Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Ber vonin skynsemina ofurliði

Gleðilegt ár 2021. 

Árið 2021 verður gleðilegt ef við vinnum rétt úr þeim forsendum og möguleikum sem eru í boði og yfirvöld hamli ekki eðlilegu lífi borgaranna og taki réttar ákvarðanir. Erfiðir tímar vara aldrei að eilífu.

Með tilkomu bóluefnis í lok síðasta árs fylltist heimsbyggðin nýrri von um að takast muni að ráða niðurlögum Covid faraldursins. Vonandi gengur það eftir. Í fagnaðarvímu vegna þess, má þó óskhyggjan ekki bera skynsemina ofurliði. 

Þegar ráðherrar, þríeykið og annað þotulið opinberra Covid aðgerða þustu í vöruhús til að taka á móti tveim pappakössum með hinni mestu viðhöfn og tilheyrandi hátíðarræðum virtist samt sem að nú hefði óskhyggjan borið skynsemina ofurliði auk annars. Af hátíðarræðunum að dæma varð ekki annað skilið en nú væri komin hin afgerandi lausn sem mundi leysa þjóðina og þjóðir heims úr Covid viðjunum endanlega.

En er það svo?  Vonandi. En við þurfum samt að spyrja: Erum við að hrapa að niðurstöðu án réttra forsendna?

Í grein eftir Robert Dingwall prófessor í Daily Telegraph í dag segir hann m.a.: 

að áhættan af því að deyja eða veikjast alvarlega af Covid minnki mikið með tilkomu bóluefnanna, en hann bendir jafnframt á, að ekki hafi verið sýnt fram á, að þeir sem bólusettir eru geti ekki smitað eftir að hafa verið bólusettir. Þess vegna sé allt tal um sérstaka passa fyrir þá sem eru bólusettir algjör vitleysa. Þessi staðhæfing kemur á óvart, að fólk geti hugsanlega smitað þrátt fyrir að vera bólusett.

Þá segir Dingwall að litlar líkur séu á því að þeir sem eru bólusettir fái alvarlegri sjúkdómseinkenni eða deyi, en heilbrigt fólk á milli 16 og 60 fái núna. Sem bendir til þess, að það sé óþarfi fyrir heilbrigt fólk á þeim aldri að láta bólusetja sig auk þess sem það tekur þá hugsanlega meiri áhættu en það ella mundi gera. 

Af grein Dingwall verður síðan ekki annað skilið, en að þrátt fyrir bólusetningar þá verði þjóðfélagið samt að taka ákvörðun um við hvaða hættustig það vill búa, sem bendir til, að hann hafi ekki mikla trú á að bóluefnin sem komin eru á markað leysi í sjálfu sér þann vanda sem við er að eiga endanlega, því miður.

Séu þessar upplýsingar Dingwall réttar, sem ekki er í sjálfu sér ástæða til að efast um, þar sem hann hefur hingað til verið talin maður orða sinna og gegnir ráðgjafarstörfum fyrir bresku ríkisstjórnina, þá er spurning hversvegna sú forgangsröðun er ekki viðhöfð, að setja fólk eldra en sextugt, sem vill taka áhættuna á að láta bólusetja sig í algjöran forgangshóp.

Spurningin er þá líka hvort það sé ástæða til að hvetja heilbrigt fólk sem er undir sextugu til að láta bólusetja sig að teknu tilliti til þeirrar áhættu sem því óhjákvæmilega fylgir. 

En þá er þeirri spurningu ósvarað og ekki um það fjallað í ofangreindri blaðagrei:

Hvort líkur eru á því að þau bóluefni sem í boði er virki til lengri tíma?  Einnig:  Hvaða hugsanlegar afleiðingar bólusetning sem er innrás í genamengi fólks kunni að hafa? 

Það er eðlilegt að fólk hafi fyllst hrifningu yfir því að bóluefni gegn þessari veiur skyldi verða til. En meðan það hefur ekki hlotið viðunandi prófun og er haldið þeim annmörkum sem á hefur verið bent, þá er spurning hvort ekki eigi við orðtakið: 

Svo skal böl bæta að bíði ei annað verra. 


Landakot og aðrir valkostir. Hvers er ábyrgðin?

Niðurstaðan úr könnun Landsspítalans á orsökum hópsmitsins á Landakoti, alvarlegasta hópsmitsins í Cóvíd faraldrinum, var sú að húsnæðið hefði verið ófullnægjandi. Sóttvarnarlæknir sagði af því tilefni, að það hefði öllum verið ljóst í töluverðan tíma. Fleiri tóku undir það.  

Nú liggur fyrir að aðrir kostir voru í boði, sem hefðu gert mögulegt að koma í veg fyrir þetta. En það var hjá einkaaðilum, sem heilbrigðistráðherra vill helst ekki eiga samskipti við.

Ekkert gert og ófullkomna hættulega húsnæðið var notað áfram. 

Ber engin ábyrgð á þessu? Vitað var að húsnæðið á Landakoti var ábótavant en tiltækir kostir til að bæta úr því voru ekki nýttir. Þarf enginn að axla ábyrgð vegna atviks sem leiddi til þess að meira en tugur einstaklinga lét lífið? 

Nú er verið að sækja tvo einstaklinga til saka skv. ákæru Héraðssaksóknara fyrir manndráp af gáleysi vegna slyss sem varð í fyrirtæki þeirra. Gildir eitthvað annað um þá opinberu aðila, sem með ákvörðunum sínum eða ákvarðanaleysi verða valdir að ótímabærum dauðsföllum?   


Allir tala um veðrið en engin gerir neitt.

Á sínum tíma sagði spakur maður að það væri merkilegt, að allir væru að tala um veðrið en enginn gerði neitt í því. Svo kom að því að hópur fólks í leit að baráttumálum fann upp, að maðurinn réði veðrinu. Sú hugsun hverfðist m.a. um það að taka á vondu iðnveldunum þ.á.m. Íslandi með ötulli aðkomu Vinstri grænna og þau mundu umfram aðra þurfa að herða á takmörkunum á koltvísýringslosun en öðrum eins og Indlandi, Indónesíu og Kína gefnar frjálsar hendur. M.a. þessvegna er Bretland að borga miklar fjárhæðir til Kína árlega svo þeir geti komið sér upp fleiri vindmyllum.

Í aðdraganda Parísarsamkomulagsins var deilt um hvað draga þyrfti koltvísýringlosun mikið saman til að hitastig á jörðinni hækkaði ekki nema í mesta lagi um 1.5. stig þessari öld. Spekingarnir reiknuðu þetta út af "vísindalegri" nákvæmni sjálfsagt eins og þáverandi seðlabankastjóri á mesta verðbólgutíma Íslandssögunnar reiknaði út gengið með þremur aukastöfum til að allrar sanngirni væri gætt. 

Fulltrúar íslensku þjóðarinnar á Parísarráðstefnunni unnu sér það helst til frægðar að gæta ekki að einu eða neinu hagsmuna Íslands, en ræða um kynræn áhrif á hlýnun jarðar enda fulltrúarnir góðir og gjaldgengir fulltrúar ofsatrúarsamfélags sumra vinstri manna á Íslandi sem byggir m.a. á því að meint hnattræn hlýnun sé að verulegu leyti feðraveldinu að kenna. Þess vegna fannst þessum málssvörum íslensku þjóðarinnar gott á hana að greiða sem mest í sjóði í útlandinu vegna þess hvað hún mengaði mikið og ylli miklum spjöllum á veröldinni, svo ekki sé nú minnst á bévítans feðraveldið.

Þessir klafar sem bundnir voru á íslenska skattgreiðendur nema mörgum milljörðum á ári og takmarka sókn okkar til bættra lífskjara. Við þær aðstæður sem nú ríkja er mikilvægt að hinir betri og gógjarnari menn, sem hafa eðlilega yfirsýn og skynsemi taki af skarið og segi okkur frá Parísarsamkomulaginu og sjái til þess, að Ísland hætti að borga kolefnisskatta til útlanda sem eru eingöngu tilkomnir vegna þess hve illa hefur verið á málum haldið af fulltrúum Íslands á loftslagsráðstefnum allt frá Kýótu til Parísar.


Enn skal haldið og engu sleppt

Smitstuðull Covid er lægstur á Íslandi af löndum Evrópu í dag. Samt sem áður segir Þórólfur smitsjúkdómalæknir að veður séu svo válynd, að halda verði að mestu leyti þeim hertu aðgerðum sem gripið var til fyrir rúmum mánuði. Á sama tíma segir tölfræðingurinn Thor Aspelund, að smitstuðullinn sé slíkur að það geti orðið sprenging í fjölda smita.

Þetta er hræðsluáróður.

Samt er smitstuðullinn enn sá lægsti í Evrópu. Ætli menn að halda trúverðugleika verða þeir, að segja fólki satt og neita sér um þann lúxus að stunda hræðsluáróður til að drepa niður frjálst mannlíf og eðlileg samskipti fólksins í landinu. 

Hafi sóttvarnarlæknir haft rétt fyrir sér í byrjun september. Liggur þá ekki fyrir, að hægt er að miða við sambærilegar reglur og þá giltu? Ef hann hefur hins vegar haft rangt fyrir sér þá, ber þá ekki að taka ráðleggingum hans með fyrirvara?

Það vill enginn veikjast af þessari pest og engin smita. Þessvegna skilar jákvæður áróður um smitvarnir sér til fólksins og með því að gera alla meðvirka í að halda eðlilegri varúð í samskiptum vinnum við sigur á þessum vágesti. En við vinnum ekki sigur með því að reyra höftin svo mjög og umfram alla skynsemi, að fólk hætti að taka mark á þeim.

 


Eru Pólverjar vondir við konur?

Í tæpa viku hafa beljað þær fréttir í RÚV, að Pólverjar ætluðu að segja sig frá samningi Evrópuráðsins um ofbeldi gagnvart konum. Fréttunum hefur jafnan fylgt fordæming á hægri stjórn Póllands og illsku þeirra gagnvart konum. Fréttin eins og RÚV segir hana er röng. Hún hallar réttu máli og skilur útundan það sem máli skiptir og er inntak þessa máls. 

Sú afstaða Pólverja að segja skilið við sáttmálann hefur ekkert með illsku gagnvart konum að gera eða andstöðu við réttindi þeirra. Pólverjar segja sig frá sáttmálanum vegna þess, að í honum eru ákvæði sem skylda aðildarþjóðirnar til þess, að í grunnskólum sem öðrum skólum sé börnum kennd kynjafræði undir þeim formerkjum að allt tal um líffræðilegt kyn sé úrelt. 

Dómsmálaráðherra Póllands segir eðli slíkrar hugmyndafræði vera skaðlega auk þess sem hún sé röng og þessvegna geti Pólland ekki verið aðili að þessum svonefnda Istanbul sáttmála. 

Þetta veldur íslensku ríkisstjórninni og stjórnmálamönnum hér engum vandamálum þar sem þeir samþykktu samhljóða gölnustu löggjöf sem samþykkt hefur verið á þessu kjörtímabili um "kynrænt sjálfræði".

Íslenskum stjórnmálamönnum finnst það sjálfsagt eðlilegt að í íslenskum grunnskólum sé börnum kennt, að kyn hafi ekkert með líffræðilega hluti að gera, heldur fari það eftir viðhorfi hvers og eins og þjóðfélagslegum aðstæðum. Sá er munurinn á stjórnmálastéttinni hér og í Póllandi. 

Mikilvægasta spurningin er að velta fyrir sér hversvegna stjórnmálamenn í Evrópu vilji standa  með lyginni um að tal um líffræðilegt kyn sé úrelt og það skuli algjörlega vanta barnið til að benda á að þessi keisari er ekki í neinum fötum þar sem - hvað svo sem fyrirbrigðið kann að nefnast stendur berstrípað í sínu kynræna sjálfræði.


Úrslit forsetakosninga. Hafa skal það sem er rétt.

Hvort fékk Guðni forseti stuðning 92% þjóðarinnar eða 59%. Það fer eftir því við hvað er miðað. Af þeim sem eru á kjörskrá fékk Guðni 59% stuðning og Guðmundur 5%.

Fjölmiðlar virðast sammála um, að ekki eigi að taka mark á þeim sem vildu hvorugan frambjóðandann kjósa, en höfðu samt fyrir því að mæta á kjörstað til að skila auðu. Auð atvkæði eru hluti kosningaúrslita og við útreikning á hlutfallstölu, þá er það rangur útreikningur að taka ekki tillit til þeirra sem skiluðu auðu og lítilsvirðing við vilja þeirra kjósenda. 

Réttur útreikningur á fylgi frambjóðenda hlutfallslega miðað við þá sem kusu,  þegar tekið er tillit til þeirra sem skiluðu auðu er nokkur annar en fjölmiðlar nefna, en þá er Guðni með rúm 89% atkvæða en ekki rúm 92 og Guðmundur er með stuðning rúmra 7.5%, en rúm 3% kjósenda vildi hvorugan þeirra kjósa.  Það eru hin réttu hlutfallslegu úrslit kosninganna miðað við þá sem kusu.

Annað er fölsun á hlutfallslegri niðurstöðu kosninganna. 


Fólk sem fer á túr

Höfundur Harry Potter bókanna, J.K.Rowlings gagnrýndi, að sagt væri "fólk sem fer á túr" og benti á að það væru konur sem færu á túr en ekki fólk almennt. 

Ábending Rawlings á þessa kunnu staðreynd hefur leitt til þess, að sótt hefur verið að henni og hún sökuð um að móðga kynskiptinga, en sá hópur hefur skipað sér í fremstu röð þeirra hópa, sem telja sig eiga rétt á að móðgast yfir öllu mögulegu og ómögulegu, hvort sem það kemur þeim við eða ekki. 

Leikarinn sem lék Harry Potter, segist vera mjög leiður yfir þeim sársauka sem ummæli Rowlings kunni að valda og vonast til að það sverti ekki ímynd Harry Potters. 

Að Rowlings er líka sótt fyrir að segja;"ef kynferði er ekki raunverulegt þá er um leið allt þurkað út sem heitir t.d. reynsluheimur kvenna. Hún sagði einnig "Líf mitt hefur mótast af því að ég er kona ég held ekki að það sé hatursummæli að segja það."

Réttmálsumræðan er komin út fyrir öll mörk þegar það er talin hatursorðræða að skýra frá staðreyndum lífsins. 

Af hverju erum við með nám í kynjafræði við Háskóla Íslans fyrst ekki má ræða raunverulegan mismun kynjanna og umræðan á eingöngu að vera á grundvelli þess fámenna hóps, sem í síauknum mæli neitar að horfast í augu við þær staðreyndir að karlar eru karlar og konur eru konur og það er munur á kynjunum sem ber að viðurkenna og virða.

Eigum við e.t.v. að hætta að segja konur sem fæða börn og segja "fólk sem fæðir börn" og hamast að þeim sem nefna konur í sambandi við þann líffræðilega raunveruleika?


Vorboðinn ljúfi

Menn hafa misjafna hluti til marks um það að vorið eða sumarið sé í nánd. Í Bandaríkjunum treysta menn á viðbrögð snjáldurdýrs. Listaskáldið góða orti um vorboðann ljúfa, farfuglinn sem fór til Ísalands til að kveða kvæðin sín. 

Lóan hefur verið sá vorboði sem flestir Íslendingar hugsa til þegar talað er um vor og komandi sumar. Þó lóan komi þá hefur það sýnt sig að við þurfum samt að sitja undir hríðarbyljum og harðindum eftir komu hennar.. Lóan er því ekki óbrigðul í langtímaspánum frekar en Veðurstofan síðustu 100 ár. 

Sumir horfa til hrafnana og hvernig þeir haga sér. Mér hefur sýnst, að þegar hrafnar hópast til byggða, þá er það ávísun á harðindi og vont veður. Þegar þeir fara úr nánu sambandi við mannheima þá er það vísbending um batnandi tíð og blóm í haga.

Skv. því er hrafninn þá vorboðinn ljúfi fuglinn trúr sem fer. Þegar hrafninn fer má búast við að aftur komi vor í dal.  


Innviðir

Stjórnmálaumræða einkennist af því, að stjórnmálafólk segir sömu hlutina með sömu orðum. Ákveðinn orð fá nýjan sess og allt snýst um þau í pólitískri umræðu. 

Eitt þessara orða er "innviðir" Innviðir hafa þá sérstöku náttúru, að allir eru sammála um að hlúa þurfi að þeim og styrkja þá. Þetta hentar stjórnmálamönnum vel. Þeir eru alltaf á öruggu svæði þegar þeir tala um mikilvægi  þess að styrkja innviðina. Stjórnarsáttmálinn ber þess glöggt merki. 

Nýlega sagði fjármálaráðherra að rétt væri að selja einn ríkisbanka og nota söluverðið til að styrkja "innviðina".  

En hvað eru "innviðir" skv. skilgreiningu fjármálaráðherra, er það nánast allt sem varðar starfsemi hins opinbera. Styrking innviða táknar þá, að auka ríkisútgjöld til einhvers. 

Skv. orðabók menningarsjóðs árið 1963 segir að innviðir séu máttarviðir inni í byggingu, skipi eða þess háttar. Á vísindavef Háskóla Íslands hefur orið heldur betur farið á flug og hefur merkingu sem nær nánast þeim skilningi sem fjármálaráðherra setti fram um um merkingu þess.

Vísindavefur Háskóla Íslands segir m.a.:Það eru "sterk tengsl á milli fjárfestinga í innviðum og innviðastöðu hagkerfisins annarsvegar og framleiðniþróun og hagvaxtar hinsvegar. Á þessum grundvelli hvílir áhugi margra hagfræðinga(og stjórnmálamanna)á innviðauppbyggingu"

Með þokkalegri rökhugsun getur hver og einn komist að sömu niðurstöðu og vísindavefurinn,að með því að auka fjárfestingu í innviðum styrkist innviðastaða samfélagsins. Þessvegna er þetta orð gjörsamlega öruggt fyrir stjórnmálafólk að nota. Hver gæti verið á móti því að styrkja innviðastöðu samfélagsins?

Innviðir hafa orðið heildarhugtak fyrir eitthvað á vegum hins opinbera. Vafalaust yrði stjórnmálaumræðan markvissari ef stjórnmálafólk segði hvað það vill gera og hvernig þeir vilja forgangsraða.

Þannig var stjórnmálafólk á árum áður.

En nú þegar það þykir henta að stela stöðugt meira og meira af skattgreiðendum með ofurskattheimtu, þá er e.t.v. hentara að bregða fyrir sig merkingarlitlu tískuorði, sem enginn getur verið á móti, þegar seilast á dýpra í vasa skattgreiðenda eða selja eignir þeirra. 


Síldarplan alþýðunnar

Þættir Egils Helgasonar um Siglufjörð eru með því besta, sem unnið hefur verið af heimildarþáttum á RÚV. Þættirnir eru vel gerðir, upplýsandi, fróðlegir og skemmtilegir. Egill á heiður skilinn fyrir þessa þætti.

Þó þættirnir séu vel gerðir, þá skortir stundum á að frásögnin sé rakin frá upphafi til enda. Í þættinum í gær voru tvö atriði, sem kölluðu á frekari skýringar til þess að öll sagan væri sögð og ekkert undan dregið. 

Fyrra atriðið var frásögnin af því þegar kommúnistar brenndu fána Þýska alríkisins, hakakrossfánann hjá ræðismanni Þýskalands á Siglufirði. Sagt var frá því eins og hetjudáð, sem það e.t.v. hefur verið, en þess ekki getið að nokkrum árum síðar höfðu  kommúnistar og nasistar fallist í faðma og fáir voru ötulli við að afsaka herhlaup Hitlers inn í Pólland en íslenskir kommúnistar eftir að Stalín hafði gert friðarsamning við Hitler og hóf sjálfur innrás í Pólland. Hvað gerðu kommarnir á Siglufirði þá? 

Annað atriði, sem var sögulega mikilvægarara að fylgja eftir og gera fullnægjandi grein fyrir var frásögnin af því þegar kommúnistar komu upp  kommúnísku síldarplani, sem átti að sýna fram á yfirburði sovétkerfisins. Frá þessu var sagt í þættinum með nokkuð ítarlegum hætti, en það vantaði rúsínuna í pylsuendann. Hvað varð svo um þessa tilraun? Hvernig gekk hún. Skilaði hún árangri eða lenti  hún í sömu freðmýrinni og önnur sambærileg gæluverkefni kommúnista. Nauðsynelegt hefði verið að þáttastjórnandinn hefði fylgt þessu síldaævintýri kommúnistanna eftir til loka. Annað er í raun ekki boðlegt. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 103
  • Sl. sólarhring: 213
  • Sl. viku: 3145
  • Frá upphafi: 2511888

Annað

  • Innlit í dag: 96
  • Innlit sl. viku: 2930
  • Gestir í dag: 91
  • IP-tölur í dag: 90

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband