Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2024

Upprisuhátíðin er okkar. Gleðilega upprisuhátíð.

Páskar þýða framhjá ganga og vísar til 1. Mósebók um fyrirskipun Jahve til Gyðinga í Egyptalandi,að slátra lambi og rjóða blóðinu á dyrastaf fyrir framan útihurð húsa sinna og þá mundi Jahve ganga framhjá húsum þeirra, en framkvæma fjöldamorð á saklausum egypskum börnum í öðrum húsum í landinu.

Þessi frásögn um ættbálka- og, þjóðarguðinn er andstæð kristinni hugsun og kristilegri boðun þar sem allar þjóðir og allir einstaklingar eru jafnir fyrir Guði fyrir trúna á Jesú Krist.

Jesús boðaði kærleiksríkan Guð allra þjóða. Þess vegna er það illa valið að nota orðið páskar um helgustu trúarhátíð kristins fólks, uppristuhátíðina, þegar Jesú reis upp frá dauðum og  Guð opinberaði með því fyrir mönnunum fyrirheit sitt um eilíft líf. 

Upprisa Jesú og kenning hans og boðun er um kærleiksríkan Guð allra þjóða. Guð friðar og fyrirgefningar. Boðun Jesú og trúin á hann er um sigur lífsins yfir dauðanum og kærleik milli manna. 

En kærleiksboðskapurinn á sér erfitt uppdráttar. Ill öfl sækja að og kristið fólk verður að átta sig á að það verður að standa saman órofa og hvika hvergi, gegn þeirri ógn sem nú steðjar að kristinni trú og kristnum einstaklingum víða um heim. 

Það er ekki aðeins utanað komandi ógn, sem við er að eiga. Innan kirkjudeilda m.a. í  íslensku þjóðkirkjunni hefur boðuninni iðulega verið rangsnúið til að þóknast tískustraumum og tímabundnum fáránleika, þar sem jafnvel prestar viðurkenna ekki lengur líffræðilegar staðreyndir m.a. um mun á kynjunum og að kynin séu bara tvö. Úthýsum villukenningum og berum sannleikanum vitni eins og Jesú sagði við Píltus, að hann væri í heiminn borinn til að bera sannleikanum vitni.  

Gleðilega upprisuhátíð. 

 


Hvað veldur?

Hvað rekur stjórn Landsbanka Íslands til að ætla að gera vondan samning um kaup á tryggingarfélaginu TM?  Með öllu er ljóst, að það eru ekki hagsmunir bankans, sem hafðir eru í fyrirrúmi, þar sem hagnaður af rekstri TM er ekki slíkur að afsaki fjárfestinguna. 

Bankastjórn og bankastjóri hafa ekki réttlætt áformin um kaup á TM með einum eða neinum hætti. Hvað skyldi síðan valda því. 

Hvað veldur því að stjórn og bankastjóri Landsbankans gerir ekki eina hluthafanum, ríkinu viðhlítandi grein fyrir þeirri ætlun sinni að kaupa tryggingarfélag á yfirverði. 

Svör bankastjórnar til þessa eru ekki viðhlítandi og þess eðis að hlítur að vekja grunsemdir um að það sé eitthvað annað en hagsmunir Landsbankans og hluthafans, ríkisins, sem bankastjórn og bankastjóri láta ráða för. 

Birna Einarsdóttir og bankaráð Íslandsbanka létu af störfum fyrir minni sakir en þær sem bankaráð og bankastjóri Landsbankans gera sig nú sek um. 

Hér er greinilega skrýtinn fiskur undir steini og bankastjórnin hefur ekki réttlætt gjörðir sínar með einum eða neinum hætti og þegar þannig háttar til er eðlilegt að vondar grunsemdir vakni. 

 

 


Kristur krossfestur

Við sem trúum, að krossfesting Jesú og upprisan sé söguleg staðreynd höfum trúarsannfæringu sem Páll postuli víkur víða að í bréfum sínum sem mikilvægasta inntaki fagnaðarerindis.

 

Milljónir kristins fólks minnist pínu og krossfestingar Jesú. En útrýming kristins fólks þar sem vagga kristninnar stóð í árdaga og krossfesting einstaklinga og trúarbragðanna á þeim slóðum virðist gleymd. Engir verða fyrir meiri ofsóknum í heiminum en kristið fólk sérstaklega í Afríku og Asíu.  

Vestrænar ríkisstjórnir aðhafast ekkert. Daglegar ógnanir, morð og óeiginlegar krossfestingar kristins fólks varna þeim ekki nætursvefns. Helstu prelátar kristinna láta sem ekkert sé og gera ekkert til að koma í veg fyrir að kristið fólk í löndum Asíu eða Afríku sé hrakið frá heimkynnum sínum,smáð, nauðgað og myrt. Ekki eru farnar kröfugöngur í helstu borgum Evrópu og Bandaríkjanna til að krefjast aðgerða fyrir kristið fólk í nauð og raunverulegri útrýmingarhættu. 

Hjálparstarf Vesturlanda sinnir þessu fólki ekki. Síst hinn gjörspillti vestræni Rauði kross. Vestrænir fjölmiðlar minnast varla á stöðu kristins fólks í nauðum. Fréttastofa RÚV birtir nánast aldrei fréttir af ofsóknum á hendur kristnum t.d. í Nígeríu, Íran eða Pakistan svo fátt eitt sé nefnt.

Gleymda stríðið er stríð múslima við kristið fólk í Mið-Austurlöndum og víða í Afríku og Asíu. Vinstri sinnaða fjölmiðlafólkið kemur ekki auga á að hægt sé að kenna feðraveldinu eða nýldenduharðstjórn Vesturlanda um hörmungar kristins fólks og hefur því engan áhuga á málinu og er af óskiljanlegum ástæðum í algjöru þagnarbindindi gagnvart ógnum Íslam, morðum og hryðjuverkum um gjörvalla heimsbyggðina. 

Á þessum degi skulum við minnast pínu og krossfestingar Jesú og á sama tíma ofsókna og morða á kristnu fólki og krefjast þess að kristin kirkja og ríkisstjórnir Vesturlanda gæti að sínum minnstu bræðrum sem reynt er að útrýma um allan hinn Íslamska heim.  

 

 

 


Að gefa annarra manna fé.

Afabróðir formanns Sjálfstæðisflokksins, Pétur Benediktsson, bankastjóri, sendiherra og alþingismaður, gaf út kver sem hét "Milliliðir allra milliliða.".

Í kverinu kom fram skörp gagnrýni á niðurgreiðslur ríkisins á neysluvörum og á það bent, að með því væru peningar fólks teknir með sköttum og endurgreiddir með niðurgreiðslum. Sjálfstæðismenn þess tíma börðust hatrammlega gegn þessari stefnu fáránleikans.

Í kverinu var mynd af ræfilslegum glorsoltnum hundi, sem kom að veisluborði akfeits manns og renndi til hans biðjandi augum og dillaði rófunni. Feiti maðurinn tók upp hníf, skar af rófunni og stakk upp í hundinn, sem labbaði alsæll í burtu. Þessi mynd sýndi vel fáránleika niðurgreiðslna og millifærslna ríkisins.

Náðst hefur þjóðarsátt á vinnumarkaði, þar sem aðilar sömdu um að ríkið tæki upp víðtækara kerfi millifærslna og ríkisafskipta. Ríkisstjórn samþykkti hátt í hundrað milljarða auknar niður- og millifærslur. 

Þeir sem greiða skatta á Íslandi eru launafólk og atvinnurekendur. Með einum eða öðrum hætti munu því aðilar vinnumarkaðarins greiða framlag ríkisins og því á myndin í kveri Péturs Bendiktssonar um svanga hundinn einstaklega vel við um nýgerða kjarasamninga.

Víðtæk þjóðarsátt allra flokka og aðila vinnumarkaðarins ríkir um að leið aukinna ríkisafskipta og aukinnar skattheimtu skuli farin og trónum við nú samt á toppi OECD ríkja hvað það varðar.

Þrátt fyrir að skuldastaða ríkisins sé komin á hættulegt stig, skal halda áfram stefnu fyrrverandi fjármálaráðherra, sem góð þjóðarsátt virðist ríkja um, að:

"tryggja góð lífskjör með hallarekstri ríkissjóðs." 

 

 

 

  

 


Hvert fóru allir Sjálfstæðismennirnir?

Fyrir nokkru kom út bókin "Where have all the Democrats gone? The soul of the party in the age of extremes", þar er m.a. fjallað um grundvallarbreytingar sem hafa orðið á Demókrataflokknum í Bandaríkjunum, sem valda því, að flokkurinn er annar í dag og stendur fyrir allt önnur gildi en áður. 

Gott væri ef fjallað væri um Sjálfstæðisflokkinn eins og gert er í Bandaríkjunum um Demókrataflokkinn. 

Þegar horft er til verka ríkisstjórnarinnar og fyrir hvað hún stendur væri nær að spyrja hvar voru Sjálfstæðismennirnir?

Af hverju hafa ríkisskuldir aukist svo gríðarlega að hlutfall þeirra er nú 102.3% af þjóðarframleiðslu. Af hverju er  hallarekstur ríkissjóðs viðvarandi. Af hverju tróna íslenskir tekjuskattsgreiðendur nú á toppnum allra skattgreiðenda í OECD?

Af hverju örlar ekki á viðleitni til ráðdeildar og sparnaðar í ríkisrekstrinum? 

Af hverju sýnir sjálfstæðisflokkurinn ekkert hugmyndafræðilegt viðnám gegn woke og vinstri hugmyndum Vinstri grænna t.d. kynrænu sjálfræði, hatursorðræðu og  loftslagsbreytingum. 

Brýnt er að spurt sé hvar eru allir sjálfstæðismennirnir? Gæti verið að breytingarnar séu svo miklar að Sjálfstæðisflokkurinn standi fyrir allt önnur gildi og pólitík en áður? 

 


Stríð, vopnahlé og friður.

Í gær samþykkti Öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna að vopnahléi skyldi komið  á í stríði Ísrael við hryðjuverkasamtök Hamas á Gasa. Vonandi gengur eftir að meðan vopnahléð stendur náist samningar um að Hamas láti af stjórn á Gasa þannig að hægt sé að semja um varanlegan frið svo þjáningum almennings á Gasa linni.

Utanríkisráðherra fagnaði vopnahléinu í færslu á fésbók, en var á sama tíma að undirrita samninga um að Ísland greiddi fyrir vopn fyrir Úkraínu til að drepa þar mann og annann. Það er frávik frá utanríkisstefnu Íslands frá því að við urðum frjálst og fullvalda ríki árið 1918. Mörgum þar á meðal þeim sem þetta ritar finnst miður að Ísland skuli blanda sér í vopnakaup fyrir stríðsaðila í stað þess að takmarka stuðning við hjálparstarfsemi og annað því tengt, svo sem verið hefur. 

En á sama tíma og Vesturlönd fagna vopnahléi á Gasa, þá er ekkert þeirra að tala fyrir vopnahléi og friðarsamningum í kyrrstöðustyrjöldinni í Úkraínu. Þjáningar óbreyttra borgara, sem verða fyrir drónaárásum og flugskeytum er gríðarleg. Þrátt fyrir það fá þeir sem tala fyrir vopnahléi eða friði í því stríði bágt fyrir meira að segja páfinn og utanríkisráðherra Íslands finnst í lagi að tala fyrir vopnahléi á Gasa á sama tíma og hann kaupir vopn fyrir Úkraínuher.

Hvernig skyldi standa á því að heimurinn fagnar vopnahléi á Gasa en telur það ekki eiga við í Úkraínu?


Við skulum senda samúðarkveðjur til Rússa.

Föstudaginn 22. mars var framið hræðilegt hryðjuverk í tónlistarhöll í Moskvu. Íslamskir hryðjuverkamenn ÍSIS voru að verki og myrtu unga fólkið, sem var að fylgjast með tónleikum, með köldu blóði. Tala látinna er nú 137 manns. 

Hryðjuverk eru alltaf fordæmanleg og ekki skiptir máli á hverjum þau bitna. ÍSIS hafa tvisvar áður framið mannskæð hryðjuverk í tónlistarhúsum annars vegar í Bataclan í París og hins vegar í Manchester á Englandi. 

Þegar hryðjuverkin voru framin í Bataclan og Manchester sendu íslenskir ráðamenn strax samúðarkveðjur til ríkisstjórna og/eða forseta viðkomandi landa.

Nú að kvöldi dags tveim dögum eftir þetta hryllilega hryðjuverk ÍSIS í Rússlandi, hafa íslenskir ráðamenn ekki hafi haft döngun í sér til að senda Rússum samúðarkveðjur. Það er þeim til skammar. Vonandi verður úr þessu bætt strax.  

 

 


Líkið gengur aftur og aftur

Bankasýsla ríkisins er skondið fyrirbæri, en lífdagar hennar voru ákveðnar með lögum. Þrátt fyrir dánardægrið, hélt líkið áfram, enda hagkvæmt fyrir fjármálaráðherra að geta skammtað Lalla frænda og öðrum handgengnum góðan bitling.

Í kjölfar klúðurs við sölu hluta í Íslandsbanka tilkynnti síðan forsætisráðherra ábúðarmikil, að bankasýslan væri lögð niður. 

Nú bregður svo við, að bankastjóri Landsbankans, sem er í eigu allra landsmanna telur rétt að þjónusta fyrrum útrásarvíkinga og þeirra líka með því að kaupa tryggingarfélag, sem bankinn hefur ekkert með að gera, til að kynda undir nýjan gleðileik í fármálalífinu a la 2007 og fjárfestisins George Zoros.

Fjármálaráðherra var að vonum ofboðið og lýsti því yfir á Podcasti, samskiptamiðlun fína fólksins, að hún telji rangt að ríkisbankinn kaupi tryggingarfélag og peningunum yrði betur varið með því að hún geti sólundað þeim til að stoppa upp í fjárlagagatið í stað sparnaðar eða aukinnar ráðdeildar.  

Bankastjóri banka allra landsmanna svaraði um hæl á fjölmiðlum og sagði ráðherranum ekki koma þetta við. Landsbankinn væri ekki ríkisbanki. Bankinn starfaði á einhverju Astral plani,að geðþótta bankastjóra og bankaráðs og hún ætlaði hvað sem ráðherrann segði að kaupa tryggingarfélag fyrir offjár. 

Gætnir menn og raunagóðir í fjármálalífi og dyntum bankakerfisins, sáu að þetta gat ekki gengið skv. öllum eðlilegum viðmiðunum í fjármálalífinu hefði Landsbankanum borið að upplýsa eiganda sinn með fullnægjandi hætti um meiriháttar fjárfestingu eins og þá að kaupa tryggingarfélag, sem kom bankarekstrinum ekkert við. Jafnvel hefði verið eðlilegt að bankastjórinn pantaði viðtal hjá fjármálaráðherra til að upplýsa hana um málið og falast eftir hennar skoðunum sem eiganda bankans. Hægt er um vik þar sem innan við 300 metrar eru á milli skrifstofu bankastjórans og fjármálaráðherra. Varla hefðu síðan gullhringirnir dottið af fjármálaráðherra eða bankastjóranum með því að biðja aðstoðarmenn sína um að hringja í gagnaðila um leið og það lá fyrir að einhver meiningarmunur eða ágreiningur væri uppi.

 

En þessi tegund mannlegra samskipta virðast hafa verið þeim ofraun og því var rykinu dustað af Bankasýslunni, líkinu, sem forsætisráðherra hafði tilkynnt rúmu ári áður að heyrði sögunni til.

Eftir því sem næst verður komist miðlaði líkið ekki upplýsingum sem því barst og þurfti nokkurn að undra það. Lík eða uppvakningar eru almennt ekki notuð til boðmiðlunar í nútíma þjóðfélagi, sem fetað hefur sig inn á gervigreind þegar þeirri mannlegu sleppir.

Þannig liggur þá málið fyrir að spurningin er um hver sagði hvað við hvern hvenær eða hver sagði ekki hvað við einhvern aldrei. Í þessu gruggi syndir síðan fyrrum Bankadrottningin Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar sem fékk 100 milljónir í meðgjöf frá Kviku banka og hefur eðlilega skoðun á þessu og þá aðeins formlega um hver hefði átt að segja hvað við hvern hvenær en ekki efnislega hvort þjóðbankinn eigi að kaupa tryggingarfélag eða ekki og henni fer eins og var með Ketil skræk frænda hennar, sem sagði forðum: "Sáuð þið hvernig ég tók hann"  þegar Skugga Sveinn hafði lagt andstæðinga þeirra að velli.

Bankastjóri vill kaupa. Eigandinn vill ekki kaupa og foringi stjórnarandstöðunnar vill beita umræðustjórnmálum um það sem ekki skiptir máli lengur. 

Ekki verður séð að feðraveldið hafi haft nokkra aðkomu að málinu og þessvegna er það e.t.v. í þessum farvegi. 

 


Enn eitt hryðjuverk ríkis Íslam

Ríki Íslams tókst enn einu sinni að drepa fjölda fólks og særa enn fleiri þegar liðsmenn þeirra gerðu fólskulega árás á tónleika í tónlistarhúsi við Moskvu í Rússlandi. Vonandi sjá forseti Íslands og utanríkisráðherra sóma sinn í því að votta Rússum samúð sína vegna hryðjuverkaárásarinnar þar sem fjöldi saklauss ungs fólks lét lífið.

Haft er fyrir satt, að lögregla í Evrópu komi í veg fyrir meira en 90% ætlaðra hryðjuverka Íslamista, þó að þessi ógnaröfl nái ekki að framkvæma nema brot af því sem þau ætla að framkvæma, þá er þau hryðjuverk þó svo skelfileg, að það hvetur til þess að öll ríki Evrópu, Rússland þar með talið standi saman um að vinna gegn þessari óværu.

Því miður geisar stríð á milli  Úkraínu og Rússlands með miklum mannfórnum á báða bóga og miklu tjóni á mannvirkjum og öðrum innviðum. Brýnasta verkefni leiðtoga Evrópu er að koma á friði milli þjóðanna til þess að Evrópa geti sameinuð beitt sér fyrir þeim brýnustu verkefnum og gegn þeim vandamálum sem steðja að Evrópu í stað þess að bræður haldi áfram að berjast í Úkraínu.

 

 

 


Ógnarmenningin

Ásmundur Friðriksson alþingismaður gerði úr ræðustól Alþingis athugasemd við skrílslæti hælisleitenda frá Palestínu og taglhnýtinga þeirra við Alþingishúsið. Þingmaðurinn sagði:

"Mótmæli hafa byrjað í upphafi hvers þingdags og staðið fram undir kvöld. Fjöldi Palestínumanna og stuðningsmanna þeirra hefur barið og lamið þinghúsið að utan, lamið á glugga og slegið á trumbur, blásið í flautur og valdið ónæði, ótta og óþægindum.

Ljóst er að hér er um ótvírætt brot á 3.gr. og 6.gr. lögreglusamþykktar Reykjavíkur og e.t.v. fleiri greinum. Af hverju heldur lögreglan ekki upp lögum og reglu við þinghúsið?

Ásmundur bendir á, að skattgreiðendur beri allan kostnað af veru þessara mótmælenda "húsnæði, heilbrigðisþjónustu og fjölskyldusameiningu".

Síðan bendir þingmaðurinn á það aguljósa, sem öllum átti að vera ljóst miðað við reynslu annarra þjóða.

"Við erum að kalla yfir okkur fólk sem ber með sér þessa ógnarmenningu, fólk sem beitir hótunum til að ná fram kröfum sínum, hefur ráðist að þingmanni og gerir sig líklegt til að vinna okkur sem hér störfum líkamlegt tjón.“ 

Í ljósi þessa sem þingmaðurinn nefnir, er manni spurn: Hversvegna framdi ríkisstjórn Íslands það hermdarverk gegn þjóðinni, að flytja nú á áttunda tug þessa fólks til landsins og ætlar að flytja annað eins til viðbótar. Er ráðherrum þjóðarinnar ekki sjálfrátt?

Vissulega er þetta óviðunandi ástand og slæmt ef lögregluyfirvöld eru svo beygð vegna ógnarmenningarinnar, að þau þora ekki að halda uppi lögum og reglu í miðbæ Reykjavíkur. 

Umburðarlynt þjóðfélag fær ekki staðist og verður eyðilagt ef gefið er eftir fyrir ofbeldisöflunum, sem virða ekki siði okkar menningu eða lögin í landinu. Gegn slíkri óværu verður að bregðast strax af fullri hörku.

 

 


Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 194
  • Sl. sólarhring: 833
  • Sl. viku: 4015
  • Frá upphafi: 2427815

Annað

  • Innlit í dag: 181
  • Innlit sl. viku: 3717
  • Gestir í dag: 179
  • IP-tölur í dag: 175

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband