Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Uppljóstrun eða Barbabrella?

Már Guðmundsson Seðlabankastjóri er um margt athyglisverður maður. Í dag sagði hann í ræðu að starfsmenn Seðlabankans hefðu vitað það árið 2006 að íslenska hagkerfið stefndi í þrot, en ekki þorað að birta þær niðurstöður. Starfsmennirnir hefðu birt rangar niðurstöður. Semsagt logið að þjóðinni allt frá árinu 2006.

Í framhaldi af þessari yfirlýsingu verður Már að skýra frá því hverjir gáfu þjóðinni rangar upplýsingar og hvers vegna. Einnig hvort það var geðþóttaákvörðun viðkomandi starfsmanna eða einhverra annarra að leyna þjóðina upplýsingum og birta rangar.

Þá verður Már að sýna hverjar voru niðurstöður starfsmanna Seðlabankans frá 2006 og áfram og bera saman þær niðurstöður og það sem viðkomandi starfsmenn og Seðlabankinn sendu frá sér opinberlega.

Þá liggur fyrir að Seðlabankinn hefur engan trúverðugleika í kjölfar þessarar yfirlýsingar Más Guðmundssnar nema þeir víki sem gáfu þjóðinni rangar upplýsingar og máið verði upplýst að fullu.

Víki Már Guðmundsson Seðlabankastjóri sér undan að upplýsa þjóðina um þær spurningar sem vakna í kjölfar uppljóstrunar hans, þá er ekki hægt að líta á yfirlýsinguna öðrum augum en eins konar Barbabrellu, sem Seðlabankastjóri kann þá að hafa lært af borgarstjóranum.

Eða af stjórnendum Goldman Sachs bankans sem hann heimsótti undirdánugastur ásamt fjármálaráðherra í Bandaríkjaför sinni. En þeir hjá Goldman Sachs bankanum þykja hvað hugmyndaríkastir hrunbankamanna heimsins.


Skömmum fortíðina

Þegar ráðamenn valda ekki verkefnum nútíðar og geta ekki mótað stefnu framtíðar má altént skamma fortíðina.

Umræður og tillögur frá ríkisstjórn og Alþingi um rannsóknarnefndir og rannsóknir á löngu liðnum tíma og ákvörðunum sem engu skipta í núinu eða fyrir framtíðina vísa til  úrræðaleysis og vanmátt við að ráða fram úr aðgerðum augnabliksins og framtíðarinnar.

Viðfangsefni dagsins í dag er að koma á lánakerfi sem er sambærilegt því sem er á hinum Norðurlöndunum og raunlækka höfuðstól verðtryggðu lánanna að raunveruleikanum.

Viðfangsefni dagsins í dag er að móta atvinnustefnu og skapa skilyrði öflugs atvinnulífs og eyða atvinnuleysi og versnandi lífskjörum.

Viðfangsefni dagsins í dag er að minnka verulega umsvif hins opinbera og lækka skatta.

Ríkisstjórn sem og stjórnarandstaða verða að móta stefnu framtíðar eða fara frá ella ef þeir hafa engar tillögur eða hugmyndir.

Krefjast verður þess af sérstökum saksóknara nú þegar hann er laus við Evu Joly, að hann fari að vinna vinnuna sína, þannig að einhver árangur sjáist. Eigum við ekki að krefjast þess af sérstökum að hann og dómstólar geri upp við fortíðina sem fyrst?

Látum sérstakan um fortíðina en þá um framtíðina sem eiga að stjórna þessu landi.


Heillastjarna Halldórs Ásgrímssonar

Heillastjarna Halldórs Ásgrímssonar svíkur hann ekki þessa daganna.

Fyrir nokkrum dögum síðan gjaf Landsbankinn honum og fjölskyldu hans milljarða með því að fella niður milljarðaskuldir fyrirtækis þeirra.  Það vakti sérstaka athygli við þessa gjöf til Halldórs að ASÍ forustan hafði ekkert við hana að athuga og hvorki sú forusta né bankarnir töldu að þessi rausnarlega gjöf til Halldórs og fjölskyldu skipti þjóðhagslega nokkru máli.  Þar gegnir raunar öðru máli en með 20 milljón króna skuld Valdimars Viðarssonar verkamanns sem verður ásamt fjölskyldu sinni sviptur eignum sínum og íverustað enda gæti skuldaniðurfelling hjá honum riðið hagkerfinu á slig og eyðilagt grundvöll og stöðu lífeyrissjóðanna.

Í gær var Halldór endurráðinn sem framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs án þess að hafa nokkra þá kosti sem mæla með honum til áframhaldandi starfa þar að einum undanskildum, sem hefur þó almennt ekki nema neikvæð áhrif við starfsráðningar.

Óneitanlega var það athygliverð stund að sjá Katrínu Jakobsdóttur menntamálaráðherra og Norðurlandaráðsráðherra, trítla upp í ræðustól á Alþingi og afneita allri ábyrgð á endurráðningu Halldórs þó að hún geti engum öðrum um kennt, ekki einu sinni starfsfólki Alþingis. Katrín ber nefnilega fulla ábyrgð á endurráðningu Halldórs. Hún hafði með málið að gera og hún ber ábyrgðina.

Heillastjarna Halldórs bregst  ekki hvað sem á dynur. Maðurinn sem kom á kvótakerfinu, laug að þjóðinni um staðfestu við að stunda hvalveiðar á sama tíma og hann samþykkti að hætta þeim. Var svo dáðríkur stjórnmálamaður að Framsóknarflokkurinn nánast þurkaðist út þegar hann gafst upp sem formaður eftir snautlegustu dvöl í forsætisráðuneytinu sem nokkur maður hefur hingað til átt þar. 

Nú fær Halldór endurráðningu frá ríkinu á vettvangi Norðurlanda og tvo milljarða til viðbótar frá vinstri stjórninni sem kennir sig við jafnaðarmennsku þó hann hafi aldrei verið til þurftar flokki sínum og þjóð. 


ASÍ ber ábyrgð á hruninu

ASÍ og lífeyrissjóðir í vörslu forkólfa verkalýðsrekenda bera mikla ábyrgð á hruninu. Fróðlegt verður að sjá með hverju forseti ASÍ ætlar að afsaka ábyrgðarlausa þátttöku ASÍ og lífeyrissjóðanna í gróðabralli banka og fjármálasukki síðustu ára. Launafólk sem og aðrir landmenn eiga heimtingu á að Gylfi Arnbjörnsson geri heiðarlega úttekt á aðgerðum og aðgerðarleysi verkalýðshreyfingarinnar og lífeyrissjóðanna varðandi efnahagshrunið og hrunadansinn frá aldamótum fram að hruni.

Forusta ASÍ og lífeyrissjóðafurstarnir berjast eins og grenjandi ljón gegn því að launafólki í landinu verði skilað til baka hluta þess ránsfengs sem lífeyrissjóðirnir hafa haft af launafólki með óréttmætri og siðlausri verðtryggingu lána. Gylfi Arnbjörnsson þarf að gera þjóðinni grein fyrir því á ársfundi ASÍ sem hefst á morgun hvernig sú afstaða hans og forkólfa verkalýðshreyfingarinnar samræmist hagsmunum launafólks.

Lífeyrissjóðirnir hafa tapað hundruðum milljarða á banka-sjóða- og verðbréfasukki og forustumenn þeirra höguðu sér með sama hætti og þeir útrásarvíkingar og bankamenn sem verkalýðsforustan ásakar nú um að bera ábyrgð á hruninu. Verkalýðsforustunni væri hollt að horfa á eigin spegilmynd til að sjá bjálkann í eigin augum.

Fróðlegt verður að sjá hvort verkalýðsforkólfarnir sem hittast á ársfundi ASÍ klappa á bak hvers öðrum og finna leiðir til að kenna öllum öðrum en sjálfum sér um.  Þá verður fróðlegt að sjá hvort þeir ætla að afsaka sig með innantómum marklausum Samfylkingarfrösum um frjálshyggju, einkavæðingu og spilavíti. Sé svo þá  ættu þeir í leið að huga að því að það voru þeir sjálfir sem spiluðu hvað djarfast með lífeyrissjóðina. Það voru þeir sem helltu peningaolíunni á spilavítiseld útrásarvíkinganna og það voru þeir sem sátu í stjórnum fjármálafyrirtækja og hentu hundruðum milljarða í fjármálafyrirtæki og önnur fyrirtæki sem og erlent verðbréfabrask.

Gylfi Arnbjörnsson og félagar í ASÍ og lífeyrisfurstarnir ættu að horfast í augu við sjálfa sig eigin ábyrgð og segja af sér og leyfa raunverulegum fulltrúum fólksins að komast að.


Hvika nú allir stjórnarliðar nema Ögmundur?

Svo virðist sem Jóhanna og meðreiðarlið hennar í ríkisstjórninni sé horfið frá niðurfærslu lána allir nema Ögmundur Jónasson sem enn stendur vel í ístaðinu og virðist skynja alvöru málsins og samhengi hlutanna.

Á tímum kaupmáttarskerðingar upp á rúman tug prósenta, skattahækkana og verðlækkunar á fasteignum, þá þýðir ekki fyrir fjármálastofnanir og lífeyrissjóði að ætlast til þess að fólk sætti sig við eitthvað annað og minna en eðlilega niðurfærslu verðtryggðra lána.

Stjórnarandstaðan ætti að láta myndarlega í sér heyra varðandi þetta réttlætismál og knýja á um það að almenn leiðrétting lána í samræmi við staðreyndir í þjóðfélaginu nái fram að ganga.

Gerviheimur verðtryggingarinnar býr ekki til nein raunveruleg verðmæti, en hún getur eyðilagt sum.


Slæm tíðindi

Neyðarfundir Jóhönnu Sigurðardóttur vegna skuldavanda einstaklinga, með forustumönnum fjármálastofnana, lykilráðherrum nokkrum þingnefndum og fulltrúum Hagsmunasamtaka heimila og talsmanni neytenda virðast ekki ætla að skila neinu. Það eru slæmar fréttir.

Stærsti vandinn er sá að ríkisstjórnin hefur enga stefnu, engar tillögur og engar lausnir. Séð utanfrá þá virkar forsætisráðherra eins og aðkeyptur fundarstjóri á almennri helgarráðstefnu og ekki verður annað séð en helsti ráðamaður ríkisstjórnarinnar,  fjármálaráðherra, hafi takmarkaðan áhuga á ráðstefnu forsætisráðherra um skuldavandann.

Ötulasti talsmaður Hagsmunasamtaka heimilanna, Marinó G. Njálsson, segir á bloggi sínu í morgun að ríkisstjórnin bjóði í raun aðeins upp á þrjár leiðir sem allar feli í sér að fólk flytur úr landi með búslóðir sínar. Með því er Marinó í raun að segja að ekkert  hafi gerst á neyðarfundum forsætisráðherra. Ég verð að viðurkenna það að mér fannst slæmt að heyra að svona væri komið því að alltaf held ég í vonina um að forystumenn í íslensku stjórnmála- og fjármálalífs horfist í augu við staðreyndir þeirra vandamála sem venjulegt fólk glímir við í þjóðfélaginu í dag.

Forsenda þjóðarsáttar og nýs upphafs á Íslandi fellst í því að leiðrétta skuldir fólks og fyrirtækja. Hún fellst ekki í því að gefa einhverjum eitthvað heldur leiðrétta það sem ranglega er lagt á fólk eða frá því hefur verið tekið, á grundvelli verðtryggingar eða vegna þeirra fjármálahamfara í þjóðfélaginu sem byrjuðu með gengishruninu.  Annað þarf ekki en ekkert minna dugar.


Skuggaelítan

New Left Review, sem er málgagn fyrrum kommúnista og öfgafullra vinstri manna, og amast m.a. við frjálsu markaðsþjóðfélagi, birtir greiningu um hrunið á Íslandi. Greinin nefnist "Skuggaeilítan: Innherjarnir sem felldu efnahag Íslands."

Af fyrirsögninni að dæma hefði mátt ætla að umfjöllunin væri um fallin fjármálafyrirtæki og tug- og hundraðamilljarða skuldara sem voru orsakavaldar hrunsins.  Annað kom í ljós. Greinarhöfundar halda því fram, að Geir H. Haarde og Davíð Oddsson hafi af valdagræðgi og með því að stýra sjálfum sér og vildarvinum í lykilstöður, verið helstu orsakavaldar hrunsins.

Þessi niðurstaða kemur á óvart miðað við hlutlægustu greiningar sem farið hafa fram á hruninu eins og hjá Mats Josefsson, Karlo Jänneri og m.a. jafnvel hinni stjórnsýslumiðuðu skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Niðurstöður greinarhöfunda New Left Review miðað við greiningar ofangreindra aðila er rugl.

Niðurstaðan kemur ekki á óvart þegar betur er að gáð. Höfundar þessarar rugluðu greinar og röngu greiningar í New Left Review eru nefnilega helstu viðmælendur og vildarvinir silfur Egils Helgasonar þau  Sigurbjörg stjórnsýslufræðingur og Robert Wade sambýlismaður hennar. 

Með greinarskrifum sínum opinbera Robert Wade og Sigurbjörg stjórnsýslufræðingur Sigurgeirsdóttir hvað það fer víðs fjarri að þau séu hlutlausir rýnendur í samtímaviðburði eða hafi hæfi eða burði til að horfa á mál og/eða atburði með hlutlægum hætti. Þeirra viðmið eru pólitísk og grunduð á hatri á markaðsþjóðfélaginu sem persónugerist í tveim einstaklingum að þessu sinni. 

Skrýtið að Sigurbjörg stjórnsýslufræðingur skuli gleyma því að Ingibjörg Sólrún vinkona hennar og fyrrum sambýlingur var alveg sammála þeim Davíð og Geir um markaðsþjóðfélagið og vildi jafnvel gefa peningaöflunum enn lausari tauminn en þeir vildu. 

Bullið í Robert Wade og Sigurbjögu Sigurgeirsdóttur ber þess glöggt vitni að þau eru fyrst og fremst pólitískt ofstækisfólk. Þau hafa vaðið uppi í skjóli Silfur Egils Helgasonar og fréttamanns á RÚV. Þeim hefur verið gefinn kostur á því af Silfur Agli og fréttamanninum vini Sigurbjargar að sveipa um sig kufli fræðimennskunnar við hefur blasið nakið lýðskrum og pólitískt ofstæki þessara skötuhjúa.

Vonandi kemur sá tími að  Sigurlaug og Wade,  fái ekki frekari tækifæri til að rógbera land og þjóð á erlendum vettvangi og níða niður fólk vegna pólitískra skoðana þess. Þá verður fróðlegt að sjá hvort og þá hverjir það verða sem kalla í annað hvort eða bæði þessara skötuhjúa til að tjá sig um mál í framtíðinni.

Hin raunverulega skuggaelíta er allt annað fólk en Davíð og Geir. Þeir eiga ekki heima þar en það eiga þau bæði Wade og Sigurbjörg.


Nú ríða hetjur um héruð

Nú ríða sérkennilegar hetjur um héruð í líki þingmannanna Kristjáns L. Möller, Ólínu Þorvarðardóttur, Sigmundar Ernis Rúnarssonar og fleiri af sama sauðahúsi. Þessar hetjur hafa tekið sér stöðu með stofnunum í kjördæmum sínum gegn fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Í hópi þessara hugdjörfu þingmanna er Guðbjartur velferðar Hannesson sem sagði að ýmsu þyrfti að breyta í fjárlagafrumvarpinu.

Fyrir nokkru stóðu þessar sömu hetjur að því í Alþingishúsinu við Austurvöll í Reykjavík að leggja fram fjárlagafrumvarpið sem þau eru á móti heima í héraði.  Ekki nóg með það, Guðbjartur velferðar Hannesson var formaður fjárlaganefndar Alþingis sem hefur undirbúið og á mesta heiðurinn og/eða skömmina af fjárlagafrumvarpinu.

Fjárlagafrumvarp verður ekki til á einum degi og er ekki afrakstur eða hugarfóstur fjármálaráðherra eins. Mikil vinna fer fram í fjárlaganefnd Alþingis og áður en fjárlagafrumvarpið er lagt fram á Alþingi sem stjórnarfrumvarp er það kynnt þingflokkum stjórnarflokkanna og lagt fram eftir að þeir hafa lagt blessun sína yfir frumvarpið. Hetjurnar í héraði og Gutti velferðar tala því með einum rómi á Alþingi en öðrum heima í héraði.

Nú eru það þingmenn Samfylkingarinnar til hægri og vinstri sem reyna að slá sig til riddara með því að berjast gegn eigin frumvarpi heima í héraði. Fróðlegt verður að sjá hvernig Jóhönnu Sigurðardóttur gengur að smala þessum hérum í Samfylkingunni til stuðnings við fjárlagafrumvarpið.


Uppgötvun Jóhönnu

Það var athyglivert að heyra það  í hádegisfréttum að forsætisráðherra hafði uppgötvað að stór hópur fólks ætti í skuldavanda.  Hún sagði að nú þyrfti að skoða málin en vildi ekki segja hvað ætti að gera. Hefur Jóhanna virkilega ekki skoðað málin og liggja ekki staðreyndir fyrir hjá henni eftir samfellda setu í ríkisstjórn frá 2007 og þingsetu nokkru eftir að Úlfljótur og Grímur geitskór hættu á Alþingi.

Eftir að hafa hlustað á stefnuræðu forsætisráðherar og viðbrögð núna þá datt mér í hug það sem danska drottningin sagði í byrjun síðustu aldar þegar hún spurði af hverju fólk væri sósíalistar og var svarað að sumir væru ekki ánægðir með ríkisstjórnina og konunginn. Þá sagði drottningin. "Hvílíkt vanþakklæti og við sem höfum gefið fólkinu Tívolí." 

Þá eins og nú þá má upplýsa Jóhönnu um að fólk hvorki borðar né býr í sértækri skuldaaðlögun.


Enn einn hring

Fjórum sinnum hefur ríkisstjórnin boðað til blaðamannafunda og sagt að nú væri kynnt hin endanlega lausn í málum skuldsettra einstaklinga. Jafn oft hafa landsmenn orðið fyrir vonbrigðum með boðskapinn.

Tveimur árum eftir hrun hafa höfuðstólar verðryggðra lána hækkað gífurlega vegna ímyndaðra hækkana, sem reiknaðar eru út á Hagstofunni, þrátt fyrir að engin virðisauk mælist í þjóðfélaginu heldur þver öfugt.  Það þýðir að verið sé að taka frá skuldurum og gefa fjármagnseigendum.

Verðtryggingarbullið og aðrar sérokurleiðir í lánamálum eru að éta upp eignir venulegs fólks. Jóhanna og Steingrímur hafa horft á með velþóknun ásamt ömurlegustu verkalýðshreyfingu veraldar.

Óneitanlega er það sérkennilegt að þau Jóhanna og Steingrímur skuli standa varðstöðuna með fjármagnseigendum. Raunar er mér sagt að Jóhanna hafi þegar byrjað þá varðstöðu í ríkisstjórn Geirs H. Haarde fyrir tveim árum síðan.

Þegar ríkisstjórn hefur misst traust þá er erfitt að ávinna það aftur.  Stefnulaus og úrræðalaus forsætisráðherra ætlar samt að freista þess enn einu sinni að kaupa sér vinsældir með því að spila einhverju út hvað svo sem það verður. 

En það dugar ekkert minna en að afnema sérleiðirnar í lánamálunum. Það verður að afnema verðtrygginguna. Það verður að reikna höfuðstólana aftur til október 2008. Eitt verður yfir alla að ganga í því efni.   

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.9.): 43
  • Sl. sólarhring: 681
  • Sl. viku: 3422
  • Frá upphafi: 2606312

Annað

  • Innlit í dag: 42
  • Innlit sl. viku: 3225
  • Gestir í dag: 42
  • IP-tölur í dag: 42

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband