Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Óbilgjarnir öfgasinnar

Guðmundur Andri Thorson segir í blaðagrein að óbilgjarnir öfgasinnar sæki að Ríkisútvarpinu með linnulausum árásum. Ekki gerir greinarhöfundur tilraun til að skilgreina hvað felist í því sem hann kallar óbilgjarnar árásir öfgasinna.

Nú er það svo að gagnrýni á RÚV er af mörgum og mismunandi toga. Einn hópur telur að þar sé um að ræða pólitíska hlutdrægni. Aðrir gagnrýna á þeim forsendum að það sé ekki nægjanlega faglega unnið og metnaður ekki nægur. Enn aðrir gagnrýna RÚV vegna stöðnunar og þess að ekki sé brotið upp á nýungum. Svo eru þeir sem segja að ekki sé farið nægjanlega vel með það mikla fé sem stofnuin fær af nefskatti fólks og fyrirtækja. Loks eru það óbilgjarnir öfgasinnar eins og ég að mati Guðmundar Andra sem gagnrýna það að geta ekki valið um það hvort ég vilji vera áskrifandi eða ekki.

Það er brot gegn sjálfsákvörðunarrétti mínum sem borgara að skylda mig til að greiða til ljósvakamiðils í eigu ríkisins. Með því að hafa þá skoðun er ég orðinn óbilgjarn öfgasinni?

Stofnun eins og RúV verður að þola gagnrýni. Stofnun eins og Rúv verður að sætta sig við að forsendur rekstrar ríkisfjölmiðils eru allt aðrar nú þegar hægt er að nálgast fréttir og afþreyingarefni með einföldum hætti nánast hvar sem er. Stofnun eins og RÚV hefur ekki brugðist við kalli tímans og brotið upp á nýungum í takti við breytingar á fjölmiðlaumhverfinu.  Ég get með engu móti séð hvernig það kemur heim og saman að þeir sem gagnrýna stöðnun og vond vinnubrögð RÚV séu óbilgjarnir öfgamenn sem vilji sundra þjóðinni.

Ekki dettur mér í hug að kalla Guðmund Andra óbilgjarnan öfgasinna þó við séum ekki á sama máli varðandi hljóðvakamiðlun. Mér finnst það hinsvegar öfgar hjá öllum þeim sem telja rétt að svipta mig og aðra frelsi til að vera áskrifendur að eða ekki áskrifendur að RÚV. Þeir eru að stela peningunum okkar til að þjóna lund sinni. Er slíkur þjófnaður á annarra fé með samþykki meiri hluta Alþingis ekki mun frekar brot á réttindum frjálsborins fólks til að ráða málum sínum sjálft?

Hver er þá óbilgjarn öfgasinni? Sá sem vill frelsi eða sá sem vill halda við helsi og frelsisskerðingu?


Nefskattur RÚV

Vinur minn sagði farir sínar ekki sléttar og telur að það sé verið að ræna sig með nefskatti til RÚV. Borga þarf 18.000 krónur fyrir hvert fullorðið nef og lögaðila.

Þetta þýðir hjá vini mínum að hann þarf að borga sjálfur eitt gjald, konan hans annað, einkahlutafélag hans eitt gjald og einkahlutafélag konunnar eitt gjald. Samtals greiða þau því fyrir sig og einkahlutafélögin sem horfa aldrei á sjónvarp eða hlusta á útvarp kr. 72.000.-

Eitt af því sem er það versta við lýðræðisþjóðfélagið er ótti þeirra sem fara með löggjafarvaldið við lýðræðið. Í samræmi við það treystir meirihluti alþingismanna ekki einstaklingunum til að taka ákvörðun um það hvort þeir vilji borga fyrir áskrift að RÚV eða ekki. Þeir skulu borga með góðu eða illu hvort sem þeir nýta þjónustu RÚV eða ekki.

Hvernig væri að við færum að velta fyrir okkur hvernig við aukum lýðræðið í landinu með því að gefa borgurnum meiri rétt til að taka ákvarðanir fyrir sig í stað þess að einvhverjir kallar og kellingar á Alþingi taki ákvörðunarvaldið af einstaklingunum.

Hvernig væri að þú fengir að ráða því hvort þú vilt kaupa áskrift að RÚV eða ekki

Hvernig væri t.d. að þú réðir því í hvaða lífeyrissjóði þú ert eða hvernig þú vilt haga sparnaði þínum innan eða utan lífeyrissjóðs.

svo dæmi séu tekin.


Hefur bensín lækkað um 30%

Heimsmarkaðsverð á olíu hefur verið að lækka undanfarna mánuði. Olíuverð er nú rúmlega 30% lægra en það var í byrjun ársins. Sú verðlækkun ætti að skila sér í a.m.k  30% verðlækkun á bensíni og olíuvörum til neytenda.

Hafa neytendur orðið varir við að bensín og olíur væru að lækka verulega í verði?

Sé ekki svo þá getur samkeppni ekki verið virk á þessum markaði og bensínverð allt of hátt.

En svo getur náttúrulega birgðastaðan verið óheppileg þannig að olíufélögin geta ekki lækkað fyrr en þegar nýjar birgðir eru keyptar. Slíkt var jafnan viðkvæðið þegar gengið gekk í bylgjum. En nú er því ekki að heilsa.

Eru olíufélögin á beit í buddunni þinni?


Eyðum

Við eigum meiri pening en við héldum sagði formaður fjárlaganefndar Alþingis. Þess vegna ætlum við að eyða þeim pening öllum saman í alls konar góð mál.

Góð mál eru ekki af skornum skammti og auðveldlega mætti eyða mun meiri pening í ámóta góð mál og þau sem fjárlaganefnd leggur nú til að bæta við ríkisútgjöldin.

Hvað skyldi stjórnarandstaðan segja við þessu? Hún lýsir ánægju með málið og finnst ekki nóg að gert heldur eigi að eyða meiri pening á kostnað skattgreiðenda.

Svo bregður nú við að full samstaða alþingismanna er um að eyða annarra fé þ.e. skattgreiðenda,  til viðbótar við það sem áður var lagt til, af því að greiðslustaðan er betri en haldið var.

Stjórnarandstaðan orðar það ekki nú að það væri viturlegra að greiða niður ríkisskuldir. Það er bara þegar leiðrétta á ranglæti verðtryggingar sem stjórnarandstöðunni finnst það við hæfi.

Af hverju dettur engum á þessari samkundu við Austurvöld í huga að spara, greiða upp skuldir eða lækka skatta finnst greiðslustaðan er betri en haldið var?

 

 


Verðtrygging og nauðsynlegar upplýsingar.

EFTA dómstóllinn hefur dæmt að íslenska verðtryggingin brjóti ekki í bága við regluverk Evrópusambandsins. Dómur EFTA dómstólsins nú snýst um hvort upplýsingagjöf fjármálastofnana til neytenda vegna töku verðtryggðs láns hafi verið fullnægjandi. Niðurstaða dómsins er sú að útreikningur miðað við 0% verðbólgu séu ófullnægjandi upplýsingagjöf.

Hvaða þýðingu það hefur er erfitt að segja vegna þess að í því efni er EFTA dómstóllinn óræðari en véfréttin í Delfí í Forn Grikklandi. Ítrekað er vísað til þess að það sé fyrir íslenska dómstóla að dæma um það hvaða afleiðingar það hafi. Þá er einnig vísað til þess hvað neytandi vissi og mátti vita.

Veruleg óvissa er um hvort einhverjir geti fengið verðtryggða lánasamninga sína ógilta á grundvelli svara EFTA dómstólsins. Miðað við orðalag og forsendur EFTA dómstólsins í málinu þá geta lögaðilar og þokkalega menntaðir einstaklingar ekki átt von á því að verðtryggðum lánasamningum þeirra verði vikið til hliðar.

Verðtrygging á neytendalánum er óréttlát og bitnar illa á neytendum. Þess vegna er nauðsynlegt að losna við hana og hafa svipuð lánakör í boði fyrir neytendur og í nágrannalöndum okkar. Lausn á því máli næst ekki fram fyrir dómstólum. Það er pólitísk ákvörðun og nýgengin dómur EFTA dómstólsins breytir þar engu. Sá dómur fjallar eingöngu um hvort að mistök við upplýsingagjöf til neytenda varði ógildingu sumra lánasamninga en tekur ekki á hinu stóra meini

VERÐTRYGGINGUNNI

Verðtryggingin verður að fara af öllum neytendalánum dómstólar munu ekki dæma hana ógilda miðað við fyrirliggjandi regluverk. Það mál verður að sækja á Alþingi. 

Má e.t.v. minna á loforð ríkisstjórnarinnar í því efni?


Kynbundnar lánveitingar

Ríkislánastofnunin, Byggðastofnun, ætlar að hefja kynbundnar lánveitingar. Lánin sem um er að ræða standa einungis kvenkyns einstaklingum til boða  á lægri vöxtum en lán til karla.

Ekki veit ég hvernig þetta rímar við lög um jafnstöðu kynjanna og hvort þeir sem hæst tala um þá jafnstöðu hafa eitthvað við kynbundna mismunun lánveitinga að athuga.

Ríkislánastofnunin, Byggðastofnun, hefur tapað hlutfallslega mestu fé allra lánastofnana frá því þessi pólitíska lánastofnun var stofnuð. Hrunbankarnir eru þar ekki undanskildir. Fyrir liggur að stofnuin hefur nær eingöngu lánað karlmönnum og mettap lána er því þannig fólki að kenna.

Þó jafnstaða kynjanna sé mikilvæg þá er spurning hvort það eigi að koma í veg fyrir jákvæða hluti. Kynbundin mismunun á þessum vettvangi gæti þó haft í för með sér að konur yrðu umsækjendur og skráðar fyrir atvinnustarfsemi sem að hins kyns fólk hefði þó með að gera. Spurning er hvernig Byggðastofunun ætlar að koma í veg fyrir slíka misnotkun.

Víða í veröldinni hafa komið fram lánastofnanir sem lána nær eingöngu til smáfyrirtækja sem konur reka og sú lánastarfsemi hefur almennt gefist vel. Þá má ekki gleyma að velmegun þjóða er mest þar sem atvinnuþáttaka kvenna er mest. Þess vegna gæti kynbundin lán af því tagi sem ríkislánastofnunin boðar verið góðra gjalda verð. Ýmis rök geta því mælt með lánveitingum af þessu tagi

En þá er spurningin ef jafnstöðunni er vikið til hliðar að þessu leyti af skynsemisástæðum, getur það þá ekki átt við þess vegna með sömu formerkjum á öðrum sviðum.

 


Afnemum matarskatta

Gríðarlegir skattar gjöld og kvótar eru lögð á innflutt matvæli og vörur unnar úr þeim.  Þetta eru einu matarskattarnir í landinu. Þegar Frosti Sigurjónsson Framsóknarþingmaður segist vera á móti matarskatti þá mætti ætla að formaður Efnahagsnefndar Alþingis vissi hvað hann væri að tala um.

Ef matarskattarnir og innflutningshöftin yrðu afnumin þá mundi verð á matvælum lækka verulega. Með því að hætta sérstökum stuðningi við matvælaframleiðslu innanlands mætti auk heldur lækka skatta umtalsvert t.d. láta matvæli bera 0% virðisaukaskatt.

Þetta mundi bæta kjör alls almennings í landinu svo um munaði. Auk þess mundi þetta hafa þau áhrif að vísitala neysluverðs til verðtryggingar mundi lækka verulega og þar með verðtryggðu lánin. Sennilega er ekki til skynsamlegri efnahagsaðgerð en einmitt það að afnema hina raunverulegu matarskatta sem allir hafa verið settir með atkvæði Framsóknarþingmanna.

En Frosti Framsóknarmaður er að tala um annað. Frosti er að tala um örlitla breytingu á virðisaukaskatti. Sú breyting skiptir ekki nema brotabroti af því sem hagur heimilanna mundi batna um ef skattar á matvæli yrðu afnumdir þ.e. raunverulegir matarskattar.

Nú háttar svo til að fjárlagafrumvarpið var lagt fram eftir að um það hafði verið fjallað í ríkisstjórn og þingflokkum Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Hefði ekki verið samstaða um meginatriði fjárlagafrumvarpsins þá hefði tillaga um breytingu á virðisaukaskatti aldrei komið fram. Fráhlaup Frosta Sigurjónssonar og ýmissa annarra Framsóknarmanna frá eigin tillögum er því ómerkilegur pópúlismi.

Formaður Sjálfstæðisflokksins, fjármálaráðherra, getur ekki setið undir því að leggja fram sameiginlegar tillögur ríkisstjórnarinnar, en svo hoppi þingmenn Framsóknarflokksins frá eins og gaggandi hænur á túni við fyrsta goluþyt.  Annað hvort styður Framsóknarflokkurinn eigin tillögur eða hann er ekki samstarfshæfur. 


Ranglæti skammsýninnar

Við bankahrun var ákveðið að skattgreiðendur ábyrgðust allar innistæður Íslendinga í íslenskum bönum. Þá gerði VG og Samf  ekki athugasemdir. Fulltrúar fjármagnsaflanna réðu sér lítt fyrir gleði. Ekki var talað um að það hefði mátt fara betur með skattfé eða eyða því í annað.  

Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar segir að stökkbreytt verðtryggð lán einstaklinga almennt skuli leiðrétt að hluta, til að ná fram örlitlu réttlæti. Þá brá svo við að VG og Samfylkingin ákváðu að vera á móti réttlátri leiðréttingu og fengu til liðs við sig helstu fulltrúa fjármagnsaflanna í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Pétur Blöndal og Vilhjálm Bjarnason. Þeir Pétur og Vilhjálmur greiddu síðan atkvæði á móti eins og stjórnarandstaðan þrátt fyrir að hafa samþykkt þetta við stjórnarmyndun. Óneitanlega sérkennilegt bandalag sósíalistanna í VG og Samfylkingunni og fjármagnsfurstana.

Þegar meginhluti gengislána til einstaklinga reyndust ólögmæt þá fengu þeir sem þau tóku leiðréttingu. Talsmenn VG og Samfylkingarinnar lýstu ánægju með það. Afskriftir skulda fyirrtækja og rekstraraðila upp á hundruðir milljarða nutu líka velvilja fjármagnsfurstana, VG og Samfylkingarinnar. 

Þá átti eftir að leiðrétta verðtryggð lán venjulegs fólks sem hafði ekki farið offari í fjárfestingum en tapað miklu vegna galinna verðtryggðra lánakjara og óráðssíu annarra.

Við umræðu um neyðarlögin 2008 og síðar benti ég ítrekað á það sem hlyti að gerast í kjölfar bankahruns og gengisfellingar væri: Í fyrsta lagi mundi þjóðarframleiðsla dagast saman með tilheyrandi tekjuskerðingu. Í öðru lagi yrði verðhrun á fasteignum. Í þriðja lagi mundu verðtryggð lán hækka þó engin væri virðisaukinn í þjóðfélaginu. Af þeim sökum vildi ég láta taka verðtrygginguna úr samabandi. Allt þetta gekk eftir en vegna skammsýni mallaði verðtryggingin áfram og át upp eignir venjulegs fólks. Það var óréttlátt. Ranglæti.  

Venjuleg fasteign lækkaði við Hrun um 65% í Evrum, pundum eða dollurum talið, en verðtryggðu lánin hækkuðu verulega á sama tíma. Það er sú stökkbreyting sem verið er að litlum hluta að leiðrétta hjá venjulegu fólki.

Þessi leiðrétting er lágmarksleiðrétting og kostnaðurinn er þeim Jóhönnu Sigurðardóttur, Gylfa Arnbjörnssyni og öðru áhrifafólki að kenna sem stóð á móti því að verðtryggingin væri tekin úr sambandi á sínum tíma. Sá kostnaður sem ríkissjóður þarf að bera vegna þess að reynt er að ná fram skrefi í réttlætisátt er þeim að kenna sem neituðu að horfast í augu við staðreyndir við Hrun og gera raunhæfar ráðstafanir.

Þessar leiðréttingar kosta mikið fé en eru hluti sanngirnisbóta þar sem galið lánakerfi verðtryggingar fær að viðgangast á neytendalánum.

Mér er með öllu óskiljanlegt að þeir sem hæst gala um félagslegt réttlæti VG og Samf o.fl. skuli í þessu máli samsama sig með fjármagnsöflunum í landinu gegn fólkinu á sama tíma og foringjar þeirra sækja allir um að fá að vera með og njóta sanngirninnar sem þau eru samt á móti.

Þeir eru margir Hamletarnir í íslenskri pólitík þessa dagana.

 


Eitthvað annað

Fátt sýnir betur stefnuleysi og hugmyndasneyð stjórnarandstöðu en þegar forstumenn hennar segja allir sem einn að það hefði ekki átt að gera þetta, heldur eitthvað annað.

Í gær kynnti ríkisstjórnin skuldaleiðréttinu, sem gagnast venjulegu fólki verulega til frambúðar einkum ef verðtryggingin verður tekin af hið snarasta og það verður að gera. Forustufólk stjórnarandstöðunar voru í framhaldi af því spurð um aðgerðirnar og þá komu þau Katrín Jakobs, Árni Páll, Birgitta Jóns og Guðmundur Steingríms fram eins og einradda kór sem kyrjaði sömu hjáróma laglínuna. "Ekki þetta heldur eitthvað annað."

Nánar aðspurð sögðu leiðtogar stjórnarandstöðunnar eins og í vel æfðu leikriti nákvæmlega það sama eða  "Það hefði t.d. mátt greiða niður skuldir, leggja meira í heilbrigðiskerfið, leggja meira í menntakerfið o.s.frv."  Semsagt það mátti gera eitthvað bara eitthvað annað en kom skuldsettum einstaklingum til aðstoðar.

Það er athyglisvert að stjórnarandstöðunni kom ekkert annað í hug en endilega að eyða þeim fjármunum í eitthvað annað en að ná fram meira réttlæti fyrir þá sem þurftu að þola óréttlæti stökkbreyttu höfuðstóla verðtryggðu lánanna.

Athyglisvert að engum í stjórnarandstöðunni datt í hug að koma með hugmynd um að lækka skatta. Nei það mátti ekki rétta hag skuldugra heldur eyða því í annað.

Skattalækkun hefði þó líka dugað skuldsettum einstaklingum sem og öðrum og stuðlað að auknum hagvexti. En það datt semsagt stjórnarandstöðunni ekki í hug enda flokkslíkamabörn hugmyndafræði aukinnar skattheimtu.


Leiðrétting og mótmæli

Á sama tíma og ríkisstjórnin kynnir langþráða leiðréttingu á stökkbreyttum höfuðstólum verðtryggðra lána er boðað til mótmælafundar á Austurvelli til að mótmæla einhverju.

Leiðrétting höfuðstólanna sem hækkuðu svo mikið í efnahagslegum ólgusjó banka- og gengishruns á árunum 2008 og 2009 var sjálfsögð, en hefði verið einfaldari og deilst með réttlátari hætti hefðu stjórnendur þessa lands samþykkt að taka verðtrygginguna úr sambandi strax við bankahrunið eins og ég lagði til eða þá fljótlega á eftir.

En betra er seint en aldrei. Ríkisstjórnin er nú að framkvæma það sem lofað var fyrir kosningar og er að því leyti ólík ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, sem lofaði og sveik.

Einhverjir munu gagnrýna þessa millifærslu fjármuna, sem með einum eða öðrum hætti kemur frá skattgreiðendum hvað sem hver segir. En þeir hinir sömu hefðu þá frekar átt að gagnrýna það þegar ríkið tók á sig hundraða milljarða skuldbindingar með því að ábyrgjast allar innistæður á innistæðureikningum í bönkum langt umfram skyldu.

Hefði skuldaleiðréttingin ekki verið gerð á óréttlátum ímynduðum virðisauka verðtryggingarinnar, en bara borgað fyrir þá sem áttu, en þeir sem skulda látnir liggja óbættir hjá garði þá yrðum við áfram þjóðfélag sem ekki gætti neins réttlætis.

Með aðgerðum ríkisstjórnarinnar er staðfest algjör skömm og svik þeirra Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar og skjaldborgar þeirra um skuldsett heimili.

Í stað þess að fagna því jákvæða sem ríkisstjórnin er að gera, þá finnst sporgöngufólki Samfylkingar og Vinstri grænna rétt að mótmæla við Alþingishúsið, jafnvel því sem Alþingi kemur ekkert við og hefur ekkert með að gera. 

Lánleysi mótmælandanna sem koma saman til að mótmæla einhverju af því bara er í besta falli grátbrosleg við þessar aðstæður.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.9.): 277
  • Sl. sólarhring: 325
  • Sl. viku: 3547
  • Frá upphafi: 2604323

Annað

  • Innlit í dag: 257
  • Innlit sl. viku: 3311
  • Gestir í dag: 253
  • IP-tölur í dag: 251

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband