Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Flokkur fyrir þig?

Píratar mælast enn næststærstir í skoðanakönnunum, sem er raunar furðulegt af því að flokkurinn hefur ekki staðið fyrir neitt sérstakt á þingi ef undan er skilið harkaleg andstaða við kristni og kirkju sem og opin landamæri á kostnað skattgreiðenda.

Þá hefur forustufólk Pírata verið berað að því að segja ósatt m.a. um menntun sína og vinnu, sem mundi valda meiri háttar hávaða í helstu fjölmiðlum ef aðrir ættu í hlut.

Sagt er að Píratar sæki helst stuðning sinn til ungs fólks og er það ills viti ef ungt fólk í landinu velur sér fyrirmyndir eins og þær sem þar skipa fremstu bekki. Sá metnaður og dugnaður sem komið hefur fram hjá ungu fólki á Íslandi undanfarin ár sem birtist m.a. í hugkvæmni í viðskiptum, samskiptum,  öllu sem varðar tölvur hvað þá heldur einstaka og frábæra tónlistarútrás auk margs annars er í hróplegu ósamræmi við geljanda, þjóðfélagslegaandúð og froðusnakk  forustufólks Pírata.

Mótmælaframboð eiga vissulega rétt á sér einkum ef þau standa fyrir skýra valkosti til breytinga en það gera Píratar engan vegin. Siðvæðing íslenskra stjórnmála,minni skattheimta og traust efnahagsstjórn eru miklvægastu málin í dag sem varða heill og hamingju þjóðarinnar. Þá baráttu leiða Pírtar engan vegin. Forustufólk þeirra hefur ekki sýnt hæfi til að gera það auk heldur þá veikleika að vita ekki hvaða menntun það hefur auk heldur hvar það vinnur.

Það er svo til marks um úrræðaleysi og hugmyndafræðilega örbirgð Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar að þessir flokkar skuli setjast niður undir forustu Pírata til að ræða stjórnarmyndun á grundvelli skoðanakannana.

Sem betur fer áttar þjóðin sig stöðugt betur á því hvílík vá það væri ef Píratabandalagið ætti að fara að stjórna landinu.

Þá væri nú heldur betur ástæða til að segja:"Guð blessi Ísland."

 


Hræðslubandalagið

Píratar sáu fylgistölur dala í skoðanakönnunum og ákváðu því að ná sér í ókeypis auglýsingu hjá ljósvakamiðlunum með því að bjóða til stjórnarmyndunarviðræðna á grundvelli skoðanakannna.

Formaður Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar sem horfa upp á að veruleg áhöld kunna að vera um það miðað við sömu skoðanakannanir hvort flokkar þeirra ná þingmanni í næstu kosningum ákváðu að ganga til bandalagsins á grundvelli sömu sjónarmiða og Píratar það að mynda nýtt Hræðslubandalag.

Katrínu Jakobsdóttur tókst í nokkurn tíma að vera með humm og ha gagnvart þessum tilburðum Hræðslubandalagsins einkum vegna þess að hennar flokkur hefur verið í sókn skv.sömu könnunum. Svo fór að lokum að hún ákvað að setjast með Hræðslubandalaginu enda ljóst að ef til kæmi þá yrði hún forsætisráðherra. Velferð landsins mætti þá skoða með tilliti til þess með hvaða hætti Katrín Jakobsdóttir stóð sig sem menntamálaráðherra í tíð síðustu vinstri stjórnar.

Í framhaldinu gumar Hræðslubandalagið af því að nú verði stofnuð ný vinstri stjórn sem hafi það að meginmarkmiði að taka miklu meiri peninga frá þér skattgreiðandi góður til að auka millifærslur í ný ríkisstyrkt gæluverkefni og bruðl. Þá er það einnig yfirlýst viðfangsefni að rugla í stjórnarskránni með óskilgreindum hætti.

Svo er komið að hófsömu félagshyggju- og vinstra fólki er brugðið þegar það horfir upp á að foringjar Hræðslubandalagsins ætla að mynda nýja hreinræktaða vinstri stjórn eins og Jóhanna og Steingrímur gerðu áður og leiða hina Guðs voluðu Pírata til áhrifa í íslenskum stjórnmálum.

Hófsömu félagshyggju- og vinstrafólki hrýs hugur við þessu og það spyr hvað getum við kosið fyrst svona er komið af því að það horfir á það með skelfingu hvers konar óstjórn þjóðin fengi með þessu ofurríkishyggjuliði. Það spyr hvað getum við kosið og finnst að mörgu leyti með réttu erfitt að kjósa flokka sem hafa ekki tekið til hjá sér með nauðsynlegum hætti og leyft sérhyggju og spillingarliði að fara sínu fram.

En jafnvel þetta hófsama vinstra- og félagshyggjufólk segir allt er betra en þetta glórulausa lið sem nú hefur sest niður í boði Pírata sem njóta einungis fylgis "ég er á móti fólks" úr öllum áttum.

Hugsandi fólk sem þekkir söguna er eðlilega á varðbergi og því er brugðið, ef það á eina ferðina enn að sigla upp með ríkisstjórn í sama anda og þær ríkisstjórnir sem verst hafa reynst á Íslandi.

 


Pólitískir fréttaskýringar í kufli fræðimennsku.

Í lögum um Ríkisútvarpið er kveðið á um að RÚV miðli fréttum með sem hlutlægustum og sönnustum hætti. Ríkisútvarpið er rekið fyrir almannafé og þess vegna geta neytendur gert kröfu til að fréttastofa RÚV standi sig ekki verr en einkastöðvar sem þurfa ekki að lúta sömu lagafyrirmælum.

Samt sem áður gerist fréttastofa RÚV sig ítrekað seka um að flytja áróður í stað frétta og lýsa einni skoðun sem þá á að vera hinn heilagi sannleikur. Kallaðir eru til stjórnmálamenn í kufli fræðimanna eins og Silja Bára Ómarsdóttir, Eiríkur Bergmann og Ólafur Harðarsson til að þrýsta áróðrinum enn betur ofaní pöpulinn.

Þessi viðleitni er áberandi þegar bornar eru saman umfjallanir fréttastofu RÚV og erlendra fjölmiðla. Í morgun var t.d. fjallað um kappræður Donald Trump og Hillary Clinton með þeim hætti í RÚV að ómögulegt var að álíta annað en Trump væri stórhættulegur "monster" og Silja Bára gaf "fræðilega"skýringu á málinu.

Í breska stórblaðinu Daily Telegraph er farin önnur leið. Átta blaðamenn lýsa sinni skoðun á kappræðunum og draga fram mismunandi hluti. Meirihlutinn segir að Trump hafi verið sigurvegari en 3 af átta hafa aðra skoðun og einn segir að kappræðurnar hafi verið "disaster" fyrir Trump. Með því að lesa skoðanir blaðamannana fæst betri mynd af því sem um gerðist, en áróður RÚV með Silju Báru í ofanálag.

Í gær var Kastljósþáttur um símtal sem Geir H. Haarde og Davíð Oddsson áttu í aðdraganda þess að stóru viðskiptabankarnir þrír féllu í október 2008. Þar láðist að geta þess sem mestu máli skiptir. Í ljós kom að veðið sem tekið var í FIH bankanum fyrir lánveitingunni reyndist fullnægjandi.

Ríkissjóður og/eða Seðlabankinn hefðu verið skaðlaus af láninu ef Már Guðmundsson Seðlabankastjóri hefði ekki tekið þá ákvörðun að hafna tilboði í bankann sem hefði tryggt fulla endurgreiðslu en þess í stað ákveðið að leika sér sem vogunarsjóður eingöngu til hugsanlegs ábata fyrir slitastjórn Kaupþings en áhættu fyrir ríkissjóð. Áhættan sem Már Guðmundsson tók kostaði ríkissjóð milljarða en ekki lánveitingin sjálf. Um það fjallar RÚV ekki.

Sá kafli málsins sem snýr að núverandi Seðlabankastjóra er mun athyglisverðari en símtal Davíðs og Geirs. Af hverju skyldi Kastljós eða fréttastofa RÚV ekki fjalla um það hvað þá heldur pólitísku fréttaskýrendur RÚV í kufli fræðimanna.  


Sokkabuxur og tollskrá

Á baksíðu Morgunblaðsins í dag er fyrirsögnin "Sokkabuxnakonan er komin og þá bregðast konurnar við".

Þá rifjaðist upp fyrir mér sagan af því þegar Ólafur Björnsson hagfræðiprófessor og þingmaður Sjálfstæðisflokksins barðist hvað harðast fyrir viðskiptafrelsi og afnámi tolla og sagði að tolltekjur ríkisins mundu ekki minnka þó tollar af vörum eins og t.d. nælonsokkum mundu verða lækkaðir.

Ári síðar sá þingmaður Framsóknarflokksins Skúli Guðmundsson þingmaður Vestur Húnvetninga ástæðu til að koma í ræðustól á Alþingi til að benda á að Ólafur Björnsson hefði haft algjörlega rangt fyrir sér. Tollar og innflutningur á nælonsokkum hefði gjörsamlega hrunið þrátt fyrir að tollar á nælonsokkum hefðu verið lækkaðir verulega.

Ólafur fylgdist betur með undirfataklæðnaði kvenna en kollegi hann úr Vestur Húnavatnssýslu og benti á að það væri rétt að tolltekjur af nælonsokkum hefði hrunið. En benti þingmanninum á að skoða næsta tollflokk þar sem um væri að ræða gríðarlega aukningu og meiri en sem hefði numið öllum tolltekjum af nælonsokkum. Þar væri um sokkabuxur að ræða og Ólafur sagði.

Nú er nefnilega svo komið háttvirti þingmaður að konur ganga í sokkabuxum.

Það skiptir máli að skoða hlutina áður en geipað er með vitleysu  og þvert á það sem Skúli taldi sig geta sannað þá gat Ólafur bent á yfirburði markaðshagkerfisins með einföldum samanburði og réttmæti þess sem hann hafði áður haldið fram.


Neytandinn borgar

Samkeppnisstofnun hefur beitt Mjólkursamsöluna viðurlögum fyrir ólögmæta markaðsstarfsemi til að koma í veg fyrir samkeppni á þessum mikilvæga neytendamarkaði. Forstjóri fyrirtækisins segir að neytendur muni á endanum borga þessar sektir. Hvort sem fólki líkar það betur eða verr þá er það staðreyndin þegar markaðsráðandi fyrirtæki eru beitt slíkum viðurlögum.

Af hverju þá að leggja höfuðáherslu á það að sekta fyrirtæki?

Fyrirtæki sem slíkt brýtur ekki lög heldur þeir sem stjórna því. Það eru alltaf einstaklingar sem standa að lögbrotum -líka brotum á samkeppnislögum. Af hverju ekki að leggja höfuðáherslu á að refsa þeim seku í stað þess að refsa neytendum?

Í 41.gr.a og b samkeppnislaga er heimild til að refsa einstaklingum fyrir tiltekin brot á Samkeppnislögum. Breyta þarf samkeppnislögum á þann veg að refsing einstaklinganna sem standa að brotunum verði aðalatriðið og sektir eða stjórnvaldssektir fyrirtækja verði aukaatriði nema til að gera upptækan ólögmætan hagnað fyrirtækjann af markaðshindrandi starfsemi.

Mikilvægast fyrir neytandann í frjálsu markaðshagkerfi er að virk samkeppni sé á markaði. Virkasta leiðin til að svo geti verið er að gera einstaklingana ábyrga fyrir samkeppnisbrotum.

 

 


Flutt í skattaskjól

Það er velþekkt, að eiginkonur láta ekki eiginmenn sína vita um allar sínar gerðir ekki frekar en þeir, þær. Ég tel uppá að Dorrit Moussaief hafi ekki sagt eiginmanni sínum allt af létta um peningalegar eignir sínar og umsvif í því sambandi.

Þegar Ólafur Ragnar og Dorrit tóku saman árið 2003 var forsetinn undanþegin skattgreiðslum og Dorrit flutti því til hans í skattaskjól, þegar þau giftu sig. Það var skammgóður vermir. Lög voru samþykkt á Alþingi nokkru síðar sem tóku af skattfríðindi forsetans. Vel má vera að Dorrit hafi unað þessu illa og því ákveðið að flytja fjármuni sína í önnur og hentugri skattaskjól auk þess að flytja lögheimili sitt úr landi.

Hvað sem líður Tortolla reikningum Dorrit eða öðrum reikningum í skattaskjólum þá er ljóst að það kemur illa við forsetann að hún hafi ráðstafað fjámunum sínum með þeim hætti þvert á það sem hann taldi að væri og hefur fullyrt í fjölmiðlum.

Nú verður það helst til varnar sóma forsetans að hann geri skilmerkilega grein fyrir þessum málum öllum svo þjóðin geti áttað sig á hvað um er að ræða í kjölfar fullyrðinga erlendra fjölmiðla um leynireikninga forsetafrúarinnar í skattaskjólum.

Sé svo að frú Dorrit hafi átt og eigi reikninga í skattaskjólum þá er það alvarlegt mál fyrir þjóðhöfðinga Íslands að fjármál konu hans séu með þeim hætti.

Mér finnst eðlilegt að sett séu þau siðrænu mörk fyrir kjörna fulltrúa sem starfa í nafni íslensku þjóðarinnar og með umboði hennar, að hvorki þeir né makar þeirra eigi  peninga í skattaskjólum. Þetta gildir óháð því hver í hlut á eða hvort manni líki vel við viðkomandi eða jafnvel styðji viðkomandi að öðru leyti. Þannig þarf forseti lýðveldisins, fjármálaráðherra og innanríkisráðherra að gefa þjóðinni fullnægjandi skýringar á eignum sínum og þess vegna maka í skattaskjólum, í hvaða tilgangi peningarnir hafi verið fluttir þangað og sýna fullnægjandi gögn um eðlilega meðferð leynireikninganna hvað varðar samskipti við íslensk yfirvöld.

Gangi það ekki eftir að ofangreindir kjörnir fulltrúar þjóðarinnar geri ekki fullnægjandi grein fyrir þessum hlutum þá verða þeir hinir sömu að víkja.

 


Sleppum ekki skúrkunum

Jón Steinar Gunnlaugsson fyrrverandi Hæstaréttardómari skrifar athyglisverða grein í Mbl. í dag.

Jón spyr hvort íslenskir athafnamenn hafi komið eignum sínum undan aðför skuldheimtumanna sinna vegna atvinnureksturs síns hér á landi og fyrirtæki þeirra síðan orðið gjaldþrota og kröfuhafar ekki fengið greitt vegna þess að athafnamennirnir hafi í raun stolið eignunum með undanskotinu.

Annað og ekki síður alvarlegt sem Jón Steinar bendir á:

"Þess er þá stundum dæmi, að þeir sem hafa verið fengnir til að stýra skiptum skúrkanna, "sjái ekki ástæðu til", að elta uppi þrjótana sem komið hafa eignum undan. Þetta kunna að vera menn sem staðið hafa í viðskiptasambandi við skúrkinn áður en fyrirtækið fór á hausinn og óhætt er að gruna um að gæta ekki hlutleysis gagnvart honum." (feitletrun mín)

Jón Steinar víkur að því að vanhæfir einstaklingar til meðferðar máls hafi verið skipaðir af dómurum til að fara með mál aðila sem þeir voru með einum eða öðrum hætti í tengslum við. Þeir hafi síðan sleppt að rannsaka augljós og/eða hugsanleg brot, þar á meðal undanskot. Brotlegi athafnamaðurinn hafi því sloppið frá glæpnum vegna tengsla við vanhæfan skiptastjóra.

Enn segir Jón Steinar:

"Getur verið að dómarar sem skipi slíka þjóna til þessara verka hafi líka hangið á upp á snaga, þess athafnasama manns sem í hlut á"

Gat hugsanlega verið um samsæri að ræða? Viðkomandi dómari sem skipaði skiptastjóra í bú fyrirtækja athafnamanna eða athafnamanns hafi skipað þann, sem hann vissi að mundi fara mildum höndum um athafnamanninn.

Sumum finnst þægilegt að stinga höfðinu í sandinn til að komast hjá að sjá þá gjörspillingu sem viðgengst víða í samfélaginu. Aðrir draga rangar ályktanir af gefnum staðreyndum. Jón Steinar er maður sem síst verður sakaður um þetta.

Nú þegar upplýsingar hafa komið með Panamaskjölunum, sem sýna ótrúlega auðlegð og umsvif athafnamanna, sem stýrðu fyrirtækjum sínum í risastór milljarða og jafnvel hundraða milljarða gjaldþrot,þá ber brýna nauðsyn til að taka undir með Jóni Steinari, að rannsóknaryfirvöldum beri skylda til að bregðast við og hefja rannsókn með öllum tiltækum löglegum ráðum til að fá úr því skorið hvort auðlegð viðkomandi stafi frá því að þeir stálu eigin peningum til að komast hjá því að borga skuldir sínar og/eða fyrirtækja sinna hér heima.

Þó ekki skuli dregið úr alvarleika þess þegar kjörnir fulltrúar almennings sýsla með fjármuni í skattaskjólum þá eru þessi atriði sem Jón Steinar bendir á í frábærri grein þau alvarlegustu og  skipta mestu máli.

Heiðarlegir fjölmiðlar hljóta að taka þessi mál til rækilegrar skoðunar og umfjöllunar. Rannsóknaryfirvöld verða að hafa það sem forgangsverkefni að rannsaka þessi mál til hlítar.

Ber ekki brýna nauðsyn að gæta þess að allir séu jafnir fyrir lögunum og geti ekki keypt dómara, skiptastjóra o.fl.o.fl.til að ná fram ólöglegum hlutum sem aðrir borgarar líða fyrir á sama tíma og ójöfnuður verður til í samfélaginu.  


Að hafa forskot

Margir andstæðingar sitjandi forseta og mótframbjóðendur hans kveinka sér undan því að hann hafi forskot á aðra frambjóðendur. Einhver sagði að þetta væri eins og að keppa í 100 metra haupi þar sem Ólafur Ragnar hefði 60 metra forskot.

Í frjálsu þjóðfélagi keppir fólk oftast við einhverja sem hafa forskot hvort heldur það er í einkalífinu eða í viðskiptum. Kaupmanninum,sem ætlar að opna nýja verslun í samkeppnisrekstri er ljóst að þeir sem fyrir eru hafa forskot. Sama er með iðnaðarframleiðandann sem veit að hann verður að ná ákveðinni markaðshlutdeild frá þeim sem fyrir eru á markaðnum.

Kóka Kóla er fyrirtæki sem hefur mikið forskot. Þegar það var stofnað höfðu önnur fyrirtæki mikið forskot. Einn stofnanda Kóka Kóla, óaði við forskoti annarra og hann seldi alla hluti sína í Kóka Kóla og keypti hluti í fyrirtækinu Strawberry Kóla sem hafði algert forskot á Kóka Kóla. Veit einhver um fyrirtækið Strawberry Kóla í dag?

Það er ekki málefnalegt hjá andstæðingum sitjandi forseta og illyrmum í hans garð að tönnlast á því að hann hafi forskot. Forsetinn hefur vissulega farið í gegn um stormasamt kjörtímabil þar sem hann hefur komist vel frá þeim verkefnum sem hann hefur þurft að leysa. Mótframbjóðendur hans verða að sýna að þeir geti leyst slík verkefni betur en sitjandi forseti til að kjósendur telji þá eiga erindi. Flóknara er það ekki.

Annað atriði sem væri meiri ástæða til að gefa gaum en meint forskot Ólafs Ragnars, er hvort einhverjir frambjóðendur til forsetakjörs njóti sérstakra styrkja og þá hverra. Sérstaklega þarf að skoða hvort að einstakir frambjóðendur njóti sérstakrar velvildar aflandsbaróna eða barónessa "með einum eða öðrum hætti".


Aflandsfélög og skattaframtöl stjórnmálamanna.

Forsætisráðherra Breta átti ekki reikning í skattaskjóli eins og eiginkona Sigmundar Davíðs, Bjarni Benediktsson og Ólöf Norðdal. Þó David Cameron hafi ekki átt persónulega reikninga í skattaskjóli þá fannst honum samt nauðsynlegt að birta allar upplýsingar sem máli skipta um varðandi framtöl sín til skatts aftur til ársins 2009 til dagsins í dag til að reka af sér ámæli vegna arfs og annars úr skattaskjólsreikningum.

Fyrrverandi forsætisráðherra Sigmundur Davíð hefur ítrekað sagt að allir skattar hafi verið greiddir af aflandsreikningi konu hans og áður þeirra beggja á Tortóla. Sama segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Ólöf Norðdal varðandi sína reikninga á þeim slóðum. Af því gefna tilefni væri rétt að þau legðu fram skattagögn sín með sama hætti og breski forsætisráðherrann og raunar fleiri stjórnmálamenn þar í landi hafa gert.

Það tekst engum að sanna, að hann hafi greitt skatt af aflandsfélögum hvort sem þau eru á Tortóla, Panama eða annarsstaðar nema leggja fram staðfestingu á því

Hópur stjórnmálamanna í Bretlandi hefur vegna skattaupplýsinga Cameron talið sig þurfa að birta upplýsingar um sig. Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar heldur sama veg hvað það varðar.

Ekki verður séð að það sé góður siður að stjórnmálamenn fari almennt að birta almenningi skattaframtöl sín. Þó einn stjórnmálamaður sé grunaður um græsku vegna samneytis við aflandsfélög á Tortóla eða Panama, þá þurfa aðrir ekki að líða fyrir það. Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar er enn svo komið er  ekki grunaður um græsku í þessum efnum. Birting hans á skattaupplýsingum sínum er umfram það sem eðlilegt er.

Öðru gegnir varðandi Sigmund Dvíð, Bjarna Benediktsson og Ólöfu Norðdal. Nöfn þeirra koma fram í Panamaskjölunum. Þeim liggur á að sýna fram á að staðhæfingar þeirra um skattgreiðslur af þeim reikningum og fullnægjandi gagnaskil séu fyrir hendi.


Er einhver ómissandi?

"Það er hárrétt að þau fyrirtæki sem eru með eignarhald víða um heim og sérstaklega á þessum Jómfrúareyjum og öðrum eyjum, koma sér undan því að borga skatta til ríkisins, en það er ekki aðalvandinn.

Aðalvandinn er sá að eignarhaldið er líka dulið og mjög margt svipað hulu með þessum fyrirtækjum og það skaðar atvinnulífið miklu meira. Krosseignarhald getur verið dulið á þennan hátt, keðjueignarhald o.s.frv.

(Pétur H. Blöndal alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í þingræðu 1.4.2009)

Áttar Sjálfstæðisfólk sig ekki á því að það er engin maður svo merkilegur eða ómissandi, að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki merkilegri eins og Jóhann Hafstein fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins sagði. Ef ekki þá er úti um Sjálfstæðisflokkinn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 154
  • Sl. viku: 3270
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3054
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband