Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Evrópumál

Glæsilegur sigur hægri manna á Ítalíu. Til hamingju Ítalía.

Hægri fylkingin á Ítalíu vann góðan sigur í þingkosningunum í gær. Talið er að hægra bandalagið muni fá allt að 60% þingsæta í báðum deildum ítalska þingsins.

 

Sigurvegari kosningana er Giorgia Meloni í flokki sem fjölmiðlaelítan á Vesturlöndum  hefur stimplað sem fasistaflokk. Þegar stefna Meloni og flokks hennar er skoðuð, þá verður ekki séð að um svonefndan hægri öfgaflokk sé að ræða eða stjórnlyndan andlýðræðissinnaðan flokk eins og fasistar voru. 

Nú þegar Meloni hefur unnið góðan sigur og fylgi rúmlega 26% þjóðarinnar og hægri fylkingin með góðan meirihluta, þá segja þessir sömu fjölmiðlar að nú fái Ítalía hægri sinnuðustu stjórnna frá því að gamli Benito Mussolini var við völd fyrir 100 árum. Hugmyndafræði hans var hinsvegar rótfest í sósíalisma og hann var pennavinur Lenin. Stjórn Mussolini var því engin hægri stjórn, en vonandi verðu stjórn Meloni það og því ólík stjórn Mussolini.

Sérkennilegt að konur skuli ekki fagna því, að kona verði forsætisráðherra í fyrsta skipti á Ítalíu. E.t.v. passar það ekki vinstri sinnaðri femínistahreyfingu að gera það. 

En hver eru helstu baráttumál Meloni og flokks hennar?

Aðaláherslan er fjölskyldan og hefðbundin fjölskyldugildi. Er það öfgafull hægri stefna?

Í annan stað leggur Meloni áherslu á að stjórna með þeim hætti, að fólk verði stolt af því að vera Ítalir. Sjálfsagt ofstopafull hægri stefna eða hvað?

Hún hafnar því að samtökin 78 hafi með kynfræðslu í skólum Ítalíu að gera. Eitthvað sem að íslensk stjórnvöld og bæjarstjórnir ættu líka að gera enda sérstakt þegar kirkjan má ekki koma með sína boðun í skólana, en transarar mega prédika fagnaðarerindi kynskiptaaðgerða. 

Meloni vill að Ítalir taki stjórnina á landamærum landsins og takmarki innflutning fólks. Er það öfgafull hægri stefna að vilja stjórna landamærum eigin ríkis. Valdhafarnir í Brussel segja það.

Sú afstaða Meloni, að hafna kynfræðslu samtakanna 78 á Ítalíu og berjast gegn óheftum innflutningi og útbreiðslu Íslam á Ítalíu hefur orðið til þess að Evrópusambandið og Gilitrutt von der Leyen hóta öllu illu ef stjórn Meloni ætlar að gera alvöru úr því að framkvæma stefnu sína í innflytjendamálum og hafna forsjá samtakanna 78 í kynfræðslumálum skólabarna.

Þá liggur það alla vega fyrir hvað eru mikilvægustu og hjartfólgnustu baráttumál Evrópusambandins og þingmenn á Íslandi mættu skoða það hvort þeir vilja lúta yfirþjóðlegu valdi eins og strákana í Brussel og sætta sig við það að geta ekki tekið sínar eigin pólitísku ákvarðanir án þess að eiga það á hættu að Evrópusambandið beiti refsiaðgerðum. 

Raunar má segja að sigur Meloni og félaga hafi um leið verið ósigur Evrópusambandsins. Nú bætist Ítalía í flokk með Pólverjum, Slóvökum og Ungverjum o.fl., sem hafna stefnu Evrópusambandsins í þessum málum og gera kröfu til þess að njóta fullveldis varðandi það hvað börnum er kennt í skólum og hverjir fái að setjast að í löndum þeirra. 

Er það virkilega svo, að það sé stór hópur þingmanna á Íslandi,sem vill afsala fullveldi íslensku þjóðarinnar til Brussel og sæta því að búa við ógnanir, hótanir og refsiaðgerðir Evrópusambandsins ef ekki er farið að því sem valdhafarnir í Brussel vilja. Það er nauðsynlegt að afhjúpa þá, sem vilja selja fullveldi þjóðarinnar fyrir baunadisk eins og Esaú gerði forðum þegar hann afsalaði sér fæðingarrétti sínum.

 


Stjórnarskipti í Svíþjóð

Þegar örfá atkvæði eru ótalin í sænsku kosningunum er hægri blokkin með meirihluta og tekst vonandi að koma á starfhæfri ríkisstjórn.

Stórtíðindi kosninganna er að Svíþjóðardemókratarnir eru orðnir næststærsti flokkur Svíþjóðar með yfir 20% fylgi. Við sem eigum hugmyndafræðilega samleið í innflytjendamálum með Svíþjóðardemókrötum bæði fögnum þessari niðurstöðu og óskum þeim til hamingju með gott starf og árangur. 

Hingað til hafa aðrir hægri flokkar komið fram við Svíþjóðardemókratana eins og þeir séu óhreinir. Góðir til að styðja hina, en eigi samt engu að ráða. Þannig er ekki hægt að fara að í pólitík og þessi afstaða tryggir eingöngu sósíalistum áframhaldandi völd. 

Staðreyndin er sú, að einn af hverjum 5 Svíum telja Svíþjóðardemókratana hæfasta til að leiða landsstjórnina. Það þýðir því lítið fyrir talsmenn flokka með 5-6% fylgi að vandræðast með að þeir séu ekki nógu góðir. Kjósendur hafa alltaf síðasta orðið í lýðræðisþjóðfélagi.

 

Svíar þrufa að fá góða starfhæfa ríkisstjórn hægri manna til að taka á orkuvandamálunum, bregðast við glæpagengjunum og vandamálum sem innflytjendastefna Svíþjóðar hefur valdið. Það er brýnt að vitræn ríkisstjórn taki við í Svíþjóð eftir langvarandi óstjórn sósíalista þar sem allt hefur rekið á reiðanum og ástandið orðið verra og verra. 


Að snúa hlutum á haus.

Formaður Moderata Samlingspartiet(mið-hægriflokkur) leggur áherslu á að Svíar taki kjarnorkuver í notkun að nýju. Það mátti sósíalistinn forsætisráðherra ekki heyra og staðhæfði, að þá væri samstaða Evrópu rofin og þetta væri í þágu Pútín. 

Þarna var hlutum gjörsamlega snúið á haus. Það eru augljósir hagsmunir Svía að vera sjálfum sér nógir í orkumálum og þurfa ekki að leita á náðir Rússa til að fólk geti hitað heimili sín, kveikt á ljósaperum eða ekið rafmagnsbílum. Grænu lausnirnar og vindmyllurnar eru aumur valkostur þegar allt kemur til alls.

Í ræðu á Alsherjarþingi Sameinuðu Þjóðanna 2018 sagði Donald Trump þá Bandaríkjaforseti, að Þjóðverjar yrðu algerlega háðir Rússum með orkuöflun ef þeir héldu svona áfram. Þá var ekki brugðist við og sagt þetta er bara Trump af "framsýnu" stjórnmálaelítunni í Evrópu.

Svíar væru heldur betur í betri stöðu ef þeir hefðu hlustað á Trump og brugðist við í stað þess eins og sænski forsætisráðherrann gerði að stinga höfðinu í sandinn eins og strútur og færa Pútín öll trompspilin í hendurnar. Vonandi hafna sænskir kjósendur þessum sósíalska ruglanda í kosningunum


Örbirgð og kuldi

Stjórnmálastétt Evrópu, hefur um árabil hamast við að loka orkuverum og stuðla að svonefndum orkuskiptum, til þess, að koma í veg fyrir hlýnun af mannavöldum. Afleiðingin er hærra orkuverð til neytenda og heljartak Rússa á orkusölu.

Vinur minn í Danmörku á twin bifreið segir orkuverðið svo hátt, að honum detti ekki í hug að keyra á rafmagni, það sé miklu dýrara en bensínið.

Nú eru verksmiðjur í Evrópu, að draga úr framleiðslu og fólk býr sig undir helkaldan vetur. Orkuverð er svo hátt, að fólk hefur ekki efni á að hita húsin sín. 

Afleiðing af glórulausu ofstæki í orkumálum og hjátrú loftslagsbreytinga, verður til þess, að í vetur verður helkuldi víða á heimilum í Evrópu,af því að fólk hefur ekki efni á að hita upp. Framleiðsla dregst saman og örbirgð eykst vegna minni þjóðarframleiðslu. 

Kaldhæðni örlaganna verður þá, að fjöldi þeirra sem deyr úr kulda í Evrópu margfaldast vegna tilrauna stjórnmálastéttarinnar til að koma í veg fyrir að fólk deyi úr hita.

Því miður virðist íslenska stjórnmálaséttin jafnlangt gengin í ruglandanum og sú evrópska og hefur skuldbundið þjóðina til að greiða milljarðatugi á næstu árum á grundvelli Parísarsamkomulagsins svonefndas, sennilega af því að fólki finnst vera allt of  hlýtt á Íslandi. 

Á sama tíma berst forusturflokkur ríkisstjórnarinnar Vinstri grænir gegn því að vistvæn vatnsafls orkuver verði reist í landinu en hyggst leysa vandann með því að drita niður vindmyllum um allar koppagrundir. 

Væri ekki ráð að aftengja Vinstri græna frá forustu í íslenskri pólitík áður en þeir ná því marki að skapa sama ástand hér og ríkir nú í Evrópu.


Aðgöngumiðinn að NATO

Í nótt gerði NATO ríkið Tyrkland loftárás á annað ríki, Kúrda héruð í Írak og drápu 8 ferðamenn. Tyrknesku sprengjunum var að sjálfsögðu ætlað að drepa sem felsta Kúrda en hæfðu aðra.

Tyrkir hafa um árabil beitt Kúrda í Tyrklandi miklu harðræði og svipt fjölda þeirra mikilvægum mannréttindum og fangelsað fjölda þeirra. Þeir hafa ráðist á Kúrda bæði í Írak og Sýrlandi og studdu Íslamska ríkið með ýmsu móti til að þeir næðu að drepa sem flesta Kúrda,kristið fólk og Yasida. 

Tyrkland bandalagsríki okkar í NATO neitar hluta borgara sinna að njóta grundvallarmannréttindi og neitar að viðurkenna sök sína á þjóðarmorði á Armennum á síðustu öld og drepur Kúrda í nágrannaríkjum Tyrklands eftir hentugleikum. 

Fyrir skömmu sóttu Finnland og Svíþjóð um aðild að NATO. Því var tekið fagnandi af öllum þjóðum nema Tyrklandi og eins og alltaf í samskiptum hvort heldur við Evrópusambandið eða NATO setur Erdogan Tyrkjasoldán skilyrði.

Svíar mega ekki vera í NATO nema þau svipti Kúrda sem flúið hafa undan ofsóknum Tyrkja þeirri vernd sem Svíar hafa veitt þeim og framselji þá til Tyrklands. Svíar eiga að framselja 75 einstaklinga til Tyrklands og þeirra bíða ógnvænlegri örlög en allra þeirra sem sótt hafa um alþjóðlega vernd á Íslandi undanfarin ár.

Sagt var frá því að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Íslands hefði haft aðkomu að því að samningar náðust við þursaríkið Tyrkland um að Svíar og Finnar kæmust inn í NATO og 75 einstaklingar í neyð yrðu sviptir alþjóðlegri vernd í Svíþjóð. Það var heldur betur illa gert af þeim sem að þessum samningum stóðu eða komu nálægt þeim. 

Það er fordæmanlegt að NATO ríkin skuli heimila þursaríkin Tyrklandi að vera í NATO hvað þá að láta sem þau sjái ekki mannréttindabrot Tyrkja gagnvart eigin borgurum og árásarstríð þeirra gegn Kúrdum og til að bíta höfuðið af skömminni að samþykkja að aðgöngumiði Svía og Finna í NATO sé að þeir framselji fólk sem hefur hlotið alþjóðlega vernd í þessum löndum. Yfir það blessar síðan íslenski forsætisráðherrann. 

Forustumenn NATO ríkjanna mega skammast sín sem og ráðamenn í Svíþjóð að gangast undir þetta ómannúðlega ok Erdogan. Í hverskonar veruleika lifir er þetta fólk.

Á sama tíma brosir Erdogan breitt á leiðtogafundi með Pútín og erkiklerknum í Íran. Sá veruleiki fer sennilega líka framhjá leiðtogum annarra NATO ríkja.

 

 


Falsfréttir

Vegna hitabylgju í suðurhluta Evrópu, sem nær því miður ekki til okkar var því slegið föstu að nú væri um alveg einstaka atburði að ræða og hitamet væru slegin hvert á öðru. Veðurfræðingur gærdagsins var greinilega óviðbúinn tekinn til að vitna um að þetta sýndi ótvírætt hlýnun af mannavöldum. Hann varðist vel, en sagði í lokin að marsmánuðu 2022 væri sá hlýjasti sem mælst hefur. Ekki urðum við sem vorum á Spáni í  mars vör við það og skv. Alþjóðaveðurfræðistofunni NOAA var fjarri því að hitamet hafi fallið á Spáni í mars s.l. 

Í frétt á Al Jaseera um daginn var sagt að mikill flóttamannastraumur frá Tigra héruðum Eþíópíu væri vegna loftslagsbreytinga og ófriðar í landinu. Þetta var rangt. Loftslagsbreytingar höfðu ekkert með þetta að gera heldur innrás Eþíópíuhers inn í Tigrahéruðin undir forustu friðarverðlaunahafa Nóbels, sem nú ræður ríkjum í landinu. 

Í Eþíópíu ríkti sár hungursneyð um og eftir 1970 vegna gríðarlegra hita og þurka . Þá var ástandið mjög alvarlegt og sár hungursneyð í landinu. Svarti húmorinn sagði þá. Hvort eru fleiri íbúar í suður eða norðurhluta Eþíópíu og svarið var. Það fer eftir vindátt.

Nú er ástandið allt annað og mun betra. Sumir segja vegna þess að koltvísýringsmagn hafi aukist í andrúmsloftinu sem bætir vaxtaskilyrði jarðargróða. 

Því er haldið fram að hitamet séu slegin hvert af öðru á Spáni í hitabylgjum sumarsins. Það er líka rangt. Mesti hiti sem mælst hefur var 51 gráða í Sevilla þ.30.7.1876 og 4.8.1881 mælingarnar eru að vísu ekki taldar algjörlega áreiðanlegar. 

Mesti hiti sem mælst hefur á Tenerife mældist þ.17.7.1978 47.5 gráður í Baranco de Masca. Önnur hitamet á Spáni þ.e. yfir 47 gráður eru frá 1864 (Badajoz) 1946 (Sevilla) 2012 (Mengibar) og 2017 (Montaro)

Hvort sem fólk hefur trú á manngerðri hlýnun eða ekki þá er lágmarkið að dreifa ekki falsfréttum eins og viðurkenndar ríkisreknar fréttastofur sem og ýmsar aðrar hamast við að gera á degi hverjum. Það eru þær sem eru uppspretta alvarlegustu falsfrétta í dag því miður.  


Svíar og Finnar í Nato og aukin hernaðarumsvif bandalagsins

Enn einu sinni er forsætisráðherra þjóðarinnar, Katrín Jakobsdóttir mætt á ráðsfund NATO. Þar verður ákveðið að Svíar og Finnar verði aðildarþjóðir að NATO og eru þá allar Norðurlandaþjóðirnar aðilar að varnarbandalaginu. 

Jafnframt hefur verið tilkynnt, að ákveðið verði að fjölgað verði gríðarlega í viðbragðsher bandalagsins, þannig að Katrín Jakobsdóttir mun fyrir Íslands hönd samþykkja að taka inn nýjar aðildarþjóðir Finna og Svía og auka hernaðarumsvif bandalagsins verulega.

Hér heima berst hún hinsvegar fyrir úrsögn Íslands úr NATO og herlausu landi. 

Sennilega hefur aldrei verið í þessu landi ráðherra eins mikils tvískinnungs og forsætisráðherrann okkar. Hversu langt geta menn gengið í pólitík að tala tungum tveim og tjá sig sitt með hvorri. 

Eða eins og Hamlet Danaprins sagði. "Að vera eða vera ekki það er spurningin"


Aftur til fortíðar

Ánægjulegt að sjá að einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Birgir Þórarinsson skuli skrifa grein til stuðnings  dómsmálaráðherra í málefnum ólöglegra hælisleitenda. Margir spurðu hvar eru hinir 16?

Sjálfsskipaðar mannvitsbrekkur á vinstri vængnum láta sitt hinsvegar ekki eftir liggja og hafa farið fram af miklum ofstopa. Ríkisútvarpið hefur auk heldur farið hamförum til að koma í veg fyrir að farið verði að lögum. Ekki er nú hlutlægni og hlutleysi fyrir að fara á þeim  bænum nú sem fyrr.

Dapurlegt hversu langt þessi galna umræða hefur leitt sumt ágætis fólk á vinstra vængnum. Þröstur Ólafsson hagfræðingur sem hefur margt vitlegt gert og sagt síðustu áratugi,virðist kominn aftur til öfga sinna fyrir hálfri öld síðan í þessu máli.

Í fésbókarfærslu sem Þröstur skrifar þ. 24. maí s.l. segir hann:

"Það er óþægilegt að vera Íslendingur og bera æabyrgð á brottvísun þrjú hundruð flóttamanna á einu bretti. Mannúðin er slík að engu er eirt,og þessi hvítþvegni rasismi er framkvæmdur í nafni reglugerðar eins og Wansee reglugerð var réttlæting á flutningi gyðinga í vinnu-eða útrýmingarbúðir."

Þröstur sakar í þessari færslu íslensk stjórnvöld um rasisma og líkir brottvísun ólöglegra hælisleitenda við útrýmingarherferð nasista á Gyðingum og vísar í leynifund sem æðstu menn SS hreyfingarinnar gengust fyrir á hóteli við Wansee í Þýskalandi. Brottflutningi ólöglegra hælisleitenda hér er líkt við handtöku og nauðungarflutninga Gyðinga í útrýmingarbúðir á síðustu öld. Þar var markmiðið að drepa sem flesta helst að útrýma Gyðingum í Evrópu.

Svona tala ekki skynsamir menn nema öfgarnar beri vitræna hugsun þeirra algjörlega ofurliði í einhverri sjálfsupphafningu meintrar góðmennsku. Mér þykir miður að Þröstur skuli aftur kominn í þann gírinn og vona að hann hrökkvi  úr honum fljótlega.

Staðreyndirnar eru þessar í málinu.

Þeir sem hingað komu og er gert að yfirgefa landið komu af frjálsum og fúsum vilja. Þeir byggðu umsókn sína um alþjóðlega vernd á röngum upplýsingum og lygum og fjallað var um mál þeirra skv.lögum réttarríkisins Íslands. Þeir völdu sér lögmann, sem skattgreiðendur greiddu fyrir ekki þeir. Þeir hafa  dvalið  hér á kostnað skattgreiðenda en hafa neitað að fara þrátt fyrir að þeir hafi ekki neinn rétt til að vera í landinu. Samt sem áður hefur ríkið greitt fyrir uppihald þeirra, læknisaðstoð o.fl. o.fl. Ástæða þess að ríkisvaldið þarf að hlutast til um brottflutningin er að þetta fólk,sem er af mismunandi kynþáttum og húðlit þannig að vart er rasisma fyrir að fara, neitar að fara þó það hafi engan rétt til að vera hér. Þessvegna verður ríkið að standa straum af og annast um brottflutning þess til þeirra staða þar sem þeir höfðu áður sótt um og fengið alþjóðlega vernd eða til síns heima ef það er talið öruggt. Margt af þessu er umfram skyldu Íslands skv. alþjóðlegum samningum. 

Allar þessar aðgerðir eru fyrir opnum tjöldum á grundvelli laga settum með lýðræðislegum hætti og reglugerðir allt í samræmi við  það sem veitir umsækjendum um vernd meiri rétt en tíðkast víðast hvar í löndum annarsstaðar í heiminum. Hvílíkt offors þá og ofstæki er það að líkja þessum réttmætu og sjálfsögðu aðgerðum við aðgerðir nasista í helförinni gegn Gyðingum og saka stjórnvöld og embættismenn um rasisma. 

Vandamál okkar er ekki brottflutningur fólks sem á engan rétt á að vera hér heldur það, að löggjöf okkar í málefnum útlendinga er svo galin að hingað koma jafnmargir miðað við fólksfjölda og til allra hinna Norðurlandanna. Þannig getur það ekki gengið og við verðum að vera með löggjöf og verklag sem er svipuð og t.d. í Danmörku.  Allt annað er glapræði  gegn velferð þjóðarinnar. 

Vona að fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins átti sig á hversu mikilvæg þessi umræða  er og hve alvarlega verður vegið að velferðarkerfi þjóðarinnar haldi þessi vitleysa áfram óbreytt.

 


Hörundsdökki guðfræðingurinn

Calvin Robinson er hörundsdökkur guðfræðingur í Bretlandi. Yfirstjórn bresku Biskupakirkjunnar er ósátt við skoðanir hans og þess vegna fær hann ekki embætti. Calvin er sagður mjög hæfileikaríkur og svari til þess besta sem þekkist að öllu leyti nema einu.  Hann er ekki með réttar skoðanir að mati þeirra sem ráða.

Calvin hafnar því að hann sé kúgaður og segir að um leið og hann segi að hann sé ekki kúgaður þá sé eins og hann tapi húðlitnum sínum og öllu því tilheyrandi vegna rangra skoðana.

Calvin er andvígur bull-rugl hugmyndafræðinn (woke)og mótmælir því að Bretland sé land þar sem rasismi sé allsráðandi. Hann mótmælir því að um sé að ræða stofnanalegur rasismi innan biskupakirkjunnar og bendir á að helstu yfirmenn kirkjunnar eins og Wellby erkibiskup eigi þá að segja af sér fyrst hann haldi þessum kenningum á lofti því að það þýði þá að hann sé sjálfur hluti  af vandanum, vanhæfur ófær um að leysa hann. 

Calvin bendir á að þetta bull-rugl sé ekki bara bundið við kirkjuna heldur hafi það sýkt allar stofnanir í landinu, sem sé stjórnað af vinstra liðinu, sem vilji gera sem minnst úr eigin menningu og arfleifð. Athugið að guðspjallið skv. bull-rugl stefnunni ætlast til þess að fólk sem er ljóst á hörund segi mér höfundsdökkum manni hvað rasismi sé og krossfesti mig þegar ég er ekki sammála því segir Calvin. 

Sjálfshirtingarstefna vinstri manna nær greinilega inn í kirkjuna á Bretlandi ekkert síður en hér. Verst er hvað hún er fasísk í eðli sínu og hafnar eðlilegum skoðanaskiptum og gerir kröfu til þess, að þeir sem hafa aðrar skoðanir en viðteknar vinstri bull-rugl skoðanir fái ekki embætti eða verði reknir úr þeim hafi þeir fengið þau. 

Er ekki kominn tími til að snúa vörn í sókn og andæfa af fullum þunga gegn vinstra ruglinu. Calvin hefur heldur betur gert það og stendur við skoðanir sínar þó það valdi honum tímabundnum vandræðum.

Far þú og gjör slíkt hið sama. 


Viðskiptaþvinganir og mannréttindabrot.

Viðskiptaþvinganir eru slæmar og bitna bæði á þeim beita þeim og eru beittir þeim. Við höfum reynsluna með því að beita Rússa viðskiptaþvingunum,sem hafa eingöngu skaðað okkur.

En Vesturlönd hafa tekið það ráð að beta Rússa viðskiptaþvingunum og hertum viðskiptaþvingunum og enn hertari viðskiptaþvingunum. Þessar aðgerðir bitna á Rússum, en einnig á þjóðum Evrópu þannig að alvarlega horfir á sumum sviðum.

Sú var tíðin um  nokkur hundruð ára skeið í Evrópu, að styrjaldir voru milli herja á vígvelli, en viðskipti borgaranna gengu fyrir sig eins og venjulega. Þegar Þjóðverjar settust um París í september 1870 þótti það brot á þeim óskráðu reglum í styrjöld að styrjaldarrekstur ætti ekki að bitna á óbreyttum borgurum

Nú þykir það því miður ekki tiltökumál þó að stríðsrekstur bitni á óbreyttum borgurum eignir þeirra eyðilagðir og þeir drepnir.

Í þrjátíu ár hafa Evrópubúar getað ferðast landa á milli með tilltölulega litlum takmörkunum og fólk hefur sótt sér vinnu í ýmsum þjóðlöndum. Þannig hafa þjóðir Austur Evrópu sótt til Vesturlanda eftir að þeir losuðu sig við ok kommúnismans. Í þessum hópi hafa verið rússneskir  ríkisborgarar eins og Úkraínskir, litháískir eða pólskir o.fl.  o.fl. Umtalsverður fjöldi vinnandi fólks af þessum þjóðernum hefur því búið og starfað um alla Evrópu  undanfarna áratugi.

Nú bregður svo við, að Vesturlönd ákveða að fólki með rússneskt ríkisfang á Vesturlöndum skuli refsað sérstaklega m.a. með því að takmarka ferðafrelsi, skrá ekki eigur þeirra og takmarka eða loka á bankaviðskipti. Í flestum  tilvikum er ekki verið að tala um ólígarka eða ofurríka einstaklinga heldur venjulegt vinnandi fólk, sem hefur ekki önnur samskipti við Rússland en í gegnum ættingja og vini og ræður engu um innanlandsstjórnmál þar í landi. Hvað réttlætir þá að beita fólk af rússnesku bergi brotið víðsvegar í Evrópu sérstökum refsiaðgerðum þó það  hafi ekkert til saka unnið og hafi ekkert með stríð við Úkraínu að gera. 

Finnst okkur réttlætanlegt að mismuna fólki í okkar landi eftir þjóðerni? Finnst okkur rétt að starfsfólk og annað venjulegt fólk af rússnesku bergi brotið njóti ekki sömu mannréttinda og aðrir í okkar landi og geti notið atvinnufrelsis og átt eðlileg bankaviðskipti óháð því að ríkisfangið sé rússneskt. 

Hvernig verður það réttlætt, að við mismunum fólki á grundvelli þjóðernis þegar í íslensku stjórnarskránni 65.gr. segir: 

 Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.

Er ekki rétt að íslenska ríkisstjórnin skoði þessi mál í þaula og gangi ekki á mannréttindi fólks vegna þjóðernis.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.4.): 14
  • Sl. sólarhring: 634
  • Sl. viku: 2335
  • Frá upphafi: 2506097

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 2181
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband