Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Er ríkisstjórnin úrræðalaus?

Ríki og sveitarfélög þurfa að spara.  Það verður í ríkisrekstri og rekstri bæjar- og sveitarfélaga að hafa tekjur fyrir útgjöldum.  Þessi staðreynd hefur vafist fyrir stjórnmálamönnum æði lengi á Íslandi.

Hvort sem okkur líkar betur eða verr þá verðum við að áætla útgjöld miðað við tekjur. Það er alltaf þannig í lífinu að það er svo margt sem við vildum gera hvort heldur einstaklingar eða hið opinbera en það verður að forgangsraða miðað við aðstæður.

Stjórnmálamenn sem ekki kunna að forgangsraða miðað við tekjur en eyða um efni fram eiga ekki erindi lengur í pólitík miðað við þær aðstæður sem eru


mbl.is Mikill halli á opinberum rekstri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lausnin er fólgin í heilbrigðri skynsemi.

Ein skemmtilegasta sagan sem sögð er af þeim félögunum Sherlock Holmes ofurleynilögreglumanni og Dr. Watson er þegar þeir fóru í útilegu og Sherlock Holmes vaknar um nóttina og vekur Dr. Watson og spyr hvað sérðu. Ég sé stjörnumprýddan himininn segir Dr. Watson. Hvað segir það þér spyr Sherlock Holmes. Dr. Watson setti upp spekingssvip og sagði það segir mér að óravíddir geymsins eru óendanlegar og sýnir fegurð sköpunar Guðs. Nei sagði Sherlock Holmes það segir okkur að það sé búið að stela tjaldinu okkar.

Í því óefni sem venjulegt fólk er komið í vegna ruglaðs lánakerfis sem verkalýðshreyfingin ber mesta ábyrgð á vegna ástar sinnar á verðtryggingu lána koma fram álíka langsóttar skýringar og hugmyndir og Dr. Watson setti fram en það skortir að sjá það einfalda í stöðunni. Heilbrigð skynsemi  vék fyrir stefnu sem byggð er á meintum um sérstökum aðstæðum sem réttlæti ofurvexti, verðtryggingu og sjálfstæða mynt.  

Það einfalda er að það þarf að vera lánakerfi sem er sambærilegt við það sem er í okkar heimshluta. Ekkert minna ekkert meira. Verðtrygginguna verður að afnema og taka af höfuðstól lánanna þann meinta virðisauka sem Hagstofan reiknaði út í kjölfar efnahagshrunsins. Það er að skipta rétt í stað þess að halda áfram að skipta rangt.  Myntkörfulánin verður að færa til ákveðins gengis og gefa fólki kost á að skuldbreyta þeim lánum í krónur miðað við ákveðinn tíma.  

Fasteignafélög leysa ekki þann vanda sem verðtrygging verkalýðshreyfingarinnar hefur kallað yfir launafólk í landinu. 


mbl.is Er lausnin fólgin í fasteignafélögum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

214 dagar án aðgerða.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur setið í 214 daga. Á þeim tíma hefur engin stefna verið mótuð um það með hvaða hætti á að taka á skuldavanda fólksins í landinu vegna séríslenskra uppfinninga í lánamálum.

Það þarf að frysta verðtrygginguna miðað við 1. október. Frá þeim tíma hefur engin raunverulegur virðisauki orðið sem réttlætir höfuðstólshækkun lánanna. Það þarf að bjóða upp á að breyta gengislánum í íslenskar krónur miðað við gengi 1.1.2008 og verðtryggingu frá þeim tíma til 1.október 2008 þannig að engum sé mismunað. 

Síðan þarf að miða við að sambærileg lánakjör séu hér á landi fyrir almenning og eru í nágrannalöndum okkar.

Hvað þarf þjóðin að bíða lengi í viðbót eftir að ríkisstjórnin taki á þessu brýnasta réttlætismáli?

 


Hvernig hefði Sigmundur fréttastjóri tekið á máli Sigmundar þingmanns.

Sigmundur Ernir er fyrrum fréttastjóri á Stöð 2. Á þeim tíma þótti Stöð 2 oft óvægin í umfjöllun sinni um einstaklinga. Þess vegna velti ég því fyrir mér hvernig Sigmundur Ernir fréttastjóri hefði tekið á því þegar Sigmundur Ernir þingmaður mætti fullur í vinnuna, sagði ósatt og baðst loks afsökunar án þess að gera grein fyrir því af hverju hann var að biðjast afsökunar.  Hefði Sigmundur Ernir fréttastjóri sagt að þetta væri bara stormur í rauðvínsglasi?

Þó það sé einfaldara að skilja fyllerí og ósannindi en golf og veisluhöld í boði auðhringja þá finnst mér það mun frekar þarfnast skýringa af hálfu þingmannsins Sigmundar Ernis. Hann þiggur boð MP banka í golf og veislu. Daginn eftir boð í golf og viðgjörning hjá 365 miðlum sem hafa nýlega fengið 4 milljarða skuld sína frysta eftir því sem sagt hefur verið í fjölmiðlum.  Af hverju var þingmanninum Sigmundi Erni boðið til þessara veisluhalda af hálfu þessara fyrirtækja og hvaða gjald skal greiða fyrir gjöfina.

Sigmundur Ernir alþingismaður skuldar þjóðinni skýringar á því.


Eignirnar brenna upp á verðbólgubálinu.

Gengishrun og bankahrun í lok árs 2008 kallaði á aðgerðir ríkisstjórnar strax. Úrræði ríkisstjórnar Geirs H. Haarde í þeim málum voru engin.  Sú ríkisstjórn splundraðist rúmum 100 dögum eftir hurnið. Nú hefur ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur verið við völd í rúma 200 daga og úrræði hennar eru engin.

Félagsmálaráðherra talar eins og véfrétt um að eitthvað þurfi að gera en hann veit ekki hvað. Aðrir ráðherrar vita heldur ekki hvað á að gera.

Lausnin er einföld. Við eigum að byggja upp lánakerfi sem er sambærilegt og samskonar og í öðrum löndum í okkar heimshluta. Afnema verðtryggingu það er forgangsatriði. Strax við hrunið átti að frysta verðtrygginguna og gengislánin með neyðarlögum um lánamál.  Það er enn meira aðkallandi nú og verður að gera. Með því yrðu lánamálin færði í svipað horf og í nágrannalöndunum.

Í öllum löndum í okkar heimshluta hjálpar verðbólgan til að leysa vanda skuldsetts fólks en hér er hún versti óvinur skuldara. Óðaverðbólgan sem hér hefur verið nú 10% brennir upp eignir fólksins. Verðbólgan í verðtryggingarþjóðfélaginu er eins og þjófur sem er alltaf til staðar og stelur eignunum þínum. 

Ríkisstjórn sem áttar sig ekki á að það verður að vera virkur sterkur gjaldmiðill og lánakjör eins og gerist í okkar heimshluta er ekki fær um að vera við völd. Hún skilur ekki ætlunarverk sitt. Sama gegnir raunar um alla stjórnmálamenn sem átta sig ekki á því að lengra verður ekki haldið á braut verðtryggingar og hávaxtastefnu allt til að vernda ónýtan gjaldmiðil.

Geta ráðamenn ekki vaknað þegar lán venjulegrar fjölskyldu hækka um hundruð eða hundruðir þúsunda við hver mánaðarmót.

Þjóðfélag sem líður svona gegndarlaust óréttlæti getur ekki staðist.


Hver á Bónus?

Kaupþing er með 96% veð í fyrirtækinu Hagar sem rekur m.a. Bónus og Hagkaup. Þeirri spurningu er ósvarað hvort fyrirtækið er meira virði en skuldir þess við Kaupþing. Hver er þá hinn raunverulegi eigandi? Er það Kaupþing eða eru það hluthafar í fyrirtækinu?  Formlega séð eru það hluthafarnir og þeir reka fyrirtækið.

Í markaðsþjóðfélagi er miðað við það að eigandinn taki áhættuna og líði fyrir rangar ákvarðanir ef illa fer en græði ef hagnaður verði á fyrirtækinu. Nú hefur þessari meginforsendu markaðsþjóðfélagsins verið snúið á haus. Öll áhættan er hjá lánastofnunum, sem tapar peningunum ef illa fer en fær aldrei gróðann. Gróðinn fer til þeirra sem reka fyrirtækið.

Þessi tegund af öfugsnúnu markaðssamfélagi leiddi m.a. til bankahrunsins.  Þegar upp er staðið lendir ábyrgðin á skattgreiðendum. Icesave ábyrgðin er ein birtingarmynd þess.

Hvað þá með hina sem eiga fyrirtækin sín og reka á eigin áhættu. Af hverju eiga þeir að sætta sig við að samkeppnisfyrirtæki séu nú rekin í stórum stíl á kostnað skattgreiðenda í gegn um ríkisbanka.


Þjóðin hefur eignast sinn Hamlet.

Að vera eða vera ekki sagði Hamlet Danarins í samnefndu leikriti helsta skáldjöfurs Breta. Nú hefur íslenska þjóðin eignast sinn Hamlet í líki félagsmálaráðherra Árna Páls Árnasonar. Fyrir nokkrum dögum sagði hann að engar sérstakar ráðstafanir yrðu gerðar vegna skulda heimilanna í landinu en í dag er haft eftir honum að gerðar verði aðgerðir til að hjálpa skuldsettum heimilum og einstaklingum.

En allt er þetta flókið og þarf að fara í flókið ferli umræðustjórnmála Samfylkingarinnar. Lá ekki ljóst fyrir í október 2008 að það þyrfti að leiðrétta þá skuldaholskeflu sem lenti á fólki vegna gengishruns og verðtryggingar. Þannig að fólk væri með svipuð lánakjör og fólk í nágrannalöndum okkar. Það á ekki að gera neitt meira. En það er einmitt þetta sem þarf að gera. Koma lánamálum einstaklinga og fyrirtækja í það horf sem gengur meðal siðmenntaðra þjóða.

Hamlet dagsins í dag félagsmálaráðherra segir á miðvikudegi við gerum ekki neitt varðandi skuldir heimilanna. En á laugardegi segir hann við munum gera eitthvað til aðstoðar skuldsettum heimilum.

Er batnandi mönnum best að lifa eða er þetta örvæntingarfullt útspil vegna þess hvað óvinsæl fyrri ummæli félagsmálaráðherra voru.


Gerði Jóhanna rétt?

Íbúafjöldi á Íslandi er sá sami og í borginni Sunderland á Bretlandi. Stundum finnst mér eins og íslensk stjórnvöld hegði sér með þeim hætti sem gæti hentað borgarstjórn Sunderland í besta falli en ekki ríkisstjórn sjálfstæðs ríkis.

Mér leið þannig í gær þegar ég las grein Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra sem birtist í dagblaðinu Financial Times í Bretlandi að forsætisráðherra væri komin á svipað stig og forseti borgarstjórnar í Sunderland gæti í besta falli talið sér henta.

Ráðgjafi ríkisstjórnarinnar Eva Joly og þingmaður á Evrópuþinginu getur ritað greinar í blöð og beðið íslendingum ásjár og sama getur óbreyttur þingmaður eins og Pétur Blöndal en er hentugt að forsætisráðherra geri það?

Ég gagnrýndi Geir H. Haarde  fyrir að tala ekki beint við forsætisráðherra Breta og leita skýringa á beitingu hryðjuverkalaganna og freista þess að ná viðunandi samkomulagi þjóðanna vegna Icesave reikninganna og bóta vegna beitingar hryðjuverkalaganna. Því miður gerði Geir þetta ekki.  Það stóð þá upp á nýjan forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur að fara í viðræður við Gordon Brown flokksbróður sinn. En Jóhanna gerði þetta ekki og hefur ekki gert en skrifar þess í stað grein í Financial Times fyrst núna.  Því miður þá finnst mér þetta niðurlægjandi fyrir forsætisráðherra Íslands.

Forsætisráðherra gerði samning við Holland og Bretland fyrir rúmum tveim mánuðum. Af hverju talaði hún ekki við forsætisráðherra þessara landa fyrir þann tíma og gerði þeim ítarlega grein fyrir vanda okkar.  Telur forsætisráðherra virkilega að hún bæti stöðu þjóðarinnar með því að skrifa grein eins og hún gerði í Financial Times rúmum tveim mánuðum eftir að hún gerði samninginn sem hún efast nú um í greininni.  Ég efast um að borgarstjórn Sunderland mundi verða ánægð með að borgarstjórinn færi þannig að vegna samninga sem hann hefði gert fyrir hönd brogarstjórnarinnar.

 


Vanhæf ríkisstjórn.

Ríkisstjórnin skipaði vini sína til að leiða samninganefnd Íslands í Icesave málinu. Þeir höfðu flokksskírteinin í lagi en ekki prófskírteinin.

Ég gagnrýndi það strax og Svavar Gestsson stúdent var valinn formaður samninganefndarinnar að ekki skyldu vera valdir viðurkenndir alþjóðlegir sérfræðingar til að leiða vinnuna.  Smám saman hefur komið í ljós hversu hrapalega var staðið að málinu af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Ríkisstjórnin staðfesti Icesave samninginn sem samninganefnd flokkanna kom með að utan án þess að fyrir lægi meiri hluta vilji Alþingis til að staðfesta ríkisábyrgðina sem henni fylgdi. Slík vinnubrögð ganga ekki.

En eins og formaður Icesave samninganefndarinnar orðaði það " Það þurfti að klára þetta fyrir sumarfrí."  Lá eitthvað á að gera vondan samning?  Ríkisstjórninni lá illu heilli á. Sem betur fer hefur Alþingi enn haft vit fyrir ríkisstjórninni.

 


mbl.is Skynsamlegt að semja að nýju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Símkostnaður er of hár.

Það þykir merkileg frétt að símkostnaður hér seinni hluta ársins 2008 sé undir meðaltali miðað við OECD ríki. Hefði gengishrunið ekki orðið þýðir það þá að símkostnaður okkar hefði verið hærri en allra annarra í OECD ríkjunum. 

Þessi samanburður sýnir í raun ekki annað en að gegndarlaust okur á sér stað á símamarkaðnum hér.  Það mætti t.d. bera saman verð á kaffibolla í höfuðborgum OECD ríkjanna og ég tel upp á að nú sé kaffibollinn ódýrastur í Reykjavík en þannig var það ekki fyrir gengishrun.

Það hefði verið um samanburðarhæfar tölur að ræða hefði símakostnaður verið reiknaður út miðað við meðallaun. Þá hygg ég að við mundum tróna á toppnum með hæsta símkostnaðinn. Því miður.

Það er með ólíkindum hvað verð á farsímaþjónustu er hár hvað sem líður auglýsiingaskrumi símafyrirtækjanna.


mbl.is Símakostnaður undir meðaltali
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.9.): 44
  • Sl. sólarhring: 138
  • Sl. viku: 3409
  • Frá upphafi: 2606583

Annað

  • Innlit í dag: 42
  • Innlit sl. viku: 3211
  • Gestir í dag: 42
  • IP-tölur í dag: 41

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband