kólnun þýði í raun hnattræn hlýnun. Hvers konar vitræn glóra er í slíku rugli?

Það er ljótt og ómennskt, aðhræða börn endalaust með þessum draugasögum?

 


Valdstjórnin hlustar ekki á þá, sem fordjörfuðu fullveldinu.

Nýr flokkur í Hollandi, Bændaflokkurinn vann stórsigur í þingkosningunum í síðustu viku. Flokkurinn fékk um 20% atkvæða og er stærsti flokkurinn í öllum kjördæmum Hollands. Það sýnir að flokkurinn höfðar ekki síður til borgarbúa en bænda.

Formaður flokksins Caroline van der Plas, segir að velgengni flokksins sé vegna þess að kjósendur séu að gera byltingu gegn ofurvaldi Evrópusambandsins (ES) og hvernig bandalagið beitir sér andstætt hagmunum fólks. Kjósendur í Hollandi voru að mótmæla reglum um loftslags- og umhverfismál, sem Evrópusambandið dælir út í meira mæli en nokkru sinni fyrr.

Engu skipti þó að ríkisstjórn Hollands hefði beðið ES um að draga úr kröfum á hendur Hollandi varðandi notkun nítrógens (tilbúins áburðar). Valdstjórn ES í Brussel fór sínu fram, sem fyrr gagnvart minni ríkjum bandalagsins.

Afleiðing þessara reglna ES varð sú að hætta varð framleiðslu á mörgum búum á kostnað skattgreiðenda. Þar er ekki verið að tala um smápeninga. Áætlaður kostnaður er um 25 þúsund milljónir Evra vegna loftslagstrúarbragðana bara vegna þessra reglna.

ES puðrar út fleiri nýjum reglum í umhverfismálum en nokkru sinni fyrr og andstaðan fer vaxandi. Úrslitin í Hollandi sýna vaxandi vantrú á loftslagspólitík EU. Þrátt fyrir að fleiri greiddu atkvæði í kosningunum nú en síðustu 30 árin og úrslitin séu skýr,telja hollensk stjórnvöld sig ekki geta breytt reglum um notkun nítrógen nema með leyfi frá Brussel.

Svona fer þegar þjóðríki tapa fullveldi sínu til báknsins í Brussel.

Evrópusinnar hér á landi ættu að horfa til þess sem er að gerast í ES og hvernig valdstjórnin í Brussel hagar sér gagnvart aðildarríkjunum.

Það er raunar merkilegt miðað við þá breytingu sem hefur orðið á ES að nokkur maður skuli telja það fýsilegt lengur fyrir íslenska þjóð að segja sig til sveitar í Evrópusambandinu.


Látum ekki 100 ára gamla sögu vitfirringar endurtaka sig.

Sömu daga og þær Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra fóru til Kænugarðs til að taka í höndina á Zelinski Úkraínuforseta, rak hann liðsforingjann Kupol,einn dugmesta liðsforingja sinn á vígstöðvunum við Bakhmut. Brottrekstarsökin:Kupol sagði sannleikann um mannfall Úkraínuhers.

Kupol sagði að úr 500 manna herdeild hans,væru nánast allir fallnir eða særðir. Hann greindi frá miklu mannfalli og stór hluti hermanna,sem nú kæmu á vígstöðvarnar væru illa þjálfaðir og mannfallið í Úkraínuher væri að aukast.

Áætlað er af Bandarískum yfirvöldum, að mannfallið í Úkraínustríðinu sé nú orðið meir en 300 þúsund manns, þar sem Rússar hafi misst um 200 þúsund en Úkraínumenn um 120.000. 

Á fjórða hundruð þúsunda ungra manna hafa verið drepnir í þessari hræðilegu styrjöld, sem allir skynsamir menn sjá, að getur ekki endað annarsstaðar en við samningaborðið. 

Katrín og Þórdís mættu ekki til Kænugarðs til að tala um frið. Þær mættu,sem hluti þeirrar halarófu úrræðalausra Evrópskra stjórnmálamanna, sem mætir til Zelinskys til að votta honum virðingu sína, dást að honum og hvetja hann til að láta hvergi deigan síga til að manndrápin magnist sem mest.

Kvikmynd eftir sögunni "Tíðindalaust á vesturvígstöðvunum" vann Óskarsverðlaunin núna,sem besta erlenda kvikmyndin. Myndin segir sögu ungra óharðnaðra þýskra ungmenna, sem eru blekktir til að fara í stríð. Hún segir sögu tilgangslausra mannfórna og þann hrylling sem ungmennin þurftu að upplifa. Hershöfðingjar og úrræðalausir stjórnmálamenn öttu ungmennunum fram vitandi að þeir yrðu stráfelldir. Gjörsamlega án vitræns tilgangs eins og nú í Úkraínustríðinu. Þetta var á árunum 1914-1918. Nú öld síðar eru sömu tilgangslausu mannvígin og hryllingurinn.

Hermennirnir í skotgröfunum á víglínunni í kringum Bakhmut og víðar upplifa sama helvítið og hermennirnir á vesturvígstöðvunum í fyrri heimstyrjöld.

Í stað þess að fara í halarófur buktandi sig og beygjandi fyrir Zelinski ættu vestrænir stjórnmálamenn að móta afstöðu friðar milli Rússlands og Úkraínu og sjá til þess að þessum hryllingi ljúki þegar í stað. 

Stjórnendur koma og fara líka í Rússlandi. En það verður meiriháttar ógæfa til frambúðar fyrir Evrópu, ef Rússar verða  hraktir algjörlega í fang  Kínverja til að verða upp á þá komnir í fyrirsjáanlegri framtíð í stað þess að samskipti þjóða verði með þeim hætti, að Rússsar verið fullgildir í samstarfi Evrópuþjóða.

Haukarnir Katrín og Þórdís hefðu átt að taka sér stjórnmálamenn Íslands árið 1945 til fyrirmyndar þegar þeir neituðu að segja Þjóðverjum og Japönum stríð á hendur á þeim forsendum, að við værum herlaus þjóð, sem vildum hafa sem best samskipti við allar þjóðir. Hefðu þær Katrín og Þórdís farið sem friðardúfur til Kænugarðs væri hægt að taka ofan fyrir þeim. Þá hefði för þeirra haft vitrænan tilgang.   


Samtökin sem brugðust

Litið var á Sameinuðu þjóðirnar(SÞ) sem virðingaverðustu stofnun heims árið 1945 eftir að sigurvegarar síðara heimsstríðs, Bandaríkin, Bretland og Sovétríkin stóðu að stofnun SÞ. Væntingar til þessa nýja þjóðabandalags þjóða heims voru miklar.

Framan af stóðu SÞ sig að mörgu leyti vel. Í dag eru þær klúbbur 193 þjóðrikja, sem hópa sig saman í mismunandi hópa til að koma á framfæri eða ýta undir mismunandi skaðlega hagsmuni.Allt í nafni friðar og mannréttinda.

Stórþjóðirnar fara samt sínu fram og hafa alltaf gert með neitunarvald að vopni ef annað bregst.  

Þrátt fyrir að Sameinuðu Þjóðirnar hafi haft þá ímynd að vera fjölþjóðleg stofnun, sem sinnti siðrænum verkefnum og viðhorfum þá hefur það breyst. Ágætur maður orðaði það svo, að SÞ væri bandalag verstu ríkja heims, sem ættu það sameiginlegt að vera andstæðingar Vesturlanda og semja endalausar ályktanir um minnsta bleðilinn fyrir botni Miðjarðarhafsins, Ísrael. 

Mannréttindi hjá SÞ. eru ekki algild heldur gilda aðrar reglur fyrir Íslömsku ríkin. Mannréttindaráð SÞ er síðan sér kapítuli, en þar sitja m.a. Kína, Venesúela, Pakistan, Sómalía og Eritrea flottur félagsskapur það. 

SÞ. skiptir sér ekki af því að mannréttindi kvenna séu fyrir borð borin í stórum hlutum heimsins og hafa ekki skoðun SÞ. á beinu og óbeinu þrælahaldi í Saudi Arabíu og Flóaríkjunum. 

Því miður eru SÞ í dag dæmi um von, sem brást og samtökin geta ekki komist upp úr því hjólfari meðan hnignun Vesturlanda er slík, að þau eru ekki tilbúin til að standa vörð um þau gildi, grunnhugsjónir og framtíðarsýn framfara og hagsældar. Slíka yfirsýn höfðu þeir gerðu Churchill forsætisráðherra Breta og Franklin Delano Roosevelt Bandaríkjaforseti á þeim tíma sem síðara heimsstríð var háð sem harðast fyrir tæpum 100 árum. 

Meðan innihaldið skortir verða SÞ. aldrei annað en vondar umbúðir allt of oft til hagsbóta fyrir þá sem síst skyldi. 


Hinn glöggskyggni framkvæmdastjóri

Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu Þjóðanna(SÞ), öfgasósíalistinn Antonio Guterres, sem setti fjárhag Portúgal á hausinn sem forsætisráðherra skrifaði furðulegan samsetning á alþjóðlega baráttudegi kvenna fyrir nokkru. 

Hann sagði: að það tæki 300 ár að ná fullu jafnrétti kynjana.(en láðist að segja hvort það yrði fyrir eða eftir hádegi þann dag) Þá talaði hann um ginnungagap  milli kynjana í vísinda og tæknigreinum. "Kísildalir heimsins ættu ekki að verða dauðadalir kvennréttinda" Síðan sagði frkv.stjórinn að konur á netinu  sættu kynferðislegri orðræðu og árásum. 

Athyglisvert að frkv.stjórinn skuli nefna tækningreinar sem helsta vandamál varðandi kvennabaráttu, þar sem hennar verður hvað síst vart. Hann nefnir ekki stöðu kvenna í Íslamska heiminum, þar sem konum er iðulega meinað að vinna og  sækja sér menntun. Hann nefnir ekki stöðu kvenna víða um Afríku og Asíu þar sem réttindi þeirra eru einskis metin og víðtækt mannsal og nánast þrælahald á sér stað. 

Miðað við aðstæður eru þessi orð aðalframkvæmdastjórans algert bull en honum ekki til mikillar skammar umfram það sem hann hefur þegar áunnið sér. 

Við hverju er að búast af manni, sem er búin á embættisferli sínum að gera eitt land nánast gjaldþrota. Hefur leitt algjöra hnignun SÞ á sínum embættisferli og gerði barnið Grétu Túnberg að leiðtoga lífs síns og helsta vísindagúru í loftslagsmálum. 

Einu baráttumála þessa manns er að vandræðast við Vesturlönd,að þau dragi ekki nógu mikið úr kolefnislosun og borgi ekki nógu mikla peninga til þróunarlandanna eins og t.d. Kína.

Þá hamast hann á því að reyna að troða sem flestum svonefndum hælisleitendum inn í Evrópu, en fer ekki fram á að löndin sem taka ekki við neinum slíkum eins og t.d. Saudi Arabía, Japan og Kína sýni einhvern lit. 

Það er ekki hægt að bjóða upp á það að frkv.stj. SÞ bulli um málefnin eins og hann gerir. En af því að bullið er svo augljóst varðandi orð hans um réttindabaráttu kvenna, þá er nauðsynlegt að vekja athygli á þeim til að fólk sjái hvað lítið þessi maður hefur í raun fram að færa. 

 


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.1.): 64
  • Sl. sólarhring: 808
  • Sl. viku: 6263
  • Frá upphafi: 2471621

Annað

  • Innlit í dag: 53
  • Innlit sl. viku: 5714
  • Gestir í dag: 51
  • IP-tölur í dag: 51

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband