Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Leikbrúðurnar

Það var fróðlegt að fylgjast með fréttum í gærkvöldi. Í rúma tvo tíma höfðu fréttamiðlarnir ekki upp á aðrar fréttir að bjóða en tala við  mótmælendur á Austurvelli, mynda stigann í Alþingishúsinu og tala við þá stjórnarandstöðuþingmenn sem tróðu sér fram fyrir upptökuvélina eins neyðarlegt og það nú var.

Orðræður stjórnarandstöðunnar og síðar forustufólks nýrrar ríkisstjórnar minntu á gömlu leikföngin mín, sem hétu sprellikarlar. Tekið var í spotta og þá hreyfðu þeir sig alltaf eins. Lyftu höndum og fótum. Allt fyrirsjáanlegt. 

Stjórnarandstaðan tönnlaðist á "kosningar strax". En af hverju? Jú stjórnarandstöðsprellifólkið sagði stjórnin er rúin trausti vegna Tortólureikninga Sigmundar Davíðs. Að Sigmundi gengnum hvað þá? Er þá ekki komin lýðræðislega valin stjórn sem ætti að njóta sama trausts og áður. Líkþornið hefur verið fjarlægt.

Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar tönnluðust á því að mörg verk væru óunnin og ábyrgðarhluti að hlaupa strax í kosningar. Þannig er það raunar alltaf þegar kosningar eru. Ríkisstjórnin á ólokið mörgum mikilvægum verkefnum.

Boðað er til mótmælafundar á Austurvelli í dag til að mótmæla nýrri ríkisstjórn. Af hverju? Er eitthvað það að nýju ríkisstjórninni sem að afsakar frekari mótmæli. Um er að ræða lýðræðislega valda stjórn. Engar forsendur eru því til að mótmæla nýju ríkisstjórninni nema fólk telji að enn sitji fólk í ríkisstjórninni sem að séu álíka líkþorn á stjórnarlíkamanum og Sigmundur Davíð var. Sé svo þá verður fólk að segja það. Annars vantar inntakið í mótmælin.


Örlagatímar og lausnir

Hvað á forseti lýðveldisins að gera þegar forsætisráðherra, sem er ekki í andlegu jafnvægi, trausti rúinn og hefur ekki stuðning þjóðarinnar, eigin flokks eða samstarfsflokks, krefst þess að forsetinn skrifi upp á opin víxil um þingrof og kosningar. Forsetinn getur ekki sagt neitt annað en Nei við slíkri bón. Slíkt Nei er ekki brot á stjórnskipunarreglum heldur heibrigð skynsemi og nauðsynleg stjórnviska.

Sigurvegari gærdagsins var ótvírætt Ólafur Ragnar Grímsson forseti sem steig inn í erfiðan dans sem honum var boðið upp í, skömmu eftir heimkomu og leysti svo vel að ekki var hægt að gera það betur.

Í gær kom í ljós hvað það skipti miklu máli að hafa forseta sem hefur þor,víðtæka þekkingu og nýtur trausts þjóðarinnar. Fólk getur velt því fyrir sér hvort einhver þeirra sem buðu sig síðast fram á móti Ólafi Ragnari Grímssyni hefðu í gær komist með tærnar, þar sem hann hafði hælana fyrir löngu eða hvort einhver af þeim hópi sem býður sig fram núna til forseta sé líklegur til að geta ráðið við mikilvægasta hlutverk forsta lýðveldisins sem er: Að tryggja festu í stjórnarfari landsins og starfhæfa ríkisstjórn í landinu.

Eðlilegt er að fólki sé brugðið við þau tíðindi að mikill fjöldi Íslendinga eigi leynireikninga á Tortólu sem er í umsjá Panamískrar lögmannsstofu. Þeir sem þola ekki að eiga reikningana sína á almennum bankrareikningum undir eigin nafni eiga ekkert erindi í pólitík í lýðræðislandi.

Íslenska þjóðin hefur búið um margt í okursamfélagi þar sem stjórnvöld hafa vegna þjónkunar sinnar við sérhagmuni tekið sérhagsmunina framyfir hagsmuni fólksins í landinu. Þess vegna er matvælaverð með því hæsta í heiminum. Þess vegna er fólki meinað að gera hagkvæm og ódýr innkaup á mörgum hlutum.  Þess vegna þarf fólk að taka verðtryggð lán með okurvöxtum eða óverðtryggð með ennþá meiri okurvöxtum.

Þegar þannig háttar til, er eðlilegt að þrautpíndir þrælar okursamfélagsins bregðist illa við þegar í ljós kemur að nokkrir helstu ráðamenn landsins eigi leynireikninga í erlendri mynt á Tortólu á sama tíma og þeir berjast fyrir því að íslenska krónan verði framtíðargjaldmiðill landsins með tilheyrandi verðtryggingu.

Hvað gat orðið þess valdandi að þessir ráðamenn og aðrir Tortólureikningseigendur veldu að eiga nafnlausa reikninga á Tortólu? Til að fela eignarhald sitt á fjármunum.

Það stoðar lítið að segja að allt hafi verið uppi á borðinu og allir skattar greiddir af því að það er ekki nokkur kostur að sannreyna þær staðhæfingar. Eftir sem áður liggur fyrir að Tortólureikningshafar voru að fela slóð peninganna sinna og af hverju þurftu þeir að gera það?

Mér finnst miður að svo mikill fjöldi íslendinga sem raun ber vitni skuli hafa talið eðlilegt að fela peingana sína í skattaskjólum í umsjá lögmannsstofu sem að öðru jafnan aðstoðar vopnasala, eiturlyfjasala, þá sem stunda mannsal og einræðisherra sem eru að féfletta þjóðir sínar. Ekki góður félagsskapur það. Sæmir ráðamönnum lýðræðisríkis að vera í slíkum félagsskap?

Innan skamms á að kynna samkomulag stjórnarflokkana um fyrirkomulag stjórnar lýðveldisins þar sem tilkynnt hefur verið að flokkarnir hafi náð samkomulagi.

Hvað svo sem líður samkomulagi stjórnarflokkana þá sýnist mér veður vera svo válynd í íslensku samfélagi og traust fólks á stjórnmálamönnum það lítið, að við slíkar aðstæður er það ábyrgðarhluti fyrir sitjandi forseta að breyta ekki ákvörðun sinni um að gefa ekki kost á sér til endurkjörs.

Það er því full ástæða til þess að skora á Ólaf Ragnar Grímsson að gefa kost á sér til endurkjörs, því svo virðist sem þjóðin hafi aldrei haft jafnmikla þörf fyrir það að hann sitji sem forseti lýðveldisins  næsta kjörtímabil og tryggi eftir mætti festu í stjórnskipun landsins og komi í veg fyrir stórslys sem annars gætu orðið.


Vont mál

Það er óafsakanlegt, að forsætisráðherra, fjármálaráðherra og fleira forustufólk í íslenskum stjórnmálum skuli hafa kosið að geyma peningana sína í hulduhvelfingum eyjunnar Tortóla í umsjá lögmannsstofu í Panama. Ég hef iðulega gagnrýnt Kastljós og RÚV, en í þetta sinn sýndi stofnunin að hún getur tekið heildstætt og hlutlægt á málum.

Á sama tíma og þessir sömu forustumenn hafa staðið vörð um verðtryggingu og hávaxtastefnu, sem hefur íþyngt fólkinu í landinu kýs það að vera í allt öðru umhverfi með sína peninga en fólkið í landinu. Þetta er líka fólkið sem hefur sagt að krónan væri framtíðargjaldmiðill íslensku þjóðarinnar. Af hverju vildu þau þá frekar vera með peningana sína erlendis í leynihvelfingum þar sem vextir eru lægri en hér á landi. Af hverju? Einhverjir hagsmunir eru því tengdir og það er í sjálfu sér ekki flókið að sjá hverjir þeir eru.

Þegar fullyrt er af forsætisráðherra að allt hafi verið talið fram og full skattaskil hafi átt sér stað þá má spyrja á móti hvort Wintris félagið hans eða önnur félög forustumanna í pólitík á Tortólu hafi skilað ársreikningum. Sé svo hvenær gerðu þau það og hvernig? Ég tel upp á að þau hafi ekki skilað ársreikningum og tal um rétt skil á sköttum og gjöldum eru þá einhliða yfirlýsingar sem ekki verða hraktar vegna leyndarinnar varðandi starfsemi og fjármál viðkomandi félaga.

Í kjölfar bankahrunsins í október 2008, skipti máli að byggja upp traust fólksins í landinu á mikilvægustu ríkisstofnunum og stjórnmálamönnum. Ég taldi á þeim tíma einsýnt að Sjálfstæðisflokkurinn mundi fara í gagnrýna skoðun á stefnu sinni og störfum næstu ár á undan, viki frá sérhagsmunavörslu og reyndi á nýjan leik að ná því trausti að flokkurinn gæti í raun talist flokkur allra stétta. Yrði á ný raunverulegur þjóðarflokkur. Þess vegna gekk ég á ný til liðs við Sjálfstæðisflokkinn, þar sem ég aðhyllist einstaklingsfrelsi og athafnafrelsi einstaklingsins, lítil ríkisumsvif og frjáslynd viðhorf í stjórnmálum.

Sjálfstæðisflokkurinn tapaði einum af hverjum þrem kjósendum sínum við Hrunið eða um 33% stuðningsfólks síns og hefur ekki endurunnið traust þeirra. Þverrandi líkur eru á því að núverandi forustufólk flokksins nái að endurvinna það traust.  

Nú þegar upplýst hefur verið að formaður Sjálfstæðisflokksins og fleiri forustumenn hans voru með hendurnar á bólakafi í kökuboxi skattaskjóla og leyndar sem og virkir leikendur í aðdraganda Hrunsins, þá er líklegt að traust á Sjálfstæðisflokknum minnki enn frekar og spurning hvort ekki sé nauðsynlegt að þau axli þá flokkslegu ábyrgð að segja af sér.

Jóhann Hafstein einn merkasti forustumaður Sjálfstæðisflokksins fyrr og síðar sagði einu sinni að það væri engin maður svo merkilegur að Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki miklu merkilegri.

Það á að gera ákveðnar siðrænar kröfur til stjórnmálafólks. Þeir sem taka að sér forustustörf í stjórnmálum verða að afsala sér ýmsu sem afsakanlegt getur hugsanlega verið hjá öðrum.

Siðvæðing íslenskra stjórnmála er nauðsynleg. Byggja verður upp traust milli þjóðar, þjóðfélagsstofnana og stjórnmálamanna. Það þolir enga bið. 


Boðað til þingrofs

Upplýst hefur verið að nokkrir stjórnmálamenn þ.á.m. ráðherrar eigi og/eða hafi átt reikninga í aflandsfélögum staðsettum í skattaskjólum eins og Tortóla. Fjarri fer því að þáttaka þessa fólks í Hrunadansinum sem náði hámarki í lok árs 2008 sé því til álitsauka.

Þetta fólk býr ekki við þann raunveruleika sem meginhluti íslensku þjóðarinnar býr við. Einn ráðherra Framsóknarflokksins orðaði það enda svo að það væri erfitt að eiga peninga á Íslandi. Hingað til hefur meginþorri þjóðarinnar talið það vera öllu erfiðara að eiga ekki peninga á Íslandi.

Í framhaldi af upplýsingum um eignarráð forustufólks í stjórnmálum og/eða umgengni við reikninga á Tortóla hófst hefðbundin lögfræðileg vörn alþingismannsins Brynjars Níelssonar undir vígorðinu "Þau brutu ekki lög".

En pólitík snýst ekki fyrst og fremst um það hvort stjórnmálamaður brýtur lög heldur hvort hann eða hún er verðug trausts.

Í því sambandi má spyrja af hverju þurfti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir að segja af sér sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Hafði hún brotið einhver lög? Fjarri fór því. Samt var hún knúin til að segja af sér sem varaformaður. Gilda önnur lögmál fyrir þá ráðamenn sem nú hafa komið fram sem þáttakendur í Hrunadansinum?

Þegar neyðin er stærst er hjálpin stundum næst. Stjórnarandstaðan lætur hjá líða að bregðast málefnalega við þeim upplýsingum sem nú liggja fyrir um Tortóla og annarra skattaskjóls ævintýra nokkurra forustumanna í pólitík og telur að það sem helst megi verða til varnar vorum sóma að þing verði rofið. Af hverju. Brutu þingmenn almennt af sér? Er ekki vandinn einstaklingsbundinn og á þá ekki að taka á því. Skiptir þá ekki máli að þeir sem bera ábyrgð verði látnir sæta ábyrgð en ekki einhverjir sem hafa ekkert með málið að gera?

Sjálfskipaður eða skipaður hvort sem er Foringi Pírata Birgitta Jónsdóttir segir "þess vegna datt okkur í hug að boða til þingrofs" Allir forustumenn stjórnarandstöðunar taka undir með Birgittu og segjast ætla að boða til þingrofs.

Boða hvað? Hefur stjórnarandstaðan eitthvað með þingrof að gera? Samkvæmt 24.gr. stjórnarskrárinnar getur forseti rofið Alþingi. Samkvæmt 13.gr. stjórnarskrárinnar lætur forseti ráðherra framkvæma vald sitt. Þingrofsrétturinn er því í raun í höndum forsætisráðherra. Það er því afglapalegt þegar stjórnarandstaðan bregst þannig við upplýsingum um Hrunadans einstakra ráðamanna að hún ætli að boða til þingrofs, sem henni kemur ekkert við og hefur ekkert með að gera.

Stjórnarandstaðan getur hins vegar lagt fram vantraust á ríkisstjórn og/eða einstaka ráðherra. Það gæti verið málefnalegt ef tilefni er til. Samt sem áður ber að varast  að hrapa að ákvörðunum hvað það varðar og leita allra upplýsinga um mál áður en ýtt er úr vör til mikilvægra aðgerða.

Vanhæfni stjórnarandsstöðunnar er eitt. Þáttaka einstaklinga í áhrifastöðum í Hrunadansinum fyrr og síðar er svo annað.

Því miður leiðir hvorttveggja til enn minnkandi trausts almennings á forustufólki íslenskra stjórnmála.  


Þróunaraðstoð, kapítalismi, fátækt og framfarir.

Jóhanna Sigurðardóttir sagði þegar hún varð forsætisráðherra að ósigur kapítalismans væri algjör og Steingrímur J. tók undir. Fullyrðingar Jóhönnu og Steingríms um andlát kapítalismans var röng.  Vinstra fólk básúnar oft fullyrðingar eins og þessar, en skoðar ekki samtímaheimildir hvað þá söguna.

Frá því að Kína tók upp markaðshagkerfi hafa 300 milljónir manna komist frá fátækt til bjargálna á rúmum áratug. Allan tímann sem Maó og hans nótar ríktu dóu milljónir Kínverja úr hungri og skorti á brýnustu lífsnauðsynjum öðrum. Fátækt var landlæg.

Í grein sem Fraser Nelson skrifaði í Daily Telegraph annan í jólum "Capitalism is another good news story at Christmas" bendir hann á auglýsingar um að malaría drepi einn einstakling á mínútu í Afríku og áskorun til fólks að hjálpa. Nelson segir m.a. að það sem auglýsingarnar segi ekki sé hvernig Afríkubúar séu að hjálpa sér sjálf. Malaría sé á hraðara undanhaldi en nokkru sinni áður og dauðsföll af hennar völdum helmingur þess sem var í byrjun aldarinnar. Sömu sögu er að segja um  vannæringu. Vannæring hefur aldrei verið minni í Afríku.

Árið 2015 hefur verið sérstakt ár fyrir Afríku. Engin nýgengni lömunarveiki hefur verið tilkynnt í ár. Aids smit eru helmingi færri en fyrir 15 árum. Stuðningur erlendis frá hefur haft mikla þýðingu en það gleymist, að mikilvægasta aflið á bak við þessa jákvæðu þróun er aukin markaðshyggja. Viðskipti færa mun meiri peninga, velmegun og hreinlæti til Afríku en þróunaraðstoð.

Viðskipti milli landa Afríku hefur fimmfaldast á 15 árum, farsímar eru eins algengir í Nígeríu og Suður-Afríku og í Bretlandi. Velgjörðaraðilar og þróunarstofnanir segja ekki þessa sögu og hafa ekki sömu sýn á nútímann og t.d. Bill Gates sem segir að þróist hlutirnir með sama hætti næstu 20 árin og frjálst markaðshagkerfi ríki og frjáls viðskipti þá verði engin fátæk lönd lengur í heiminum. Leiðin til bætra kjara er með sjálfshjálp og frjálsum viðskiptum á grunvelli markaðshyggjunnar ekki sósíalismans, sem Evrópuríki eru svo upptekin við að gera að sínum veruleika í dag.

Margir geta sagt að Bill Gates sé full bjartsýnn, en séu skoðaðar hagtölur þá benda þær allar til þess að hann hafi rétt fyrir sér. Eða eins og Nelson segir í lok greinar sinnar:

"Þetta er saga sem ekki er sögð mjög oft. Hún er samt saga aldarinnar. Alþjóðavæðing dreifir hugmyndum, lyfjum og auði. Hún dregur úr misrétti og færir fólk nær hvert öðru. Með aukinni markaðshyggju gæti fátækt heyrt sögunni til eftir allt saman."


Heimskupör

Ríkisstjórnin hefur komið sér hjá því að móta eigin utanríkisstefnu. Í stað þess hefur hún játast undir hvað eina sem Evrópusambandinu þ.e. Angelu Merkel og Francois Hollande hefur dottið í hug.

Ein birtingarmynd þessa er vanhugsað viðskiptabann á Rússa á forsendum Evrópusambandsins. Afleiðing þessarar stefnu íslensku ríkisstjórnarinnar veldur þjóðarbúinu tjóni sem nemur mörgum milljörðum. Sjálfar aðgerðirnar gegn Rússum eftir kokkabókum Evrópusambandsins valda þeim engu tjóni. Við erum ekki að selja þeim þær vörur sem viðskiptabannið tekur til.

Hvaða vitræna glóra er í því að fórna þjóðarhagsmunum vegna ævintýraferðar Evrópusambandsins og Bandaríkjanna í Austurvegi, sem okkur kemur minna en ekkert við.

Það er dýrt að vera með ríkisstjórn sem metur hagsmuni Evrópusambandsins meira en þjóðarhag.


Nú eru gróðapungarnir góðir.

Sósíalistarnir sem stjórna Reykjavíkurborg segja að bílastæðahús í rekstri borgarinnar séu rekin með stórkostlegu  tapi. Þeir sjá ekki rekstrarlegar forsendur fyrir því að halda áfram rekstri bílastæðahúsanna og þá eru góð ráð dýr.

Arftaki Jóns Gnarr í Besta flokknum/Bjartri framtíð kynnti það sem einu lausnina sem þeir sósíalistarnir í borgarstjórninni ásamt honum, Samfylking, Vinstri grænir og Píratar sæu á vandanum væri að selja gróðapungum í borginni húsin til að þeir gætu ráðið bót á þeim vanda sem sósíalistarnir í Reykjavík sjá ekki nokkur tök á að gera.

Einkaframtakið á nú að leysa þann vanda sem sósíalisminn ræður ekki við. Sjaldan hefur heyrst eða sést jafn fullkomin málefnaleg uppgjöf sósíalista gagnvart markaðskerfinu, en kristallast í þessari afstöðu vinstri meirihlutans í borgarstjórn.

Nú geta þeir af því að við getum ekki.


Flottar umbúðir í París.

Við höfum loksins náð því sögulega takmarki að bjarga jörðinni frá loftslagsbreytingum. Þannig var samkomulagið sem náðist á loftslagsráðsstefnunni í París, kynnt.  Markmiðið er að hlýnun verði ekki nema 2 gráður á öldinni og lönd heimsins samþykkja að reyna að halda hlýnuninni innan við 1.5 gráður.

Ríku löndin eiga að greiða 100 milljarða dollara á ári til þróunarlandanna. Þau eru samt ekki lagalega skuldbundin til þess og munu ekki gera það miðað við fyrri reynslu.

Samkomulagið skuldbindur ekki neitt ríki lagalega til eins eða neins umfram það sem verið hefur. Orðalag og markmið samningsins er orðað svo frábærlega að fáheyrt er enda skipta umbúðir meira máli en innihald fyrir stjórnmála- og vísindaelítu nútímans. Árangurinn mælt með þeirri mælistiku er því gríðarlegur.

Tárfellandi forseti Kiribati eyja sagði að næðu menn ekki samkomulagi um hámarkshitun 1.5 gráður mundi Kiribati sökkva í sæ. Samt sem áður hefur landmassi Kiribati aukist en ekki minnkað og ekki mælist nein hækkun sjávarborðs þar.

Kína sem ber ábyrgð á helmingi losunar kolefnis mun tvöfalda kolefnislosun til ársins 2030 miðað við áætlanir um byggingar kolaorkuvera og Indland sem er þriðji stærsti kolefnalosandi heimsins ætlar að þrefalda losunina til sama tíma. Í dag eru áform um að byggja 2.500 ný kolaorkuver af því að kol eru ódýrasti orkugjafinn. Samþykkt Parísarráðsstefnunnar skiptir engu máli og þeim milljón vinnustundum sem var eytt þar hefði betur verið varið til annars.

Þrátt fyrir falleg orð og fyrirheit mun kolefnalosun aukast verulega því miður en ekki minnka og ekkert í samkomulaginu skuldbindur nokkurt ríki. Alvarlegasti lærdómurinn af Parísarráðstefnunni er því miður sá að stjórnmála- og vísindaelíta heimsins hefur afsalað sé raunverulegum markmiðum, en bullukollast í samræmi við það sem George Orwell hefði kallað "political newspeak" fjarri öllum sannleika eingöngu sett fram til að þóknast pópúlískum slagorðaflaumi án  raunveruleikatengingar eins og fullyrðingar forseta Kiribati.

 


Arfleifð sósíalismans

Valdatími sósíalista í Venesúela sem staðið hefur í 17 ár er lokið. Mið- og hægri flokkar unnu stórsigur í kosningum þar í gær.

Venesúela ætti að vera ríkasta land í Suður-Ameríku af því að landið flýtur á olíu sem er drjúg tekjulind sem önnur ríki í álfunni hafa almennt ekki og ekkert í sama mæli og Venesúela.

Þrátt fyrir að Venesúela fljóti á svarta gullinu þá skilja sósíalistar þannig við þjóðfélagið eftir 17 ára stjórn,að það er stöðugur skortur á nauðsynja- og lækningavörum. Hvergi mælist verðbólga meiri en einmitt í Venesúela. Harðstjórn hefur aukist í tíð sósíalistanna með tilheyrandi skerðingu á tjáningarfrelsi og handtökum pólitískra andstæðinga ríkisstjórnarinnar.

Árið 1999 tók Hugo Chavez við völdum í Venesúela og þá var til gnógt fjármuna til að styðja erlend sósíalistaríki. Spilling og hin dauða hönd sósíalismans hefur á þeim 17 árum sem síðan eru liðin dregið mátt úr þjóðfélaginu og leitt til vöruskorts, óðaverðbólgu og versnandi lífskjara.

Fólki lærist seint að það er ekki hægt að gera allt fyrir alla á annarra kostnað og stjórna hagkerfinu á forsendum alræðisvilja meintra öreiga. Það hefur allsstaðar endað illa.


Crime syndicate ltd.

Al Capone sagðist ekki bera ábyrgð á því þó fyrirtækið sem hann átti að stærstum hluta hefði gerst sekt um glæpsamlega starfsemi. Hann væri bara hluthafi og skipti sér ekki af rekstri fyrirtækisins. Al Capone var í því að selja fólki ólöglegan vökva, áfengi, á bannárunum í Bandaríkjunum. Þegar hann var sakaður um að hafa svikið undan skatti sagði Al Capone. " Það er ekki rétt það er ekki hægt að leggja skatt á ólöglegar tekjur."

Samkvæmt frumskýrslu Samkeppniseftirlitsins um sölu á öðrum vökva en áfengi þ.e. olíu kemst þessi opinberi eftirlitsaðili að þeirri niðurstöðu í frumskýrslu sinni að olíufélögin hafi stolið rúmum fjórum milljörðum af neytendum árið 2014.

Talsmenn olíufélaganna segja þetta alrangt og hafa upp orðagjálfur og röksemdir sem eru sambærileg  málflutningi þeirra fyrir tveim áratugum,  þegar flett var ofan af víðtækri svikastarfsemi og samráði þeirra. Þá var stolið milljörðum af neytendum, en ekki bara það. Húnæðislánin hækkuðu líka vegna ólögmæta samráðsins. Neytendur hafa aldrei fengið tjón sitt vegna þeirrar svikastarfsemi olíufélaganna bætt.

Nú eru eigendur olíufélaganna að stórum hluta lífeyrissjóðir. Sjóðir fólksins eins og talsmenn þeirra segja jafnan. Þessir eigendur olíufélaganna segja að þeim komi svikastarfsemi fyrirtækja sinna ekki við, af því að þeir skipti sér ekki af rekstrinum. Er það tæk skýring?

Neytendur eru neyddir til þess með nauðungarlögum að borga mestan hluta mögulegs sparnaðar síns til lífeyrissjóða. Er hald í því fyrir talsmenn lífeyrissjóðanna að segja að þeim komi ekki við þegar fyrirtæki þeirra eru að arðræna fólkið sem á lífeyrissjóðina? Fólkið sem fær engu ráðið um starfsemi þeirra en verður bara að borga.

Þegar eigendur lífeyrissjóða láta sér vel líka vegna þess að fyrirtæki skilar góðum hagnaði og skella skollaeyrum við þegar á það er bent að hagnaðurinn sé að stórum hluta vegna ólögmætrar starfsemi þá er það ekki að neinu leyti tækari röksemdir en röksemdir Al Capone fyrir tæpri öld. 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.9.): 1
  • Sl. sólarhring: 142
  • Sl. viku: 3271
  • Frá upphafi: 2604047

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 3055
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband