Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

2018

Árið 2018 gæti orðið ár sem fleytir okkur enn lengra áfram til betri lífskjara, aukins jöfnuðar og meiri velsældar. Það er undir okkur komið. Gæfan er fallvölt og oftast getum við sjálfum okkur um kennt hvort við göngum til góðs eða ills. 

Mesta áskorunin sem þjóðin stendur frammi fyrir  er hvernig tekst til með samninga um kaup og kjör. Miklar launahækkanir munu óhjákvæmilega leiða til verðhækkana, fallandi gengis og verðbólgu. Samt er skiljanlegt, að launafólk sæki kjarabætur og telji að ekki sé síður svigrúm fyrir hinn vinnandi mann að sækja kauphækkanir, en yfirstéttir þjóðfélagsins sem fá kaup og kjör ákvörðuð af Kjaradómi. 

Viðmiðun og verklag Kjaradóms skv. lögum um þann dóm, er með þeim hætti að aðalsstéttir þjóðfélagsins hafa fengið kjarabætur umfram aðra. Sú staðreynd hefur ekki leitt til þess að þingmenn hafi fundið sig knúna til að gera breytingar - heldur una glaðir við sitt þó þeir hafi á orði sumir hverjir að niðurstaða Kjaradóms sé umfram allt velsæmi. 

Niðurstaða Kjaradóms um kjör íslenskra aðalsstétta er umfram allt velsæmi. Ákvörðun um kjör Biskups Íslands er afleitt við upphaf kjaraviðræðna. Orð fjármálaráðherra. að ekki sé svigrúm til almennra kauphækkana þó sönn séu hafa því holan hljóm. 

Þrátt fyrir bábiljur og svartsýni sem m.a. kemur fram hjá framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna þá hefur liðið ár fært þjóðum heims aukna velsæld og dregið hefur úr fátækt milljóna.

Við vorum svo lánsömu að á sama tíma og alvarleg efnahagslægð reið yfir vegna óráðssíu og sóunar ásamt falls stærstu viðskiptabankanna að þá fengum við happdrættisvinninga. Fyrst makríl og síðan ofurferðamannastraum sem hefur skipt sköpum til að skapa fulla atvinnu og velmegun í landinu. Sá ávinningur gæti tapast fyrir aðgerðir okkar sjálfra. 

Þjóðina þarf að gæta þessa ávinnings og varðveita vel þá auknu fjármuni sem skila sér vegna þessa inn í þjóðarbúið, í stað þess að eyða þeim strax og jafnvel gott betur. 

Ríkisstjórnin hefur farið fram með glannalegum hætti við afgreiðslu fjárlaga og aukið ríkisútgjöld umfram það sem  skynsamlegt getur talist. Milljörðum er varið til ákveðinna málaflokka án eðlilegrar skoðunar og stefnumörkunar. 

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur nýtur mikils fylgis og er það að vonum þar sem mikil velsæld er í landinu. Stjórnarandstaðan hefur ekki gert annað en staðið í yfirboðum og krafist aukinna útgjalda eins og endalaust megi seilast dýpra í vasa skattgreiðenda, að vísu með einni undantekningu. 

Sjálfstæðisflokkurinn samdi pólitískt af sér við myndun ríkisstjórnarinnar og stendur nú að aðgerðum sem rýra möguleika einyrkja í atvinnurekstri og lítilla fyrirtækja til arðsköpunar og veldur aðstöðumun. Þar verður að verða stefnubreyting. 

Ríkisstjórnin hefur meiri möguleika en nokkur ríkisstjórn frá hruni til að standa að nauðsynlegum grundvallarbreytingum í þjóðfélaginu. Gæta þarf fengins fjár og stuðla að aukinni velsæld og stöðugleika í þjóðfélaginu. Forsendur þess að það takist eru m.a.,að skapa sátt á vinnumarkaði og fulla atvinnu. Tryggja jöfnuð í samfélaginu en síðast en ekki síst að vinna að því með markvissum hætti að draga úr skattheimtu bæði á launafólk og smáatvinnurekendur.

Allir eiga að sitja við sama borð óháð því hvaða atvinnurekstur þeir stunda m.a um greiðslu virðisaukaskatts.

Losa verður einstaklinga úr þeim ofurskattafjötrum sem hefur girt fyrir möguleika til eignamyndunar og sparnaðar.

Draga verður úr ofurvaldi lífeyrissjóða og heimila einstaklingunum að velja sparnaðarleiðir m.a. með því að leggja lífeyrissparnað í eignamyndun eins og eigið húsnæði í stað þess að greiða til lífeyrissjóða og þurfa síðan að taka okurlán hjá lífeyrissjóðnum. Það fyrirkomulag er hrein svívirða og hættulegt samfélagi sem vill vinna að velferð fyrir alla.


Veisluborð á þinn kostnað.

Stjórnmálaumræður forustufólks stjórnmálaflokkana í Ríkissjónvarpinu í gær voru að verulegu leyti skelfilegar.

Sá veikleiki lýðræðisins, sem helst gæti orðið því að fjörtjóni, innistæðulaus yfirboð, léku þar stórt hlutverk. Þar var Katrín Jakobsdóttir í aðalhlutverki. Formaður Samfylkingarinnar og Flokks fólksins létu sinn hlut heldur betur ekki heldur eftir liggja varðandi höfnun á kostum markaðskerfisins og boðun innistæðulausrar velferðar á kostnað skattgreiðenda.

Aðspurð um það með hvaða hætti Katrín Jakobsdóttir og flokkur hennar ætlaði að afla þeirra skatttekna sem VG boðar, þá varð fátt um svör en þeim mun meira orðagjálfur um ekki neitt eins og þess formanns er gjarnt að grípa til enda hefur hún tileinkað sér umræðustjórnmál út í bláinn mun betur en nokkur nokkru sinni gerði meðan það var inntak stefnu Samfylkingarinnar.

Annar hlutur sem var eftirtektarverður er, að allir flokkar að Viðreisn og Sjálfstæðisflokknum undanskildum og e.t.v. Miðflokknum telja fráleitt að nýta kosti frjálsrar samkeppni. Í markaðsþjóðfélaginu þar sem það er viðurkennt meira að segja í lögum eins og t.d. Samkeppnislögum, að samkeppni á markaði stuðli að bættum lífskjörum. Þá mótmæla stjórnmálaleiðtogar vinstri flokkanna þ.á.m. Flokks fólksins því að tækt sé að nýta frjálsa samkeppni til að stuðla að aukinni velferð borgaranna og betri þjónustu fyrir minni pening. 

Öðru vísi mér áður brá t.d. með Samfylkinguna undir stjórn Össurar Skarphéðinssonar, en hann hafði jafn næman skilning á því og Sósíaldemókratar þess tíma að forsenda framfara og velferðar væri sú að kostir markaðskerfisins væru nýttir. 

Staðreyndirnar sem umræður um íslensk stjórnmál ætti að snúast um eru þær að skattar á almenning eru allt of háir og brýnt er að lækka skatta á almenning í landinu. Í öðru lagi þá er rekstrarafgangur ríkisins óverulegur þrátt fyrir skattpíningu og gríðarlegar tekjur af ferðamönnum. Í þriðja lagi þá hafa stjórnvöld vanrækt viðhald og uppbyggingu á innviðum samfélagsins vegna gríðarlegra velferðarútgjalda m.a. til velferðartúrista sem kallaðir eru hælisleitendur.

Eftir umræðurnar í gær sýnist mér brýnast að sett verði nýtt stjórnarskrárákvæði til varnar eigum og tekjum fólksins í landinu með því að takmarka það sem ríkisvaldið getur tekið af fólkinu í formi skatta.  Verði það ekki gert og forynjum sósíalismans sem birtust aftur og aftur í umræðunum í gær verður sleppt lausum, þá er hætt við að dugandi fólk greiði í auknum mæli atkvæði með fótunum eins og var í óskalandi sósíalismans Austur Þýskalandi allt fram að lokum síðustu aldar. 


Skylda Alþingis og stjórnarfarsleg upplausn.

Miklu skiptir að stjórnmálamenn axli þá ábyrgð sem starfi þeirra fylgir. Sú ábyrgð felst m.a. í því að tryggja landinu starfhæfa ríkisstjórn og koma í veg fyrir upplausnarástand. Þess vegna skiptir máli fyrir Alþingismenn að reyna til þrautar að mynda ríkisstjórn í stað þess að rjúfa stöðugt þing og efna til nýrra kosninga án þess að fullreynt sé hvort takist að leysa upplausnarástand og tryggja að nýju stjórnarfarslegan stöðugleika í landinu.

Forseti lýðveldisins ber nú þunga ábyrgð á framvindu mála. Miklu skiptir að hinn nýi forseti Guðni Th. Jóhannesson sýni nú myndugleika og það að hann sé starfi sínu vaxin og tali um fyrir forustumönnum flokka og fái þá til að axla sína ábyrgð og reyna til þrautar að gegna þeirri lýðræðisskyldu sinni að ná þeim málamiðlunum sem nauðsynlegar eru í lýðræðisþjóðfélagi og mynda sterka starfhæfa ríkisstjórn.

Í umræðum gærdagsins virtist því miður ekki nema einn stjórnmálaleiðtogi átta sig á þessari brýnu skyldu Alþingis og stjórnmálaflokka, en það var formaður Framsóknarflokksins. 

Eins og málin standa í dag þá virðist sem einungis séu þrír stjórnmálaflokkar á Alþingi sem hafi þá burði og innviði sem eru nauðsynlegir til að tryggja stöðugt stjórnarfar í landinu, en það eru Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri grænir. Miklu skiptir að forustumenn þessara flokka sýni nú fulla ábyrgð og reyni til þrautar að vera starfi sínu vaxnir sem stjórnmálamenn.

Í stað þess að reyna að slá pólitískar keilur og hræra í gruggugu vatni þá skiptir meira máli fyrir land og þjóð að viðhalda þeirri velferð sem ríkir og tryggja að sú tryllta uppsveifla sem er í landinu fái ekki harða lendingu. Á því er veruleg hætta verði landið stjórnlaust eða stjórnlítið næstu misseri. 

Stjórnmálamenn ættu að horfa til Samfylkingarinnar og hvernig fór fyrir þeim flokki þegar þeir hugsa sér gott til glóðarinnar til að reyna að koma óréttmætum höggum á aðra flokka. 

Spor og framganga Samfylkingarinnar ættu því að hræða forustufólk ábyrgra flokka á Alþingi, frá því að leika aftur sama leikinn og leikinn hefur verið undanfarin ár í stað þess að stjórna landinu með þeim hætti sem fólkið í landinu á skilið.

Þingrof og nýjar kosningar nú er uppgjöf Alþingis fyrir verkefni sínu og þeir stjórnmálaflokkar sem eru ekki tilbúnir til að axla sína ábyrgð nú og reyna til þrautar að mynda starfhæfa ríkisstjórn eru tæpast trausts verðir.


Virðing Alþingis. Virðing þjóðar.

Umhverfisráðherra Björt Ólafsdóttir sættir sig ekki við ráðherralaunin og hefur því hafið fyrirsætustörf fyrir tískuvörumerkið Galvan í London. Ráðherranum finnst það sæma sitja fyrir og auglýsa vörurnar með upptökum úr þingsal Alþingis lýðveldisins Íslands. 

Skrifstofustjóri Alþingis segir, að þetta komi sér mjög á óvart, en strangt til tekið sé þetta ekki brot á reglum skv. því sem haft er eftir honum í Fréttablaðinu í dag. Reglurnar segir skrifstofustjórinn samt vera þær að myndatökur í einkaþágu séu óheimilar í þingsal. Erfitt er að átta sig á því fyrst myndatökur í einkaþágu séu óheimilar í þingsal, að það sé ekki brot, að Björt Ólafsdóttir láti taka af sér auglýsingamyndir í þingsal. 

Nú er spurning hvort aðrir ráðherrar fara að dæmi Bjartar og drýgi ráðherralaunin með sama hætti. Þá gæti Bjarni Benediktsson auglýst Armani föt og Benedikt Jóhannesson Rolex úr. Já og Þorgerður Katrín Channel ilmvötn og samgönguráðherra Toyota. Já og allt með upptökum úr þingsal Alþingis, þar sem strangt til tekið er það ekki brot á reglum þó myndatökur í þingsal í einkaþágu séu óheimilar.

Var einhver að tala um virðingu Alþingis og virðingu þjóðar þegar ráðherra og/eða ráðherrar landsins misnota stöðu sína með þeim hætti sem Björt Ólafsdóttir gerir í tekjuöflun sinni fyrir erlent "gróðafyrirtæki" eins og hún og flokksmenn hennar hafa iðulega talað um með mikilli fyrirlitningu. 

 

 


Fjármálaráðherra seðlar, evra og króna

Fjármálaráðherra hefur ítrekað lýst þeirri skoðun, að takmarka eigi eða banna viðskipti í íslenskri mynt. Þess í stað skuli öll viðskipti fara í gegn um debet- eða kreditkort. Fjármálaráðherra hefur einnig ítrekað amast við því að við skulum vera með 10 þúsund króna seðil og telur að svo há fjárhæð sé til þess fallin að auðvelda sjálfsbjargarviðleitni þeirra borgara, sem vilja komast undan ofurskattheimtu ríkisstjórnarinnar. 

Á sama tíma og fjármálaráðherra amast við notkun íslenskra seðla og vill eingöngu bankamillifærsluviðskipti á íslenska myntsvæðinu, þá er hann öflugur talsmaður þess að íslenska krónan verði lögð niður, en Ísland taki upp Evru. 

Nú vill svo til að myntkerfi Evrulandana er með þeim hætti að þar er stærsti seðillinn 500 Evrur sem samsvarar 60.000 sextíuþúsund íslenskum krónum miðað við gengi Evrunnar 120. 

Ólíklegt verður að telja að fjármálaráðherra telji sig þess umkominn komi til þess að Ísland taki upp Evru að breyta svo greiðslukerfi Evrulanda, að notkun myntar já og 500 Evru seðilsins verði bönnuð. 

Það er óneitanlega skondið að sami maður vilji afnema 10 þúsund króna seðil af því að svo hár seðill stuðli að skattsvikum og glæpum, á sama tíma og hann vill ólmur í Evrulandið þar sem 60 þúsund króna seðlar eru daglegt brauð. 

Gott væri að fá vitræna skýringu á þessari tvíhyggju fjármálaráðherra.

 


Gott frumkvæði utanríkisráðherra

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ræddi fyrir nokkru við utanríkisráðherra Breta, Boris Johnson um hugsanlega aðild Breta að EFTA, fríverslunarsambandi Evrópu, en við ásamt Norðmönnum, Sviss og Lichtenstein erum í því bandalagi og Bretar voru það áður en þeir gengu í Evrópusambandið.

Mikilvægt er fyrir Ísland að ná góðu viðskiptasambandi við helstu viðskiptaþjóð Íslands, Bretland, og hluti af því ferli gæti verið að Bretar tengdust EFTA á nýjan leik. 

Spurning er þá einnig hvort að Bretar telji það kost að tengjast Evrópska efnahagssvæðinu ásamt okkur Norðmönnum og Lichtenstein, en sennilega eru minni líkur á því en meiri, þó slíkt mundi tryggja Brexit að nokkrum hluta fljótt og örugglega og síðan gætu þeir haldið áfram og sagt sig frá EES samningnum með tíð og tíma.

EES samningurinn er að sumu leyti góður, en öðru leyti slæmur. Stór hluti þeirra sem studdu Brexit vildu koma í veg fyrir frjálsa för fólks frá Evrópusambandinu og tryggja að Bretar hefðu meiri stjórn á landamærum sínum.  

Brexit viðræðurnar og þeir kostir sem óneitanlega geta opnast með þeim þarf að skoða vel og reyna að ná góðu sambandi við Breta og jafnframt að fá fram breytingar á EES samningnum varðandi frjálsa för í samræmi við þann fyrirvara sem Ísland gerði með bókun við EES samninginn, sem felur í sér heimild til að takmöaka frjálsa för fólks til landsins með tilliti til íslenskra hagsmuna.

Utanríkisráðherra heldur vonandi vel á þessum flóknu en að mörgu leyti góðu spilum sem við höfum á hendi og ég treysti honum til góðra verka og ná fram betri stöðu með samningum fyrir Ísland. 

 

 

 


Okurlandið

Mér er sagt að hægt sé að kaupa ákveðnar íslenskar merkjavörur ódýrara erlendis frá í netverslun en út úr búð framleiðandans hér heima.

Vextir eru langtum hærri hér en í okkar heimshluta og lánakjör verri. Þetta bitnar á fólki og fyrirtækjum og eykur dýrtíð.

Frelsi fólks til að gera hagkvæm innkaup er takmarkað af stjórnmálamönnunum,  með ofurtollum og innflutninghöftum. 

Þegar krónan lækkar gagnvart erlendum gjaldmiðlum þá hækka vörur samstundis og það verður verðbólga með tilheyrandi hækkun verðtryggðra neytendalána.

Þegar krónan hækkar í verði gagnvart erlendum gjaldmiðlum þá lækka vörur seint og illa og meiri háttar verðhjöðnun mælist ekki í vísitölunni.

Verðlag er svo hátt og okrið mikið, að það er líklegur orsakavaldur þess að blómlegasti og mest gjaldeyrisskapandi atvinnuvegur okkar ferðamennskan verði eyðilögð.

Í öllum löndum sem við viljum líkjast hafa stjórnvöld virk afskipti af markaðnum fyrir neytendur, ef vextir eða verðlag er óeðlilegt. Hér hafa stjórnvöld jafnan slegið skjaldborg um okrið og skiptir þá engu hvort sjálfkallaðir félagshyggjuflokkar eru við stjórn eða aðrir.

Er ekki tími tilkominn að breyta þessu?

Hvernig væri að stjórnendur þjóðfélagsins einhentu sér í að bæta kjör almennings með því að tryggja okkur sömu og sambærileg kjör á vöxtum, vörum og þjónustu og annarsstaðar í okkar heimshluta. 


Skepnuskapur gagnvart ungu fólki.

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri í Kópavogi hefur bent á þann skepnuskap sem ríkisvaldið veldur með því að ganga erinda lífeyrissjóða og okurleigufélaga á húsnæðismarkaði. Hann á heiður skilið fyrir það. 

Ármann vekur athygli á því, að á sama tíma og lífeyrissjóðirnir fjárfesta í félögum sem leigja síðan ungu fólki á uppsprengdu verði,þá eru þeir ekki að lána sjóðsfélögum sínum til að koma sér upp eigin þaki yfir höfuðið. Unga fólkið á því aldrei kost að vera sjálfs síns ráðandi í eigin húsnæði, en verður að sætta sig við að vera leiguþý okurleigufélaga í eigu lífeyrisfurstana.

Sú var tíðin að það var grundvallarstefna Sjálfstæðisflokksins að auðvelda ungu fólki að eignast eigið húsnæði. Eign fyrir alla, sem hafa dug og getu til að brjótast til bjargálna sögðu forustumenn Sjálfstæðisflokksins hver á fætur öðrum allt fram á þessa öld.

Svo breyttist eitthvað. Fjármagnseigendur og lífeyrissjóðir fóru að hafa meiri og meiri áhrif í Sjálfstæðisflokknum og flokkurinn hélt sig í verðtryggingar björgunum gegn hagsmunum fólkins. Sósíalistarnir og afthurhaldið sameinuðust um að skammta launþegum naumt og koma því til leiðar að lánakjör hér á landi væru með þeim hætti að allir aðrir en ofurlaunafólk yrðu gjaldþrota ef þau reyndi að koma sér eigin þaki yfir höfuðið.

Ríkið neyðir vinnandi fólk til að greiða 12% af launum sínum til lífeyrisfurstana. Þeir fá að valsa með peninga fólksins að vild án þess að greiða af þeim skatta. Fólkið þarf síðan að greiða skatta af hverri krónu sem það fær endurgreitt sem lífeyri.     

Það var því tími til kominn að ráðamaður í Sjálfstæðisflokknum andmælti þessu og vill endurvekja stefnu þess Sjálfstæðisflokks sem var flokkur allra stétta. Því miður held ég að það dugi samt skammt. Stjórnmálaelítan er upp til hópa svo bundin á klafa hagsmuna lífeyrissjóða og leigufélaga, að það gæti þurft verulega byltingu í stjórnmálalífi landsins til að ná fram nauðsynlegum breytingum til þess að ungt fólk sem dugur er í geti eignast sitt eigið húsnæði.

Þannig þjóðfélag þurfum við að fá. Þjóðfélag þar sem borgararnir geta notið verka sinna og komið sér upp eigin eignasafni á eigin forsendum og verið sinnar gæfu smiðir. Við þurfum að vinna fyrir fólkið í landinu en ekki hlaða endalausri hælisleitendaómegð inn í landið á kostnað vinnandi fólks

Átti Sjálfstæðisflokkurinn sig ekki á því að hann verður þegar í stað að skipta um stefnu og standa með unga fólkinu og þjóðlegum gildum gegn auðfélögunum og menningarlegri uppgjöf,  þá er hætt við að fljótlega fari fyrir honum eins og Samfylkingunni í síðustu kosningum.

 


Er þetta ekki í stjórnarsáttmálanum?

Nú hef ég hraðlesið stjórnarsáttmálann í tvígang og lýst svona og svona á afurðina. Í fyrra skiptið  las ég stjórnarsáttmálann og skipti í efnisflokka og sá að fyrir utan hefðbundin kyrrstöðuviðhorf í bankamálum, sjávarútvegsmálum, landbúnaðarmálum sem og fleiri málaflokkum þá eru teknir inn í stjórnarsáttmálann nokkrir vinstri grænir sósíalískir  gullmolar um grænt hagkerfi og meira splæs o.s.frv.

Einnig einsetur ríkisstjórnin sér að fjölga innflytjendum sem mest hún getur og taka á móti fleiri flóttamönnum. Spurning var hvort áherslan á það skipti meira máli en á fjármál einstaklinga, fjölskyldna og fyrirtækja. Alla vega virðist svo vera í stjórnarsáttmálanum.

Umfjöllun um okurvextina og viðbrögð ríkisstjórnarinnar við þeim sé ég hvergi í stjórnarsáttmálanum. Þá sé ég ekki að vikið sé að verðtryggingu lána og staðið við þá marmiðssetningu sem Sjálfstæðisflokkurinn gaf við myndun síðustu ríkisstjórnar.

Nú viðurkenni ég að vera nærsýnn og að flýta mér við yfirlesturinn. En getur einhver verið svo vænn að benda mér á hvar í stjórnarsáttmálanum er vikið að okurvöxtunum og verðtryggingunni í stjórnarsáttmálanum.

Það hlítur að hafa farið fram hjá mér því að jafn mikilvægt mál og verðtrygging og viðbrögð til að almenningur og fyrirtæki búi við sömu lánakjör og tíðkast í nágrannalöndum okkar hefði ég haldið að væri eitt það þjóðfélagslega mikilvægast.

En fyrsti dómur minn um stjórnarsáttmálann er að hann er eins og svissneskur ostur. Það eru fleiri holur á honum en matur.

 


Pólitíska veðurfræðin

Það er nýlunda að flytjandi veðurfregna hvetji neytendur til að sniðganga vörur framleiddar í Kína. Þó ég sé honum efnislega sammála, þó á fleiri forsendum sé, þá orkar það tvímælis flytjandi veðurfrétta á RÚV setji þar fram hápólitísk sjónarmið.

Í sjálfu sér er þeim geðþekka flytjanda veðurfregna sem setti fram þessa skoðun vorkunn, af því að fréttastofa RÚV, stjórnendur krakkafrétta og Kastljóss hafa ekki hikað við að taka pólitíska afstöðu til ágreiningsmála og flytja einhliða fréttir. Sök veðurfræðingsins er því síst meiri eða alvarlegri en annarra sem við fréttaflutning starfa hjá RÚV.

Fréttir, líka veðurfréttir eiga að vera hlutlægar og án pólitískra palladóma eða sjónarmiða viðkomandi fréttaflytjanda til að tryggja hlutlægni, en hefur ekkert með rétt viðkomandi aðila til að vera brennandi í pólitíska andanum. En sá verður að koma því á framfæri á öðrum vettvangi.

Sniðganga á vörum frá einu landi er alvörumál. Vörur frá Kína eru almennt ódýrari en vörur framleiddar annarsstaðar. Gæði þeirra eru yfirleitt í lagi. Það er því ekki á grundvelli almennra neytendasjónarmiða sem hvatt verður til sniðgöngu.   

Pólitíska veðurfræðin, sem hefur gert loftslagshlýnun af mannavöldum að trúarsetningu horfir til þess, að Kína brennir kolum meir en nokkur annar. Indland er ekki langt undan  og hvað með Indónesíu? Eigi að sniðganga vörur frá Kína er eðlilegt að spurt sé hvort það eigi ekki að gilda um vörur frá löndum sem haga sér með svipuðum hætti?

Miðað við mínar upplýsingar og þekkingu, hafa Kínverjar farið fram af meiri óbilgirni gagnvart náttúrunni en nokkur önnur þjóð. Miðað við okkar vinnulöggjöf og réttindi launþega, þá eru vinnuaðstæður í Kína nær þrælabúðum vinnustöðum á Vesturlöndum.

Fólk á Vesturlöndum hefur horft á eigendur fyrirtækja brytja þau niður og flytja til Kína eða Indlands, þar sem réttindi verkafólks eru engin. Þau skammtímasjónarmið sem þar ráða eru seld því verði að stórir hópar launþega missa vinnu og þjóðfélög Vesturlanda tapa þegar heildarhagsmunir eru hafðir í huga.

Það er með eindæmum að verkalýðshreyfing Vesturlanda skuli ekki hafa brugðist við og mótmælt og mótmælt og mótmælt því að réttindi sem hún og framsýnir stjórnmálamenn hafa náð fyrir vinnandi stéttir skuli eyðilögð með því að taka fyrirtækin og flytja þau þangað sem réttindalaust fólk framleiðir það, sem þjálfað hörkuduglegt starfsfólk á Vesturlöndum gerði  áður og fékk greitt að verðleikum fyrir vinnu sína. Allt til að hámarka gróða fjármagnseigenda á kostnað hinna vinnandi stétta.

Verkalýðshreyfing Vesturlanda brást. Stjórnmálaflokkar brugðust og fjötruðu sig í hugmyndafræði heimsviðskipta þar sem frelsi fjármagnsins ræður öllu, en réttindi hins vinnandi manns gilda ekki. Vinstri sinnaðir stjórnmálamenn hafa verið helteknir af þessari heildarhugsun og hefðbundnir hægri flokkar hafa verið njörvaðir í 18.aldar sjónarmið um frelsi fjármagnsins. Svo finnst þessum aðilum skrýtið að það sem þeir kalla pópúlíska hægri flokka sem vilja gæta heildarhagsmuna vinnandi fólks skuli vaxa ásmegin. 

Fjármagnseigendur Vesturlanda sem hafa svikið vinnandi fólk á Vesturlöndum horfa á það án þess að blikna sem og stjórnmálamenn Vesturlanda að við framleiðslu Kína og annarra sambærilegra landa er farið á svig við flest það sem við á Vesturlöndum teljum skyldu okkar að gera til að varðveita náttúruna og umgangast hana með virðingu.

Það er svo merkilegt að hvorki stjórnmálamenn né verkalýðshreyfing hafa lyft litla fingri eða mótmælt því að fjármagnseigendur hafi fullt og óheft frelsi til að eyðileggja atvinnu milljóna fólks,lítilsvirða áunninn réttindi verkafólks og valda óafturkræfri mengun náttúrunnar.

Frelsi fjármagnsins hefur ráðið á kostnað hagsmuna vinnandi fólks. Vinstra fólk á Vesturlöndum hefur ekki sinnt hagsmunum hins vinnandi manns í framleiðslustörfum. Það er síðan undrandi yfir því að hinar vinnandi stéttir skuli yfirgefa hina sósíalísku alþjóðahyggju þrælabúðann. Hefðbundnir hægri flokkar hafa líka brugðist bundnir á klafa sérhagsmuna fjármagnsins hafa þeir litið framhjá heildarhagsmunum þjóðfélagsins til að trufla ekki gleðileik eyðileggingar fjármagnseigenda á áunnum réttindum verkafólks á Vesturlöndum og vestrænum gildum mannúðar og virðingar fyrir náttúrunni. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 158
  • Sl. viku: 3270
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3054
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband