Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Hæfi hæfisnefndarinnar

Benedikt Jóhannsson fyrrverandi formaður Viðreisnar og fjármálaráðherra dró umsókn sína um stöðu Seðlabankastjóra til baka og vísaði til þess að hæfisnefnd sem forsætisráðherra skipaði hefði ekki þá burði, sem nauðsynlegt væri. Full ástæða er til að taka undir með Benedikt og fleira kemur til.  

Hlutverk Seðlabanka Íslands er m.a. að hafa eftirlit af ýmsu tagi með starfsemi fjármálafyrirtækja þ.á.m. Landsbankans, svo sem reglum um lausafé, bindisskyldu og gjaldeyrisjöfnuð. Þá stendur til að sameina Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann, þannig að nánast allt eftirlit með bankastarfsemi viðskiptabanka verður á höndum Seðlabankastjóra.

Formaður hæfisnefndarinnar var skipuð Sigríður Benediktsdóttir sem er bankaráðsmaður í Landsbanka Íslands. Öllum ætti að vera það ljóst, að það er í hæsta máta óeðlilegt að bankaráðsmaður viðskiptabanka taki þátt í vali á þeim sem á að hafa eftirlit með starfsemi bankans.  

Draga verður í efa að hæfisnefndin hafi það hæfi sem hún hefði þurft að hafa til að það væri hafið yfir allan vafa, að hún væri óvilhöll. Það er ekki gott þegar bankaráðsmaðurinn tekur þátt í að velja þann, sem á að hafa eftirlit með henni sjálfri.


Það sem vantaði í úttekt Seðlabankans

Athyglisvert er að skoða úttekt Seðlabanka Íslands á veitingu neyðarláns til Kaupþings banka í október 2008 ekki sérstaklega vegna þess sem fram kemur í skýrslunni heldur vegna þess sem vantar í hana. 

Fram kemur að takmörkuð gögn liggi fyrir um veitingu neyðarláns til Kaupþings þá myrku daga þegar Íslendingar uppgötvuðu sér til skelfingar að þeir voru ekkert merkilegri en aðrir og í stað þess að vera ofurríkir þá var neyðarástand. Það eru í sjálfu sér ekkert ný sannindi. Þá kemur ekki fram að árhifamiklum aðilum ekki síst verkalýðshreyfingunni var í mun að hægt væri að bjarga Kaupþingi banka ekki síst vegna hagsmuna lífeyrissjóðanna.

Það sem kemur hins vegar ekki fram í skýrslunni af skiljanlegum ástæðum er umfjöllun um það með hvaða hætti var staðið að því að hámarka verð þeirrar tryggingar sem sett var að veði fyrir veitingu neyðarlánsins. Ljóst er að hefði tryggingin verið fullnægjandi þá hefði ekki orðið neitt tjón. 

Ég skrifaði ítarlega grein fyrir nokkrum árum í Morgunblaðið þar sem ég rakti að tilboð lá fyrir í það sem sett var að veði, sem hefði leitt til fullrar endurgreiðslu neyðarlánsins, en Már Seðlabankastjóri kaus að taka öðru tilboði, sem var vafasamara og gat eingöngu þjónað hagsmunum kröfuhafa Kaupþings banka en ekki þjóðarinnar. 

Hvernig skyldi standa á því að Már Guðmundsson Seðlabankastjóri vill ekki gera grein fyrir þessum þætti málsins þó mikilvægastur sé?


Grínari í forsetastól.

Eftir stjórnarbyltingun í Úkraínu 2014, sem skolaði Petro Poroshenko súkkulaðibarón í forstastól Úkraínu hefur ástandið í landinu versnað gríðarlega. Spilling, sem var þó landlæg hefur aukist, lífskjör hafa versnað og umbætur á stjórnkerfi eða efnahagslífi hafa ekki orðið.

Evrópusambandið og Bandaríkin, sem leynt og ljóst stuðluðu að leiðtogaskiptum í Úkraínu brugðust ókvæða við aðgerðum Rússa vegna valdaránsins og Poroshenko fór sigurför um Evrópulönd, en þó sérstaklega í öldungadeild Bandaríkjaþings þar sem honum var fagnað sem mannkynsfrelsara. Allt var gert til að hjálpa honum og ríkisstjórn hans. Bandaríkin, Evrópusambandið og "stórveldið" Ísland, settu vanhugsgað viðskiptabann á Rússland.

Nú 5 árum síðar er Úkraína orðið fátækasta land í  Evrópu. Færri en 10% landsmanna treystir stjórnmálastéttinni. Í  forsetakosningum er boðið upp á spillta súkkulaðibaróninn til endurkjörs. Yuliu Timoshenko fyrrum forseta, sem dæmd var vegna spillingar og skemmtikraftinn Zelenskiy, sem lofar því einu að að allt verði í lagi verði hann kjörinn.

Ólíkt Jóni Gnarr, sem var illu  heilli  fyrir Reykvíkinga kjörinn borgarstjóri á sínum tíma hefur Zelenskiy einhver örlítil pólitísk viðmið, en hann hefur talað um að forseti Brasilíu, hægrimaðurinn Jair Bolsanaro og Macron forseti Frakklands hafi gefið sér pólitískan innblástur og viðmið. 

Hvernig sem fer í kosningum til forseta Úkraníu þá ættu íslensk stjórnvöld að sjá hversu  fráleitt það er, að fórna íslenskum hagsmunum svo varðar fleiri milljarða árlega til að troða illsakir við vinaþjóð okkar Rússa vegna ágreinings milli Úkraínu og Rússlands sem koma okkur ekkert við í því stjórnmálaumhverfi sem er og hefur verið í Úkraínu. 

Íslenska ríkisstjórnin skaðar þjóðarhagsmuni um milljarða árlega vegna stuðnings síns við stjórnvöld í Úkraínu, sem njóta ekki trausts nema innan við 10% eigin landsmanna. Íslensk stjórnvöld ættu að sjá a.m.k. ekki seinna en núna, að viðskiptaþvinganir gegn Rússum eru án takmarks eða tilgangs og fráleitt að skaða þjóðarhagsmuni áfram með þessari vitleysu. 


Krafa um ríkisrekstur?

Í kjölfar gjaldþrots flugfélagsins WOW hafa margir orðið til að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að hafa ekki greitt úr sameiginlegum sjóðum skattgreiðenda og skorið flugfélagið niður úr skuldasnörunni. Slík ummæli eru í raun ekki annað en krafa um ríkisrekstur á flugfélagi, en einnig það að Ríkið skuli bera ábyrgð á hvaða fyrirhyggjuleysi sem vera kann í einkarekstri.

Við búum við markaðshagkerfi, þar sem fólk hefur frelsi til að stofna fyrirtæki og reka þau á eigin áhættu sem og áhættu þeira sem lána fyrirtækjunum. Í slíku þjóðfélagi skiptir máli að Ríkið komi fyrst og fremst að málum til að gæta þess, að virk samkeppni ríki á markaðnum og einokun eða fákeppni leiði ekki til okurs gagnvart neytendum. Slíkt kallar ekki á frekari afskipti ríkisins. 

Þá hefur verið gagnrýnt að einvherjar óskilgreindar eftirlitsstofnanir hafi ekki gert það sem þær áttu að gera. Hvaða stofnanir skyldu það nú vera? Þegar grannt er skoðað þá sést,að engin ríkisstofnun hafði heimild til að hafa einhver sérstök afskipti af WOW eða grípa inn í rekstur þess. 

Í þessu tilviki með sama hætti og þegar helstu bankarnir fóru á hausinn árið 2009 varð engum öðrum um kennt en þeim sem báru ábyrgð á rekstri þeirra fyrirtækja, þó að í hráskinnaleik stjórnmálanna hafi öðrum og alsauklausum aðilum verið um kennt, ekki síst fyrir tilstilli þeirra sem settu sjálfir bankana á hausinn. Allt annað er tilraun til að draga athyglina frá raunveruleikanum. Þá töldu margir að Ríki yrði að grípa inn í varðandi viðskiptabankarekstur þar sem að um kerfishrun væri að ræða. Allt orkaði það tvímælis, en í tilviki flugrekstrar þá væri sama um að ræða og WOW air, Icelandair og Flugfélag Íslands færu öll á hausinn í sömu vikunni.  

Ríkisvaldið hefur iðulega komið með fjárframlög til einkafyrirtækja, sem eru óeðlileg í samkeppnisþjóðfélagi svo sem að gera samninga við stórfyrirtæki um skattaívilnanir og ýmislegt fleira. En það er ekki til eftirbreytni og ber að fordæma. Samkeppnisþjóðfélag þrífst ekki og það verða ekki góð lífskjör nema ríkisvaldið gæti fyrst og fremst að því að gæta jafnræðis á milli rekstraraðila og rugli ekki í markaðnum og hendi ekki peningum skattgreiðenda í samkeppnisrekstur. Svo væri það verðugt reikningsdæmi fyrir viðskiptafræðideildir háskólanna að reikna út hvað miklum peningum skattgreiðendur hafa tapað vegna þess að ríkið og sveitarfélögin reyndu að koma í veg fyrir gjaldþrot og rekstrarstöðvun einafyrirtækja með því að leggja til peninga skattgreiðenda til áframhaldandi reksturs fyrirtækja sem nánast undantekningarlaust fóru síðar á hausinn.

Ef saka á ríkisvaldið og aðila því tengdu um eitthvað varðandi WOW þá kann svo að vera að Isavia hafi farið umfram heimildir um að innheimta ekki þau gjöld sem flugfélaginu bar að greiða. Gera verður grein fyrir því hvernig á því stóð og hvaða heimildir gerðu það leyfilegt að mismuna þannig flugrekendum.

Þá er líka spurning hvort að ríkisvaldið hafi gefið WOW air lengri og meiri fresti varðandi skattskil en eðlilegt er og öðrum er gefin. Margt bendir til þess að svo hafi verið. Spurning er þá hver ber ábyrgð á því? Endanlega virðist þá sem ábyrgðin liggi hjá samgönguráðherra Sigurði Inga, sem á sínum tíma vild ákæra mann og annann í kjölfar bankahrunsins, sem nefndarmaður í svokallaðri Atlanefnd.

Ef til vill er hann tilbúinn til að skoða aðgerðir sínar nú með jafnalvarlegum augum fordæmandans og axla þá ábyrgð núna,  sem hann ætlaði öðrum að gera á sínum tíma.


Okurlandið Ísland, orsök og afleiðing.

Fyrrverandi viðskiptaráðherra Gylfi Magnússon sagði í gær á málþingi Neytendasamtakanna o.fl. um hátt verðlag á nauðsynjavörum,skv. fréttum að dæma, að orsök allt að 60% hærra verðs á nauðsynjavörum en í viðmiðunarlöndunum væri góð launakjör í landinu. 

Mikilvægt er að gera sér jafnan grein fyrir orsökum og afleiðingum. En það getur tæpast skýrt mun hærra verð á Kornflexi eða annarri innfluttri pakkavöru að kaupgjald hér á landi sé hærra en einhvers staðar annarsstaðar. 

Niðurstaða málþingsins var, að verðlag væri mun hærra en í viðmiðunarlöndunum. Brýnt er því að gera ráðstafanir til að íslendingar búi við svipuð kjör og eru í nágrannalöndunum. Þar er kaupgjald ekki síður hátt eins og hér á landi. 

Miklu skiptir, að neytandinn fái sem mest fyrir peningana sína það er augljós kjarabót ekki síst í háskattalandi eins og Íslandi.  

Ekki er ágreiningur,að verðlag á nauðsynjavörum er mun hærra en í viðmiðunarlöndunum þá ber brýna nauðsyn til að gera eitthvað annað í málinu en tala bara um það. Nú þegar ætti ríkisstjórnin að einhenda sér í það að skipa nefnd til að kanna hvað veldur háu verðlagi í landinu og koma með tillögur til úrbóta. Þar verða allir sem vilja eðlilega viðskiptahætti í landinu að leggjast á eitt. Miðað væri við að nefndin skilaði af sér svo fljótt sem verða má. 

Ég skora á ríkisstjórnina á alþjóðadegi neytenda, að einhenda sér í það verkefni að koma landinu úr því að vera okurland í það að búa við sambærirlegt verðlag og nágrannaþjóðir okkar búa við. Það gildir ekki bara fyrir nauðsynjavörur. Það gildir líka hvað varðar lána og vaxtakjör. Þar á meðal að afnema verðtryggingu á neytendalánum þ.m.t. húsnæðislánum  til neytenda.


Er þetta virkilega svona

Fyrir nokkru var skýrt frá því að bankastjóri Landsbankans hefði fengið ríflega launahækkun í prósentum talið. Í umræðum þann daginn varð hún óvinur þjóðarinnar og forsætis- og fjármálaráðherra sem og stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins gerðu harkalegar athugasemdir við þessar launahækkanir. 

Landsbankinn og Íslandsbanki eru í eigu ríkisins nánast að öllu leyti og ríkið sem helsti hluthafinn eða eini hluthafinn mætir á aðalfundi hlutafélaganna sem reka bankann, kjósa bankaráðsfólk og samþykkja starfskjarastefnu fyrirtækisins fyrir næsta starfsár. Í hlutafélagalögum er mælt fyrir um það í grein 79 a með hvaða hætti og hvernig starfskjarastefna fyrirtækisins skuli vera næsta ár. 

Í ljós kom að bankastjóri Landsbankans er lægst launaði bankastjórinn af stóru viðskiptabönkunum þrem og fyrir lá mótuð starfskjarastefna samþykkt af ríkinu að hækka laun bankastjóra Landsbankans. Þegar það er skoðað þá er með ólíkindum að viðbrögð forsætis- og fjármálaráðherra skuli hafa verið með þeim hætti og þau voru hvað þá stjórnarformanns Bankasýslu ríkisins. 

Stóru spurningarnar sem krefjast svara í sambandi við viðbrögð ráðherranna og stjórnarformannsins eru þessar: Fylgist þetta fólk ekki með því sem gerist á aðalfundum stærstu fyrirtækja ríkisins og hvaða starfskjarastefna er mótuð? Eru viðbrögð þessa fólks bara látalæti til að slá ryki í augu almennings?


Vörn fyrir vondan málstað

Árið 1998 var sósíalistinn Hugo Chavez kosinn forseti Venesúela. Hann lofaði félagslegum umbótum og sósíalisma og ríkisvæðingu olíuframleiðslunnar. Chavez lagði mikla peninga í allskyns félagsleg verkefni og kom á sósíalísku hagkerfi, sem hafði það m.a. í för með sér, að framleiðsla á ýmsum nauðsynjavörum eins og t.d. klósettpappír varð út undan.

Ýmsir stjórnmálamenn á Vesturlöndum lýstu yfir ánægju með stjórnarhætti sósíalista í Venesúela þ.á.m. leiðtogi breska Verkamannaflokksins,sem sagði að Chavez hefði sýnt að þeir fátæku skipti máli og hægt væri að dreifa olíuauðnum. Hann hringdi síðan í Maduro árið 2014 og óskaði honum til hamingju með kosningasigur í kosningum, sem voru varla annað en nafnið tómt. Enn ein sönnun þess, að sósíalistum er ekki sérstaklega annt um lýðræðið. Þeir vilja sósíalisma hvað sem það kostar.

Nú þegar Maduro eftirmaðu Chavez þarf að þola afleiðingar sameiginlegrar stjórnarstefnu þeirra, hafa 3 milljónir manna flutst úr landi, óðaverðbólga er viðvarandi, skortur er á nauðsynjavörum þ.á.m. lyfjum og það er hungursneyð í landinu.

Þegar á það er bent, að þessar manngerðu hörmungar Venesúelabúa séu enn ein sönnun þess, að sósíalismi gangi ekki og leiði alltaf til fátæktar,vöruskorts, hungursneyðar og ógnarstjórnar, færa sósíalistar á Vesturlöndum, sem hafa margir hverjir dásamað stjórnarhætti í Venesúela fram þá vörn, að þetta sé allt Bandaríkjunum að kenna. Það er rangt.

Venesúela sýnir hættuna af róttækum sósíalisma. Þegar Chavez var kosinn forseti var Venesúela ríkasta land Suður Ameríku og lífskjör þar best. Nú hefur efnahagskerfið undir stjórn sósíalistanna dregist saman um helming. Kreppan í Venesúela byrjaði upp úr 2010, en fyrstu þvinganir sem Bandaríkin settu á landið, sem máli skipti komu árið 2017. Þá þegar var hungursneyð í landinu, fólk flúði land vegna vondra lífskjara og framleiðsla í landinu þ.á.m.í olíuiðnaðinum hafði minnkað um helming. Bandaríkjunum verður því ekki um kennt heldur eingöngu sósíalískri stefnu stjórnvalda. Sósíalistastjórnin getur ekki heldur kennt um lækkun á olíuverði. Framleiðsla olíu í landinu er nú helmingi minni vegna óstjórnar, en þegar Chavez komst til valda.

Saga Marxismans og sósíalismans er eins hvar svo sem slíkir stjórnarhættir hafa verið reyndir. Byrjað er á að slátra gæsinni sem verpir gulleggjunum þ.e.frjálsu framtaki og síðan hefst þjófnaður sem klæddur er í spariföt þjóðfélagslegs réttlætis. Afleiðingin er alltaf sú sama. Gjaldþrot, ógnarstjórn og verri lífskjör. Í Venesúela hafa þeir fátækari orðið fátækari, miðstéttin er nánast horfin og meiriháttar kúgun er til staðar.

Nú hafa nágrannaríki Venesúela sem og Bandaríkin, Kanada,Bretland og fleiri knúið á um að kosningar fari fram í landinu þar sem verk sósíalista verði lögð undir dóm kjósenda. Afskipti erlendra ríkja hafa enn sem komið er ekki verið meiri. Þó vísbendingar séu uppi um uppgjöf Maduro,þá er það ekki með öllu ljóst. Enn færa sósíalistar víða um heim m.a. hér á landi fram allar þær varnir sem þeim detta í hug fyrir ónýtt stjórnkerfi sósíalismans, en engin þeirra stenst. Þetta er einfaldlega dómur raunveruleikans yfir fáránleika sósíalismans.

Fari svo að rödd skynseminnar nái að nýju til þeirra sem stjórna Venesúela þá verða þær þjóðir sem nú knýja á um lýðræði í landinu, að vera tilbúnar til að rétta þjóðarbúið í Venesúela af og koma því aftur á þann rekspöl að frjálst framtak geti að nýju byggt upp auð, velsæld og gróskumikið þjóðfélag, en til að það geti orðið verður til að byrja með að tryggja landinu verulega efnahagsaðstoð eins og Evrópa naut frá Bandaríkjunum eftir lok síðari heimstyrjaldar.

(Heimildir m.a. úr Daily Telgraph og skýringum frá stjórnum ríkja sem hafa knúið á um lýðræðisumbætur í Venesúlea)


Þjóðarsjóður

Formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra skrifar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann lýsir svonefndum þjóðarsjóði sem meiningin er að setja á laggirnar með framlögum frá skattgreiðendum með millilendingu í ríkissjóði. Svo virðist sem þessi þjóðarsjóður eigi að vera eins konar vogunarsjóður til að takmarka áhættu Íslands komi til óvæntra náttúruhamfara eða einhvers sem jafna má til slíks. 

Fjármálaráðherra lýsir því að fjármunir þjóðarsjóðsins verði ávaxtaðir erlendis. Röksemdirnar fyrir því eru vægast sagt veikar og í andstöðu við þá hugmyndafræði sem t.d. Eyjólfur Konráð Jónsson fyrrum þingmaður flokksins og ritstjóri Morgunblaðsins boðaði á sínum tíma.

Ekki verður séð að þessi vogunarsjóður ríkisins bæti miklu við varðandi hagsmuni almennings í landinu. 

Það er hins vegar til sjóður sem gerir það og það er sjóður íbúa Alaska sem heitir "The Permanent Fund" sá sjóður nýtur ávaxta náttúruauðlinda Alaska aðallega olíunnar og eftir að fjármunir hafa verið teknir frá til rekstrar og nátturlegs viðhalds þá er því sem eftir er dreift til íbúa Alaska. Ekki skiptir þar máli hvor þú ert 90 ára eða eins árs. 

Árið 2015 voru greiddar USD 2.072 til hvers íbúa Alaska úr sjóðnum eða kr. 257.000 á hvern íbúa. Hver fjögurra manna fjölskylda fær þannig rúma milljón skattfrjálst. Væri ekki meira vit í að stofna slíkan sjóð og deila út arði af þjóðarauðlindunum eins og t.d. fiskimiðunum o.fl. til fólksins í landinu. Það væri búbót fyrir vísitölufjölskylduna að fá um milljón úr þjóðarsjóðnum og það mundi leiða til mun meira öryggis en að stofna vogunarsjóð til að leika sér með peninga almennings í landinu vegna þess að ef til vill gæti eitthvað vont gerst einhvern tímann. 

Má minna á að lífeyrissjóðirnir töpuðu rúmlega 500 milljörðum árið 2008 að hluta til vegna fjárfestinga sem vogunarsjóðir. 

Sjálfstæðisflokkurinn hafði einu sinni þá skoðun að almenningur gæti betur ávaxtað sitt pund sjálfur. Væri ekki ráð að hverfa til þeirrar stefnu aftur. 


Mótmæli Guljakkana í Frakklandi. Eiga þau erndi við okkur?

Skoðanakannanir sýna að mótmæli þeirra sem kallaðir er gulu jakkarnir í Frakklandi vegna klæðaburðar þeirra í mótmælunum njóta stuðnings um 77% þjóðarinnar. Á sama tíma mælist stuðningur við Macron Frakklandsforseta 24%.

Mótmæli Gulu jakkanna eru gegn háu vöruverði og háskattastefnu ríkisins. Fólkið vill ekki borga endalaust fyrir ríkisstjórn,sem virðist ekki hafa hæfi til að takmarka ríkisútgjöldin ekki frekar en sú íslenska.

Það sem hleypti mótmælunum af stað var m.a. hækkun á bensínverði í því skyni að vinna gegn meintri hlýnun andrúmsloftsins. Frökkum er greinilega nóg boðið, en svar Macron er að búa til sérstakt loftslagsráð.

Mótmælin hafa breiðst út til annarra landa og það sem er merkilegt við þau er að þau virðast sjálfsprottinn og engin stjórnmálasamtök standa á bak við þau svo vitað sé. Ef til vill sýnir það hversu fjarlæg stjórnmálaelítan og fjölmiðlaelítan er orðin almenningi. 

Hér hafa verið lagðir á himinháir skattar vegna trúarbragða Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og félaga á hnattræna hlýnun af mannavöldum, en almenningur lætur það yfir sig ganga 

Svo virðist líka sem að íslensk þjóð ætli líka að láta það yfir sig ganga að ríkisstjórnin skrifi þegjandi og hljóðalaust undir samning Sameinuðu þjóðanna um afsal fullveldis varðandi innflytjendamál. Það mun leiða til enn meiri skattheimtu vegna fjölgunar velferðar innflytjenda. 

Þá hefur almenningur í þessu landi sýnt ótrúlegt afskiptaleysi af því með hvaða hætti okrið í þjóðfélaginu er látið afskiptalaust. 

Við búum við hæstu vexti og verstu lánakjör í okkar heimshluta.

Við búum við verðtryggingu af neytendalánum. 

Við búum við hæsta vöruverð í okkar heimshluta og sennilega í veröldinni.

Við búum við kerfi þar sem ungt fólk fær ekki úthlutað lóðum á Stór Reykjavíkursvæðinu til að geta komið sér þaki yfir höfuðið. en stjórnmálaeltían virðist sammála um að við lóðaúthlutun skuli byggingarfélög og leigufélög hafa forgang.

Er ekki kominn tími til þess að við sláumst í hóp með Gulu jökkunum í Frakklandi og mótmælum öll gjörspilltu ríkiskerfi þar sem stjórnmálaelítan gerir ekkert til að draga úr skattpíningu á borgarana og telur að sér komi ekki við að okursamfélagið gagnvart neytendum fái að dafna og þroskast óáreitt af stjórnvöldum.

Ef til vill raska stjórnvöld við sér þegar síðasti ferðamaðurinn þakkar fyrir sig. En er ekki ástæða til að fólkið í landinu láti í sér heyra fyrr og hafni því að lífskjör á Íslandi fari versnandi vegna skattaokurs, lánaokurs og okurs á vörum og þjónustu?


Forsætisráðherra boðar lakari lífskjör

Á fundi VG og verkalýðshreyfingarinnar í dag var athyglisvert að heyra, að forsætisráðherra segir að hagvaxtarstefnan sé að líða undir lok og horfa þyrfti til jafnvægis umhverfisþátta, efnahagsþátta og félagslegra þátta. Þá sagði forsætisráðherra að við gerð kjarasamninga þyrfti að hafa í huga hvernig ætti að takast á við loftslagsbreytingar.

Boðskapur forsætisráðherra er athyglisverður. Boðuð eru versnandi lífskjör og efnahagskerfinu sem hefur bætt lífskjörin hvar sem er í heiminum er hafnað. Hugmyndafræði frjálsrar samkeppni og hagvaxtar er úrelt að mati forsætisráðherra. Nú skal takast á við loftslagsbreytingar og launþegar verða að axla ábyrgð á því og þola versnandi lífskjör þar sem að hagvaxtarstefnan hefur runnið sitt skeið á enda. 

Í fréttum af fundinum kemur ekki fram hvernig verkalýðsleiðtogarnir tóku þessum heimspekilegu vangaveltum forsætisráðherra, en miðað við það sem sagt er af ræðu formanns Eflingar þá rímar hún ekki við stöðnunarhjal forsætisráðherra. Sólveig sagði að samið yrðu um krónur og aura og af sjálfu leiðir að fleiri krónur og aurar koma ekki í launaumslag launþega nema fylgt sé stefnu hagvaxtar. Svo einfalt er það. 

Vinstri Græn þurfa að útfæra þá stefnu sem er að taka við af hagvaxtarstefnunni að mati formanns þeirra. Einkum verður  fróðlegt að fá að vita með hvaða hætti VG sér að hægt sé að bæta stöðu fólksins í landinu með stefnu stöðunar, minnkandi framleiðslu, auknum sköttum og ríkisstyrktu grænu hagkerfi. 

Fróðlegt væri einnig að fá að vita hvort verkalýðsleiðtogunum, sem hlustuðu á þennan boðskap forsætisráðherra hafi fundið einhvern samhljóm með skoðunum hennar og séu tilbúnir til að sætta sig við að félagsmenn þeirra þurfi að búa sig undir versnandi lífskjör í framtíðinni. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.9.): 152
  • Sl. sólarhring: 192
  • Sl. viku: 4260
  • Frá upphafi: 2604034

Annað

  • Innlit í dag: 137
  • Innlit sl. viku: 3984
  • Gestir í dag: 130
  • IP-tölur í dag: 127

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband