Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Þeir lána Steingrímur eyðir

Um svipað leyti og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn tilkynnti að hann ætlaði að lána til Íslands 16 milljarða króna í kjölfar 3. endurskoðunar efnahagsáætlunar stjórnvalda barst sú frétt að Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra mundi leggja fram frumvarp til fjárlaga þar sem hallinn væri nálægt hundrað milljörðum.

Eftir alla baráttuna við að fá lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þá er staðan sú að lánið eftir 3. endurskoðun dugar fyrir tveggja mánaða óráðssíu Steingríms J. Sigfússonar í ríkisfjármálum.

Við þessar aðstæður þá eru það ófyrirgefanleg afglöp í starfi fjármálaráðherra að reka ríkissjóð með halla.

Að ári liðnu þá hafa vextirnir af óráðssíu Steingríms J. étið upp lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, en við sitjum uppi með skuldirnar en vonandi ekki Steingrím J. sem ráðherra.


Horft til baka

Á sama tíma og einstaklingar eru að sligast undir okurskuldum verðtryggingar og vaxta af áður gengisbundnum lánum og atvinnulífið er í vaxandi erfiðleikum vegna óheyrilegs fjármagnskostnaðar talar Alþingi svo dögum og vikum skiptir um fortíðina.

Fortíðin hleypur ekki frá okkur hún er hluti af þeim raunveruleika sem við verðum að búa við hvort sem okkur líkar betur eða verr. Hins vegar lifir fólk í núinu og gerir áætlanir fyrir framtíðina. Alþingi og ríkisstjórn er sannarlega ekki að vandræðast með þá hluti. Fortíðarvandinn er það sem hefur forgang.  Samt sem áður hafa auglýsingar um nauðungaruppboð aldrei verið fleiri og greiðsluvandi jafn margra einstaklinga aldrei verið meiri.

Er ekki eitthvað bogið við svona forgangsröðun?


Vonbrigði

Niðurstaða Hæstaréttar í vaxtamálinu var vissulega vonbrigði og þvert á það sem ég taldi að yrði niðurstaðan.  Hæstiréttur rökstyður niðurstöðu sína með allt öðrum hætti en héraðsdómur og vísar til þess að þar sem að gengisviðmiðun hafi verið dæmd ólögleg þá geti vextir sem bundnir eru við slíka gengisviðmiðun ekki staðist.

Samt sem áður þá er verið að víkja til hliðar umsömdu vaxtaákvæði hvað varðar prósentutölu vaxta og þar sem að mjög rúm endurskoðunarákvæði eru í þeim lánssamningum sem um ræðir þá finnst mér að eðlilegra hefði verið að halda sig við vaxtaákvörðun lánssamninganna.

En Hæstiréttur er Hæstiréttur og hvort sem okkur líkar betur eða verr þá á hann síðasta orðið svo fremi máli verði ekki vísað til yfirþjóðlegs dómstóls.

Nú er hins vegar spurningin hvað ríkisstjórnin  ætlar að gera. Spurning er um greiðsluvilja og greiðslugetu fólks og smáatvinnurekenda. Það á jafnt við um þessi svonefndu gengislán sem og verðtryggðu lánin.  Það þýðir ekki að ætlast til þess að unga fólkið á Íslandi verði bundið í skuldafjötra sem það getur aldrei ráðið við og berjist við það vonlausri baráttu að eignast eitthvað sem er jafnóðum tekið frá því með vaxtaokri og verðtryggingu. Heldur einhver að það verði einhver þjóðarsátt um slíka skipan.  Annarsstaðar en hjá verkalýðs- og atvinnurekendum.

Gylfi Arnbjörnsson er sjálfsagt feginn niðurstöðu Hæstaréttar í þessu máli en skyldi hann tala fyrir hinn almenna launamann í því máli?


Vaxtadómur

Mér þykir líklegt að Hæstiréttur kveði upp dóm í svonefndu vaxtamáli á morgun fimmtudag.

Í kvöld var kynnt árshlutauppgjör Arion banka fyrir fyrstu 6 mánuði ársins 2010 en skv. því er arðsemi eigin fjár yfir 17% og hagnaður bankans er tugur milljarða.  Nýlega skilaði Íslandsbanki álíka uppgjöri. Það er því ljóst að bankarnir þola að fólkið í landinu búi við svipuð lánakjör og fólk í nágrannalöndum okkar.

Ég á ekki von á öðru en að Hæstiréttur staðfesti ákvæði staðalsamninga um svonefnd gengislán um vexti og hnekki héraðsdómnum hvað það varðar. 

Með því að dæma neytendum í vil í þessu máli gerir það fólki og fyrirtækjum sem tóku slík lán kleyft að standa við skuldbindingar sínar og búa við lánakjör sem eru sambærileg lánakjörum sem eru í okkar heimshluta.  Slíkur dómur gerir þá líka kröfu til að verðtryggðu lánin verði leiðrétt þegar í stað og rán verðtryggingarinnar verði ekki látið viðgangast lengur.

Ljóst er miðað við árshlutauppgjör bankanna að það er hægt að koma á lánakerfi á Íslandi sem býður fólki upp á sambærileg kjör og gilda í nágrannalöndum okkar. Allt annað er óþolandi og leiðir til þess að engin sátt getur orðið í þjóðfélaginu. 

Þjófur verðtryggingarinnar má ekki lengur leika lausum hala og stela eignum fólksins í landinu. 


Af hverju ákæra menn ekki Bush eða Brown?

Af hverju dettur engum í hug í Bandaríkjunum að ákæra þá Hank Paulson fyrrum fjármála-og bankamálaráðherra og Bush jr. fyrrum forseta? Af hverju ákæra Bandaríkjamenn ekki þessa menn fyrir að hafa bakað bandarísku þjóðinni þúsunda millarða dollara skuldbindingar við björgun banka.

Af hverju dettur engum manni í hug í Bretlandi að ákæra þá Alstair Darling fyrrum fjármálaráðherra og Gordon Brown fyrrum forsætisráðherra vegna bankahruns og taka á skattgreiðendur þúsunda milljarða punda skuldbindingar til að bjarga bönkum?

Af hverju þurfum við hér á Íslandi að fara í vonlausar glórulausar sérleiðir?

Á sama tíma og ríkisstjórn Bretlands gerir sér grein fyrir þeim alvarlega vanda sem við er að eiga og ákveður stórfelldan niðurskurð ríkisútgjalda ákveða þau Jóhanna og Steingrímur að halda partíinu áfram og reka ríkissjóð með halla.

Hvernig var það annars. Sat ekki Jóhanna Sigurðardóttir í 4 manna ríkisfjármálahóp ríkisstjórnar Geirs H. Haarde? Eru þá ekki ríkari ástæður til að kæra hana enn Björgvin Sigurðsson?  Það er að segja ef menn eru svo skyni skroppnir að vilja fara í sérleiðir pólitískra hefndaraðgerða.


Dómur Hæstaréttar um vexti myntkörfulána

Málflutningi er lokið í Hæstarétti um vexti ólögmætu myntkörfulánanna.  Fjármálafyrirtækin og ríkisstjórnin vonast til þess að Hæstiréttur staðfesti héraðsdóminn og víki til hliðar vaxtaákvæðum neytendasamnings.

Ég hef enga trú á því að Hæstiréttur lýðveldisins Íslands dæmi með þeim hætti að hann felli ákvæði neytendasamnings úr gildi til óhagræðis fyrir neytendur en hagræðis fyrir fjármálafyrirtækin vegna mistaka þeirra. 

 Það yrði þá einsdæmi í okkar heimshluta.


Ábyrgðarlaus

Stuttu eftir að forsætisráðherra lýsti yfir stuðningi við Gylfa Magnússon sem ráðherra lét hún hann taka pokann sinn. Stuttum ráherraferli svonefnds fagráðherra Gylfa Magnússonar er lokið og það með jafnmiklum ósóma og hinn fagráðherrann Ragna Árnadóttir gegndi sínu ráðherraembætti með miklum sóma.

Forsætisráðherra lá á að gera breytingar á ríkisstjórninni vegna þess að vantraust Alþingis á Gylfa Magnússon var yfirvofandi vegna þess að hann sagði bæði þingi og þjóð ítrekað ósatt. Auk heldur var Gylfi verklítill sem ráðherra. 

Gylfi Magnússon gerði hins vegar nokkra hluti sem orka mjög tvímælis svo ekki sé meira sagt. Þar koma helst til skoðunar ákvarðanir og aðgerðir ráðherrans varðandi það að fella SPRON og Straum fjárfestingarbanka. Eftir því sem séð verður þá var það rangt að fella SPRON og beinlínis skemmdarverk að fella Straum fjárfestingarbanka.

En Gylfi verður ekki sóttur til saka. Hann er í hópi ábyrgðarlausra. Alþingi fær ekki tækifæri til að greiða atkvæði um vantrausttillögu á hann sem boðuð var. Hann verður ekki sóttur til saka fyrir að gera ekki neitt varðandi ofurlaun skilanefndarfólks eins og hann ræddi um í janúar s.l. og oftar að nauðsyn bæri til að taka á.  Hann verður ekki sóttur til saka fyrir vanrækslu í starfi með því að gera ekki ráðstafanir þegar honum mátti vera ljóst að rökstuddur vafi lék á því hvort gengislánin svonefndu stæðust eða ekki.

Væntanlega gefst Gylfa Magnússyni nú tækifæri til að rifja upp ummæli sín frá þeim tíma þegar hann var róttækur mótmælandi á fundum Harðar Torfasonar á Austurvelli og velta því fyrir sér hvort það hafi verið sami maðurinn sem talaði á þeim fundum og sá sem síðar varð viðskiptaráðherra með sama nafni.


Sjáandi sjá þau ekki. Heyrandi heyra þau ekki.

Forsætis- og fjármálaráðherra virðast hvorki sjá né heyra mikilvægustu skilaboðin um það sem er að gerast í þjóðfélaginu. Í gær hélt Jóhanna Sigurðardóttir dæmalausustu ræðu sem nokkur forsætisráðherra hefur haldið í samræmi við greinaflokk fjármálaráðherra  "Landið tekur að rísa".

Stundum hefur þjóðin átt  talnaglöggt fólk eins og á sínum tíma Sölva Helgason sem reiknaði barn í konu. Einnig áreiðanlegt fólk eins og Vellygna Bjarna sem sagði m.a. sögur  af því  þegar hann atti kappi við Drottinn allsherjar og hafði að sjálfsögðu betur.

Yfirlýsingar og hreystiyrði  Jóhönnu og Steingríms um hve vel miði og allt sé nú með öðrum tón en áður í fjötrum Íhalds og Framsóknar eru í góðu samræmi við reikningskúnstir Sölva Helgasonar og frásagnir Vellygna Bjarna.

Hagstofan segir okkur samt að um samfellt samdráttarskeið hafi verið að ræða árið 2009 og fyrstu mánuði ársins 2010. Samdráttur landsframleiðslu árið 2009 varð 6.8% og fyrstu 6 mánuði ársins 2010 er samdráttur landsframleiðslu 7.3%.  Það þýðir líka að lífskjörin í dag eru að verulegu leyti skuldsett annars væru þau til muna verri vegna þessa gríðarlega samdráttar.

Þjóðir heims miða við að sé landsframleiðsla neikvæð í 3 mánuði í röð þá sé kreppuástand. Hér hefur samdráttur landsframleiðslu verið samfelldur í 18 mánuði en Jóhanna og Steingrímur tala um það sem sérstakan árangur ríkisstjórnarinnar.

Því miður er að sannast að kreppan verður verri en hún hefði þurft að vera vegna óhæfrar ríkisstjórnar. Hvort sem okkur líkar betur eða verr þá er ástandið grafalvarlegt því miður.

http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frettir/2010/09/03/3_1_prosent_samdrattur/

 


Sagan af vel reknu ísbúðinni

Í sumarblíðunni um daginn fór ég að kaupa ís með lúxusdýfu fyrir ungviðið. Íssalinn minn sem rekur aðgerðarmikla ísbúð sagði mér að hann væri orðinn hálf þreyttur á að puða frá morgni og fram undir miðnætti hvern einasta dag vikunnar og þar sem hann hafði frétt að framtakssjóður Lífeyrissjóðanna ætlaði sér að fjárfesta í góðum fyrirtækjum þá hafði hann leitað hófanna að selja þeim ísbúðina svo hann gæti lifað í vellystingum praktuglega og notið árangurs erfiðis síns.

Íssalinn minn sagði mér að honum hefði verið vísað á dyr vegna þess að fyrirtækið sem hann bauð til sölu væri gott fyrirtæki sem skilaði góðum hagnaði og framtakssjóður lífeyrissjóðina væri ekki til þess  að kaupa einhverjar sjoppur sem skulduðu ekki neitt. Íssalinn hafði greinilega misskilið leikreglurnar í þjóðfélaginu.

Íssalinn minn sagði að þeir hjá framtakssjóðnum hefðu sagt sér að markmið sjóðsins væri að sóa lífeyri landsmanna til að kaupa  fyrirtæki sem skulduðu mikið og reka þau með bullandi hagnaði jafnvel þó engum hefði áður tekist að gera það hvorki í góðæri né illæri. Þeir hjá framtakssjóðnum vildu þannig stuðla að íslenskri atvinnuuppbyggingu, aukinni samkeppni og þjóðlegri framleiðslu.

Íssalinn minn sagðist hafa bent á að framleiðsla hans væri heldur betur þjóðleg, íslenskur ís úr íslenskri mjólk og rjóma sem helsta hráefnið, en á það hafi ekki verið hlustað.  Íssalinn minn sagðist hins vegar vænta þess að vel mundi fara með þennan framtakssjóð þar sem að þeir töframenn héldu nú um sjóðinn sem alltaf hefðu skilað af sér fyrirtækjum sem þeir hefðu komið nálægt í mikilli sókn og mun verðmeiri en þegar þeir komu að þeim hvort heldur þeir hafi verið framkvæmdastjórar fyrirtækjanna eða setið í stjórn þeirra.

Íssalinn minn sagðist því sætta sig við að puða áfram og borga í lífeyrissjóðinn sinn þar sem að sjoppurekstur lífeyrissjóðanna væri mun líklegri til að skila árangri með þessum nýju stjórnendum sem að vísu aldrei hefðu þurft að taka áhættu með eigið fé heldur eingöngu með fé annarra og þeir vissu greinilega ráð til að reka nú vonlaus fyrirtæki með þeim hætti að engin hætta væri á að of mikið safnaðist í lífeyrissjóði landsmanna á næstu áratugum.

Eða voru annars lífeyrissjóðirnir ekki stofnaðir til að standa í áhætturekstri á kostnað lífeyrisþega? Voru lífeyrisþegar einhvern tíma spurðir um þetta? Hafa stjórnendur lífeyrissjóðanna ekki tapað nógu miklu nú þegar?


Sviss vill ekki ganga í EES. Af hverju?

Svisslendingar tóku skynsamlegustu ákvörðun þeirra þjóða sem vildu eiga gott samband og samstarf við Evrópusambandið en voru ekki tilbúin að ganga í Evrópusambandið.  Þeir gerðu tvíhliða samning við Evrópusambandið á meðan við gengum í EES

EES var í raun ekki hugsað til annars en að vera undirbúningferli fyrir fulla aðild að Evrópusambandinu. Öll ríkin sem mynduðu EES með okkur hafa gengið í Evópusambandið þannig að bara við Norðmenn og Lichtenstein erum eftir.  Á sínum tíma skrifaði hið virta rit "The Economist" um EES sem fordyri Evrópusambandsins og sagði eitthvað á þá leið að það þjónaði í sjálfu sér engum tilgangi að fara í EES nema fyrir þjóðir sem ætluðu að ganga síðar eða fljótlega í Evrópusambandið.

Með því að ganga í EES þá samþykktum við að framselja verulegan hluta fullveldis okkar m.a. hluta löggjafarvaldsins í raun.  Við féllumst m.a. á opinn vinnumarkað sem varð til þess að magna upp spennuna á árunum 2005-2008 og valda síðari tíma atvinnuleysi og dýpka kreppuna meir en ella hefði verið. Öllum aðvörunarorðum varðandi innflutnings þúsunda erlendra starfsmanna var vísað frá sem röngum og jafnvel rasískum eins gáfulegt og það nú var.

Því miður tókum við ekki þann kost sem Svisslendingar tóku að gera tvíhliða samning við Evrópusambandið, en það hefði haft verulega kosti í för með sér fyrir okkur, hefðum við farið að dæmi Svisslendinga.  

http://www.mbl.is/mm/frettir/erlent/2010/08/19/svisslendingar_vilja_ekki_adild_ad_ees/

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.9.): 164
  • Sl. sólarhring: 642
  • Sl. viku: 3543
  • Frá upphafi: 2606433

Annað

  • Innlit í dag: 155
  • Innlit sl. viku: 3338
  • Gestir í dag: 153
  • IP-tölur í dag: 152

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband