Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Hyskið á landsbyggðinni og útældi skíturinn á gólfinu

Rithöfundur sem ég held töluvert upp á talar í dag um hyskið á landsbyggðinni. Um daginn talaði skipuleggjandi mótmælafundar á Austurvelli um útældan skít á gólfi. Er svona orðfæri viðeigandi í umræðu siðaðs fólks?

Sýnir þetta ekki skort á að fólk gæti hófs í almennri umræðu og sýni hvort öðru tilhlhýðilega virðingu.

Fólkið á landsbyggðinni er ekki hyski heldur almennt gott fólk. Með sama hætti og það fólk sem býr í Reykjavík og foringi Framsóknarflokksins kallaði einu sinni "Grimsbýlýðinn" er líka almennt gott fólk. Að nota orðið hyski eða lýður er því orðanotkun sem lýsir hroka þess sem notar það og lítilsvirðingu gagnvart þeim sem hljóta þessar einkunnir.

Þegar stærstu viðskiptabankarnir urðu gjaldþrota árið 2008 varð þjóðin fyrir verulegu áfalli og þurfti að horfast í augu við að við vorum ekki með sérstök viðskiptagen sem gerðu okkur að "übermenschen"(ofurfólki) í viðskipta- og fjármálalífi eins og forseti lýðveldisins talaði iðulega um. Við vorum í besta falli fyrirhyggjulítið fólk í fjármálum.

Í framhaldi af því virðist eins og annað Hrun hafi orðið, sem birtist oft í illvígri umræðu, illmælgi gagnvart mönnum og málefnum þar sem stöðugt er verið að kenna einhverjum um það, sem ef til vill var, ef betur er að gáð ansi mörgum að kenna.

Það skiptir máli fyrir þjóðina til að komast áfram í tilverunni og skapa sér og afkomendum sínum betri tilveru og betri lífskjör að sýna hvort öðru virðingu og gaumgæfa hvað horfir til framfara.

Að fortíð skal hyggja er framtíð skal byggja er orðtæki sem er alveg rétt. En það má hins vegar ekki láta fortíðina skyggja svo á framtíðina að hún verði ekki. 


Breyttist eitthvað við bankahrunið?

Þegar stóru viðskiptabankarnir urðu gjaldþrota árið 2008 opnaðist fyrir fólki margt furðulegt í fjármálaheiminum. Margir ráku augun í að sami eða sömu aðilar áttu ógrynni félaga sem áttu síðan hvort í öðru og mynduðu ógrynni af viðskiptavild og óefnislegum verðmætum sem voru síðan einskis virði.

Spurningarnar sem vöknuðu hjá fólki voru m.a. af hverju þurftu sömu aðilar að eiga tug eða hundruð einkahlutafélaga þegar eitt hefði  verið nóg nema þegar þurfti að millifæra, búa eitthvað til og kaupa þrotabú félaga í eigu sömu aðila. Þá spurði fólk líka hvernig á því hefði staðið að stjórnendur gjaldþrota bankanna hefðu verið svo vitlausir að lána félögum sem voru í raun gjaldþrota ef ekki hefði tilkomið bókhaldslegar færslur um svonefnd óefnisleg verðmæti.

En hefur eitthvað breyst?

Helsti samnefnari eigenda fjölmiðlasamsteypunnar 365 miðla, sem á 99.97% hlutafjár hefur  sett  hlutafjáreign sína að veði til  Landsbankans. Hvað skyldi vera virði þeirra?

Heildarskuldir 365 eru í dag 7.6 milljarðar og heildareignir eru 8.4 milljarðar samkvæmt nýju uppgjöri. Í sjálfu sér fínt þegar skuldsett félag á  700 milljónum meira en það skuldar. Þegar nánar er skoðað kemur í ljós að 5.7 milljarðar af eigninni er óefnisleg,viðskiptavild. Rauneignir félagsins eru bara 2.4 milljarðar.

Nýi Landsbankinn hefur lánað 365 miðlum 7 milljarða þrátt fyrir að efnislegar eignir félagsins séu aðeins 2.4 milljarðar eða þriðjungur lánsins.  Er einhver glóra í svona lánveitingum. Hvað skyldu nú vökulir rannsóknarblaðamenn og margverðlaunaðir fréttahaukar á RÚV og víðar hafa um þetta að segja? 


Á verðtryggingin að lifa

Stjórnarflokkarnir lofuðu afnámi verðtryggingar á neytendalánum þar með talið húsnæðislánum.

Ekkert hefur orðið af efndum á þessu loforði. Forsætisráðherra skipaði nefnd til að fjalla um málið og nefndin komst að þeirri niðurstöðu að Framsókn bæri að svíkja kosningaloforðið. Annað hvort veit Sigmundur Davíð ekki hvernig á að stjórna eða nefndin hefur ávkeðið rísa gegn skapara sínum. Ekkert hefur enn verið upplýst í því máli og enn lifir verðtryggingin og stjórnarflokkarnir eru ekki með neina tilburði til að losa neytendur við hana.

Sjaldan hafa skilyrðin fyrir afnámi verðtryggingarinnar verið betri en undanfarin misseri. Verðbólga hefur verið í lágmarki. Krónan er í höftum og hreyfist því nánast ekkert. Engin sérstök tilefni eru  til verðhækkana. Eftir hverju er stjórnvöld þá að bíða? Af hverju standa stjórnarflokkarnir ekki við kosningaloforðið um afnám verðtryggingar.

Ísland getur ekki verið með gjaldeyrishöft endalaust. Hvað gerist þegar þeim er aflétt veit engin fyrir víst, en leiða má líkur að því að verðbólga verði nokkur fyrst á eftir. Er ráðlegt að bíða eftir því þannig að nýir stökkbreyttir höfuðstólar verðtryggðra lána verði til og fólkið sem enn á eitthvað í eignum sínum og stritar við að borga missi allt og fjármagnseigendur haldi áfram að hafa allt sitt á þurru á kostnað skuldar.  

Er ekki kominn tími til að við bjóðum neytendum upp á sömu lánakjör og í nágrannalöndum okkar en hættum að fara sérleiðir verðtryggingar og okurvaxta. 

Verði það ekki gert þá svíkja stjórnarflokkarnir kjósendur sína. 

 

 

  

 


Hættum að versla í Harrods?

Fyrir nokkru spurði Jack Straw fyrrverandi utanríkisráðherra Breta af gefnu tilefni, að því hvort stjórnvöld í Bretlandi hefðu kannað tengsl Quatar og Kuweit við alþjóðlega hryðjuverkasamtök eins og ISIS og fleiri.

Í blaðinu Daily Telegraph 21. september er sagt frá því  að Quatar hafi sent flutningaflugvélar með vopnum til Íslamista í Líbýu sem eru bandamenn samtakanna sem stóðu fyrir morðinu á bandaríska sendiherranum og stjórna nú Tríbolí og eru óðum að ná því takmarki að gera Líbýu að óstjórntæku ríki, þrem árum eftir að Bretar og Frakkar sögðust hafa komið á lýðræðislegri þróun í landinu.

Blaðið segir að það séu athyglisverð sannindi að Quatar styðji Hamas samtökin, æstustu vígamenn Íslamista í Sýrlandi og írak m.a. hópa með tengsl við Al Kaída.

Gerd Müller ráðherra alþjóðlegrar þróunar í Þýskalandi staðhæfir einnig að Quatar fjármagni hryðjuverkasamtök í Sýrlandi, Írak, Líbanon, Nígeríu og á Gasa svæðinu. 

Á sama tíma og vígamenn vopnaðir og fjármagnaðir af Quatar myrða þúsundur saklausra borgara, selja konur í ánauð, nauðga og ræna þá er emírinn í Quatar, Tamim bin Hamad al-Thani, og helstu sporgöngumenn hans að fjárfesta sem mest þeir mega í Bretlandi og hafa m.a. keypt stórverslunina Harrods, Hyde Park 1, dýrustu íbúðablokk í London og Shard sem er hæsta bygging í London.  

Einnig á sama tíma er fólk í Bretlandi, Frakklandi og Íslandi að tala fyrir viðskiptabanni á Ísrael en dettur ekki í hug að það væri nærtækara,  að eiga ekki viðskipti við ríki sem fjármagnar hryðjuverk.  Af hverju hafa Bretar ekki bundist samtökum um að sniðganga Harrods. Af hverju láta Bretar sér vel líka að Quatarar fjárfesti og fjárfesti í London á sama tíma og vígamenn þeirra standa fyrir morðum í Mið-Austurlöndum m.a. á breskum hjálparstarfsmönnum.  

Svo heillum eru Vesturlönd horfin að þau hafa samþykkt að Quatar haldi heimsmeistarkeppni í knattspyrnu árið 2022 og höndli sem ekkert sé á fjármálamörkuðum.

Það hreyfir ekki við fólki ekki einu sinni kistnum kirkjum þó að trúbræður þeirra séu myrtir vegna trúar sinnar. Það hreyfir ekki við Evrópubúum þó að hundruð þúsunda flýji yfirvofandi fjöldamorð, nauðganir og mansal. Sé einn Bandaríkjamaður tekinn af lífi eða einn Breti þá lítur fólk örstutta stund upp úr bjórglasinu og Obama segir að eitthvað verði að gera.

Svo halda menn áfram að versla í Harrods og Obama heldur áfram að 16 holu á Golfvellinum. Ríkisstyrktu kirkjurnar í Evrópu snúa sér á hina hliðina værukærar í vellystingum ríkisstyrkjanna og strákarnir í Cheers panta annan umgang. 

Hugmyndafræðileg og trúfræðileg niðurlæging Vestur Evrópu og Bandaríkjanna er algjör og svo virðist sem sama sé þar upp á teningnum og hjá íbúum Konstantínóbel árið 1492 þegar vígasveitir Tyrkja sóttu að borginni. Þá söfnuðust borgarbúar saman í Hagia Sofía kirkjunni þáverandi og lögðust á bæn á meðan fámennt varnarlið á borgarvirkjunum var ofurliði borið.  


ASÍ í stríð við ríkisstjórnina?

Miðstjórn ASÍ telur engan grundvöll til frekara samstarfs eða samræðu við ríkisstjórnina nái fjárlagafrumvarpið fram að ganga. Það skiptir þá engu máli að mati miðstjórnar ASÍ hvað ríkisstjórnin gerir að öðru leyti ef strákarnir hjá ASÍ fá ekki að ráða fjárlögunum.

Miðstjórn ASÍ og forseti samtakanna höfðu öllu meira langlundargeð með vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og það var ekki fyrr en á síðustu metrunum sem að samtökin sáu ástæðu til að hóta samstarfsslitum við þá ríkisstjórn þó öllu bágara hafi ástandið verið á þeim tíma gagnvart launafólki.

Svo virðist sem þessi ályktun miðstjórnar ASÍ sé byggð á fölskum forsendum. Í ályktuninni segir að launafólk hafi haft réttmætar væntingar um endurreisn og uppbyggingu velferðarkerfisins.  Svo virðist sem miðstjórnarmennirnir hafi ekki áttað sig á að velferðarkerfið er við lýði á Íslandi og því ómöguleiki að endurreisa það. Þá liggur líka fyrir að mestur hluti ríkisútgjalda er til velferðarkerfisins í formi framlaga varðandi nám, heilsu, bætur, millifærslur o.fl.  Sé það krafa ASÍ að auka þessi útgjöld þá verður það ekki gert án aukinnar skattlagningar.

Getur það virkilega verið krafa miðstjórnar ASÍ að skattleggja landsmenn þ.á.m. launafólk meira til að auka millifærslur í þjóðfélaginu, sem af vinstra fólki er kallað aukin velferð. Gæti það verið að aukin velferð launafólks væri einmitt fólgin í því að draga úr skattheimtu þannig að hver og einn héldi meiru eftir til eigin ráðstöfunar af launatekjum sínum.

Svo ætti þessi miðstjórn að íhuga hvort það væri ekki besta kjarabótin fyrir launþega í landinu að lánakerfið á Íslandi væri með sama hætti og á hinum Norðurlöndunum þannig að verðtrygging yrði afnumin. Einnig að matvælaverð væri með svipuðum hætti og á hinum Norðurlöndunum og hagsmunir neytenda tryggðir. Væri ekki mikilvægara fyrir miðstjórn ASÍ að einhenda sér í slíka baráttu fyrir raunverulegum hagsmunum launafólks í stað þess að fara í vindmyllubardaga við ríkisstjórnina. 

 


Rafræn auðkenni og einstaklingsfrelsi.

Fjármálaráðherra hefur ákveðið að þeir sem vilji njóta skuldaleiðréttingar verði að fá sér rafræn auðkenni frá fyrirtækinu Auðkenni.  Þetta er gert til að valdstjórnin og kaupahéðnar geti fylgst vel með því sem borgararnir aðhafast. Í bók sinni 1984 um ofurríkið hefði George Orwell talið að þetta væri dæmi um byrjun endaloka einstaklingsfrelsisins.

Ekki liggur fyrir á hvaða forsendum fjármálaráðherra og þeir meðreiðasveinar hans úr ríkiskerfinu,  sem tala fyrir þessu byggja þessa kröfu. Eftir því sem best verður séð er engin lagaheimild fyrir þessari kröfu.

Hvergi er talað um rafræn auðkenni sem skilyrði skuldaleiðréttingar í lögunum um skuldaleiðréttinguna. Einstakir ráðherrar eða jafnvel ríkisstjórnin öll geta ekki tekið slíkar ákvarðanir án þess að stoð sé fyrir þeim í lögum. Þetta skilyrði fyrir skuldaleiðréttingunni er því ekki marktækt nema stjórnvöld telji að við séum komin það langt inn í sovétið að ekki þurfi að spyrja þingið fyrirfram og jafnvel ekki nema í besta falli eftir á.  

Óneitanlega er það kaldhæðni örlaganna og nálegt fyrir formann Sjálfstæðisflokksins,  að nú skuli upp rísa Ögmundur Jónasson úr vinstri grænum,  fyrrum ráðherra til varnar einstaklingsfrelsinu og má þá segja að römm sé sú taug er rekka dregur föðurtúna til. Ögmundur er sonur þess mæta Sjálfstæðismanns Jónasar B. Jónssonar heitins.


Virðisaukaskattur

Hafi ríkisstjórnin döngun í sér til að hafa eitt virðiaukaskattþrep þá  vinnur hún af skynsemi. Afnemi hún allar undanþágur frá virðisaukaksatti vinnur hún  þrekvirki. Taki hún þá áhættu að lækka síðan virðisaukaskattinn niður í 15% þá vinnur hún enn meira þrekvirki. ´

Eitt virðisaukaskattsþrep og engar undanþágur eru sanngirnismál. Það er út í hött að þeir sem selja aðgang að laxveiðiám skuli ekki borga virðisaukaskatt og þeir sem selja útlendingum ákveðna þjónustu skuli borga lægri virðisaukaskatt en aðrir. Þá er sælgæti og tengdar vörur ekki heilagri en annað.

Sé virðisaukaskattur þungbær fyrir ákveðna þjónustu þá getur ríkisvaldið komið á móts við þá aðila með öðrum hætti en rugla skattkerfinu. Svo er alltaf rétt á sér hvort þjónusta á rétt á sér sem þolir ekki að starfa á sama samkeppnisgrundvelli og aðrir þurfa að gera.

Virðisaukaskattur er allt of hár og hvatinn til að skjóta honum undan er því mikill. Fyrir nokkrum árum las ég lærða úttekt á því hvar brotalína undanskota væri og þar var niðurstaðan sú að þegar virðisaukaskattur færi yfir 15% ykjust undanskot gríðarlega. 

Sú staða er því líkleg að með því að afnema allar undanþágur, hafa eitt skattþrep og lækka virðisaukaskatt niður í 15% að þá mundi ríkið ekki verða af miklum tekjum en jafnvel auka þær.

Með því að lækka virðisaukaskatt verulega lækka verðtryggðu lánin vegna þess að vörur lækka í verði. Það er ekkert sem getur stuðlað eins að auknum hagvexti eins og slík skattalækkun. Það er því þess virði fyrir ríkisstjórnina að taka þetta djarfa skref. 


Vín í hvaða búðir?

Enn einu sinni er deilt um hvort að selja eigi vín í matvörubúðum eða ekki. Rök þeirra sem segja að slíkt muni auka drykkja voru gild fyrir nokkru síðan en halda tæpast lengur. Ástæðan er sú að vín er til sölu í mörgum stórmörkuðum iðulega við hliðina á matvörubúðinni. Auk þess er vín venjulega til sölu á kaffistöðum og í greiðasölum meðfram þjóðvegi 1 og víðar. Aðgengi að áfengi er því nánast ótakmarkað.

Úr því sem komið er yrði því engin héraðsbrestur þó áfengi yrði selt í matvörubúðum, þó mér finnist það í sjálfu sér ekki æskilegt.

Meðan fólk deilir um hvort selja eigi áfengi í matvörubúðum eða ekki, þá er horft framhjá því að vínbúðirnar eru opinber fyrirtæki með opinberu starfsfólki. Ríkisstarfsmenn sem vinna við að afgreiða áfengi og eru í BSRB en ekki VR. Er einhver glóra í því að ríkið sé að reka þessar verslanir.

Af hverju má ekki draga úr ríkisumsvifum með því að selja vínbúðirnar til einstaklinga sem mundu þá reka þær eins og hvert annað fyrirtæki með þeim réttindum og skyldum sem því fylgir.   Ég hef aldrei skilið af hverju það þurfi ríkisstarfsmenn til að afgreiða áfengi í sérverslunum með áfengi. Á sama tíma eru unglingar að ganga um beina og selja vín á veitingastöðum. Af hverju eru þeir ekki í BSRB. Þarf ríkisstarfsmann til að selja rauðvínsflösku út úr vínbúð en venjulegt verslunarfólk til að selja rauðvínsflöskuna á vetingastað.

Vilji einhver reyna að rökfæra það að eðlilegt sé að ríkið reki sérverslanir með áfengi þá má með sama hætti rökfæra að ríkið eigi að sjá um alla sölu og dreifingu áfengis hvort sem er í verslunum eða vegasjoppum.

Nú skora ég á Vilhjálm Árnason hinn vaska unga þingmann Sjálfstæðisflokksins sem ætlar að flytja frumvarp um að áfengi verði selt í matvöruverslunum, að fylgja stefnu flokks síns um að draga úr ríkisumsvifum og flytji í kjölfarið frumvarp um að opinberu vínbúðirnar verði einkavæddar strax.  


Már kemur ekki til greina.

Tveir þekktir baráttumenn fyrir sósíalisma þeir Úlfar Þormóðsson, sem hefur alltaf verið heiðarlegur vinstri maður, og Stefán Ólafsson prófessor, sporgöngumaður Jóhönnu Sigurðardóttur og leigupenni, vandræðast með það að Sjálfstæðismenn ætli sér að nýta sér hlutdeild Más Guðmundssonar Seðlabankastjóra í umboðssvikum þáverandi formanns bankastjórnar Seðlabankans til að koma í veg fyrir að hann verði endurráðinn.

Hugleiðingar þessara annars dómhörðu vinstri manna sýnir vel hversu lágt siðferðisstuðull þessara manna er stilltur, þegar kemur að því að meta brot þeirra sem standa þeim nærri í pólitík. 

Hvað sem líður hæfni eða vanhæfni Más Guðmundssonar þá kemur ekki til geina að endurráða mann sem hefur verið gripinn með báða hrammana ofan í hunangskrukkunni við að ná til sín peningum í leyndum, í samvinnu við þáverandi formann Bankaráðisins, með þeim hætti sem aðrir í bankaráðinu máttu ekki vita af.  Venjulegur Már væri þegar til rannsóknar hjá Sérstökum ásamt bankaráðsformanninum fyrir þetta athæfi.

Ég er hræddur um að hljóðið í þessum vindbelgjum þeim Stefáni og Úlfari væri með öðrum hætti ef sá sem í hlut ætti héti Davíð og væri Oddsson, Sjálfstæðismaður en ekki Már Guðmundsson fyrrverandi kommi.   


Hvað gerir Sérstakur í Seðlabankamálinu?

Fyrri nokkru ákvað þáverandi bankaráðsformaður Seðlabanka Íslands í samráði við bankastjórann,að greiða bankastjóranum kostnað hans vegna málaferla sem hann fór í á hendur Seðlabankanum og tapaði. Þannig greiddi Seðlabankinn samkvæmt laumuspili bankaráðsformannsins þáverandi og bankastjórans allan kostnað vegna málsins líka málskostnaðinn sem bankastjórinn var dæmdur til að greiða Seðlabankanum.

Þegar þetta lá fyrir var ljóst að um mál var að ræða sem vísa átti til Sérstakt saksóknara og/eða Sérstakur að taka upp og rannsaka af eigin frumkvæði samanber starfshætti hans í málum annarra fjármálafyrirtækja. En hér sannast enn hið nýkveðna úr "Animal Farml" að öll dýr eru jöfn en sum dýr eru jafnari en önnur.  Þess vegna hefur Sérstakur ekkert gert. Bankaráð Seðlabankans tók síðan þá röngu ákvörðun að vísa málinu til Ríkisendurskoðunar.  Nú hefur ríkisendurskoðun kynnt þá niðurstöðu sína að:  

"út­gjöld í til­efni tengsl­um við fjár­hags­lega hags­muni seðlabanka­stjóra verði að bera upp í bankaráðinu til samþykkt­ar áður en greiðsla er innt af hendi eða að bankaráðið veiti for­manni þess form­lega heim­ild til þess að stofna til þeirra." 

Nú er spurning hvað Óli Sérstaki gerir. 

Er betra að greiða án umboðs frá bankaráði SÍ en lánanefnd í viðskiptabanka?  Þá hefur jafnvel verið talið að eftir á samþykki lánanefndar sé ekki nóg. 



« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.9.): 446
  • Sl. sólarhring: 478
  • Sl. viku: 3716
  • Frá upphafi: 2604492

Annað

  • Innlit í dag: 423
  • Innlit sl. viku: 3477
  • Gestir í dag: 414
  • IP-tölur í dag: 408

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband