Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Evrópumál

Skynsemi eða nauðhyggja

Í umræðuþætti á RÚV, Silfrinu í gær fóru fyrstu 80% þáttarins í að tala um getgátur eða allir eru sammála um. Þegar leið að lokum sagði stjórnandinn, að Ólafur Ísleifsson þingmaður Miðflokksins hefði hreyft ákveðnum hugmynum varðandi ólöglega innflytjendur(hælisleitendur), en vakti um leið athygli á að lítið væri eftir af þættinum. Ólafur vakti m.a. athygli á stefnu danskra jafnaðarmanna í málinu og taldi að um væri að ræða stefnumótun, sem ástæða væri fyrir okkur að skoða.

Fulltrúar nauðhyggjunar í málinu fundu þessu ýmislegt til foráttu. 

Páll Magnússon þingmaður Sjálfstæðisflokksins minnti á Altúngu í Birtingi Voltaire og sagði nánast,að frv. dómsmálaráðherra í málinu væri stefna, sem væri sú besta sem til væri. Raunar eru þær tillögur þegar grannt er skoðað ámóta skilvirkar til að yfirstíga vandamálið eins og að ætla að girða norðanáttina af í Reykjavík með því að setja upp skjólvegg í Örfirisey.

Fulltrúi Pírata vildi hætta öllu veseni á landamærunum, en mæltist að öðru leyti skynsamlega.

En svo kom rúsínan í pylsuendanum, Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingmaður Samfylkingarinnar, sem fann stefnu bræðraflokks síns í Danmörku allt til foráttu og ekki var annað á henni að skilja en þarna færu danskir sósíaldemókratar villur vegar svo fordæmanlegt væri. Ekki var annað að skilja á þingmanninum, en allar breytingar á stjórnleysinu í þessum málum væri til hins verra og afstaða danskra krata fordæmanleg. 

Ólafur Ísleifsson þingmaður Miðflokksins benti m.a á, að með því að fara þá leið sem að danskir jafnaðarmenn vilja, væri hægt að hjálpa fleirum og þau vandamál, sem nú væri við að etja vegna stjórnlauss aðstreymi svokallaðra hælisleitenda, sem eru um 80% ungir karlmenn mundu verða að miklu leyti úr sögunni. 

Sérkennilegt að þinmenn og verðandi þingmenn skuli ekki vilja skoða þessar hugmyndir danskra krata, sem loksins sáu og viðurkenndu, að áfram yrði ekki haldið á þeirri óheillabraut, sem meirihluti þingmanna á Íslandi virðist vilja halda. 

Það væri hægt að hjálpa 135 manns í nágrenni við heimkynni sín sem eru í bráðri neyð, fyrir hvern einn hlaupastrák sem hefur haft ráð á því að láta smygla sér yfir hafið og þessvegna land úr landi í Evrópu. Hagnaður glæpamannanna sem sjá um þetta smygl hleypur á tugum milljarða íslenskra króna. Er það ekki glórulaus heimska að ætla að halda áfram vonlausu kerfi, sem  hjálpar fáum og síst þeim sem mest þurfa á að halda í stað þess að leita skynsamlegra leiða út úr vitleysunni?

Danskir sósíalistar eiga heiður skilið fyrir að sýna þá djörfung til tilbreytingar að bera sannleikanum og skynseminni vitni. Þeir vilja taka stjórn á sínum landamærum hvað þetta varðar. Af hverju gerum við það ekki líka. Fróðlegt verður að sjá hvaða þingmenn og stjórnmálaflokkar vilja að við höfum stjórn á landamærunum og hverjir vilja að við týnumst fyrr en síðar í þjóðahafinu.


Blæjan og frelsið

Hvað eiga Evrópuríkin Austurríki, Belgía, Búlgaría Danmörk, Frakkland,Ítalía, Lettland, Holland, Svíþjóð og Þýskaland sameiginlegt. Þau hafa öll bannað múslímska andlitsblæju kvenna. Innan skamms mun Sviss fylla þennan hóp, en um daginn var það samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. 

En hvað með frelsið og umburðarlyndið. Hvernig stendur á því að hið frjálslynda Holland og Danmörk eru að hafa afskipti af klæðaburði fólks? Snýst búrkubannið og blæjubannið um það?

Stuðningsfólk blæjubannsins í Sviss bentu á, að blæjan væri aldagamall siður til að undirstrika að konur væru körlum undirgefnar. Blæjur voru nánast ekki til í Evrópu ekki heldur hjá múslimum sbr. t.d. Sarajevo, fyrr en hið pólitíska íslam gerði blæjuna að áróðurstákni, gegn vestrænum siðum og menningu, og konur í álfunni og víða annarsstaðar voru neyddar til að bera þetta tákn ófrelsis og kynjamisréttis. 

Saida Keller Messahli stofnandi og formaður samtaka um framfarasinnað Íslam, segir að með því að banna blæjuna sé verið að hafna hugmyndafræði alræðis, sem sé andstæða lýðræðis. Saída Keller er múhameðstrúar, fædd í Túnis og baráttukona fyrir mannréttindum. Hún hefur horft upp á það hvernig hið herskáa pólitíska Íslam hefur þrengt sér inn í moskur í Evrópu og samtök múslima og valdið stöðugt meiri sundrungu og fornaldarhyggju.

Boðskapur þessarar stjórnmálastefnu, en það er hún mun frekar en trúarbrögð, er alræðishyggja í ætt við fasisma og kommúnisma. Blæjan  sem einkennismerki þessarar hugmyndafræði gerir konur að andlitslausum annars flokks verum, og er hvað augljósasta táknið um kvennfyrirlitningu. Bann við andlitsblæjunni er því ekki spurning um að vegið sé að frelsi fólks til að ákveða hvernig það klæðist ekki frekar en að bannað er að bera nasísk tákn í Þýskalandi.

Svissneskir kjósendur kusu í þjóðaratkvæðagreiðslu að banna skyldi þetta einkennismerki herskárrar pólitískrar stefnu Íslamsks alræðis, kvennakúgunar og haturs á vestrænum gildum. Fyrir áratug síðan greiddu þeir líka atkvæði með því að banna mínarettur eða kallturna við moskur, sem að Erdogan Tyrklandsforseti hefur lýst sem vígvopni gegn vestrænum gildum.

Við Íslendingar ættum fyrr en síðar að taka umræðu um þessi mál einkum og sér í lagi vegna þess slappleika sem stjórnvöld sýna í útlendingamálum og taka okkur stöðu með öðrum lýðfrjálsum ríkjum í Evróp og banna tákn kvennakúgunar og alræðishyggju, áður en það verður vandamál í íslensku samfélagi. 

 


Sveltur sitjandi kráka.

Meðan heibrigðis- og forsætisráðherrar stöðugt fleiri Evrópuríkja sjá, að ekki er hægt að treysta yfirstjórn Evrópusambandsins til að tryggja aðgang að Covid bóluefnum aðhafast þær Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir ekki neitt og reyna að telja landsmönnum trú um það að best sé að láta Evrópusambandið um lyfjakaup fyrir íslensku þjóðina.

Nú síðast tilkynntu forsætisráðherrar Austurríkis og Danmerkur að þeir mundu leita eigin leiða til að tryggja sínu fólki Covid bóluefni sem allra fyrst. Áður höfðu Pólverjar, Slóvakar, Tékkar og Ungverjar haldið hver í sína sérleið. Ungverjar viðurkenna Sputnik V frá Rússlandi og ætla að kaupa það og það sama á við um Tékka og Slóvaka auk þess sem þessi ríki öll hafa leitað eftir að kaupa kínverkst bóluefni. 

Í sjálfu sér er eðlilegt að þjóðir Evrópu bregðist við með þessum hætti þegar í ljós kemur að Evrópusambandið er vanhæft til að tryggja eðlilegt framboð á bóluefni til jafns við ýmsar aðrar þjóðir. Þannig hafa Bretar nú tryggt bóluefni fyrir 32% þjóðarinnar en Evrópusambandið einungis tryggt bóluefni fyrir 7.54% íbúa sambandsins. 

Ríkisstjórnir gömlu Austur-Evrópu telja sig ekki eins bundnar af innkaupastefnu Evrópusambandsins og nú feta Austurríkismenn og Danir sama veg. En hér á Íslandi telja forsætis- og heilbrigðisráðherra sig meira bundnar Evrópusambandinu en mörg ríki sambandsins. Auk þess hafa þær engin önnur úrræði. 

Var íslenski heilbrigðisráðherran virkilega svo heillum horfin, að hún hafi talið, að vandinn yrði leystur með því að Ísland yrði tilraunaverkefni Pfizer lyfjarisans og þegar það brást, að þá hafi engin varaáætlun verið í gangi?

Sums staðar mundu ráðherrar þurfa að taka pokann sinn fyrir slíka vanrækslu. 


Óhreina barnið í Evrópu

Nú er svo komið að fyrrum fyrirmyndarríkið í Evrópu, Bretland er óhreina barnið í Evrópu.4 Evrópusambandslönd, Grikkland, Eistland, Litháen og Slóvenía heimila komu farþega frá Bretlandi og þá er krafist sóttvarnaraðgerða og sóttkvíar.

Við erum samt ekki bangin og erum í hópi þeirra fáu þjóða sem heimila farþegum frá Bretlandi að koma eins og öðrum. 

Þessar lokanir á Breta eru vegna þess að þeir tilkynntu, að nýtt og smitnæmara afabrigði hefði fundist hjá þeim. Upplýsingar um þetta afbrigði eru þó af skornum skammti og fjarri því að vera fullnægjandi.  

Það er annars umhugsunarefni af hverju Bretum gengur svona illa að fást við þessa veiru. Síðustu 8 daga hafa sýkst álíka margir á Bretlandi og sem nemur fjölda allra Íslendinga þrátt fyrir hörkulegar aðgerðir. Það sýnir að slíkar aðgerðir út af fyrir sig þurfa ekki að vera árangursríkar. Það sýndi sig líka hjá Ítölum og Spánverjum í vor. 

En hvað eigum við þá að gera. Innanlandssmit eru svo lítil, að það ætti að vera unnt að létta af ýmsum takmörkunum og sú aðgerð hefði vafalaust minni hættu í för með sér en að leyfa áframhaldandi farþegaflutninga milli Bretlands og Íslands. Forsenda ýmissa fjöldatakmarkana er ekki lengur fyrir hendi og aflétting þeirra mundi hafa verulega jákvæð áhrif á atvinnulíf í landinu. 

En spurningin er sú,  ætlar veirutríóið að bíða þangað til því ásamt Kára hefur tekist með samþykki ríkisstjórnarinnar að gera Ísland að alþjóðlegri tilraunastöð með alla Íslendinga sem tilraunadýr varðandi skaðsemi bóluefnis gegn C-19. 

Þá mundu orð Össurar Skarphéðinssonar af öðru tilefni, raungerast varðandi faraldurinn. "You aint seen nothing yet."

 


Nóbelsnefnd á villigötum

Í Noregi er nefnd, sem sér um að úthluta friðarverðlaunum Nóbels. Nefndin hefur unnið að því að koma óorði á friðarverðlaunin, enda hefur sósíalísk nauðhyggja iðulga byrgt meirihluta nefndarmanna sýn á raunveruleikann í heiminum.

SósíalistinnAbiy Ahmed stjórnandi Eþíópíu og sérstakur vinur Kínverja, fékk verðlaunin 2019. Nú herjar hann af mikilli grimmd á Tigray héraðið og hefur stökkt þúsundum fólks á flótta auk þess sem sagnir berast af grimmdarverkum og fjöldamorðum á saklausum borgurum. 

Árið 1991 var Aung San Suu Kyi sæmd friðarverðlaununum, án þess að hafa annað til unnið en að vera í stjórnarandstöðu í Búrma sem nú heitir Mýanmar. Þegar hún varð forustumaður landsins héldu árásir á minnihlutahóp Róingja áfram sem aldrei fyrr og tugum þúsunda þeirra stökkt á flótta eftir fjöldamorð, nauðganir og pyntingar á fólki af þessum kynþætti. Allt þetta afsakar friðarverðlaunahafinn. 

Hryðjuverkamaðurinn Yasser Arafat var sæmdur friðarverðlaunum árið 1994 og skömmu síðar gekkst hann fyrir og magnaði ólgu og árásir á Gyðinga í Gyðingalandi undir heitinu Intifada 2

Bandaríkjaforsetinn Obama fékk friðarverðlaunin 2009 þegar hann var nýr í embætti forseta Bandaríkjanna og hafði ekkert sýnt. Svo virðist sem nefndin hafi talið rétt að sæma hann friðarverðlaunum fyrir það eitt að vera Obama. Þegar leið á embættisferil Obama var ljóst, að hann var ekki sérstakur friðarins maður sbr. stríðið í Afganistan, Írak og Sýrlandi.

Ólíkt Obama og öðrum fyrirrennurum sínum á þessari öld, hefur núverandi Bandaríkjaforseti ekki hafið neina styrjöld eða gert innrás í annað ríki. Ef einhver Bandaríkjaforseti hefur því unnið til friðarverðlauna Nóbels þá er það Donald Trump. 

Árið 2012 fékk Evrópusambandið verðlaunin og er sjálfsagt best að því komið af þeim sem hér eru nefnd, þó bandalagið hefði ekkert til þess unnið það árið. 

En það er annað bandalag, sem hefði átt skilið að fá friðarverðlaun Nóbel,Atlantshafsbandalagið eða NATO. NATO var og er friðar og varnarbandalag. Árangur af því varnarsamstarfi vestrænna þjóða hefur tryggt frið í okkar heimshluta í meir en 70 ár eða lengsta samfellda friðartímabil í Evrópu.

Vinstra fólkinu sem situr í úthlutunarnefnd friðarverðlauna Nóbels mun ekki koma í hug að láta þá sem hafa sérstaklega unnið að friði í heiminum eins og NATO og Trump njóta þeirra starfa sinna, þar sem ímynd sósíalisma og ríkishyggju vinstri sinnaðra stjórnmálamanna umlykja hvorugt þeirra. Þvert á móti hafa bæði NATO og Trump verið sérstakir skotspænir og talin vera ímynd hins illa í hugum vinstra fólks í heiminum þ.á.m. stórs hluta þeirra sem úthluta friðarverðlaunum Nóbels.

 

Friðarverðlaunanefndinni mundi þykja það algjör goðgá að velja NATO hvað þá Trump til að standa á þessum verðlaunapalli af því að vinstri sinnaðir einræðisherrar og hlaupatíkur Kínverskra kommúnista þykja ávallt betur til þess fallnar að hljóta verðlaunin hvernis svo sem friðaraviðleitni þeirra er háttað.

 

 


Sigurvegarar ársins

Forseti Evrópusambandsins, Úrsúla Geirþrúður frá Leyen og Boris Jónsson geta bæði fagnað sigri fyrir það að viðskiptasamningur Breta og Evrópusambandsins sé svo gott sem í höfn. Samningar sigldu ítrekað í strand, en þau Úrsúla og Boris gerðu sitt til að samninganefndirnar settust aftur og aftur við samningaborðið og hlutuðust til um atriði, sem réðu því að samningar náðust. 

Boris og Úrsúla eru ótvíræðir sigurvegarar ársins 2020.

Þar með er lokið margra ára þrautagöngu Breta við að komast þokkalega heilu og höldnu út úr Evrópusambandinu. Vonandi verður samningurinn báðum aðilum til góðs. Eitt er víst, að hefðu samningar milli Evrópusambandsins og Breta ekki náðst, hefðu báðir aðilar liðið fyrir það og mikil verðmæti tapast. 

Sennilega var það rétt hjá hinum skarpskyggna De Gaulle hershöfðingja og fyrrum Frakklandsforseta, að Bretar áttu ekki heima í Evrópusambandinu. Auk þess sá hann, að með aðild þeirra væri hætta á að öxullinn, sem öllu réði þá Þýskaland/Frakkland yrði þá ekki lengur einráður, en svo fór hinsvegar ekki. Fyrir vikið voru breskir hagsmunir hliðsettir oft á tíðum með þeim afleiðingum sem nú eru orðnar. 

Það eru mikil tíðindi, að Bretar sem hafa verið mestu áhrifavaldir á Evrópska þróun frá því á 18.öld fram yfir síðari heimstyrjöld, skuli nú vera utanveltu og algjörlega áhrifalausir. Þeir geta ekki lengur att Evrópuþjóðum í stríð hvort gegn öðru, hlutast til um málamiðlanir eða ógnað Evrópuþjóðum til að sitja og standa eins og þeir vilja, sem þeir hafa gert um aldir. 

Bretar sömdu um að deila fiskimiðum sínum að verulegu leyti með Evrópusambandinu. Um annað gátu þeir ekki samið. Athyglisvert hvað Evrópusambandið sótti það fast að njóta sem víðtækustu réttinda til fiskveiða í breskri lögsögu og vildu í lengstu lög ekki gefa neitt eftir. 

Þessi staðreynd ættu að sýna okkur Íslendingum, að aðild að Evrópusambandinu kemur, því miður eða sem betur fer, ekki til greina. Það er sá pólitíski veruleiki, sem íslenskir stjórnmálamenn ættu að gera sér grein fyrir. 


Neyðarástand

Aðalritari Sameinuðu Þjóðanna,öfgasósíalistinn Antonio Guterres krefst þess að þjóðir heims lýsi yfir neyðarástandi vegna meintrar hnattrænnar hlýnunar af mannavöldum. Jafnframt gagnrýnir hann "ríku" þjóðirnar, sem á hans tungumáli er gamla Vestur Evrópa og norður-Ameríka fyrir aðgerðarleysi í loftslagsmálum. Skynsemin og yfirlýsingar þessa aðalritara SÞ fara sjaldnast saman. 

En það er ekkert neyðarástand í loftslagsmálum. Ítrekað hefur verið sýnt fram á það með samanburði á hitamælingum hér á landi, að hlýnun er ekkert sérstök miðað við það sem áður hefur gerst og ástandið er ekkert slæmt síður en svo.  

Sósíalistinn Guterres hefur haft þau helstu baráttumál, að Evrópa taki við óendanlegum fjölda af svonefndum hælisleitendum og flóttafólki. En hann gerir enga kröfu á hendur öðrum ríkjum eða heimshlutum t.d. Saudi Arabíu, Kína, Japan og fleiri löndum sem taka ekki á móti neinu svonefndu flóttafólki. Af hverju skyldi hann ekki gera kröfur á hendur þeim ríkjum?

Krafa hans í loftslagsmálum beinist eingöngu að Vestur Evrópu og Bandaríkjunum, þrátt fyrir að þeir sem eru helstu sökudólgarnir skv. þessum trúarbrögðum eru Kína og Indland, sem og flestar aðrar þjóðir Asíu þar sem kolefnissporið er að aukast á meðan Vesturlönd fórna hagsmunum verkafólks síns og neytenda í stórum stíl á altari þessrar hjátrúar og samþykkja aukna kolefnsilosun þessara ríkja fram til 2030.

Hvað skyldi Guterres ganga til með því að gera endalausar kröfur á hendur Vestur Evrópu varðandi þessi tvö helstu áhugamál sín? Þessi barátta hans er til þess fallin, að draga efnahagslegan mátt úr Evrópu og Bandaríkjunum og veikja menningu þeirra. 

Kína sækir fram og ætlar sér að verða öflugasta stórveldið bæði á hernaðar- og viðskiptavsiðinu. Stjórnmálamenn í Vestur Evrópu hafa verið svo skyni skroppnir að þeir hafa lagt allt á sig til að hjálpa þeim að ná þessari yfirburðastöðu. Það sást heldur betur á síðasta leiðtogafundi Evrópusambandsleiðtoga hversu skyni skroppið þetta fólk er og tilbúið til að fórna eigin hagsmunum til að Kína og ýmsar aðrar þjóðir nái yfirburðarstöðu, en Evrópa veikist. 

Atonio Guterres náði þeim árangri sem forsætisráðherra Portúgal að koma landinu í alvarlega kreppu og kjósendur þar í landi höfnuðu honum í byrjun þessarar aldar. Þá tóku heimssamtök sósíalista sig til og komu því til leiðar að þessi foringi þeirra sem hafði hatast út í samkynhneigða, yrði aðalritari Sameinuðu þjóðanna. Spor þessa manns hræða og hann hefur ekki hikað við að reyna að breiða yfir og afsaka falsanir loftslagsráðs Sameinuðu þjóðanna, sem mælir stöðugt hækkandi hita á jörðinni með því að setja upp hitamæla þar sem heitast er og forðast með því að bera saman raunveruleikan og það sem þetta fólk vill að hafi gerst. 

Það er dapurlegt, að það skuli ekki vera forusta í Evrópu til að taka á bulli eins og kemur frá Antonío Guterres og standa vörð um hagsmuni evrópsks verkafólks og neytenda. Vonandi tekst Guterres ekki að eyðileggja efnahag Evrópu með sama hætti og honum tókst að gera gagnvart efnahag Portúgal meðan hann var forsætisráðherra þar í landi. 

 


Fullveldi að nafninu til?

Í dag er fullveldisdagurinn. Þennan dag fyrir 102 árum öðluðust Íslendingar fullveldi. Þá lýstu Danir yfir í samningi við íslensk stjórnvöld, að Ísland væri frjálst og fullvalda ríki. 

Frá þeim tíma höfum við kosið að deila fullveldinu mismikið m.a. með samningum við aðrar þjóðir m.a. með EES samningnum auk þess,sem við höfum samþykkt að fara eftir niðurstöðu Mannréttindadómstólsins í raun. 

Í dag kvað Mannréttindadómstóllinn í Strassbourg upp þann dóm, að íslenskur ráðherra og Alþingi hefði brotið gróflega af sér við skipun dómara til Landsréttar m.a. vegna þeirrar aðferðar sem Alþingi notaði við að greiða atkvæði um skipun dómara. 

Það er dapurlegt þegar þjóð sem telur sig vera frjálsa og fullvalda telur sig þurfa að hlíta valdboði frá Strassbourg í máli, þar sem íslensk stjórnvöld fóru að öllum lýðræðislegum reglum, máli, sem fékk nákvæma skoðun og ekki var hallað neinum lýðræðislegum rétti, mannréttindum eða pólitísku öryggi borgaranna. Þá er gjörsamlega fráleitt að skipun dómaranna í Landsrétti hafi getað leitt til þess að mannréttindi annarra en þeirra sem ekki fengu skipun væri hugsanlega brotin.

Með þessum dómi reynir Mannréttindadómstóll Evrópu að taka sér vald sem er óeðlilegt þegar í raun engin mannréttindi eru brotin, þó ekki væri farið í einu og öllu að niðurstöðu valnefndar eins og hún væri staðgengill Guðs  á jörðinni. 

Þetta er enn sérstakara þegar fyrir liggur að ábyrgð á skipun dómara er hjá ráðherra og Alþingi en ekki hjá valnefndinni.

Það er sjálfsagt kominn tími til að íslenska þjóðin taki nú undir með forföður sínum Jóni Loftssyni Oddaverja og segi.

"Heyra má ég erkibiskups dóm,en ráðinn er ég í að hafa hann að engu."


Of lítið. Of seint

Innanríkisráðherrar Evrópusambandsins samþykktu í gær að efla öryggi í álfunni og herða eftirlit á ytri landamærunum vegna ódæðisverka Íslamista í Austurríki og Frakklandi fyrir stuttu. 

Þess var minnst, að 5 ár eru liðin frá stórfelldum hryðjuverkum Íslamista í París og víðar. En af hverju var ekki brugðist við þá með hertum aðgerðum? 

Ráðamenn Evrópu bera mikla ábyrgð á því að bregðast ekki við af hörku fyrr. Fyrir 5 árum mátti staðan í þessum málum vera ljós. Hættan var veruleg ekki síst vegna þess að fjölmargir múslimar í Evrópu telja ekkert athugavert við hryðjuverkin og sumir dásama hryðjuverkamennina. 

Fólkið í Evrópu hefur lengið krafist þess, að reglur yrðu hertar, en ráðamenn hafa frestað því ítrekað sennilega af ótta við að verða kallaðir rasistar og níðingar eins og "góða fólkinu" er svo tamt að kalla þá sem vilja gera ráðstafanir í samræmi við heilbrigða skynsemi varðandi móttöku fólks frá íslömskum löndum. 

Hryðjuverk, morð og víðtækar nauðganir hafa verið afleiðingar andvaraleysis ráðamanna Evrópu og nú er boðað til aðgerða, enn einu sinni, sem frekast virðast miða við, að friða almenning og láta sem verið sé að gera eitthvað. 

Á sama tíma fara ráðamenn Íslands að, eins og sjáandi sjái þeir ekki og heyrandi heyri þeir ekki. Ógnin og vandinn sem liggur fyrir vegna móttöku svokallaðra flóttamanna hefur legið fyrir um árabil og einmitt þá æða íslenskir stjórnmálamenn ofan í það sama fen og er í Evrópu til að búa til ógn gegn öryggi borgara þessa lands og valda víðtækum vandamálum í framtíðinni. 

Því miður í boði Sjálfstæðisflokksins voru búin til vitlausustu útlendingalög sem til eru í álfunni. Auk heldur hafa landamæri Íslands orðið þau galopnustu í Evrópu með þeim afleiðingum að við tökum nú við fleiri flóttamönnum og kvótaflóttamönnum en önnur Norðurlönd. 

Sjá íslenskir stjórnmálamenn virkilega ekki ástandið í Svíþjóð, þar sem forsætisráðherra landsins Stefan Lövgren viðurkennir að um ógn sé að ræða og lögreglan ráði ekki við vandamálin á fjölmörgum svæðum. Sjá menn ekki að Danir m.a. danski forsætisráðherrann sem líka er sósíaldemókrati gengur í að herða reglur til að stemma stigu við þessum vágestum m.a. með skírskotun hvernig ástandið er í Danmörku. 

Íslenskir stjórnmálamenn neita að horfast í augu við vandann og gera ekkert. Dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins lætur það viðgangast, að félagi hryðjuverkasamtaka Íslamista fái landvist á Íslandi með fjölskyldu sinni. Öryggi fólksins í landinu er greinilega ekki í fyrsta sæti á þeim bæ.

Íslensk stjórnvöld verða að bregðist við með hagsmuni íslensku þjóðarinnar að leiðarljósi og gera m.a. víðtækar breytingar á útlendingalögunum og taki upp þá reglu að þeim sem geta ekki gert grein fyrir sér og komu sinni verði vísað tafarlaust til baka og skylda þann flutningsaðila,sem kom með fólkið að flytja það til baka. 

Það er ekki of seint að bregðast við. En tíminn styttist óðum. Við viljum ekki lenda í sama vanda og Svíar og Danir.  


Lýðræði í kröppum dansi.

Kommúnistastjórnin í Kína nýtir sér heimsfaraldurinn sinn, til að herða tökin meðan ríki  Evrópu og Ameríku eru nánast lömuð. 

Tíbetbúar og Uigurar búa við harðræði eins og fyrr og eru annars flokks borgarar með öllu því illa sem því fylgir. Nú er einnig hert á aðgerðum gegn lýðræði í Hong Kong.

Þrátt fyrir loforð um eitt ríki tvö kerfi þegar Bretar yfirgáfu Hong Kong og Kína tík við, þá virðist sem að kommúnistastjórnin í Peking telji, að kerfin tvö gangi ekki upp saman. Í gær sögðu síðustu lýðræðissinnarnir á þingi Hong Kong af sér og Vesturlönd láta eins og sú frétt skipti ekki máli. 

Vesturlönd eru sem lömuð m.a. vegna skorts á sameiginlegri stefnumótun hugmyndasnauðra hræddra stjórnmálamanna,sem hafa enga hugmyndafræðilega staðfestu og hafa alist upp við áhyggjulaust líf í partýinu, þar sem embættismennirnir taka í raun nánast allar ákvarðanir.

Kínastjórn tilkynnti 4.9% hagvöxt á síðasta tímabili og segist hafa lagt veiruna að velli. Kommúnistastjórnin telur því að það sé hentugur tími til að leggja til atlögu gegn frelsinu í Hong Kong. 

Kínastjórn telur auk heldur, að ekkert sé að óttast frá Bandaríkjunum ef Biden verður forseti. Frelsið víkur og svonefnd frjáls Vesturlönd láta það yfir sig ganga og halda áfram viðskiptum og öðrum samskiptum við Kína eins og ekkert hafi í skorist. Við deyjum ekki fyrir Dansig eina sögðu undanlátsmenn gagnvart þýsku nasistunum fyrir 80 árum. Nú segja þeir. Hong Kong er hvort sem er í Kína kemur þessi borg okkur við? 

Kemur lýðræði, frelsi og mannréttindi okkur nokkuð við. Eigum við ekki frekar að hafa það gott meðan við getum þó við fljótum sofandi að feigðarósi?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 304
  • Sl. sólarhring: 312
  • Sl. viku: 3805
  • Frá upphafi: 2513609

Annað

  • Innlit í dag: 286
  • Innlit sl. viku: 3563
  • Gestir í dag: 271
  • IP-tölur í dag: 267

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband