Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Hvar var aðalhagfræðingur Seðlabankans?

Grein Anne Sibert er að sumu leyti athygliverð. Þó að flestu öðru leyti en því sem fjallar um Davíð Oddsson og einkavæðinguna. 

Hversu góður eða slæmur sem Davíð Oddsson var sem Seðlabankastjóri þá var hann einn af þremur Seðlabankastjórum en ekki alvaldur. Auk þess var aðalhagfræðingur bankans til staðar greinilega mjög hæfur maður því að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur gert hann að aðstoðarseðlabankastjóra. Það hefur því greinilega verið mat forsætisráðherra að hin hagfræðilegu ráð hafi ekki brugðist í Seðlabankanum fyrir hrunið.

Það er eðlilegt  að leitað verði skýringa hjá forsætisráðherra hvað það var sem brást og Önnu Sibert ætti að vera hæg heimatökin í því efni.  Það var og  er her hagfræðinga og viðskiptafræðinga  starfandi í Seðlabankanum eins og Anna Sibert sjálfsagt veit


mbl.is Segir Davíð hafa skort sérfræðiþekkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna hvar ert þú nú?

johanna Fyrir margt löngu söng andstæðingur þáverandi minnihlutastjórnar í Suður Afríku lagið "Give me hope Joanna"  Nú gæti íslensks alþýða sungið með sama hætti, en ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur valdið stórum hópi fólks miklum vonbrigðum.

Í fyrsta lagi verður Jóhanna að freista þess að taka Icesave málið úr þeirri gíslingu sem það er í,  á Alþingi, og leita eftir því við forsætisráðherra í Hollandi og Bretlandi að gera nauðsynlegar breytingar á samningnum. Það er ljóst að við verðum að afgreiða þetta mál sem allra fyrst.  Það er brýn nauðsyn. En það er ekki sama hvernig það er gert og Jóhanna er sú eina sem getur stöðu sinnar vegna leitað nýrra leiða.

 Ólafur Ragnar  Eða þarf e.t.v. að kalla á forsetann, sem gæti verið snöfurmannlegri í samskiptum við erlenda fyrirmenn?

Í öðru lagi þá verður Jóhanna að setja fram ákveðnar tillögur um það hvað skuli gera varðandi vanda þeirra sem keyptu íbúðarhúsnæði á gengistryggðum lánum skömmu fyrir hrun íslensku krónunnar og koma með ákveðnar tillögur um takmörkun og/eða afnám vísitölubindingar lána.  Þettta var brýnt þegar Jóhanna tók við í byrjun febrúar og er enn brýnna nú. Þessi vandi hleypur ekki frá okkur.

Í þriðja lagi þá þarf að taka til í ríkisbúskapnum, leggja niður óþarfa ríkisstofnanir miðað við aðstæður og draga úr millifærlsum og stykjum einfaldlega vegna þess að geta ríkissjóðs til að fjármagna góðærisævintýrin er ekki lengur fyrir hendi.

Í fjórða lagi verður að hætta framlögum til velferðarkerfis atvinnuveganna og byggja á þeirri starfsemi sem í raun skilar arði. Á sama tíma á að leggja fé í nýsköpun sem líkleg er til að vera arðbær. 

Í fimmta lagi verður að ljúka endurskipulagningu bankanna og miða við að þeir verði reknir með hagnaði eða í jafnvægi en mér er sagt að í dag kosti ríkisbankakerfið 8 milljarða á mánuði.  Sé það rétt þá eru þar þyngri byrðar á þjóðina en Icesave og ljóst að það getur ekki verið markmið ríkissjóð að reka 3 banka alla með miklum halla.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur verður hálfs árs innan nokkurra daga.  Þá er eðlilegt að spurt sé hvort að Jóhanna geti eða sé líkleg til að gefa þjóðinni von um lausn þeirra vandamála sem mest eru aðkallandi?


Eignaupptaka og gæsluvarðhald.

Tæpir 10 mánuðir eru liðnir frá bankahruninu og setningu neyðarlaga. Þrátt fyrir það að fréttir berist af vafasömum gerningum ýmissa leikenda á fjármálasviðinu þá hefur enginn verið handtekinn eða settur í gæsluvarðhald. Engar eignir auðmanna hafa verið frystar. 

Fréttir sem berast eru af rannsóknum sem meira eða minna voru komnar í gang fyrir bankahrunið.  Af hverju gengur þetta svona hægt?

Að tala nú um að frysta eignir auðmanna er aðgerð sem er sennilega rúmum meðgöngutíma of seint á ferðinni. Það hefði þurft að gera það strax í október  2008 eins og ég krafðist að gert yrði á þeim tíma.

Nú skiptir máli að rannsóknum verði hraðað sem mest og lögum komið yfir þá sem ábyrgð bera þannig að Gróa á Leiti taki ekki endalaust völdin og fólk dæmt oft á tíðum saklaust. Það er því mikilvægt að rannsóknum verði hraðað og til þeirra varið þeim mannafla og fjármunum sem til þarf. Við eigum ekki endalaust að hengja þá sem stela karmellu en láta hina lausa sem misfara með milljarða.


Birtingarmynd bullsins.

Vátryggingafélag á Íslandi Sjóvá-Almennar tryggingar er í áhætturekstri í Macau í Kína. Hvernig skyldi nú standa á því? Er ekki Sjóvá-Almennar tryggingar vátryggingafélag?  Hvernig stendur þá á því að Sjóvá Almennar tryggingar er að kosta byggingu glæsihúss í Kína?

Frétt um það að Sjóvá Almennar tryggingar tapi rúmum 3 milljörðum á byggingarstarfsemi glæsihúss í Kína fannst mér með miklum ólíkindum. Raunar er þetta ein birtingarmynd þess bulls sem hefur verið í gangi og nefnd útrás.  Þetta er sorgleg birtingarmynd vegna þess að áður en fjárfestingarbullið byrjaði og Sjóvá-Almennar tryggingar var rekið sem tryggingarfélag þá skilaði það þokkalegum arði og átti digra sjóði. Á þeim tíma var tryggingarfélagið ekki í áhættufjárfestingum í Kína eða öðru því um líku bulli sem tryggingarfélagi kemur ekki við.

Þegar að er gáð þá virðist birtingarmynd efnahagshrunsins á Íslandi vera margbreytilegri en ætla mátti í fyrstu. Það er greinilegt að margir leikendur hafa leikið þar afgerandi afleiki. 

Mig minnir að John D. Rockefeller hafi sagt að góður kaupsýslumaður færi aldrei í önnur viðskipti en þau sem hann gjörþekkti.  Hann taldi að menn gætu hagnast á grundvelli yfirburðarþekkingar. Með gagnályktun má þá ætla að tapið sé ekki síst vegna vanþekkingar.

En hver tók eiginlega ákvörðun um það að vátryggingafélag á Íslandi færi að reisa lúxusíbúðir í Kína til að tapa á því milljörðum króna?


mbl.is Sjóvá tapar 3,2 milljörðum í Hong Kong
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vond skuldastaða vegna ónýts gjaldmiðils.

Athyglivert er að heyra það frá fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að staða fyrirtækja og sveitarfélaga sé verri en staða heimilanna í landinu.  Franek Rozadowzki fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hann staðfesti að slæm skuldastaða íslenskra heimila sé vegna verðtryggðra lána og slæm staða fyrirtækja og sveitarfélaga sé vegna þess að þau tóku mikil lán í erlendum gjaldeyri sem hafa margfaldast við hrun krónunnar.

Afleit skuldastaða og jafnvel bankahrun er gjaldið sem við greiðum vegna tilraunarinnar til að setja íslensku krónuna á flot í byrjun þessara aldar í stað þess að tengjast fjölþjóðlegri mynt. Einnig vegna þeirra afglapa að keyra stýrivexti Seðlabankans upp fyrir alla stýrivexti annarsstaðar í okkar heimshluta. Það gerði íslensku krónuna að lottómynt sem hækkaði og hækkaði án nokkurra forsendu nema vegna innflæðis peninga m.a. vegna þess að það var svo hagstætt að taka erlend lán. Nú brenna fyrirtækin og sveitarfélögin á því vegna gengishruns krónunnar.

Íslensk heimili eru illa skuldsett vegna verðtryggingarinnar sem hækkaði og hækkaði lánin jafnvel þó að íslenska krónan væri á tímabili sterkasti gjaldmiðill í heimi vegna spákaupmennsku. 

Íslenska þjóðin hafði aldrei efni á því að vera með vondan gjaldmiðil þegar annar betri var í boði. Það er vont að taka versta kostinn þegar góðir kostir eru í boði.

Forgangsverkefni í stórnun landsins er að taka upp fjölþjóðlega mynt. Tryggja eðlileg lánakjör sem eru sambærileg því sem gerist í nágrannalöndum okkar og tryggja að íslenskir neytendur geti keypt vörur á sambærilegu verði og fólkið í nágrannalöndum okkar.  Þetta er forsenda viðreisnar efnahagslífs þjóðarinnar.


mbl.is Stýra þarf skipinu af varfærni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það besta sem komið hefur fram lengi.

Tillögur Sjálfstæðisflokksins um aðgerðir vegna alvarlegs ástands í efnahagsmálum eru mjög góðar. Fátítt er að stjórnmálaflokkur í stjórnarandstöðu á Íslandi setji fram góðar heildstæðar tillögur eins og þær sem settar voru fram í gær en með þessu brýtur Sjálfstæðisflokkurinn þá neikvæðu stjórnmálahefð sem einkennt hefur íslenska stjórnarandstöðu um langt skeið.

Tillögurnar um að ríkið taki skatta af lífeyrisgreiðslum strax við greiðslu lífeyrisins í stað þess að lífeyrissjóðirnir fái peningana til sín eru frábærar. Með þeim hætti fær ríkið tekjur sem því ber skv. skattalögum í stað þess að lífeyrissjóðirnir séu í raun að valsa með þær. Það hefur líka þýðingu að fólk fái lífeyrinn sinn þegar byrjað er að taka lífeyri og allir skattar og gjöld hafi þá verið greidd þannig að fjárhæðin komi þá að fullu til fólksins. 

Einhvern veginn finnst mér ég sjá handbragð Tryggva Þórs Herbertssonar á þessum tillögum sem sýnir ef rétt reynist að hann er að koma sterkur inn í þingflokk Sjálfstæðisflokksins

Ég hefði að vísu viðjað ganga lengra varðandi lífeyrismálin og hafa einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn sem að væri í vörslu, meðferð og á ábyrgð ríkisins. Núverandi lífeyrissjóðakerfi gengur ekki. Þar hefur sá sem borgar ekkert að segja. Hann ræður engu og fær síðan iðulega ekki nema hluta af peningunum sínum til baka.  

Þessar tillögur Sjálfstæðismanna eru líka góðar vegna þess að með þeim þá má komast hjá nýrri skattheimtu.  Stjórnendur þessa lands hafa því miður ekki áttað sig á því að aukin skattheimta getur virkað til þess að dýpka kreppuna og draga hana á langinn.

Ríkisstjórnin ætti að taka þessum tillögum fagnandi og vinna að því með Sjálfstæðisflokknum að hrinda þeim í framkvæmd


mbl.is Lýstu ánægju með tillögur sjálfstæðismanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ónýtur gjaldmiðill?

Þrátt fyrir hæstu stýrivexti í okkar heimshluta  og þó víðar væri leitað er krónan í frjálsu falli.  Þetta gerist þó að víðtæk gjaldeyrihöft hafi verið sett á. Í dag  þarf meir en 180 krónur til að kaupa eina Evru.

Fyrir nokkrum árum sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir þáverandi formaður Samfylkingarinnar að krónan væri ónýtur gjaldmiðill. Undir það tóku flokkssystkin hennar og margir fleiri.

Hrun krónunnar kom síðan á undan bankahruninu og átti drjúgan þátt í því banka- og efnahagshruni sem varð í október s.l. 

Þrátt fyrir að öllum má nú vera ljóst að það er óðs manns æði að ætla að halda áfarm með krónuna þá er það samt gert og ekki örlar á því að ríkisstjórnin hafi markað eða ætli sér að marka peningamálastefnu sem leysir okkur úr þeim gríðarlega gjaldmiðilsvanda sem við erum í.

Ég flutti fyrir tæpu ári tillögu á Alþingi um upptöku fjölþjóðlegrar myntar og benti á þá möguleika sem við ættum í þeim efnum.  Steingrímur J. virtist síðan gera sér grein fyrir því í stjórnarandstöðu að nauðsyn bæri til að taka upp aðra mynt. Hann er sennilega of önnum kafinn nú ti að geta snúið sér að þeim verkefnum.

Fátt er  miklivægara að hafa starfhæfan gjaldmiðil sem er nothæfur í viðskiptum þannig að lánakjör séu með skaplegum hætti og hægt verði að afnema verðtrygginguna sem er einn versti óskapnaður sem upp hefur verið fundinn sem hækja ónýts gjaldmiðils.

Dansinn í kring um krónuna er hrunadans og við höfum heldur betur mátt finna fyrir því. Það er forgangsverkefni að alvöru peningamálastefna verði mótuð á grundvelli starfhæfrar myntar.

Fólkið í landinu getur ekki og má ekki una því að greiða krónuskattinn lengur.


Hrunið

Ég lauk í gær við að lesa bók Guðna Th. Jóhannessonar "Hrunið.   Mér fannst kærkomið að fá bók sem rekur atburðarásina með þeim hætti sem Guðni gerir. Þar koma fram margar gagnlegar upplýsingar um það sem gerðist bak við tjöldin þá örlagaríku daga sem liður frá bankahruninu 6. okbóber 2008 til stjórnarslitanna í lok janúar 2009.

Við lestur bókarinnar kemur glögglega í ljós hvað ríkisstjórnin var í raun ráðvillt um og eftir bankahrunið og hvað það hafði afdrifarík áhrif að formaður Samfylkingarinnar skyldi eiga við alvarleg veikindi að stríða.

Það er óhætt að mæla með þessari bók. Guðni lætur hjá líða að fella palladóma um það hverjir bera ábyrgð en rekur söguna með hlutlægum hætti að því er mér finnst. 

Ég varð hins vegar fyrir vonbrigðum þegar ég las bók Ólafs Arnarssonar. Sú bók er að vísu læsileg en er hins vegar ekki trúverðug nema að litlu leyti vegna þess hvað höfundur tekur afgerandi afstöðu með banka- og útrásarmönnum gegn stjórnvöldum.

Helsti örlagavaldur bankahrunsins virðist manni vera Davíð Oddsson þáverandi Seðlabankastjóri samkvæmt bók Ólafs en lítið er gert úr hlut fyrirtækjanna sem skulda hundruði milljarða og geta ekki greitt eða með hvaða hætti bankastarfsemin var rekin.

En það á eftirt að segja miklu meira og upplýsa mun meira en nú hefur verið gert. Mér er nær að halda að sumir sem hafa verið úthrópaðir eigi eftir að rétta hlut sinn á meðan aðrir sem hafa verið minna í umræðunni m.a. vegna veldis þeirra í íslenskri fjölmiðlun eigi eftir að axla þá ábyrgð sem þeim ber.


Icesave samninganefndin. Hvar var sérfræðiþekkingin?

Samninganefnd ríkisstjórnarinnar í Icesave málinu var undir forustu Svavars Gestssonar stúdents og var að öðru leyti skipuð starfsfólki í stjórnarráðinu.

Samfylkingarfólk og Vinstri grænir gátu ekki leynt hneykslun sinni í vetur yfir því að fjármálaráðherra væri dýralæknir og Seðlabankastjóri lögfræðingur. Ítrekað töluðu málpípur þeirra í fjölmiðlum um,  að ein mesta meinsemdin í íslensku samfélagi væri skortur á sérfræðiþekkingu.

Í samræmi við það skipar Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra gamlan vopnabróður sinn úr Alþýðubandalaginu, Svavar Gestsson stúdent til að fara fyrir samninganefnd um flókin lögfræðileg, þjóðréttarleg og bankaréttarleg málefni vegna Icesave. Hvar skyldu VG og Samfylkingi hafa fundið viðunandi sérfræði hjá Svavari til að leiða samninganefndina eða næga sérfræðiþekkingu hjá nefndinni að öðru leyti. Gaman væri nú að heyra í fjölmiðlafólkinu sem mest hneykslaðist í vetur á skorti á sérþekkingu og þá sérstaklega Agli Helgasyni sem ítrekað fjallaði um málið.

Samningarnir um Icesave sem ríkisstjórnin hefur nú undirritað eru í samræmi við það sem við var að búast af jafn vanhæfri samninganefnd og um ræðir.  Í fyrsta lagi þá virðist hafa láðst að taka tillit til löglausri beitingu Breta á hryðjuverkalögum gagnvart Íslandi sem hefur kostað okkur gríðarlega fjármuni. Í öðru lagi þá er vaxtaákvæði samningsins gjörsamlega frjáleitt.  Greiðslutíminn er hins vegar góður og það er það eina.

Það er með ólíkindum að ríkisstjórin skuli hafa fallist á jafn slæma samninga fyrir Ísland.  Góð samninganefnd skipuð góðum sérfræðingum og ríkisstjórn sem byggi yfir nauðsynlegri sérfræðiþekkingu hefði ekki gert slíkan samning. Fjölmiðlamennirnir sem hrópuðu hvað hæst í lok síðasta árs og byrjun þessa ættu  að fjalla um málið út frá því sjónarmiði til að vera samkvæmir sjálfum sér.


Lækkanir í Bretlandi. Hækkanir á Íslandi. Hvað veldur?

Ísland hefur búið við eitt sérstakasta efnahagskerfi síðustu ára. Verðtrygging og gjaldmiðill sem enginn treystir eru verstu orsakavaldar þeirra vandamála sem venjulegt fólk þarf að búa við á Íslandi í dag. 

Fyrir nokkru benti ég á það sérkenni íslenska veruleikans að matarverð hefði hækkað síðustu mánuði um 20-30% það er með ólíkindum að slík hækkun skuli hafa orðið í kjölfar bankahruns og launalækkunar hjá almenningi. Ríkisstjórn sem leyfir slíku að gerast án þess að grafast fyrir um hvað valdi þessu sérkennilega þróunarferli á samdráttartímum og bregst við er ekki að vinna fyrir fólkið í landinu.

Bretland hefur gengið í gegn um svipaða hluti og við í sínu efnahagslífi m.a. bankahrun og gengisfall pundsins. Það mætti því ætla að það væru sambærilegir hlutir að gerast í efnahagslífinu hér og í Bretlandi og þess vegna hef ég fylgst vel með þróuninni þar. Fyrir nokkru kom fram að verðhjöðnun hefi verið mikil í Bretlandi undanfarna mánuði og munar þar mest um að íbúðarverð hefur lækkað verulega og vextir á veðlánum hafa lækkað m.a. vegna ákvörðunar Englandsbanka að lækka stýrivexti.

En það er fleira sem hefur lækkað í Bretlandi síðustu mánuði og þar má nefna m.a. að matarverð hefur lækkað, verð á rafmagni hefur líka lækkað svo dæmi séu nefnd. 

Ég verð að viðurkenna það að mér finnst það vægast sagt nokkuð sérsakt að matarverð skuli lækka í Bretlandi á sama tíma og það hækkar á Íslandi um 20-30%. Kann einhver skýringar á því?

Miðað við aðstæður í þóðarbúinu hjá okkur þá ætti matarverð að lækka og hafa lækkað verulega en þess í stað hækkar það út úr öllu samhengi. Ríkisstjórn sem lætur slíkt gerast er ekki að vinna vinnuna sína. Alla vega ekki rétt.

Fólk á Íslandi getur ekki og á ekki að sætta sig við að búa við allt önnur skilyrði en fólk gerir  annarssaðar í okkar heimshluta.  Eins og nú háttar til þá er ekki hægt að láta verðtrygginguna brenna upp eignir fólksins og láta matvælaverð hækka og hækka meðan launin lækka og lækka.

Hefur ríkisstjórnin virkilega engin úrræði til hjálpar heimilinum í landinu? 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Magnússon
Jón Magnússon

Síðuritari er Hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður.

 

Eldri færslur

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.9.): 51
  • Sl. sólarhring: 113
  • Sl. viku: 3416
  • Frá upphafi: 2606590

Annað

  • Innlit í dag: 49
  • Innlit sl. viku: 3218
  • Gestir í dag: 49
  • IP-tölur í dag: 47

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband